Almannatryggingar. Slysatrygging. Íþróttir.

(Mál nr. 2304/1997)

A kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs þar sem beiðni hans um slysabætur var hafnað.

A fingurbrotnaði við íþróttaiðkun á vegum almenningsíþróttadeildar X. Sótti A um slysabætur vegna atviksins hjá Tryggingastofnun ríkisins með tilvísun til e-liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, en umsókn hans var hafnað. Kærði A þá niðurstöðu til tryggingaráðs sem taldi slys við ástundun almenningsíþrótta ekki bótaskylt samkvæmt ákvæðinu og staðfesti niðurstöðu tryggingarstofnunar.

Umboðsmaður rakti ákvæði e-liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum taldi umboðsmaður að með setningu ákvæðisins hefði verið að því stefnt að þeir sem yrðu fyrir slysum við iðkun íþrótta innan vébanda skipulagðrar íþróttahreyfingar nytu opinberrar tryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Með hliðsjón af öðrum lagaákvæðum af sviði íþróttamála taldi umboðsmaður að tryggingaráði hefði borið að skýra e-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 í samræmi við hið rúma orðalag þess en ekki þröngt eins og það hafði gert með því að takmarka það við keppnisíþróttir. Hins vegar taldi umboðsmaður að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við afmörkun tryggingaráðs á efnisinntaki ákvæðisins, þ.e. að íþróttaiðkun sú sem leitt hefði til tjóns þyrfti að vera stunduð á vegum íþróttafélags þar sem fram færi skipulögð íþróttastarfsemi undir handleiðslu þjálfara.

Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að niðurstaða tryggingaráðs í máli A hafi ekki verið í samræmi við e-lið 1. mgr. 24. gr. nr. 117/1993.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til tryggingaráðs að það myndi sjá til þess að mál A yrði endurupptekið af til þess bærum aðila, kæmi um það ósk frá A.

I.

Hinn 11. nóvember 1997 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs frá 19. september 1997 þar sem beiðni hans um slysabætur var hafnað.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. ágúst 1999.

II.

Málavextir eru þeir að hinn 12. febrúar 1997 fingurbrotnaði A við íþróttaiðkun á vegum almenningsíþróttadeildar X. Í mars sama ár sótti hann um slysabætur vegna atviksins hjá Tryggingastofnun ríkisins með tilvísun til e-liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, en beiðni hans var hafnað. A kærði þá niðurstöðu til tryggingaráðs. Í úrskurði tryggingaráðs vegna málsins, dags. 19. september 1997, segir m.a. svo:

„Árið 1975 var þeim ákvæðum bætt inn í lögin um almannatryggingar að „íþróttafólk, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára“ skyldi vera slysatryggt (lög nr. 39/1975). Ennfremur sagði í lögunum:

„Iðgjöld vegna íþróttafólks greiðast sameiginlega af ríkissjóði og Íþróttasambandi Íslands, og skulu nánari ákvæði um skiptingu iðgjaldagreiðslna, svo og um slysatryggingar íþróttafólks, sett í reglugerð í samráði við Íþróttasamband Íslands.“

Í greinargerð með frumvarpinu sagði m.a.:

„Eins og flestum, er til þekkja, er kunnugt, koma oft fyrir slys við íþróttaæfingar og íþróttakeppni, án þess að um verði kennt óaðgætni eða slæmum útbúnaði íþróttatækja. Þeir, sem íþróttir stunda, eru oftast ungt fólk og í flestum tilfellum félítið.

Augljóst er, að erfitt er fyrir þetta fólk að mæta skakkaföllum, sem það verður fyrir, þegar það verður lengri eða skemmri tíma frá verki vegna slysa við íþróttaiðkanir.

Þennan vanda hefur íþróttahreyfingin sjálf reynt að leysa með myndun eigin slysatryggingasjóða, sem því miður, eftir meira en áratugs starfsemi, hafa eigi geta fullnægt nema hluta af tryggingaþörfinni.

Um raunhæfa lausn á þessu máli er því ekki að ræða, aðra en þá, að íþróttaiðkendur njóti ákvæða almannatryggingalaganna um slysabætur.“

Iðgjald varð aldrei innheimt og var ákvæði um það síðar fellt út úr almannatryggingalögum, en eftir stóð heimild til setningar reglugerðar.

Fljótlega komu upp vandkvæði við túlkun laganna, þ.e. hverjir væru tryggðir og hvenær. Þrátt fyrir margítrekuð tilmæli Tryggingastofnunar og tryggingaráðs og mikla undirbúningsvinnu, hefur reglugerð sem afmarki gildissvið lagaákvæðis um slysatryggingu íþróttamana aldrei verið sett.

Það hefur því komið í hlut slysatryggingadeildar og tryggingaráðs að móta slíkt gildissvið og hefur hið rúma orðalag ætíð verið skýrt þrengjandi.

Um þá túlkun segir í framangreindri greinargerð slysatryggingadeildar, dags. 25. júlí 1997:

„Ekki hafa allir sem slasast við iðkun íþrótta verið taldir slysatryggðir samkvæmt ákvæðinu. Helstu skilyrðin fyrir því að íþróttamaður sé tryggður eru þau að hann sé orðinn 16 ára og að um sé að ræða reglubundna ástundun íþrótta hjá íþróttafélagi undir handleiðslu þjálfara, oftast með það markmið að taka þátt í keppnum eða sýningum, sbr. t.d. úrskurð tryggingaráðs í málinu nr. 49/1991.

Slys sem verða í íþróttatímum skóla, íþróttakeppnum starfsmanna fyrirtækja, við ýmiss konar þjálfun á eigin vegum eða í keyptum námskeiðum hjá hinum ýmsu aðilum sem slíka þjónustu selja hafa hins vegar aldrei verið talin bótaskyld, enda yrði tryggingin þá mjög víðtæk.“

Kærandi telur að í hans tilviki hafi ofangreind skilyrði bótaréttar verið uppfyllt þ.e. að um hafi verið að ræða:

a) reglubundna ástundun íþrótta

b) hjá íþróttafélagi

c) undir handleiðslu þjálfara

d) keppni - að einhverju leyti.

Í bréfi frá framkvæmdastjóra [X] dags. 28. apríl 1997 segir að kærandi iðki reglubundnar æfingar undir handleiðslu íþróttakennara „til að ýta undir heilbrigði einstaklingsins”.

Að mati tryggingaráðs skiptir meginatriði í þessu máli hvernig orðið „íþróttamaður” er túlkað. Hvort átt sé við þá sem stunda svokallaðar keppnisíþróttir eða einnig þá sem iðka almenningsíþróttir. Með hliðsjón af tilurð upprunalegs lagaákvæðis og greinargerð með því lagafrumvarpi verður að álykta að tryggja skyldi þá sem stunda keppnisíþróttir.

Vissulega virðist það rétt hjá kæranda að hann hafi stundað íþróttir reglubundið hjá íþróttafélagi undir handleiðslu þjálfara. Engu að síður var markmið með þjálfun að viðhalda heilbrigði viðkomandi, en ekki að taka þátt í opinberri keppni.

Afar erfitt og ósanngjarnt væri að telja sumar tegundir almenningsíþrótta bótaskyldar eftir því hvaða form hver og einn velur sér, þannig að sá sem æfir í íþróttasal innan húss, að viðstöddum leiðbeinanda væri tryggður, en ekki sá sem kýs að vera einn á ferð utanhúss.

Það er því niðurstaða tryggingaráðs að ekki sé unnt að telja slys það sem [A] varð fyrir 12. febrúar 1997 bótaskylt skv. e-lið 1. mgr. 24. gr. ATL nr. 117/1993.“

III.

Hinn 21. nóvember 1997 ritaði umboðsmaður Alþingis tryggingaráði bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tryggingaráð léti honum í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til þess. Gögn málsins bárust umboðsmanni 15. janúar 1998. Umboðsmaður ritaði tryggingaráði aftur 7. maí 1998 og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, að tryggingaráð léti honum einnig í té úrskurð tryggingaráðs í málinu nr. 49/1991 auk annarra úrlausna ráðsins um rétt til slysatryggingar á grundvelli e-liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993. Þá sagði í bréfi umboðsmanns:

„Í kvörtun [A] er vísað til fyrri úrskurða tryggingaráðs vegna íþróttaslysa. Í bréfi tryggingaráðs frá 14. janúar 1998 skýrir ráðið ekki viðhorf sitt til kvörtunar hans að þessu leyti. Eru því ítrekuð tilmæli mín í bréfi dags. 21. nóvember, að tryggingaráð skýri viðhorf sitt til kvörtunar [A]. Jafnframt er þess óskað, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tryggingaráð geri nánar grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja til grundvallar þeirri skoðun slysatryggingadeildar og tryggingaráðs, að skýra beri „hið rúma orðalag” umrædds ákvæðis laga um almannatryggingar „þrengjandi“. Jafnframt er þess óskað, að tryggingaráð geri nánari grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að slysatrygging vegna íþróttaslysa takmarkist við þá, sem stunda keppnisíþróttir.“

Svar tryggingaráðs barst umboðsmanni Alþingis hinn 6. júlí 1998. Þar segir m.a. svo.

„Óskað er eftir því að tryggingaráð geri nánar grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja til grundvallar þeirri skoðun slysatryggingadeildar og tryggingaráðs, að skýra beri hið „rúma orðalag“ umrædds ákvæðis laga um almannatryggingar „þrengjandi“. Líta verður til þess hvernig og hvers vegna þetta lagaákvæði varð til. Svo sem sést af greinargerð sem fylgdi upphaflegu frumvarpi var tilgangur þess að styðja við ungt íþróttafólk sem varð fyrir áföllum vegna íþróttaslysa. Íþróttahreyfingin hafði reynt að standa undir slíkum bótum sjálf, en hafði ekki bolmagn til þess.

Árið 1975 er ákvæði um slysatryggingu íþróttafólks kom fyrst inn í almannatryggingalögin voru almenningsíþróttir stundaðar í margfalt minna mæli en nú er og hvorki í greinargerð né frumvarpi til laga verður séð að ákvæðinu sé ætlað að ná til almenningsíþrótta. Þvert á móti áttu iðgjöld að greiðast sameiginlega af ríkissjóði og Íþróttasambandi Íslands og setja átti reglugerð um skiptingu iðgjaldagreiðslna svo og um slysatryggingar íþróttafólks, í samráði við ÍSÍ. Síðar var lagaákvæði um innheimtu iðgjalds fellt brott, en eftir stóð heimild til setningar reglugerðar.

Starfsmenn TR unnu ítarleg drög að reglugerð, en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki sett slíka reglugerð.

Svo sem margoft hefur komið fram hefur það því komið í hlut slysatryggingadeildar og tryggingaráðs að afmarka og móta gildissvið ákvæðisins. Væri ákvæðið skýrt rýmkandi skýringu og almenningsíþróttir felldar undir væri ákaflega erfitt út frá jafnréttisjónarmiði að draga mörk milli þess hvaða almenningsíþróttir og þá hvers konar hreyfing sér til heilsubótar utan húss og innan skyldi vera bótaskyld nema með nánari afmörkun í lagatexta eða reglugerð. Slík túlkun núgildandi lagaákvæðis væri ekki heldur í samræmi við upphaflegan tilgang þess. Einnig er rétt að hafa í huga að iðgjöld eru ekki greidd af þessari tryggingu og hefur í raun verið litið á hana sem styrk ríkisins við íþróttahreyfinguna.“

Umboðsmaður Alþingis gaf A kost á að koma að athugasemdum og bárust þær hinn 15. október 1998.

IV.

1.

Í máli þessu reynir á túlkun e-liðar, sbr. upphafsmálsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru:

[…]

e. Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.“

Í úrskurði tryggingaráðs frá 19. september 1997 var kröfu A um slysabætur samkvæmt ofangreindu lagaákvæði hafnað á grundvelli þeirrar túlkunar á efni ákvæðisins að tilgangur þess hafi verið sá að tryggja þá er stunda keppnisíþróttir en ekki iðkendur almenningsíþrótta, þ.e. þá sem aðeins stunda íþróttir með það að markmiði að „viðhalda heilbrigði viðkomandi”. Ég tek fram að af hálfu tryggingaráðs er fallist á að A hafi uppfyllt önnur skilyrði e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga sem tryggingaráð hefur mótað í framkvæmd, þ.e. að hafa stundað íþróttir reglubundið hjá íþróttafélagi undir handleiðslu þjálfara.

2.

Ákvæði e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga var bætt við III. kafla laganna með lögum nr. 39/1975, um breyting á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar. Rétt er að taka hér upp eftirfarandi athugasemdir greinargerðar er fylgdu frumvarpi til laga nr. 39/1975 en þær eru að auki teknar upp í úrskurð tryggingaráðs í máli þessu:

„Þau rök, sem mæla með samþykkt frumvarpsins, eru þessi:

Eins og flestum, er til þekkja, er kunnugt koma oft fyrir slys við íþróttaæfingar og íþróttakeppni, án þess að um verði kennt óaðgætni eða slæmum útbúnaði íþróttatækja. Þeir, sem íþróttir stunda, eru oftast ungt fólk og í flestum tilfellum félítið.

Augljóst er, að erfitt er fyrir þetta fólk að mæta skakkaföllum, sem það verður fyrir, þegar það verður lengri eða skemmri tíma frá verki vegna slysa við íþróttaiðkanir.

Þennan vanda hefur íþróttahreyfingin sjálf reynt að leysa með myndun eigin slysatryggingasjóða, sem því miður, eftir meira en áratugs starfsemi, hafa eigi getað fullnægt nema hluta af tryggingaþörfinni.

Um raunhæfa lausn á þessu máli er því ekki að ræða, aðra en þá, að íþróttaiðkendur njóti ákvæða almannatryggingalaganna um slysabætur.

Um sanngirni slíks máls má leiða fram mörg rök, en hér verður aðeins bent á þýðingu íþróttanna fyrir uppeldi og hreysti æskunnar og reyndar allra þeirra, eldri sem yngri, er iðka íþróttir, og því fráleitt, að íþróttafélag njóti eigi ákvæða almannatrygginga um slysabætur við íþróttaiðkanir.

Eins og fyrr segir, hafa Íþróttasamband Íslands og Íþróttabandalag Reykjavíkur rekið sjálfstæða slysatryggingasjóði, sem þó hafa ekki haft bolmagn til greiðslu fullnægjandi slysa- og kostnaðarbóta og hafa verið fjárhagslegur baggi fyrir íþróttahreyfinguna. Hafa þessir sjóðir þó ekki staðið undir örorku- eða dánarbótum, og verður að telja það mikilvægasta nýmæli frumvarpsins, að gert er ráð fyrir greiðslu slíkra bóta vegna slysa íþróttafólks, sem leiða til örorku eða dauða.“ (Alþt., A-deild, 1974-75, bls. 564.)

Tilefni setningar laga nr. 39/1975 var rakið í ræðu flutningsmanns er mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi:

„Það hefur verið svo í okkar þjóðfélagi, að meir og meir hefur verið gengið í þá átt að tryggja borgarana fyrir áföllum, sem þeir verða fyrir í lífinu, og íþróttahreyfingin hefur í þessu tilliti sett fram þá sanngjörnu ósk af sinni hálfu að fara fram á, að íþróttafólk, sem verður fyrir áföllum vegna íþróttaiðkana, fái bætt það tjón sem hlýst af þeim áföllum. Íþróttahreyfingin hefur rekið sjálfstæða slysatryggingasjóði um nokkur ár, og hafa þeir sjóðir getað leyst úr minni háttar slysatjónum. Þessir sjóðir hafa verið fjármagnaðir með fé íþróttastarfseminnar sjálfrar, enda þótt það fé sé sannarlega ekki til skiptanna. Þessir sjóðir eru hins vegar engan veginn færir um að greiða bætur vegna varanlegrar örorku eða dauðsfalla og það yrði merkasta og mikilvægasta breytingin í þessum efnum, ef slík slys yrðu bætt eins og frv. gerir einmitt ráð fyrir og stefnir að.

[…] það felur í sér, eins og fyrr segir, að það gangi inn í hið almenna tryggingakerfi, að íþróttamenn, sem verða fyrir slysum, fái tjón sitt, tap sitt og kostnað sinn bættan eins og þegar um önnur slys er að ræða á vinnustöðum og í lífinu almennt. Íþróttahreyfingin hefur fyrir sitt leyti viljað leggja fram fjármagn og hún hefur boðið, að höfuðstólar slysatryggingasjóðanna, sem nú eru starfandi, renni óskiptir til þess að standa undir iðgjaldagreiðslum til að byrja með og samkv. nánara samkomulagi.“ (Alþt., B-deild, 1974-75, dálk. 765-766.)

Ég tel að af orðalagi og efni e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga, sbr. einnig lögskýringargögn, verði ráðið að með setningu ákvæðisins hafi verið að því stefnt að þeir sem yrðu fyrir slysum við iðkun íþrótta innan vébanda skipulagðrar íþróttahreyfingar nytu opinberrar tryggingar samkvæmt almannatryggingalögum.

Í tilvitnuðum lögskýringargögnum er gildissvið almannatrygginga að þessu leyti með engu móti takmarkað við þá íþróttamenn sem stunda íþróttir með keppni í huga. Þvert á móti virðist mega draga þá ályktun af athugasemdunum og ummælum flutningsmanns á Alþingi að hin opinbera trygging eigi að taka til allra þeirra sem nýta sér þá möguleika sem íþróttahreyfingin veitir landsmönnum til skipulagðrar íþróttaiðkunar. Í því efni verði að hafa í huga „þýðingu íþróttanna fyrir uppeldi og hreysti æskunnar og reyndar allra þeirra, eldri sem yngri, er iðka íþróttir, og því [sé] fráleitt, að íþróttafélag njóti eigi ákvæða almannatrygginga um slysabætur við íþróttaiðkanir“ eins og fram kemur í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1975 sem teknar eru upp hér að framan. Ég tek fram í þessu sambandi að í nefndum lögskýringargögnum er að því vikið að vegna fjárskorts íþróttahreyfingarinnar og sérstakra slysatryggingasjóða hennar hafi komið í ljós að íþróttafólk hafi eigi verið nægjanlega tryggt fyrir tjóni af völdum „íþróttaiðkunar“.

Orðalag e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga er rúmt en þar kemur fram, eins og fyrr greinir, að íþróttafólk sem taki þátt í íþróttaiðkunum „hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og er orðið 16 ára“ sé slysatryggt samkvæmt lögunum. Ekki hefur af hálfu ráðherra verið nýtt heimild seinni málsliðar ákvæðisins til setningar reglugerðar til nánari útfærslu á gildissviði ákvæðisins en í úrskurði tryggingaráðs í máli þessu kemur fram að ákvæðið hafi þannig í framkvæmd „ætíð verið skýrt þrengjandi“, m.a. að því leyti að það taki einvörðungu til til þess þegar íþrótt er stunduð með keppni í huga. Af því tilefni tek ég fram að hvorki verður beinlínis ráðið af orðalagi e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga, né af lögskýringargögnum sú tilætlun löggjafans að takmarka umfang slysatryggingar almannatrygginga við iðkun íþrótta við þau tilvik ein þegar keppt er í tiltekinni íþrótt eða fengist er við æfingar í því skyni. Þvert á móti virðist, eins og áður sagði, fremur mega ráða af orðalaginu og tilvitnuðum lögskýringargögnum að ætlun löggjafans hafi verið sú að allir þeir sem stunda íþróttir sem skipulögð er af hálfu íþróttahreyfingarinnar séu slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögum.

Ég minni á að það opinbera kerfi almannatrygginga sem lög nr. 117/1993 fjalla um er ætlað að veita landsmönnum fjárhagslegan stuðning í þeim tilvikum þegar aðstæður og atvik í lífi þeirra eru með þeim hætti að atbeina ríkisins er þörf. Löggjafinn hefur þannig ákveðið að í tilteknum tilvikum skuli skatttekjur ríkisins notaðar til að styðja við bakið á þeim sem orðið hafa fyrir áfalli eða upplifa með einhverjum hætti aðstæður sem áhrif hafa á fjárhagslega afkomu þeirra sem lögin taka til. Ég tek þetta fram í þessu máli sökum þess að ég fæ ekki séð, í ljósi þessara sjónarmiða um tilgang almannatrygginga og ofangreindra markmiða með setningu lagaákvæða um slysatryggingu við íþróttaiðkanir, að rétt hafi verið af hálfu tryggingaráðs að miða almennt við það við framkvæmd ákvæðis e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga að skýra bæri gildissvið ákvæðisins þröngt án þess að sú takmörkun á gildissviði ákvæðisins ætti sér skýra stoð í lögskýringargögnum eða öðrum ákvæðum laga sem hér koma til skoðunar.

Ég tek fram að þegar ákvæði e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga er túlkað til samræmis við önnur lagaákvæði á sviði íþróttamála, tel ég að tryggingaráði hafi verið rétt að skýra ákvæði e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga, a.m.k að því er varðar eðli og markmið þeirrar íþróttaiðkunar sem ákvæðið tekur til, í samræmi við hið rúma orðalag ákvæðisins.

Á þeim tíma er atvik þessa máls áttu sér stað voru í gildi íþróttalög nr. 49/1956 en með 1. gr. laganna var hugtakið íþróttir skilgreint með þeim hætti að um væri að ræða „hvers konar líkamsæfingar, er stefna að því að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp“. Þess skal getið að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. núgildandi íþróttalaga nr. 64/1998 merkja íþróttir samkvæmt lögunum „hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti“. Í V. kafla laga nr. 49/1956, sbr. nú 5. gr. laga nr. 64/1998, var kveðið á um frjálsa íþróttastarfsemi. Þar sagði í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 49/1956 að íþróttastarfsemi utan skólanna væri falin frjálsu framtaki landsmanna og færi fram í félögum og sem einstaklingsstarf með þeim stuðningi sem veittur væri samkvæmt lögunum. Þá kom fram að Íþróttasamband Íslands (Í.S.Í.) væri æðsti aðili um frjálsa íþróttastarfsemi áhugamanna í landinu.

Af ákvæðum eldri íþróttalaga nr. 49/1956, sbr. nú lög nr. 64/1998, verður ekki annað ráðið en að íslensk löggjöf hafi löngum miðað við það að markmið íþróttaiðkunar væri að auka líkamlegt og andlegt heilbrigði manna og hreysti. Þá fæ ég ekki séð að ofangreind lagaákvæði endurspegli þá aðstöðu að starf skipulagðra íþróttafélaga sé bundið við það einvörðungu að gefa landsmönnum kost á að stunda íþróttir með keppni í huga. Með hliðsjón af þessu og þeim sjónarmiðum sem ég rakti hér að framan um forsögu og tilgang e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga, tel ég að ekki séu rök til að skýra þetta ákvæði þröngt með þeim hætti sem gert var af hálfu tryggingaráðs í úrskurði þess í máli A, þ.e. að tjónþoli þurfi að hafa verið að stunda íþróttir í keppni eða hafa verið við íþróttaæfingar með keppni í huga þegar slys hafi átt sér stað. Orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn og ekki síst ákvæði annarra laga sem taka til íþróttamála og endurspegla stefnu löggjafans í þeim efnum, benda þvert á móti til þess að skýra beri ákvæðið á þá leið að almannatryggingakerfið skuli koma til aðstoðar í þeim tilvikum þegar að maður hefur orðið fyrir tjóni af völdum íþróttaiðkunar án tillits til þess hvort tilgangurinn með iðkun hlutaðeigandi íþróttar hafi verið þátttaka í keppni. Ég tel aftur á móti, með tilliti til þeirra sjónarmiða úr lögskýringargögnum sem rakin voru hér að framan og lagaákvæða á sviði íþróttamála, að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við þá afmörkun tryggingaráðs á efnisinntaki e-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga að íþróttaiðkun sú sem leitt hafi til tjóns hafi verið stunduð á vegum íþróttafélaga þar sem fram fari skipulögð íþróttastarfsemi undir handleiðslu þjálfara.

V.

Niðurstaða.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið hér að framan tel ég að niðurstaða tryggingaráðs í máli A hafi eigi verið í samræmi við e-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993.

Eftir að úrskurður tryggingaráðs í máli þessu gekk hefur ákvæðum laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, verið breytt með lögum nr. 60/1999 er öðluðust gildi 1. júlí sl. Með þeirri lagabreytingu hefur úrskurðarvald í málum er varða ágreining um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum verið fært úr höndum tryggingaráðs til sérstakrar úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. nú 7. gr. almannatryggingalaga. Lögin kveða hins vegar ekki á um það hvert beina skuli ósk um endurupptöku mála sem úrskurðuð voru af tryggingaráði fyrir gildistöku hinna nýju laga. Ég minni hins vegar á að það er meginregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 26. gr. laganna, að aðili máls eigi þess kost að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum. Það eru því tilmæli mín til tryggingaráðs að það sjái til þess að mál A verði endurupptekið af til þess bærum aðila, komi fram ósk þess efnis frá honum, og að meðferð þess verði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Hinn 11. apríl 2000 barst mér afrit af úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli A, dags. 5. janúar 2000. Þar segir að A hafi farið fram á endurupptöku máls síns með bréfi til tryggingaráðs, dags. 22. ágúst 1999, og að tryggingaráð hafi framsent erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. september. Í úrskurðinum segir meðal annars svo:

„Úrskurðarnefnd almannatrygginga fellst á lagatúlkun umboðsmanns Alþingis og ákveður að leggja hana til grundvallar úrlausn á máli kæranda. Skv. því er fallist á kröfu kæranda um slysabætur.“