Skattar og gjöld. Endurgreiðsla oftekinna skatta. Vextir. Lögmætisreglan. Framkvæmd laga. Jafnræðisregla. Stjórnsýslukæra. Form og efni úrskurða. Rannsóknarreglan. Málshraði.

(Mál nr. 2545/1998)

A kvartaði yfir málsmeðferð vegna endurgreiðslu oftekinna skatta og vaxtaákvörðunar vegna inneignar sinnar hjá ríkissjóði af því tilefni.

Kvörtun A laut í fyrsta lagi að því hversu langan tíma það hefði tekið stjórnvöld að endurgreiða honum ofgreidda skatta. Af því tilefni vék umboðsmaður að meðferð fjármálaráðuneytisins á erindi A til ráðuneytisins sem ráðuneytið framsendi tollstjóranum í Reykjavík. Taldi umboðsmaður að ráðuneytinu hefði borið að ganga úr skugga um hvort A hefði með því erindi sínu ætlað að kæra tilgreinda niðurstöðu um ákvörðun vaxta af inneign sinni hjá ríkissjóði enda hefði ráðuneytinu þá borið skylda að lögum til að fjalla um málið sem kærumál á grundvelli 31. gr. stjórnsýslulaga. Vegna þeirrar ákvörðunar fjármálaráðuneytisins í tilefni af síðara erindi A til ráðuneytisins að óska eftir því við A að hann veitti upplýsingar um rekstur sinn og gerði reka að afhendingu ótilgreindra úrskurða skattstjóra og yfirskattanefndar tók umboðsmaður fram að ekki yrði séð nauðsyn eða þýðing þeirrar ákvörðunar ráðuneytisins enda hefðu gögn þessi af hálfu tollstjóra verið lögð til grundvallar hinni kærðu ákvörðun og því réttara að ráðuneytið aflaði þeirra frá því stjórnvaldi sem kæra A beindist að, þ.e. tollstjóra. Þá taldi umboðsmaður með tilliti til efnis kæru A og lagakrafna til forms og efnis stjórnsýslukæra að fjármálaráðuneytinu hefði ekki verið rétt að óska sérstaklega eftir skýrari framsetningu krafna af hálfu A, að málsmeðferð ráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við almenna málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og loks að afgreiðsla ráðuneytisins uppfyllti ekki skilyrði 31. gr. sömu laga um form og efni úrskurða í kærumáli.

Kvörtun A laut í öðru lagi að vaxtaákvörðun tollstjórans í Reykjavík vegna inneignar A hjá ríkissjóði. Af því tilefni rakti umboðsmaður þróun lagareglna um rétt manna til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum og gerði grein fyrir þeim reglum sem gilt hefðu um rétt A til vaxta af ofgreiddum skatti gjaldáranna 1994-1997. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi umboðsmaður að vaxtaákvarðanir tollstjóra vegna viðkomandi gjaldára væru í samræmi við þágildandi reglur um þessi efni. Tók umboðsmaður fram að viðmiðun vaxtafjárhæðar væri lögákveðin með tilteknum hætti. Væri því ekki tilefni til athugasemda við niðurstöður tollstjórans í Reykjavík um ákvörðun vaxta af inneign A vegna ofgreidds skatts.

Í þriðja lagi laut kvörtun A að því að innheimtumaður ríkissjóðs greiddi ekki vexti og verðbætur á inneignir gjaldenda að eigin frumkvæði. Í skýringum fjármálaráðuneytisins kom fram að misbrestur hefði orðið á því að innheimtumenn ríkissjóðs hefðu frumkvæði að því að greiða vexti við endurgreiðslu oftekinna skatta. Umboðsmaður benti á að lög kvæðu skýrt á um skyldu þeirra stjórnvalda sem innheimta skatta og gjöld til að hafa frumkvæði að endurgreiðslu ofgreiddra skatta ásamt vöxtum, þegar þeim yrði ljóst að ofgreitt hefði verið, og tók fram að hlutverk stjórnvalda að íslenskum stjórnlögum væri að sjá um framkvæmd laga að viðlagðri ábyrgð. Taldi umboðsmaður að þær skýringar sem fjármálaráðuneytið hefði fært fram, þ.e. að tölvukerfi réði ekki við útreikning vaxta af inneignum og að innheimtumenn ríkissjóðs hefðu ekki yfir að ráða starfsfólki til að annast slíkan útreikning, fælu ekki í sér lögmætar ástæður til að halda að sér höndum við framkvæmd lagaákvæða um greiðslu vaxta af ofgreiddum skatti. Minnti umboðsmaður á í því sambandi að forstöðumenn ríkisstofnana bæru ábyrgð á að stofnanir, sem þeir stýrðu, störfuðu í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann hefði forgöngu um að lagaframkvæmd á þessu sviði yrði komið í lögmælt horf. Þá tók umboðsmaður fram að í ljósi reglna um jafnrétti gjaldenda væri brýnt að fjármálaráðherra tæki almenna ákvörðun um framkvæmd innheimtumanna á afturvirkri leiðréttingu á þessu sviði og beindi þeim fyrirmælum til innheimtumanna ríkissjóðs að haga framkvæmd í samræmi við þá ákvörðun. Þar sem slík ákvörðun lægi ekki fyrir taldi umboðsmaður þó ekki efni til að taka að svo stöddu frekari afstöðu til réttarástands á þessu sviði. Loks vék umboðsmaður að drögum fjármálaráðuneytisins að verklagsreglum fyrir innheimtumenn ríkissjóðs um útborganir inneigna úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem gerðu ráð fyrir því að vextir skyldu ekki reiknaðir á inneignir undir 500 kr. og í sumum tilvikum ekki á inneignir undir 1000 kr. Umboðsmaður taldi umrædd fyrirmæli ekki eiga sér lagastoð og vera í andstöðu við lög þar sem greiða bæri vexti á allar inneignir gjaldenda hjá ríkissjóði án tillits til fjárhæðar. Beindi hann því þeim tilmælum til fjármálaráðherra að gæta þess að leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs yrðu ekki svo úr garði gerðar í endanlegri útgáfu.

I.

Hinn 14. september 1998 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð vegna endurgreiðslu ofgreiddra skatta og vaxtaákvörðunar vegna inneignar af því tilefni hjá ríkissjóði.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 12. júlí 1999.

II.

Málavextir eru þeir að A ofgreiddi tekjuskatt vegna oftalinna fæðishlunninda á árunum 1993, 1994, 1995 og 1996. Hinn 27. janúar 1998 leiðrétti ríkisskattstjóri álagningu A vegna tekna á árunum 1993 og 1994, gjaldárin 1994 og 1995. Hið sama gerði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi hinn 15. desember 1997 vegna skattframtals 1997. Í samræmi við þessar leiðréttingar varð til inneign A hjá ríkissjóði. Þá voru fæðishlunnindi oftalin í skattframtali A fyrir árið 1996 og var gerð leiðrétting vegna þess með úrskurði yfirskattanefndar frá 5. nóvember 1997, nr. 862/1997. Var gjaldstofn hans lækkaður í samræmi við þá niðurstöðu og myndaðist því inneign hjá ríkissjóði. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóranum í Reykjavík voru skattbreytingar vegna A færðar í tekjubókhaldskerfi ríkisins 27. janúar 1998. Inneign sem myndaðist við skattbreytingu þessa var greidd A 29. janúar s.á.

A kvartaði til umboðsmanns Alþingis hinn 10. febrúar 1998 vegna þess að ofgreiddur skattur hefði ekki verið endurgreiddur með vöxtum. Umboðsmaður Alþingis tók fram í bréfi til A, dags. 27. febrúar 1998, að endurgreiðsla ofgreidds skatts ætti undir innheimtumenn ríkissjóðs, sem í tilviki A væri embætti tollstjórans í Reykjavík. Taldi umboðsmaður Alþingis því rétt að A beindi formlegri kröfu um vaxtagreiðslu að embætti tollstjórans í Reykjavík. Ákvörðun innheimtumanns gæti hann, eftir atvikum, kært til fjármálaráðuneytisins. Umboðsmaður tók fram að hann benti A á að fara þessa leið þar sem ekki yrði kvartað til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

A gerði kröfu um vexti vegna inneignar sinnar og fékk vexti greidda hinn 27. febrúar s.á.

Hinn 9. mars 1998 óskaði A eftir leiðréttingu á vöxtum vegna inneignar sinnar hjá ríkissjóði með bréfi til fjármálaráðuneytisins. Í bréfinu sagði meðal annars:

„Ég beini þeirri fyrirspurn til yðar að leiðrétta þá vexti sem ég á inni skv. öðru blaði. Tel ég að 0,5% vextir séu ekki sanngjarnir heldur 7-8% skv. bundnum reikningum frá SPRON. Í öðru lagi vil ég fá þá vexti sem ég á inni frá 1994 en ekki bara frá 1995 sbr. blað. Í þriðja lagi lít ég á þessa vexti sem bætur (miskabætur) fyrir skattsvik launagreiðanda sem ég átti enga sök á, og skv. skattalögum bera miskabætur [hvorki] skatt né fjármagnstekjuskatt.“

Fjármálaráðuneytið framsendi erindið til tollstjórans í Reykjavík með bréfi, dags. 11. mars 1998, með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tollstjórinn í Reykjavík svaraði A með bréfi, dags. 11. maí 1998, og vísaði til 2. og 3. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tók meðal annars fram:

„Greiðsla á vöxtum til yðar byggist á fyrirliggjandi gögnum og er í samræmi við gildandi lagaákvæði þar um. Ekki er unnt að fallast á sjónarmið yðar að vextir sem ríkissjóður hefur greitt yður séu miskabætur sem ekki eigi að greiða fjármagnstekjuskatt af.“

A skaut þessari niðurstöðu tollstjórans í Reykjavík til fjármálaráðuneytisins með bréfi, dags. 15. maí 1998. Í bréfinu sagði meðal annars:

„Samkvæmt meðfylgjandi ljósriti frá [...] Tollstjóranum í Reykjavík kæri ég þá niðurstöðu og bið um afstöðu fjármálaráðuneytis til skoðana minna.

1) Ofgreiðsla skatts byrjaði í maí 1993 og endaði í júní 1996 og tel ég að ég hafi ekki fengið vexti allt tímabilið. Með vísan til að ég telji 7-8% vexti sanngjarna, er að á þessum árum skuldaði ég meðlag og var látinn borga fulla dráttarvexti af þeirri skuld þó svo að ég ætti peninga inni hjá ríkissjóði á sama tíma. Og svo með fjármagnstekjuskattinn þar sem ég lít á brot atvinnurekenda sem brot á mér vil ég að ráðuneytið líti svo á að þetta séu miskabætur sem ekki þarf að borga fjármagnstekjuskatt af.

2) Vísa ég til þess sem áður er skrifað að meint skattabrot byrjaði í maí [1993] en ekki [1995]. Og tel ég að vextir (hæstu) hafi verið hærri á þessum tíma en ég fékk. (og þessa vexti sem ég er búinn að fá þurfti ég að sækja sjálfur til yfirvalda þ.e.a.s. þeir komu ekki inn við fyrsta uppgjör).

3) Árið 1996 í desember kærði ég þetta mál til yfirskattanefndar og vegna anna fékkst ekki leiðrétting fyrr en í desember 1997. Það eru u.þ.b. 8 mán. umfram þennan lögboðna frest en enga dráttarvexti fæ ég. Hvar eru mörkin? Frá því að ég byrjaði á þessu máli eru liðnir 27 mánuðir og ennþá þráast ríkið við að ljúka þessu máli og vona ég að fjármálaráðuneytið skilji mína afstöðu og mína löglegu leiðréttingu á þessu leiðindamáli.“

Hinn 15. júlí 1998 fékk A yfirlit yfir inneignarvexti sína frá tollstjóranum í Reykjavík og á fylgiseðli þess sagði:

„Leiðréttir inneignarvextir v/1994 og reiknaðir inneignarv. 1996. Drv. leiðr. v/1994.“

Fjármálaráðuneytið ritaði A svohljóðandi bréf, dags. 19. júní 1998:

„Vísað er til erindis yðar sem barst ráðuneytinu 15. maí 1998, þar sem þér kærið ákvörðun tollstjórans í Reykjavík vegna ákvörðunar vaxta. Með bréfi þessu er óskað eftir nánari upplýsingum um rekstur yðar, úrskurði skattstjóra og yfirskattanefndar og önnur skjöl viðkomandi málinu. Þá er þess óskað að kröfur yðar komi skýrar fram.“

Svar A barst ráðuneytinu um miðjan júlí 1998 samkvæmt svarbréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 4. janúar 1999 sem rakið verður hér síðar. Þá óskaði fjármálaráðuneytið eftir því með bréfi, dags. 12. ágúst 1998, að tollstjórinn í Reykjavík gerði grein fyrir forsendum vaxtaútreiknings. Svar tollstjóra var dags. 25. sama mánaðar.

Fjármálaráðuneytið tók kæru A frá 15. maí 1998 til úrlausnar 9. september 1998. Í bréfi þess til A sagði meðal annars:

„Með bréfi til yðar, dags. 19. júní 1998, óskaði ráðuneytið eftir nánari upplýsingum um rekstur yðar, úrskurði skattstjóra og yfirskattanefndar og öðrum skjölum viðkomandi málinu. Með bréfi, dags. 12. ágúst 1998, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá tollstjóranum í Reykjavík um þá vexti sem yður hafa verið greiddir vegna ofgreiðslu tekjuskatts. Svar barst ráðuneytinu 28. ágúst 1998.

Samkvæmt skattbreytingarseðli ríkisskattstjóra ofgreidduð þér tekjuskatt vegna tekna sem þér öfluðuð yður árið 1993, kr.[...], og vegna tekna ársins 1994 kr. [...]. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 862/1997 ofgreidduð þér tekjuskatt vegna tekna ársins 1995 kr. [...] og samkvæmt upplýsingum frá tollstjóranum í Reykjavík ofgreidduð þér tekjuskatt vegna tekna ársins 1996, kr. [...]. Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, eins og hún var fram til 1. janúar 1996, skal greiða skattgreiðanda vexti, jafnháa þeim sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnistæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma, frá 1. júlí á álagningarári, þegar í ljós kemur við endurákvörðun á tekjuskatti að skattgreiðandi hefur greitt of háan tekjuskatt. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóranum í Reykjavík hafa yður verið greiddir vextir vegna þessarar ofgreiðslu í samræmi við gildandi lög.

Í kæru yðar kemur fram að nokkur dráttur hafi orðið á afgreiðslu yfirskattanefndar á kæru yðar til nefndarinnar. Af því tilefni spyrjið þér um það hvort þér eigið rétt á dráttarvöxtum vegna þess. Með lögum nr. 31/1995 var lögfest ný málsgrein í 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er mælt fyrir um að úrskurði nefndin ekki í málum sem eru til meðferðar hjá henni innan lögboðins frests, sem er 45 dagar [svo], skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurði að skuli endurgreiða, frá því að frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurði leið. Breytingin tók gildi 1. janúar 1996 og tekur til ofgreiðslu sem á sér stað eftir það tímamark. Því skapar dráttur yfirskattanefndar yður ekki rétt til dráttarvaxta, heldur einungis vaxta.

Þó svo að þér hafið orðið fyrir nokkrum óþægindum vegna málsins er ekki unnt að fallast á það sjónarmið yðar að þeir vextir sem þér hafið fengið séu miskabætur. Því ber yður að greiða fjármagnstekjuskatt af þeim í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum.

Í kæru yðar kemur fram að þér hafið ekki fengið greidda vexti fyrr en þér leituðuð eftir því. Ríkið á að hafa frumkvæði að því að greiða skattgreiðendum sem ofgreiða skatta vexti í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Misbrestur hefur orðið á því í yðar tilviki og er beðist velvirðingar á því.

Vegna anna í ráðuneytinu og gagnaöflunar hefur svar við erindi yðar dregist nokkuð. Beðist er velvirðingar á því.“

Í kvörtun A til umboðsmanns Alþingis hinn 14. september 1998 tiltekur A sérstaklega fjögur atriði. Í fyrsta lagi gerir hann athugasemd við það hversu meðferð kröfu hans um endurgreiðslu og vexti í heild hafi tekið langan tíma. Í annan stað tekur hann fram að tollstjóri greiði ekki vexti né verðbætur að eigin frumkvæði. Í þriðja lagi snýr kvörtun A að því að vaxtaákvörðun sé ósanngjörn miðað við dráttarvexti og tekur fram að sanngjarnir vextir séu 7-8% og í fjórða lagi kvartar A yfir skorti á kæruleiðbeiningum tollstjóra. Þá segir í kvörtun A að hann sé „ósáttur við að þurfa almennt að ganga á eftir tollstjóra til að fá það sem ég á að fá strax skv. lögum, þurfa að eyða kaffitíma/matartíma í þetta mál + stöðumælar, bensín, símakostnaður ofl. Því má segja að allir þeir peningar (vextirnir) fóru í að sækja þá með tilheyrandi kostnaði. Einnig er ég ósáttur við að fá ekki svar frá fjármálaráðuneyti heldur alltaf frá tollstjóra þó svo að ég hafi kært úrskurð tollstjóra til fjármálaráðuneytis.“

III.

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir gögnum málsins og viðhorfi fjármálaráðherra til kvörtunar A með bréfi til ráðuneytis hans, dags. 13. október 1998. Sérstaklega var óskað eftir að ráðuneytið upplýsti eftirfarandi:

„1. Hvort það telji þann tíma, sem málið var til meðferðar, samrýmast 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og, ef svo er ekki, hvort það telji, að einhverjar þær ástæður hafi legið fyrir, sem réttlætt geti afgreiðslutímann.

2. Í kvörtun [A] kemur fram, að tollstjóri greiði hvorki vexti né verðbætur að eigin frumkvæði. Í bréfi ráðuneytisins til [A], dags. 9. september 1998, kemur fram, að ríkið eigi „að hafa frumkvæði að því að greiða skattgreiðendum sem ofgreiða skatta vexti í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Misbrestur hefur orðið á því í yðar tilviki [...]“

a) Í þessu sambandi óska ég upplýsinga um fyrirkomulag vaxta- og verðbótaútreiknings á inneign skattgreiðenda, sem myndast hefur vegna ofgreiðslu skatta. Hér er bæði átt við inneign, sem verður til við álagningu, og inneign vegna endurákvarðana skattyfirvalda á álagningu opinberra gjalda tiltekinna gjaldenda. Óskað er upplýsinga um, hvort munur sé á framkvæmd vaxtaútreiknings við þessar aðstæður.

b) Óskað er eftir upplýsingum um framkvæmd útreiknings vegna inneignar, svo sem í tilviki [A], og þá sérstaklega hvort hann sé gerður sjálfvirkt í tölvukerfi ríkisins eða með öðrum hætti.

3. Þá er óskað upplýsinga um framkvæmd á greiðslu dráttarvaxta til skattaðila samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. c-lið 2. gr. laga nr. 31/1995, við þær aðstæður, sem lýst er í lagagrein þessari. Í því sambandi óskast upplýst, hvort stjórnvöld greiði dráttarvexti að eigin frumkvæði í slíkum tilvikum. Þá er farið fram á að skýrt verði á hverju dráttarvaxtaútreikningur er byggður í slíkum tilvikum sem hér um ræðir.

4. Þá óska ég upplýsinga um, hvernig á því standi, að útreikningur lögbundinna vaxta, eins og í tilviki [A], geti farist fyrir og sé ráðuneytinu kunnugt um fleiri tilvik af þessu tagi, hvað hafi verið gert til að koma í veg fyrir slíkt.“

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins til mín frá 4. janúar 1999 segir meðal annars:

„Um sp. 1.

Ráðuneytið skilur fyrirspurn yðar þannig að spurt sé um meðferð málsins í ráðuneytinu og hjá tollstjóranum í Reykjavík. Ráðuneytið mun því ekki tjá sig um málshraða fyrir yfirskattanefnd, nema þess verði óskað sérstaklega.

Kvörtun [A] til ráðuneytisins vegna útreiknings vaxta var móttekin í ráðuneytinu þann 9. mars 1998 og framsend tollstjóranum í Reykjavík með bréfi dags. 11. mars. Tollstjóri svaraði bréfi [A] með bréfi dags. 11. maí. Þann 15. maí kærir [A] niðurstöðu tollstjóra til fjármálaráðuneytisins. Með bréfi dags. 19. júní óskar ráðuneytið eftir að [A] leggi fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Þau gögn bárust ráðuneytinu um miðjan júlímánuð. Með bréfi dags. 12. ágúst óskaði ráðuneytið eftir því við tollstjóra að gerð yrði grein fyrir forsendum vaxtaútreikningsins. Svar tollstjóra var móttekið í ráðuneytinu 25. ágúst. Þann 9. september svaraði ráðuneytið bréfi [A] frá 15. maí.

Frá því að ráðuneytið framsendi tollstjóra erindi [A] og þangað til niðurstaða fékkst hjá ráðuneytinu liðu, 6 mánuðir. Sá tími skýrist m.a. af því að málið var framsent til tollstjórans í Reykjavík þar sem það var til meðferðar í tvo mánuði. Frá því kæra barst ráðuneytinu frá [A] og þangað til úrskurður var kveðinn upp liðu tæpir fjórir mánuðir. Sá tími sem það tók að úrskurða í máli [A] skýrist af því að ráðuneytið þurfti að afla upplýsinga hjá tollstjóra um vaxtaútreikninginn þar sem svar tollstjóra dags. 11. maí til [A] var ekki fullnægjandi hvað það varðar, og upplýsingar um mál hans var ekki að finna í ráðuneytinu. Þá tafðist afgreiðsla málsins að einhverju leyti vegna sumarleyfa starfsmanna. Með vísan til framangreindra skýringa telur ráðuneytið að meðferð málsins í ráðuneytinu hafi ekki farið í bága við ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaganna.

Um sp. 2. a og b.

Í a-lið er spurt um fyrirkomulag vaxta- og verðbótaútreiknings á inneign skattgreiðenda, sem myndast vegna ofgreiðslu skatta og hvort munur sé á framkvæmd vaxtaútreiknings vegna inneignar sem myndast við álagningu og eða þegar um er að ræða endurákvörðun skattyfirvalda.

Þeir gjaldendur, sem eiga inni eftirstöðvar af staðgreiðslu að lokinni álagningu tekjuskatts og útsvars og skuldajöfnuði á milli hjóna samkvæmt ákvæðum 114. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og 32. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, fá bætt 2,5% álagi á eftirstöðvarnar sbr. 121. gr. laga nr. 75/1981. Álagið er reiknað út í álagningarkerfi ríkisskattstjóra og sent til tekjubókhaldskerfis ríkisins og fært gjaldanda sjálfvirkt. Það þarf því ekki atbeina gjaldanda til að fá álagið greitt.

Þá eru gjaldanda reiknaðir inneignarvextir af greiddri fyrirframgreiðslu gjalda utan staðgreiðslu (eignarskattur, sérstakur eignarskattur, markaðsgjald ofl.) skv. 1. málsl. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, ef hún reynist hærri en álagðir skattar utan staðgreiðslu. Ríkisbókhald sér um að reikna þessa vexti í innheimtugagnavinnslunni í júlí og eru þeir sendir til tekjubókhaldskerfis ríkisins og færðir gjaldanda þar sjálfvirkt. Vextir þessir eru jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma sbr. 2. málsl. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981.

Við endurákvörðun skatta sbr. 3. málsl. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 ber innheimtumönnum að endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Innheimtumenn reikna síðan handvirkt inneignarvexti (þ.e. færa inn vexti frá þeim tíma sem inneign myndaðist) á ofgreiðslu vegna endurákvörðunar skattstjóra á álagningu.

Á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, voru [A] reiknaðir inneignarvextir. Það var ekki gert sjálfvirkt, heldur þurfti innheimtumaður að færa inn vexti frá þeim tíma sem inneignin myndaðist svo sem fram kemur í bréfi tollstjóra dags. 5. nóvember sl., til yðar og ráðuneytinu hefur borist endurrit af.

Um sp. 3.

Þegar yfirskattanefnd hefur kveðið upp úrskurð sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt eru færðar inn skattbreytingar í tekjubókhaldskerfi ríkisins ásamt þeirri dagsetningu þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.

Þegar færðar eru inn breytingar samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar til lækkunar þá eru dráttarvextir endurreiknaðir og leiðréttir sjálfvirkt, en innheimtumenn þurfa að handreikna inneignarvexti vegna endurákvörðunar og greiða skattaðila að eigin frumkvæði út dráttarvexti. Vaxtaútreikninginn færa innheimtumenn á reikning gjaldanda áður en inneignin er greidd út með inneignarvöxtum.

Jafnframt er spurt um á hverju dráttarvextir eru byggðir. Dráttarvextir eru þeir sömu og hjá innlánsstofnunum sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961, [svo] með síðari breytingum og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

Um sp. 4.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisbókhaldi kemur fram að innheimtumenn hafi fengið þau fyrirmæli að athuga hvort viðkomandi gjaldandi eigi rétt á inneignarvöxtum í hvert skipti sem gjaldkeri greiðir út inneignir. Þessi fyrirmæli hafi verið ítrekuð árlega á fundum með aðalbókurum og skrifstofustjórum innheimtuembættanna.

Af framangreindum skýringum ríkisbókhalds er ljóst að tollstjórinn í Reykjavík hefur ekki farið eftir þeim reglum sem gilda um greiðslu inneignarvaxta. Telur ráðuneytið að sú framkvæmd sem lýst er í bréfi tollstjóra til yðar ámælisverða, enda ekki í samræmi við gildandi lög. Hefur ráðuneytið því beint þeim fyrirmælum til tollstjórans í Reykjavík að hann sjái til þess að farið verði að lögum við útreikning á inneignar- og dráttarvöxtum og að gerðar verði leiðréttingar eftir því sem unnt er vegna liðins tíma.

Telji umboðsmaður þörf nánari skýringa í máli þessu varðandi fyrirkomulag vaxtaútreiknings í tekjubókhaldskerfi ríkisins eða upplýsingar um framkvæmd við færslu breytinga í tilefni af breytingum á álagningu skattaðila þá mun ráðuneytið með aðstoð ríkisbókhalds veita þær.“

Með bréfi, dags. 13. október 1998, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir gögnum málsins og viðhorfi tollstjórans í Reykjavík til kvörtunar A. Sérstaklega var óskað upplýsinga um viðhorf embættisins til þess, hvers eðlis afgreiðsla þess á erindi A, dags. 11. maí 1998, hafi verið og hvers vegna ekki hafi verið veittar leiðbeiningar um kærurétt og kærufrest, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svarbréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 5. nóvember 1998, segir meðal annars:

„Skattbreyting [A] er færð í tekjubókhaldskerfi ríkisins 27. janúar 1998. Inneign sem myndast við skattbreytinguna er greidd út 29. janúar 1998. Inneignarvextir vegna skattbreytingarinnar eru greiddir út 27. febrúar 1998.

Tollstjórinn í Reykjavík lítur svo á að afgreiðsla embættisins á erindi [A], dags. 11. maí 1998, hafi fyrst og fremst verið þess eðlis að veita rökstuðning fyrir fyrri ákvörðun sinni um greiðslu vaxta þann 27. febrúar 1998.

Við afgreiðslu málsins fórst fyrir í erindi tollstjóra, dags. 11. maí 1998, að upplýsa með skriflegum hætti um kærurétt og kærufrest en tekið skal fram að af gögnum málsins má ljóst vera að [A] hafi verið kunnugt um kærurétt sinn þar eð hann hafði verið í sambandi við fjármálaráðuneytið vegna málsins og óskað endurskoðunar þess á ákvörðun tollstjóra um greiðslu vaxtanna.

Ekki er látið í ljós álit á athugasemdum vegna málsmeðferðartíma á skattkæru [A] þar eð úrlausn á þeim þætti málsins heyrir ekki undir embætti tollstjóra.

Tekjubókhaldskerfi ríkisins (TBI) sem er í notkun er þannig úr garði gert að það veldur ekki útreikningi á inneignarvöxtum vegna skattbreytinga sem gerðar eru í skattkerfinu. Inneignarvexti verður því í öllum tilvikum að handreikna og færa með handvirkum hætti í tekjubókhald ríkisins. Vegna þessa að vélrænn útreikningur og vélrænar færslur eru ekki til staðar í þessum efnum hafa gjaldendur þurft að óska sjálfir eftir útreikningi inneignarvaxta vegna skattbreytinga. Undanfarin ár hefur verið unnið að þróun nýs tekjubókhaldskerfis ríkissjóðs. (TBR) Hluti af því kerfi hefur þegar verið tekið í notkun. Þegar kerfið verður að fullu komið í gagnið, væntanlega á árinu 1999, mun vaxtaútreikningur verða vélrænn og atbeina skuldara til útreiknings inneignarvaxta heyra sögunni til.

Ekki er lagt mat á kvörtun [A] er snýr að því að vextir sem greiddir eru af inneignum gjaldenda hjá ríkissjóði séu of lágir og sanngjarnt sé að greiða 7 til 8% vexti. Vaxtastig í þessum efnum er ákveðið í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og eru vextir þar af leiðandi ekki háðir mati innheimtumanns.“

Ég veitti A kost á að tjá sig um bréf fjármálaráðuneytisins og tollstjórans í Reykjavík sem hann gerði með bréfum, dags. 17. nóvember 1998 og 8. janúar 1999. Í fyrra bréfi sínu gerði A m.a. athugasemd við skattbreytingu í tekjubókhaldskerfi ríkisins og tók fram í því sambandi að það hefði fyrst verið 27. janúar 1998 sem leiðrétting hefði komið til útborgunar eða u.þ.b. tveimur mánuðum eftir leiðréttingu frá yfirskattanefnd. Í síðara bréfi A tók hann fram að hann hefði litið á bréf sitt til fjármálaráðuneytisins, dags. 9. mars 1998, sem kæru og hefði ráðuneytið átt að taka það til umfjöllunar en ekki framsenda málið til tollstjóra aðeins tveimur dögum síðar eða 11. mars 1998.

Fjármálaráðuneytið sendi mér viðbótarupplýsingar með bréfi, dags. 12. maí 1999, en þar segir:

„Vísað er til bréfs ráðuneytisins til yðar dags. 4. janúar sl., sem snertir kvörtun [A] vegna málsmeðferðar við endurgreiðslu ofgreidds skatts og vaxtaákvörðunar vegna inneignar hjá ríkissjóði.

Eftir að ráðuneytið hafði ritað yður umrætt bréf kom í ljós að sú framkvæmd sem viðhöfð var hjá embætti tollstjórans í Reykjavík við útreikning inneignarvaxta var ekki einskorðuð við það embætti, heldur virðist sem að innheimtumenn ríkissjóðs hafi almennt ekki reiknað vexti á inneignir sem myndast við endurákvörðun opinberra gjalda. Í ljósi þess ákvað ráðuneytið að kalla saman fund með forstöðumanni teknasviðs ríkisbókhalds og tollstjóranum í Reykjavík um framkvæmd þessara mála. Hefur ráðuneytið átt nokkra fundi með þessum aðilum þar sem farið hefur verið vandlega yfir einstaka þætti málsins. Mun ráðuneytið leitast við í bréfi þessu og fylgigögnum þess að lýsa þeim vanda sem við er að etja í von um að það skýri vandamálið að einhverju leyti og gera yður grein fyrir því hvað hafi verið gert af hálfu ráðuneytisins í málinu.

Meginástæða þess að ekki hafa verið reiknaðir inneignarvextir er sú að með breytingum þeim sem gerðar voru á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 31/1995, þar sem fyrst var kveðið á um að reikna bæri inneignarvexti, gerðu menn ráð fyrir því að tekjubókhaldskerfi ríkisins yrði tilbúið þegar lögin kæmu til framkvæmda. Þar sem kerfið var ekki tilbúið þurftu innheimtumenn því að að handreikna inneignarvexti. Að reikna inneignarvexti handvirkt er mjög flókið og seinvirkt auk þess sem að sögn innheimtumanna ríkissjóðs hafi þeir ekki haft yfir að ráða starfsfólki til að fara í flókna útreikninga. Í svörum innheimtumanna til ráðuneytisins um mál þetta hefur jafnframt komið fram að bæta þurfi við amk. 1-3 starfsmönnum á stærstu embættunum til þess að sinna eingöngu þessu starfi. Virðist framangreind skýring vera helsta ástæða þess að ekki hafa verið reiknaðir inneignarvextir.

Meginvandinn við núverandi tekjubókhaldskerfi ríkisins er því sá að það reiknar ekki sjálfkrafa inneignarvexti þegar inneign myndast í kerfinu vegna skattbreytinga. Af þessu leiðir að í hvert skipti sem gerð er breyting á sköttum gjaldanda þar sem inneign myndast þarf að handreikna inneignarvexti. Frá árinu 1994 hefur verið í smíðum nýtt tekjubókhaldskerfi ríkisins sem mun verða tekið í notkun í áföngum á þessu ári og því næsta sbr., meðfylgjandi listar frá ríkisbókhaldi merktir fylgiskjal nr. 3. Mun hið nýja kerfi sjá um vélrænar færslur á inneign[ar]vöxtum. Vandinn snertir því einkum eldri inneignir og útreikning vaxta á inneignir sem myndast þangað til hið nýja tekjubókhaldskerfi verður að fullu komið í notkun. Hefur ríkisbókhald tekið saman verklagsreglur fyrir innheimtumenn ríkisins um greiðslur inneigna úr tekjubókhaldskerfi ríkisins og vaxtareikning þeirra. Fylgja þær með bréfi þessu sbr. fskj. nr. 1. og 2. Er þar gert ráð fyrir að úrskurðaðar endurgreiðslur verði í framtíðinni greiddar til gjaldenda innan fimm virkra daga frá úrskurðardegi. Gert er ráð fyrir að reikna inneignarvexti á allar inneignir sem eru 1000 kr. eða hærri í þing- og sveitarsjóðsgjöldum, fasteignagjöldum og á inneignir í öðrum gjaldflokkum sem eru 500 kr. og hærri. Dráttarvextir og inneignarvextir verði hins vegar ekki reiknaðir á inneignir og skuldir sem eru lægri. Lægri fjárhæðir sem ekki hafa verið sóttar verði greiddar út einu sinni á ári og þannig hreinsaðar út úr kerfinu. Varðandi nánari skýringar vísast til meðfylgjandi samantektar frá ríkisbókhaldi sbr. fskj. 1 og 2. Að því er snertir embætti tollstjórans í Reykjavík skal tekið fram að þar hefur verið bætt við þremur starfsmönnum sem munu sjá um útreikning inneignarvaxta. Framvegis mun því tollstjórinn í öllum tilvikum reikna inneignarvexti í samræmi við meðfylgjandi verklagsreglur frá ríkisbókhaldi.

Svo sem fram kemur í fylgiskjali nr. 3 er gert ráð fyrir að hið nýja tekjubókhaldskerfi ríkisins verði komið í fulla notkun í október á árinu 2000. Vonar ráðuneytið að bréf þetta og meðfylgjandi gögn veiti yður fullnægjandi skýringar á því hvernig brugðist hefur verið við þeim ágalla sem kom í ljós í framhaldi af kvörtun [A] til yðar.

Að lokum skal tekið fram að teljið þér þörf frekari skýringa eða eitthvað óljóst vill ráðuneytið gjarnan fá að koma þeim á framfæri.“

Meðfylgjandi bréfi fjármálaráðuneytisins var yfirlit ríkisbókhalds um „framkvæmd í dag“, dags. 7. apríl 1999, um inneignir í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Í yfirlitinu kemur fram að vegna þinggjalda- og sveitarsjóðsinnheimtu, skammstafað AB, eru reiknaðir og uppfærðir vélrænt inneignarvextir á ofgreidda, endurreiknaða fyrirframgreiðsluskyldu. Að öðru leyti eru inneignarvextir reiknaðir handvirkt af innheimtumönnum. Þá kemur fram að inneignir vegna þinggjalda- og sveitarsjóðsinnheimtu eru greiddar út tvisvar sinnum á ári, þ.e. í janúar og ágúst ár hvert áður en álagningar- og greiðsluseðlar eru sendir út. Í lið nr. 6 í yfirlitinu segir síðan:

„Embættin fá daglega athugasemdalista framfærslu. Þá lista yfirfara embættin á hverjum morgni. Þar birtast athugasemdir um ofgreiðslur sem hafa myndast og skattbreytingar sem mynda inneignir. Embættin gera þá strax viðeigandi ráðstafanir, þ.e. reikna inneignarvexti, skuldajafna og greiða út inneignir.“

Í lið nr. 11 segir svo:

„Um leið og gjaldflokkar verða fluttir yfir í nýja Tekjubókhaldskerfi ríkisins, TBR, verða reiknaðir inneignarvextir vélrænt á allar inneignir. Tveir gjaldflokkar eru komnir yfir í nýja kerfið, áfengisgjald og áfengisleyfi. Skipulagsgjald fer yfir í vikunni og allir gjaldflokkar v/greiðslufrests í tolli fara yfir 1. maí og síðan koll af kolli.[...]“

Þá fylgdu einnig bréfi fjármálaráðuneytisins verklagsreglur fyrir innheimtumenn ríkisins um útborganir inneigna út úr tekjubókhaldskerfi ríkisins, skammstafað TBI., merkt „drög 14.04.99ÁG“. Þar segir:

„1. Úrskurðuðum endurgreiðslum skattyfirvalda verði skuldajafnað á móti sköttum og gjöldum sbr. bréf fjármálaráðuneytis, dags. 19. september 1995, og mismunurinn síðan greiddur út innan fimm virkra daga frá úrskurðardegi.

2. Ofgreiðslur og inneignir sem myndast vegna breytinga á höfuðstól eða vöxtum tiltekins árs eða tímabils í tilteknum gjaldflokki verði skuldajafnað, sjá áðurnefnt bréf ráðuneytisins, mismunurinn síðan greiddur út sem fyrst og eigi síðar en innan mánaðar frá því að inneign myndaðist. Áður en inneign er skuldajafnað og greidd út skal reikna inneignarvexti (inneignarvaxta- og dráttarvaxtaprósenta) frá greiðsludegi til útgreiðsludags og færa gjaldanda til góða með því að leggja á inneignarvexti. Reikna skal inneignarvexti á allar inneignir 1000 kr. og hærri í gjaldflokkum AB, þing- og sveitarsjóðsgjöldum, og FA, fasteignagjöldum og inneignir í öðrum gjaldflokkum sem eru 500 kr. eða hærri. Dráttarvextir eru aldrei reiknaðir á kröfur sem eru lægri en 1000 kr. í gjaldflokkum AB og FA og lægri en 500 kr. í öðrum gjaldflokkum.

Af þessum sökum verða embættin:

· Að skoða daglega athugasemdalista framfærslu og greiða út innan viku þær inneignir sem þar er vakin athygli á eftir því sem við á.

· Að skrifa út inneignarlista tvisvar sinnum í mánuði og reikna út inneignarvexti í þeim gjaldflokkum þar sem ekki er um vélrænan inneignarvaxtaútreikning að ræða, skuldajafna og greiða út inneignir.

Ríkisbókhald mun aðstoða embættin á eftirgreindan hátt við að koma inneignum út úr TBI:

1. Úrskurðaðar inneignir í virðisaukaskatti verða greiddar út vélrænt, mánaðarlega, 4-5 dögum eftir að þær eru lesnar inn í kerfið í síðasta lagi. Innheimtumenn fá þá 4-5 daga til að skuldajafna og leggja á inneignarvexti.

2. Greiða út einu sinni á ári allar inneignir í AB og FA sem eru undir 1000 kr. og undir 500 kr. í öðrum gjaldflokkum.

3. Greiða út allar inneignir í TG, tryggingagjaldi ásamt inneignarvöxtum að undangengnum skuldajöfnuði einu sinni í mánuði.

4. Skrifa út ofurskuldalista og senda til embættanna, þ.e. listi yfir þá aðila sem eiga inneignir í tilteknum gjaldflokkum en skulda í öðrum.

5. Skrifa út ofurskuldalista fyrir dánarbú, gjaldþrotamerkta, erlendis búsettra, aðila á utangarðsskrá og fyrirtæki sem eru hætt rekstri, þ.e. inneignir sem þessir aðilar eiga í kerfinu og skuldir í öðrum.

6. Skrifa út og senda til embættanna tvisvar í mánuði hreina inneignarlista í öllum gjaldflokkum.

7. Senda út leiðbeiningar um útreikning inneignarvaxta á inneignir sem myndast vegna skattbreytinga.

8. Millifæra innan sama ökutækis hjá sömu kennitölu mánaðarlega í bifreiðagjaldi og þungaskatti.“

Ég sendi A tilvitnað bréf fjármálaráðuneytisins frá 12. maí sl. til upplýsingar með bréfi, dags. 1. júní 1999.

IV.

1.

A kvartar í fyrsta lagi yfir því hversu langan tíma það tók stjórnvöld að endurgreiða honum ofborgaða skatta og þá sérstaklega að afgreiða kærur hans af því tilefni.

Í upphafi kafla II er því lýst að leiðréttingar (skattbreytingar) vegna álagninga á A, þ.m.t. vegna úrskurðar yfirskattanefndar frá 5. nóvember 1997, hafi verið færðar í tekjubókhaldskerfi ríkisins 27. janúar 1998. Eins og mál þetta liggur fyrir tel ég ekki tilefni til þess að taka sérstaklega til athugunar hvernig háttað var málshraða eða málsmeðferð af hálfu þeirra stjórnvalda sem komu að málinu fyrir þann tíma. Hinn 27. janúar 1998 hafði sá innheimtumaður ríkissjóðs sem bar að inna af hendi endurgreiðslu til A, tollstjórinn í Reykjavík, fengið upplýsingar um inneign A og eins og nánar verður rakið síðar bar tollstjóranum að hafa frumkvæði að því að greiða A inneign hans ásamt þeim vöxtum sem hann átti lögum samkvæmt rétt til. Inneignin var greidd A 29. janúar 1998 en án vaxta. Eftir að A hafði gert kröfu um vexti vegna inneignarinnar greiddi tollstjóri honum vexti 27. febrúar 1998. Fjármálaráðuneytið tók fram í bréfi sínu til A, dags. 9. september 1998, að ríkið eigi að hafa frumkvæði að því að greiða skattgreiðendum sem ofgreiða skatta vexti í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma og benti á að misbrestur hefði orðið á því í tilviki A. Ég mun fjalla nánar um frumkvæðisskyldu þeirra stjórnvalda sem innheimta skatta og gjöld til að endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum, í kafla IV. 3 hér á eftir.

Eins og fram kemur í gögnum málsins, og rakið er í kafla II hér að framan, leitaði A til fjármálaráðuneytisins með bréfi, sem móttekið var hjá ráðuneytinu 9. mars 1998, og óskaði að ráðuneytið „[leiðrétti] þá vexti sem [hann ætti] inni skv. öðru blaði. Í öðru lagi [vildi hann] fá þá vexti sem [hann ætti] inni frá 1994 en ekki bara frá 1995 sbr. blað“. Þá kemur fram í bréfi hans að hann telji vaxtahlutfall sem við hafi verið miðað ósanngjarnt. Með erindi A fylgdi yfirlit frá tollstjóranum í Reykjavík, dags. 27. febrúar 1998, þar sem fram kemur útreikningur vaxta í tilefni af inneign hans í ríkissjóði frá 4. apríl 1995. Af bréfi tollstjórans í Reykjavík til mín frá 5. nóvember 1998 verður ráðið að yfirlit þetta hafi borið með sér „ákvörðun“ embættisins um útreikning vaxta á inneign A. Ráðuneytið framsendi ofangreint erindi A frá 9. mars 1998 til tollstjórans í Reykjavík með bréfi, dags. 11. mars 1998. Í kjölfarið barst A afgreiðsla tollstjóra á erindinu með bréfi frá 11. maí 1998. A kærði þá niðurstöðu tollstjóra til fjármálaráðuneytisins með bréfi, dags. 15. s.m.

Með bréfi, dags. 19. júní 1998, sem tekið er upp í kafla III hér að framan, óskaði fjármálaráðuneytið eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá A. Samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins til mín frá 4. janúar sl. óskaði ráðuneytið síðan eftir athugasemdum tollstjórans í Reykjavík með bréfi, dags. 12. ágúst 1998, í tilefni af kæru A og bárust ráðuneytinu athugasemdir tollstjórans 25. ágúst s.á. Fjármálaráðuneytið afgreiddi síðan málið hinn 9. september 1998.

Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er hvergi vikið að formi eða efni kæru. Eigi verða því gerðar sérstakar kröfur til stjórnsýslukæru nema slíkar kröfur verði leiddar af sérákvæðum laga. Af þessu leiðir að þess verður almennt eigi krafist að ólöglærður aðili tilgreini efni erindis síns til æðra stjórnvalds sem „stjórnsýslukæru“. Ræðst sú niðurstaða, hvort fara skuli með erindi sem stjórnsýslukæru, af könnun æðra stjórnvalds á efni erindis hverju sinni, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 8. júní 1993 í málinu nr. 735/1992 (SUA 1993:299), frá 6. janúar 1994 í málinu nr. 545/1991 (SUA 1994:128), frá 28. maí 1999 í málinu nr. 2442/1998 og 4. júní 1999 í málunum nr. 2480 og 2481/1998. Þegar efni kæru er óskýrt ber æðra stjórnvaldi í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga að inna aðila eftir nánari upplýsingum um hvaða ákvörðun sé að ræða, hvort ætlun aðila sé að kæra hana, um kröfur hans og rök svo og um aðrar nauðsynlegar upplýsingar er málið snerta, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 8. júní 1993 í málinu nr. 735/1992 og frá 28. maí 1999 í málinu nr. 2442/1998.

Eins og rakið er hér að framan óskaði A eftir því við fjármálaráðuneytið með bréfi sínu frá 9. mars 1998 að „leiðréttir“ yrðu vextir á inneign hans og með erindinu fylgdi yfirlit frá 27. febrúar 1998 um útreikning vaxta af þessu tilefni frá tollstjóranum í Reykjavík. Þá verður, eins og áður er rakið, ráðið af bréfi tollstjórans til mín frá 5. nóvember 1998 að yfirlit frá 27. febrúar 1998 beri með sér ákvörðun um útreikning vaxta í máli A. Ráðuneytið tók ekki efnislega afstöðu til erindis A heldur framsendi það til tollstjórans í Reykjavík með bréfi 11. s.m. Ég tel, með tilliti til efnis þess erindis sem A bar fram við ráðuneytið 9. mars 1998 og framsetningar þess, að ráðuneytinu hafi borið að ganga úr skugga um hvort A hafi með erindi sínu ætlað að kæra tilgreinda niðurstöðu um ákvörðun vaxta í tilefni af inneign hans í ríkissjóði enda hefði ráðuneytinu þá borið skylda að lögum til að fjalla um málið sem kærumál á grundvelli 31. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið tók hins vegar þá ákvörðun að framsenda erindið til tollstjórans í Reykjavík án þess að kanna þetta atriði sérstaklega.

Þegar ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 11. maí 1998 lá fyrir, og A hafði af því tilefni sent kæru til fjármálaráðuneytisins, sendi ráðuneytið A bréf og óskaði eftir nánari upplýsingum um „rekstur“ hans, „úrskurði skattstjóra og yfirskattanefndar og önnur skjöl viðkomandi málinu“. Þá var þess óskað að kröfur A kæmu „skýrar fram“. Af þessu tilefni minni ég á að stjórnsýslulögin eru byggð á því meginsjónarmiði að gera málsmeðferð einfalda og leggja sem minnstar byrðar á borgarana í samskiptum við stjórnvöld og við meðferð stjórnsýslumála (Alþt. 1992-93, B-deild, dlk. 9248). Ég tek þetta fram sökum þess að ég fæ eigi séð nauðsyn eða þýðingu þeirrar ákvörðunar ráðuneytisins við meðferð málsins að óska eftir því við A að hann veitti upplýsingar um rekstur sinn eða gerði reka að afhendingu ótilgreindra úrskurða skattstjóra og yfirskattanefndar. Gögn þessi höfðu af hálfu tollstjóra verið lögð til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun og því var réttara að ráðuneytið aflaði þeirra frá því stjórnvaldi sem kæran beindist að. Þá tel ég, með tilliti til efnis kæru A og ofangreindra lagakrafna til forms og efnis stjórnsýslukæra, að ráðuneytinu hafi eigi verið rétt að óska sérstaklega eftir skýrari framsetningu krafna af hálfu A. Kemur þar einnig til að ákvörðun um greiðslu vaxta á inneign A var bundin í skýrum efnisreglum 112. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessu tók málsmeðferð ráðuneytisins aðeins til þess efnislega að kanna hvort hið lægra setta stjórnvald hefði með réttum hætti beitt hinni fastmótuðu og lögbundnu vaxtaforsendu í ofangreindu lagaákvæði. Eðli máls samkvæmt gaf lagagrundvöllur málsins þannig eigi tilefni til þess að meðferð þess yrði tímafrek.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Frá því erindi A frá 9. mars 1998 barst fjármálaráðuneytinu og þar til ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn 9. september s.á. liðu sex mánuðir. Þegar litið er til þeirra annmarka á málsmeðferð ráðuneytisins, sem raktir eru hér að framan, sem töfðu óhjákvæmilega framgang málsins, tel ég að leggja verði til grundvallar að málsmeðferð ráðuneytisins hafi eigi verið í samræmi við ofangreinda 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Að lokum tek ég fram að afgreiðsla fjármálaráðuneytisins frá 9. september 1998 í máli A uppfyllir eigi skilyrði 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða kærumáli. Í afgreiðslu ráðuneytisins er hvorki gerð grein fyrir kröfum A né glögg grein gerð fyrir ágreiningsefninu að öðru leyti, sbr. 1. og 3. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga. Þá er eigi að finna skýran og glöggan rökstuðning fyrir niðurstöðu málsins í samræmi við 4. tl. 31. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Ég tek fram í því efni að það fullnægði eigi lagaskilyrðum, með tilliti til atvika málsins, að vísa einvörðungu til upplýsinga frá tollstjóranum í Reykjavík um að A hefðu verið greiddir vextir í samræmi við gildandi lög. Bar ráðuneytinu þannig að gera með sjálfstæðum hætti grein fyrir afstöðu þess með tilvísun til viðeigandi réttarreglna. Að lokum tek ég fram að aðalniðurstaða málsins er eigi dregin saman í sérstakt úrskurðarorð, sbr. 5. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga.

2.

Í kvörtun sinni til mín víkur A sérstaklega að vaxtaákvörðun tollstjóra vegna inneignar sinnar hjá ríkissjóði í tilefni af ofgreiðslu skatta. Er tekið fram í kvörtuninni að vaxtaákvörðun tollstjóra sé ósanngjörn miðað við dráttarvexti og að sanngjarnt sé að inneignarvextir nemi 7-8%.

Af gögnum málsins verður ráðið að ofgreiðsla A á tekjuskatti varði gjaldárin 1994, 1995, 1996 og 1997, þ.e. tekjuárin 1993, 1994, 1995 og 1996. Átti sú ofgreiðsla rót sína að rekja til ofreiknaðra fæðishlunninda A viðkomandi ár, svo sem greinir í kæruúrskurði skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 15. desember 1997 að því er tekur til gjaldársins 1997, úrskurði yfirskattanefndar nr. 862/1997 frá 5. nóvember 1997 að því er tekur til gjaldársins 1996 og úrskurði ríkisskattstjóra frá 27. janúar 1998 að því er tekur til gjaldáranna 1994 og 1995. Með nefndum úrskurðum skattyfirvalda var fallist á að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofna A viðkomandi gjaldár um tilgreindar fjárhæðir vegna ofreiknaðra fæðishlunninda.

Um rétt manna til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er fjallað í 112. gr. þeirra laga. Áður en breytingar voru gerðar á þessari grein laganna með 2. gr. laga nr. 31/1995, um breytingar á lögum er varða rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum, voru ákvæði um þetta efni í 2. mgr. umræddrar greinar laga nr. 75/1981, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987, um breyting á þeim lögum. Voru ákvæðin svohljóðandi:

„Nú verður ljóst þegar álagningu skatta, annarra en tekjuskatts manna, lýkur eða við endurákvörðun þessara sömu skatta að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir jafnháir vöxtum sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma. Sama gildir þegar í ljós kemur við endurákvörðun á tekjuskatti manna að um ofgreiðslu hafi verið að ræða að öðru leyti en því að inneignarvextir reiknast aldrei fyrr en frá 1. júlí á álagningarári.“

Ofangreindu ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 var breytt með 2. gr. laga nr. 31/1995 sem auk þess bætti tveimur nýjum málsgreinum við greinina, þ.e. 3. og 4. mgr. hennar. Eftir breytingar þessar eru ákvæðin um vexti af ofteknum skatti svohljóðandi:

„Nú verður ljóst þegar álagningu skatta, annarra en tekjuskatts manna, lýkur eða við endurákvörðun þessara sömu skatta að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma. Sama gildir þegar í ljós kemur við endurákvörðun á tekjuskatti manna að um ofgreiðslu hafi verið að ræða að öðru leyti en því að vextir reiknast aldrei fyrr en frá 1. júlí á álagningarári.

Sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin leggur ekki úrskurð á kæru innan lögboðins frests skv. 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 skal greiða skattaðila dráttarvexti af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.

Ætíð má krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögum þessum.“

Með lögum nr. 31/1995 var samkvæmt framangreindu horfið frá því að miða vexti af ofteknum skatti við vexti af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands og þess í stað miðað við „hæstu vexti af óbundnum sparireikningum eins og þeir eru á hverjum tíma“. Þá fólu lögin í sér það nýmæli að kveða á um greiðslu dráttarvaxta af ofteknum skatti í þeim tilvikum þegar dráttur verður á uppkvaðningu úrskurðar yfirskattanefndar fram yfir lögboðinn úrskurðarfrest nefndarinnar.

Lög nr. 31/1995 öðluðust gildi 1. janúar 1996 og taka til ofgreiðslu sem á sér stað eftir það tímamark, sbr. 4. gr. þeirra. Í athugasemdum við nefnda grein í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 31/1995, segir svo um gildistökuna:

„Þar sem frumvarp þetta ásamt frumvarpi um breytingar á lögum er varða rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi hefur að geyma nokkuð viðamiklar breytingar á núverandi framkvæmd þykir rétt að gefa nokkurn aðlögunartíma áður en lögin taka gildi. Því er í ákvæðinu kveðið á um að lög þessi öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 1996. Miðað er við hvort ofgreiðslan hafi átt sér stað fyrir eða eftir gildistöku laganna. Lögin taka því ekki til ofgreiðslu skatta sem greidd er fyrir gildistöku laganna þótt endurgreiðslan fari fram eftir að þau öðlast gildi.“ (Alþt. 1994-95, A-deild, bls. 3290.)

Samkvæmt því, sem hér að framan hefur verið rakið, er ljóst að um rétt A til vaxta af ofgreiddum skatti gjaldáranna 1994 og 1995, þ.e. vegna tekjuáranna 1993 og 1994, fór eftir 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingar þær sem gerðar voru með lögum nr. 31/1995. Við ákvörðun vaxta af inneign A vegna þeirra ára bar því að miða við vexti af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma. Þá er ljóst að um vexti af ofgreiðslu skatts gjaldárið 1997, þ.e. vegna tekjuársins 1996, fór eftir 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 eftir breytingar með lögum nr. 31/1995. Vexti af ofgreiddum skatti A bar í því tilviki að miða við hæstu vexti óbundinna sparireikninga á hverjum tíma. Miðað við þau gögn um ákvörðun vaxta á inneign A vegna ofgreiðslu skatts á ofangreindum árum, sem fyrir liggja, verður ekki annað séð en að vaxtaákvarðanir tollstjóra vegna þessara gjaldára hafi verið í samræmi við þær reglur sem að framan eru raktar, sbr. einkum bréf tollstjórans í Reykjavík til fjármálaráðuneytisins, dags. 25. ágúst 1998, þar sem gerð er grein fyrir útreikningi vaxta.

Að því er tekur til vaxtaákvörðunar vegna ofgreiðslu skatts gjaldárið 1996 vegna tekna ársins 1995 liggur fyrir að tollstjórinn í Reykjavík hefur lagt til grundvallar að um rétt A til vaxta vegna ofgreiðslu þess árs fari eftir lögum nr. 31/1995, sbr. fyrirliggjandi tölvuútskriftir tollstjóra, dags. 14. júlí 1998, og áðurnefnt bréf tollstjóra til fjármálaráðuneytisins frá 25. ágúst s.á. þar sem fram kemur að „dráttarvexti [beri] að reikna á inneign v/1996“ frá 7. maí 1997, samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, og að vaxtaprósenta sé 16,0% frá 7. maí 1997 og 16,5% frá 1. júní 1997 til útborgunardags 24. nóvember s.á. Er þannig m.a. byggt á því af hálfu tollstjóra að A beri réttur til dráttarvaxta samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. laga nr. 31/1995, vegna dráttar á uppkvaðningu úrskurðar yfirskattanefndar nr. 862/1997 í máli A fram yfir lögboðinn úrskurðarfrest. Í afgreiðslu fjármálaráðuneytisins frá 9. september 1998 í máli A er á hinn bóginn lýst því viðhorfi ráðuneytisins að dráttur yfirskattanefndar í umræddu máli hafi ekki skapað A rétt til dráttarvaxta, heldur einungis vaxta, og er í því sambandi vísað til þess að breytingar með lögum nr. 31/1995 taki einungis til ofgreiðslu sem eigi sér stað eftir 1. janúar 1996, sbr. gildistökuákvæði 4. gr. þeirra laga. Ekki kemur hins vegar fram í afgreiðslu ráðuneytisins hvenær ráðuneytið telji ofgreiðslu skatts hafa átt sér stað í tilviki A. Fyrirliggjandi gögn málsins bera ekki með sér að ofgreitt hafi verið fyrr en við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 á því ári svo sem tollstjórinn í Reykjavík hefur samkvæmt framansögðu gengið út frá við vaxtaákvörðun sína vegna þess gjaldárs. Þar sem tollstjóri hefur þannig byggt á því að um rétt A til vaxta vegna ofgreiðslu gjaldársins 1996 fari eftir lögum nr. 31/1995, og ekki verður séð að fjármálaráðuneytið hafi þrátt fyrir framangreinda afstöðu sína breytt þeirri ákvörðun, tel ég hins vegar ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Eins og fyrr greinir lýtur kvörtun A að því að vaxtaákvörðun tollstjórans í Reykjavík hafi verið ósanngjörn miðað við dráttarvexti og telur A að sanngjarnir vextir væru 7-8%. Hér að framan hef ég rakið þær lagareglur sem giltu um vexti af ofteknum skatti á þeim tíma sem mál þetta varðar. Eins og þar kemur fram var viðmiðun vaxtafjárhæðar lögákveðin með tilteknum hætti. Annars vegar skyldi miða við vexti af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma og hins vegar, þ.e. eftir 1. janúar 1996, við hæstu vexti óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, sbr. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, eins og sú grein hljóðaði á þeim tíma sem um ræðir. Með hliðsjón af umræddum lagareglum, er giltu um vexti á þeim tíma sem málið varðar, tel ég að ekki séu efni til athugasemda við niðurstöður tollstjórans í Reykjavík um ákvörðun vaxta af inneignum A vegna ofgreidds skatts á árunum 1993-1996.

3.

Kvörtun A beinist einnig að því að innheimtumaður ríkissjóðs hafi ekki greitt og greiði hvorki vexti né verðbætur að eigin frumkvæði.

Í máli A er upplýst að tollstjórinn í Reykjavík greiddi honum ekki lögmælta vexti þegar inneign hans vegna ofgreiddra skatta var endurgreidd. Það var ekki fyrr en A hafði sett fram kröfu um vexti að tollstjóri greiddi honum vexti 27. febrúar 1998 og vaxtagreiðslan var síðan leiðrétt 15. júlí 1998 eftir að A hafði gert athugasemdir við vaxtareikning tollstjóra.

Fjármálaráðuneytið tekur fram í úrlausn sinni um stjórnsýslukæru A, dags. 9. september 1998, að ríkið eigi að hafa frumkvæði að því að greiða skattgreiðendum sem ofgreiða skatta vexti í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Viðurkennir ráðuneytið að misbrestur hafi orðið á því í tilviki A.

Um þá skyldu ríkisins að greiða vexti vegna oftekinna skatta er nú annars vegar mælt fyrir um í lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, og hins vegar í 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. breytingu með lögum nr. 31/1995. Efni 112. gr. laga nr. 75/1981 er lýst í kafla IV.2 hér að framan en í 1. gr. laga nr. 29/1995 segir:

„Stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, skulu endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum skv. 2. gr.

Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið.

Ákvæði þessarar greinar gilda ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg.“

Ég tel rétt að minna á að ákvæði um greiðslu vaxta vegna ofgreiddra skatta var fyrst tekið inn í lög um tekju- og eignarskatt nr. 68/1971 með 8. gr. laga nr. 60/1973 og þar var kveðið á um að endurgreiða skyldi það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkisins. Slíkt ákvæði var einnig í 112. gr. laga nr. 75/1981 við setningu þeirra. Skylda stjórnvalda til að hafa frumkvæði að endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda ásamt vöxtum, þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið, var síðan beinlínis tekin fram í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 en þau lög tóku gildi 1. janúar 1996.

Í skýringum fjármálaráðuneytisins í tilefni af kvörtun A kemur fram að misbrestur hafi orðið á því að innheimtumenn ríkissjóðs hafi frumkvæði að því að greiða vexti við endurgreiðslu ofgreiddra skatta sé ekki bundið við tilvik A. Kemur fram í bréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 12. maí 1999, að „innheimtumenn ríkissjóðs hafi almennt ekki reiknað vexti á inneignir sem myndast við endurákvörðun opinberra gjalda.“

Eins og lýst hefur verið hér að framan kveða lög skýrt á um skyldu þeirra stjórnvalda sem innheimta skatta og gjöld um að hafa frumkvæði að endurgreiðslu ofgreiddra skatta ásamt vöxtum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið. Að íslenskum stjórnlögum er það hlutverk stjórnvalda að sjá um framkvæmd laga að viðlagðri ábyrgð.

Samkvæmt skýringum fjármálaráðuneytisins hafa ekki verið reiknaðir og greiddir vextir af ofgreiddum sköttum sjálfvirkt að frumkvæði innheimtumanna ríkissjóðs, sem til eru komnir vegna endurákvörðunar skatta, þar sem tölvukerfi ríkisins hefur ekki ráðið við það og hefur því þurft að handreikna vextina. Fram kemur að slíkir útreikningar séu flóknir og tímafrekir en innheimtumenn ríkissjóðs hafi ekki haft yfir að ráða starfsfólki til að annast útreikninga af þeim toga.

Þær skýringar, sem fjármálaráðuneytið hefur fært fram, fela ekki í sér lögmætar ástæður til þess að innheimtumönnum ríkissjóðs hafi verið heimilt að halda að sér höndum við framkvæmd lagaákvæða um greiðslu vaxta af ofgreiddum skatti. Skal í þessu sambandi minnt á að forstöðumenn ríkistofnana bera ábyrgð á að stofnanir, sem þeir stýra, starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Í því sambandi bera þeir ábyrgð á því að fjármunir, sem veittir eru til stofnunar á fjárlögum, séu nýttir í þessu markmiði á árangursríkan hátt, sbr. nú 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar sem ekki tókst í tíma að hanna hugbúnað sem gerði innheimtumönnum ríkissjóðs kleift að rækja lagaskyldu sína til greiðslu vaxta af ofgreiddum skatti á brotalítinn hátt, varð ekki undan því vikist að innheimtumenn ríkissjóðs gerðu viðhlítandi breytingar á skipan starfsliðs embætta þeirra, þannig að þeir hefðu á að skipa starfsmönnum er réðu við slíkan vaxtaútreikning.

Í ljósi þess að undir fjármálaráðherra falla bæði skattamál svo og eftirlit með innheimtumönnum ríkissjóðs, sbr. 4. og 13. töluliður 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, með síðari breytingum, beini ég þeim tilmælum til hans að hann hafi forgöngu um að lagaframkvæmd á þessu sviði verði komið í lögmælt horf.

Fjármálaráðuneytið hefur bent á að þessi mál muni leysast þegar hið nýja tekjubókhaldskerfi verður tekið í notkun. Helsti vandinn snerti hins vegar eldri inneignir og útreikning inneigna þar til hið nýja tölvukerfi verður tekið í gagnið.

Ég tel afar brýnt að útreikningi inneignarvaxta verði komið í lögmætt horf sem allra fyrst og án tillits til þess hvenær nýtt tölvukerfi verður tekið í notkun.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til mín frá 4. janúar 1999 er tekið fram að ráðuneytið hafi beint því til tollstjórans í Reykjavík að farið verði að lögum við útreikning á inneignar- og dráttarvöxtum og „að gerðar verði leiðréttingar eftir því sem unnt er vegna liðins tíma.“ Í bréfum fjármálaráðuneytisins til mín kemur á hinn bóginn ekki fram hvort tekin hafi verið almenn ákvörðun um að innheimtumönnum beri að leiðrétta inneignarvexti aftur í tímann og þá hversu langt. Þar sem fjármálaráðuneytið hefur upplýst að framkvæmd á þessu sviði hafi verið lögum andstæð, tel ég brýnt í ljósi reglna um jafnrétti gjaldenda að fjármálaráðherra taki almenna ákvörðun um framkvæmd innheimtumanna á leiðréttingu aftur í tímann á þessu sviði og beini þeim fyrirmælum til innheimtumanna ríkissjóðs að haga framkvæmd í samræmi við þá ákvörðun. Þar sem slík ákvörðun liggur ekki fyrir, eins og áður segir, eru ekki efni til að ég taki að svo stöddu frekari afstöðu til réttarástands á þessu sviði.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 12. maí 1999, fylgdu drög að verklagsreglum fyrir innheimtumenn ríkisins um útborganir inneigna út úr tekjubókhaldskerfi ríkisins. Þar segir meðal annars svo:

„Reikna skal inneignarvexti á allar inneignir 1000 kr. og hærri í gjaldflokkum AB, þing- og sveitarsjóðsgjöldum, og FA, fasteignagjöldum og inneignir í öðrum gjaldflokkum sem eru 500 kr. eða hærri. Dráttarvextir eru aldrei reiknaðir á kröfur sem eru lægri en 1000 kr. í gjaldflokkum AB og FA og lægri en 500 kr. í öðrum gjaldflokkum.“

Þar sem tilvitnuð fyrirmæli eiga sér ekki lagastoð og eru í andstöðu við lög, þar sem greiða ber vexti á allar inneignir gjaldenda hjá ríkissjóði án tillits til fjárhæðar, beini ég því til fjármálaráðherra að gæta þess að leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs verði ekki svo úr garði gerðar í endanlegri útgáfu.

Af því tilefni að svör fjármálaráðuneytisins til mín frá 4. janúar 1999 reyndust ekki rétt og leiðréttingar og viðbætur komu ekki fram fyrr en í bréfi þess hinn 12. maí sl., vil ég beina því til fjármálaráðuneytisins að það vandi til upplýsingaöflunar sem frekast er kostur áður en það veitir umboðsmanni Alþingis svör við fyrirspurnum vegna mála sem eru til meðferðar. Ég legg áherslu á þetta því að öðrum kosti kann niðurstaða umboðsmanns eftir athugun á máli að byggjast á röngum upplýsingum um atvik og framkvæmd stjórnvalda.

V.

Samkvæmt framanrituðu tel ég að meðferð fjármálaráðuneytisins á máli A hafi eigi verið í samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá uppfyllti úrlausn ráðuneytisins frá 9. september 1998, í máli A, eigi skilyrði 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumáli.

Það er jafnframt niðurstaða mín að tollstjóranum í Reykjavík hafi borið að lögum að eiga frumkvæði að því að greiða A vexti á inneign hans í ríkissjóði sem myndast hafði við endurákvarðanir skattyfirvalda. Ég tel hins vegar að ákvarðanir tollstjórans í Reykjavík um vexti á inneign hans í ríkissjóði hafi byggst á réttum lagagrundvelli og verður ekki annað séð af gögnum málsins en að fjármálaráðuneytið hafi látið ákvarðanir þessar standa óbreyttar. Tel ég því ekki tilefni til þess að gera efnislegar athugasemdir við afgreiðslu ráðuneytisins í þessu máli að því er varðar fjárhæð vaxta í máli A.

Innheimtumönnum ríkissjóðs ber að endurgreiða ofgreidda skatta sem lagðir eru á samkvæmt lögum nr. 75/1981 ásamt vöxtum að eigin frumkvæði en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í þessu máli hafa innheimtumenn ríkissjóðs ekki gert það. Skýringar fjármálaráðuneytisins á þessu eru að tölvukerfi ríkisins hafi ekki ráðið við að reikna sjálfvirkt inneignarvexti vegna endurákvörðunar skatta. Af þeim sökum hafi orðið að framkvæma þennan útreikning handvirkt en slíkir útreikningar séu flóknir og tímafrekir og innheimtumenn ríkissjóðs hafi ekki haft yfir að ráða starfsfólki til að annast útreikninga af þessum toga. Þessar skýringar fjármálaráðuneytisins fela ekki í sér lögmætar ástæður til þess að innheimtumönnum ríkissjóðs hafi verið heimilt að halda að sér höndum við framkvæmd lagaákvæða um greiðslu vaxta af ofgreiddum skatti.

Ég tel afar brýnt að útreikningi inneignarvaxta verði komið í lögmætt horf sem allra fyrst og án tillits til þess hvenær nýtt tölvukerfi verður tekið í notkun.

Þá tel ég brýnt í ljósi reglna um jafnrétti gjaldenda, að fjármálaráðherra taki almenna ákvörðun um framkvæmd innheimtumanna á leiðréttingu aftur í tímann og beini þeim fyrirmælum til innheimtumanna ríkissjóðs að haga framkvæmd í samræmi við þá ákvörðun. Þar sem slík ákvörðun liggur ekki fyrir eru ekki efni til að ég taki að svo stöddu frekari afstöðu til réttarástands á þessu sviði.

Þá tek ég fram að drög að verklagsreglum þess efnis að ekki skuli greiddir inneignar og dráttarvextir á fjárhæðir undir tilteknu lágmarki, eiga sér ekki lagastoð og beini ég því til fjármálaráðherra að gæta þess að leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins til innheimtumanna ríkissjóðs verði ekki svo úr garði gerðar í endanlegri útgáfu.

Af því tilefni að svör fjármálaráðuneytisins til mín frá 4. janúar 1999 reyndust ekki rétt og leiðréttingar og viðbætur komu ekki fram fyrr en í bréfi þess hinn 12. maí sl., beini ég því til fjármálaráðuneytisins að það vandi til upplýsingaöflunar sem frekast er kostur áður en það veitir umboðsmanni Alþingis svör við fyrirspurnum vegna mála sem eru til meðferðar.

VI.

Í framhaldi af framangreindu áliti mín barst mér svohljóðandi bréf fjármálaráðuneytisins, dags. 20. júlí 1999:

„Með vísan til álits umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun […], hefur ráðuneytið ákveðið að breyta reglum um útreikning vaxta og dráttarvaxta af ofgreiddum sköttum og beint þeim tilmælum til Ríkisbókhalds að það breyti verklagsreglum fyrir innheimtumenn ríkisins um útborganir inneigna úr Tekjubókhaldskerfi ríkisins til samræmis við þá ákvörðun.

Ráðuneytið hafur jafnframt ákveðið að útreikningur inneignarvaxta vegna innstæðna sem skapast hafa vegna ofgreiddra skatta verði yfirfarinn og gengið úr skugga um að hann sé í samræmi við ákv. 112. gr. laga nr. 75/1981, sem síðari breytingum, svo og 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þeim sem kunna að eiga inni vexti og/eða dráttarvexti verður greidd út innstæðan eða henni skuldajafnað í samræmi við gildandi reglur þar um. Endurskoðunin skal ná til skatta sem ofgreiddir hafa verið frá og með 1. janúar 1995. Með því er, að mati ráðuneytisins, tryggt að endurskoðunin nái til allra þeirra sem kunna að eiga rétt til vaxta vegna ofgreiddra skatta.

Ráðuneytið hefur falið Ríkisbókhaldi að gera tillögur um framkvæmd framangreindrar endurskoðunar. Ráðuneytið mun gera yður grein fyrir framkvæmd endurskoðunarinnar þegar nánari útfærsla liggur fyrir. “