Stjórnsýslunefndir. Dýraverndarráð. Skipun fulltrúa í stjórnsýslunefndir. Framlenging skipunartíma.

(Mál nr. 2533/1998)

Samband dýraverndunarfélaga Íslands kvartaði yfir því að umhverfisráðherra hefði skipað fulltrúa allra tilnefningaraðila í dýraverndarráð nema fulltrúa Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, þrátt fyrir að hafa sama dag falið fráfarandi dýraverndarráði að sitja áfram og tilkynnt sambandinu það.

Í bréfi mínu, dags. 22. september 1998, sagði m.a.:

„Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd, skipar umhverfisráðherra dýraverndarráð til fjögurra ára í senn og hefur ráðið eftirlit með framkvæmd laganna. Dýraverndarráð hafði verið skipað 1. júlí 1994 og rann skipunartími þess út 1. júlí 1998. Umhverfisráðherra var því skylt í samræmi við framangreinda lagagrein að skipa dýraverndarráð á nýjan leik. Framlenging á skipunartíma fráfarandi dýraverndarráðs var einungis bráðabirgðaráðstöfun, sem haggar í engu skýru lagaákvæði um skipunartíma dýraverndarráðs.

Í öðru lagi lýtur kvörtun Sambands dýraverndunarfélaga Íslands að því, að umhverfisráðherra sé óheimilt að skipa í dýraverndarráð án lögbundinnar tilnefningar frá sambandinu. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1994 eiga fimm menn sæti í dýraverndarráði. Einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, einn af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, einn af dýralæknafélagi Íslands og einn af Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands. Umhverfisráðherra skipar einn mann í ráðið án tilnefningar og er hann jafnframt formaður þess. Vegna þess ágreinings, sem er uppi um, hver sé rétt stjórn sambandsins, var umhverfisráðherra ekki unnt að svo stöddu að skipa fulltrúa tilnefndan af sambandinu í dýraverndarráð. Eins og að ofan er rakið var skipunartími dýraverndarráðs á enda og var umhverfisráðherra því skylt að skipa ráðið á nýjan leik. Sú staðreynd, að ekki var ljóst, hver væri réttilega tilnefndur fulltrúi sambandsins haggar ekki þessari skyldu umhverfisráðherra. Tel ég því, að heimilt hafi verið að skipa í dýraverndarráð án tilnefningar frá Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég ekki ástæðu til frekari afskipta af máli þessu af minni hálfu.“