Sakarkostnaður. Nauðsynlegur kostnaður. Valdmörk stjórnvalda. Stjórnvaldsákvörðun. Rökstuðningur. Form og efni úrskurða.

(Mál nr. 2063/1997)

A kvartaði yfir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 7. mars 1997 um að breyta ekki úrskurði sínum frá 25. janúar 1995, en þar hafði úrskurður Fangelsismálastofnunar ríkisins um greiðslu sakarkostnaður í máli ákæruvaldsins á hendur A verið staðfestur. Endurupptaka málsins í ráðuneytinu hafði komið til í kjölfar bréfs umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun A, þar sem umboðsmaður greindi ráðuneytinu frá því að athugun sín vegna málsins hefði leitt í ljós að nokkur réttaróvissa hefði ríkt um verkaskiptingu fangelsismálastofnunar og dómstóla, að því er tæki til ákvörðunar sakarkostnaðar í refsimálum. Deila mætti um hvort sú verkaskipting sem lög mæltu fyrir um þetta atriði væri eðlileg. Beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að það gengist fyrir athugun á því hvort ákvörðun bæði um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar og fjárhæð hans væri ekki betur komið hjá dómstólum með tilliti til réttaröryggis og hagkvæmni.

Niðurstaða ráðuneytisins 7. mars 1997 var að það heyrði undir valdsvið þess að úrskurða um einstaka málskostnaðarliði, þar á meðal hvort tilteknar rannsóknaraðgerðir væru ónauðsynlegar eða óþarflega umfangsmiklar. Með hliðsjón af því að undirbúningur var hafinn að þeirri athugun sem umboðsmaður hvatti til, taldi hann ekki ástæðu til að fjalla frekar um málið á þeim grundvelli.

Kæra A til dómsmálaráðuneytis laut m.a. að málsmeðferð fangelsismálastofnunar. Umboðsmaður rakti að ákvörðun fangelsismálastofnunar um fjárhæð sakarkostnaðar teldist til stjórnvaldsákvarðana í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnsýslulögin voru ekki í gildi þá er ákvörðunin var tekin en umboðsmaður taldi að með því að fangelsismálastofnun kannaði ekki sérstaklega hvort þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðuninni, fyrst og fremst reikningar, hefðu legið frammi við þinghald í málinu hefði henni borið, í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, að gefa A kost á að tjá sig. Á þessu hefði ráðuneytinu borið að taka í úrskurði sínum, enda vakti A máls á því, og einnig hefði því borið að fjalla um öll atriði kæru A, þ. á m. um rökstuðning. Gerði umboðsmaður að auki athugasemd við það hversu langur tími leið frá kæru A til ráðuneytisins þar til úrskurður lá fyrir, eða um fjórtán mánuðir.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness hafði A verið gert skylt að greiða allan kostnað sakar í málinu. A mótmælti því við fangelsismálastofnun að laun lækna vegna útgáfu vottorða, sem væri hluti af starfi þeirra, teldust til sakarkostnaðar og því að honum bæri að greiða reikning Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði vegna réttarkrufningar sem hann taldi hafa verið mun ítarlegri og dýrari en nauðsynlegt hefði verið til að komast að dánarorsök.

Umboðsmaður rakti ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en skv. því teljast til sakarkostnaðar óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar og málsmeðferðar og að í dómi um greiðslu sakarkostnaðar fælist að hinn sakfelldi skyldi greiða allan kostnað sem sérstaklega hefði verið stofnað til vegna máls hans, nema dómari hefði dæmt hann til að greiða hlutfall sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991. Umboðsmaður taldi þá niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að kostnaður vegna þóknunar fyrir sérfræðilegar álitsgerðir, mat og skoðun félli undir 164. gr. laga nr. 19/1991, í samræmi við umrætt ákvæði. Hann taldi hins vegar, að eins og úrskurðum ráðuneytisins væri háttað, lægi ekki fyrir hvaða sjónarmið hefðu verið ráðandi við mat á réttmæti greiðslanna eða því hvort um óþarfa kostnað hefði verið að ræða. Úrskurður ráðuneytisins fullnægði því ekki ákvæði 31. sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning. Þá taldi umboðsmaður úrskurðinn að öðru leyti ekki í samræmi við ákvæði 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumálum.

Í skýringum sínum til umboðsmanns gerði ráðuneytið hins vegar grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu að baki niðurstöðu þess og var það niðurstaða umboðsmanns, einnig með vísan til þess hvernig málinu var háttað, að þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð ráðuneytisins væri ekki tilefni til athugasemda af sinni hálfu um efnislega niðurstöðu ráðuneytisins.

I.

Hinn 19. mars 1997 leitaði til mín A, vegna ákvörðunar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 7. mars 1997, þar sem fram kemur, að ekki þyki efni til að breyta úrskurði ráðuneytisins frá 25. janúar 1995.

II.

Málavextir eru þeir helstir, að A leitaði til mín 1. mars 1995 og kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 25. janúar 1995, þar sem staðfestur var úrskurður Fangelsismálastofnunar ríkisins frá 14. október 1993 um greiðslu sakarkostnaðar í máli ákæruvaldsins á hendur honum, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 3. júní 1993.

Samkvæmt framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness var A meðal annars gert skylt að greiða allan kostnað sakar í málinu. Heildarreikningur sakarkostnaðar fylgdi endurriti dómsins til Fangelsismálastofnunar ríkisins, ásamt afritum þriggja reikninga í málinu, þ.e. reikninga vegna læknisvottorða og réttarkrufningar, samtals að fjárhæð 59.734,60 kr. Hinn 14. október 1993 kvað Fangelsismálastofnun ríkisins upp úrskurð um sakarkostnað málsins, samkvæmt 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að fjárhæð 59.735,– kr., og var sýslumanninum í Keflavík falið að innheimta sakarkostnaðinn. Sama dag var A tilkynnt um framangreindan úrskurð. Í kæru A, dags. 24. nóvember 1993, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins koma fram mótmæli A við því, að laun lækna vegna útgáfu vottorða teljist til sakarkostnaðar, og því, að honum beri að greiða reikning Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði vegna réttarkrufningar, sem hann telur mun ítarlegri og dýrari en nauðsynlegt hafi verið til að komast að dánarorsök. Þá kemur fram í kærunni, að A hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum, áður en fangelsismálastofnun kvað upp úrskurð sinn, sem hvorki hafi verið sundurliðaður né rökstuddur.

Um þann hluta málsins, er varðar form úrskurðar fangelsismálastofnunar, segir meðal annars svo í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 25. janúar 1995:

„Samkvæmt 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 kveður Fangelsismálastofnun ríkisins upp úrskurð um sakarkostnað. Í ákvæðinu er ekki sérstaklega gert ráð fyrir að dæmdur maður eigi kost á að koma að sérstökum andmælum áður en úrskurður stofnunarinnar er kveðinn upp. Að mati ráðuneytisins verður ekki framhjá því litið að framkvæmd Fangelsismálastofnunar ríkisins í máli þessu var í samræmi við áralanga og athugasemdalausa stjórnsýsluvenju.

Eru og að mati ráðuneytisins ekki leiddar að því líkur að niðurstaða stofnunarinnar hefði orðið önnur þó að sérstökum andmælum hefði verið komið að við meðferð málsins.

Með vísan til þessa er það álit ráðuneytisins að sú meðferð málsins hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, að veita kæranda ekki sérstakt tækifæri til að tjá sig um málið leiði ekki til þess að fella beri úrskurð stofnunarinnar úr gildi.“

Um efnisþátt kærunnar segir svo í framangreindum úrskurði ráðuneytisins:

„Samkvæmt ofangreindu lagaákvæði [164. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála] telst m.a. til sakarkostnaðar í máli þóknun fyrir sérfræðilegar álitsgerðir og mat og skoðun. Sá kostnaður sem um er að ræða í máli kæranda fellur að mati ráðuneytisins undir tilvitnað orðalag ákvæðisins. Byggist það m.a. á langri athugasemdalausri stjórnsýsluvenju. Hvort um réttmæta greiðslu sé að ræða til þeirra lækna sem um er að ræða er ekki í valdi ráðuneytisins að úrskurða um, en greiðsla til þeirra var nauðsynleg fyrir framgang málsins.

[...]

Varðandi þá málsástæðu kæranda að krufning sú er fram fór vegna málsins hafi verið ítarlegri og dýrari en nauðsyn bar til, þá er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að umrædd krufning hafi verið í samræmi við venju við meðferð sambærilegra mála. Hvað varðar kostnað við krufningu er það ekki í valdi ráðuneytisins að úrskurða um, en ætla verður að greiðsla þessi hafi verið nauðsynleg fyrir framgang málsins.

[...]

Með vísan til alls þess er að ofan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins, að staðfesta beri úrskurð Fangelsismálastofnunar ríkisins.“

Kvörtun A til mín frá 1. mars 1995 laut í meginatriðum að málsmeðferð fangelsismálastofnunar annars vegar og að grundvelli sakarkostnaðar í dómsmálinu hins vegar. Taldi hann reikninga vegna vottorða lækna og óþarfa réttarkrufningu ekki vera hluta sakarkostnaðar, sem sakborningi bæri að greiða. Í kvörtuninni kom enn fremur fram, að hvorki dómstólar né stjórnvöld hefðu talið sig til þess bær að fjalla um athugasemdir A við sakarkostnað og útreikning hans. Loks kvartaði A yfir því, að í úrskurði ráðuneytisins hefði ekki verið vikið að þeim hluta kæru hans, er varðaði rökstuðning og sundurliðun í úrskurði fangelsismálastofnunar og yfir löngum afgreiðslutíma dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á kæru hans.

Í tilefni af þessari kvörtun A óskaði ég eftir því með bréfi, dags. 4. apríl 1995, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té gögn málsins. Vegna þess þáttar kvörtunar A, að hvorki dómstólar né stjórnvöld hefðu talið sig til þess bær að fjalla um athugasemdir hans við sakarkostnað og útreikning hans, óskaði ég sérstaklega eftir því í bréfi, dags. 16. nóvember 1995, að ráðuneytið gerði grein fyrir viðhorfi sínu til úrskurða Fangelsismálastofnunar ríkisins samkvæmt 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og 1. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma. Sérstaklega var óskað upplýsinga um, hvort ráðuneytið teldi slíka úrskurði fela í sér stjórnvaldsákvörðun um réttindi og skyldur manna. Ef svo væri, óskaði ég skýringa á því, hvaða atriði ráðuneytið teldi fangelsismálastofnun eiga úrskurðarvald um. Í því sambandi taldi ég rétt að ráðuneytið gerði sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni til úrskurðarvalds fangelsismálastofnunar um málskostnað, sem sakborningur teldi sér óskylt að greiða, t.d. vegna þess að um óþarfa kostnað væri að ræða. Jafnframt var óskað eftir afstöðu fangelsismálastofnunar til sömu atriða. Svör dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar ríkisins bárust mér með bréfum, dags. 27. nóvember 1995 og 15. desember 1995.

Hinn 11. desember 1996 barst mér svohljóðandi bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins:

„Að undanförnu hefur verið starfandi nefnd á vegum ráðuneytisins til að gera tillögur í sektamálum, og hefur nefndin nýverið skilað tillögum, en þær lúta m.a. að því að samræma ákvarðanir og innheimtu sekta, bæta innheimtu sekta, o.fl.

Í þessu sambandi hefur ráðuneytið ákveðið að taka til nánari skoðunar vissa aðra þætti er tengjast sektamálum, s.s. fullnustu vararefsingar, sektarinnheimtu á Norðurlöndum, innheimtu norrænna sekta hér á landi og ákvarðanir um málskostnað í opinberum málum.

Af þeim sökum hefur ráðuneytið talið nauðsynlegt að gera því sérstök skil hvort ráðuneytið hafi heimild til að fara ofan í efnisatriði málskostnaðar. Er nauðsynlegt að taka upp og skoða mál [A], varðandi sakarkostnað í þessu nýja ljósi, en mál hans var til lykta leitt með úrskurði ráðuneytisins hinn [25. janúar 1995]. Hefur [A] verið ritað bréf, dags. í dag, þar sem honum er tjáð að ráðuneytið hyggst skoða mál hans að nýju og honum er boðið að setja fram athugasemdir kjósi hann það.“

Bréfinu fylgdi afrit af bréfi ráðuneytisins til A. Í tilefni af framangreindu bréfi tjáði ég A 13. desember 1996, að þar sem ráðuneytið hefði ákveðið að taka mál hans til meðferðar að nýju, teldi ég ekki ástæðu til frekari afskipta af minni hálfu af málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis (nú lög nr. 85/1997). Það girti hins vegar ekki fyrir, að kvörtun út af nýrri ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins yrði borin fram við mig síðar.

Í bréfi, dags. sama dag, greindi ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá framangreindri ákvörðun minni. Jafnframt tók ég fram, að athugun mín vegna málsins hefði að mínum dómi leitt í ljós, að nokkur réttaróvissa hefði ríkt um verkaskiptingu fangelsismálastofnunar og dómstóla, að því er tekur til ákvörðunar sakarkostnaðar í refsimálum. Auk þess mætti deila um, hvort sú verkaskipting, sem lög mæli fyrir um þetta atriði, sé eðlileg. Beindi ég því til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það gengist fyrir athugun á því, hvort ákvörðun bæði um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar og um fjárhæð hans ætti ekki best heima hjá dómstólum með tilliti til réttaröryggis og hagkvæmni.

III.

Í ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. mars 1997, segir meðal annars svo:

„[...] ráðuneytið hefur eftir ítarlega og mjög vandlega athugun komist að þeirri niðurstöðu, að það eigi endurskoðunarvald sem stjórnvald á æðra stigi og þar með úrskurðarvald um einstaka málskostnaðarliði, þar á meðal hvort tilteknar rannsóknaraðgerðir hafi verið ónauðsynlegar eða óþarflega umfangsmiklar.

Mörg rök hníga hins vegar til þess að réttara sé að ákvörðun um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar og um fjárhæð hans sé betur komin hjá dómstólum með tilliti til réttaröryggis og hagkvæmni, og er undirbúningur hafinn í ráðuneytinu að athugun á því álitaefni.

Við nána skoðun á málskostnaðarþáttum í máli yðar þykja eigi efni til að breyta fyrri úrskurði í málinu.“

Í kvörtun sinni, sem barst mér 19. mars 1997, vísar A til fyrri kvörtunar sinnar, auk þess sem hann telur þessa síðari ákvörðun ráðuneytisins órökstudda. Þá kvartar hann yfir seinagangi ráðuneytisins í málinu.

IV.

Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf 20. mars 1997, sem ítrekað var 26. júní, 21. ágúst og 28. október 1997, þar sem þess var óskað, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því leyti sem það hefði ekki þegar komið fram vegna fyrri kvörtunar hans.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 20. nóvember 1997, segir meðal annars svo:

„Eins og fram hefur komið lúta umkvörtunarefni [A] efnislega að liðnum annar kostnaður í úrskurði um málskostnað sem dómþola var gert að greiða á grundvelli dóms Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. S–Ke–449: Ákæruvaldið gegn [A].

Kostnaðarliðir voru þrír [réttarkrufning, læknisvottorð og áverkavottorð].

Að því er snertir vottorð lækna hefur lengi verið ákvæði í læknalögum um að læknar séu skyldir til að láta hinu opinbera í té vottorð vegna sjúklinga. Í læknalögum nr. 47, 1932 sagði í 7. gr. að læknar séu skyldir til að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga, er þeir hafa eða hafa haft undir höndum, er slíkra vottorða er almennt krafist vegna viðskipta sjúklinganna við hið opinbera, vegna fátæktarhjálpar, styrkveitinga, trygginga eða þess háttar, og ber þeim að fara nákvæmlega eftir öllum fyrirmælum um gerð vottorðanna. Í núgildandi læknalögum nr. 53, 1988 segir að lækni er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um að sjúklinga er hann annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna viðskipta sjúklinga við hið opinbera. Af forsögu þessa ákvæðis er ljóst að það mun einungis eiga við þegar um er að ræða vottorð í tengslum við umsókn um aðstoð, styrki, heimilishjálp eða aðra slíka fyrirgreiðslu af hálfu sjúklings. Því getur ákvæði 12. gr. læknalaganna ekki átt við í þessu máli.

Í refsimálum bera sakfelldir menn ekki kostnað sem til verður í réttarvörslukerfinu, s.s. vegna skýrslugerða, uppdrátta, myndatöku, o.fl. hjá lögreglu. Hins vegar þarf lögreglan iðulega að afla upplýsinga, skýrslna og álitsgerða frá öðrum aðilum í því skyni að rannsaka og upplýsa nægilega tiltekið opinbert mál, eins og gert var í þessu máli. Má í því sambandi nefna alkóhólrannsókn blóðsýnis þegar um er að ræða grun um ölvun ökumanns við akstur vélknúins ökutækis. T.a.m. í Danmmörku hafa verið settar reglur á grundvelli réttarfarslaga, þar sem kostnaður vegna algengra vottorða og matsgerða er fastákveðinn sem tiltekin fjárhæð sem sakborningi er ætlað að greiða, þrátt fyrir að fjárútlátin kunni að vera breytileg frá einu máli til hins næsta. Meðfylgjandi er ljósrit af 1008. gr. danskra réttarfarslaga, en á grundvelli þess ákvæðis hafa verið settar reglur um að af sakarkostnaði opinbers máls skuli sá er sakfelldur er greiða DKK 125 fyrir töku blóðsýnis/þvagsýnis á sjúkrahúsi, DKK 300 fyrir töku blóðsýnis/þvagsýnis á lögreglustöð, DKK fyrir klíníska læknisrannsókn um áfengisástand manns og í því sambandi einnig fyrir blóðtöku og hugsanlega vottorðsgjöf og loks DKK 150 fyrir vottorð frá bifreiðaeftirlitinu. Af þessu er greinilegt að sakborningum ber að greiða fyrir sérfræðilegar álitsgerðir og vottorð, og jafnframt að unnt sé að taxtabinda þær fjárhæðir.

Að því er varðar læknisvottorðin í þessu máli, áverkavottorð, réttarkrufningsskýrslu og læknisvottorð, þá voru þau nauðsynleg til þess að málið yrði nægilega upplýst fyrir ákæruvaldið til þess að geta tekið afstöðu til höfðunar opinbers máls, þ.e. hvort háttsemin hefði verið refsiverð og í því sambandi hvert umfang meiðsla hafi verið. Verður eigi annað séð en að t.d. krufningin hafi verið í samræmi við venju við meðferð hliðstæðra mála, og því hvorki ónauðsynleg eða umfangsmeiri en hún þyrfti að vera.

Enn er unnið að athugun á þeirri ábendingu yðar, hvort ákvörðun bæði um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar og um fjárhæð hans eigi ekki best heima hjá dómstólum með tilliti til réttaröryggis og hagkvæmni. Verður yður tilkynnt þegar og ef ákvörðun verður tekin þar að lútandi, en vissir agnúar eru því fylgjandi að fela dómstólum ákvörðunarvald í því efni. Eins er til athugunar hvort rétt sé að setja í lög um meðferð opinberra mála ákvæði sem verði hliðstætt ákvæði 1008. gr. núgildandi dönsku réttarfarslaganna, en þar er að finna allítarlegar reglur um hvaða hluta málskostnaðar sakfelldum manni skuli gert að greiða af heildarsakarkostnaði máls, þ.á m. í tengslum við kæru, áfrýjun eða endurupptöku máls“

Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 8. desember 1997. Þar segir meðal annars:

„Ég leyfi mér að vísa til fyrri bréfa minna varðandi það mál sem hér er til umræðu, en ráðuneytið tekur ekki í bréfi sínu efnislega að heitið geti á því. Ráðuneytið telur sig eiga úrskurðarvald um sakarkostnað, en tekur samt ekki málefnalega á kröfum læknanna, hvort reikningarnir séu of háir, lágir, sanngjarnir eða eigi ekki rétt á sér. [...]“

V.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 8. janúar 1998, sagði:

„1.

Eins og rakið hefur verið hér að framan, var mál A endurupptekið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í kjölfar ákvörðunar ráðuneytisins um að endurskoða afstöðu sína til þess, hvort ráðuneytið ætti úrskurðarvald um einstaka liði sakarkostnaðar. Niðurstaða ráðuneytisins var sú, samkvæmt ákvörðun þess frá 7. mars 1997, að það heyrði undir valdsvið ráðuneytisins að úrskurða um einstaka málskostnaðarliði, þar á meðal hvort tilteknar rannsóknaraðgerðir væru ónauðsynlegar eða óþarflega umfangsmiklar. Með hliðsjón af framansögðu og því, að undirbúningur er hafinn í ráðuneytinu að athugun á því álitaefni, hvort slíkum ákvörðunum, sem hér um ræðir, sé með tilliti til réttaröryggis og hagkvæmni betur komið hjá dómstólum, sbr. bréf mitt frá 13. desember 1996, tel ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um málið á þessum grundvelli.

2.

Eftir endurskoðun á máli A var það niðurstaða dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að ekki væru efni til að breyta fyrri úrskurði í málinu.

Eins og áður greinir, laut kæra A til ráðuneytisins meðal annars að málsmeðferð fangelsismálastofnunar, þ.e. að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum, áður en fangelsismálastofnun kvað upp úrskurð sinn, sem hvorki hefði verið sundurliðaður né rökstuddur.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 25. janúar 1995 kemur fram það álit ráðuneytisins, að ekki verði fram hjá því litið, að framkvæmd Fangelsismálastofnunar ríkisins í málinu að þessu leyti hafi verið í samræmi við áralanga og athugasemdalausa stjórnsýsluvenju. Jafnframt, „að sú meðferð málsins hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, að veita kæranda ekki sérstakt tækifæri til að tjá sig um málið leiði ekki til þess að fella beri úrskurð stofnunarinnar úr gildi“. Ekki er sérstaklega vikið að þessum þætti í síðari ákvörðun ráðuneytisins í málinu.

Í skýringum fangelsismálastofnunar frá 15. desember 1995, vegna fyrri kvörtunar A, segir meðal annars svo um þetta atriði:

„Dómþola er ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en úrskurðað er um sakarkostnaðinn. Almennt er kveðið á um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar í dómi án ákvörðunar fjárhæðar. Er því gert ráð fyrir því að dómþola sé kunnugt um að úrskurðað verði, eftir á, um sakarkostnaðinn af fangelsismálastofnun. Þá verður að ætla að ákærði geti gert kröfu um að fjallað verði um sakarkostnaðinn fyrir dómi. Rétt er að geta hér 2. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 þar sem segir að ákærða skuli eftir atvikum kynnt efni framlagðra skjala ef hann er viðstaddur þingfestingu eða í þinghaldi ef ákærði mætir ekki við þingfestingu. Er væntanlega átt við að ákærða skuli gefinn kostur á að sjá öll gögn sem fylgja málinu þ.á m. gögn varðandi sakarkostnað.

Það er skoðun fangelsismálastofnunar að óframkvæmanlegt væri að tilkynna dómþola í hvert sinn um að stofnunin hefði dóm hans til fullnustu og að úrskurðað yrði um sakarkostnað innan tiltekins tíma. [...]

Geri dómþoli athugasemdir við útreikning fangelsismálastofnunar um sakarkostnað telur stofnunin sér skylt að taka þær til efnislegrar meðferðar sbr. sérstaklega 1. tl. 24. gr. laga nr. 37/1993.“

Samkvæmt framansögðu og bréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 13. janúar 1995, lítur fangelsismálastofnun svo á, að ekki hafi legið fyrir ný gögn eða upplýsingar í máli A hjá stofnuninni, sem ekki hafi verið meðal gagna sakamálsins sjálfs. Beri reikningar málsins stimpil, sem gefi til kynna, að þeir hafi verið meðal gagna lögreglunnar í Keflavík í málinu. „Því hafi þessi gögn væntanlega legið frammi við þinghöld í málinu og [A] verið kynnt þau þar eða honum a.m.k. verið gefinn kostur á því, enda gert ráð fyrir því í 2. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 að ákærða sé kynnt efni framlagðra skjala.“ Af þessum ástæðum hafi ekki þurft að kynna honum málið frekar eða verið skylt að gefa honum kost á að tjá sig um málið, áður en úrskurðað yrði um sakarkostnað.

Ákvörðun fangelsismálastofnunar á fjárhæð sakarkostnaðar, sem A skyldi greiða, telst til stjórnvaldsákvarðana í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem hún fjallaði ótvírætt um skyldu hans. Í málinu vísar fangelsismálastofnun meðal annars til þess, að að ekki hafi verið þörf á að kynna honum frekar þau gögn, sem lágu til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar í málinu, en þau hafi „væntanlega“ legið frammi við þinghald í málinu. Stjórnsýslulögin höfðu ekki tekið gildi, er nefnd ákvörðun fangelsismálastofnunar var tekin. Engu að síður tel ég, að án sérstakrar könnunar fangelsismálastofnunar á því, hvernig þessum málum hafi verið háttað hjá dómstólnum, hafi stofnuninni borið, í samræmi við þágildandi grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, að gefa A kost á að tjá sig, áður en nefnd ákvörðun var tekin, sbr. nú 13. gr. stjórnsýslulaga. Nú gilda ákvæði stjórnsýslulaga fullum fetum um þessar ákvarðanir.

Í kæru A til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir, að honum hafi ekki verið boðið að gera athugasemdir við reikninga við meðferð dómsmálsins. Var því sérstök ástæða til nánari umfjöllunar um þetta atriði í úrskurði ráðuneytisins.

Enn fremur tel ég, að ráðuneytinu hafi borið að fjalla um öll atriði kæru A, þ. á m. þann hluta kærunnar, er varðar rökstuðning og sundurliðun. Úr þessu atriði var ekki bætt við endurupptöku málsins í ráðuneytinu. Þá tel ég ástæðu til að gera athugasemd við það, hversu langur tími leið frá kæru A til ráðuneytisins, en hún er dagsett 24. nóvember 1993, þar til úrskurður þess lá fyrir 25. janúar 1995.

3.

Kæra A til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins laut einnig að ákvörðun um sakarkostnað. Í máli þessu er því haldið fram, að sakborningi beri ekki að greiða kostnað vegna óþarfrar réttarkrufningar. Enn fremur, að óréttmætt sé að krefja sakborning um greiðslu vegna útgáfu vottorða og rannsóknarvinnu lækna, sem sé hluti af starfi þeirra hjá hinu opinbera, auk þess sem sú vinna hafi verið of dýru verði keypt. Samkvæmt úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 25. janúar 1995 taldi ráðuneytið það ekki á þess valdi að úrskurða um þessi atriði, nema að hluta til. Lá því ekki fyrir ákvörðun ráðuneytisins þar að lútandi við endurupptöku málsins.

Um sakarkostnað er fjallað í XIX. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laganna teljast til sakarkostnaðar óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar og málsmeðferðar. Í liðum a–d eru síðan talin dæmi um útgjöld, sem teljast til sakarkostnaðar. Samkvæmt b-lið ákvæðisins telst þóknun fyrir sérfræðilegar álitsgerðir og mat og skoðun til sakarkostnaðar.

Í dómi um greiðslu sakarkostnaðar felst, að hinn sakfelldi skuli greiða allan sakarkostnað, þ.e. allan þann kostnað, sem sérstaklega hefur verið stofnað til vegna máls hans, nema dómari hafi dæmt hann til að greiða hlutfall sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, hafi hann verið sakfelldur fyrir hluta brota en sýknaður af öðrum.

Í athugasemdum við ákvæði 164. gr. í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 19/1991, segir, að felld hafi verið niður ákvæði um, að ferðakostnaður dómara, þóknun fyrir skjalaþýðingar og dómtúlkun og gæsluvarðhalds- og flutningskostnaður ákærða teljist til sakarkostnaðar. Í athugasemdum við 168. gr. segir meðal annars: „Verður rannsóknari því að taka saman yfirlit yfir þau útgjöld af máli er telst til sakarkostnaðar og láta það fylgja málsgögnum. Dómari gerir svo að lokum heildaryfirlit yfir kostnaðinn.“ Frekari leiðbeiningar um, hvað telja skuli til sakarkostnaðar, eða um framangreint álitaefni er ekki að finna í lögum nr. 19/1991.

Samkvæmt úrskurði ráðuneytisins frá 25. janúar 1995 er það mat þess, að kostnaður vegna þóknunar fyrir sérfræðilegar álitsgerðir, mat og skoðun falli undir tilvitnað orðalag 164. gr. laga nr. 19/1991. Er sú skoðun ráðuneytisins ítrekuð í skýringum ráðuneytisins frá 20. nóvember 1997. Verður að telja þá niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í samræmi við umrætt ákvæði laga nr. 19/1991.

Eins og fyrr greinir, var í fyrri úrskurði ráðuneytisins ekki tekin afstaða til réttmætis slíkra greiðslna eða hvort um óþarfa kostnað væri að ræða, þótt fram kæmi, að ætla yrði að greiðslurnar hefðu verið nauðsynlegar fyrir framgang málsins. Eins og úrskurðum ráðuneytisins var háttað, liggur ekki fyrir, hvaða sjónarmið voru ráðandi við mat á þessum atriðum í kæru A. Úrskurður ráðuneytisins frá 7. mars 1997 fullnægir því ekki ákvæði 31., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning. Þá tel ég úrskurð ráðuneytisins að öðru leyti ekki í samræmi við ákvæði 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumálum og vísast um það nánar til þeirra ákvæða, sem rakin voru hér fyrr.

Afstaða ráðuneytisins til kvörtunar A að þessu leyti kemur hins vegar fram í skýringum ráðuneytisins frá 20. nóvember 1997. Þar segir, að vottorð þau, sem um sé deilt í málinu, hafi verið nauðsynleg til þess að málið yrði nægilega upplýst fyrir ákæruvaldið til þess að geta tekið afstöðu til höfðunar opinbers máls, þ.e. hvort háttsemin hefði verið refsiverð og í því sambandi hvert umfang meiðsla hefði verið. Þá verði ekki annað séð en að krufningin hafi verið í samræmi við venju við meðferð hliðstæðra mála og því hvorki ónauðsynleg eða umfangsmeiri en nauðsyn hafi borið til.

Eins og máli þessu er háttað og með vísan til skýringa ráðuneytisins, þar sem greint er frá þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki niðurstöðu þess, er það skoðun mín, að þrátt fyrir framangreinda annmarka á málsmeðferð ráðuneytisins, sé ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu að því er tekur til efnislegrar niðurstöðu ráðuneytisins vegna kæru A.“