Skattar og gjöld. Sjómannaafsláttur. Yfirskattanefnd. Rökstuðningur. Rannsóknarreglan. Leiðbeiningarskylda.

(Mál nr. 2521/1998)

A kvartaði yfir úrskurði yfirskattanefndar sem synjaði kröfu hans um sjómannaafslátt.

Var synjunin á því byggð að A hefði ekki haldið því fram að greiðslur til hans hafi verið laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum en A hafði tiltekið á skattframtali sínu greiðslur frá tryggingafélagi vegna slyss á tilteknu skipi og rétt til sjómannaafsláttar fyrir 365 daga.

Umboðsmaður rakti ákvæði 1. mgr. og 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi skilyrði til að njóta sjómannaafsláttar. Þá rakti umboðsmaður þágildandi ákvæði 13. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, um að úrskurðir yfirskattanefndar skuli vera ítarlega rökstuddir og sýna eigi á hvaða málsástæðum, kæruefnum og skattheimildum væri byggt. Taldi umboðsmaður að úrskurður yfirskattanefndar hafi ekki verið byggður á réttum grundvelli, þar sem A hefði haldið því fram, m.a. í kæru til yfirskattanefndar, að greiðslur til hans væru laun samkvæmt kjarasamningi en þá málsástæðu hafði yfirskattanefnd ekki tekið til rökstuddrar úrlausnar í úrskurðinum.

Þá minnti umboðsmaður á að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 giltu um störf yfirskattanefndar nema ákvæði annarra laga geymdu strangari málsmeðferðarreglur. Rakti umboðsmaður 10. gr. stjórnsýslulaga og þágildandi 2. mgr. 5. gr. og 7. gr. laga nr. 30/1992 um heimild yfirskattanefndar til að afla upplýsinga. Taldi umboðsmaður með hliðsjón af framangreindum ákvæðum að undirbúningi úrskurðar yfirskattanefndar í máli A hafi verið áfátt þar sem yfirskattanefnd hafði ekki kynnt sér efni kjarasamningsins sem A vísaði í og þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um á hvaða grundvelli greiðslur frá tryggingafélaginu hafi verið inntar af hendi. Auk þessa minnti umboðsmaður á þá skyldu sem 7. gr. stjórnsýslulaga leggur stjórnvöldum á herðar.

Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að beina því til yfirskattanefndar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi ósk um það frá A. Tók umboðsmaður það fram að hann tæki ekki afstöðu til efnisniðurstöðu málsins.

I.

Hinn 12. ágúst 1998 leitaði til umboðsmanns Alþingis A og kvartaði yfir úrskurði yfirskattanefndar nr. 439/1998, vegna synjunar á kröfu hans um sjómannaafslátt.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 14. apríl 1999.

II.

Málavextir eru þeir helstir að A taldi fram á skattframtali sínu árið 1997 greiðslur frá X, tryggingafélagi, v/Y-skips … v/slyss … kr. Þá tilgreindi hann í reit 591 á skattframtali sínu 365 daga sem veittu rétt til sjómannaafsláttar. Í læknisvottorði, dags. 9. desember 1996, er fylgdi skattframtali A, kemur fram að hann hafi lent í alvarlegu umferðarslysi 8. október 1995. Í vottorðinu kemur fram að vegna áverka og aðgerða sem gerðar voru vegna þeirra hafi A verið alveg óvinnufær til sjómennsku frá því slysið gerðist og væri það enn þegar vottorðið er ritað.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1997, tilkynnti skattstjóri að gerðar hefðu verið leiðréttingar á framtali A. Dagafjöldi til sjómannaafsláttar hefði verið felldur niður þar sem ekki væri heimilt að reikna honum sjómannaafslátt samkvæmt fyrirmælum sem fram hefðu komið í bréfi ríkisskattstjóra til allra skattstjóra, dags. 11. mars 1997.

A kærði þessa breytingu til skattstjóra og krafðist sjómannaafsláttar vegna 365 ráðningardaga á árinu 1996. Skattstjóri hafnaði þeirri kröfu með úrskurði hinn 5. ágúst 1997. A skaut úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 20. ágúst 1997, og gerði kröfu um sjómannaafslátt fyrir allt árið 1996. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu A.

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 439/1998 frá 8. maí 1998 segir:

„Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf.

Í 7. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 er tekið fram að þeir dagar á ráðningartíma hjá útgerð, sem sjómaður getur ekki stundað vinnu vegna veikinda eða slysa en tekur laun samkvæmt kjarasamningi, skuli veita rétt til sjómannaafsláttar. Kærandi lenti í slysi í októberbyrjun árið 1995 og hefur verið óvinnufær eftir það. Fékk hann á árinu 1996 eingöngu greiðslur frá [X, tryggingafélagi] en staðfest hefur verið af útgerðarfélagi því sem kærandi starfaði hjá að ráðningu kæranda hjá félaginu hafi ekki verið slitið á árinu 1996. Lýtur ágreiningur máls þessa að því hvort greiðslur þær sem kærandi fékk frá [X, tryggingafélagi] hafi verið laun eða bætur og hvort þær greiðslur veiti kæranda rétt til sjómannaafsláttar.

Samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 skal skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur eigi missa neins í launum sínum svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Á árinu 1996 fékk kærandi einvörðungu greiðslur frá [X, tryggingafélagi]. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en um hafi verið að ræða tryggingabætur en ekki laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum svo sem áskilið er í fyrrgreindum málslið 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981. Er því hvorki haldið fram af hálfu kæranda né verður það ráðið af fyrrgreindri staðfestingu útgerðarinnar. Samkvæmt þessu verður ekki talið að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir sjómannaafslætti í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.“

Með bréfi, dags. 10. ágúst, 1998 kvartaði A til umboðsmanns Alþingis yfir tilvitnuðum úrskurði yfirskattanefndar. Fram kemur að hann sé 75% öryrki eftir slys sem hann lenti í 8. október 1995. A bendir á að skaðabætur eigi að gera menn jafnsetta og tjón hafi ekki orðið, og vísar í því sambandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 en það sé ekki niðurstaðan eftir úrskurð yfirskattanefndar.

III.

Með bréfi, dags. 1. september 1998, óskaði umboðsmaður Alþingis þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1987, um umboðsmann Alþingis, að yfirskattanefnd léti honum í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A.

Yfirskattanefnd sendi umbeðin gögn og skýringar með bréfi, dags. 29. september 1998. Í bréfinu segir meðal annars:

„Svo sem fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar var niðurstaða í málinu byggð á því að greiðslur til [A] á árinu 1996 frá [X, tryggingafélagi] hafi verið tryggingabætur en ekki laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum. Var því ekki talið að lagaskilyrði fyrir sjómannaafslætti hafi verið uppfyllt í tilviki kæranda.“

Með bréfi umboðsmanns Alþingis var A veittur kostur á að gera athugasemdir við fyrrgreint bréf yfirskattanefndar. Athugasemdir A bárust með bréfi, dags. 16. október 1998.

VI.

1.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal maður njóta sjómannaafsláttar sem kemur til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Í 7. málslið 4. mgr. sama stafliðar greinarinnar segir að þeir dagar á ráðningartíma hjá útgerð sem sjómaður geti ekki stundað vinnu vegna veikinda eða slysa en taki laun samkvæmt kjarasamningi, skuli veita rétt til sjómannaafsláttar.

Hjá A kemur fram að á árinu 1996 hafi hann verið ráðinn hjá Z, útgerðarfélagi Y-skips, og hafi hann fengið greitt staðgengilskaup frá X, tryggingafélagi, samkvæmt launaseðlum þeirra sem tóku við störfum A í veikindum hans og útgerðarfélagið hafði sent til X, tryggingafélags, sbr. yfirlýsingu Z, dags. 6. ágúst 1997. A tekur fram að hann hafi tekið laun samkvæmt kjarasamningi, sem greidd voru af X, tryggingafélagi, sbr. bréf hans til umboðsmanns Alþingis, dags. 16. október 1998.

2.

Yfirskattanefnd tók fram í úrskurði sínum nr. 439/1998 að ekki yrði annað séð en um hafi verið að ræða tryggingabætur en ekki laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum svo sem áskilið væri í 7. málslið B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá sagði í úrskurðinum: „Er því hvorki haldið fram af hálfu kæranda né verður það ráðið af fyrrgreindri staðfestingu útgerðarinnar.“

Af tilvitnuðum ummælum í úrskurði yfirskattanefndar verður ráðið að yfirskattanefnd hafi byggt úrskurð sinn á því að A hafi ekki haldið því fram að greiðslur til hans hafi verið laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum.

Ég vil taka fram í þessu sambandi að í bréfi A til skattstjórans í Suðurlandsumdæmi, dags. 29. apríl 1997, segir meðal annars: „Ég er ennþá ráðinn hjá útgerðinni og þau laun sem [X, tryggingafélag] greiðir mér er eftir uppgjöri staðgengils um borð í [Y-skipi]. Þetta uppgjör er samkvæmt gildandi kjarasamningum [...]“ Þá segir í kæru A til yfirskattanefndar, dags. 20. ágúst 1997, „Ég er ennþá ráðinn hjá útgerðinni og þau laun sem [X, tryggingafélag] greiðir mér eru eftir kjarasamningum.“ Er efni beggja þessara bréfa lýst í úrskurði yfirskattanefndar.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að úrskurður yfirskattanefndar hafi ekki verið byggður á réttum grundvelli að því leyti að A hafði haldið því fram að greiðslur til hans hefðu verið laun samkvæmt kjarasamningi. Af þessu leiddi jafnframt að yfirskattanefnd tók ekki þá málsástæðu A að umrædd greiðsla væru laun samkvæmt kjarasamningi í slysatilfellum til rökstuddrar úrlausnar.

Í því ákvæði 13. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sem í gildi var þegar yfirskattanefnd lagði úrskurð á málið, sagði að úrskurðir yfirskattanefndar skyldu vera „ítarlega rökstuddir þannig að í forsendum þeirra komi skýrt fram á hvaða málsástæðum, kæruefnum og skattheimildum sé byggt“.

Í samræmi við það sem að framan er rakið tel ég að forsendur úrskurðar yfirskattanefndar hafi ekki uppfyllt þær lagakröfur sem gerðar voru til slíks rökstuðnings, sbr. tilvitnaða 13. gr. laga nr. 30/1992.

Ég tel rétt að minna á að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda um störf yfirskattanefndar nema ákvæði annarra laga um störf nefndarinnar geymi strangari málsmeðferðarreglur. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í því ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sem í gildi var þegar yfirskattanefnd lagði úrskurð á málið, var tekið fram að yfirskattanefnd væri heimilt að krefja skattaðila um frekari upplýsingar ef hún teldi ástæðu til. Þá var ítrekað í lok þágildandi 7. gr. laganna að yfirskattanefnd væri ætíð heimilt að afla frekari gagna eða upplýsinga máli til skýringar ef hún teldi málið ekki nægilega upplýst.

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 439/1998 er á það bent að ágreiningur málsins lúti að því hvort greiðslur þær sem A fékk frá X, tryggingafélagi, hafi verið laun eða bætur og hvort þær greiðslur veiti kæranda rétt til sjómannaafsláttar. Í 7. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skilyrði til þess að njóta sjómannaafsláttar þegar sjómaður getur ekki á ráðningartíma hjá útgerð stundað vinnu vegna veikinda eða slysa en tekur laun samkvæmt kjarasamningi. Ekki kemur fram í úrskurði yfirskattanefndar eða í þeim gögnum sem yfirskattanefnd afhenti umboðsmanni Alþingis að fyrir yfirskattanefnd hafi legið upplýsingar, eða eftir þeim hafi verið leitað af hálfu yfirskattanefndar, um efni þess kjarasamnings sem A vísaði til í bréfum sínum til skattstjóra Suðurlandsumdæmis og yfirskattanefndar. Þá lágu ekki heldur fyrir upplýsingar um á hvaða grundvelli greiðslur frá X, tryggingafélagi, voru inntar af hendi. Ég tel að undirbúningi úrskurðar yfirskattanefndar í máli A hafi verið áfátt að þessu leyti. Auk þeirra lagaákvæða sem vísað var til hér að framan um rannsóknarregluna og heimild yfirskattanefndar til að afla upplýsinga minni ég einnig á þá leiðbeiningarskyldu sem 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leggur stjórnvöldum á herðar.

3.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða mín að beina því til yfirskattanefndar að nefndin taki mál A til meðferðar að nýju, komi fram ósk um það frá honum, og þá verði gætt þeirra sjónarmiða um undirbúning og rökstuðning kæruúrskurða yfirskattanefndar sem lýst var hér að framan.

Ég tek fram að ég tek ekki afstöðu til efnisniðurstöðu málsins.

VII.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 7. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum um það hvort A hefði leitað til yfirskattanefndar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. ágúst 2000, var mér tilkynnt að málið hefði verði afgreitt og fylgdi með bréfinu afrit af úrskurði nefndarinnar, dags. 24. maí 2000. Í úrskurðarorði segir svo:

„Úrskurður yfirskattanefndar nr. 439/1998 er endurupptekinn. Ómerkt er sú ákvörðun skattstjóra er hann tók hinn 25. apríl 1997 og staðfesti með kæruúrskurði sínum 5. ágúst 1997 að synja kæranda um sjómannaafslátt gjaldárið 1997. Samkvæmt þessu er kæranda að svo stöddu ákvarðaður sjómannaafsláttur samkvæmt tilgreiningum í skattskilum hans. [...]“