Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ákvörðun valnefndar Lögregluskóla ríkisins verður borin undir dómsmálaráðherra.

(Mál nr. 2465/1998)

A kvartaði m.a. yfir ákvörðun valnefndar Lögregluskóla ríkisins, þar sem umsókn hans um skólavist var hafnað. Í bréfi umboðsmanns, dags. 3. júní 1998, sagði meðal annars: „Í 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um það, að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Fjallað er um Lögregluskóla ríkisins í VIII. kafla laganna. Þar segir í 1. mgr. 36. gr., að skólinn sé sjálfstæð stofnun. Ákvæði um inntöku nýnema og námstilhögun eru í 38. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar er ákvæði um það, að valnefnd velji nema í lögregluskólann úr hópi umsækjenda. Fimm menn sitji í nefndinni og sé einn þeirra tilefndur af dómsmálaráðherra, einn af ríkislögreglustjóra, einn af Sýslumannafélagi Íslands, einn af Landssambandi lögreglumanna og einn af skólastjóra lögregluskólans og sé hann formaður. Í 39. gr. laganna er dómsmálaráðherra falið að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um stjórn skólans og starfslið, inntökuskilyrði, námstilhögun og próftökur. Í 1. gr. reglugerðar nr. 490/1997, um Lögregluskóla ríkisins, er ítrekað að skólinn sé sjálfstæð stofnun, sem heyri undir dómsmálaráðherra. […] Þrátt fyrir að lögregluskólinn sé tilgreindur sem „sjálfstæð stofnun“ í lögreglulögunum, kemur fram í athugasemdum við VIII. kafla þess frumvarps, er varð að lögreglulögum nr. 90/1996, að skólinn sé „sérstök stofnun sem heyri beint undir dómsmálaráðherra […]“.“ Með vísan til 3. mgl 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, taldi umboðsmaður því ekki skilyrði fyrir því að hann fjallaði frekar um málið að svo stöddu.