I.
A leitaði til mín vegna yfirlandskiptagerðar frá 18. júní 1990, þar sem skipt var hluta Y úr óskiptu landi jarðarinnar X-eyja. Í kvörtun sinni tilgreindi A fjögur atriði, sem kvörtun hans laut að.
Í fyrsta lagi beindist kvörtun A að "aðferð yfirlandskiptanefndarinnar við framkvæmd skiptanna." Í því sambandi gerði A athugasemdir við fund þann, sem yfirlandskiptamenn boðuðu til með bréfi, dags. 11. desember 1989, með lögmönnum aðila og haldinn var 12. janúar 1990 ... í Reykjavík. Ennfremur tók A fram, að sér væri ekki kunnugt um að nefndin hefði kynnt sér, "... hvort landamerki þeirrar jarðar er skipta átti, væru ágreiningslaus". Loks fann A að því, hvernig staðið var að boðun til vettvangsgöngu í X-eyjum 25. maí 1990. Taldi A, að hún hafi ekki verið með eðlilegum fyrirvara.
Í öðru lagi beindist kvörtun A að því, að skort hefði grundvöll fyrir skiptunum að því leyti, að ekki hefði legið fyrir marktækur útreikningur á stærð X-eyja.
Í þriðja lagi laut kvörtun A að tilteknum fullyrðingum, er fram komu í yfirlandskiptagerð frá 18. júní 1990.
Loks laut kvörtun A að því, að yfirlandskiptanefnd hefði snúið út úr nafni A.
Í bréfi mínu til A, dags. 19. apríl 1993, gerði ég honum svohljóðandi grein fyrir niðurstöðum mínum:
"II.
Um skipti á landi, sem áður hefur verið í samnotum tveggja eða fleiri býla, gilda landskiptalög nr. 46/1941 með síðari breytingum. Í samræmi við 6. gr. laganna kvaddi B, setudómari, 22. júní 1989 fjóra menn til þess að framkvæma umrætt yfirmat og var sjálfur formaður yfirmatsins. Ég hef athugað einstaka liði kvörtunar yðar og er gerð grein fyrir niðurstöðum mínum hér á eftir.
1.
Með bréfi, dags. 11. desember 1989, boðaði formaður yfirmatsmanna til fundar með lögmönnum aðila 12. janúar 1990, eins og áður greinir. Í bréfinu var þess óskað, að þá yrði lögð fram kröfugerð og greinargerð aðila. Loks var í bréfinu tekið fram, að "vettvangsganga muni fara fram strax og veður leyfir á vori komanda". Á fundinum, en þar voru lögmenn aðila, þér og tveir aðrir málsaðilar, var málsaðilum veittur frestur til þess að skila greinargerðum í málinu.
Í landskiptagerð yfirmatsmanna kemur fram, að aðilar málsins hafi verið boðaðir til vettvangsgöngu 25. maí 1990 með símskeyti 21. sama mánaðar. Með símskeyti 23. sama mánaðar krafðist lögmaður yðar þess, að vettvangsgöngunni yrði frestað, þar sem til hennar hefði verið boðið með allt of skömmum fyrirvara. Í yfirlandskiptagerðinni segir síðan:
"Yfirlandskiptanefnd skoðaði síðan vettvang ásamt [C] fh. db. [D] auk lögmanns [Y]. Þar sem kröfugerð yfirmatsbeiðenda, db. [D] og [A] fer saman þótti yfirlandskiptanefnd þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að fresta vettvangsgöngunni eða endurtaka hana vegna mótmæla þeirra er áður var vikið að."
Fram kemur í fundargerð yfirlandskiptanefndar 25. maí 1990, að þá höfðu verið lagðar fram greinargerðir aðila ásamt kröfugerð yðar og aðilaskýrslu og önnur sönnunargögn.
Í 5. gr. landskiptalaga segir:
"Þegar skipta skal landi eða landsnytjum, skal bjóða öllum eigendum og öðrum þeim, er notkunarrétt hafa á því, er til skipta getur komið, að vera við skiptin og gefinn kostur á að upplýsa málið fyrir matsmönnum, en gæta skal þess, að matsstörfin dragist ekki fyrir það lengur en nauðsyn krefur. Hið sama gildir og við yfirmat,..."
Ekki kemur annað fram en að yður eða lögmanni yðar hafi gefist nægilegt tækifæri til að koma að gögnum og skriflegum greinargerðum til stuðnings sjónarmiðum yðar.
Ég tek undir þá skoðun, að mikilvægt sé í landskiptamálum að aðilar eigi þess kost að skýra sjónarmið sín á vettvangi. Ber því að boða til vettvangsgöngu með nægilegum fyrirvara. Af gögnum málsins má ráða, að vegna veðurs og sjólags hafi orðið að sæta lagi með för í X-eyjar. Tel ég því að ekki verði fundið að því, að yfirmatsmenn hafi ákveðið vettvangsgöngu með þeim fyrirvara, sem í málinu greinir. Ekki hefur heldur komið fram, að sérstök forföll hafi hindrað þátttöku yðar og lögmanns yðar í vettvangsgöngu.
Ekki verður séð, að nein deila hafi komið upp með aðilum um landamerki jarðarinnar X-eyja, á meðan á yfirlandskiptum stóð. Tel ég því ekki rök til að vefengja þá frásögn yfirlandskiptanefndar, að nefndin hafi kynnt sér landamerki og hvort ágreiningur væri um þau.
2.
Annar liður kvörtunar yðar lýtur að þeim stærðarútreikningum, sem lágu til grundvallar skiptunum. Á bls. 4 í landskiptagerð yfirlandskiptamanna, segir svo um þetta atriði:
"Rakið hefur verið hér að framan hvernig að mælingum þessum var staðið. Það er álit yfirlandskiptanefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að ekki verði við teikningar, loftmynd og flatarmálsútreikninga stuðst við landskiptin. Hafa ber í huga að óvíst er hvort hér verði beitt enn meiri nákvæmni við flatarmálsmælingar vegna staðhátta og eins þess, að landskipti fara ekki eingöngu fram á grundvelli flatarmáls lands skv. 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941."
Þegar virt eru gögn málsins og athugasemdir yðar við umræddan stærðarútreikning og um fjölda eyja og skerja, sem X-eyja heyra til, tel ég ágreiningi þeim, sem þér gerið út af þessum atriðum, vera þannig háttað, að það falli utan verksviðs umboðsmanns Alþingis að leysa úr honum, enda kann að þurfa að kalla til vitni og sérfróða menn og leggja síðan dóm á skýrslur þeirra.
3.
Í þriðja lið kvörtunar yðar nefnið þér tilteknar "fullyrðingar yfirlandskiptanefndar", sem þér gerið athugasemdir við. Um þann ágreining gegnir sama máli og greinir í III.2 hér að ofan.
4.
Að því er snertir fjórða lið kvörtunar yðar, hefur komið fram sú skýring af hálfu yfirmatsmanna, að um misritun hafi verið að ræða. Tel ég því ekki tilefni til sérstakra athugasemda af minni hálfu vegna þessara mistaka."
III.
Í bréfi mínu til A tjáði ég honum, að samkvæmt framansögðu væri niðurstaða mín sú, að ekki væru skilyrði fyrir frekari afskiptum mínum af máli þessu.