Sveitarfélög. Lausn nefndarmanns frá störfum. Umboð nefndarmanna. Stjórnarskrá.

(Mál nr. 2211/1997)

A, sem setið hafði í hafnarstjórn sveitarfélags, kvartaði yfir úrskurði félagsmálaráðuneytis þar sem ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að afturkalla umboð hafnarstjórnar og skólanefndar grunnskóla, áður en kjörtímabili þeirra var lokið, var staðfest. Umboðsmaður einskorðaði athugun sína við þann þátt kvörtunarinnar sem laut að breytingu á stöðu hennar í hafnarstjórn þar eð hún ætti ekki beina hagsmuni af því að fjallað yrði um afturköllun umboðs skólanefndarmanna.

Álitaefnið var hvort nýjum meiri hluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar var heimilt að lögum að veita nefndarmönnum lausn frá starfi og kjósa í nefndir á nýjan leik til að tryggja sér meiri hluta í þeim.

Umboðsmaður vísaði til þess að ákvörðun bæjarstjórnar hefði verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en ákvæðið svaraði því eingöngu hver væri bær að lögum til að veita nefndarmönnum lausn frá störfum. Aðrar reglur svöruðu því á hinn bóginn að hvaða skilyrðum uppfylltum það yrði gert, en slík ákvörðun yrði að samrýmast almennum reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. reglum um lögmæt og málefnaleg sjónarmið.

Umboðsmaður beitti gagnályktun frá 5. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, um stöðu nefndarmanna í nefndum sem sveitarstjórn getur kosið til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Um þá gildir að sveitarstjórn getur afturkallað umboð þeirra hvenær sem er og taldi umboðsmaður ljóst að nefndarmönnum annarra nefnda yrði ekki vikið frá með sama hætti.

Sú ákvörðun að veita hafnarstjórnarmönnum lausn frá störfum var byggð á því sjónarmiði að meiri hluti hafnarstjórnar hefði önnur stjórnmálaviðhorf en meirihluti bæjarstjórnar. Umboðsmaður rakti að sveitarstjórnarmenn væru kjörnir í almennum kosningum og sæktu umboð sitt til kjósenda. Kjörtímabil nefnda, ráða og stjórna sveitarfélagsins væru hin sömu, nema annað væri ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn, og valdahlutföll í nefndum endurspegluðu að jafnaði valdahlutföll í sveitarstjórnum. Um þá spurningu, hvort sveitarstjórnum væri heimilt að veita nefndarmönnum lausn frá störfum vegna ólíkra viðhorfa til stjórnunar sveitarfélagsins, vísaði umboðsmaður til 5. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um réttarstöðu nefndarmanna, og 2. mgr. 40. gr. um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna og dró af þeim þá ályktun að nefndarmaður væri ekki bundinn af öðru en lögum, samþykktum sveitarstjórnar og sannfæringu sinni. Vísaði umboðsmaður til 48. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína en umboð þeirra verði ekki afturkallað þótt þeir skipti um stjórnmálaflokk eða gangi gegn skoðunum flokks síns í ákveðnum málum. Taldi hann að á sama hátt væri hlutverk 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga að tryggja, að þeir, sem sitji í sveitarstjórnum eða nefndum á vegum sveitarfélaga, séu sjálfstæðir í starfi. Nefndarmönnum yrði því ekki veitt lausn frá störfum þótt skoðanir þeirra væru ekki þóknanlegar ríkjandi meiri hluta í sveitarstjórn.

Umboðsmaður taldi rétt að vekja athygli á því að sett hefðu verið ný sveitarstjórnarlög sem skv. 4. mgr. 40. gr. breyttu þessu réttarsviði.

Niðurstaða umboðsmanns var sú, að ákvörðun Hafnarfjarðarkaupstaðar um að veita A lausn frá störfum í hafnarstjórn færi í bága við fyrirmæli 5. mgr. 63. gr., sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og að sú ákvörðun hafnarstjórnar að veita A lausn frá starfi formanns hefði ekki samrýmst framangreindum lagaákvæðum.

I.

Hinn 15. ágúst 1997 leitaði til mín A og kvartaði yfir úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 21. apríl 1997, sem staðfesti þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 11. febrúar 1997, að afturkalla umboð hafnarstjórnar og skólanefndar grunnskóla, áður en kjörtímabili þeirra var lokið.

II.

Eftir bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfjarðarkaupstað árið 1994 var myndaður meiri hluti fjögurra fulltrúa Sjálfstæðisflokks og tveggja fulltrúa Alþýðubandalags. A var einn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og var hún kjörin í hafnarstjórn sem annar tveggja fulltrúa flokksins. Á fyrsta fundi hafnarstjórnar var hún kjörin formaður hennar til fjögurra ára.

Hinn 14. júní 1995 slitnaði upp úr framangreindu meirihlutasamstarfi og mynduðu tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fimm fulltrúar Alþýðuflokksins nýjan meiri hluta í bæjarstjórn. Nefndir, sem kosnar höfðu verið til fjögurra ára, störfuðu óbreyttar. Á bæjarstjórnarfundi 11. febrúar 1997 var borin fram tillaga þess efnis, að kosið yrði að nýju í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla. Tillagan hafði verið lögð fram á bæjarráðsfundi 6. febrúar 1997 og var henni mótmælt af A og B, hinum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem ekki stóð að hinum nýja meiri hluta. Um framgang tillögunnar á bæjarstjórnarfundinum segir meðal annars svo í kvörtuninni:

„Kosningar í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla fóru síðan fram á bæjarstjórnarfundinum. Þrír fulltrúar af A-lista hins nýja meirihluta bæjarstjórnar voru kjörnir í hafnarstjórn og þrír í skólanefnd grunnskóla (með 7 atkv.). Af B-lista sjálfstæðismanna var einn kjörinn í stað tveggja 1994 (með 2 atkv.) og af C-lista alþýðubandalagsmanna var einn kjörinn í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla (með 2 atkv.). Í hafnarstjórn var undirrituð kjörin [...].“

Boðað var til fundar í hinni nýkjörnu hafnarstjórn 19. febrúar 1997 og var E, fulltrúi Alþýðuflokks, kjörinn formaður samkvæmt tillögu frá bæjarstjóra.

A og B sendu stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytisins, dags. 4. mars 1997, og kröfðust þess, að hinar umdeildu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi. Í stjórnsýslukærunni segir meðal annars:

„1. Þegar nýr meirihluti tók við í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 4. júlí 1994 var kosið í hafnarstjórn og skólanefnd fyrir komandi kjörtímabil eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir.

Skv. 57. gr. 1. mgr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 kýs sveitarstjórn „menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykktum um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn“.

Á bæjarstjórnarfundi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 11. febrúar s.l. var lögð fram tillaga frá þremur bæjarfulltrúum meirihlutans um að kosið yrði á ný í hafnarstjórn og skólanefnd.

Við teljum kosningu á framangreindum bæjarstjórnarfundi hvorki samræmast lögum um grunnskóla nr. 66/1995, hafnalögum nr. 58/1981, sbr. hafnarreglugerð nr. 375/1985, með breytingum 1987, né í samræmi við 57. gr. 1. mgr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

Í 2. gr. lið 2.2. í hafnarreglugerð fyrir Hafnarfjarðarhöfn nr. 375/1985 segir að kjörtímabil hafnarstjórnar sé hið sama og bæjarstjórnar og í 57. gr. 1. mgr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er kveðið á um að kjörtímabil nefnda skuli vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórnum. Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 kveður svo á um í 13. gr. um kosningu í skólanefnd og starfshætti að skólanefnd skuli kosin í upphafi hvers kjörtímabils.

Með vísan til framanritaðs teljum við að hafnarstjórn og skólanefnd sem kjörnar voru í upphafi kjörtímabils séu rétt kjörnar til loka kjörtímabils bæjarstjórnarinnar, þar sem hvorki hafnarreglugerð né lögum um grunnskóla hefur verið breytt.“

Í úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 21. apríl 1997 segir meðal annars svo:

„Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði:

„Sveitarstjórn kýs menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn.

Sveitarstjórn hvers sveitarfélags, sem kjörin er í almennum kosningum af kjörgengum íbúum sveitarfélagsins, ber ábyrgð á því að lögskyld verkefni hennar séu rækt, sbr. 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Af þessari ábyrgð leiðir að henni ber að gæta þess að stjórnkerfi sveitar félagsins starfi með eðlilegum hætti. Í því felst m.a. að mati ráðuneytins að sveitarstjórn skuli sjá til þess að starfandi séu nefndir sem njóti trausts bæjarstjórnar hverju sinni.“

Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindu og almennum ákvæðum 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn hafi heimild til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna, sem sveitarstjórn hefur kjörið til trúnaðarstarfa á sínum vegum. Gildir það hvort sem viðkomandi nefndarmenn hafi í upphafi verið kjörnir af sveitarstjórn til fjögurra ára eða styttri tíma. Er m.a. sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn veiti kjörnum nefndarmönnum lausn frá störfum. Slíkt ákvæði væri væntanlega óþarft ef um bindandi kosningu til tiltekins tíma væri ætíð að ræða. Það er síðan í verkahring sveitarstjórnar hverju sinni að meta hvort ástæða er til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna m.a. þegar um er að ræða nefnd sem kosin er til að sinna verkefnum sem sveitarstjórnin ber ábyrgð á samkvæmt lögum.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að kosning á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 11. febrúar 1997 í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla brjóti ekki í bága við ákvæði sveitastjórnarlaga nr. 8/1986. Jafnframt telur ráðuneytið að í hafnalögum nr. 23/1994, hafnarreglugerð nr. 373/1985, eða lögum um grunnskóla nr. 66/1995 sé ekki að finna ákvæði sem breytt geti þeirri niðurstöðu.“

III.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 1997, tilkynnti ég A þá ákvörðun mína, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að afmarka athugun mína við þann þátt kvörtunarinnar, sem laut að breytingu á stöðu hennar í hafnarstjórn. Hún hafði ekki átt sæti í skólanefnd grunnskóla og átti því ekki beina hagsmuni af því að fjallað yrði um afturköllun umboðs skólanefndarmanna. Sama dag ritaði ég bréf til félagsmálaráðherra og bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar og óskaði eftir því, viðhorfum þeirra til kvörtunarinnar og afhendingu gagna, er málið snertu, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997. Bæjarstjórnin var auk þess sérstaklega innt eftir skýringum á því, hvers vegna ákveðið var að kjósa í hafnarstjórn að nýju.

Með svarbréfi bæjarstjórnar, dags. 11. september 1997, bárust umbeðin gögn. Í bréfinu segir meðal annars:

„Ákveðið var að að kjósa í hafnarstjórn að nýju hinn 11. febrúar sl. vegna „meirihlutaskipta“ þá áður í bæjarstjórn.

Heimildin fyrir þeirri ákvörðun var byggð á 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 eins og félagsmálaráðuneytið túlkar hana í úrskurði dags. 21. nóvember 1996 í sams konar máli er varðar Húsavíkurkaupstað og bréfi félagsmálaráðuneytisins til bæjarstjóra Hafnarfjarðar dagsett 4. febrúar sl.

Ákvörðunin um kosninguna var því tekin að fengnu áliti ráðuneytisins og á sér stoð í almennum ákvæðum nefndrar lagareglu sveitarstjórnarlaga eins og ráðuneytið túlkar það og ráðuneytið staðfesti síðan með úrskurði sínum dags. 21. apríl 1997 í þessu máli. Vísast til úrskurðanna tveggja.“

Með svarbréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 15. september 1997, bárust umbeðin gögn. Í bréfinu segir meðal annars:

„Hvað varðar efni þess þáttar kvörtunarinnar, sem þér hafið ákveðið að takmarka yður við, vill ráðuneytið fyrst og fremst vísa til röksemdafærslu í fyrrgreindum úrskurði. Jafnframt vill ráðuneytið bæta við að samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er það sveitarstjórn sem fer með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga og annarra laga. Það er því sveitarstjórn sem ber ábyrgð á að stjórnkerfi sveitarfélagsins starfi með eðlilegum og skilvirkum hætti, meðal annars að nefndir sem starfa í umboði sveitarstjórnarinnar njóti trausts hennar.

Í sveitarstjórnum á Íslandi eru ýmis dæmi um að valdahlutföll breytist á fjögurra ára kjörtímabili þeirra. Ef túlkun sveitarstjórnarlaga væri með þeim hætti að ekki mætti hrófla við þeim einstaklingum sem sitja í nefndum sem starfa í umboði sveitarstjórnar, gæti skapast óviðunandi staða í stjórnsýslu sveitarfélagsins þar sem nefndir og sveitarstjórn yrðu sífellt á öndverðum meiði, en slíkt getur leitt til mikillar óskilvirkni. Rétt er þó að taka fram að ekki er sjálfgefið að slík staða komi upp er valdahlutföll breytast. Í flestum tilfellum sér nýr „meirihluti“ í sveitarstjórn ekki ástæðu til að breyta skipan fulltrúa í nefndum. Hins vegar telur ráðuneytið að mat á þörf fyrir að skipta út einstaklingum í nefndum sé alfarið í höndum sveitarstjórnarinnar sjálfrar, sbr. einnig ákvæði 1. mgr. 1. gr. sveitastjórnarlaga og 78. gr.stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Telur ráðuneytið í þessum efnum hagsmuni sveitarfélagsins af því að stjórnkerfið starfi með eðlilegum og skilvirkum hætti standi framar persónulegum hagsmunum tiltekinna einstaklinga af því að sitja í nefndum sem starfa í umboði sveitarstjórna“

Með bréfi, dags. 17. september 1997, gaf ég A kost á að koma á framfæri athugasemdum við svarbréf ráðuneytisins og bæjarstjórnar. Í bréfi hennar, dags. 22. september 1997, segir meðal annars:

„Það er skoðun mín að með kosningu nefnda skv. sérstökum lögum eða reglugerðum fari með öðrum hætti en sérstakra starfsnefnda sem sveitarstjórn ákveður sjálf og samkvæmt sérstakri samþykkt. Sama gildir hér um nefndir sem Alþingi kýs skv. sérstökum lögum og starfsnefndir sem skipaðar eru af framkvæmdarvaldinu. Njóti nefndarmaður eða skipaður formaður nefndar sem Alþingi hefur kosið til ákveðins tíma skv. lögum ekki lengur trausts eða trúnaðar framkvæmdarvaldsins vegna þess að nýr stjórnarmeirihluti hefur myndast á Alþingi og ný ríkisstjórn sest að völdum verður nefndarmanni ekki vikið úr starfi fyrr en kjörtímabili hans er lokið, nema til komi sérstök lagabreyting sem breytir þar um.“

IV.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 4. september 1998, segir:

„1.

Eins og að framan er rakið, varð breyting á bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þegar tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mynduðu nýjan meiri hluta með fulltrúum Alþýðuflokksins. Finna má nokkur dæmi þess, að meirihlutaskipti hafi orðið í sveitarstjórnum á miðju kjörtímabili. Yfirleitt eru atvik þá með þeim hætti, að slitnar upp úr samstarfi þeirra flokka, sem að meiri hluta standa, og einhver flokkanna, sem að meiri hlutanum stóð, tekur höndum saman við „stjórnarandstöðuna” og myndar nýjan meiri hluta. Þegar svo háttar, er líklegt, að hinn nýi meiri hluti hafi ráðandi stöðu í nefndum á vegum sveitarstjórnar, enda er skipan þeirra almennt í samræmi við valdahlutföllin í bæjarstjórn. Málið horfir öðru vísi við, þegar atvik eru eins og í þessu máli, þar sem tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mynduðu hinn nýja meiri hluta en aðrir fulltrúar flokksins voru í „stjórnarandstöðu“. Álitaefnið hér er, hvort hinum nýja meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi verið heimilt að lögum, að veita nefndarmönnum lausn frá starfi og kjósa í nefndir á nýjan leik til að tryggja sér meiri hluta í þeim.

Ákvörðun sú, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar tók um að veita stjórnarmönnum í hafnarstjórn lausn frá starfi, var byggð á 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sveitarstjórn kýs menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og sveitarstjórna nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn.“

Samkvæmt grein þessari heyrir það undir sveitarstjórn að veita nefndarmönnum lausn frá störfum. Ákvæðið svarar því eingöngu, hver sé bær að lögum til að veita nefndarmönnum lausn frá störfum. Aðrar reglur svara því á hinn bóginn, að hvaða skilyrðum uppfylltum það verði gert. Sveitarstjórn hefur því ekki óbundnar hendur við að veita nefndarmönnum lausn frá störfum. Slík ráðstöfun verður að samrýmast almennum reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. reglum um, að stjórnvaldsákvarðanir skuli byggjast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að staða nefndarmanna í nefndum, sem sveitarstjórn getur kosið til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum skv. 5. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga, er ekki sambærileg að þessu leyti. Í 5. mgr. 57. gr. segir, að sveitarstjórn geti afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er. Samkvæmt gagnályktun frá þessu lagaákvæði er ljóst, að sveitarstjórn hefur ekki heimild til að víkja nefndarmönnum annarra nefnda frá störfum á þessum grundvelli. Hafnarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem A átti sæti í, starfar á grundvelli hafnalaga nr. 23/1994 og reglugerðar nr. 375/1985, um Hafnarfjarðarhöfn, og fellur því ekki undir ákvæði 5. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga.

Óumdeilt er, að veruleg brot nefndarmanns á starfsskyldum sínum geta réttlætt, að sveitarstjórn veiti honum lausn frá störfum. Í bréfi, dags. 21. nóvember 1996, rituðu í tilefni af meirihlutaskiptum í bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar, vitnar félagsmálaráðuneytið til úrskurðar ráðuneytisins frá 28. september 1988 og segir, að í sumum tilvikum geti sveitarstjórn verið skylt að afturkalla umboð nefnda. Ég árétta, að atvik í því máli eru engan veginn sambærileg við það, sem hér er til athugunar. Þar var því haldið fram, að hafnarstjórn hefði um langt skeið vanrækt að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í þessu máli hefur því á hinn bóginn ekki verið haldið fram, að A eða aðrir stjórnarmenn hafi á nokkurn hátt brotið gegn starfsskyldum sínum.

Þá kemur til athugunar, hvaða sjónarmið lágu að baki því, að hafnarstjórnarmönnum var veitt lausn frá störfum og kosið var í hafnarstjórn að nýju. Í bréfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar til mín, dags. 11. september 1997, kemur fram, að ástæðan fyrir þessari ákvörðun hafi verið sú, að meirihlutaskipti höfðu átt sér stað í bæjarstjórn. Hér að framan hefur verið lýst aðstæðum við meirihlutaskiptin í bæjarstjórn og að hvaða leyti þær voru frábrugðnar því, sem yfirleitt gerist við meirihlutaskipti á miðju kjörtímabili. Geti slík afstaða haft í för með sér, að ekki sé víst að nýi meiri hlutinn sé í meirihluta í nefndum. Af því er ljóst, að tilgangur margnefndrar ákvörðunar bæjarstjórnar var að tryggja hinum nýja meiri hluta bæjarstjórnar meiri hluta í hafnarstjórn. Sú ákvörðun, að veita hafnarstjórnarmönnum lausn frá störfum, var þess vegna byggð á því sjónarmiði, að meiri hluti hafnarstjórnar hefði önnur stjórnmálaviðhorf en meiri hluti bæjarstjórnar.

Sveitarstjórnarmenn eru kosnir í almennum kosningum og sækja umboð sitt til kjósenda. Sveitarstjórn kýs menn síðan í nefndir, ráð og stjórnir sveitarfélagsins til þess að fara með ákveðna málaflokka. Kjörtímabil slíkra nefnda er hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar, nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn. Þar sem slíkar kosningar í stærri sveitarfélögum eru almennt bundnar hlutfallskosningar, endurspegla valdahlutföll milli stjórnmálaflokka í nefndum yfirleitt þau valdahlutföll, sem ríkja í sveitarstjórn, enda er val nefndarmanna byggt á stjórnmálalegum viðhorfum.

Kemur þá næst til athugunar, hvort sveitarstjórn sé einnig heimilt skv. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, að veita nefndarmönnum lausn frá störfum vegna ólíkra viðhorfa til stjórnunar sveitarfélagsins.

Í 5. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um réttarstöðu nefndarmanna. Þar segir: „Ákvæði IV. og V. kafla laga þessara gilda að öðru leyti um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags, eftir því sem við á.“ Í IV. kafla laganna, sem fjallar um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna, er meðal annars svohljóðandi ákvæði í 2. mgr. 40. gr.:

„Sveitarstjórnarmaður er einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi.“

Vegna fyrirmæla 5. mgr. 63. gr. verður að telja, að ákvæði 2. mgr. 40. gr. gildi einnig um um þá, sem sæti eiga í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarstjórna. Af 2. mgr. 40. gr. leiðir, að nefndarmaður er ekki bundinn af öðru en lögum, samþykktum sveitarstjórnar og sannfæringu sinni. Af ákvæði þessu og 5. mgr. 63. gr. leiðir, að sveitarstjórnarmenn og nefndarmenn eru, þegar lögum og lögmætum fyrirmælum sveitarstjórnar sleppir, einungis bundir af sannfæringu sinni, þ. m. t. stjórnmálaskoðunum sínum.

Þótt ekkert sé vikið að efni 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga í lögskýringargögnum, tel ég, að ákvæðið byggist öðrum þræði á svipuðum viðhorfum og 48. gr. laga nr. 33/1944, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sem kveður svo á, að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína en eigi við neinar reglur frá kjósendum. Umboð þingmanna verður því ekki afturkallað, þótt þeir skipti um stjórnmálaflokk eða gangi gegn skoðunum flokks síns í ákveðnum málum.

Á sama hátt er hlutverk 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga að tryggja, að þeir, sem sitja í sveitarstjórnum eða nefndum á vegum sveitarfélaga, séu sjálfstæðir í starfi. Verður því nefndarmönnum ekki veitt lausn frá störfum þótt skoðanir þeirra séu ekki þóknanlegar ríkjandi meiri hluta í sveitarstjórn. Fór sú ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar að veita A lausn frá störfum í hafnarstjórn vegna stjórnmálaskoðana hennar því í bága við ákvæði 5. mgr. 63. gr., sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Á grundvelli þessara sjónarmiða var einnig ólögmætt að víkja A úr sæti formanns hafnarstjórnar og kjósa nýjan í hennar stað.

2.

40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er skipað í IV. kafla laganna. Í athugasemdum við IV. kafla frumvarps þess, er varð að sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986, kemur fram, að við samningu ákvæða kaflans hafi m.a. verið höfð hliðsjón af ákvæðum danskra sveitarstjórnarlaga (Alþt. 1985–1986, A-deild, bls. 565). Til upplýsingar má geta þess, að í dönskum rétti hefur verið talið óheimilt að víkja nefndarmanni úr starfi, enda þótt stjórnmálaviðhorf hans valdi því, að hann njóti ekki lengur trausts þess flokks, sem kaus hann í nefndina, eða meiri hluta sveitarstjórnar.

3.

Ég tel rétt að vekja athygli á því, að sett hafa verið ný sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, sbr. bráðabirgðalög nr. 100/1998, um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Í þeim er nýmæli í 4. mgr. 40. gr. laganna, sem hefur í för með sér breytingar á því réttarsviði, sem fjallað hefur verið um í áliti þessu. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sveitarstjórn er heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem er á kjörtímabili nefndar, svo sem þegar nefndarmenn njóta ekki lengur trausts meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn. Enn fremur er fulltrúum í nefndum heimilt að segja af sér nefndarstörfum hvenær sem er á kjörtímabilinu.“

V.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um að veita A lausn frá störfum í hafnarstjórn hafi farið í bága við fyrirmæli 5. mgr. 63. gr., sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Ég tel einnig, að sú ákvörðun hafnarstjórnar að veita A lausn frá starfi formanns hafi ekki samrýmst ofangreindum lagaákvæðum.“