Skattar og gjöld. Þjónustugjöld. Gatnagerðargjald. Úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins í sveitarstjórnarmálum.

(Mál nr. 2168/1997)

A kvartaði yfir ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar um álagningu B-gatnagerðargjalds vegna húseignar hans en hann taldi óheimilt að leggja á gatnagerðargjöld vegna viðhaldsverkefna með þeim rökum að gatnagerðargjald hefði ekki áður verið lagt á vegna upphaflegra framkvæmda við götuna. Þá kvartaði hann yfir bréfi félagsmálaráðuneytisins sem hann taldi ekki uppfylla skilyrði stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða.

Umboðsmaður vísaði til dóms Hæstaréttar, H 1984:573, þar sem leyst var úr svipuðu álitaefni á þá leið að álagning gatnagerðargjalds væri heimil. Vegna bréfs félagsmálaráðuneytisins ritaði umboðsmaður ráðherra og innti eftir því hvort ráðuneytið teldi sig hafa verið bært til þess að úrskurða um lögmæti álagningar gatnagerðargjalds í gildistíð laga nr. 54/1971. Ítrekaði ráðuneytið þá afstöðu sína, sem margoft áður hafði komið fram í bréfaskiptum þess og umboðsmanns vegna eldri mála, að það teldi sig ekki hafa úrskurðarvald. Vísaði umboðsmaður jafnframt til þess að hann hafi talið að ákvörðun um álagningu gatnagerðargjalda yrði skotið til ráðuneytisins til úrskurðar.

Ný lög um gatnagerðagjald nr. 17/1996 tóku gildi 1. janúar 1997. Kom fram í svari ráðuneytisins við bréfi umboðsmanns, dags. 28. ágúst 1997, að orðalag 5. gr. laga nr. 17/1996, þar sem kveðið er á um kæruheimild til félagsmálaráðherra, væri með þeim hætti, að aðili máls gæti skotið ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds til félagsmálaráðherra, hvort sem um væri að ræða álagningu skv. lögum nr. 51/1974 eða skv. lögum nr. 17/1996. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að hann fjallaði frekar um form eða efni bréfs félagsmálaráðuneytis til A.

Í framhaldi af kvörtun A ákvað umboðsmaður að kanna sérstaklega hvort vandamál þau er sköpuðust vegna meinbuga á hinum eldri lögum, hefðu verið leyst með fullnægjandi hætti með setningu laga nr. 17/1996, en í eldri álitum (sjá mál nr. 78/1989 (SUA 1992:189)) hafði sú skoðun hans, að óviðunandi óvissa ríkti um skilyrði til álagningar og innheimtu sérstaks gatnagerðargjalds skv. 3. gr. laga nr. 51/1974, komið fram.