Opinberir starfsmenn. Röðun í launaflokka. Kjarasamningar. Jafnræðisregla. Ákvörðunum fyrirsvarsmanna kirkjugarða þjóðkirkjunnar verður skotið til biskups Íslands.

(Mál nr. 742/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 5. október 1993.

A kvartaði yfir misrétti, sem hún taldi sig beitta, annars vegar í launagreiðslum fyrir tónlistarkennslu og hins vegar vegna ákvarðana Kirkjugarða X um greiðslur fyrir söng við jarðarfarir. Umboðsmaður taldi, að ákvarðanir um síðarnefnda atriðið yrðu kærðar til biskups Íslands. Þar sem það hafði ekki verið gert, fjallaði umboðsmaður ekki nánar um þann þátt kvörtunar A, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður taldi, að ekki yrði annað séð en matsnefnd tónlistarkennara hefði farið eftir reglum kjarasamnings og viðmiðunarreglum sínum um mat á menntun og störfum kennara við úrlausn um röðun A í launaflokk. Taldi hann ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þær viðmiðunarreglur, sem nefndin starfaði eftir, og var það skoðun hans, að ekki hefði komið fram, að nefndin hefði í störfum sínum brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 7. janúar 1993 barst mér kvörtun A, annars vegar vegna misréttis, sem hún taldi sig beitta í launagreiðslum fyrir tónlistarkennslu, og hins vegar vegna ákvarðana Kirkjugarða X í sambandi við launagreiðslur fyrir söng við jarðarfarir. Með bréfi, dags. 4. febrúar 1993, benti ég A á, að samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1963 um kirkjugarða sé hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar, undir yfirstjórn biskups. Ákvarðanir, teknar af fyrirsvarsmönnum Kirkjugarða X, yrðu því kærðar til biskups Íslands. Benti ég A á að bera málið með formlegum hætti undir biskup Íslands til úrskurðar, þar sem ekki væri unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Hinn 8. janúar 1993 ritaði ég A bréf og óskað eftir skriflegum gögnum um röðun hennar í launaflokk, svo og athugasemdum hennar um það, í hvaða launaflokk hún teldi að henni skyldi skipað, miðað við menntun og reynslu. Hinn 27. janúar 1993 barst mér svarbréf A, ásamt fylgigögnum, þ. á m. bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 19. janúar 1993, þar sem vísað er til mats á námi A til ákveðins launaflokks. Nánar tiltekið er um að ræða bréf, dags. 24. mars 1987, þar sem nefnd, samkvæmt 6. gr. samkomulags um launakjör kennara og skólastjóra tónlistarskóla, hefur metið gögn frá A til launaflokks og bréf, dags. 22. ágúst 1991, þar sem matsnefnd tónlistarskólakennara staðfestir fyrri niðurstöðu um mat á námi.

Samkvæmt upplýsingum A tekur hún laun samkvæmt 142. launaflokki, 7. þrepi, í kjarasamningi milli Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Telur A að henni sé skipað í lægri launaflokk en rétt sé, miðað við menntun hennar, reynslu og hæfileika. Kvörtun hennar beinist að störfum matsnefndar tónlistaskólakennara, því að ekki sé gætt jafnræðis í störfum nefndarinnar. Geri nefndin "gróflega upp á milli kennara" við röðun í launaflokka. Í bréfi A til mín, dags. 11. febrúar 1993, segir meðal annars:

"1. Í fyrra bréfinu vakti ég athygli á því, að enn þann dag í dag þigg ég laun skv. sama launaflokki og nýútskrifaður söngnemi, sem ég hefi kennt. Þetta gerðist t.d. í fyrra, þegar ung stúlka, sem ég hafði útskrifað, hóf að kenna við hlið mér. Henni voru reiknuð sömu laun og mér, eða skv. 142. launaflokki. [...]

2. Erindi mínu um endurmat sumarið 1991 var synjað af matsnefnd tónlistakennara hjá Menntamálaráðuneyti. Ég hringdi margsinnis upp nefndarfólkið, auk þess sem ég skrifaði ráðuneyti og ráðherra til. Svar við bréfum barst ekki. [...]3. Ég hygg, að ég sé eini söngkennarinn á Íslandi af minni kynslóð, sem enn þiggur byrjendalaun. Mér finnst, að allir söngkennarar, sem á annað borð er treyst til þess að útskrifa nemendur, ættu að sitja við sama borð. Raunar virðist mér þessi regla ríkjandi, með einni undantekningu: mér sjálfri.

Þar eð ég hefi nú kennt söng í 18 ár, finnst mér það misrétti, að ég skuli ekki sitja við sama borð og aðrir."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 24. febrúar 1993 óskaði ég eftir því við menntamálaráðherra, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn, er málið snertu, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Sérstaklega óskaði ég eftir því, að gerð yrði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem fylgt væri við skipun tónlistarkennara í launaflokka. Fram kemur í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 21. apríl 1993, að hlutverk matsnefndar tónlistarskólakennara sé að annast mat á menntun, framhaldsmenntun og tónlistarstörfum tónlistarkennara með tilliti til þeirra kjarasamninga, sem í gildi eru hverju sinni. Í bréfinu segir:

"Eins og kjarasamningur [...] og viðmiðunarreglur vegna mats á menntun og störfum kennara við tónlistarskóla bera með sér er tónlistarkennurum skipað í launaflokk eftir menntun án tillits til hæfni, aldurs eða reynslu. Hins vegar eru kennarar flokkaðir í þrep eftir starfs- eða prófaldri. Í kjarasamningi eru engin ákvæði um sérstök laun til þeirra sem útskrifa nemendur úr tónlistarskóla. Röðun í launaflokk byggist á menntun hvers kennara eins og áður segir.

[...]

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í ráðuneytinu var nám [A] metið til lokaprófs samkvæmt bréfi dags. 24. mars 1987. Þetta var gert þrátt fyrir að gögn um lokapróf lágu ekki fyrir og taldi nefndin sanngjarnt að námsferill, námskeið og tónleikahald hennar væri metið til jafns við lokapróf. Samkvæmt vottorði útgefnu þ. 10. nóvember 1986 frá Tónlistarskólanum á [Z] hefur [A] lokið 5. stigi í söng auk námskeiða í [Y]. [...]"

Samkvæmt vottorði Tónlistarskólans á Z, dags. 10. nóvember 1986, sem fylgdi bréfi ráðuneytisins í ljósriti, hefur A lokið I. stigsprófi í píanóleik; V. stigi í söng; III. stigi í fiðluleik; V. stigi í tónfræði og V. stigi í tónheyrn við tónlistarskólann. Þá hefur hún samkvæmt framlögðum gögnum sótt alþjóðlegt tónlistarnámskeið á árunum 1982-1986, tvær vikur í hvert sinn.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Samkvæmt grein 1.2.1 í kjarasamningi er tónlistarkennurum raðað í launaflokka eftir starfsheiti, frá flokki 139 til 142. Í flokk 142 er skipað kennurum með lokapróf (kennarapróf eða einleikarapróf) frá Tónlistarskólanum í Reykjavík eða sambærilega menntun. Samkvæmt grein 1.2.2 er kennara skipað einum launaflokki hærra fyrir hvert fullt námsár umfram lokapróf, þó hæst í lfl. 146. Samkvæmt grein 1.3 hefur starfsaldur og prófaldur áhrif á röðun í þrep innan launaflokka.

Samkvæmt viðmiðunarreglum vegna mats á menntun og störfum kennara, frá 24. apríl 1991, skal framhaldsnám aldrei metið fyrr en eftir lokapróf (2.1), nema um tvö lokapróf eða fleiri sé að ræða (4.3). Um tónlistarnámskeið segir í grein 3.1., að tónlistarnámskeið séu metin til viðbótar menntunarferli, ein námskeiðsvika í fullu námi (a.m.k. 20 klst.) metin sem 1/20 úr ári. Tónlistarnámskeið, sem tekin eru fyrir lokapróf, verða þó samkvæmt reglunum ekki metin til framhaldsnáms (3.3), en til þeirra má taka tillit við röðun í launaflokk skv. grein 1.3 í kjarasamningi (starfsaldur). Samkvæmt grein 4.1 er heimilt að meta störf tónlistarmanna við tónleikahald til starfsferils. Þó getur slíkur starfsaldur mest orðið 6 ár.

IV.

Samkvæmt grein 4.2 í áðurnefndum viðmiðunarreglum er matsnefnd heimilt að meta sérstaklega þá tónlistarmenn, sem ekki hafa lokið formlegu prófi, en skipað sess sem bestu hljóðfæraleikarar/söngvarar og kennarar, sem völ er á hérlendis. Í kjölfar athugasemda A hefur nefndin gert grein fyrir þessari viðmiðunarreglu með eftirfarandi hætti:

"Hlutverk nefndarinnar er ekki að meta ágæti einstakra listamanna. Þó skal þess getið að fram til 1985 mat nefndin sérstaklega þá tónlistarmenn sem áratugum saman höfðu staðið í fremstu víglínu í tónlistarlífi þjóðarinnar, samkvæmt [grein 4.2. í viðmiðunarreglunum].

[...]

Ástæðan fyrir þessari grein var sú, að við upphaf mats voru nokkrir af færustu tónlistarmönnum og kennurum þjóðarinnar sem höfðu sótt þekkingu sína til einkakennara og ekki lokið formlegu prófi. Þarna var um fáa einstaklinga að ræða."

Í svörum nefndarinnar hefur komið fram að þessari heimild hafi ekki verið beitt frá árinu 1985.

V. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 5. október 1993, var svohljóðandi:

"Samkvæmt gögnum málsins og skýringum menntamálaráðuneytisins verður ekki annað séð en að matsnefnd tónlistarskólakennara hafi farið eftir reglum kjarasamnings og viðmiðunarreglum sínum við úrlausn um röðun A í launaflokk. Ég tel ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þær viðmiðunarreglur, sem nefndin vinnur eftir, og það er skoðun mín, að ekki hafi komið fram, að nefndin hafi í störfum sínum brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Tel ég því ekki ástæðu til athugasemda í tilefni af kvörtun þeirri, sem A hefur borið fram."