Skattar og gjöld. Aðgangur skattyfirvalda að gögnum hjá bankastofnunum. Andmælaréttur.

(Mál nr. 2509/1998)

Kvörtun A laut að því hvort skattyfirvöldum væri heimilt á grundvelli 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að afla yfirlita frá Reiknistofu bankanna um bankareikninga, án þess að aðilum væri gert viðvart, og hvort það samrýmdist 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Umboðsmaður rakti ákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996, 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 og 36. gr. eldri laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 55/1964, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1965, en ákvæði 36. gr. laga nr. 55/1964, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar (H 1965:930), var sambærilegt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 hvað mál A snertir.

Niðurstaða umboðsmanns var að af áðurnefndum dómi og ummælum í lögskýringargögnum væri ljóst að 43. gr. laga nr. 113/1996 stæði ekki í vegi fyrir því að skattyfirvöld öfluðu upplýsinga um einstaka skattaðila frá bankastofnum í þágu skatteftirlits eða skattrannsókna, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981. Hvað varðaði andmælarétt 4. mgr. 94. gr. sagði umboðsmaður að með orðinu aðili í fyrrgreindu ákvæði væri átt við þá sem væri óskað upplýsinga hjá en ekki þá aðila sem óskað væri upplýsinga um. Andmælaréttur hafði því ekki verið brotinn á A.

Í bréfi mínu, dags. 18. ágúst 1998, sagði:

„Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. júlí 1998. Þar berið þér fram kvörtun fyrir A. Lýtur kvörtun A að því, hvort skattyfir-völdum sé heimilt á grundvelli 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að afla yfirlita frá Reiknistofu bankanna um bankareikninga, án þess að aðilum sé gert viðvart, og hvort það samrýmist 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Ákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996 er svohljóðandi:

„Bankaráðsmenn, stjórnarmenn sparisjóðs, bankastjórar endurskoðendur og aðrir starfsmenn við-skipta-banka eða spari-sjóðs eru bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna hlutaðeigandi stofnunar og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnar-skyldan helst þótt látið sé af starfi.“

Í athugasemdum með 43. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, en hún er samhljóða 43. gr. laga nr. 113/1996, segir meðal annars:

„Þá er einnig gerður sá fyrirvari að lög heimili frávik frá meginreglunni um þagnarskyldu. Dæmi slíkra lagaákvæða eru ákvæði þessa frumvarps og gildandi laga um Seðlabanka Íslands, sem heimila bankaeftirliti aðgang að upplýsingum sem það telur nauðsynlegar vegna eftir-litshlutverks síns, ákvæði skattalaga um heimildir skatt-yfirvalda í þessu sambandi [...].“ (Alþt. 1992–93, A-deild, bls. 1995.)

1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 er svohjóðandi:

„Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og er unnt að láta þeim í té. Skiptir ekki máli því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra.“

Í úrskurði sakadóms Reykjavíkur frá 19. nóvember 1965, sem var staðfestur í Hæstarétti 17. desember 1965 (Hrd. 1965:930) með vísan til forsendna hans, voru málavextir í stuttu máli þeir, að ríkisskattstjóri hafði óskað eftir upplýsingum frá Landsbanka Íslands um tiltekinn viðskiptamann á grundvelli 36. gr. þágildandi laga um tekjuskatt og eignar-skatt, laga nr. 55/1964, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1965., en 1. mgr. 36. gr. laga nr. 55/1964 var svohljóðandi:

„Allir framtalsskyldir aðilar, embættismenn og aðrir, er einhver störf hafa á hendi í almenningsþarfir, stjórnendur banka og sparisjóða, hlutafélaga og annarra félaga og stofnana, eru skyldir að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og skýrslur, er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té, svo sem skýrslur um starfslaun, skuldabréf, vaxtabréf, hlutabréf og arð, um vaxtabréf í bönkum, sparisjóðum og annað því um líkt.„

Ákvæði 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 og 1. mgr. 36. gr. laga nr. 55/1964 eru sambærileg að því er mál þetta snertir. Upptalning aðila, sem skyldir eru að láta í té upplýsingar, og talning gagna í dæmaskyni voru felldar niður með 94. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Í athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 40/1978, segir meðal annars:

„Hér er fjallað um skyldu til að gefa skattyfirvöldum upplýsingar um atriði er þau beiðast sérstaklega. Greinin svarar til 1., 3. og 4. mgr. 36. gr. gildandi laga. Eftirlitsheimildir skattstjóra gagnvart framtalsskyldum aðilum eru rýmkaðar nokkuð.“ (Alþt., 1977–78 A-deild, bls. 2581.)

Í fyrrnefndum úrskurði sakadóms Reykjavíkur segir meðal annars:

„Er ljóst að mat á því, hvort þörf sé á slíkum upplýsingum, ber undir skattyfirvöld sjálf, en eigi dómstóla, þannig að ekki er þörf dómsúrskurðar í hverju einstöku tilviki.

Ákvæðin í 36. gr. laga nr. 90/1965 eru sérákvæði, sem ganga fyrir hinu almenna ákvæði 17. gr. laga nr. 11/1961 [lög um Landsbanka Íslands] og eru auk þess yngri.“

Af fordæmi þessu og ummælum í athugasemdum við 43. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 43/1993, er ljóst, að 43. gr. laga nr. 113/1996 stendur ekki í vegi fyrir því, að skattyfirvöld afli upplýsinga um einstaka skattaðila frá bankastofnunum í þágu skatteftirlits eða skatt-rannsókna, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981.

Í kvörtun yðar segir, að „í framkvæmd virðist því andmælaréttur 4. mgr. 94. gr. ekki vera virtur". Ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 er svohljóðandi:

„Nú verður ágreiningur um skyldu aðila samkvæmt þessari grein og getur ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri ríkisins þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms.[...]“

Í framangreindu ákvæði er með orðinu aðili átt við þá, sem er óskað upplýsinga hjá, en ekki þá aðila, sem óskað er upplýsinga um. Er því ekki um að ræða að brotinn hafi verið andmælaréttur samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 á umbjóðanda yðar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að athafnir ríkisskattstjóra í máli þessu hafi verið í samræmi við lög og er því ekki tilefni til frekari afskipta af minni hálfu.“,