Skattar og gjöld. Bifreiðagjald. Tilkynning um eigendaskipti. Verklagsreglur. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 2131/1997)

A kvartaði yfir því að innheimtu bifreiðagjalds af bifreiðinni X vegna fyrri helmings ársins 1996 skyldi beint að honum. Bifreiðina hafði hann eignast árið 1993 en selt 28. desember 1995. Daginn eftir skilaði hann tilkynningu um eigendaskiptin á pósthús og greiddi lögboðið eigendaskiptagjald.

Umboðsmaður rakti efni 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, en samkvæmt henni er gjaldskyldan bundin við upplýsingar um eignaraðild skv. opinberri skráningu óháð því hvort henni sé í raun á þann veg háttað. Hafi eigendaskipti að bifreið ekki verið tilkynnt til skráningar á gjalddaga, hvílir gjaldskyldan þó jafnframt á hinum nýja eiganda. Hann rakti að þá er lög nr. 39/1988 öðluðust gildi hefði móttaka tilkynninga um eigendaskipti og skráning þeirra alfarið verið í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins. Hinn 1. janúar 1989 hefði hlutafélagi í eigu ríkisins, Bifreiðaskoðun Íslands hf., verið falið að annast hlutverk hins fyrrnefnda, og á sama tíma tók gildi reglugerð nr. 523/1988, um skráningu ökutækja. Skv. 1. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar er seljendum ökutækja gert að standa skil á tilkynningum en í 2. mgr. sömu greinar er að finna heimild til að fela opinberri stofnun móttöku þeirra.

Umboðsmaður vísaði til þess að í lögum um bifreiðagjald væri ekki vikið sérstaklega að þeirri aðstöðu sem uppi væri í málinu. Taldi hann þann skýringarkost nærtækastan að við þessar aðstæður yrði stöðu seljanda bifreiðar í öllu falli jafnað við það, að hann teljist ekki skráður eigandi hennar í skilningi 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 og skylda til greiðslu bifreiðagjalds skv. lögunum hvíli þar með ekki á honum. Líta yrði svo á að móttaka tilkynningar um eigendaskipti að ökutæki jafngilti áskilnaði um skráningu hennar.

Af þessari niðurstöðu leiddi að verklagsreglur fjármálaráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs, dags. 1. ágúst 1995, færu í bága við lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald.

Það var niðurstaða umboðsmanns að sá skilningur fjármálaráðuneytisins að miða gjaldskyldu seljandans alfarið við skráningu eigendaskipta í bifreiðaskrá, færi í bága við lög.

Beindi hann því þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki álagningu bifreiðagjalds við nefndar aðstæður til endurskoðunar og kæmi henni í lögmætt horf í samræmi við þau sjónarmið sem hann gerði grein fyrir. Þá mæltist hann til þess að ráðuneytið sæi til þess, óskaði A eftir endurgreiðslu hins ofgreidda fjár, að það mál fengi efnislega úrlausn í samræmi við niðurstöðu álitsins og minnti í því samhengi sérstaklega á ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

I.

Hinn 23. maí 1997 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því, að innheimtu bifreiðagjalds af bifreiðinni X vegna fyrri helmings ársins 1996 skyldi beint að honum. Bifreið þessa, sem er […] fólksbifreið, eignaðist A á árinu 1993, en seldi hana 28. desember 1995.

II.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs sérstakt gjald, bifreiðagjald, af bifreiðum, sem skráðar eru hér á landi, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Er hér um skatt að ræða og miðast hann við þyngd bifreiða. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna eru gjalddagar bifreiðagjalds tveir ár hvert, þ.e. 1. janúar vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. sömu greinar, að bifreiðagjald skuli sá greiða, sem sé skráður eigandi á gjalddaga. Hafi orðið eigendaskipti að bifreið, án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar, hvílir greiðsluskyldan þó jafnframt á hinum nýja eiganda. Þá er óheimilt samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 138/1995, að skrá eigendaskipti að bifreið nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt.

Fyrir liggur, að A framvísaði tilkynningu um framangreind eigendaskipti að bifreiðinni X á pósthúsi 29. desember 1995, daginn eftir að sala hans á bifreiðinni átti sér stað. Hafði pósthúsum landsins þá verið falið, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 523/1988, um skráningu ökutækja, að annast, í umboði Bifreiðaskoðunar Íslands h.f., móttöku á tilkynningum um eigendaskipti að bifreiðum. Formleg skráning á eigendaskiptunum í bifreiðaskrá fór hins vegar ekki fram fyrr en 2. janúar 1996. Af því leiddi, að A var skráður eigandi bifreiðarinnar, þegar álagning bifreiðagjalds vegna fyrri helmings ársins 1996, með gjalddaga 1. janúar, fór fram.

Í kvörtun kemur fram, að greiðsluseðill vegna umrædds bifreiðagjalds hafi verið sendur A í byrjun árs 1996. Hann hafi strax framsent seðilinn til hins nýja eiganda bifreiðarinnar, en ekki fengið vitneskju um vanskil og að um skuld af hans hálfu væri að ræða að mati innheimtuaðila fyrr en um það bil ári síðar. Í kjölfar þess hafi hann farið þess á leit við sýslumanninn á Selfossi í bréfi, dags. 20. janúar 1997, að innheimtu yrði beint að hinum nýja eiganda. Því erindi hafnaði sýslumaður. Segir í ódagsettu svarbréfi hans, að ekki sé unnt að beina innheimtunni að öðrum en þeim, sem álagninguna hafi hlotið. Þessari úrlausn sýslumanns skaut A til fjármálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 30. apríl 1997. Var úrlausn ráðuneytisins í málinu kynnt með bréfi þess, dags. 9. maí 1997, sem sent var eiginkonu A, en hún hafði undirritað kæruna fyrir hönd hans. Í því segir meðal annars:

„Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, er kveðið á um að skráður eigandi bifreiðar á gjalddaga bifreiðagjalds sé greiðsluskyldur. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að greiðsluskyldan hvíli einnig á nýjum eiganda bifreiðar, þrátt fyrir að eigendaskiptin hafi ekki verið tilkynnt til skráningar. Er þessu lagaákvæði ætlað að tryggja betur kröfu ríkissjóðs vegna bifreiðagjalds. Í stjórnsýslufyrirmælum er ráðuneytið sendi innheimtumönnum ríkissjóðs 1. ágúst 1995 kemur fram að heimilt sé í algerum undantekningartilvikum að beina innheimtu bifreiðagjalds að öðrum en skráðum eiganda. Telja verður að tilvik yðar falli innan þeirra marka sem ráðuneytið setti í fyrrnefndum reglum. Hins vegar er ljóst að beiðni yðar um að innheimtunni verði beint að öðrum en skráðum eiganda hefur borist allt of seint og ekki mögulegt fyrir álagningarkerfið að beina innheimtu að öðrum aðila. Beiðnin lýtur að bifreiðagjaldi sem lagt var á 1. janúar 1996. Bent skal á til áréttingar að þrátt fyrir að kröfunni yrði beint að öðrum aðila er ekki verið að fella greiðsluskylduna niður, heldur einungis verið að nýta heimild til að beina kröfunni jafnframt að öðrum aðila, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Ef hinn aðilinn greiðir ekki kröfuna yrði henni beint aftur að skráðum eiganda. Einnig stenst það ekki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að verið sé að beina innheimtu skatta að aðila rúmlega ári eftir að skatturinn gjaldfellur.

Með vísan til framansagðs [er] beiðni yðar, um að innheimtu bifreiðagjalds verði beint að öðrum en skráðum eiganda bifreiðarinnar þegar gjaldið var lagt á, synjað. Ótækt er að leggja bifreiðagjald á aðila rúmu ári eftir gjalddaga. Þar sem beiðni var ekki send um leið og gjaldið var lagt á verður ráðuneytið að synja beiðninni.“

III.

Ég ritaði fjármálaráðherra bréf 12. júní 1997 og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega óskaði ég eftir því, að fram kæmi í skýringum ráðuneytisins, á hverju það byggði þá niðurstöðu sína í framangreindum úrskurði frá 9. maí 1997, að A hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar 1. janúar 1996. Þá óskaði ég þess, að gerð yrði grein fyrir því í ljósi ákvæðis 2. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. lög nr. 138/1995, hvernig ráðuneytið teldi það fara saman, að skráning á eigendaskiptum hefði farið fram eftir áramótin 1995–1996 þrátt fyrir að gjaldfallið bifreiðagjald væri ógreitt samkvæmt skilningi ráðuneytisins.

Mér barst svarbréf fjármálaráðuneytisins 18. ágúst 1997. Í því segir meðal annars:

„Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 38/1988, um bifreiðagjald með síðari breytingum er kveðið á um að bifreiðagjald skuli sá greiða sem er skráður eigandi á gjalddaga. Samkvæmt meðfylgjandi upplýsingum úr ökutækjaskrá [...] kemur fram að [A] selur [B] bifreiðina þann 28. desember 1995 og eru eigendaskipti skráð þann 2. janúar 1996 hjá Bifreiðaskoðun þegar tilkynningin berst til þeirra með pósti. Gjalddagi bifreiðagjalda er 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Svo virðist sem [A] hafi því enn verið skráður eigandi þegar álagning bifreiðagjalds vegna fyrri hluta ársins 1996 fór fram.

Seljandi ber ábyrgð á að tilkynna eigendaskipti sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 523/1988. Í tikynningu um eigendaskipti ökutækis kemur fram í neðanmálsgrein að tilkynningu um eigendaskipti að ökutæki beri að framvísa hjá Skráningarstofunni eða á pósthúsi innan sjö daga frá eigendaskiptum. Þeir sem óski þess að eigendaskipti verði færð tafarlaust í ökutækjaskrá verði að framvísa tilkynningunni hjá Skráningarstofunni og verði að óska eftir nýju skráningarskírteini. Þá kemur einnig fram að eigendaskipti séu ekki framkvæmd nema gjaldfallin bifreiðagjöld/þungaskattur séu greidd. Það er því á ábyrgð seljanda að tilkynning um eigendaskipti berist í tæka tíð og að réttur eigandi ökutækis sé skráður á gjalddaga.

Þar sem ekki var búið að skrá eigendaskipti þegar álagning bifreiðagjalds fór fram var innheimtunni beint að seljanda bifreiðarinnar. Hefði athugasemd borist frá seljanda til innheimtumanns þegar hann fékk greiðsluseðilinn í hendur má telja líklegt að innheimtunni hefði í upphafi verið beint að kaupanda bifreiðarinnar. Er sú regla í samræmi við það sem fram kemur í dreifibréfi ráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs [...]. Þar segir að hafi sala átt sér stað á síðustu dögum fyrir gjalddaga eða á gjalddaga og tilkynning um söluna borist Bifreiðaskoðun Íslands innan sjö daga frá sölu, en þó eftir gjalddaga sé seljanda veittur stuttur frestur til að senda tilkynningu um sölu til Bifreiðaskoðunar. Hafi seljandi tilkynnt sölu innan sjö daga sé eðlilegt að fallast á kröfu hans um að innheimtu verði fremur beint að kaupanda. Hafi hann hins vegar ekki tilkynnt sölu innan sjö daga, hafi ekki verið talin ástæða til að fallast á kröfu hans um að innheimtu verði beint að kaupanda. Engar athugasemdir bárust frá seljendum fyrr en með bréfi dags. 20. janúar 1997 til sýslumannsins á Selfossi eða rúmu ári eftir að bifreiðin var seld. Taldi ráðuneytið á grundvelli ofangreindra reglna athugasemdir frá seljendum hafa borist of seint til þess að unnt væri að fallast á leiðréttingu.

Með 3. gr. laga nr. 138/1995 var gerð sú breyting á lögum um bifreiðagjald að óheimilt er að skrá eigendaskipti að bifreið hafi gjaldfallið bifreiðagjald ekki verið greitt. Í athugasemdum um 3. gr. kemur m.a. fram að tilgangur þessarar breytingar sé fyrst og fremst að tryggja betri innheimtu bifreiðagjalds og að koma í veg fyrir að kaupendur bifreiða þurfi að greiða bifreiðagjald sem lagt var á fyrri eiganda. Er markmið með breytingunum fyrst og fremst að koma í veg fyrir að eldri gjöld fylgi bifreiðum og tryggja að gjaldskyldur aðili greiði áfallin gjöld áður en eigendaskipti eru skráð. Hefði Bifreiðaskoðun Íslands í því tilviki sem hér um ræðir með réttu átt að synja um skráningu eigendaskipta sbr. 2. mgr. 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 138/1995, sem samþykkt voru í lok ársins 1995. Kunna mistökin að skýrast af því að um nýtt ákvæði í lögunum var að ræða.“

Dreifibréf það, sem vísað er til í framangreindu bréfi fjármálaráðuneytisins, er dagsett 1. ágúst 1995. Í því segir meðal annars:

„Töluvert er um að þeir aðilar, sem krafðir hafa verið um greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988, hafi leitað til ráðuneytisins og óskað, ýmist munnlega eða skriflega, eftir niðurfellingu gjaldsins eða að innheimtu verði beint gagnvart öðrum en skráðum eiganda bifreiðarinnar á gjalddaga. Hefur ráðuneytið sjálft svarað þessum erindum, enda þótt beiðni hafi að jafnaði ekki hlotið formlega afgreiðslu áður á lægra stjórnsýslustigi. Verður að telja þetta verklag að ýmsu leyti óheppilegt. [...]

Af þessum sökum telur ráðuneytið nú nauðsynlegt að breytt verði vinnutilhögun við afgreiðslu slíkra erinda. Hefur ráðuneytið ákveðið að fela innheimtumönnum ríkissjóðs framkvæmd heimildar laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, til niðurfellingar bifreiðagjalds og til að taka ákvarðanir um það, að hvaða aðila skuli beina innheimtu bifreiðagjalds. Verða því allar slíkar beiðnir er ráðuneytinu berast framsendar innheimtumönnum til afgreiðslu, hafi erindi ekki þegar hlotið formlega afgreiðslu hjá innheimtumanni.

[...]

Ráðuneytið hefur mótað verklagsreglur [...] varðandi afgreiðslu þeirra erinda sem algengast er að berist og fylgja þær bréfi þessu. Telur ráðuneytið æskilegt að innheimtumenn haldi sig sem mest við þessar verklagsreglur og stuðli þannig að því að sambærileg mál fái sem líkasta afgreiðslu hvar sem er á landinu.

Með vísan til framansagðs felur ráðuneytið hér með embætti yðar sem innheimtumanni ríkissjóðs framkvæmd heimildar í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 40. gr. laga nr. 122/1993, til endurgreiðslu, lækkunar eða niðurfellingar bifreiðagjalds. [...] Við afgreiðslu þessara erinda skal höfð hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna nr. 37/1993. Ákvörðun skal vera rökstudd og jafnframt skal tekið fram að ákvörðunin sé kæranleg til fjármálaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar.“

Dreifibréfinu fylgdu verklagsreglur „varðandi afgreiðslu nokkurra algengra tegunda beiðna um niðurfellingu/breytta innheimtu bifreiðagjalds“, dags. 1. ágúst 1995. Taka þær annars vegar til beiðna um niðurfellingu bifreiðagjalds á grundvelli heimildar í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 40. gr. laga nr. 122/1993, og 3. gr. reglugerðar nr. 381/1994, um bifreiðagjald. Lúta þessi ákvæði að heimild til endurgreiðslu, lækkunar eða niðurfellingar bifreiðagjalds af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita, svo og bifreiðum sem ekki eru í notkun eða eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Hins vegar taka verklagsreglurnar til beiðna um að innheimtu verði beint að öðrum en skráðum eiganda á gjalddaga bifreiðagjalds. Um þau tilvik segir meðal annars svo:

„Skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 skal sá greiða bifreiðagjald sem er skráður eigandi á gjalddaga. Hafi orði eigendaskipti að bifreið, án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar, hvílir greiðsluskyldan jafnframt á hinum nýja eiganda. Er þessu lagaákvæði ætlað að tryggja betur kröfu ríkissjóðs vegna bifreiðagjalds. Þannig getur innheimtumaður valið um, hvort gengið er að skráðum eiganda bifreiðar eða að kaupanda hennar, þegar bifreið hefur verið seld fyrir gjalddaga en tilkynning berst bifreiðaskrá fyrst eftir gjalddagann. Skráðir eigendur bifreiða, er selt hafa þær fyrir gjalddaga, telja oft ósanngjarnt að þeir séu krafðir um greiðslu gjaldsins, þrátt fyrir að þeir geti sýnt fram á að bifreiðin hafi verið seld fyrir gjalddaga. Er því gjarnan haldið fram að kaupandi eða bílasala hafi tekið að sér að umskrá bifreiðina. Á hitt ber að líta, að það hefur yfirleitt verulegt óhagræði í för með sér fyrir innheimtumann, sé fallist á að beina innheimtu að kaupanda. Hér má í fyrsta lagi nefna, að oft hefur innheimtumaður þegar eytt verulegum tíma í að reyna að innheimta kröfu hjá skráðum eiganda þegar fram koma upplýsingar um sölu bifreiðar. Yrði þá að byrja sama innheimtuferilinn á nýjan leik. Í öðru lagi er krafa oft verr tryggð en áður, sé fallist á að innheimta hana hjá öðrum en skráðum eiganda. Framangreind rök leiða til þeirrar niðurstöðu, að skilvirkni innheimtu minnki, sé í ríkum mæli fallist á að beina innheimtu að öðrum en skráðum eiganda.

Þó kunna atvik að vera með þeim hætti, að eðlilegt sé að beina innheimtu fremur að kaupanda en skráðum eiganda. Að mati ráðuneytisins er það einkum í eftirgreindum tilvikum sem eðlilegra er að beina innheimtu að kaupanda:

a) Er tilkynning um sölu bifreiðar hefur borist Bifreiðaskoðun Íslands hf. fyrir gjalddaga, en skráningardagur er eftir gjalddaga. [...] Í slíkum tilvikum hefur sala átt sér stað fyrir gjalddaga og kaupandi og seljandi uppfyllt öll skilyrði til að hægt sé að umskrá bifreið fyrir gjalddaga, en umskráning dregist hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf.

b) Hafi sala átt sér stað á síðustu dögum fyrir gjalddaga eða á gjalddaga og tilkynning um söluna borist Bifreiðaskoðun Íslands innan sjö daga frá sölu, en þó eftir gjalddaga. Með því er seljanda veittur stuttur frestur til að senda tilkynningu um sölu til Bifreiðaskoðunar. Hafi hann tilkynnt sölu innan sjö daga sé eðlilegt að fallast á kröfu hans um að innheimtu verði fremur beint að kaupanda. Hafi hann hins vegar ekki tilkynnt sölu innan sjö daga, hefur ekki verið talin ástæða til að fallast á kröfu hans um að innheimtu verði beint að kaupanda.

Árétta skal, að með því að beina innheimtu að öðrum en skráðum eiganda bifreiðar á gjalddaga er ekki verið að fella niður greiðsluskyldu hans, heldur er verið að nýta heimild 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Takist ekki að innheimta gjaldið hjá kaupanda bifreiðarinnar ber að snúa innheimtu að skráðum eiganda bifreiðarinnar á gjalddaga á ný. Innheimtuaðilar verða því að huga vel að því að kröfur fyrnist ekki. Ekki skal beina innheimtu að kaupanda bifreiðar eftir að fjárnámsbeiðni á hendur seljanda hefur verið send út. Verður að telja að seljandi hafi fengið nægilegt svigrúm til að óska eftir breyttri innheimtu og því ekki rétt að gera kaupanda að greiða þann kostnað sem hlotist hefur af innheimtuaðgerðum á hendur seljanda.“

Í niðurlagi verklagsreglnanna er tekið fram, að þær séu byggðar á túlkun fjármálaráðuneytisins á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og reglugerð um sama efni nr. 381/1994.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 1997, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf fjármálaráðuneytisins. Í samtali við starfsmann minn 28. maí 1998 kom fram sú afstaða A, að ekki væri ástæða til sérstakra athugasemda af hans hálfu af þessu tilefni.

Fyrir liggur, að A stóð ríkissjóði full skil á því bifreiðagjaldi, sem mál þetta snýst um, 11. mars 1998. Nam umrædd krafa ríkissjóðs þá 14.979 krónum.

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 16. júní 1998, segir:

„1.

3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, hljóðar svo:

„Bifreiðagjald skal sá greiða sem er skráður eigandi á gjalddaga. Hafi orðið eigandaskipti að bifreið án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar hvílir greiðsluskyldan jafnframt á hinum nýja eiganda.“

Samkvæmt þessu er skylda til greiðslu bifreiðagjalds aðallega felld á þann, sem á gjalddaga þess er tilgreindur eigandi bifreiðar í ökutækjaskrá. Er gjaldskyldan þannig bundin við upplýsingar um eignaraðild samkvæmt opinberri skráningu, óháð því hvort henni sé í raun þann veg háttað. Hafi eigendaskipti að bifreið ekki verið tilkynnt til skráningar á gjalddaga, hvílir gjaldskyldan þó jafnframt á hinum nýja eiganda.

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, er varð að lögum nr. 39/1988, er gerð grein fyrir tilurð frumvarpsins. Að því er varðar einstakar greinar þess segir það eitt í athugasemdunum, að þær þarfnist ekki nánari skýringa. (Alþt. 1987–1988, A-deild, bls. 3366.) Í umræðum um frumvarpið á Alþingi var ekki vikið sérstaklega að tilvitnuðu ákvæði þess.

2.

Þá er lög nr. 39/1988 öðluðust gildi 31. maí 1988, var móttaka á tilkynningum um eigendaskipti að bifreiðum og skráning þeirra alfarið í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins, sbr. reglugerð nr. 269/1988, um skráningu ökutækja. Hafði svo verið allt frá því er hafin var innheimta á bifreiðagjöldum á grundvelli I. kafla bráðabirgðalaga nr. 68/1987, um ráðstafanir í fjármálum, en 2. mgr. 3. gr. þeirra laga var samhljóða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988.

Hinn 1. janúar 1989 var hlutafélagi í eigu ríkisins, Bifreiðaskoðun Íslands, falið að annast hlutverk Bifreiðaeftirlits ríkisins samkvæmt nánari ákvörðun dómsmálaráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 62/1988, um breyting á umferðarlögum nr. 50/1987. Á sama tíma tók gildi reglugerð nr. 523/1988, um skráningu ökutækja. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. hennar skal Bifreiðaskoðun annast skráningu ökutækja. Er kveðið á um það í 1. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar, að verði eigendaskipti að ökutæki, skuli skrifleg tilkynning um þau send Bifreiðaskoðun innan sjö daga. Er seljanda ökutækis gert að standa skil á tilkynningunni. Þá er í 2. mgr. sömu greinar mælt fyrir um heimild til að fela opinberri stofnun að annast, í umboði Bifreiðaskoðunar, móttöku á tilkynningum um eigendaskipti að ökutækjum. Á grundvelli þessarar heimildar var pósthúsum landsins falið að annast umrædda þjónustu. Skráning eigendaskipta skyldi hins vegar eftir sem áður eingöngu vera í höndum Bifreiðaskoðunar Íslands hf., eða allt þar til Skráningarstofunni hf. var falið það verkefni á grundvelli 4. gr. laga nr. 48, 22. maí 1997, um breyting á umferðarlögum nr. 50/1987.

Samkvæmt framansögðu var móttaka tilkynninga um eigendaskipti að ökutækjum og skráning þeirra á sömu hendi við gildistöku laga nr. 39/1988 og þar til farið var að nýta umrædda heimild í 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 523/1988 með framangreindum hætti.

3.

Í lögum nr. 39/1988 er ekki sérstaklega vikið að þeirri aðstöðu, sem uppi er, þegar eigendaskipti hafa orðið að ökutæki og tilkynningu um þau verið komið á framfæri með lögmæltum hætti við þar til bæran aðila fyrir gjalddaga bifreiðagjalds, en formleg skráning á eigendaskiptunum í bifreiðaskrá ekki farið fram fyrr en eftir það tímamark. Svo sem fram er komið, varpa lögskýringargögn ekki ljósi á þetta álitaefni. Í ljósi þeirra orða 3. mgr. 3. gr. laganna, að við eigendaskipti, sem ekki hafa verið tilkynnt til skráningar, séu seljandi og kaupandi báðir ábyrgir fyrir greiðslu bifreiðagjalds, svo og þess, að móttaka og skráning á tilkynningum um eigendaskipti var á sömu hendi, þá er lagaákvæði um heimtu bifreiðagjalds voru sett, er sá skýringarkostur þó nærtækastur að mínu áliti, að við þessar aðstæður verði stöðu seljanda bifreiðar í öllu falli jafnað við það, að hann teljist ekki skráður eigandi hennar í skilningi tilvitnaðs ákvæðis laga nr. 39/1988 og skylda til greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögunum hvíli þar með ekki á honum. Tel ég þannig, að líta verði svo á við skýringu ákvæðisins, að móttaka tilkynningar um eigendaskipti að ökutæki jafngildi áskilnaði um skráningu hennar. Er þá enn fremur til þess að líta, að þegar atvikum er háttað á þennan veg, hefur seljandi neytt allra þeirra úrræða, sem honum eru tæk að lögum til að fá eigendaskipti skráð með lögformlegum hætti. Getur gjaldskylda ekki ráðist af því einu, að skráning á móttekinni tilkynningu um eigendaskipti, sem alfarið er í höndum hins opinbera, hafi ekki farið fram. Þá fær fyrirvari á eigendaskiptatilkynningu þess efnis, að þeir, sem óski þess, að eigendaskipti verði færð tafarlaust í ökutækjaskrá, verði að framvísa tilkynningunni hjá Bifreiðaskoðun (síðar Skráningarstofunni hf.), engu breytt við afmörkun gjaldskyldu, enda styðst fyrirvarinn að því leyti ekki við lög.

Af framangreindu leiðir, að hafi orðið eigendaskipti að ökutæki, verður innheimtu bifreiðagjalds ekki með réttu beint að seljanda, hafi viðhlítandi skil verið gerð á tilkynningu um eigendaskiptin fyrir gjalddaga þess.

Svo sem fram er komið, seldi A bifreiðina X 28. desember 1995. Daginn eftir skilaði hann tilkynningu um eigendaskipti að bifreiðinni á pósthús og greiddi lögboðið eigendaskiptagjald. Þar með hafði hann gripið til þeirra úrræða, sem honum voru tæk lögum samkvæmt til að fá eigandaskráningu að bifreiðinni breytt í ökutækjaskrá.

Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, er það niðurstaða mín, að skylda til greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988 af bifreiðinni X vegna fyrra tímabils ársins 1996, hafi ekki hvílt á A þá er sú skattkrafa ríkissjóðs stofnaðist 1. janúar það ár.

4.

Af framangreindri niðurstöðu minni leiðir, að verklagsreglur fjármálaráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs, dags. 1. ágúst 1995, fara í bága við lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald, að því marki sem þær mæla fyrir um heimild til að beina innheimtu að seljanda bifreiðar við þær aðstæður, að tilkynning um sölu bifreiðar hefur verið móttekin af þar til bærum aðila fyrir gjalddaga bifreiðagjalds. Að öðru leyti koma verklagsreglurnar ekki til sérstakrar athugunar af minni hálfu.

V.

Niðurstaða.

Það er meginniðurstaða mín samkvæmt áliti þessu, að við eigendaskipti að bifreið hvíli skylda til greiðslu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, því aðeins á seljanda hennar, að viðhlítandi skil hafi ekki verið gerð á tilkynningu um eigendaskiptin fyrir gjalddaga þess, en þeir eru tveir ár hvert, 1. janúar og 1. júlí, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sá skilningur fjármálaráðuneytisins, að miða gjaldskyldu seljandans alfarið við skráningu eigendaskipta í bifreiðaskrá, fer því í bága við lög að mínu áliti. Í ljósi þessa mælist ég til þess við fjármálaráðuneytið, að það taki álagningu bifreiðagjalds við þær aðstæður, sem að framan er lýst, til endurskoðunar og komi henni í lögmætt horf í samræmi við þau sjónarmið, sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Svo sem fram er komið, stóð A full skil á hinu umþrætta bifreiðagjaldi vegna bifreiðarinnar X 11. mars 1998. Er það samkvæmt framansögðu niðurstaða mín, að þá greiðslu hafi hann innt af hendi umfram skyldu. Það eru því tilmæli mín til fjármálaráðuneytisins, að það sjái til þess, komi fram ósk frá A um endurgreiðslu umrædds bifreiðagjalds, að það erindi fái efnislega úrlausn í samræmi við niðurstöðu þessa álits míns. Minni ég í því sambandi sérstaklega á ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.“

VI.

Með bréfi, dags. 10. maí 1999, óskaði ég eftir upplýsingum fjármálaráðherra um, hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því.

Í svari fjármálaráðuneytisins, dags. 31. maí 1999, kom fram að ráðuneytið sendi sýslumanninum á Blönduósi bréf, dags. 16. nóvember 1998, þar sem embætti sýslumanns var falið að endurgreiða A bifreiðagjald að upphæð 14.979 krónum, með vöxtum og dráttarvöxtum, fyrir fyrra gjaldtímabil ársins 1996 vegna bifreiðarinnar X.,