Almannatryggingar. Stjórnsýslukæra. Lögvarðir hagsmunir.

(Mál nr. 8178/2014)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í enduruppteknu máli en nefndin hafði vísað málinu frá á þeim grundvelli að úrlausn þess hefði ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir hana. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort frávísunin hefði verið í samræmi við lög.

Í eldri úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli A hafði nefndin staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins um að tilteknar greiðslur sem A fékk frá Noregi, þ.e. svokallaður viðbótarlífeyrir, teldust tekjur sem skertu lífeyrisgreiðslur hennar frá tryggingastofnun hér á landi. Undir rekstri hins endurupptekna máls hjá nefndinni tók norska tryggingastofnunin þá ákvörðun að hætta greiðslum á viðbótarlífeyri til A þar sem hún uppfyllti ekki lagaskilyrði en að A yrði ekki endurkrafin um þær greiðslur sem hún hefði nú þegar þegið vegna þess að það hefði hún gert í góðri trú. Í framhaldinu endurreiknaði Tryggingastofnun ríkisins lífeyrisgreiðslur A hér á landi í samræmi við breyttar forsendur frá miðju ári 2014. Vegna þessa taldi úrskurðarnefndin að A ætti ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um það hvort viðbótarlífeyrir í Noregi ætti að koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum hér á landi.

Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir að A hefði fengið nýja úrlausn frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem tekið væri tillit til breyttra forsendna fyrir árið 2014, stæði eftir það álitaefni hvaða áhrif þær greiðslur sem hún fékk frá Noregi fyrir þann tíma hefðu átt að hafa á fjárhæð lífeyrisgreiðslna hennar frá Tryggingastofnun ríkisins. Væri raunin sú að þessar greiðslur hefðu ekki átt að skerða lífeyrisgreiðslur A hér á landi fram til miðs árs 2014 leiddi af þeirri niðurstöðu að A kynni að eiga rétt á greiðslu vangreiddra bóta. Þar sem eldra mál A hefði verið endurupptekið og nýja málinu vísað frá hefði ekki verið leyst efnislega úr þessu álitaefni og þá miðað við þær forsendur sem lægju nú fyrir. Það var niðurstaða umboðsmanns að A hefði haft lögvarða hagsmuni af úrlausn úrskurðarnefndarinnar um þetta atriði og því hefði úrskurður nefndarinnar ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá mæltist hann til þess að úrskurðarnefndin hefði þessi sjónarmið framvegis í huga í störfum sínum.

I. Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 9. október 2014 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 24. september 2014 í enduruppteknu máli nr. 32/2012. Með úrskurðinum var máli A vísað frá nefndinni þar sem úrlausn þess hefði ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir hana.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Í úrskurði nefndarinnar frá 3. febrúar 2012 í máli nr. 32/2012 hafði nefndin staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna til A. Við þann útreikning hafði viðbótarlífeyrir sem hún fékk frá Arbeids- og velferdsetaten í Noregi(NAV), svokallað „tilleggspensjon“, verið talið til tekna hennar með þeim afleiðingum að það leiddi til lækkunar á þeim greiðslum sem hún fékk frá tryggingastofnun. A fór fram á endurupptöku á því máli með vísan til þess að þær greiðslur sem hún hafði fengið frá Noregi væru ekki lífeyrisgreiðslur sem kæmu til frádráttar örorkugreiðslum hennar hér á landi. Lífeyririnn væri ekki tengdur við atvinnuþátttöku hennar því hún hefði aldrei unnið og að hann væri greiddur af fjárlögum norska ríkisins. Tryggingastofnun hafnaði beiðni hennar á þeim grundvelli að stofnunin hefði hvorki gert breytingar á útreikningi bóta hennar frá því að úrskurðað var í máli nr. 32/2012 né hefðu borist ný gögn sem gæfu tilefni til endurskoðunar. Úrskurðarnefndin staðfesti niðurstöðu tryggingastofnunar í úrskurði frá 30. október 2013 í máli nr. 176/2013.

Í framhaldinu leitaði A til umboðsmanns Alþingis. Eftir fyrirspurnarbréf frá settum umboðsmanni tók nefndin málið upp að nýju en því máli lauk með fyrrnefndum úrskurði frá 24. september 2014. Í millitíðinni hafði NAV tekið greiðslur til A til endurskoðunar. Hafði NAV komist að þeirri niðurstöðu að A ætti ekki rétt á viðbótarlífeyri og ekki yrðu frekari greiðslur til hennar á þeim grundvelli. Aftur á móti yrði hún ekki endurkrafin um þær greiðslur sem hún hefði þegið í góðri trú. Vegna þessarar nýju niðurstöðu NAV taldi úrskurðarnefndin að úrlausn nefndarinnar hefði ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir A. Athugun mín á málinu hefur beinst að því hvort frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 15. júní 2015.

II. Málavextir

A hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. mars 2003. Í tilefni af greiðsluáætlun sem Tryggingastofnun ríkisins sendi henni í upphafi árs 2012 gerði A athugasemdir við fjárhæð áætlaðra greiðslna. Með kæru, dags. 26. janúar 2012, skaut A ágreiningi um fjárhæðina til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í kærunni óskaði hún eftir því að nefndin tæki mál hennar til skoðunar og að greiðslur til hennar yrðu leiðréttar, þ.m.t. með afturvirkum hætti. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 3. október 2012 í máli nr. 32/2012 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að lífeyrisgreiðslur til A hefðu verið í samræmi við lög. Byggðist niðurstaðan á því að viðbótarlífeyrir (n. tilleggspensjon) sem A fengi frá Noregi væri „starfstengdur lífeyrir“, þ.e. almennur lífeyrir sem fer einungis til þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði samkvæmt innlendri löggjöf, í skilningi Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 66/2004 og reglugerðar nr. 96/2006, um framkvæmdasamninga við Norðurlandasamning um almannatryggingar frá 18. ágúst 2003. Greiðslur viðbótarlífeyris væru því sambærilegar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Þar sem lífeyrir teldist til tekna samkvæmt 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, væri það niðurstaða nefndarinnar að „sá hluti örorkugreiðslna frá Noregi sem [A] [nyti] á grundvelli atvinnutengdra iðgjalda, þ.e. tilleggspensjon, [skertu] bótarétt hennar hér á landi lögum samkvæmt“.

A óskaði eftir endurskoðun á framangreindum úrlausnum með erindi, dags. 13. mars 2013. Af erindinu verður ráðið að hún hafi óskað þess að stofnunin endurskoðaði grundvöll örorkugreiðslna hennar, sem úrskurðað var um í máli úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 32/2012. Tryggingastofnun hafnaði beiðni hennar á þeim grundvelli að stofnunin hefði hvorki gert neinar breytingar á útreikningi bóta hennar frá því að úrskurðað var í máli nr. 32/2012 né hefðu borist ný gögn sem gæfu tilefni til endurskoðunar. A kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 11. maí 2013. Hún benti á í kærunni að umræddar greiðslur teldust ekki til lífeyrissjóðsréttinda og að þær væru greiddar af fjárlögum norska ríkisins. Hún lagði jafnframt fram bréf frá NAV, dags. 24. apríl 2013, þar sem fram kemur að hún fái örorkulífeyri (n. uførepensjon) úr almannatryggingum Noregs og að lífeyririnn greiðist af norska ríkinu en ekki t.a.m. úr sjóði. Líkt og áður segir féllst úrskurðarnefndin ekki á kröfu A í úrskurði frá 30. október 2013 í máli nr. 176/2013. Taldi nefndin að ekki hefðu komið fram upplýsingar sem leiddu til þess að tryggingastofnun skyldi taka örorkulífeyrisgreiðslur A til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 13. nóvember 2013 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir síðastgreindum úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Af því tilefni ritaði settur umboðsmaður Alþingis nefndinni bréf, dags. 17. febrúar 2014, þar sem hann gerði grein fyrir lagagrundvelli viðbótarlífeyris í Noregi. Hann óskaði eftir frekari skýringum en settar væru fram í úrskurði nefndarinnar frá 30. október 2012 á þeirri afstöðu hennar að svokallað „tilleggspensjon“ væri sambærilegt við lífeyrisgreiðslur hér á landi. Hefði hann í huga hvað það væri nákvæmlega við „tilleggspensjon“ sem væri sambærilegt við nákvæmlega hvaða þátt lífeyrisgreiðslna sem gerði það að verkum að rétt hefði verið, eins og lög voru á þeim tíma, að skerða greiðslur til A með vísan til þess viðbótarlífeyris sem hún fékk greiddan úr norska almannatryggingakerfinu. Hann tók fram að spurningin væri sett fram með það í huga hvort afstaða nefndarinnar, að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku væri ekki fullnægt, væri í samræmi við lög.

Með bréfi, dags. 2. apríl 2014, upplýsti úrskurðarnefndin umboðsmann um að hún hefði ákveðið að taka mál A til meðferðar að nýju. Úrskurður nefndarinnar í hinu endurupptekna máli nr. 32/2012, sem kvörtun þessa máls lýtur að, var kveðinn upp 24. september 2014. Með úrskurðinum var málinu vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að úrlausn þess hefði ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir A. Í forsendum úrskurðarins sagði m.a.:

„Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í bréfi NAV dags. 9. maí 2014 þá hafði kærandi fengið greiddar „tilleggspensjon“ frá NAV Internasjonalt, frá árinu 2004, en átti í raun ekki rétt á slíkum greiðslum. Í framangreindu bréfi NAV kemur fram að stofnunin muni ekki endurkrefja hana um umræddar greiðslur, þar sem um mistök hafi verið að ræða af þeirra hálfu.

Þar sem kærandi átti í raun ekki rétt á greiðslu „tilleggspensjon“ en fékk slíkar greiðslur vegna mistaka, telur úrskurðarnefnd almannatrygginga brostnar forsendur fyrir því að fjalla um sambærileika þeirra greiðslna við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi, þar sem það þjónar ekki hagsmunum kæranda að fá úr því skorið hvaða áhrif slíkar greiðslur hafa á hennar réttindi með hliðsjón af framangreindu. Kærandi hefur þannig ekki lengur einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um sambærileika umræddra greiðslna, þar sem slíkur samanburður hefur ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir kæranda. Sú ákvörðun NAV að láta kæranda njóta framangreindra greiðslna þrátt fyrir að hafa ekki átt rétt á þeim breytir ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Tryggingastofnun ríkisins hefur í samræmi við upplýsingar sem fram koma í bréfi NAV, dags. 9. maí 2014, endurreiknað greiðslur örorkulífeyris. Eins og fram kemur í bréfum stofnunarinnar með nýjum útreikningi er kæranda heimilt að kæra þær ákvarðanir til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Þegar litið er til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að vísa málinu frá þar sem úrlausn málsins hefur ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir kæranda.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og úrskurðarnefndar almannatrygginga

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég úrskurðarnefnd almannatrygginga bréf, dags. 31. desember 2014, þar sem ég óskaði ég eftir nánari skýringum á þeirri afstöðu nefndarinnar að A ætti ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Í svarbréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febrúar 2015, sagði:

„Með bréfi, dags. 15. apríl 2014, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir því að kærandi legði fram gögn frá NAV þar sem staðfest væri að hún hefði ekki fengið greitt „tilleggspensjon“ á grundvelli þess að hún hafi verið þátttakandi á vinnumarkaði. Óskað var eftir slíkum upplýsingum þar sem kærandi hafði veitt þær upplýsingar að hún hefði ekki verið á vinnumarkaði, þar af leiðandi hefðu hún ekki getað fengið framangreindar greiðslur á þeim grundvelli. Umbeðin gögn bárust frá NAV með bréfi, dags. 9. maí 2014, þar sem fram kom að kærandi hafði fengið greitt „tilleggspensjon“ frá 6. júlí 2004 vegna mistaka hjá stofnuninni, en hún hefði ekki átt rétt á slíkum greiðslum. Einnig kemur fram í framangreindu bréfi að NAV muni ekki fara fram á að kærandi endurgreiði þær greiðslur sem hún sannarlega fékk, án þess að eiga rétt á þeim, þar sem hún hafi tekið við greiðslunum í góðri trú.

Þegar upplýsingar höfðu borist frá NAV um að kærandi hefði ranglega fengið „tilleggspensjon“, var það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hefði ekki hagsmuni af því að tekið væri á sambærileika „tilleggspensjon“ og lífeyrissjóðsgreiðslna hér á landi. Krafa kæranda snérist um að greiðslur „tilleggspensjon“ frá NAV myndu ekki skerða greiðslur frá Íslandi, þar sem hún hafi ekki fengið umræddar greiðslur vegna starfa á vinnumarkaði, þar sem hún hefði ekki verið á vinnumarkaði. Þegar síðan kemur í ljós að NAV hafði gert mistök og að stofnunin ætlaði ekki að endurkrefja kæranda um þær greiðslur sem hún hafði fengið, var það mat úrskurðarnefndarinnar að hennar hagsmunir af því að fá úr því skorið hvernig sambærileika „tilleggspensjon“ og lífeyrissjóðsgreiðslna hér á landi væri háttað, væru ekki lengur fyrir hendi. Annað hefði gilt ef hún hefði átt rétt á „tilleggspensjon“, þá hefði hún haft hagsmuni af því að fá upplýsingar um sambærileika framangreindra greiðslna. Það er ekki hlutverk úrskurðarnefndar almannatrygginga að svara fyrirspurnum um álitaefni sem varða ekki þau mál sem liggja fyrir, þ.e.a.s. kærandi átti ekki rétt á „tilleggspensjon“ og fær ekki slíkar greiðslur í dag, hún getur þar af leiðandi ekki lagt fyrir úrskurðarnefndina að kveða upp úr með það hver sambærileiki „tilleggspensjon“ og lífeyrissjóðsgreiðslna hér á landi er, einungis til þess að fá svar við spurningunni án þess að það varði hennar hagsmuni.

Þegar mál kæranda nr. 32/2012 var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, lagði kærandi fram upplýsingar um að hún hefði þegið svokallaðar „tilleggspensjon“ frá NAV. Þegar hennar kæra var tekin fyrir af úrskurðarnefndinni lágu þær upplýsingar fyrir og byggðist niðurstaða málsins á því. Það kemur síðan í ljós við endurupptöku máls nr. 32/2012, að hún hafi ranglega fengið greiðslur frá NAV. Í framhaldinu tekur NAV ívilnandi ákvörðun um að krefja kæranda ekki um endurgreiðslu. Þegar litið er til þess hefur ekkert breyst síðan úrskurðað var í máli kæranda vegna greiðslna fyrri ára, þ.e. forsendur útreiknings vegna greiðslna sem Tryggingastofnun ríkisins byggði á eru þær sömu og því ekki forsendur til þess að taka málið upp.

Þegar NAV uppgötvaði að kærandi hafði fengið greitt „tilleggspensjon“ án þess að eiga rétt á því, endurreiknaði stofnunin greiðslur til kæranda frá og með 1. júní 2014. Í því ljósi endurreiknaði Tryggingastofnun ríkisins greiðslur til kæranda á árinu 2014.

Sé það vilji kæranda að breytingar verði gerðar á hennar greiðslum sem komu frá NAV á umræddu tímabili verður hún að snúa sér til stofnunarinnar. Þar sem NAV hefur upplýst að kærandi verði ekki endurkrafinn um þær greiðslur sem hún sannarlega átti ekki rétt á, mun úrskurðarnefndin ekki taka ákvarðanir sem gætu mögulega verið íþyngjandi fyrir kæranda.“

Í bréfi mínu óskaði ég jafnframt eftir skýringum nefndarinnar á því hvort og þá hvaða þýðingu sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, að endurreikna lífeyrisgreiðslur til A í samræmi við þær upplýsingar um lífeyrisgreiðslur hennar frá Noregi sem fram hefðu komið við meðferð málsins, hefði haft fyrir þá niðurstöðu nefndarinnar að vísa málinu frá. Í svarbréfi nefndarinnar sagði eftirfarandi um þetta atriði:

„Nýjar ákvarðanir höfðu ekki áhrif á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í endurupptökumáli nr. 32/2012, þar sem ljóst var að Tryggingastofnun tók ekki nýja ákvörðun vegna greiðslna fyrri ára þar sem NAV hugðist ekki endurkrefja kæranda um þær greiðslur sem hún fékk. Þegar af þeirri ástæðu var ljóst að forsendur útreiknings á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda vegna fyrri ára höfðu ekkert breyst. Ef kærandi var ósáttur með ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins sem teknar voru á árinu 2014, vegna greiðslna örorkulífeyris, var honum heimilt að kæra þær til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Engar kærur hafa borist úrskurðarnefndinni vegna umræddra ákvarðana.“

Athugasemdir A við framangreind svör úrskurðarnefndar almannatrygginga bárust mér 3. mars 2015.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis

1. Lagagrundvöllur málsins

Í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, er gert ráð fyrir því að greiðslur samkvæmt m.a. 18., 21. og 22. gr. laganna skerðist vegna tekna lífeyrisþega eins og þær eru nánar skilgreindar í 2., 3. og 4. mgr. 16. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. teljast til tekna samkvæmt III. kafla laga nr. 100/2007 tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. og 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. síðarnefndu laganna eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 telst lífeyrir til tekna.

Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr., þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri samkvæmt 17. og 18. gr. laganna, bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr., þegar um er að ræða tekjutryggingu samkvæmt 22. gr., bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna.

Við gildistöku laga nr. 100/2007 var gert ráð fyrir því í 3. mgr. 16. gr. að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum teldust ekki til tekna þegar um elli- og örorkulífeyri væri að ræða og hefðu því ekki áhrif til skerðingar á slíkan lífeyri, en sambærilega reglu var áður að finna í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem tóku gildi 1. júlí 2009, var undantekning að því er varðar slíkar greiðslur felld brott úr 3. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Með breytingarlögum nr. 86/2013, sem komu til framkvæmda 1. júlí 2013, var horfið frá framangreindri breytingu. Er nú aftur gert ráð fyrir því í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, með síðari breytingum, að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum teljist ekki til tekna þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri samkvæmt 17. og 18. gr. laganna. Slíkar greiðslur teljast aftur á móti til tekna þegar um er að ræða tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. sömu laga. Slíkar greiðslur hafa því áhrif til skerðingar á tekjutryggingu. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum undir 300.000 kr. á ári skulu þó ekki skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna.

Í 4. mgr. 55. gr. kemur fram að hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skuli stofnunin greiða honum eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 53. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.

2. Hafði A lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins?

Niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í úrskurðinum frá 24. september 2014 í máli nr. 32/2012 var reist á því að A hefði ekki lengur einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um hvort þær greiðslur sem hún þáði frá NAV í Noregi, þ.e. viðbótarlífeyrir (n. tilleggspensjon), væru sambærilegar við greiðslur úr lífeyrissjóðum hér á landi, sem teljast til tekna og geta þar með leitt til skerðingar á bótarétti. Ástæða þess var sú að á meðan meðferð hins endurupptekna máls átti sér stað hafði NAV tilkynnt A að hún ætti ekki rétt á því að fá greiddan viðbótarlífeyri, slíkum greiðslum til hennar yrði því hætt en hún ekki endurkrafin um þær greiðslur sem hún hefði nú þegar þegið. Þá væri tryggingastofnun búin að taka nýja ákvörðun og endurreikna bætur hennar til framtíðar litið. Nefndin taldi því að úrlausn um hvort viðbótarlífeyrir væri sambærilegur við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi hefði ekki raunverulega þýðingu fyrir A. Athugun mín hefur, sem fyrr greinir, lotið að því hvort sú afstaða úrskurðarnefndarinnar að A hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins sé í samræmi við lög.

Þótt sú grundvallarregla sé ekki lögfest í stjórnsýslulögunum er það eitt meginskilyrða fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Í því felst m.a. að úrlausn stjórnsýslumáls verður að hafa þýðingu fyrir stöðu aðila að lögum en þegar tekin er afstaða til þess verður almennt að gæta töluverðrar varfærni. Þannig þyrfti t.a.m. almennt að liggja fyrir með nokkuð skýrum hætti að úrlausn ágreinings hefði ekkert raunhæft gildi fyrir viðkomandi aðila svo að unnt yrði með réttu að fullyrða að hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausninni.

Við mat á lögvörðum hagsmunum í stjórnsýslurétti verður að taka mið af þeirri sérstöku stöðu sem stjórnvöld eru í gagnvart borgurunum og þeim lagasjónarmiðum sem búa að baki skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Sé stjórnvaldsákvörðun tekin í máli aðila verður að ganga út frá því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðun æðra stjórnvalds í kærumáli á því hvort hún sé lögmæt og rétt að efni til. Þrátt fyrir það geta lögvarðir hagsmunir aðila máls liðið undir lok áður en hann kærir stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds eða undir rekstri málsins. Þegar tekin er afstaða til þess hvort þannig hátti til þarf að huga að þeim réttaröryggissjónarmiðum sem búa að baki stjórnsýslukærum og þeim úrræðum sem æðri stjórnvöld hafa í kærumálum. Þau geta, eins og segir í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, fellt ákvörðun lægra setts stjórnvalds úr gildi eða breytt henni. Sjá til hliðsjónar álit mitt frá 31. október 2013 í máli nr. 7075/2012.

Upphaf málsins má rekja til ársins 2012 þegar tryggingastofnun sendi A greiðsluáætlun fyrir það ár. A var ósátt við fjárhæð bótagreiðslnanna sem þar kom fram og kærði hana til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti ákvörðun tryggingastofnunar með úrskurði frá 3. október 2012 í máli nr. 32/2012. Í kæru til nefndarinnar hafði A einnig óskað eftir því að fá endurgreiðslur afturvirkt með vísan til þeirra rangfærslna sem hún taldi vera á útreikningi tryggingastofnunar. Í úrskurði nefndarinnar var lagt til grundvallar að greiðslur viðbótarlífeyris væru sambærilegar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Niðurstaða nefndarinnar var að „sá hluti örorkugreiðslna frá Noregi sem [A] [nyti] á grundvelli atvinnutengdra iðgjalda, þ.e. tilleggspensjon, [skertu] bótarétt hennar hér á landi lögum samkvæmt“. A mótmælti þessari forsendu þar sem hún hefði aldrei unnið á vinnumarkaði og benti á atriði sem hún taldi að sýndu að stjórnvöld hefðu metið eðli viðbótarlífeyris í Noregi með röngum hætti. Hún fór fram á endurskoðun á niðurstöðu stjórnvalda. Eins og áður segir lauk því máli með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 30. október 2013 í máli nr. 176/2013 þar sem ekki var fallist á að endurupptaka málið.

Þrátt fyrir að A hafi fengið nýja úrlausn frá tryggingastofnun þar sem tekið var tillit til breyttra forsendna fyrir árið 2014, þ.e. að hún ætti ekki lengur rétt á viðbótarlífeyri frá Noregi, stendur eftir það álitaefni hvaða áhrif þær greiðslur sem hún fékk fyrir þann tíma frá NAV áttu að hafa á fjárhæð lífeyrisgreiðslna hennar frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær greiðslur höfðu haft þau áhrif samkvæmt ákvörðun tryggingastofnunar að skerða lífeyrisgreiðslur hennar hér á landi. Það hefur aftur á móti verið afstaða A að þær ættu ekki að gera það. Þrátt fyrir að nú liggi fyrir að NAV ætli ekki að endurkrefja A um þær greiðslur sem hún fékk frá Noregi, þar sem hún hafi tekið við þeim í góðri trú, verður ekki annað séð en hún hafi jafnframt tekið við þessum greiðslum í „góðri trú“ um að þetta væru greiðslur sem hún ætti rétt á frá norska ríkinu þótt hún hefði ekki verið á vinnumarkaði í Noregi. Sé raunin sú að þessar greiðslur hafi ekki átt að skerða lífeyrisgreiðslur hér á landi fram til 1. júní 2014 þegar þeim var hætt leiðir af þeirri niðurstöðu að A kann að eiga rétt á greiðslu vangreiddra bóta, sbr. 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem eldra málið var endurupptekið og nýja málinu vísað frá hefur ekki verið leyst efnislega úr þessu álitaefni og þá miðað við þær forsendur sem liggja nú fyrir. Ég get því ekki fallist á það með nefndinni að úrlausn um það hvort greiðslurnar sem A hafði þegið frá Noregi ættu að skerða þær lífeyrisgreiðslur sem hún hafði hlotið hér á landi hafi ekki raunverulega þýðingu fyrir A og því hafi hún ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Í skýringum úrskurðarnefndarinnar til mín kemur fram að þar sem NAV hafi ákveðið að endurkrefja A ekki um þær greiðslur sem hún hafði nú þegar fengið hafi ekkert breyst síðan úrskurðað var í máli hennar vegna greiðslna fyrri ára, þ.e. forsendur útreiknings vegna greiðslna sem tryggingastofnun byggði á væru þær sömu og því væru ekki forsendur til að taka málið upp. Vegna þessa tek ég fram að ekki verður önnur ályktun dregin af gögnum málsins en að í framhaldi af bréfi setts umboðsmanns til nefndarinnar hafi hún tekið málið upp. Í úrskurðinum frá 24. september 2014 segir að úrskurðarnefndin hafi ákveðið „að endurupptaka málið“. Í samræmi við þetta hefur nýjasti úrskurður nefndarinnar í málinu sama málsnúmer og úrskurðurinn frá árinu 2012, þ.e. nr. 32/2012, en úrskurðurinn þar sem hafnað var að taka mál hennar upp hafði annað málsnúmer, þ.e. 176/2013. Ég fæ því ekki séð að þessi athugasemd nefndarinnar í skýringum til mín hafi beina þýðingu fyrir úrlausn hins endurupptekna máls, enda hafði málið verið endurupptekið.

Að virtu framangreindu er það niðurstaða mín að A hafi haft lögvarða hagsmuni af úrlausn úrskurðarnefndar almannatrygginga um það hvort þær greiðslur sem hún hafði þegið frá Noregi ættu að skerða þær lífeyrisgreiðslur sem hún hafði hlotið hér á landi. Því er það niðurstaða mín að frávísun úrskurðarnefndarinnar á málinu hafi ekki verið í samræmi við lög.

V. Niðurstaða

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli A frá 24. september 2014 hafi ekki verið í samræmi við lög.

Ég mælist til þess að úrskurðarnefndin taki mál A til nýrrar meðferðar, komi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Þá mælist ég til þess að úrskurðarnefndin hafi þessi sjónarmið framvegis í huga í störfum sínum.

VI. Viðbrögð stjórnvalda

Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf frá úrskurðanefnd velferðarmála, dags. 4. mars 2016. Nefndin hefur nú tekið yfir verkefni úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í bréfinu kemur fram að A hafi ekki óskað eftir að málið verði tekið til nýrrar meðferðar. Álitið hafi ekki orðið tilefni sérstakra viðbragða eða ráðstafana hjá úrskurðarnefnd velferðarmála en nefndin muni við meðferð mála hafa í huga þau almennu sjónarmið sem rakin eru í álitinu.