I.
Hinn 18. mars 1999 leitaði til mín A og kvartaði yfir setningu í stöðu lögreglufulltrúa á sviði 3 við embætti ríkislögreglustjóra sem fram fór í janúar 1999. Skil ég kvörtun A svo að hún lúti einkum að þremur atriðum. Í fyrsta lagi kvartaði hann yfir því að hann hafi ekki verið kallaður í viðtal og frekari upplýsinga aflað um starfshæfni hans. Í öðru lagi taldi A að hæfasta umsækjandum hafi ekki verið veitt starfið. Í þriðja lagi vakti hann máls á því í kvörtuninni að þegar hafi verið búið að ráðstafa stöðunni þegar umsóknarfrestur rann út. Jafnframt gerði A athugasemd við það að ekki hafi verið gætt fyrirmæla 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningar við birtingu stjórnvaldsákvörðunar.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 2. nóvember 1999.
II.
Með auglýsingu, dags. 29. desember 1998, er birtist í Lögbirtingarblaðinu 8. janúar 1999, voru auglýstar lausar til umsóknar nokkrar stöður lögreglumanna við embætti ríkislögreglustjóra. Þar á meðal var „staða lögreglufulltrúa í tengslum við starfsmannamál, skipulagsmál, tölvumál, forvarnarmál, vegabréfaútgáfu o. fl.“. Kom fram í auglýsingunni að sett yrði í stöðuna til reynslu í eitt ár og að C, yfirlögregluþjónn, veitti nánari upplýsingar um hana.
Skrifleg umsókn A um hið lausa embætti barst embætti ríkislögreglustjóra 12. janúar 1999. Í umsókn sinni gerði A grein fyrir menntun sinni og fyrri störfum auk þess sem þar komu fram almennar persónulegar upplýsingar. Í niðurlagi umsóknar sagði orðrétt:
„Lokaritgerð mín í stjórnmálafræði fjallaði um vinnumarkaðsmál og skýrir það að hluta áhuga minn á starfsmannamálum. Skipulagsmál, tölvumál og forvarnamál þykja mér einnig áhugaverð. Ég hef talsverða menntun á sviði aðferðafræði og tölfræði en slík menntun tel ég að geti komið að gagni m.a. varðandi skipulags- og forvarnarmál.“
A barst svohljóðandi bréf frá embætti ríkislögreglustjóra, dags. 25. janúar 1999:
„Um leið og yður er þökkuð umsókn yðar um stöðu lögreglufulltrúa hjá embætti ríkislögreglustjóra, sem auglýst var þann 29. desember s.l. tilkynnist yður hér með að ríkislögreglustjórinn hefur ákveðið að ráða [B], lögreglumann, í stöðuna. Alls 11 lögreglumenn sóttu um stöðuna, sem er tímabundin til 31. desember n.k.“
A óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 10. febrúar 1999. Svar ríkislögreglustjóra barst með bréfi, dags. 18. sama mánaðar. Var þar gerð grein fyrir starfsferli A annars vegar og starfsferli B hins vegar. Þær forsendur er réðu því að B var veitt staðan voru síðan raktar. Í rökstuðningi embættisins sagði eftirfarandi um síðastgreinda atriðið:
„Starf umrædds lögreglufulltrúa er á sviði 3 hjá ríkislögreglustjóra. Undir svið 3 heyra starfsmannamál, skipulagsmál, tölvumál, forvarnarmál, vegabréfaútgáfa ofl. Á þessu sviði starfa þrír menn en vegna tímabundinna veikinda eins þeirra, var umrædd staða auglýst tímabundið. Í viðtölum sem yfirlögregluþjónn, [C], átti við flesta umsækjendur kom skýrt fram, að einkum væri verið að sækjast eftir starfsmanni með tölvukunnáttu, ekki síst í tengslum við vélbúnaðarmál, þó svo auglýst hafi verið hvaða verkefni féllu undir nefnt svið. Þau verkefni sem þessum lögreglufulltrúa er fyrst og fremst ætlað að sinna er rekstur á tölvukerfi embættisins þ.m.t. viðhald og uppfærslur á hinum ýmsu forritum, ásamt þjónustu við notendur útstöðva. Í tengslum við þetta mun lögreglufulltrúinn sinna notendaþjónustu við embættin varðandi landskerfi lögreglu. Þessari ráðstöfun verkefna er fyrst og fremst ætlað að létta á núverandi verkefnum [D], setts aðstoðaryfirlögregluþjóns, sem þá mun geta snúið sér meira að áframhaldandi þróun, samræmingu og kennslu varðandi landskerfi lögreglu. [C], yfirlögregluþjónn, mun fyrst og fremst sinna starfsmannamálum og forvörnum og [D] í forföllum hans.
IV.
Við ákvörðun ríkislögreglustjórans um hver yrði skipaður lögreglufulltrúi á sviði 3 var litið til starfsreynslu umsækjenda við rekstur tölvukerfis með tillti til þeirra verkefna sem eru á starfssviði lögreglufulltrúans en þau hafa hér verið rakin í helstu atriðum.
Eins og fram hefur komið er ekki um fasta stöðu að ræða, heldur afleysingastöðu vegna langvarandi veikinda starfsmanns. Ekki síst þess vegna þótti nauðsynlegt að komast hjá því að þurfa að nota hluta þess stutta ráðningartíma til þjálfunar.
Við skoðun og mat á umsóknum kemur í ljós að [B] hefur sótt námskeið í tölvufræðum fyrir lögreglumenn 1990, námskeið í v[i]sual basic forritun og tölvufræði 1992, námskeið í dos, windows, excel og word 1994, námskeið í Windows NT netstjórnun 1997 og framhaldsnámskeið í Windows NT netstjórnun 1998. [B] hefur jafnframt, frá árinu 1997 starfað hjá sýslumanninum í Kópavogi í sérverkefnum fyrir embættið og haft m.a. umsjón með tölvukerfi embættisins auk þess sem hann sá þar um allt viðhald og uppfærslur á sviði tölvumála. Þar að auki hefur hann unnið á þessum tíma fyrir Lögregluskóla ríkisins við kennslu, uppsetningar og viðhald í tölvumálum. Hann hefur því umtalsverða þekkingu á þessum málaflokki, ekki síst rekstri netkerfa. Samkvæmt upplýsingum í umsókn yðar hafið þér unnið við skráningar í tölvukerfi en ekki við eiginlegan rekstur, viðhald og uppsetningu netkerfis. Óumdeilt er að þér hafið hærri prófgráður en [B], en samkvæmt því sem að framan er rakið og vegna eðlis starfsins var það mat ríkislögreglustjórans að [B] væri hæfari til að gegna þessari stöðu lögreglufulltrúa miðað við þau verkefni sem honum væru fyrst og fremst ætlað að sinna og tímalengdar starfsins. Svo sem þegar hefur verið rakið var það mat reist á samanlagðri þekkingu og starfsreynslu umsækjenda á sviði reksturs tölvukerfa.“
III.
Með bréfi, dags. 31. mars 1999, óskaði ég eftir því við ríkislögreglustjóra að hann skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té öll gögn málsins. Sérstaklega var óskað upplýsinga um það með hvaða hætti og á hvaða forsendum þeir umsækjendur voru valdir sem teknir voru í viðtöl og hvers vegna ekki var talin ástæða til að taka A í viðtal. Auk þess var óskað upplýsinga um hvaða verkefni sá starfsmaður sem var í veikindaleyfi og getið var í rökstuðningi hefði haft með höndum.
Svarbréf ríkislögreglustjóra barst mér hinn 21. apríl 1999. Í því sagði meðal annars:
„Nýtt skipurit embættis ríkislögreglustjórans tók gildi í lok síðast liðins árs, sjá meðfylgjandi afrit. Þar er starfsemi ríkislögreglustjóra skipt niður á 5 svið, sem eru á ábyrgð þriggja yfirlögregluþjóna, vararíkislögreglustjóra og saksóknara. Svið 3 hefur m.a. með starfsmannamál, tölvumál, og forvarnamál að gera, auk annarra verkefna, sem tilgreind eru í meðfylgjandi skipuriti. Þar hafa starfað 3 lögreglumenn frá upphafi, yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn og lögreglufulltrúi. Yfirlögregluþjónn er [C], […]. [E] er skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn á sviði 3. Hann hefur átt við vanheilsu að stríða og frá 15. október 1998 hefur hann verið í veikindaleyfi og ekki ljóst enn í dag hvenær hann kemur aftur til starfa. [D] er skipaður lögreglufulltrúi á sviði 3.
[E], aðstoðaryfirlögregluþjónn, sá um tölvumál hjá ríkislögreglustjóranum frá stofnun embættisins þann 1. júlí 1997 og sama haust var [D], lögreglufulltrúi, fluttur úr efnahagsbrotadeild til tölvudeildar, vegna mikils álags sem skapaðist við flutning tölvumála frá dómsmálaráðuneyti til ríkislögreglustjórans. Lögreglufulltrúanum var falin umsjón með tölvukerfi ríkislögreglustjórans og hefur haft með höndum umsjón með þróun hugbúnaðar tölvukerfa lögreglunnar, sem og aðstoð við notendur hugbúnaðarins í öllum lögregluembættum landsins. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn hafði með höndum verkefni í tengslum við starfsmannamál, málaskrá lögreglu innan embættisins, ákveðna umsjón með netkerfi embættisins og önnur tilfallandi verkefni innan sviðs 3. Yfirlögregluþjónninn fór með starfsmannamál, skipulagsmál og forvarnir.
Um síðustu áramót var ákveðið, í samráði við dómsmálaráðuneytið, að [D], lögreglufulltrúi, yrði settur í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns á sviði 3, í fjarveru [E], og að auglýst yrði eftir lögreglufulltrúa, sem yrði settur til reynslu í 1 ár. Frá upphafi var ætlunin að í umrædda stöðu yrði valinn umsækjandi sem hefði yfirgripsmikla þekkingu á tölvumálum, sérstaklega með netke[r]fi og sérhannaðan hugbúnað tölvukerfa lögreglunnar í huga, þannig að ekki þyrfti að eyða löngum tíma og fé í þjálfun nýs og óreynds starfsmanns þar sem hér er ekki um fasta stöðu að ræða, heldur tímabundna afleysingastöðu. Settur aðstoðaryfirlögregluþjónn, [D], myndi áfram sjá um þróun sérhannaðs hugbúnaðar lögreglunnar og framtíðarskipulag þeirra mála og taka að sér verkefni við starfsmannamál. [C], ásamt [D], myndu taka að sér að sjá um það sem sneri að embætti ríkislögreglustjórans varðandi vegabréfamál en nú hefur Alþingi ákveðið að vegabréfamálin flytjist alfarið til Útlendingaeftirlitsins og því mun þessi þáttur falla út sem verkefni á sviði 3.
Um stöðu lögreglufulltrúa sóttu 11 hæfir lögreglumenn, flestir þeirra með áralanga starfsreynslu. Þrír umsækjenda tilgreindu sérstaklega þekkingu á tölvumálum, þar af tveir þekkingu á rekstri netkerfa. [A] var ekki í þeim hópi. Í niðurlagi umsóknar hans um tölvumál segir hann aðeins að honum þyki þau áhugaverð auk þess sem fram kemur að hann hafi unnið við innslátt á skuldabréfum í nýtt tölvukerfi Ríkisbókhalds árið 1985, þ.e. fyrir 14 árum. Í auglýsingunni kom fram að [C], yfirlögregluþjónn, myndi veita nánari upplýsingar um starfið. Flestir umsækjendur höfðu samband við [C] og í þeim samtölum var tekið skýrt fram að verið væri að sækjast eftir starfsmanni með tölvukunnáttu, einkum á sviði reksturs netkerfis og umsjónar með lögreglukerfunum. Eftir að hafa farið yfir allar umsóknir og skoðað þær var ákveðið að kalla tvo þeirra til formlegs viðtals. […] Ástæða þess að þeir voru valdir úr var fyrst og fremst þekking þeirra á rekstri netkerfa en upplýsingar þess efnis komu fram í umsóknum þeirra. Þeir voru því spurðir beint út í þekkingu þeirra á netkerfum og sérhönnuðum hugbúnaði lögreglunnar. […]
Þau atriði sem hvað þyngst vógu við ákvörðun um ráðningu [B] voru að hann hefur áralanga reynslu í tölvumálum lögreglunnar og þekkingu á þeirri þróunarvinnu sem þar hefur verið unnin og enn er unnið að. Hann hafði séð um tölvukerfi sýslumannsembættisins í Kópavogi og unnið þar mjög gott starf, sem lýsir sér meðal annars í því, að á því tímabili sem hann sá um tölvukerfið, þurfti nánast aldrei að kalla til utanaðkomandi þjónustuaðila og þannig spöruðu starfskraftar hans hundruð þúsunda króna útgjöld vegna viðhalds. Í því sambandi má nefna að hjá lögreglunni og sýslumanninum í Kópavogi eru um 40 útstöðvar á tölvunetinu, en umsækjandinn, [A], efast í rökstuðningi sínum með kvörtun til yðar um stærð eða umfang þess. Til samanburðar má geta þess að á netkerfi ríkislögreglustjórans eru um 50 útstöðvar. [B] hefur einnig aðstoðað Lögregluskóla ríkisins við rekstur netkerfisins þegar á hefur þurft að halda. Þá hefur [B] mikla þekkingu á sérhönnuðum hugbúnaði lögreglunnar og hefur oft verið fenginn til þess að sjá um kennslu á námskeiðum í Lögregluskóla ríkisins í forföllum [D]. Enginn hinna umsækjendanna gat um þekkingu á lögreglukerfunum eða hafði komið að því að aðstoða notendur þeirra. Í gegnum starf sitt við að aðstoða embættin hefur [D] komist nærri því hvar og hjá hverjum kunnátta á lögreglukerfin er mest og þekkti því vel til starfa [B] í þeim efnum.“
Með bréfi, dags. 27. apríl 1999, veitti ég A tækifæri til að gera athugasemdir við bréf ríkislögreglustjóra. Athugsemdir A bárust mér 31. maí 1999.
IV.
1.
Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu á opinberu starfi. Er almennt talið að meginreglan sé því sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við ólögfesta meginreglu stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem það hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat á innbyrðis vægi sjónarmiða gildir sú meginregla að stjórnvaldið ákveði á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þegar fleiri en einn umsækjandi uppfyllir þau almennu hæfisskilyrði sem um starfið gilda ber hlutaðeigandi stjórnvaldi að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem það hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á. Hefur umboðsmaður Alþingis áður fjallað um framangreind sjónarmið við veitingu opinberra starfa í áliti frá 9. október 1992 í máli nr. 382/1991 (SUA 1992:151), áliti frá 26. september 1996 í máli nr. 1391/1995 (SUA 1996:451) og áliti frá 20. mars 1997 í máli nr. 1907/1996.
Samkvæmt 3. tölul. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri aðra lögreglumenn en þá sem tilgreindir eru í ákvæðinu í embætti til fimm ára í senn. Heimild er í 24. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að setja mann í embætti í forföllum skipaðs embættismanns eða til reynslu til eins árs í senn, þó aldrei lengur en tvö ár, sbr. 10. gr. laga nr. 150/1996. Hvorki í lögreglulögum né í öðrum settum lagareglum er finna ákvæði sem mæla fyrir um það á hvaða sjónarmiðum byggja skuli skipun eða setningu lögreglumanna í embætti. Hefur ríkislögreglustjóri því val um það á hvaða sjónarmiðum hann byggir slíka ákvörðun að því tilskildu að þau sjónarmið séu málefnaleg, sbr. það sem að ofan greinir.
Í framangreindum rökstuðningi ríkislögreglustjóra til A kom fram að við ákvörðun um setningu í embættið hafi fyrst og fremst verið litið til starfsreynslu og þekkingar umsækjenda við rekstur tölvukerfa með tilliti til þeirra verkefna sem viðkomandi lögreglufulltrúa var ætlað að sinna. Var þar jafnframt vikið að því að setningin hafi verið tímabundin og því mikilvægt að komist yrði hjá því að hluti tímans færi í að þjálfa nýjan starfsmann. Hin mikla áhersla ríkislögreglustjóra á að viðkomandi umsækjandi þyrfti að hafa sem mesta starfsreynslu og þekkingu á rekstri tölvukerfa kemur jafnframt fram í skýringum ríkislögreglustjóra til mín.
Samkvæmt stjórnskipulagi ríkislögreglustjóra heyrir tölvudeild og þar með landskerfi lögreglu undir svið 3 hjá embættinu. Af tilvitnuðum skýringum ríkislögreglustjóra og rökstuðningi verður ráðið að það sjónarmið sem mest áhersla var lögð á við setningu í viðkomandi embætti lögreglufulltrúa hafi verið kunnátta umsækjanda við rekstur netkerfa en þekking þeirra í tölvumálum almennt skipti þar jafnframt máli. Miðað við hvert starfssvið viðkomandi lögreglufulltrúa átti að vera er það sjónarmið málefnalegt. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð verður ekki talið að við setningu í embætti lögreglufulltrúa á sviði 3 hjá embætti ríkislögreglustjóra hafi verið brotið gegn framangreindum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar er gilda um veitingu opinbers starfs.
2.
Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun um rétt eða skyldu manna. Ákvörðun um veitingu opinberra starfa er ákvörðun um rétt eða skyldu manna, sbr. athugasemd við 1. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283). Það hvílir því sú skylda á stjórnvaldi er fer með veitingarvald að upplýsa viðkomandi mál áður en ákvörðun er tekin í því. Þau sjónarmið sem stjórnvald leggur til grundvallar ákvörðun um veitingu opinbers starfs afmarka hvaða gagna þurfi að afla til að mál teljist nægjanlega upplýst. Fullnægjandi upplýsingar kunna að koma fram í umsóknum og fylgigögnum þeirra til að mat geti farið fram á starfshæfni umsækjenda með hliðsjón af sjónarmiðum stjórnvaldsins og er þá ekki nauðsynlegt að kalla umsækjendur til viðtals eða óska eftir frekari upplýsingum. Ef umsóknargögn varpa ekki nægu ljósi á starfshæfni umsækjanda getur hins vegar reynst nauðsynlegt að óska eftir viðbótarupplýsingum frá umsækjanda og eftir atvikum öðrum aðilum á grundvelli rannsóknarskyldu stjórnvaldsins samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
Stjórnvaldi er jafnframt heimilt að velja úr hópi umsækjenda þá sem það telur að komi til álita í starfið, kalla þá til viðtals og afla frekari upplýsinga um starfshæfni þeirra. Slíkt val þarf þá að byggjast á fullnægjandi upplýsingum um starfshæfni allra umsækjenda með hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum.
Í máli því sem hér er til úrlausnar er ljóst að ríkislögreglustjóri lagði megináherslu á tiltekið sjónarmið um þekkingu og starfsreynslu á takmörkuðu sviði við val á umsækjendum. Eins og rakið var hér að framan var sú afmörkun sjónarmiða málefnaleg í ljósi þeirra verkefna sem starfsmanninum var ætlað að sinna. Virðist sem málsmeðferðin hafi verið með þeim hætti að þeir tveir umsækjendur sem tilgreindu að þeir hefðu þekkingu af rekstri netkerfa í umsóknum sínum hafi verið valdir úr hópi umsækjenda til frekari athugunar. Var A ekki í þeim hópi. Kemur þá til athugunar hvort fullnægjandi upplýsingar hafi komið fram í umsókn A um þekkingu hans á sviði tölvumála að heimilt hafi verið að láta hjá líða að taka umsókn hans til frekari athugunar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum um rannsóknarskyldu stjórnvalda við ákvarðanatöku af þessu tagi.
Eins og að framan var getið kom það fram í umsókn A um fyrri störf hans að hann hefði unnið við að skrá skuldabréf ríkissjóðs inn í nýtt tölvukerfi árið 1985. Jafnframt lét hann þess getið að honum þættu tölvumál áhugaverð. Að öðru leyti var þar að engu getið hvaða reynslu og þekkingu hann hefði í tölvumálum almennt. Í auglýsingu um hið lausa starf var sú lýsing gefin á starfinu að um væri að ræða starf í tengslum við starfsmannamál, skipulagsmál, tölvumál, forvarnarmál, vegabréfaútgáfu o.fl. Hún veitti því ekki skýra leiðbeiningu til væntanlegra umsækjenda hvaða upplýsingar um starfshæfni þeirra skyldu fylgja umsókn og var í raun til þess fallin að vekja þá hugmynd að starfsvið viðkomandi starfsmanns væri víðfeðmara en raunin var. Ljóst er að A leitaði ekki frekari upplýsinga um starfið hjá C, yfirlögregluþjóni, en þess var getið í auglýsingu að unnt væri að fá gleggri upplýsingar um starfið hjá honum. Ég tel að athugsemdir í auglýsingu þess efnis að umsækjendur geti leitað nánari upplýsinga um starfið leysi stjórnvöld ekki undan þeirri skyldu sinni að sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin ef upplýsinga er ekki leitað af hálfu umsækjenda.
Í kvörtun A kemur fram að hann hafi í raun haft meiri kunnáttu á tölvur en umsókn hans gaf til kynna. Þannig lauk hann námi við Fjölbrautarskólann í Breiðholti af viðskiptasviði og tölvufræðibraut og stundaði síðan nám haustið 1987 við Tölvuháskóla Verzlunarskólans meðfram vinnu í lögreglunni. Lauk hann þar áfanga í kerfisfræði og áfanga um uppbyggingu tölva. Kemur þar og fram að þegar hann stundaði nám við Háskóla Íslands á árunum 1991 til 1995 hafi hann notast mikið við tölvur eins og títt er að nemendur geri. Kunni hann t.d. vel á tölfræðiforritið SPSS sem sé mikið notað í rannsóknum í félagsvísindum. Haustið 1997 hafi hann síðan verið skráður í tölvunarfræðiskor við Háskóla Íslands og sótt þar tíma í stærðfræðigreiningu, algebru, stærðfræðimynstrum og forritun í Java.
Af umsókn A verður ráðið að hann hafi með réttu talið að starfssvið viðkomandi lögreglufulltrúa yrði víðfeðmara en raunin var. Varð að skoða þær takmörkuðu upplýsingar er hann veitti um tölvuþekkingu sína í því ljósi. Með hliðsjón af þessu og þar sem auglýsingin um starfið afmarkaði ekki það þrönga starfssvið þess sem ákveðið hafði verið fyrirfram, tel ég að nauðsynlegt hafi verið, á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalda, að ríkislögreglustjóri hefði leitað eftir upplýsingum frá A þess efnis hvort hann teldi að umsókn hans gæfi fullnægjandi mynd af tölvuþekkingu hans áður en ákvörðun var tekin.
Ljóst er að annmarki var á málsmeðferð ríkislögreglustjóra þar sem ekki var gætt framangreindra sjónarmiða við upplýsingu málsatvika. Hins vegar tel ég með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð að vart verði talið að niðurstaðan hefði orðið önnur ef málsmeðferð ríkislögreglustjóra hefði fullnægt þeim sjónarmiðum. Byggist sú afstaða mín á því að ríkislögreglustjóri virðist fyrst og fremst hafa leitað eftir umsækjanda sem hefði mikla þekkingu og reynslu af rekstri netkerfa. Í kvörtun A til mín verður hins vegar ekki ráðið að A hafi haft meiri þekkingu á þessu sviði en B.
3.
Ákvörðun ríkislögreglustjóra um veitingu embættisins var birt A með bréfi, dags. 25. janúar 1999. A var þar ekki leiðbeint um rétt hans til að fá ákvörðunina rökstudda í samræmi við skýlaus fyrirmæli 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Var það annmarki á skriflegri tilkynningu ríkislögreglustjóra til A um lok málsins.
4.
Í kvörtun A kemur fram að áreiðanlegir menn hafi tjáð honum að B hafi hafið störf áður en umsóknarfrestur rann út. Með bréfi ríkislögreglustjóra til mín, dags. 20. apríl 1999, fylgdu gögn sem sýna að B var veitt launalaust leyfi frá embætti sýslumannsins í Kópavogi frá 15. febrúar 1999 til 31. desember sama ár og að hann hafi verið settur lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra þann tíma. Í ljósi þessa tel ekki ástæðu til athugasemda varðandi þennan þátt kvörtunarinnar.
V.
Niðurstaða
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að málsmeðferð ríkislögreglustjóra hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við skyldu stjórnvalda til þess að sjá til þess að mál sé upplýst áður en ákvörðun er tekin í því samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því beini ég þeim tilmælum til ríkislögreglustjóra að þess verði gætt við veitingu starfa í framtíðinni að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um starfshæfni umsækjenda með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem beitt er við val á milli umsækjenda í samræmi við skyldu stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Ég minni í því sambandi á mikilvægi þess að auglýsing beri það glöggt með sér ef leitað er eftir umsækjendum sem uppfylla eiga sérstakar kröfur til að koma til greina í starfið.
Það er jafnframt niðurstaða mín að það hafi verið annmarki á skriflegri tilkynningu ríkislögreglustjóra um lok málsins að ekki var gætt skýlausra fyrirmæla 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningu um rétt A til að fá ákvörðun ríkislögreglustjóra rökstudda. Því beini ég þeim tilmælum til ríkislögreglustjóra að fyrirmæla 1. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga verði gætt í framtíðinni við tilkynningar til umsækjenda um veitingu starfa.
,