Samgöngumál. Valdmörk stjórnvalda. Valdframsal.

(Mál nr. 1926/1996)

A og B kvörtuðu yfir úthlutun samgönguráðuneytisins á styrkjum af fé, sem veitt var á fjárlögum fyrir árið 1995 til skuldbreytingar hjá heilsárshótelum á landsbyggðinni. Laut kvörtunin að málsmeðferð ráðuneytisins, starfsaðferðum þriggja manna úthlutunarnefndar, sem skipuð var til að gera tillögur um úthlutun fjárins og loks að hæfi nefndarmanna. Ákvörðun um það hvaða hótel hlutu styrki byggðist fyrst og fremst á tillögum úthlutunarnefndarinnar, sem skipuð var af samgönguráðherra vorið 1995. Tveir nefndarmanna í henni voru tilnefndir af Ferðamálasjóði og Ferðamálaráði.

Umboðsmaður óskaði í tilefni kvörtunarinnar skýringa á því, hvers vegna þeim aðilum, sem getið er í 8. og 20. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, var ekki falið að annast úthlutun fjárins og á hvaða grundvelli hefði verið talið heimilt að fela það öðrum. Í svari samgönguráðuneytisins kom fram, að þar sem úthlutunarnefndin hefði verið skipuð fulltrúum frá Ferðamálaráði, Ferðamálasjóði og fjárlaganefnd Alþingis hefði verið talið tryggt að hlutaðeigandi aðilar, þ.m.t. Ferðamálaráð, ættu aðild að undirbúningi málsins og tillögu að úthlutun.

Í áliti sínu vísaði umboðsmaður til þess, að á þeim tíma, sem hér skipti máli, hefði framlag ráðist til þeirra málaflokka, sem greindir eru í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 117/1994, af vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík og því fallið utan fjárlaga. Þessu hefði síðan verið breytt. Þá vísaði hann til þess, að skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1994 færi Ferðamálaráð með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgöngumálaráðuneytisins. Í álitinu eru rakin ákvæði laga um skipan og framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs og heimild sú, sem ráðið og framkvæmdastjórn þess hafa, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 117/1994, til þess að skipa undirnefndir til að vinna að einstökum málaflokkum. Þá eru rakin lagaákvæði um hlutverk Ferðamálaráðs, en í lögum nr. 117/1994 er m.a. gert ráð fyrir því að ráðið veiti styrki til ákveðinna verkefna og leggi Ferðamálasjóði að auki til fjármagn til styrkveitinga.

Með vísan til þessa var það álit umboðsmanns að löggjafinn hefði falið Ferðamálaráði að sjá um úthlutun þess fjár, sem varið var á fjárlögum fyrir árið 1995 til skuldbreytinga hjá heilsárshótelum á landsbyggðinni. Hann taldi ljóst að Ferðamálaráð, og eftir atvikum framkvæmdastjórn þess, gæti sett á laggirnar undirnefnd til að annast þetta verkefni á ábyrgð og undir yfirstjórn þeirra. Með vísan til ótvíræðs orðalags 3. mgr. 5. gr. laga nr. 117/1994 væri það hins vegar aðeins á valdi þessara aðila að mæla fyrir um skipun undirnefndar og þar með visst framsal til ákvarðana á tilteknu sviði. Þessi ályktun væri í samræmi við það meginsjónarmið í stjórnsýslurétti, að ákvörðun um framsal á lögbundnum verkefnum stjórnvalds yrði eingöngu tekin af því sjálfu og að öðrum skilyrðum valdframsals uppfylltum, enda kvæðu skýr lagafyrirmæli ekki á um heimildir æðra stjórnvalds í þeim efnum. Umboðsmaður taldi það engu breyta, þótt samgönguráðuneytið færi samkvæmt lögum nr. 117/1994 með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til. Það var því niðurstaða hans, að samgönguráðherra hefði brostið heimild til að takmarka valdsvið Ferðamálaráðs með þeim hætti sem raun varð á og skipun úthlutunarnefndarinnar fól í sér. Hann taldi, að tilnefning Ferðamálaráðs á fulltrúa í nefndina hefði ekki orðið til þess að hún hefði þar með haft nægilegan lagagrundvöll fyrir starfsemi sinni. Samkvæmt þessu var úthlutunarnefndin ekki bær til að fara með það verkefni sem henni var falið, og var því að lögum ekki staðið rétt að úthlutun fjárins.

Vegna þessarar niðurstöðu taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla um starfshætti nefndarinnar eða almennt og sérstakt hæfi þeirra manna, sem hana skipuðu.

I.

Hinn 23. október 1996 leitaði til mín C, héraðsdómslögmaður, f.h. A og B, og bar fram kvörtun, sem lýtur að úthlutun samgönguráðuneytisins á styrkjum, samtals að fjárhæð 20 milljónir króna, til 11 hótela og samtaka svonefndra regnbogahótela á árinu 1995. Beinist kvörtunin í fyrsta lagi að málsmeðferð ráðuneytisins við úthlutun styrkjanna. Þá er kvartað yfir starfsaðferðum þriggja manna nefndar, sem samgönguráðherra skipaði gagngert til að gera tillögur um úthlutun fjárins. Loks er í kvörtuninni leitað eftir áliti mínu á almennu og sérstöku hæfi einstakra nefndarmanna.

II.

Málsatvik.

1.

Hinn 1. október 1993 skipaði samgönguráðherra fimm manna nefnd, sem ætlað var það hlutverk, að kanna rekstrargrundvöll „heilsárshótela“ á landsbyggðinni og gera tillögur til þess að styrkja hann. Nefndin skilaði áfangaskýrslu haustið 1994. Í kjölfar hennar var lögð fram á Alþingi tillaga um breytingu á fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995, sem fól það í sér, að framlag til ferðamála samkvæmt 8. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, var hækkað um 20 milljónir króna, það er úr 68 milljónum í 88 milljónir. (Alþt. 1994–1995, A-deild, bls. 2457.) Var tillagan flutt af meiri hluta fjárlaganefndar og gerði formaður nefndarinnar svofellda grein fyrir henni í ræðu á Alþingi:

„Fjárlagaliður 651, Ferðamálaráð. Lagt er til [...] að lögbundið framlag til ferðamála hækki um 20 [milljónir króna] og er það ætlað til skuldbreytinga hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið.“ (Alþt. 1994–1995, B-deild, dálk. 3298.)

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1995 var samþykkt sem lög frá Alþingi 21. desember 1994 (lög nr. 158/1994). Var framangreind tillaga ein þeirra breytingartillagna við upphaflegt frumvarp, sem samþykktar voru. Beinist kvörtunin að úthlutun stjórnvalda á því viðbótarframlagi til ferðamála, sem tillagan fól í sér.

2.

Endanlegar tillögur framangreindrar nefndar samgönguráðherra voru eftir því sem best verður séð lagðar fram á fyrri hluta árs 1995. Segir meðal annars svo í bréfi nefndarinnar, sem fylgdi tillögum hennar:

„Ljóst er að verulegur rekstrarvandi er hjá heilsárshótelum á landsbyggðinni. Er þar um að ræða viðvarandi rekstrarhalla vegna lakari nýtingar, mjög harðnandi samkeppni og fjármagnskostnaðar af lánum sem tekin hafa verið til uppbyggingar viðkomandi hótela. [...]

Nefndin leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að styrkja heilsárshótelin á landsbyggðinni, sem í flestum tilvikum eru flaggskip ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og forsenda fyrir því að unnt sé að efla ferðaþjónustu og halda uppi aðstöðu til samkomu og fundahalds. [...]

Þess ber að geta að á starfstíma nefndarinnar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á því starfsumhverfi sem hótelrekstur býr við. [...] Í fjórða lagi var ákveðið að veita 20 milljónum kr. af fjárlögum ársins 1995 til þess að renna stoðum undir heilsárshótel á landsbyggðinni.“

Tillögur sínar setti nefndin fram í sex liðum. Er í einum þeirra lagt til, að Ferðamálaráð leggi aukna áherslu á að „markaðssetja einstök landsvæði“ í þeim tilgangi meðal annars, að lengja ferðamannatímann, og að Ferðamálasjóður veiti sérstaka fyrirgreiðslu í þessu skyni, hugsanlega í formi styrkja.

Í niðurlagi tillagna nefndarinnar segir síðan:

„Að lokum leggur nefndin til við samgönguráðherra að skipaður verði [þriggja] manna starfshópur sem í eiga sæti fulltrúar frá Ferðamálasjóði, Ferðamálaráði og samgönguráðuneyti. Hópurinn vinni að frekari útfærslu þeirra tillagna sem hér greinir og geri tillögur um ráðstöfun þeirra 20 milljóna sem veittar voru á fjárlögum til heilsárshótela á landsbyggðinni.“

3.

Hinn 10. maí 1995 skipaði samgönguráðherra nefnd til að gera tillögu um ráðstöfun þeirrar 20 milljóna króna fjárveitingar, sem hér er til umfjöllunar. Var nefndin skipuð þremur mönnum. Munu tveir þeirra hafa verið tilnefndir til setu í nefndinni af Ferðamálasjóði annars vegar og Ferðamálaráði hins vegar. Þá er vert að taka hér fram, að í skipunarbréfi formanns nefndarinnar segir, að nefndin eigi „að gera tillögur til samgönguráðherra um ráðstöfun á þeim 20 [milljónum króna] sem ætlaðar eru til skuldbreytingar hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið“.

Álit nefndarinnar barst samgönguráðuneytinu 15. september 1995. Segir í bréfi formanns nefndarinnar til ráðuneytisins, að nefndin hafi gert tillögur „um ráðstöfun á þeim 20 [milljónum króna] sem ætlaðar eru til hótela á landsbyggðinni sem opin eru allt árið“.

Í inngangi nefndarálitsins er gerð grein fyrir hlutverki nefndarinnar og sagt, að henni hafi verið ætlað „að gera tillögur til samgönguráðherra um skiptingu 20 milljóna króna framlags, sem veitt var á fjárlögum 1995, til að létta greiðsluvanda heilsárshótela á landsbyggðinni“. Þá er í álitinu vísað til skýrslu fyrrgreindrar nefndar, sem samgönguráðherra skipaði 1. október 1993, og leitast við að afmarka viðfangsefnið út frá niðurstöðum hennar. Þessu næst gerir nefndin svofellda grein fyrir tillögum sínum:

„Til að afmarka hvaða hótel væri verið að ræða um, var helst litið til þess að það væru þau hótel sem væru forsenda frekari uppbyggingar í ferðaþjónustu á viðkomandi svæði. (Gætu ekki lokað á veturna án þess að mikil mótmæli kæmu frá heimamönnum.) Í flestum tilfellum eru sveitarfélög þar miklir óbeinir hagsmunaaðilar, auk þess sem þau hafa stundum beina hagsmuni vegna eignaraðildar og/eða lánafyrirgreiðslu. Öll þessi hótel hafa það sammerkt að geta aukið nýtingu utan háannatíma með því að bjóða upp á aðstöðu til [funda-] og ráðstefnuhalds. Ekki þótti rétt að telja með rekstrareiningar sem eru til uppfyllingar og eru meira afleiðing af auknum ferðamannastraumi en forsenda og geta ekki með góðu móti boðið neina [frekari] þjónustu en gistingu. Þau hótel sem rætt hefur verið um, eiga það einnig flest sameiginlegt að hafa fengið stuðning í einu eða öðru formi á undanförnum árum. Nokkrar einingar, sem ekki hafa fengið neina styrki og ganga samt, voru sérstaklega hafðar í huga þannig að þeim verði ekki refsað fyrir skilvísi. Talsverð umræða var um hvort Suðurnes og Suðurland væri „landsbyggð“ þegar reynt var að skilgreina hvaða hótel féllu innan verksviðs nefndarinnar og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að nálægðin við höfuðborgarsvæðið leiddi til nýtingarmöguleika, sem hótel sem fjær væru staðsett gætu ekki haft. Því var hótelum í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins sleppt að þessu sinni.

Lausnir.

Fyrst og fremst er horft til þess að fjármagnið nýtist sem best. Er þá litið til þess, að verði fjármunum einungis varið til að minnka vanskil hótela hjá Ferðamálasjóði eða öðrum lánardrottnum, verði margfeldisáhrif þess í lágmarki og muni hafa sáralítil áhrif til að breyta rekstrargrunni fyrirtækjanna. Það er því álit nefndarinnar að þeir fjármunir sem hér eru til ráðstöfunar nýtist best verði þeim varið til markaðssóknar.

Nefndin leggur til eftirfarandi ráðstöfun, sem hún telur að myndi líklega hafa mest áhrif:

1. Hluta fjárhæðarinnar verði varið til samtaka hótela, annað hvort þeirra sem fyrir eru eða hópa sem beinlínis tækju sig saman í þeim tilgangi að sækja um fjármagn til sameiginlegs markaðsátaks. Slík ráðstöfun myndi vafalaust efla samband hótelanna og þannig auka líkur á árangursríkri samvinnu í fjölmörgum sameiginlegum hagsmunamálum. Auglýst verði eftir umsóknum til styrks/styrkja og verði varið 4–5 milljónum [króna] til þess hluta.

2. Meginhluta þess fjár sem er til ráðstöfunar verði þannig varið að þeim 11 hótelum, sem að mati nefndarinnar helst uppfylla skilyrði þess að vera talin heilsárshótel á landsbyggðinni með vaxtarmöguleika, verði gefin kostur á að sækja um styrk. Stuðningnum við þessi 11 hótel, ef þau óska öll eftir að vera með í verkefninu verði skipt samkvæmt meðfylgjandi fylgiskjali [...] og næmi samtals [15–16 milljónum króna]. Stuðningurinn yrði ætlaður til markaðsöflunar og vinnu í einu eða öðru formi til að glæða aðsókn utan háannar. [...]“

Eftir því sem best verður séð óskaði samgönguráðuneytið eftir því, þegar nefndarálit þetta lá fyrir, að formleg umsókn um styrk kæmi frá hverju þeirra 11 hótela, sem styrkhæf töldust að mati nefndarinnar. Að þeim fengnum var hverju þeirra tilkynnt um úthlutun með svohljóðandi bréfi samgönguráðuneytisins:

„Sérstök nefnd var skipuð af ráðuneytinu til að ráðstafa fjárveitingu sem Alþingi veitti til að styrkja rekstrargrunn heilsárshótela á landsbyggðinni. Samkvæmt tillögum nefndarinnar hefur ráðuneytið ákveðið að veita hótelinu [... (fjárhæð)] af þessari fjárveitingu.“

Samgönguráðuneytið fól síðan Ferðamálaráði að annast „greiðslur til þeirra hótela sem hlutu styrk samkvæmt ákvörðun sérstakrar nefndar“.

III.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 8. janúar 1998, sagði:

„Í kvörtun A og B er vísað til þess, að framangreind úthlutun hafi átt sér stað án undangenginnar kynningar eða auglýsingar. Samkeppnisaðilum hafi þannig ekki verið gert kleift að sækja um styrki og keppa um þá á jafnréttisgrundvelli. Þá hafi hvílt leynd yfir málinu, á meðan samgönguráðuneytið og hin sérstaka úthlutunarnefnd höfðu það til meðferðar, og öðrum en þeim, sem úthlutun fengu, hafi ekki verið kunnugt um ráðstöfun fjárins fyrr en eftir að úthlutunin hafði farið fram. Fyrirsvarsmenn A og B hafi þannig ekki átt þess kost að kynna málstað sinn fyrir ráðherra eða nefndinni, áður en ákvörðun um úthlutun styrkjanna var tekin. Í greinargerð lögmanns A og B til mín segir síðan:

„Af hálfu ráðherra hefur því verið haldið fram að úthlutunarnefndin hafi kannað hvaða hótel gætu aukið nýtingu utan háannatíma með því að efla kynningu á ráðstefnu- og fundaraðstöðu. Við val á hótelum hafi því fyrst og fremst verið litið til þeirra hótela sem hefðu möguleika á að halda fundi og ráðstefnur.

Umbj. mínir telja engan vafa leika á að þeir falli báðir undir þær forsendur sem ráðuneytið segir úthlutunarnefndina hafa gefið sér við mat á styrkhæfi einstakra hótela. [A] er heilsárshótel við [Ö]. Á hótelinu eru 41 vel búin 2ja manna herbergi. Á hótelinu eru 2 salir, veitingasalur með 110 sætum og fundarsalur fyrir allt að 70 manns. Af hálfu rekstraraðila hótelsins hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til að auka nýtingu þess yfir vetrarmánuðina. [B] er heilsárshótel í [X], með 60 vel búnum herbergjum [...]. Þar er rúmgóð íþróttaaðstaða og auk [veitingasalar] vel búinn fundarsalur sem tekur 60 manns. Hótelið hefur lagt sérstaka áherslu á uppbyggingu þjónustu utan háannatímans og á ýmsan hátt átt margvíslegt frumkvæði á því sviði.

Umbj. mínir telja að ráðherra hafi verið skylt að auglýsa styrki þessa til umsóknar. Umbj. mínir telja einnig að ráðherra hafi verið skylt að leggja málefnaleg rök til grundvallar niðurstöðu sinni og að honum hafi borið að móta fyrirfram skýrar og aðgengilegar reglur sem fara skyldi eftir við val á styrkþegum, að fengnum umsóknum þeirra. Einungis með þessum hætti hafi verið hægt að tryggja jafnræði milli heilsárshótela á landsbyggðinni.

Engin sérstök rök hafa verið færð fyrir því að þeir aðilar sem nefndin valdi hafi átt að fá styrk til markaðssóknar umfram umbj. mína eða aðra samkeppnisaðila sem ekki fengu úthlutað frá nefndinni. Ekkert liggur heldur fyrir um það að þessir styrkir hafi í raun farið til að auka nýtingu viðkomandi hótels utan háannatímans, en ekki verið nýttir til annars, [svo sem] að greiða niður fjárfestingalán.“

Þá er að því vikið í kvörtuninni, hvort heimilt hafi verið samkvæmt 20. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, að ráðstafa umræddum fjármunum á þann hátt, sem gert var, og hvort gætt hafi verið málsmeðferðarreglna ákvæðisins og 27. gr. sömu laga. Er um þetta atriði sérstaklega vísað til svohljóðandi skýringa í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996:

„Ferðamál. [...] Einnig fellur niður 20 m.kr. framlag til Ferðamálasjóðs en á þessu ári var því framlagi varið til skuldbreytingar lána hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið.“ (Alþt. 1995–1996, A-deild, bls. 344).

Auk framangreinds eru í bréfi lögmanns A og B til mín færð rök fyrir sjónarmiðum, sem lúta að ætluðu vanhæfi þeirra manna, sem sæti áttu í hinni sérstöku úthlutunarnefnd.

IV.

Ég ritaði samgönguráðherra bréf 9. janúar 1997 og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins. Þá óskaði ég sérstaklega eftir því, að ráðuneytið gerði grein fyrir ástæðum þess, að aðilum, sem um er getið í 8. og 20. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, var ekki fengið það verkefni að annast úthlutun umrædds fjár, svo og fyrir því, á hvaða lagagrundvelli hefði verið talið heimilt að fela það öðrum.

Mér barst svarbréf samgönguráðuneytisins 7. febrúar 1997. Fylgdu því umbeðin gögn. Að því er varðar fyrirspurn mína segir hins vegar það eitt í bréfi ráðuneytisins, að þar sem úthlutunarnefndin hafi verið skipuð fulltrúum frá Ferðamálasjóði, Ferðamálaráði og fjárlaganefnd Alþingis, hafi það verið tryggt, „að hlutaðeigandi aðilar, þ.á m. Ferðamálaráð, [ættu] aðild að undirbúningi málsins og tillögu um úthlutun á styrkjum til hótela á árinu 1995“.

Ég gaf fyrirsvarsmönnum A og B kost á að koma að athugasemdum, sem þeir teldu ástæðu til að gera í tilefni af bréfi samgönguráðuneytisins. Í bréfi hótelstjóra A til mín, dags. 29. apríl 1997, er tekið fram, að gögn og útskýringar ráðuneytisins gefi ekki ástæðu til að ætla, að jafnræðis hafi verið gætt við umrædda úthlutun.

V.

1.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1995, lögum nr. 158/1994, nam fjárveiting til ferðamála samkvæmt 8. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, 88 milljónum króna, sbr. 4. gr., lið 10–651 Ferðamálaráð, 6 10 Ferðamál. Af lögskýringargögnum og því, sem rakið hefur verið, er ljóst, að hluta þessa framlags, eða 20 milljónum króna, skyldi varið til hótela á landsbyggðinni í því skyni að draga úr fjárhagsvanda þeirra.

Á þeim tíma, sem hér skiptir máli, hljóðaði 8. gr. laga nr. 117/1994 svo:

„Fríhöfnin í Keflavík skal greiða til Ferðamálaráðs gjald er nemur 10% af árlegri vörusölu. Fríhöfnin skal greiða gjald þetta beint til Ferðamálaráðs af sölu hvers mánaðar og fellur það í gjalddaga eigi síðar en 15 dögum eftir lok mánaðarins. Skal þessu fjármagni varið á eftirfarandi hátt:

a. Til að veita einkaaðilum og opinberum aðilum styrki til að koma upp eða endurbæta aðstöðu fyrir ferðamenn.

b. Til landkynningarverkefna á vegum Ferðamálaráðs.

c. Til Ferðamálasjóðs til styrkveitinga, sbr. 20. gr.

Ferðamálaráð gerir fjárhagsáætlun fyrir eitt ár í senn sem skal lögð fyrir samgönguráðherra en hann tekur endanlega ákvörðun.

Kostnaður af starfsemi Ferðamálaráðs skal að öðru leyti greiddur úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga.“

Með 49. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, sem öðluðust gildi 1. janúar 1996, var ákvæði þessu breytt á þann veg, að tekjur Ferðamálaráðs af vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík voru felldar niður. Kom nýr málsliður í stað 1. til 3. málsl. 1. mgr. og hljóðar hann svo:

„Fjármagni því sem Ferðamálaráð hefur yfir að ráða skal varið á eftirfarandi hátt.“

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, er varð að lögum nr. 144/1995, sagði meðal annars svo um þetta ákvæði:

„Með endurorðun á 1. mgr. 8. gr. laganna er felld brott sú kvöð að Fríhöfnin í Keflavík skuli greiða til Ferðamálaráðs gjald er nemur 10% af árlegri vörusölu. Þetta ákvæði hefur verið skert árlega við afgreiðslu fjárlaga og er nú lagt til að framlag til Ferðamálaráðs komi úr ríkissjóði [...] og verði þar með ákveðið á fjárlögum.“ (Alþt. 1995–1996, A-deild, bls. 1821.)

Samkvæmt framansögðu er kostnaður af starfsemi Ferðamálaráðs nú greiddur að fullu úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði fjárlaga hverju sinni. Fram að gildistöku laga nr. 144/1995 og á þeim tíma, sem hér skiptir máli, réðst framlag til þeirra málaflokka, sem tilgreindir eru í stafliðum 1. mgr. 8. gr. laga um skipulag ferðamála, hins vegar af vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík og féll þar með utan fjárlaga.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 117/1994 fer Ferðamálaráð Íslands með stjórn ferðamála hér á landi undir yfirstjórn samgönguráðuneytisins. Er ráðið skipað 23 mönnum, en þar af eru 18 fulltrúar skipaðir af samgönguráðherra eftir tilnefningu tiltekinna hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Í 5. gr. laganna er hins vegar mælt fyrir um skipun sjö manna framkvæmdastjórnar, sem hafa skal það hlutverk að fara með yfirstjórn á starfsemi Ferðamálaráðs á milli funda ráðsins og í samræmi við ákvarðanir þess. Um skipun framkvæmdastjórnar segir svo í 1. og 2. mgr. hinnar tilvitnuðu greinar:

„Samgönguráðherra skipar sjö manna framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs og skulu allir stjórnarmenn eiga sæti í Ferðamálaráði.

Einn er formaður Ferðamálaráðs og skal hann vera formaður framkvæmdastjórnar. Annar er varaformaður Ferðamálaráðs og skal hann vera varaformaður framkvæmdastjórnar. Eftirtaldir aðilar skulu tilnefna einn mann hver: Ferðamálasamtök landshluta sem tilgreind eru í 12.–18. tölul. 2. mgr. 4. gr. sameiginlega, Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Flugleiðir hf., Reykjavíkurborg og Samband veitinga- og gistihúsa. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.“

Þá er Ferðamálaráði og framkvæmdastjórn heimilt, sbr. 3. mgr. 5. gr., að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokkum.

Í 7. gr. tilvitnaðra laga er í 13 töluliðum gerð grein fyrir verkefnum Ferðamálaráðs. Má þar nefna skipulagningu og áætlanagerð um íslensk ferðamál, landkynningu og markaðsmál og samræmingu á starfsemi aðila ferðaþjónustunnar ásamt aðstoð og ráðgjöf við þá. Í niðurlagi greinarinnar er síðan kveðið á um það, að Ferðamálaráð skuli annast önnur þau verkefni, sem það sjálft tekur upp eða því eru falin á annan hátt. Loks er svo sem áður greinir gert ráð fyrir því í 1. mgr. 8. gr. laganna, að ráðið veiti styrki til tiltekinna verkefna og leggi Ferðamálasjóði að auki til fjármagn til styrkveitinga.

3.

Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, er það álit mitt, að löggjafinn hafi falið Ferðamálaráði að sjá um úthlutun þess framlags, sem á fjárlögum fyrir árið 1995 var varið „til skuldbreytinga hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið“. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna gátu Ferðamálaráð og eftir atvikum framkvæmdastjórn þess sett á laggirnar sérstaka undirnefnd, sem hefði verkefni þetta með höndum á ábyrgð og undir yfirstjórn þeirra. Með vísan til ótvíræðs orðalags ákvæðisins var það hins vegar eingöngu á valdi þessara aðila að mæla fyrir um skipun undirnefndar og þar með visst framsal til ákvarðana á umræddu sviði. Er sú ályktun í samræmi við það meginsjónarmið í stjórnsýslurétti, að ákvörðun um framsal á lögbundnum verkefnum stjórnvalds verði eingöngu tekin af því sjálfu og að öðrum skilyrðum valdframsals uppfylltum, enda kveði skýr lagafyrirmæli ekki á um heimildir æðra stjórnvalds í þessum efnum. Breytir þá engu, þótt samgönguráðuneytið fari samkvæmt lögum nr. 117/1994 með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til. Samkvæmt þessu brast samgönguráðherra heimild til að takmarka valdsvið Ferðamálaráðs með þeim hætti sem raun varð á og skipun hinnar sérstöku úthlutunarnefndar fól í sér. Þá gat tilnefning Ferðamálaráðs á fulltrúa í nefndina ekki heldur orðið til þess, að hún hefði þar með haft nægilegan lagagrundvöll fyrir starfsemi sinni.

Það er því niðurstaða mín, að nefnd sú, er samgönguráðherra skipaði 10. maí 1995 „til að gera tillögur til [hans] um ráðstöfun á þeim 20 [milljónum króna] sem ætlaðar [voru] til skuldbreytingar hjá hótelum á landsbyggðinni “, hafi ekki verið bær til að fara með það verkefni. Var því að lögum ekki staðið rétt að úthlutun þess fjár, sem hér um ræðir.

4.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu sé ég ekki ástæðu til að fjalla um almennt og sérstakt hæfi þeirra manna, sem skipuðu hina sérstöku úthlutunarnefnd. Hið sama á við um starfshætti nefndarinnar.

VI.

Niðurstaða.

Niðurstaða mín í tilefni af kvörtun þeirri, sem hér hefur verið til umfjöllunar, er samkvæmt framansögðu sú, að ákvörðun um úthlutun á þeim 20 milljónum króna, sem mál þetta snýst um, hafi með ákvæðum fjárlaga nr. 158/1994 verið falin Ferðamálaráði Íslands. Þar sem ráðið framseldi ekki ákvörðunarvald sitt á þessu sviði og með því að æðra stjórnvaldi var að lögum ekki heimilt að skerða valdsvið Ferðamálaráðs með slíkri ráðstöfun, var nefnd sú, sem samgönguráðherra skipaði 10. maí 1995 til þess að gera tillögu til hans um úthlutun fjárins, ekki bær til þess að annast það verkefni. Var því að lögum ekki staðið rétt að úthlutun þess fjár, sem hér um ræðir.“