Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ákvörðun læknis um að afhenda ekki sjúkraskrá lýtur eftirliti landlæknis.

(Mál nr. 2418/1998)

A kvartaði yfir því að læknar á geðdeild Landspítalans hefðu neitað sér um afrit af sjúkraskýrslum. Í bréfi umboðsmanns, dags. 17. mars 1998, sagði m.a.: „Fjallað er um aðgang að sjúkraskrám í 14. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Þar er kveðið á um það, að lækni og öðrum, sem færa sjúkraskrá, sé skylt að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans og afhenda þeim afrit skrárinnar, sé þess óskað. Þó skuli ekki sýna sjúklingi upplýsingar í sjúkraskrá, sem hafðar eru eftir öðrum en honum sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum, nema sá samþykki það, sem gaf upplýsingarnar. Landlæknir getur þó í vissum tilvikum ákveðið, að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli veittur aðgangur að slíkum upplýsingum. Í 4. mgr. 14. gr. er ákvæði þess efnis, að telji læknir það ekki þjóna hagsmunum sjúklings, að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit hennar skuli án tafar framsenda landlækni afrit hennar til frekari afgreiðslu. Landlæknir skal svo ákveða innan átta vikna, hvort viðkomandi fái afrit af skránni, og má skjóta niðurstöðu hans til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Ástæða þess, að ég rek þetta hér, er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um það, að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds, sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, fyrr en það stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ég tel því rétt, að þér óskið enn á ný eftir því við viðkomandi lækna, að þér fáið afrit skrárinnar. Telji þeir, að ekki beri að afhenda yður hana, er þeim skylt að framsenda landlækni afrit skrárinnar. Landlækni ber síðan að ákveða innan átta vikna, hvort þér fáið afrit skrárinnar. Ef þér teljið enn, að fenginni ákvörðun landlæknis og eftir atvikum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, að þér séuð beittir rangindum, er yður heimilt að leita til mín á ný.“