Málsmeðferð stjórnvalda. Varðveisla og skráning upplýsinga hjá stjórnvöldum. Valdmörk Byggðastofnunar.

(Mál nr. 633/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 26. júlí 1993.

I.

A kvartaði annars vegar yfir afskiptum Byggðastofnunar og Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar, nú hlutafjárdeildar stofnunarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1991, af sameiningu hlutafélaganna X og Y og hins vegar yfir því, að sér hefði verið sagt upp störfum hjá Z, þrátt fyrir að hann hefði þá verið 65% öryrki.

Þar sem umboðsmanni Alþingis er eingöngu ætlað að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, en ekki skiptum einkaaðila, greindi ég A frá því, að sá hluti kvörtunarinnar, er lyti að uppsögn hans hjá Z, félli utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.

II.

Í bréfi, dags. 26. júlí 1993, gerði ég A grein fyrir gagnaöflun minni í málinu. Þar sagði:

"Hinn 27. ágúst 1992 ritaði ég Byggðastofnun bréf og óskaði eftir því að mér yrðu látnar í té upplýsingar og gögn um ákvarðanir og önnur afskipti Byggðastofnunar, að því er tæki til sameiningar fyrrnefndra hlutafélaga. Mér bárust gögn málsins með bréfi Byggðastofnunar 21. september 1992. Þar kemur fram, að stjórnir hlutafélaganna hafi hinn 12. febrúar 1991 óskað eftir tiltekinni fyrirgreiðslu hjá Byggðastofnun í tengslum við fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna. Hinn 26. febrúar 1991 var erindi hlutafélaganna tekið fyrir á fundi stjórnar Byggðastofnunar og var ákveðið að veita hlutafélögunum tiltekna fyrirgreiðslu.

Í bréfi Hlutafjárdeildar Byggðastofnunar til stjórna X og Y, dags. 3. apríl 1991, segir meðal annars:

"Eins og stjórnum [X] og [Y] er kunnugt hefur Hlutafjárdeild Byggðastofnunar beitt sér fyrir sameiningu félaganna. Hlutafjárdeild telur að í sameinuðu fyrirtæki megi ná fram hagræðingu í rekstri sem yrði til að styrkja stöðu fiskvinnslu og útgerðar á báðum stöðum og bæta afkomuöryggi íbúanna. Má þar t.d. nefna sparnað í yfirstjórn, bókhaldi og stoðdeildum. Einnig verður að ætla að samrekstur geri kleift að ná nokkurri hagræðingu í útgerð og hagkvæmari vinnslu.

Í viðræðum við heimamenn hefur komið fram vilji um að vinna fyrst að sameiningu sveitarfélaganna og ná þannig aukinni samstöðu heimamanna áður en tekin er endanleg afstaða til sameiningar þessara tveggja máttarstólpa atvinnulífs á stöðunum tveimur.

Hlutafjárdeild hefur því ákveðið að fresta um sinn að beita sér fyrir sameiningu félaganna og taka þannig tillit til sjónarmiða heimamanna. Engu að síður telur deildin að sameining félaganna leiði til hagkvæmari reksturs og telur eðlilegt að möguleikar á sameiningu verði skoðaðir síðar."

Á fundi stjórnar Byggðastofnunar hinn 7. ágúst 1991 var fjallað um hugmyndir stjórna umræddra hlutafélaga um sameiningu. Í fundargerð er bókað eftirfarandi: "Stjórnin samþykkti að fela forstjóra að svara bréfinu og greina frá því að jákvætt hefði verið tekið á efni þess."

Að lokinni athugun á framangreindum upplýsingum, ritaði ég Byggðastofnun á ný bréf, dags. 26. október 1992, og óskaði eftirfarandi upplýsinga:

"1. Hvort hlutafjárdeild hafi átt kjörna menn í stjórnum framangreindra félaga og ef svo er, hverjir það hafi verið.

2. Hvern þátt Byggðastofnun og hlutafjárdeild stofnunarinnar hafi átt í því, að umrædd hlutafélög voru sameinuð."

Svör Byggðastofnunar bárust mér 4. desember 1992. Þar kom fram að stjórnarmenn, sem Hlutafjársjóður hafði tilnefnt, voru Þ í stjórn beggja félaganna og Æ í stjórn X. Svar við seinni spurningunni hljóðaði svo:

"Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvern þátt Hlutafjársjóður hafi átt í því, að umrædd hlutafélög voru sameinuð.

Skrifleg gögn hafa þegar verið send til umboðsmanns. Fulltrúar á hluthafafundum greiddu sameiningunni atkvæði Hlutafjárdeildarinnar og töluðu með málinu á fundum."

Hinn 5. janúar 1993 ritaði ég Þ bréf og óskaði upplýsinga um það, hvaða afskipti Byggðastofnun hefði haft af sameiningu umræddra hlutafélaga. Svör hans bárust mér með bréfi 22. janúar 1993. Þar segir meðal annars:

"Ég get ekki upplýst með hvaða hætti Byggðastofnun hafði afskipti af sameiningu tilgreindra félaga þar sem ég hef ekki verið starfsmaður stofnunarinnar eða haft með málefni hennar að gera.

Eins og þú hins vegar réttilega nefnir í bréfi þínu þá var ég tilnefndur í stjórn X og Y af Hlutafjársjóði Byggðastofnunar á árinu 1989.

Sem stjórnarmaður í félögunum hafði ég afskipti af málefnum félaganna hvoru um sig og gætti jafnan hagsmuna Hlutafjársjóðs sem og annarra hluthafa og almennra kröfueigenda sbr. lög um hlutafélög.

Umræður höfðu verið í gangi milli félaganna allt frá árinu 1987 um sameiningu þeirra og í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar beggja félaga með tilkomu Hlutafjársjóðs og atvinnutryggingasjóðs útflutningsgreina fór sú umræða aftur í gang þar sem framkvæmdastjórar félaganna töldu mikið hagræði vera af slíkri sameiningu.

Haft var samband við Byggðastofnun sem og aðra skuldareigendur hjá félögunum þegar unnið var í úttekt á hagkvæmni sameiningar, einnig vegna þess að semja þurfti við aðila um endurfjármögnun og skuldbreytingar.

Stjórnir félaganna töldu forsendu þess að hægt væri að sameina félögin væri sú að þeim yrði fyrir eða eftir sameiningu tryggt fjármagn til kaupa á veiðiheimildum.

Erindi voru send og barst svar frá stjórn Byggðastofnunar þess efnis að stofnunin væri tilbúin að lána félögunum samtals 50 milljónir til kaupa á bát.

Mér er ekki kunnugt að Byggðastofnun hafi að öðru leyti tekið þátt í undirbúningi að sameiningu félaganna nema ef frá er talið þátttöku í fundi sem boðað var til af hálfu stjórna félaganna þar sem fulltrúi Byggðastofnunar og fulltrúi Landsbanka Íslands mættu og svöruðu fyrirspurnum varðandi fjárhagslega aðstoð við sameiningu félaganna."

Með hliðsjón af bréfi Þ ritaði ég Byggðastofnun enn á ný bréf 2. febrúar 1993 og mæltist til þess, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að Byggðastofnun skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því leyti sem skýringar hefðu ekki þegar komið fram í bréfum stofnunarinnar. Þá óskaði ég þess sérstaklega, að gerð yrði grein fyrir því, hvaða verklagsreglum væri fylgt við skráningu og varðveislu upplýsinga um ákvarðanir í málum, sem til meðferðar Byggðastofnunar kæmu.

Svör Byggðastofnunar bárust mér með bréfi, dags. 24. mars 1993. Þar segir meðal annars:

"Kvörtun [A] er í formi almennrar fyrirspurnar sem eins og hún er orðuð felur í sér aðdróttanir í garð stofnunarinnar. Ákvarðanir sem teknar voru á hluthafafundi eða í tengslum við hann varðandi sameiningu [X] og [Y] beindust að sjálfsögðu ekki að einhverjum sérstökum aðilum, heldur voru þær teknar með hag hlutafélaganna í huga. [A] starfaði á skrifstofu [X] og mun í framhaldi af sameiningunni hafa verið sagt upp störfum. Snúist málið um uppsögn er hér um mál sem Byggðastofnun hefur engin afskipti haft af. Mannaráðningar og starfsmannahald eru í höndum stjórnar og framkvæmdastjóra viðkomandi hlutafélaga og kemur Byggðastofnun ekki við.

Almennt um þetta mál er það að segja að stjórn Byggðastofnunar tók jákvætt í sameiningu [X] og [Y] og fól mér að greina aðilum frá því. Í samræmi við þessa stjórnarsamþykkt og stefnu Byggðastofnunar í málinu greiddi síðan fulltrúi Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar atkvæði sitt með sameiningunni.

Þess er óskað að upplýst sé um verklagsreglur við skráningu og varðveislu upplýsinga um ákvarðanir í málum hjá stofnuninni.

Byggðastofnun starfar skv. lögum nr. 64/1985 og reglugerð nr. 51/1992. Þar kemur fram m.a. hvert er hlutverk stjórnar og forstjóra. Fundargerðir stjórnarfunda eru varðveittar svo og ýmsar greinargerðir starfsmanna um einstök mál þó að þær fylgi ekki fundargerðum. Umsóknir um lán og styrki eru skráðar og listar lagðir fram á stjórnarfundum. Bréf sem stofnuninni berast eru skráð og varðveitt. Afrit af bréfum frá stofnuninni eru einnig varðveitt."

III.

Í bréfi, dags. 26. júlí 1993, gerði ég A svohljóðandi grein fyrir niðurstöðum mínum í málinu.

"Samkvæmt 2. gr. laga nr. 64/1985 er hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni, meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 51/1992 um Byggðastofnun er stjórn Byggðastofnunar heimilt að breyta skilmálum eldri lána, ef það er liður í aðgerðum, sem miða að samruna fyrirtækja og öðru því sem til hagræðingar horfir.

Ráða má af bréfi Hlutafjárdeildar Byggðastofnunar 3. apríl 1991, að deildin hefur "beitt sér fyrir sameiningu" umræddra hlutafélaga. Hins vegar segir í bréfi Byggðastofnunar 4. desember 1992, að ekki sé hægt að fullyrða neitt um það, hvern þátt Hlutafjársjóður hafi átt í því, að umrædd hlutafélög voru sameinuð. Virðast engin gögn til um það hjá Byggðastofnun. Af bréfi [Þ] verður ekki séð, að Byggðastofnun hafi haft mikil afskipti af sameiningu umræddra hlutafélaga.

Af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð og hér að framan eru rakin, kemur ekki fram að Byggðastofnun hafi farið út fyrir valdmörk sín í þeim afskiptum, sem hún hafði af sameiningu [X] og [Y]. Tel ég því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þau afskipti Byggðastofnunar, sem kvörtunin beinist að.

Því er lýst í bréfi Byggðastofnunar 24. mars 1993, hvaða verklagsreglum sé fylgt við skráningu og varðveislu upplýsinga um ákvarðanir í málum hjá stofnuninni. Af því tilefni tel ég ástæðu til að mælast til þess við Byggðastofnun, að séð verði til þess, að jafnan liggi fyrir í gögnum stofnunarinnar, til hvaða aðgerða hún hefur gripið að eigin frumkvæði í einstökum málum, svo sem þegar stofnunin beitir sér fyrir sameiningu fyrirtækja."