Skráning og meðferð persónuupplýsinga. Tölvunefnd. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 2080/1997)

A kvartaði yfir meðferð tölvunefndar á kæru fyrirtækisins vegna starfshátta Reiknistofunnar ehf., einkum því að tölvunefnd hefði ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni sem skyldi, brotið gegn rannsóknarreglu og að rökstuðningur nefndarinnar hefði verið ófullnægjandi.

Umboðsmaður rakti þau ákvæði er snerta tölvunefnd í X. kafla laga nr. 121/1989, um skerðingu og meðferð persónuupplýsinga, og fjalla um eftirlit með framkvæmd þeirra. Því næst rakti hann þær skyldur sem 10. gr. stjórnsýslulaga leggur á stjórnvald um rannsókn máls. Fyrir lægi í málinu að Reiknistofan ehf. hefði ýmist ekki svarað eða svarað með ófullnægjandi hætti fyrirspurnum tölvunefndar og með hliðsjón af lögmæltu hlutverki nefndarinnar og rannsóknarskyldu hefði hún átt að fylgja rannsókn sinni fastar eftir. Þá tók umboðsmaður fram að beiting tölvunefndar á meðalhófsreglu hefði ekki átt við, enda sé meðalhófsregla ekki sönnunarregla.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns að rökstuðningur tölvunefndar fullnægði ekki 22. gr. stjórnsýslulaga með því að ekki hefði verið vísað til þeirra réttarheimilda sem ákvörðun nefndarinnar byggðist á. Beindi hann þeim tilmælum til tölvunefndar að hún gætti þeirra sjónarmiða sem rakin hefðu verið í álitinu um rannsókn mála og rökstuðning.

I.

Hinn 4. apríl 1997 leitaði til mín B, fyrir hönd A, og kvartaði yfir meðferð tölvunefndar á kæru fyrirtækisins yfir starfsháttum Reiknistofunnar ehf. Þá kvartaði A. yfir þeirri ákvörðun tölvunefndar, að láta Reiknistofuna ehf. halda starfsleyfi sínu.

II.

1.

Samkvæmt kvörtuninni og gögnum þeim, sem henni fylgdu, er forsaga máls þessa sú, að snemma árs 1996 voru áætluð á A opinber gjöld að fjárhæð u.þ.b. 1,5 milljónir króna. A kærði álagninguna og úrskurðaði skattstjóri 7. febrúar 1996, að A skyldi greiða 314 kr. Hinn 5. mars 1996 var gert árangurslaust fjárnám hjá A vegna kröfu Gjaldheimtunnar í Reykjavík að fjárhæð tæplega 1,6 milljónir króna. Í málinu liggur fyrir bréf Gjaldheimtunnar í Reykjavík þar sem staðfest er, að fjárnámið hafi verið gert eftir að álagningin hafði verið felld niður og félagið skuldaði aðeins um 1.600 kr. Þá skuld greiddi A ásamt kostnaði 13. mars 1996. Hinn 22. apríl 1996 barst A bréf Reiknistofunnar ehf., dags. 11. apríl 1996. Þar sagði meðal annars svo:

„Samkvæmt starfsleyfi frá tölvunefnd, sbr. 15. gr. laga nr. 121/1989, gefur Reiknistofan hf út upplýsingarit, en þær upplýsingar eru jafnframt færðar á upplýsingaskrá hjá Reiknistofu bankanna, er miðlar þeim til banka og sparisjóða.

Þær upplýsingar, sem safnað er, varða:

[...]

4. Árangurslausar aðgerðir hjá sýslumönnum.

Hér með tilkynnist þér, að þær upplýsingar, sem skráðar eru við nafn þitt fyrir neðan þetta bréf, munu bætast inn á umrædda upplýsingaskrá í næstu útgáfu nema þær reynist vera rangar af einhverjum ástæðum.

Ef þú telur að svo sé ert þú vinsamlega beðinn að hafa samband við Reiknistofuna hf, [...] símar [...] bréflega eða símleiðis innan tveggja vikna frá dagsetningu þessa bréfs.

Ef Reiknistofan hf neitar að leiðrétta upplýsingar, sem þú telur rangar, getur þú borið ágreining í þeim efnum skriflega undir tölvunefnd, sem hefur aðsetur í dómsmálaráðuneytinu, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Neðangreindar upplýsingar um þig munu verða á skrá næstu fjögur árin frá dagsetningu þeirri, sem fram kemur við mál þitt.

Reiknistofa bankanna varðveitir sömu upplýsingar í fjögur ár.

[...]

[A] Árangurslaus aðgerð 5.03.96. nr. 00501. “

Hinn 3. maí 1996 ritaði A Reiknistofunni ehf. bréf. Þar segir meðal annars:

„Skýringarnar á tilkomu fjárnámsins eru vafalaust óþarfar en ég læt þær fylgja með svona til skemmtunar. Við skiluðum skattskýrslu innan frests og höfðum áætlað að borga 0 kr. í skatt. Skýrslan lenti milli laga í kerfinu og það kom áætlun upp á 1.5 milljónir sem við kærðum. Kæran var úrskurðuð á svipuðum tíma og fjárnámið var gert en úrskurðurinn var kr. 1.600 í skatt. Sextánhundruðkallinn (og kostn.) borguðum við svo átta dögum eftir 1.6 milljón króna fjárnámið. Hjá sýslumanni var fullyrt við okkur að þetta kæmi aldrei inn í vanskilaskrár og að við myndum aldrei heyra meir um þetta mál framar.

Síðan kemur bréf frá Reiknistofu hf sem er einkafyrirtæki og þá erum við vinsamlega beðnir að sýna þeim að upprunalega fjárnámið sé rangt eða hafi verið greitt upp. Hvernig fer maður að því sem ekki þekkir til? Ég, sem starfsmaður [A] hef enga reynslu í að væflast í innviðum kerfisins til að finna þá pappíra til sem þið takið góða og gilda. Engar frekari skýringar voru í bréfinu ykkar, einungis beiðni um að ég hefði samband bréflega eða símleiðis ef ég teldi að upplýsingarnar sem þið vilduð birta væru rangar. Ég hringdi og sagði að þær væru rangar og að við skulduðum ekki neitt og að það væri hægur vandi fyrir ykkur að komast að því eftir leiðum sem þið ættuð að þekkja betur en ég, enda í reglulegum tengslum við allar þessar stofnanir. Ég lagði það á mig að útskýra af hverju fjárnámið hafi verið gert og hver væri núverandi staða mála, þ.e. að við værum skuldlausir menn,–sem ég taldi að væri það sem þið vilduð vita og þá birta, eða láta vera að birta í viðkomandi skrám eftir atvikum.

Útskýringar mínar í símanum voru ekki teknar til greina (þrátt fyrir tilvísun í bréfi ykkar um að gefa ykkur upplýsingar í síma) og ég var vinsamlega beðinn um að útvega pappíra þeim til staðfestingar. Það hef ég nú gert og vona að það dugi til að fella niður nafn [A] úr tölvuskráðri vanskilaskrá og koma í veg fyrir að það lendi í prentaðri útgáfu hennar nú í maí.“

Bréfi þessu fylgdi endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík, ljósrit kvittana fyrir greiddum opinberum gjöldum og kostnaði við fjárnámið og yfirlit frá Gjaldheimtunni í Reykjavík um það að A væri skuldlaust við gjaldheimtuna. Bréf þetta fór B með á Reiknistofuna ehf. Þar kom hann að lokuðum dyrum og var svohljóðandi orðsending á hurð fyrirtækisins:

„Reiknistofan h.f.

Að gefnu tilefni vill starfsfólk Reiknistofunnar h.f. ekki taka á móti gestum. Skrifstofan er því lokuð. Notaðu póstkassann, hringdu eða skrifaðu okkur bréf. Njóttu dagsins og láttu þér líða vel.

Starfsfólk Reiknistofunnar h.f.“

B sendi því bréf sitt frá 3. maí 1996 til Reiknistofunnar ehf. í ábyrgðarbréfi. Framkvæmdastjóri Reiknistofunnar ehf. sótti bréfið hinn 13. maí 1996, en fyrir liggur, að það hafði borist 7. sama mánaðar. Í gögnum málsins kemur fram, að þrátt fyrir bréf A frá 3. maí 1996 hafi nafn fyrirtækisins verið á prentaðri vanskilaskrá, sem Reiknistofan ehf. dreifði um og upp úr miðjum maí 1996.

Hinn 7. júní 1996 ritaði A Reiknistofunni ehf. á ný bréf. Þar sagði meðal annars svo:

„Ég harma það að beiðni okkar til Reiknistofu um að svara okkur bréflega hafi ekki verið sinnt fram að þessu. Að mínu mati er það vítavert sinnuleysi Reiknistofu hf hversu treglega hefur gengið að fá svar við beiðni minni og sæmir ekki fyrirtæki sem starfar við upplýsingamiðlun. Ég vil einnig vekja athygli þína á misvísandi framkomu starfsfólks Reiknistofu þegar við höfum beðið um umrætt skýringabréf. Alltaf hefur verið vel tekið í beiðni mína í síma og sagt að bréfið mitt (frá 3. maí) sé á þínu borði og þú sért nú alveg að fara að svara því, – en aldrei kemur svarbréfið!

[...]

Ég leyfi mér að minna þig á að fjárnámið var skráð í umrædda vanskilaskrá þrátt fyrir munnlegar útskýringar okkar og mótmæli innan gefins frests og afhendingu gagna máli okkar til stuðnings í byrjun maí. Einnig þá urðum við að gjalda misvísandi framkomu starfsfólks Reiknistofu sem lofaði að skrá ekki fjárnámið eftir að málavextir höfðu verið útskýrðir og lofuðu að beðið yrði eftir gögnum. Það gekk ekki eftir og fór nafn okkar bæði í prentaða og tölvuskráða vanskilaskrá.“

Bréfi þessu var svarað með svohljóðandi bréfi Reiknistofunnar ehf., dags. 13. júní 1996:

„Erindi yðar móttekið. Leiðrétting mun eiga sér stað.“

A ritaði Reiknistofunni ehf. á ný bréf 19. júní 1996 og óskaði eftir því, að Reiknistofan ehf. sendi án tafar öllum þeim, sem hefðu fengið rangar upplýsingar um A, skriflega leiðréttingu. Þá óskaði hann eftir því, með vísan til 14. gr. laga nr. 121/1989, að A yrði tafarlaust látin í té greinargerð um það, hverjir hefðu móttekið hinar röngu upplýsingar og hverjum leiðréttingar hefðu verið sendar. Gögn málsins bera ekki með sér að þessari beiðni hafi verið svarað eða orðið við henni.

2.

Hinn 14. júní 1996 kærði A Reiknistofuna ehf. til tölvunefndar og krafðist þess að starfsleyfi fyrirtækisins yrði afturkallað. Í bréfi A til tölvunefndar segir meðal annars svo:

„[...]Ég kæri eftirfarandi atriði:

1. Að Reiknistofan ehf hafi brotið ákvæði starfsleyfis síns varðandi veittan frest til að gera athugasemd vegna birtingar upplýsinga um [A] í vanskilaskrá. Vísa ég til 3ja daga frests frá móttöku tilkynningar Reiknistofu ehf til að koma með athugasemdir. (Sjá hjál. bréf Reiknistofu barst mér í hendur þ. 22. apríl, 1996 og gaf mér frest til 25. apríl.)

2. Að Reiknistofan ehf hafi þrátt fyrir mótmæli mín og útskýringar í síma birt rangar upplýsingar um [A] í tölvutækri skrá í byrjun maí. Tel ég að Reiknistofa hafi verið komin með leiðréttingargögn frá mér í sínar hendur áður en tölvutæk útgáfa skráarinnar var send til áskrifenda.

3. Að Reiknistofan ehf hafi aftur brotið ákvæði starfsleyfis síns með birtingu upplýsinga í prentaðri skrá en Reiknistofan færði ekki inn leiðréttingar samkvæmt þessum sömu gögnum sem hún fékk í hendur í maíbyrjun. Reiknistofa prentaði og dreifði skránni með nafni [A] um og eftir miðjan maí.

4. Að Reiknistofan ehf hefur meinað mér (og reyndar öllum öðrum) aðgang að starfsstöð sinni milli kl. 09:00 og 17:00 á virkum dögum sem brýtur í bága við 5. grein starfsleyfis Reiknistofunnar ehf.[...]

5. Að Reiknistofan ehf. svarar hvorki bréfum né fyrirspurnum og forsvarsmenn fyrirtækisins neita að uppfylla upplýsingaskyldur sína skv 1. 4. og 6. grein starfsleyfis félagsins.

6. Að Reiknistofan ehf svarar ekki erindum í samræmi við lög nr 121/1989. Ég vísa til brota Reiknistofu á 14. grein sömu laga og í bréf mitt til Reiknistofunnar frá 3. maí. Því bréfi var svarað ca 40 dögum síðar og einungis eftir margítrekaðar tilraunir til að fá skrifleg viðbrögð. [...]

Jafnframt fullyrði ég að Reiknistofa hefur ekki farið eftir skyldum sínum skv. 14 grein [laga nr. 121/1989] og sent tilheyrandi leiðréttingu „án tafar öllum þeim er fengið hafa“ prentaða og tölvufærða skrá frá Reiknistofu ehf með röngum upplýsingar um [A].“

Í tilefni af kæru A ritaði tölvunefnd Reiknistofunni ehf. bréf 4. júlí 1996 og óskaði eftir því að Reiknistofan ehf. skýrði það, sem fram kæmi í bréfi A, og kæmi sjónarmiðum sínum á framfæri. Svar Reiknistofunnar ehf., dags. 22. júlí 1996, var svohljóðandi:

„Svar við bréfi tölvunefndar 4. júlí 1996 [...]

[B] fh [A] skrifar mikið og [...] segir margt. Hann er auðvitað frjáls að því, eftir stendur það var gert árangurslaust fjárnám hjá [A] og það hringir enginn til Reiknistofunnar ehf og skammast og fær niðurfellingu á þann hátt. Það þarf að senda inn gögn, er sýni „sátt“ aðila til að mál fari af skrá.

Í bréfi [A] 14. júlí 1996 segir á einum stað, að lögð hafi verið inn skilaboð á símsvara Reiknistofunnar ehf Þetta er ekki hægt, því símsvarar félagsins taka ekki á móti skilaboðum og hafa aldrei gert. Annað það sem segir í bréfi [A] má lesa með tilliti til þessa.

Reiknistofan ehf sendir Reiknistofu bankanna gögn 4x á ári, bréf fara í umferð á sama tíma og skrár ekki uppfærðar fyrr en að því loknu.

Reiknistofan ehf gefur sína skrá út 2x á ári í maí og nóv ár hvert.“

A gerði athugasemdir við bréf Reiknistofunnar ehf. með bréfi til tölvunefndar, dags. 15. ágúst 1996. Hinn 16. ágúst 1996 ritaði tölvunefnd Reiknistofunni ehf. á ný bréf. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Þar sem ekki er í svarbréfi yðar nema að takmörkuðu leyti gerð tilraun til að skýra þau atriði sem umrædd kvörtun lýtur að er hér með lagt fyrir yður að skýra þau nánar. Er þess í fyrsta lagi óskað að þér skýrið málavöxtu frá yðar bæjardyrum séð. Í öðru lagi er þess óskað að þér skýrið eftirfarandi atriði:

A. Kvörtunin lýtur m.a. að því að Reiknistofan ehf. hafi brotið ákvæði starfsleyfis síns um frest til að koma að athugasemdum vegna birtingar upplýsinga um [A] í upplýsingaskrána.

Samkvæmt 4. gr. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf. er henni óheimilt að færa nafn tiltekins aðila í upplýsingarit það sem gefið er út skv. starfsleyfinu nema honum hafi áður verið send um það tilkynning og honum gefinn kostur á að gera við það athugasemdir innan tiltekins frest sem skal að lágmarki vera tvær vikur.

Umrædd tilkynning er dags. 11. apríl 1996 og er viðkomandi gefinn tveggja vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma að athugasemdum. Af hálfu [A] er því haldið fram að umrædd tilkynning hafi ekki borist fyrr en 22. apríl. Er þess óskað að þér skýrið hvenær umrædd tilkynning var póstlögð og ef unnt er sendið gögn því til staðfestingar.

B. Kvartað er yfir að Reiknistofan ehf. hafi, þrátt fyrir mótmæli viðkomandi í síma, birt rangar upplýsingar um hann í tölvutækri skrá í byrjun maí. Kvartandi telur að Reiknistofan ehf. hafi verið komin með leiðréttingargögn í hendur áður en tölvutæk útgáfa skráarinnar var send til áskrifenda.

Er þess óskað að þér greinið frá því hvenær yður bárust athugasemdir hins skráða, hvenær leiðrétting fór fram, hvaða upplýsingar um viðkomandi Reiknistofan ehf. hafði þá látið frá sér og til hverra, hvenær það var gert og á hvaða formi.

Þá skal bent á að með tilkynningu þeirri sem Reiknistofan ehf. sendi [A] var boðið að koma athugasemdum að bréflega eða símleiðis. Í bréfi yðar, dags. [22. júlí] sl., segir hins vegar: „[...] það hringir enginn til Reiknistofunnar ehf. og skammast og fær niðurfellingu á þann hátt“. Er [...] óskað skýringa á þessu.

C. Í kvörtun [A] er fullyrt að Reiknistofan ehf. hafi aftur brotið ákvæði starfsleyfis síns með birtingu upplýsinga í prentaðri skrá þar sem hún hafi ekki fært inn leiðréttingar samkvæmt gögnum sem hún hafi fengið í hendur í maíbyrjun. Er fullyrt að Reiknistofan hf. hafi prentað og dreift skránni með nafni [A] um og eftir miðjan maí.

Er þess óskað að þér skýrið hvort rétt sé að ekki hafi verið færðar í prentaða skrá þær leiðréttingar sem þá höfðu þegar borist. Er þess óskað að gögn berist er staðfesti svar yðar, ef til eru.

D. Því er haldið fram í umræddri kvörtun að Reiknistofan ehf. meini mönnum aðgang að starfsstöð sinni milli kl. 09:00 og 17:00 á virkum dögum.

Samkvæmt 5. gr. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf. ber henni, frá þeim tíma sem hún sendir út tilkynningar þær sem greinir í 4. gr., að hafa starfsstöð sína opna frá kl. 9:00–17:00 hvern virkan dag og veita þar viðtöku kvörtunum sem berast vegna skráningarinnar. Er þess óskað að þér svarið hvort Reiknistofan ehf. brjóti framangreint ákvæði þannig að ekki sé unnt að ná sambandi við starfsmenn hennar á umræddum tíma og koma kvörtunum á framfæri.

E. Umrædd kvörtun lýtur að því að Reiknistofan ehf. svari seint og illa bréfum og fyrirspurnum og forsvarsmenn fyrirtækisins neiti að uppfylla upplýsingaskyldur sína skv. 1., 4. og 6. grein starfsleyfis félagsins.

Er óskað afstöðu yðar til þessa liðs kvörtunarinnar.

F. Í bréfi [A] kemur fram að óljóst sé hvort Reiknistofan ehf. fari að fyrirmælum 8. gr. starfsleyfis, þ.e. um að birta í upplýsingaritinu upplýsingar um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga.

Er þess óskað að þér skýrið þetta atriði.

G. Að lokum er þess óskað að þér skýrið afstöðu yðar til þess að tilgreina í þeim tilkynningum sem sendar eru út skv. 4. gr. starfsleyfisins nafn gerðarbeiðanda, hinum skráða til glöggvunar.“

Svar Reiknistofunnar ehf. við þessu bréfi tölvunefndar er dagsett 23. september 1996. Þar segir meðal annars svo:

„[A] fær sömu fyrirgreiðslu og aðrir. 11. apríl 1996 er [A] sent bréf til athugunar. Þann 13. maí 1996 sendir [A] svar með eigin rökstuðningi og aftur 14. maí 1996. Síðan berst endurrit úr gerðabók og greiðslukvittun, er dugði til að senda niðurfellingu til Reiknistofu bankanna 18. júní 1996.

Ef forráðamaður [A] hefði hagað sér með sama hætti og aðrir, sent inn gögn er sýndu að mál séu í skilum hefði hann fallið af skrá 2. maí eða 15. maí, þá voru leiðréttingar sendar til Reiknistofu bankanna.

A:

Ef tölvunefnd hefur áhuga á áreiðanleika Pósts og síma, þá er best að hafa samband við Reiknistofu bankanna, þeir setja öll bréf í póst.

B:

Skrár voru afhentar í byrjun maí áður en fullnægjandi gögn bárust frá [A]. Farið er með mál [A] skv. 11. gr. 2 mg. í starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. frá 30. mars 1995.

C:

Fyrstu dagana í maí 1996 er skrá Reiknistofunnar ehf. fullleiðrétt og prentun og dreifing hafin.

D:

Sjá bréf [C] HRL til Tölvunefndar dagsett 14. október 1993. Sjá skýrslu Rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði 24. október 1995. Niðurstöðu er enn beðið.

E:

Sjá afrit af bréfi til [A] 11. apríl 1996. Það er móttekið 13. maí 1996. Mál [A] fellur vel að lögum No. 37, 30. apríl 1993.

F:

Sjá meðfylgjandi lista yfir niðurfellingar. Sjá 3. síðasta orðið í 11. gr. 2. mg. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf.

G:

Nei, sjá 3. mg. 18. gr. laga No. 121, 28. desember 1989.“

Í bréfi C, hrl., sem vísað er til í bréfi Reiknistofunnar ehf., en dagsett er 21. október 1993, segir meðal annars svo:

„Í síma er svarað milli kl. 9.00–12.00 alla virka daga nema þegar bréf hefur verið sent í umferð, þá er svarað í síma milli kl. 9.00–12.00 og 13.00–16.00 alla virka daga á meðan álag er mikið. Þegar álag er orðið það lítið að ekki heyrist í síma langtímum saman, er tekið upp fyrra fyrirkomulag, þ.e. svarað milli kl. 9.00–12.00.

Allir geta sent inn bréflega fyrirspurn og fengið svar við henni, sé þess óskað.

Það ætti ekki að þarfnast skýringa, hversvegna þessi háttur er hafður á, er það!“

Bréfi Reiknistofunnar ehf. fylgdi einnig afrit af skýrslu Rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði, þar sem framkvæmdastjóri Reiknistofunnar ehf. kærði hótanir, sem hann kvaðst hafa orðið fyrir þann 24. október 1995.

Hinn 22. október 1996 tilkynnti tölvunefnd A, að málið hefði verið tekið til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 21. október 1996 og að gögn málsins hefðu þá verið yfirfarin. Tölvunefnd hefði hins vegar ekki talið mega ráða með óyggjandi hætti af gögnunum, að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá skilmála, sem henni væri gert að starfa eftir samkvæmt starfsleyfi hennar. Því ákvað nefndin að hafna beiðni A um að Reiknistofan ehf. yrði svipt starfsleyfi og tilkynnti A, að hún mundi ekki aðhafast frekar í málinu. Sama dag var Reiknistofunni ehf. veitt nýtt starfsleyfi til að annast söfnun og skráningu upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 15. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, en fyrra starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. var frá 30. mars 1995 og gilti til 31. desember 1996.

Hinn 25. október 1996 ritaði A tölvunefnd bréf og var óskað skýringa á niðurstöðu nefndarinnar. Þar á meðal óskaði félagið skýringa á því, af hverju A hefði ekki verið gert kleift að tjá sig um svör Reiknistofunnar ehf. og gefa frekari upplýsingar. Í bréfi til A, dags. 8. nóvember 1996, ítrekaði tölvunefnd að hún hefði lokið afgreiðslu á erindi fyrirtækisins.

Hinn 10. desember 1996 leitaði B f.h. A til mín og kvartaði meðal annars yfir því, að hann hefði ekki fengið að sjá öll gögn, sem úrskurður tölvunefndar byggðist á, og yfir rökstuðningi tölvunefndar. Í tilefni af kvörtuninni ritaði ég tölvunefnd bréf 20. desember 1996 og tjáði nefndinni, að A hefði kvartað yfir því að hafa ekki fengið afrit gagna, sem afgreiðsla tölvunefndar frá 22. október 1996 byggðist á. Því óskaði ég þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að tölvunefnd skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té gögn málsins. Tölvunefnd tilkynnti A með bréfi, dags. 23. desember 1996, að hún hefði ákveðið að taka mál fyrirtækisins upp að nýju, með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi tölvunefndar fylgdi afrit bréfs Reiknistofunnar ehf. frá 23. september 1996 og var A veittur frestur til 20. janúar 1997 til að koma að athugasemdum við efni bréfsins, áður en málið yrði tekið til ákvörðunar að nýju. Vegna þeirrar ákvörðunar tölvunefndar, að taka mál A upp að nýju, leit ég svo á, að fyrirtækið hefði fengið leiðréttingu mála sinna, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og lauk því afskiptum mínum af kvörtun þess frá 10. desember 1996 með bréfi, dags. 3. janúar 1997.

Hinn 17. janúar 1997 kom A athugasemdum sínum við bréf Reiknistofunnar ehf. frá 23. september 1996 á framfæri við tölvunefnd. Í bréfi A sagði meðal annars svo:

„[...]Með ábyrgðarbréfi J & J frá 3. maí fylgdu öll gögn sem R ehf bað um.

R ehf fékk tilkynningu frá P & S í Hfj. um þessa ábyrgðarsendingu þ. 7. maí. Á tilkynningunni [...] kemur fram nafn sendanda [A]. Starfsfólki R ehf hefur verið ljóst innihald ábyrgðarbréfsins eftir símtöl mín. Því er furðulegt að bréfið sé ekki sótt fyrr en þ. 13. maí þ.e. 6 dögum eftir að R ehf fékk tilkynninguna! [Framkvæmdastjóri Reiknistofunnar] kvittar fyrir.

[...]

Í svarbréfi sínu viðurkennir R ehf að hafa móttekið ábyrgðarbréf [A] þ. 13. maí. Ef leiðréttingar voru sendar Reiknistofu bankanna (RB) þann 15. maí þá var það gert eftir að R ehf fékk gögn sem sýndu að [A] áttu ekki heima í skránni. Þetta er skýlaust brot á starfsleyfi fyrirtækisins. Mér vitanlega var leiðrétting ekki framkvæmd fyrr en í júní lok.

[...]

Gögn sem ég hef lagt fram sýna ótvírætt að;

1) R ehf meinaði mér aðgang að starfsstöð sinni og

2) R ehf var því óheimilt að birta nafn [A] í fyrstu útgáfu tölvutækrar skrár og

3) R ehf var af sömu ástæðu óheimilt að birta nafn [A] í prentuðu skránni og

4) að R ehf felldi ekki nafn [A] út í leiðréttri skrá sem send var til RB þ. 15. maí þó gögn þar að lútandi væru sannanlega komin í hendur fyrirtækisins þ. 13. maí og tilkynning um þau í ábyrgðarpósti þ. 7. maí.“

Athugasemdum [A] fylgdi afrit úr dagbók lögreglu, dags. 6. desember 1996, þar sem staðfest var, að Reiknistofan ehf. væri lokuð. Þá fylgdu athugasemdunum útprentanir úr vanskilaskrá Íslandsbanka, dags. 14. maí 1996, þar sem skráð var árangurslaust fjárnám hjá [A] og úr vanskilaskrá Reiknistofu bankanna, dags. 10. júní 1996, þar sem hið sama kom fram.

Tölvunefnd afgreiddi erindi [A] með bréfi, dags. 4. febrúar 1997. Þar sagði meðal annars svo:

„Tölvunefnd hefur nú, á fundi sínum þann 3. þ.m., farið ítarlega yfir bréf yðar og metið efni þess. Að mati nefndarinnar einkennist bréf yðar, sem og bréf Reiknistofunnar ehf., af staðreyndaágreiningi sem ekki verður úr skorið nema með vitnaleiðslum eða öðrum sönnunaraðgerðum sem ekki verða viðhafðar að stjórnvaldi eins og Tölvunefnd.

Tölvunefnd fór á ný yfir öll gögn málsins og lagði mat á málsatvik með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr. 121/1989. Var niðurstaða nefndarinnar sú að ekkert nýtt hefði fram komið er af mætti ráða með óyggjandi hætti, að Reiknistofan ehf. hafi brotið þá skilmála sem henni er gert að starfa eftir skv. starfsleyfi sínu. Ákvað Tölvunefnd því að hafna á ný beiðni yðar um að svipta Reiknistofuna ehf. starfsleyfi sínu.

Mun Tölvunefnd ekki aðhafast frekar af tilefni máls þessa. Þetta tilkynnist yður hér með.“

A óskaði eftir því hinn 17. febrúar 1997 að tölvunefnd rökstyddi niðurstöðu sína

Í bréfi tölvunefndar, dags. 25. febrúar 1997, vísaði nefndin til fyrri rökstuðnings og tilkynnti A, að meðferð málsins væri lokið af hennar hálfu. Þá ítrekaði nefndin, að hún myndi áfram hafa virkt eftirlit með starfsemi Reiknistofunnar ehf. á sama hátt og öðrum starfsleyfishöfum.

III.

Hinn 26. júní 1997 ritaði ég tölvunefnd bréf og óskaði þess, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tölvunefnd skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem málið snertu. Ég óskaði sérstaklega eftir því að eftirfarandi yrði upplýst:

„a) Hvaða upplýsinga tölvunefnd hafi aflað í tilefni af kæru [A] 14. júní 1996 og hvort tölvunefnd hafi talið, að bréfum nefndarinnar frá 4. júlí 1996 og 16. ágúst s.á. hafi verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu Reiknistofunnar ehf., þannig að ekki hafi verið tilefni til frekari könnunar málavaxta. Jafnframt er óskað skýringa tölvunefndar á þeim ummælum í bréfi nefndarinnar 4. febrúar 1997, að um staðreyndaágreining sé að ræða, sem ekki verði skorið úr, nema með vitnaleiðslum og öðrum sönnunaraðgerðum, sem ekki verði viðhafðar af stjórnvaldi eins og tölvunefnd, og hvernig slík takmörkun samrýmist eftirlitshlutverki nefndarinnar samkvæmt X. kafla laga nr. 121/1989.

b) Hvort kæra [A] hafi gefið tilefni til athugasemda af hálfu tölvunefndar við starfshætti Reiknistofunnar ehf. og, ef svo var, hvort og með hvaða hætti þeim hafi verið komið á framfæri við Reiknistofuna ehf. Í þessu samhengi óskast upplýst, hvort tölvunefnd hafi kannað sérstaklega og tekið afstöðu til viðbragða Reiknistofunnar ehf. við málaleitunum [A] um leiðréttingu þeirrar skráningar, sem í málinu greinir.

c) Hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar og hvaða upplýsinga sé aflað við veitingu starfsleyfis af því tagi, sem um ræðir í máli þessu, meðal annars í tilefni af þeirri ákvörðun nefndarinnar, að endurnýja starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. hinn 22. október 1996.“

Í svari tölvunefndar, dags. 25. ágúst 1997, segir meðal annars svo:

„Til að skýra mál þetta sem best er rétt, áður en lengra er haldið, að fjalla stuttlega um starfsemi Reiknistofunnar ehf. og efni þeirra skilmála sem um hana gilda.

Reiknistofan ehf. starfar samkvæmt starfsleyfi Tölvunefndar við að safna og skrá upplýsingar sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögpersóna, í því skyni að miðla öðrum upplýsingum um það efni, sbr. 15. gr. laga 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Starfsemin er háð ýmsum skilmálum sem taldir eru upp í gildandi starfsleyfi hverju sinni. Hefur Tölvunefnd eftirlit með starfsemi Reiknistofunnar ehf. í samræmi við X. kafla laganna og úrskurðar í ágreiningsefnum sem tengjast þeirri starfsemi. Upphaflega var Reiknistofunni hf. veitt starfsleyfi árið 1982. Var það endurnýjað árið 1990 (bráðabirgðaleyfi var útg. 4. apríl 1990 en fullnaðarleyfi 4. september 1990) og gildistími þess ákveðinn til 31. desember 1994. Þann 30. mars 1995 var Reiknistofunni hf. veitt nýtt starfsleyfi og ýmis ný skilyrði sett um hvaða upplýsingar mætti vinna með og hvernig. Fyrst er að geta þeirrar reglu 4. gr. starfsleyfisins að ekki mætti færa nafn tiltekins aðila í upplýsingaritið nema honum hefði verið gefinn kostur á að gera við það athugasemdir innan tiltekins frests, sem skyldi að lágmarki vera tvær vikur. Í öðru lagi var það skilyrði sett í 5. gr. starfsleyfisins að frá þeim tíma er starfsleyfishafi sendi út tilkynningar þær sem greinir í 4. gr., og fram að útgáfu skrárinnar, skyldi hann hafa starfsstöð sína opna frá kl. 9:00–17:00 hvern virkan dag og veita þar viðtöku kvörtunum vegna skráningarinnar. Í þriðja lagi var sett sú regla í 10. gr. starfsleyfisins að einungis mætti skrá upplýsingar dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á stefnur ef um væri að ræða skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem næmu a.m.k. kr. 200.000,– að höfuðstól, hver skuld. Þá var sett ákvæði um að aðeins mætti skrá upplýsingar um fjárnám með árangri þegar fjárhæð fjárnámskröfu næmi a.m.k. kr. 200.000,– en öll árangurslaus fjárnám mátti skrá. Að öðru leyti mátti skrá upplýsingar um byrjun uppboðs og um töku búa til gjaldþrotaskipta. Í fjórða lagi var það nýmæli sett í 11. gr., að ef aðili, sem fengið hefði tilkynningu skv. 4. gr. starfsleyfisins, sýndi skrárhaldara fram á það með yfirlýsingu frá kröfueiganda, að hann hefði greitt kröfuna, eða henni með öðrum hætti verið komið í skil, væri óheimilt að taka/hafa nafn hans á skrá. Starfsleyfið var aftur endurnýjað þann 22. október 1996, efnislega að mestu óbreytt en nokkrar orðalagsbreytingar þó gerðar. Var gildistími þess ákveðinn til 1. júlí 1998.

[...]

Það mál sem fyrirspurn yðar lýtur að hófst með því að þann 19. júní 1996 barst Tölvunefnd kvörtun frá [A] auglýsingastofu ehf., annars vegar vegna skráningar tiltekins árangurslauss fjárnáms í upplýsingarit Reiknistofunnar ehf. og hins vegar yfir framkomu og meintum brotum Reiknistofunnar ehf. á starfsleyfisskilyrðum. Var þess krafist að umrætt starfsleyfi yrði afturkallað. Með bréfi, dags. 4. júlí sama ár, kynnti Tölvunefnd Reiknistofunni ehf. efni málsins, óskaði viðhlítandi skýringa og gaf Reiknistofunni ehf. kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í svarbréfi Reiknistofunnar ehf., dags. 22. júlí 1996, kom fram að skráð hefði verið árangurslaust fjárnám hjá [A] og að til þess að fá það afmáð nægði [A] ekki að hringja heldur þyrfti fyrirtækið að senda inn gögn sem sýndu „sátt" aðila. Þar sem önnur atriði í kvörtun [A] voru hins vegar ekki skýrð lagði Tölvunefnd fyrir Reiknistofuna ehf., með bréfi dags. 16. ágúst 1996, að veita nánari skýringar. [...]

[...]

Tölvunefnd tók kvörtun [A] til umfjöllunar á fundi sínum þann 21. október 1996 og fór yfir öll gögn málsins, þ. á m. athugasemdir frá [A], dags. 15. ágúst 1996. Sá þáttur kvörtunarinnar sem varðaði opnunartíma og símsvörun Reiknistofunnar ehf. var rannsakaður sérstaklega í því skyni að fá málið nægjanlega vel upplýst til þess að taka mætti ákvörðun í því. Af hálfu framkvæmdastjóra var ítrekað hringt til Reiknistofunnar ehf. og auk þess fóru formaður og einn nefndarmaður á starfstöð Reiknistofunnar ehf. til að kanna aðstæður þar. Þessi athugun Tölvunefndar leiddi ekki í ljós að aðstæður og umbúnaður væru með þeim hætti sem lýst var í kvörtun [A].

Við umfjöllun Tölvunefndar um þá kröfu [A] að Reiknistofan ehf. yrði svipt starfsleyfi sínu var, auk framangreinds, haft í huga annars vegar að Reiknistofan ehf. hafði þegar orðið við beiðni [A] um afmáun nafns úr upplýsingaskrá sinni og hins vegar að ekki varð með óyggjandi hætti ráðið af gögnum málsins að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá tímafresti til slíks sem henni eru settir skv. gildandi starfsleyfi. Var og höfð að leiðarljósi meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Með vísun til framangreinds taldi Tölvunefnd sig hvorki hafa haldbærar sannanir né að öðru leyti nægt tilefni til að byggja á svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem svipting starfsleyfis og lokun atvinnustarfsemi er eðli sínu samkvæmt. Ákvað hún því að synja beiðni [A] þar að lútandi og kynnti fyrirtækinu þá ákvörðun með bréfi dags. 22. október 1996.

Af tilefni fyrirspurnar yðar um hvort Tölvunefnd hafi talið að bréfum sínum frá 4. júlí 1996 og 16. ágúst s.á. hafi verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu Reiknistofunnar ehf., skal tekið fram að Tölvunefnd taldi þeim ekki hafa verið svarað af eðlilegri og sjálfsagðri kurteisi, en taldi, eins og á stóð, að slíkt gæti ekki orðið sjálfstæður grundvöllur starfsleyfissviptingar. [...]

[...]

Þann 23. desember 1996 kynnti Tölvunefnd [A] síðan þá ákvörðun sína að taka málið upp að nýju af tilefni kvörtunar hans til yðar um að hann hefði ekki fengið afrit tiltekinna gagna. Voru umbeðin gögn send honum án tafar og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við efni þeirra. Athugasemdir hans bárust Tölvunefnd með bréfi, dags. 17. janúar 1997. [...]

Á fundi sínum þann 3. febrúar 1997 fór Tölvunefnd ítarlega yfir allar athugasemdir [A], fór yfir öll gögn málsins og lagði mat á hagsmuni og málsatvik með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr. 121/1989. Varðandi ágreining aðila um einstök málsatvik taldi nefndin ekkert nýtt hafa komið fram þannig að nú mætti með óyggjandi hætti ráða að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá skilmála sem henni er gert að starfa eftir skv. gildandi starfsleyfi. Taldi nefndin enn vera til staðar ágreining um vissa málavexti sem erfitt yrði að skera úr nema með sérstökum sönnunaraðgerðum, s.s. með vitnaleiðslum sem aðeins verða viðhafðar fyrir dómi. Hins vegar þótti Tölvunefnd ekki sjálfgefið að lyktir málsins réðust einvörðungu af niðurstöðu sönnunarfærslu um þessi atriði heldur jafnframt af mati á þeim hagsmunum sem vógust á í málinu. Taldi nefndin málið nægilega vel upplýst til að hún gæti tekið í því ákvörðun og að ekki væri þörf frekari sönnunaraðgerða um framangreind atriði. Taldi nefndin sig og hafa fullnægt eftirlitshlutverki sínu, skv. X. kafla laga nr. 121/1989, m.a. með þeirri athugun sem lýst er hér að framan. Þá skoðaði nefndin þá hagsmuni sem uppi voru og vógust á í máli þessu. Varð niðurstaða hennar sú að telja hagsmuni Reiknistofunnar ehf., af því að fá að halda starfsleyfi sínu, vega þyngra en hagsmuni [A], sem hafði þá þegar fengið leiðréttingu sinna mála með afmáun nafns fyrirtækisins úr umræddri skrá, af því að fá Reiknistofuna ehf. svipta starfsleyfi sínu. Ákvað Tölvunefnd, að virtum öllum framangreindum ástæðum, að staðfesta þá ákvörðun sína að synja beiðni [A] um að svipta Reiknistofuna ehf. starfsleyfi sínu. Var [A] kynnt niðurstaða Tölvunefndar með bréfi dags. 4. febrúar 1997.

[...]

Frá því að Reiknistofan ehf. tók fyrst til starfa hafa Tölvunefnd borist fjölmargar kvartanir vegna hennar bæði frá einstaklingum og lögaðilum, flestar þó munnlega. Hafa þessar kvartanir einkum beinst að tilvist starfseminnar, að því að nafn aðila hafi án tilefnis verið fært í upplýsingaskrá Reiknistofunnar ehf., að Reiknistofan ehf. hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni í samræmi við 6. gr. starfsleyfisins, að skrifstofan sé ekki opin samkvæmt fyrirmælum starfsleyfisins eða að Reiknistofan ehf. hafi safnað upplýsingum um önnur atriði en þau sem talin eru upp í gildandi starfsleyfi. Þegar slíkar kvartanir hafa borist hefur Tölvunefnd lagt fyrir Reiknistofuna ehf. að gefa viðhlítandi skýringar og eftir atvikum að leiðrétta skrá sína. Auk slíkra almennra kvartana yfir einstökum skráningum hefur nokkuð borið á kvörtunum yfir framkomu [...] forsvarsmanns Reiknistofunnar ehf.

Segja má að almennt hafi Reiknistofan ehf. orðið nokkuð fljótt og vel við tilmælum um að gera leiðréttingar og er Tölvunefnd ekki kunnugt um að Reiknistofan ehf. hafi neitað að verða við beiðni um afmáun nafns, hafi aðili sýnt fram á með yfirlýsingu frá kröfueiganda að hann hafi greitt kröfuna eða henni hafi verið með öðrum hætti komið í skil (sbr. þó mál [H] hér að neðan). Varðandi kvartanir sem lúta að ókurteisi [...] forsvarsmanns Reiknistofunnar ehf., er hins vegar ljóst að þar hefur Tölvunefnd sýnt nokkurt langlundargeð. Hefur við afgreiðslur slíkra kvartana, eins og annarra sem tengst hafa starfsemi Reiknistofunnar ehf., verið leitast við byggja einvörðungu á málefnalegum sjónarmiðum og hlutlausu mati á aðstæðum öllum. Taka má fram að af hálfu Tölvunefndar hefur m.a. verið virt Reiknistofunni ehf. til tekna að hún hefur alla jafna orðið vel við beiðnum um leiðréttingar auk þess sem Tölvunefnd hefur reynt að sýna skilning á því oft á tíðum erfiða verkefni Reiknistofunnar ehf. að mæta þeirri óánægju og hörðu viðbrögðum sem slík starfsemi hlýtur að kalla á eðli málsins samkvæmt.

Af tilefni fyrirspurnar yðar um hvort kvörtun [A] hafi leitt til athugasemda af hálfu Tölvunefndar við starfshætti Reiknisstofunnar ehf. skal tekið fram að ekki var af tilefni kvörtunar þess ákveðið að veita Reiknistofunni ehf. sérstaka áminningu. Tölvunefnd vill hins vegar greina frá því að hún hefur af tilefni ýmissa annarra mála veitt Reiknistofunni ehf. áminningar og sérstakar aðvaranir. Til frekari glöggvunar þykir rétt að gera þeim nokkur skil hér á eftir. Þessi mál eru.

1. Kvörtun [H] [...]

2. [Kvörtun T ...]

3. [Kvörtun L ...]

Hjálögð fylgja afrit af öllum gögnum í þessum málum. Þá má, til enn frekari glöggvunar varðandi það með hvaða hætti Tölvunefnd hefur rækt eftirlitshlutverk sitt gagnvart Reiknistofunni ehf., geta nokkurra annarra mála, t.d. máls [G, S og E]. Fylgja hjálögð afrit gagna þessara mála.

[...]

Eins og fram er komið hefur Tölvunefnd, á þeim tíma sem Reiknistofan ehf. hefur starfað, haft all nokkur afskipti af starfsemi hennar. Hafa tilefni þeirra afskipta einkum verið ýmsar kvartanir, sem annars vegar hafa beinst að beinni framkvæmd starfsleyfisins, þ.e. aðferð Reiknistofunnar ehf. við skráningu fjárhagsupplýsinga og miðlun þeirra, og hins vegar að framkomu [...] forsvarsmanns fyrirtækisins. Hefur Tölvunefnd í nokkrum tilvikum beitt áminningum en enn sem komið er ekki talið nægt tilefni vera til að svipta hana starfsleyfi sínu. Afstaða Tölvunefndar hefur verið sú að svo íþyngjandi ákvörðun sem svipting starfsleyfis og lokun atvinnustarfsemi er þurfi ekki aðeins að eiga sér verulegt tilefni heldur þurfi og að vera fullreynt að önnur úrræði dugi ekki til að bæta úr vinnubrögðum og öðrum annmörkum á framferði hlutaðeigandi. Því hefur Reiknistofunni ehf. ítrekað verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt og þess jafnan gætt að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn bar til hverju sinni. Hefur þar m.a. verið tekið mið af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Vegna lokafyrirspurnar yðar um þá ákvörðun Tölvunefndar að endurnýja starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. hinn 22. október 1996, skal tekið fram að þar var m.a. til þess litið sem áður segir um hve slík starfsemi hlýtur, eðli málsins samkvæmt, oft á tíðum að kalla fram hörð viðbrögð og mikla óánægju skráðra aðila. Þegar heildstætt mat var lagt á málið, metnar innkomnar kvartanir og tilefni þeirra og tillit til þess tekið hve Reiknistofan ehf. hefur, alla jafna, orðið vel við tilmælum um að gera leiðréttingar, þóttu Tölvunefnd ekki vera næg rök til að synja beiðni Reiknistofunnar ehf. um að fá leyfið endurnýjað, en ákvað þó, í ljósi fram kominna hnökra á starfseminni, að hafa gildistíma þess aðeins tæp tvö ár í stað fjögurra, svo sem venja er. Bæði var við afgreiðslu á beiðni Reiknistofunnar ehf. um endurnýjun starfsleyfisins og við afgreiðslu þess máls sem fyrirspurn yðar lýtur að, þ.e. kvörtun og kröfu [A] um að Reiknistofan ehf. yrði svipt starfsleyfi sínu, byggt á athugun málavaxta í heild sinni þar sem Tölvunefnd reyndi, eins og endranær, að gæta meðalhófs, líta einungis málefnalegra sjónarmiða og meta á hlutlægan hátt þá hagsmuni aðila og réttindi sem í húfi voru. Því aðeins að Tölvunefnd telji fullreynt að ná megi settu marki með beitingu áminninga kann svipting starfsleyfis að reynast óhjákvæmilegt úrræði.“

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 1. október 1998, segir:

„Í máli þessu er kvartað yfir því, að tölvunefnd hafi ekki sinnt sem skyldi eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í kvörtun A kemur fram, að félagið kvartar sérstaklega yfir þrennu. Í fyrsta lagi yfir málsmeðferð og niðurstöðu tölvunefndar í tilefni af kvörtun A og þá einkum því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu. Í öðru lagi yfir því að rökstuðningur nefndarinnar hafi verið ófullnægjandi og loks því að tölvunefnd skyldi endurnýja starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. hinn 22. október 1996, þrátt fyrir kvartanir þær, sem hefðu verið bornar fram á hendur fyrirtækinu. Með hliðsjón af fyrirmælum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hef ég ákveðið að fjalla ekki sérstaklega um þessa síðastgreindu ákvörðun tölvunefndar.

1.

Ákvæði um eftirlit með framkvæmd laga nr. 121/1989 eru í X. kafla laganna. Í 31. gr. þeirra er ákvæði um hlutverk tölvunefndar. Þar segir meðal annars svo:

„Tölvunefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Nefndin hefur að eigin frumkvæði, eða eftir ábendingum frá skráðum aðilum, eftirlit með því að til skráningar sé stofnað og skrár notaðar með þeim hætti sem fyrir er mælt í lögum þessum. Tölvunefnd veitir, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, starfsleyfi, heimildir eða samþykki til einstakra athafna. Þá úrskurðar nefndin í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma.“

Í athugasemdum í greinargerð við frumvarp það, er varð að lögum nr. 121/1989, segir um þessa grein, að þarna sé annars vegar „kveðið á um eftirlit nefndarinnar að eigin frumkvæði og svo hins vegar vegna kvartana frá skráðum aðilum“. Þá segir, að þetta almenna ákvæði sé til samræmis við það hlutverk nefndarinnar samkvæmt lögunum, „að taka við kvörtunum frá skráðum aðilum og aðstoða þá við að ná fram rétti sínum ef þannig hagar til" (Alþt. 1989–1990, A-deild, bls. 655).

Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 121/1989 er ákvæði þess efnis, að tölvunefnd geti krafið skrárhaldara og þá, sem starfa á hans vegum, allra þeirra upplýsinga, sem nefndinni eru nauðsynlegar til þess að rækja hlutverk sitt.

Í 33. gr. laga nr. 121/1989 eru tölvunefnd fengnar ýmsar heimildir, telji hún skráningu eða upplýsingagjöf andstæða ákvæðum laganna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Tölvunefnd getur lagt fyrir aðila að hætta skráningu eða láta ekki öðrum í té upplýsingar úr skrám sínum eða gögnum, enda gangi skráning eða upplýsingagjöf í berhögg við ákvæði laga þessara að mati tölvunefndar. Þá getur tölvunefnd og, að sömu skilyrðum fullnægðum, mælt svo fyrir að upplýsingar í skrám verði afmáðar eða skrár í heild sinni eyðilagðar.

Tölvunefnd getur lagt fyrir skráningaraðila að afmá skráningu um einstök atriði eða leiðrétta hana, enda sé um atriði að ræða sem annaðhvort er óheimilt að taka á skrá eða tölvunefnd telur röng eða villandi.

[...]

Tölvunefnd getur, ef sérstaklega stendur á, lagt fyrir skráningaraðila að afmá upplýsingar sem vegna aldurs eða af öðrum ástæðum hafa glatað gildi sínu.

Tölvunefnd getur bannað skráningaraðila að viðhafa tiltekna aðferð við söfnun og skráningu upplýsinga og miðlun þeirra, enda telji nefndin að sú aðferð, sem viðhöfð er, hafi í för með sér verulega hættu á að skráning eða upplýsingamiðlun verði röng eða villandi. Sömu heimild hefur tölvunefnd ef hún telur hættu á að teknar verði á skrá eða miðlað verði úr skrám upplýsingum sem óheimilt er að skrá eða miðla.

Tölvunefnd getur lagt fyrir skráningaraðila að koma við sérstökum úrræðum til tryggingar því að eigi verði tekin á skrá atriði sem óheimilt er að skrá eða miðlað verði upplýsingum um slík atriði. Hinu sama gegnir um atriði sem eru röng eða villandi. Með sama hætti getur tölvunefnd lagt fyrir skráningaraðila að koma við ráðstöfunum til tryggingar því að skráðar upplýsingar verði ekki misnotaðar eða komist til vitundar óviðkomandi aðila.

Ef aðili sinnir eigi fyrirmælum tölvunefndar skv. 1.–6. mgr. þessarar greinar getur tölvunefnd afturkallað starfsleyfi, samþykki eða heimild sem hún hefur veitt samkvæmt ákvæðum laga þessara þar til úr hefur verið bætt að hennar mati með fullnægjandi hætti.“

2.

Eins og áður hefur verið rakið, var það niðurstaða tölvunefndar í tilefni af kæru A, að ekkert hefði komið fram í málinu, sem af mætti ráða með óyggjandi hætti að Reiknistofan ehf. hefði brotið lög eða ákvæði starfsleyfis. Skilja verður rökstuðning nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni og skýringar nefndarinnar til mín svo, að sú niðurstaða hennar, að ekki væri ástæða til aðgerða af hennar hálfu í máli þessu, hafi byggst á þrennu, þ.e. ágreiningi þeim, sem hafi verið um staðreyndir málsins, meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og mati á þeim hagsmunum, sem vógust á í málinu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði, að mál sé nægjanlega upplýst, áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir atvikum í hverju máli og réttarheimild þeirri, sem ákvörðun byggist á, hversu nákvæmra upplýsinga stjórnvöldum sé skylt að afla. Eitt þeirra atriða, sem þar hafa áhrif, er hvort deilt er um málsatvik, sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í slíkum tilvikum ber stjórnvöldum að rannsaka þá þætti málsins sérstaklega.

Almennt er talið, að stjórnvald geti ekki fullnægt skyldu sinni til að rannsaka mál, áður en það tekur ákvörðun í því, með því að beita sönnunarreglum eða matsreglum. Þetta er í samræmi við það, að rannsóknarreglunni er ætlað að tryggja að efnislega rétt ákvörðun verði tekin í máli. Hafi stjórnvald hins vegar reynt til þrautar að afla upplýsinga, sem skýrt gætu mál, en án árangurs, getur því verið heimilt að leysa úr málinu á grundvelli mats- eða sönnunarreglna.

Til þess að unnt væri að taka kæru A til efnislegrar úrlausnar um það, hvort brotið hefði verið gegn ákvæðum laga og starfsleyfis Reiknistofunnar ehf., varð að upplýsa málsatvik. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga er það stjórnvalds að eiga frumkvæði að því að mál sé nægilega rannsakað. Það var því hlutverk tölvunefndar að sjá til þess, að málsatvik lægju nægilega ljóst fyrir. Lög nr. 121/1989 veittu nefndinni ýmsar heimildir til þess að upplýsa málsatvik, en samkvæmt 32. gr. laganna er tölvunefnd heimilt að krefja starfsleyfishafa um allar þær upplýsingar, sem henni eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt störfum sínum. Að öðru leyti hafði nefndin einnig almennar rannsóknarheimildir í skjóli 10. gr. stjórnsýslulaga.

Bréfaskipti tölvunefndar og Reiknistofunnar ehf. hafa verið rakin hér að framan. Í bréfi sínu frá 16. ágúst 1996 ítrekaði tölvunefnd fyrri tilmæli sín um, að Reiknistofan ehf. skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Var þess óskað, að Reiknistofan skýrði sérstaklega átta tilgreind atriði. Í fyrsta lagi var óskað upplýsinga um það, hvenær tilkynning um fyrirhugaða skráningu A í skrá Reiknistofunnar ehf. hefði verið póstlögð. Í svari Reiknistofunnar ehf. frá 23. september 1996 eru engar upplýsingar um þetta atriði, en vísað er til þess að hafi tölvunefnd „áhuga á áreiðanleika Pósts og síma, þá [sé] best að hafa samband við Reiknistofu bankanna, þeir [setji] öll bréf í póst“.

Í öðru lagi var óskað upplýsinga um það, hvenær athugasemdir A hefðu borist Reiknistofunni ehf. og hvaða upplýsingum hefði þá þegar verið miðlað um A af hálfu Reiknistofunnar ehf., í hvaða formi, til hverra og hvenær það hefði verið gert. Í svari Reiknistofunnar ehf. við þessari fyrirspurn er vísað til þess að fullnægjandi gögn hefðu ekki borist frá A fyrr en eftir að skrá Reiknistofunnar ehf. var dreift. Var í svarinu vísað til 2. mgr. 11. gr. starfsleyfis félagsins, en þar er kveðið á um það, að hafi upplýsingar þegar birst í upplýsingariti, en hinn skráði sýni fram á að kröfunni hafi verið komið í skil, sé óheimilt að birta nafn hans í næstu útgáfu skrárinnar.

Í þriðja lagi óskaði tölvunefnd eftir skýringum á því, að í tilkynningu um fyrirhugaða skráningu væri mönnum boðið að koma athugasemdum að símleiðis, en hins vegar kæmi fram í bréfi Reiknistofunnar ehf. til tölvunefndar, að ekki væri unnt að fá nafn fellt af skránni með símtali. Ekki verður ráðið af gögnum málsins, að Reiknistofan ehf. hafi svarað þessari fyrirspurn.

Í fjórða lagi óskaði tölvunefnd upplýsinga um það, hvort leiðréttingar, sem borist höfðu í maíbyrjun, hefðu ekki verið færðar í prentaða skrá. Í svari Reiknistofunnar ehf. kom fram, að fyrstu dagana í maí 1996 hefði skrá Reiknistofunnar ehf. verið fullleiðrétt og prentun og dreifing hafin.

Tölvunefnd óskaði eftir því að upplýst yrði, hvort Reiknistofan ehf. færi að ákvæðum starfsleyfis síns um opnunartíma. Í svari Reiknistofunnar ehf. er vísað til bréfs C, hrl., frá árinu 1993, þar sem fram kemur, að opnunartíminn var ekki í samræmi við ákvæði starfsleyfisins. Einnig er vísað til gagna um hótanir, sem fyrirsvarsmaður Reiknistofunnar ehf. kærði til lögreglu á árinu 1995.

Þá var þess óskað, að Reiknistofan ehf. gerði grein fyrir afstöðu sinni til þeirra fullyrðinga forsvarsmanna A, að Reiknistofan ehf. svaraði seint og illa bréfum og fyrirspurnum og að forsvarsmenn félagsins neituðu að uppfylla upplýsingaskyldu sína samkvæmt starfsleyfi félagsins. Svar Reiknistofunnar ehf. við þessari fyrirspurn er svohljóðandi:

„Sjá afrit af bréfi til [A] 11. apríl 1996. Það er móttekið 13. maí 1996. Mál [A] fellur vel að lögum No. 37, 30. apríl 1993.“

Ekki verður séð að í svari þessu komi fram afstaða Reiknistofunnar ehf. til fullyrðinga forsvarsmanna [A] né fullnægjandi skýringar á umræddu atriði.

Þá óskaði tölvunefnd, í bréfi sínu frá 16. ágúst 1996, eftir því að skýrt yrði, hvort Reiknistofan ehf. færi að fyrirmælum um að birta upplýsingar um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga. Í svari sínu við þessari fyrirspurn vísaði Reiknistofan ehf. til afrits af lista yfir niðurfellingar og benti á „3. síðasta orðið í 11. gr. 2. mg. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf.“ Listinn, sem vísað er til í svarinu, er ódagsettur og þar kemur ekkert fram um það, hvort farið sé að 8. gr. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf. um að birta ákvæði 14. og 20. gr. laga nr. 121/1989 í upplýsingariti Reiknistofunnar ehf. Í 2. mgr. 11. gr. starfsleyfisins er, sem fyrr segir, ákvæði um það, að óheimilt sé að birta nafn í næstu útgáfu skrár, sýni hinn skráði fram á það, eftir að upplýsingar hafa birst, að kröfunni hafi verið komið í skil.

Loks var þess óskað í bréfi tölvunefndar, að Reiknistofan ehf. skýrði viðhorf sitt til þess, að tilgreint væri nafn gerðarbeiðanda í tilkynningum um fyrirhugaða skráningu. Í svari Reiknistofunnar ehf. er vísað í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 121/1989, en þar segir, að hinn skráði geti gert kröfu til þess að fá skrifleg svör um efni skráðra upplýsinga o.fl., en skráður aðili eigi ekki kröfu til þess að honum sé skýrt frá því, hvaðan upplýsingar séu fengnar.

Eins og hér hefur verið rakið, er ýmsum fyrirspurnum tölvunefndar í bréfi hennar frá 16. ágúst 1996 látið ósvarað í bréfi Reiknistofunnar frá 23. september 1996 og öðrum fyrirspurnum nefndarinnar svarað með ófullnægjandi hætti. Ég tel, að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, og því hlutverki tölvunefndar, að „taka við kvörtunum frá skráðum aðilum og aðstoða þá við að ná fram rétti sínum ef þannig hagar til“, hafi tölvunefnd átt að fylgja rannsókn sinni fastar eftir.

Með tilliti til þeirra skýringa, sem tölvunefnd hefur fært fram fyrir niðurstöðu sinni í máli þessu, bendi ég á, að nefndin taldi á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu, að Reiknistofan ehf. hefði ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 121/1989 né ákvæðum starfsleyfis síns. Því verður ekki séð, að málið hafi verið þannig vaxið, að mati tölvunefndar sjálfrar, að meðalhófsreglan hafi haft þýðingu við úrlausn þess. Ég tel í því sambandi ástæðu til að árétta, að meðalhófsreglan er ekki sönnunarregla, heldur felst í henni, að ekki skuli taka íþyngjandi ákvörðun, nema þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Ég árétta einnig, að með tilliti til þeirrar niðurstöðu tölvunefndar, að ekki hefði verið um að ræða brot gegn ákvæðum laga nr. 121/1989 eða starfsleyfis Reiknistofunnar ehf., verður ekki séð, að efni hafi verið til þess að meta hagsmuni þá, sem vógust á í málinu.

3.

Í kvörtun A til mín kemur fram, að félagið telji rökstuðning tölvunefndar fyrir ákvörðun nefndarinnar ófullnægjandi.

Ákvörðun tölvunefndar var kynnt A með bréfi, dags. 4. febrúar 1997. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Tölvunefnd hefur nú, á fundi sínum þann 3. þ.m., farið ítarlega yfir bréf yðar og metið efni þess. Að mati nefndarinnar einkennist bréf yðar, sem og bréf Reiknistofunnar ehf., af staðreyndaágreiningi sem ekki verður úr skorið nema með vitnaleiðslum eða öðrum sönnunaraðgerðum sem ekki verða viðhafðar af stjórnvaldi eins og Tölvunefnd.

Tölvunefnd fór á ný yfir öll gögn málsins og lagði mat á málsatvik með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr. 121/1989. Var niðurstaða nefndarinnar sú að ekkert nýtt hefði fram komið er af mætti ráða með óyggjandi hætti, að Reiknistofan ehf. hafi brotið þá skilmála sem henni er gert að starfa eftir skv. starfsleyfi sínu. Ákvað Tölvunefnd því að hafna á ný beiðni yðar um að svipta Reiknistofuna ehf. starfsleyfi sínu.“

A óskuðu eftir frekari rökstuðningi tölvunefndar með bréfi, dags. 17. febrúar 1997. Í svari nefndarinnar frá 25. febrúar 1997 var vísað til fyrri rökstuðnings og ítrekað að meðferð kærumáls A væri lokið af hálfu nefndarinnar.

Í 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvæði þess efnis, að aðili máls geti krafist rökstuðnings, hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni, er hún var tilkynnt. Stjórnvöldum er því ekki skylt að rökstyðja ákvarðanir sínar um leið og þær eru tilkynntar aðilum, en hins vegar er þeim það heimilt. Tölvunefnd bar því ekki skylda til að veita A rökstuðning um leið og ákvörðun nefndarinnar var tilkynnt félaginu, en nefndinni var það hins vegar heimilt. Hafi fullnægjandi rökstuðningur verið veittur um leið og ákvörðun er tilkynnt, er stjórnvöldum samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga ekki skylt að rökstyðja ákvörðunina frekar.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga er ákvæði um efni rökstuðnings. Það hljóðar svo:

„Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Takmarka má efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til gagna sem aðila máls er ekki heimill aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr.

Hafi stjórnsýslunefnd ekki samþykkt rökstuðning með ákvörðun sinni skal formaður færa rök fyrir henni í samræmi við 1.–3. mgr.“

Í bréfi tölvunefndar, sem rakið er hér að ofan, er ekki vísað til þeirra réttarheimilda, sem ákvörðun nefndarinnar byggist á. Aðeins er vísað til þess, að nefndin hafi lagt mat á málsatvik „með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr. 121/1989“. Fullnægir rökstuðningurinn að þessu leyti ekki 22. gr. stjórnsýslulaga. Ég tel, eins og mál þetta er vaxið, ekki ástæðu til annarra athugasemda við rökstuðning tölvunefndar. Ég hef heldur ekki séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um einstök atriði í efnislegri niðurstöðu tölvunefndar.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu eru það tilmæli mín til tölvunefndar, að nefndin gæti þeirra sjónarmiða, sem rakin hafa verið í áliti þessu um rannsókn mála og rökstuðning.“