Skattar og gjöld. Úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sorphirðugjald. Lagastoð gjaldskrár. Valdmörk stjórnvalda. Stjórnsýslukæra. Kæruheimild. Framsending máls.

(Mál nr. 2500/1998)

A kvartaði yfir álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 samkvæmt gjaldskrám nr. 37/1997 og 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, á húseign hans í sveitarfélaginu, og bar brigður á lögmæti þeirrar gjaldtöku. Þá kvartaði A yfir því að ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu hefði verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskránna af nánar tilgreindum ástæðum.

Umboðsmaður taldi lagaskilyrði ekki uppfyllt til þess að hann gæti fjallað um álagningu sorphirðugjaldsins árið 1997 og takmarkaði umfjöllun sína því við álagningu gjaldsins árið 1998. Þá álagningu hafði A borið undir umhverfisráðuneytið og krafist þess að hún yrði endurskoðuð. Í afgreiðslu ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til að hnekkja gildandi gjaldskrá fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, en A var bent á að hann gæti borið álagningu gjaldsins undir sérstaka úrskurðarnefnd sem starfaði á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í áliti sínu gerði umboðsmaður grein fyrir lagagrundvelli gjaldskrár nr. 28/1998 í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og síðar lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem leystu hin fyrrnefndu lög af hólmi. Benti umboðsmaður á að með 1. mgr. 31. gr. hinna síðarnefndu laga væri sérstakri úrskurðarnefnd falið að úrskurða í ágreiningsmálum sem risu á grundvelli laganna, þ.m.t. um framkvæmd heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga, en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna væru ákvæði um gjaldtöku vegna veittrar þjónustu sveitarfélags hluti heilbrigðissamþykktar þess. Væri ljóst af ákvæðinu að meginreglan væri sú að sérstök úrskurðarnefnd færi með úrskurðarvald, en ráðherra færi með úrskurðarvald í sérstaklega tilgreindum tilvikum. Var niðurstaða umboðsmanns því sú að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags yrði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, enda væri hvergi mælt fyrir um það í lögunum að ráðherra skæri úr ágreiningi um það efni. Þar sem ágreiningurinn hafði ekki verið borinn undir úrskurðarnefndina taldi umboðsmaður lagaskilyrði ekki uppfyllt til umfjöllunar af hans hálfu. Umboðsmaður tók hins vegar fram að umhverfisráðuneytinu hefði samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 borið að framsenda úrskurðarnefndinni erindi A til meðferðar svo fljótt sem unnt væri í stað þess að láta sitja við ábendingu um kærurétt til nefndarinnar.

Vegna þess þáttar kvörtunar A er laut að hæfi ráðuneytisstjóra til að annast um staðfestingu gjaldskrár nr. 28/1998 tók umboðsmaður fram að hann teldi álitamál hvort úrskurðarvald úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 næði til ágreinings um formlegt gildi staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Þar sem afstaða úrskurðarnefndarinnar til valdsviðs nefndarinnar með tilliti til þessa lægi ekki fyrir í málinu taldi umboðsmaður hins vegar ekki rétt að fjalla um það í áliti sínu, sbr. meginreglu 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Benti umboðsmaður á að A væri unnt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á þessu umkvörtunarefni sínu eftir að nefndinni hefði borist mál hans til meðferðar.


Sjá tengt mál nr. 2473/1998

I.

Hinn 2. júní 1998 leitaði til umboðsmanns Alþingis B, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd A og kvartaði yfir álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 á húseign A X-vegi 5 á Z í Ísafjarðarbæ. Þá var kvartað yfir því að gjaldskrár fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ nr. 37/1997 og 28/1998 hafi verið staðfestar af Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu, og undirmönnum hans en lögmaðurinn telur að Magnús hafi verið vanhæfur til að annast staðfestingu gjaldskránna af nánar tilgreindum ástæðum.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 17. nóvember 1999.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 3. febrúar 1997, var A tilkynnt um álagningu fasteignagjalda á húseign hans að X-vegi 5 á Z í Ísafjarðarbæ á árinu 1997, þ. á m. um álagningu sorphirðugjalds að fjárhæð 7.500 kr. Með bréfi til Ísafjarðarbæjar, dags. 13. febrúar 1997, gerði A tilteknar athugasemdir í tilefni af umræddri álagningu fasteignagjalda. Í svarbréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 11. mars s.á., var honum tilkynnt um að ekki þættu fram komin efnisleg rök sem leiða ættu til breytinga á álagningu fasteignagjalda og því yrði að hafna beiðni hans um endurálagningu gjaldanna. A gerði að nýju athugasemdir við álagningu gjaldanna með bréfi til Ísafjarðarbæjar, dags. 17. mars 1997. Með bréfi bæjarsins, dags. 11. apríl s.á., var honum tilkynnt að bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefði á fundi sínum hinn 7. apríl ákveðið að fresta afgreiðslu erindisins að nokkru leyti en að öðru leyti yrði ekki fallist á efnisatriði þess.

A var tilkynnt um álagningu sorphirðugjalds að fjárhæð 7.750 kr. á húseign hans að X-vegi 5 á árinu 1998 með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 1. febrúar 1998. Af hans hálfu var álagningunni mótmælt með bréfi til bæjarins, dags. 10. sama mánaðar, og þess krafist að álagt sorphirðugjald yrði endurskoðað. Ísafjarðarbær hafnaði þeirri kröfu með bréfi, dags. 10. mars 1998.

Af hálfu lögmanns A var ofangreindri synjun Ísafjarðarbæjar skotið til félagsmálaráðuneytisins með „stjórnsýslukæru“, dags. 17. apríl 1998. Með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 22. sama mánaðar, var lögmanninum tilkynnt um að sá þáttur erindisins er lyti að álagningu sorphirðugjalds hefði verið framsendur umhverfisráðuneytinu til afgreiðslu með vísan til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umhverfisráðuneytið tók erindi lögmanns A frá 17. apríl 1998 til úrlausnar hinn 12. maí 1998. Í bréfi ráðuneytisins til lögmannsins, dags. þann dag, sagði svo:

„Í gjaldskrá nr. 28/1998 fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ er í 1. gr. kveðið á um að bæjarstjórn Ísafjarðar sé heimilt að leggja á sérstakt gjald vegna sorphirðu (sorphreinsunar og sorpeyðingar) í Ísafjarðarbæ. Samkvæmt 2. gr. er gjaldið árlegt og því skipt í tvo meginflokka. Annars vegar er um að ræða sorphirðugjald kr. 7.750 á ári á íbúðir og íbúðarhúsnæði og hins vegar sorpeyðingargjald á lögaðila samkvæmt tilteknum gjaldflokkum og skal við álagningu taka svo sem kostur er mið af umfangi starfsemi og sorpgerð.

Gjaldskrár vegna sorphirðu skulu staðfestar af ráðuneytinu. Sveitarfélög sem óska eftir staðfestingu gjaldskráa þurfa að leggja fram greinargerð þar sem fram koma upplýsingar um kostnað við hlutaðeigandi þjónustu. Sýna þarf fram á að upphæð gjalda sé ekki hærri en sem nemur sannanlegum kostnaði við veitta þjónustu eða tiltekið eftirlit.

Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram af Ísafjarðarbæ þegar óskað var staðfestingar gjaldskrár í upphafi þessa árs kemur fram að á árinu 1997 var kostnaður vegna reksturs sorpbrennslustöðvarinnar Funa og urðunar á sorpi áætlaður kr. 62.457.000. Á sama tíma voru álögð sorphirðugjöld og þjónustutekjur kr. 34.139.000. Kostnaður umfram tekjur var því áætlaður kr. 28.318.000. Í drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir tekjum sem nema kr. 37.500.000 og útgjöldum sem nema kr. 63.900.000. Útgjöld umfram tekjur eru því áætluð kr. 28.400.000. Afborganir áhvílandi lána eru ekki með í þessum útreikningum. Ráðuneytið telur sorphirðugjald kr. 7.750 á ári á íbúð ekki óeðlilegt miðað við framangreindar forsendur. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að hnekkja gildandi gjaldskrá.

Þegar upphæð sorphirðugjalda á íbúðarhúsnæði er ákveðin er venjan sú að sveitarfélög ákveða jafnaðargjald á hverja íbúð. Þó hafa nokkur sveitarfélög tilgreint í gjaldskrá lægra gjald ef t.d. um er að ræða lítið sorpmagn eða fáa í heimili. Gjald sem fram kemur í gjaldskrá er hámarksgjald. Sveitarstjórn getur tekið ákvörðun um að innheimta lægra gjald.

Sé umbjóðandi yðar ósáttur við gjaldtöku vegna fasteignar sinnar skal hann snúa sér til sveitarstjórnar og óska eftir leiðréttingu.

Sé umbjóðandi yðar ósáttur við ákvörðun sveitarstjórnar um upphæð gjaldsins getur hann kært hana til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Framangreint tilkynnist hér með.“

Í kvörtun lögmanns A til umboðsmanns Alþingis frá 28. maí 1998 kemur fram að kvörtunin lúti að því að ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við ákvörðun sorphirðugjalds á húseign A árin 1997 og 1998. Er tekið fram að ákvörðun gjaldsins hafi ekki byggst á viðhlítandi undirbúningi og útreikningi kostnaðar við þjónustu Ísafjarðarbæjar tengdri sorphirðu og að ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðun gjaldsins og niðurjöfnun þess. Þá kemur fram að umrædd gjaldtaka sé andstæð lögum eða skorti lagastoð. Loks er kvartað yfir því að gjaldskrár fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ nr. 37/1997 og 28/1998 hafi verið staðfestar af Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu, og undirmönnum hans en Magnús sé vanhæfur til að annast staðfestingu gjaldskránna „vegna skyldleika við Þorstein Jóhannesson, sem lengst af [hafi verið] ýmist forseti bæjarstjórnar eða formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á síðasta kjörtímabili“. Er í því sambandi vísað til 3. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í kvörtun lögmannsins.

III.

Í tilefni af kvörtun A ritaði umboðsmaður Alþingis umhverfisráðherra bréf, dags. 29. júlí 1998, sbr. ítrekun í bréfi, dags. 22. september s.á., og óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans léti umboðsmanni í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega óskaði umboðsmaður þess, að upplýst yrði hvaða gögn og aðrar upplýsingar um kostnað vegna sorphirðu í Ísafjarðarbæ hefðu legið fyrir þegar gjaldskrá nr. 28/1998 var staðfest af ráðuneytinu.

Svar umhverfisráðuneytisins barst umboðsmanni Alþingis með bréfi, dags. 29. september 1998. Í bréfinu eru áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í bréfi ráðuneytisins til lögmanns A, dags. 12. maí 1998. Þá segir m.a. svo í bréfinu:

„Í bréfum til lögmannsins var bent á að ef [umbjóðandi] hans [væri ósáttur] við gjaldtöku vegna fasteignar [sinnar ætti hann] að snúa sér til sveitarstjórnar og óska eftir leiðréttingu. Það [hafði hann] þegar gert og fengið svar við því erindi með bréfi, dags. 10. mars sl.

Þá var bent á að [væri umbjóðandi hans ósáttur] við ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdina [gæti hann] kært hana til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ekki verður séð að það hafi verið gert.

Kvörtun til umboðsmanns lýtur m.a. að því að gjaldtakan sé andstæð lögum eða skorti lagastoð. Í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og skólps og gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu. Upphæð gjalda skal ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Sambærileg ákvæði voru í áðurgildandi lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Ráðuneytið fellst ekki á að ráðuneytisstjóri sé vanhæfur til að staðfesta gjaldskrá fyrir hönd ráðherra vegna skyldleika við forseta bæjarstjórnar. Með staðfestingu gjaldskrár er ráðuneytið eingöngu að staðfesta að umrædd gjaldskrá hafi lagastoð, sé formlega rétt unnin og að ekki sé verið að gjaldfella annað en þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Sé þjónustan hins vegar ekki veitt eru brostnar forsendur fyrir gjaldtökunni og hægt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sbr. framanritað.“

Með bréfi, dags. 1. október 1998, gaf umboðsmaður Alþingis lögmanni A kost á að gera athugasemdir við bréf umhverfisráðuneytisins. Athugasemdir lögmannsins bárust umboðsmanni með bréfi, dags. 5. október s.á. Í því bréfi segir m.a. svo:

„Samkvæmt 3. gr., sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis tel ég engan vafa leika á því, að hann eigi úrskurðarvald í málinu eins og það liggur fyrir varðandi gildi gjaldskránna og staðfestingu þeirra. Er hér bent á til hliðsjónar mál embættisins: SUA 1994:233-239. Ég tel ekki að mál þessi hafi áður þurft að sæta meðferð og úrlausn sérstakrar úrskurðarnefndar. Í raun hafi þau ekki átt erindi til hennar m.a. af þeirri ástæðu að hún fjallar um ágreining um framkvæmd, en hefur ekki úrskurðarvald um lagagildi staðfestingar ráðherra. Hefði ráðuneytið talið málið eiga undir úrskurðarnefndina hefði því borið að framsenda henni erindið, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

IV.

Kvörtun A frá 28. maí 1998 lýtur að álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 samkvæmt gjaldskrám nr. 37/1997 og 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, á húseign hans að X-vegi 5 á Z í Ísafjarðarbæ, sbr. nú gjaldskrá nr. 25/1999, um sama efni. Í kvörtuninni eru bornar brigður á lögmæti þessarar gjaldtöku svo sem að framan er rakið. Þá er yfir því kvartað að ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu hafi verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskráa nr. 37/1997 og 28/1998 af ástæðum er greinir í kvörtuninni.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er sett sú regla að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Eins og áður er rakið var A tilkynnt um álagningu sorphirðugjalds árið 1997 með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 3. febrúar 1997. Af hans hálfu var álagningunni mótmælt með bréfi hinn 13. febrúar s.á. og með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 11. mars s.á., var honum synjað um endurskoðun hins álagða gjalds. A gerði á ný athugasemdir við álagningu gjaldsins með bréfi til bæjarins 17. mars 1997 og var svarað af hálfu bæjarins með bréfi, dags. 11. apríl s.á., þar sem m.a. kom fram að bæjarráð hefði ákveðið að fresta afgreiðslu á hluta erindisins, þ. á m. þeim hluta er laut að álagningu sorphirðugjalds. Í kvörtun lögmanns A til umboðsmanns Alþingis frá 28. maí 1998 kemur fram að A hafi enn ekki verið tilkynnt um afgreiðslu á þeim hluta erindisins er laut að álagningu sorphirðugjaldsins.

Samkvæmt framansögðu hefur Ísafjarðarbær ekki tekið endanlega afstöðu til erindis A um endurskoðun álagðs sorphirðugjalds árið 1997, en eins og fram hefur komið varðar síðari meðferð málsins álagningu umrædds gjalds árið 1998, sbr. erindi lögmanns A til Ísafjarðarbæjar frá 10. febrúar 1998 og erindi hans til félagsmálaráðuneytisins frá 17. apríl s.á. Er því ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til umfjöllunar af minni hálfu um álagningu sorphirðugjalds á eign A árið 1997. Í tilefni af þeim þætti kvörtunar lögmanns A er lýtur að álagningu þess árs bendi ég honum á að ganga á eftir því að umrætt erindi hans frá 17. mars 1997 hljóti formlega afgreiðslu af hálfu Ísafjarðarbæjar. Í því sambandi vek ég jafnframt athygli á ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kemur fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Um kæruleið vísa ég til niðurstöðu minnar um það efni hér aftar.

Vegna þess þáttar í kvörtun A er snertir staðfestingu ráðherra á gjaldskrá nr. 37/1997, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal bera kvörtun til umboðsmanns fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þar sem umrædd gjaldskrá var staðfest í umhverfisráðuneytinu hinn 13. janúar 1997 get ég ekki fjallað um þennan þátt kvörtunarinnar, sbr. tilvitnað ákvæði laga nr. 85/1997.

1.

Samkvæmt 1. gr. gjaldskrár nr. 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, var bæjarstjórn Ísafjarðar heimilað að leggja á sérstakt gjald vegna sorphirðu (sorphreinsunar og sorpeyðingar) í sveitarfélaginu. Í 5. gr. gjaldskrárinnar kom fram að hún væri staðfest samkvæmt 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Í 18. gr. þessara laga, sbr. 6. gr. laga nr. 70/1995, um breyting á þeim, var m.a. kveðið svo á að sveitarfélög gætu sett sér eigin heilbrigðissamþykktir. Í 3. tölulið 2. mgr. greinarinnar sagði að auk annars væri heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu. Þá sagði í 3. mgr. 18. gr. að upphæð gjalda samkvæmt þeim kafla skyldi ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfesti.

Lög nr. 81/1988 hafa nú verið leyst af hólmi með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 3. tölulið 1. mgr. 25. gr. þeirra laga er að finna hliðstæða heimild til gjaldtöku og áður var í 3. tölulið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 81/1988. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, eins og sú grein hljóðaði fyrir breytingar sem gerðar voru á henni með 3. gr. laga nr. 59/1999, skyldi upphæð gjalda ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfesti. Í málsgreininni var þó kveðið á um að ráðherra gæti, að fengnum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga og umsögn Hollustuverndar ríkisins, sett hámarksgjaldskrá fyrir eftirlit og þjónustu sveitarfélaga sem sveitarfélög gætu nýtt sér kysu þau það fremur en að setja sér sérstaka gjaldskrá.

Í VII. kafla laga nr. 7/1998 er fjallað um málsmeðferð og úrskurði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 31. gr. þeirra er svohljóðandi ákvæði:

„Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar. Þetta gildir þó ekki í þeim tilvikum þegar umhverfisráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða þegar ágreiningur rís vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæðum 6. gr.“

Í athugasemdum við ofangreint ákvæði í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 7/1998, segir svo:

„Greinin er að mestu leyti samhljóða 26. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um ágreining er rís um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaganna og ákvarðana yfirvalda og úrskurð sérstakrar úrskurðarnefndar í slíkum málum. Lagt er til að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina. Einnig er lagt til að Hollustuvernd ríkisins sé ekki milliúrskurðaraðili eins og samkvæmt gildandi lögum enda óeðlilegt að vera með mörg úrskurðarstig. Þetta hefur í för með sér að ágreiningi um framkvæmd samkvæmt þessari grein við heilbrigðisnefndir eða Hollustuvernd [ríkisins], t.d. um starfsleyfi, skal vísa beint til úrskurðarnefndar sem er endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi.“ (Alþt. 1997-98, A-deild, bls. 1259.)

Lög nr. 7/1998 tóku gildi hinn 12. mars 1998 og voru birt í A-deild Stjórnartíðinda, 5. tbl., sem út kom 24. mars s.á. Í ákvæði IV. til bráðabirgða með lögunum kom fram að þrátt fyrir ákvæði þeirra, sbr. m.a. 31. gr., skyldi stjórn Hollustuverndar ríkisins og úrskurðarnefnd, skipuð samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ljúka við að úrskurða í kærumálum sem kærð hefðu verið fyrir gildistöku þeirra.

2.

Með 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er sérstakri úrskurðarnefnd falið að úrskurða í ágreiningsmálum sem rísa á grundvelli laganna, þ. m. t. um framkvæmd heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna eru ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu sveitarfélags hluti heilbrigðissamþykktar þess. Er ljóst af ákvæði 1. mgr. 31. gr. að þar er gengið út frá meginreglu um úrskurðarvald hinnar sérstöku úrskurðarnefndar en tilgreind tilvik þar sem ráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum sérstaklega undanþegin, sbr. tilvísun ákvæðisins til 32. og 6. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu tel ég að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags verði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. sömu laga enda er hvergi mælt fyrir um það í lögum nr. 7/1998 að ráðherra skeri úr ágreiningi um það efni. Í ljósi orðalags 1. mgr. 31. gr. laganna, fær að mínum dómi ekki breytt þessari niðurstöðu þótt ráðherra skuli samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga staðfesta gjaldskrá sveitarfélags og þar af leiðandi hafa eftirlit með því að efni gjaldskrárinnar hafi næga lagastoð og sé í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. júní 1997 í máli nr. 1517/1995 (SUA 1997:285). Vegna tilvísunar lögmanns A til álits umboðsmanns Alþingis frá 6. janúar 1994 í máli nr. 795/1993 (SUA 1994:233) í þessu sambandi skal tekið fram að í því áliti var til umfjöllunar álagning vatns- og holræsagjalda samkvæmt lögum nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, og vatnalögum nr. 15/1923.

Ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalds á húseign A árið 1998 hafði ekki verið borinn undir stjórn Hollustuverndar ríkisins né úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þegar lög nr. 7/1998 tóku gildi. Var honum því unnt að bera ágreininginn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt hinum síðarnefndu lögum, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna og ákvæði IV. til bráðabirgða með þeim. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu sjálf fá fyrst tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 2561.) Þar sem sérstök úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998 hefur samkvæmt framansögðu ekki leyst úr ágreiningi vegna álagningar sorphirðugjalds á húseign A árið 1998 er umræddu lagaskilyrði ekki fullnægt í máli því sem hér er til umfjöllunar.

3.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Í 2. mgr. þessarar greinar laganna kemur fram að berist stjórnvaldi skriflegt erindi sem ekki snertir starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.

Af hálfu A var ágreiningi vegna álagningar sorphirðugjalds á húseign hans árið 1998 skotið til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 17. apríl 1998. Erindið var sem fyrr greinir framsent umhverfisráðuneytinu til afgreiðslu með vísan til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var lögmanni A tilkynnt um það með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 22. apríl 1998. Með bréfi umhverfisráðuneytisins til lögmannsins, dags. 12. maí s.á., var honum bent á það úrræði að bera ágreining um álagningu sorphirðugjalds á húseign A undir úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998. Í nefndu bréfi ráðuneytisins var þó að nokkru fjallað um staðfestingu ráðherra á gjaldskrá nr. 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, sbr. kafla II í áliti þessu.

Eins og rakið er hér að framan í kafla 1 er það skoðun mín að ágreiningi um lögmæti álagningar sorphirðugjalds verði skotið til úrskurðar sérstakrar úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í bréfi umhverfisráðuneytisins til lögmanns A frá 12. maí 1998 kom fram sú skoðun ráðuneytisins að A væri unnt að bera álagningu Ísafjarðarbæjar á sorphirðugjaldi á húseign hans árið 1998 undir umrædda úrskurðarnefnd. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar umhverfisráðuneytinu því að framsenda úrskurðarnefndinni erindi A til meðferðar svo fljótt sem unnt var eftir að erindið hafði borist ráðuneytinu með bréfi félagsmálaráðuneytisins, dags. 22. apríl 1998, í stað þess að láta sitja við ábendingu um kærurétt til nefndarinnar. Af þessum sökum beini ég því til umhverfisráðuneytisins að framsenda úrskurðarnefndinni erindi A frá 17. apríl 1998 til meðferðar og ákvörðunar svo fljótt sem auðið er, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

4.

Í kvörtun lögmanns A til umboðsmanns Alþingis er sérstaklega kvartað yfir því að gjaldskrá nr. 28/1998, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, hafi verið staðfest af Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu, og undirmönnum hans en lögmaðurinn telur að Magnús hafi verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskrárinnar. Af þessu tilefni skal tekið fram að ég tel álitamál hvort úrskurðarvald úrskurðarnefndar þeirrar sem starfar á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, nái til ágreinings um formlegt gildi staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þeirra laga. Þar sem afstaða úrskurðarnefndarinnar til valdsviðs nefndarinnar með tilliti til þessa liggur ekki fyrir í málinu tel ég hins vegar ekki rétt að fjalla um það í áliti þessu, sbr. meginreglu 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég bendi á að A er unnt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á umkvörtunarefni sínu varðandi ætlað vanhæfi ráðuneytisstjóra eftir að nefndinni hefur borist mál hans til meðferðar, sbr. kafla 2 hér að framan, og æskja úrlausnar nefndarinnar um það atriði. Er A unnt að leita til mín að nýju telji hann úrlausn úrskurðarnefndarinnar óviðunandi.

V.

Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags verði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd sem starfar á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eru það tilmæli mín til umhverfisráðuneytisins að ráðuneytið framsendi úrskurðarnefndinni erindi A frá 17. apríl 1998 til meðferðar lögum samkvæmt svo fljótt sem unnt er.

,