Málsmeðferð stjórnvalda. Stjórnsýslukæra. Úrskurðarskylda. Form og efni úrskurða. Rannsóknarreglan. Próf.

(Mál nr. 2442/1998)

A kvartaði yfir framkvæmd stöðuprófa sem hann hafði undirgengist hjá Flugskóla Íslands og afgreiðslu samgönguráðuneytisins á kæru hans af því tilefni.

A þreytti bókleg stöðupróf fyrir atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu sem haldið var af Flugskóla Íslands. Með bréfi til deildarstjóra skírteinadeildar loftferðaeftirlits flugmálastjórnar kvartaði A yfir tilhögun og efni prófanna. Taldi hann prófin ekki hafa verið sniðin að þekkingarsviði þyrluflugmanna og gerði athugasemdir við innihald einstakra þátta þeirra. Af þessu tilefni fékk loftferðaeftirlit flugmálastjórnar þá B, þyrluflugmann hjá Landhelgisgæslunni, og C, flugmann og eftirlitsmann skírteinadeildar loftferðaeftirlitsins, til að yfirfara prófin. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að prófin hefðu ekki að öllu leyti verið sniðin að þekkingu þyrluflugmanna en þó hefði ekki verið hægt að kalla þau óréttmæt. Að þessari niðurstöðu fenginni leitaði A til samgönguráðuneytisins sem tók þá ákvörðun að þar sem engin sérstök krafa væri gerð af hálfu A myndi það ekki aðhafast frekar í málinu. Leitaði A að nýju til samgönguráðuneytisins sem að undangenginni umsögn loftferðaeftirlits flugmálastjórnar ákvað að aðhafast ekkert frekar í málinu.

Umboðsmaður rakti ákvæði 36. gr. og 37. gr. laga nr. 34/1964, um loftferðir, og greinar 7.2.1. og 7.2.9. í reglugerð nr. 344/1990, um skírteini gefin út af flugmálastjórn, með síðari breytingum, um skilyrði fyrir útgáfu flugskírteina. Taldi umboðsmaður með hliðsjón af athugasemdum við VII. kafla frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að samgönguráðuneytinu hefði borið að inna A eftir því hvort skoða ætti erindi hans til ráðuneytisins sem stjórnsýslukæru og óska annarra þeirra upplýsinga af hans hálfu sem nauðsynleg væru til að taka afstöðu til málsins. Þá rakti umboðsmaður ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga og taldi að í síðari afgreiðslu ráðuneytisins, þar sem það fjallaði efnislega um erindi A, hefði verið nauðsynlegt að taka innihald hinna umdeildu stöðuprófa til sjálfstæðs mats til þess að hægt væri að meta hvort synjun flugmálastjórnar um nýja próftöku hafi verið réttmæt.

Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að samgönguráðuneytinu hefði borið að fara með erindi A sem kærumál og haga meðferð þess og úrlausn í samræmi við 30. og 31. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður að ráðuneytið hefði ekki rannsakað málið nægilega áður en það var afgreitt.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það tæki mál A fyrir að nýju, kæmi um það ósk frá A.

I.

Hinn 3. apríl 1998 leitaði til umboðsmanns Alþingis A. Beindist kvörtun hans að framkvæmd stöðuprófa er hann hafði undirgengist hjá Flugskóla Íslands svo og afgreiðslu samgönguráðuneytisins á kæru hans þaraðlútandi.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 28. maí 1999.

II.

Málavextir eru þeir, samkvæmt gögnum málsins, að í júní 1996 þreytti A bóklegt stöðupróf fyrir atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu samkvæmt ákvæðum lokamálsliðar greinar 7.2.9. í reglugerð nr. 344/1990, um skírteini gefin út af Flugmálastjórn. Var prófið haldið á vegum Flugskóla Íslands.

Með bréfi til deildarstjóra skírteinadeildar loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar, dags. 25. júní 1996, kvartaði A yfir tilhögun og efni prófsins. Taldi hann prófið ekki hafa verið sniðið að þekkingarsviði þyrluflugmanna og gerði athugasemdir við innihald einstakra þátta prófsins. Af þessu tilefni lét loftferðaeftirlit Flugmálastjórnar taka próf A til athugunar með tilliti til kvartana hans. Voru þeir [B], þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni og [C], flugmaður, eftirlitsmaður skírteinadeildar loftferðaeftirlits, fengnir til að yfirfara prófin. Töldu skoðunarmenn þessir prófin ekki að öllu leyti sniðin að þekkingu þyrluflugmanna en þó hefði ekki verið hægt að kalla þau óréttmæt.

Var A send niðurstaða skoðunarmannanna með bréfi, dags. 12. febrúar 1997. Er ekki að sjá að Flugmálastjórn hafi aðhafst frekar í málinu. Hinn 2. desember 1997 ritaði A samgönguráðherra svofellt bréf:

„Efni: Kvörtun yfir stöðuprófum sem tekin voru hjá Flugskóla Íslands í júní 1996.

Sótti undirritaður um stöðupróf fyrir þyrluflugsjónflug. Prófin voru á engan hátt gerð með það í huga. Enda láðist [D] (Skólastjóra FÍ) að segja frá því á kennarafundum að um slík próf væri að ræða. Því til rökstuðnings vísa ég til samtals er ég átti við [E] (Kennari v/F.Í.)

Eftir margítrekuð samtöl við [F] hjá Flugmálastjórn Ísl. þar sem ég óskaði eftir að taka próf útbúin með mína menntun í huga, hefur hún aðeins boðið mér að taka upp prófin í F.Í.

Prófin sem ég tók voru þau sömu og nemar skólans tóku og voru þeir allir flugmenn á flugvél (blindflug).

Bóklegt nám fyrir þyrluflugmenn er ekki kennt í Flugskóla Íslands.

Einnig kvarta ég yfir hvað starfsfólk FMS hefur dregið málið. T. d. bréf frá undirrituðum dagsett 26/6 96 og svar við því dagsett 12/2 97.“

Eftir móttöku þessa erindis sendi samgönguráðuneytið A svohljóðandi bréf, dags. 9. janúar 1998:

„Ráðuneytið hefur móttekið bréf yðar dags. 2. desember sl. þar sem þér kvartið yfir stöðuprófum sem tekin voru hjá Flugskóla Íslands í júní 1996.

Ráðuneytið mun kynna flugmálastjórn bréfið en vill jafnframt benda yður á að í bréfinu er ekki gerð sérstök krafa af yðar hálfu. Ráðuneytið mun því ekki hafast meira að í þessu efni að svo komnu máli.“

Bréfi þessu svaraði A með svohljóðandi bréfi dags. 18. janúar 1998:

„Ég vísa til bréfs frá yður dags. 9. janúar sl. Þar sem þér vísið til bréfs frá undirrituðum dags. 2. desember sl.

Í bréfi yðar kemur fram að ekki sé um kröfu að ræða frá minni hálfu. Ég fer fram á að farið verði eftir reglugerð nr. 344/1990, um skírteini gefin út af Flugmálastjórn. Vísa ég til greinar 2.8 í framangreindri reglugerð.“

Umsögn loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til samgönguráðuneytisins er dags. 19. janúar 1998. Eru í henni rakin þau gögn er lágu fyrir í málinu. Síðan segir í umsögninni:

„Í [gögnum málsins] kemur fram að [A] hefur að baki sér miklu minna bóklegt nám en hér á landi er gerð krafa um. Honum var bent á Flugskóla Íslands til að taka próf og einnig á það að aðrir, sem hafa verið í svipaðri stöðu og hann, hafa bætt við sig um 170 klst kennslu áður en þeir þreyttu prófin. Honum var síðan veitt heimild til að gangast undir bókleg próf án undangengins frekara náms.

Loftferðaeftirlit féllst síðar á að fá metið hvort prófið hafi á einhvern hátt verið óeðlilegt. Prófið var metið af tveimur mönnum, eftirlitsflugmanni loftferðaeftirlits og fulltrúa [A]. Þegar þeir skiluðu niðurstöðu sinni þann 12/2 1997 var svar sent samdægurs til [A].“

Ráðuneytið lauk umfjöllun sinni um erindi A með svofelldu bréfi til hans, dags. 26. mars 1998:

„Ráðuneytið hefur haft til meðferðar erindi yðar þar sem þér kvartið undan stöðuprófum sem tekin voru hjá Flugskóla Íslands í júní 1996. Teljið þér að ákvæði greinar 2.8 í reglugerð nr. 344/1990 um skírteini gefin út af Flugmálastjórn hafi ekki [verið] virt.

Ráðuneytið hefur leitað umsagnar loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar og hefur sú umsögn nú borist.

Ráðuneytið vill taka eftirfarandi fram.

Samkvæmt gögnum málsins fenguð þér heimild til töku stöðuprófa þrátt fyrir að þér hafið ekki uppfyllt kröfu íslensku reglugerðarinnar um atvinnuskírteini á þyrlu. Fram kemur í gögnum málsins að bóklegt nám yðar nam 136 stundum sem er mun minna en gerð er krafa um í reglugerð um skírteini gefin út af Flugmálastjórn. Yður var bent á [að] bæta 170 klst. í kennslu við nám yðar áður en þér þreyttuð próf.

Ráðuneytið getur ekki fallist á að þér hafið ekki notið jafnræðis við meðferð málsins þar sem yður var ennfremur gefinn kostur á að fá hlutlausa aðila til að endurskoða prófin. Niðurstaða þeirra er sú að stöðupróf yðar hafi tekið nokkuð vel á grunnþekkingu atvinnuflugmanna og gildir þá einu hvort um er að ræða flugmenn á þyrlum eða flugvélum. Þá segir:

„Líklegt þykir að ef þessi próf hefðu verið betur sniðin að þekkingu þyrluflugmanna hefði útkoman í heildina ekki breyst það mikið að hægt sé að kalla þessi próf óréttmæt.“

Það er hlutverk ráðuneytisins að meta hvort þér hafið fengið óréttmæta afgreiðslu mála hjá flugmálastjórn og ákvæði reglugerðar um skírteini gefin út af Flugmálastjórn nr. 344/1990 hafi verið gætt. Það er niðurstaða ráðuneytisins að þrátt fyrir að umrætt próf hafi ekki verið sniðið fullkomlega að þekkingu þyrluflugmanna hafi verið gætt grundvallarreglna stjórnsýslulaga um meðferð málsins. Gætt var ákvæða greinar 2.8 í reglugerð 344/1990 þar sem yður var gefinn kostur á að gangast undir stöðupróf eins og fyrr er frá greint.

Ráðuneytið getur því miður ekki aðhafst frekar í máli þessu að svo komnu.“

Kvörtun A til umboðsmanns Alþingis frá 3. apríl 1998 er byggð á sömu atriðum og fram komu í erindi hans til samgönguráðuneytisins sem rakið er að framan.

III.

Umboðsmaður Alþingis ritaði samgönguráðherra bréf, dags. 5. maí 1998, þar sem þess var óskað, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti umboðsmanni í té þau gögn er málið vörðuðu. Sérstaklega var þess óskað að ráðuneytið upplýsti eftirfarandi atriði:

„1) Hvort ráðuneytið hafi farið með erindi [A] sem stjórnsýslukæru og, ef svo er, hvort ráðuneytið telji bréf sitt, dags. 26. mars s.l., uppfylla kröfur 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um form og efni úrskurða í kærumálum.

2) Hvaða sjónarmiðum ráðuneytið hafi beitt við mat á því, hvort hin umdeildu próf hafi verið fullnægjandi grundvöllur til að meta hæfni prófmanns til að öðlast atvinnuflugmannsréttindi á þyrlu.“

Svar ráðuneytisins barst umboðsmanni Alþingis 16. júlí 1998. Er þar spurningum umboðsmanns svarað með svofelldum hætti:

„Ráðuneytið leit ekki á erindi [A] sem stjórnsýslukæru og fór því ekki með erindi hans með þeim hætti.

Ráðuneytið mat bréf hans sem kvörtun yfir umræddum stöðuprófum og aflaði sér upplýsinga um málið hjá Flugmálastjórn. Við mat ráðuneytisins á kvörtun [A] var fyrst og fremst litið til málsmeðferðar Flugmálastjórnar og hvort jafnræðis gagnvart honum hafi verið gætt.

Ráðuneytið getur ekki lagt faglegt mat á einstök tækniatriði prófanna en í málinu lá þó fyrir mat tilkvaddra sérfræðinga á umræddum prófum. Á grundvelli þess mats og með hliðsjón af umsögn og gögnum Flugmálastjórnar taldi ráðuneytið sig ekki fært um að aðhafast frekar að svo komnu.

Verði málið kært til ráðuneytisins mun ráðuneytið hins vegar að sjálfsögðu taka málið til ítarlegrar meðferðar og úrskurðar.“

Jafnframt þessu ritaði umboðsmaður Alþingis Flugmálastjórn bréf 5. maí 1998. Þar var þess óskað, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, að Flugmálastjórn upplýsti eftirfarandi atriði:

„1) Hvaða reglur gildi um endurupptöku prófa, sem Flugmálastjórn hefur umsjón með skv. reglugerð nr. 344/1990.

2) Hvernig hagað sé yfirferð slíkra prófa, þ.m.t. hvort sérstakur prófdómari sé látinn fara yfir próf.

3) Hvert hafi verið vægi þeirra þátta í prófi [A], sem matsmennirnir [B] og [C] gerðu athugasemdir við í matsgerð sinni, dags. 12. febrúar 1997.“

Svar framkvæmdastjóra flugöryggissviðs Flugmálastjórnar barst umboðsmanni Alþingis 27. maí 1998. Er það svohljóðandi:

„Áður en reynt er að svara beint spurningum yðar vil ég svara þeim að nokkru með almennum hætti.

Eitt þeirra atriða sem skipta höfuðmáli til að tryggja öryggi farþega í flutningaflugi er að sá sem stjórnar loftfari hafi bæði til þess þekkingu og færni. Til að tryggja að svo megi vera þá er annars vegar gerð krafa um að viðkomandi hafi farið í gegnum bóklegt og verklegt nám sem uppfyllir tilteknar kröfur og hins vegar með því að krefjast að viðkomandi hafi lokið bæði bóklegum og verklegum prófum með viðunandi árangri. Hvað varðar síðara atriðið mun flugöryggissvið Flugmálastjórnar frá og með 1. júlí 1999, þegar reglur flugöryggissamtaka Evrópu (JAA) taka gildi hérlendis, annast öll slík próf sjálf. Fram til þess hefur flugöryggissvið Flugmálastjórnar falið eða beðið Flugskóla Íslands að annast bókleg próf fyrir atvinnuflugmenn.

Kröfur um innihald bóklega námsins koma fram í grófum dráttum í reglugerð um skírteini nr. 344/1990 en nákvæmar í viðurkenndri nám[s]skrá Flugskóla Íslands sem byggist á ICAO (Alþjóða flugmálastofnunin) Training Manual. Kröfur á prófi endurspeglast líka í prófum sem Flugskóli Íslands heldur.

Í raun hafa bókleg próf tekin erlendis ekkert gildi hérlendis og viðkomandi verður í flestum tilfellum að taka próf í öllum greinum við Flugskóla Íslands. Undantekning er þó ef um er að ræða viðurkenndan skóla af íslenskum flugmálayfirvöldum enda sé námið fyllilega sambærilegt við nám á Íslandi. Ef viðkomandi hefur verulegt bóklegt nám að baki og/eða mikla starfsreynslu erlendis hefur viðkomanda verið leyft að þreyta þessi próf án undangenginnar skólasetu við Flugskóla Íslands. Slík próf hafa oft gengið undir nafninu stöðupróf. Oftast hafa þau próf verið haldin um leið og önnur próf í Flugskóla Íslands og þá um miðjan vetur og á vorin, en sjaldnar hafa verið haldin sérstök próf fyrir einstaklinga utan þess tíma. Slíkt próf var einmitt haldið fyrir [A] í júní 1996. [A] hafði reyndar mjög stutt bóklegt nám að baki sér og enga starfsreynslu og vantaði upp á lágmarksflugtíma fyrir útgáfu skírteinis.

Hvað varðar lið 1) í bréfi yðar þá fylgir hér með ljósrit af þeim hluta reglugerðar nr. 344/1990 kafla 7.2 sem varða reglur um endurupptökupróf. Í stuttu máli þá er mögulegt að endurtaka próf um sex vikum eftir að próf var þreytt í fyrsta sinn og ljúka þarf öllum prófum innan tveggja ára frá því fyrsta próf var þreytt. Standist viðkomandi ekki endurtekningarpróf er almenna reglan sú að hann afli sér viðbótarþekkingar með viðurkenndum hætti, t.d. með skólasetu áður en próf er þreytt að nýju. Enginn munur er á venjulegum prófum eða svo nefndum stöðuprófum að þessu leyti.

Varðandi lið 2) um prófdómara, þá er enginn sérstakur prófdómari enda er um svonefnd krossapróf að ræða. Kennarar skólans fara sjálfir yfir prófin eftir því sem ég veit best.

Varðandi lið 3) um vægi hef ég rætt við [C]. Í fyrsta lagi vega öll prófin níu sem fram koma á yfirliti dagsettu 10. janúar 1998 jafnt. Það voru tvö próf, almenn flugvélaþekking og flugfræði sem voru til sérstakrar athugunar hjá [B] og [C] eða 2/9 hlutar.

Í álitsgerð þeirra er talið að 12/33 af prófinu í flugfræði hefði eingöngu verið ætlaður flugmönnum á flugvél en aðeins tvær spurningar af líklega um fjörutíu í prófinu í almennri flugvélaþekkingu. Áhrifin af þessu í prófinu voru hins vegar þau, samkvæmt áliti matsmannanna, að þó felldar hefðu verið út spurningarnar 12 og eftir stæðu 21 þá hefði viðkomandi ekki náð 70% árangri og því ekki staðist prófið. Hið sama gilti hefðu spurningarnar tvær verið felldar úr prófinu í almennri flugvélaþekkingu.

[…]“

Athugasemdir A við framangreint bréf framkvæmdastjórans bárust umboðsmanni Alþingis 2. júní 1998. Þar mótmælir hann því að sérstakt próf hafi verið haldið fyrir sig heldur hafi hann tekið umrætt stöðupróf á prófdögum Flugskóla Íslands.

IV.

1.

Þegar samgönguráðuneytið afgreiddi erindi A voru í gildi lög um loftferðir nr. 34/1964, sbr. nú lög nr. 60/1998 um loftferðir. Samkvæmt 36. gr. loftferðalaga skyldi flugmálaráðherra ákveða hverjum skilyrðum flugliðar er í loftfari störfuðu skyldu fullnægja um ríkisfang, aldur, líkamlegt og andlegt hæfi, reglusemi, menntun og þjálfun. Samkvæmt 37. gr. laganna var Flugmálastjórn falið að gefa út skírteini flugstjóra og annarra flugliða og mátti binda útgáfu slíks skírteinis við „loftferðir loftfara tiltekinnar tegundar“, sbr. 2. mgr. 37. gr. Nánari skilyrði fyrir útgáfu skírteina eru í reglugerð nr. 344/1990, um skírteini gefin út af Flugmálastjórn, með síðari breytingum. Ákvæði um próf eru í kafla 7.2. reglugerðarinnar, sbr. reglugerðir nr. 71/1996 og 304/1998. Samkvæmt grein 7.2.1. skulu öll próf og athuganir á hæfni og færni samkvæmt reglugerðinni fara fram undir umsjón Flugmálastjórnar eða eftirlitsmanna og/eða prófdómenda, er hún skipar, á þeim tíma og stað sem hún tiltekur. Í grein 7.2.9. er mælt fyrir um mat á prófi sem lokið hefur verið frá viðurkenndum skóla erlendis, þ. á m. um að Flugmálastjórn geti krafist þess að umsækjandi um skírteini á grundvelli erlends prófs sanni þekkingu sína með prófi í þeim greinum er þurfa þykir á þeim stað og tíma er Flugmálastjórn ákveður.

2.

Eins og áður er rakið er kvörtun A til umboðsmanns Alþingis sama efnis og erindi hans til samgönguráðuneytisins, dags. 2. desember 1997. Kvartaði hann þar yfir tilhögun og framkvæmd prófs þess er hann gekkst undir hjá Flugskóla Íslands samkvæmt ákvæði lokamálsliðar gr. 7.2.9. í reglugerð nr. 344/1990. Auk þess kom þar fram að A hefði munnlega óskað eftir því við deildarstjóra skírteinadeildar Flugmálastjórnar að fá að taka nýtt stöðupróf sem betur væri sniðið að þekkingarsviði þyrluflugmanna en því hefði verið hafnað af hálfu Flugmálastjórnar. Sú ákvörðun var kæranleg til samgönguráðuneytisins samkvæmt hinu almenna málskotsákvæði í gr. 8.2. í reglugerð nr. 344/1990 en samkvæmt því mátti vísa ágreiningi sem rísa kynni vegna reglugerðarinnar til samgönguráðuneytisins til úrskurðar.

Erindi A til samgönguráðuneytisins er orðað sem „kvörtun yfir stöðuprófum sem tekin voru hjá Flugskóla Íslands í júní 1996“. Í erindinu voru hins vegar ekki með skýrum hætti settar fram tilteknar kröfur af hans hálfu og var á þetta bent í bréfi ráðuneytisins til A, dags. 9. janúar 1998. Því bréfi svaraði A með bréfi, dags. 18. janúar 1998, þar sem hann fór fram á að „farið [yrði] eftir reglugerð nr. 344/1990“ og benti í því sambandi á grein 2.8. í reglugerðinni. Sú grein fjallar einkum um þau skilyrði sem fullnægja þarf til að fá útgefið atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu. Eins og fram kom í skýringum samgönguráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, fór það ekki með erindið sem kæru og leysti ekki úr því í úrskurðarformi.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er að finna svofelldar athugasemdir við VII. kafla frumvarpsins er fjallaði um stjórnsýslukæru:

„Varðandi efni kæru er almennt gengið út frá því að nægjanlegt sé að aðili tjái æðra stjórnvaldi að hann sé óánægður með ákvörðunina. Á grundvelli leiðbeiningarreglunnar í 7. gr. og rannsóknarreglunnar í 10. gr. ber æðra stjórnvaldi síðan að leiðbeina aðila og ganga úr skugga um hvort hann óski eftir að kæra ákvörðunina. Sé svo er rétt að æðra stjórnvaldið inni aðila eftir upplýsingum um hvaða ákvörðun um sé að ræða, kröfur hans og rök, svo og um aðrar upplýsingar og gögn er málið varða.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3306.)

Af þessu leiðir að þess verður ekki krafist af ólöglærðum aðila að hann tilgreini erindi til æðra stjórnvalds sem stjórnsýslukæru heldur ræðst það af efni erindisins hvort fara beri með það sem stjórnsýslukæru. Leiki vafi á því hvort ætlan aðila sé að kæra ákvörðun í þeim tilgangi að fá hana endurskoðaða ber æðra stjórnvaldi að ganga úr skugga um það hvort svo sé. Í erindi A kom fram að hann hefði farið fram á það við Flugmálastjórn að fá að taka sérstaklega útbúin próf en þeirri beiðni verið hafnað. Mátti því ráða að tilgangur erindisins var að fá þeirri ákvörðun breytt enda snerist meginefni erindisins um það að prófin hefðu verið ósanngjörn. Hafi samgönguráðuneytinu þótt óljóst hvort fara bæri með erindi A frá 2. desember 1997 sem stjórnsýslukæru, bar ráðuneytinu að inna hann eftir því hvort skoða ætti erindið sem kæru og óska annarra þeirra upplýsinga af hans hálfu sem nauðsynlegar þættu til að taka afstöðu til málsins. Í því sambandi tel ég ekki nægjanlegt að benda aðila á það að í erindi hans felist ekki ákveðin krafa án þess jafnframt að leiðbeina honum um það hvaða upplýsinga eða skýringa sé frekar þörf af hans hálfu til þess að erindið verði tekið fyrir sem kæra.

3.

Þrátt fyrir þá niðurstöðu samgönguráðuneytisins að fara ekki með erindi A sem stjórnsýslukæru, var mál hans tekið til efnislegrar meðferðar í ráðuneytinu og komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til athugasemda við afgreiðslu Flugmálastjórnar á því. Tók ráðuneytið því ákvörðun í málinu sem æðra stjórnvald þrátt fyrir að hafa ekki hagað meðferð þess samkvæmt reglum um kærumál.

Að því er varðar mat á því hvort fullyrðing A um að prófin hafi ekki samræmst þekkingarsviði þyrluflugmanna hafi átt við rök að styðjast, hefur ráðuneytið upplýst að það hafi ekki lagt sjálfstætt mat á einstaka þætti prófanna heldur hafi þar verið lögð til grundvallar sama umsögn og fyrir lá þegar Flugmálastjórn hafði málið til umfjöllunar auk umsagnar Flugmálastjórnar um kvörtunarefnið. Í síðarnefndu umsögninni er hins vegar ekki að finna neina efnislega umfjöllun um kvörtunarefni A varðandi innihald prófanna heldur er þar aðeins rakinn undanfari þess að honum var heimilað að þreyta stöðupróf. Liggur því fyrir að samgönguráðuneytið framkvæmdi enga sjálfstæða rannsókn á því atriði sem erindi A laut að, þ.e. hvort umrædd próf hefðu verið fullnægjandi grunnur til að meta þekkingu prófmanns á þeim atriðum er fram koma í gr. 2.8.1.2. í reglugerð nr. 344/1990 og þar með hvort einu af skilyrðum til útgáfu atvinnuflugmannsskírteinis á þyrlu væri fullnægt. Hefur ráðuneytið í skýringum sínum til umboðsmanns Alþingis lýst því viðhorfi að það telji sér ekki fært að leggja faglegt mat á „einstök tækniatriði prófanna.“

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildir sú almenna regla við töku stjórnsýsluákvarðana að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Af þessari reglu leiðir að velti niðurstaða máls á mati atriða er krefjast sérfræðiþekkingar ber stjórnvaldi að kalla eftir sérfræðilegri aðstoð, hafi það sjálft ekki yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á viðkomandi sviði. Í því máli er hér um ræðir var nauðsynlegt að taka til sjálfstæðs mats innihald hinna umdeildu stöðuprófa til þess að hægt væri að meta hvort synjun Flugmálastjórnar um nýja próftöku væri réttmæt. Er það því niðurstaða mín að við meðferð samgönguráðuneytisins á erindi A hafi ekki verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga.

V.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að samgönguráðuneytinu hafi borið að fara með erindi A, dags. 2. desember 1997, sem kærumál og haga meðferð þess og úrlausn í samræmi við 30. og 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tel ég að ráðuneytið hafi ekki rannsakað málið nægilega áður en það var afgreitt með bréfi til A, dags. 26. mars 1998. Eru það því tilmæli mín að samgönguráðuneytið taki mál A fyrir að nýju, komi fram ósk um það frá honum, og hagi þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem sett eru fram í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til samgönguráðuneytisins, dags. 7. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni.

Í svari samgönguráðuneytisins, dags. 3. október 2000, segir að A hafi leitað til ráðuneytisins á ný með kæru og hefði verið ákveðið að taka málið á ný til meðferðar í samræmi við tilmæli í fyrrgreindu áliti mínu. Lauk málinu með úrskurði, dags. 6. júní 2000. Í niðurlagi úrskurðarins segir:

„[...] Þar sem umdeilt er og ómögulegt að sannreyna hvort umrædd próf sem kærandi þreytti á árinu 1996 hafi verið sanngjörn og sniðin að þekkingu þyrluflugmanns telur ráðuneytið eðlilegt að kærandi njóti vafans og verði heimilt að að þreyta prófin að nýju og þá próf sem sérstaklega eru útbúin með atvinnuflug á þyrlu í huga.“