Lögreglurannsókn. Rannsókn og ákvörðun saksóknara í tilefni af kæru.

(Mál nr. 298/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 8. ágúst 1991.

A kvartaði yfir meðferð lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og embættis ríkissaksóknara á kæru, sem hún hafði lagt fram á hendur X fyrir að hafa raskað heimilisfriði að Ö og fyrir að hafa haft í hótunum við heimilisfólk þar 2. júlí 1988. Kært var 5. júlí 1988 til lögreglunnar í Y-sýslu, skýrsla tekin og bótakrafa sett fram. Gögnin voru send lögreglustjóranum í Reykjavík 20. október 1988. Var málið "lagt upp" 12. janúar 1989 á grundvelli sátta og bótagreiðslu. Tekið fyrir aftur í júní 1989 og rannsakað og síðan sent ríkissaksóknara til ákvörðunar í ágúst 1989. Í mars 1990 tilkynnti embætti ríkissaksóknara lögreglustjóranum í Reykjavík, að ekki yrði af ákæruvaldsins hálfu mælt fyrir um frekari aðgerðir í málinu. Byggðist ákvörðun þessi m.a. á því, að X hefði greitt umkrafðar bætur og A hefði um ári eftir atburðinn farið fram á það við lögreglu að málinu yrði ekki fram haldið. Umboðsmaður taldi tilefni til að gagnrýna, hvernig á málinu var haldið af hálfu lögreglunnar í Reykjavík og embættis ríkissaksóknara. Hefði rannsókn og ákvörðun um saksókn tekið of langan tíma. Ástæður þess hefðu m.a. verið þær, að lögreglan í Reykjavík hætti rannsókn málsins í ársbyrjun 1989, þar sem lögreglumaður sá, er annaðist rannsóknina, hefði talið, að fullar sættir hefðu orðið í málinu. Umboðsmaður taldi að ekki hefði verið gengið úr skugga um það, hvort bætur hefðu verið greiddar kærendum og hvort þeir hefðu þess vegna fallið frá kæru sinni. Taldi umboðsmaður að í þessum efnum hefði ákvörðun embættis ríkissaksóknara verið studd ófullnægjandi rökum. Það hefði átt að kanna, hvort fallið hefði verið frá kæru, en fyrirliggjandi gögn hefðu ekki gefið fulla vissu um það. Loks greindi umboðsmaður frá því, að hann hefði í sérstöku áliti frá 6. maí 1991 gert grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi tilkynningar til sakaðra manna og kærenda um málalok hjá embættum lögreglustjóra og ríkissaksóknara svo og um nauðsyn þess að tryggilega væri um hnúta búið, ef um það væri að ræða, að kærandi félli frá kæru sinni.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 16. maí 1990 lagði A fram kvörtun yfir meðferð lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og embættis ríkissaksóknara á kæru, sem lögð hefði verið fram á hendur X, til heimilis að..., fyrir að hafa raskað heimilisfriði að Ö 2. júlí 1988 og fyrir að hafa haft í hótunum við heimilisfólk þar. A bjó að Ö ásamt eiginmanni sínum, B.

Lögreglan í Y-sýslu, sem fór á vettvang í tilefni af ofangreindu atviki, samdi skýrslu um athugun sína. Hinn 5. júlí 1988 gaf B skýrslu hjá lögreglunni í Y-sýslu. Lagði hann þar fram kæru á hendur X "fyrir rof á heimilisfriði, morðhótunum og skemmdum á útidyrahurð á íbúðarhúsinu að Ö laugardagskvöldið þann 2. júlí [...]". Hinn 3. ágúst 1988 setti B fram þá kröfu fyrir lögreglunni í Y-sýslu, að X bætti skemmdir á hurð, sem metnar hefðu verið á kr. 11.500,-.

Með bréfi, dags. 20. október 1988, sendi lögreglan í Y-sýslu lögreglustjóranum í Reykjavík ofangreind gögn. Samkvæmt kvaðningu kom X fyrir V, lögregluvarðstjóra hinn 3. janúar 1989. Neitaði X að tjá sig um málsatvik, en kvaðst ætla að senda B greiðslu á fyrrgreindri fjárkröfu að fjárhæð kr. 11.500,-. Hinn 12. sama mánaðar bókaði V síðan eftirfarandi:

"Fullar sættir hafa orðið í máli þessu og skaðabætur greiddar.

Vinsamlega leggið því mál þetta upp."

Var í framhaldi af því bókað í rannsóknarskrá 16. janúar 1989 að V hefði lokið málinu og daginn eftir að málið hefði verið "lagt upp".

Þau A og B fengu í framhaldi af þessu lögfræðing til að kanna framvindu málsins. Var málið tekið fram 8. júní 1989 og fengið R, rannsóknarlögreglumanni, til meðferðar. Hinn 21. júní 1989 gerði A þá kröfu fyrir lögreglunni í Y-sýslu, að X yrði dæmdur samkvæmt lögum til refsingar fyrir athæfi sitt og greiddi henni og fjölskyldu hennar kr. 100.000,- í miskabætur. Fram kom að X hafði sent B tékka að fjárhæð kr. 13.000,-, útgefinn 15. júní 1989, og var hann innleystur 21. sama mánaðar. Hinn 12. júlí 1989 tók R síðan skýrslu af X. Hinn 24. júlí 1989 bókaði R, að þennan dag hefði A hringt og óskað eftir því, að málið yrði sett í biðstöðu, meðan hún ræddi við föður sinn um að hætta við málið. Dagana 27. og 31. júlí 1989 tók R skýrslur af tveimur vitnum. Í framhaldi af því hinn 2. ágúst 1989 var málið sent ríkissaksóknara. Hinn 23. mars 1990 ritaði ríkissaksóknari lögreglustjóranum í Reykjavík bréf út af málinu. Var þar tekið fram, að kærði hefði greitt umkrafðar bætur vegna ætlaðra eignaspjalla og að A, sem haft hefði uppi kröfur í málinu nærri ári eftir atburðinn, hefði farið fram á það við lögreglu 21. júlí 1989, að málinu yrði ekki fram haldið. Eftir atvikum og með hliðsjón af kæruefninu og því, sem upplýst væri um afstöðu A til málsins, væri ekki af ákæruvaldsins hálfu mælt fyrir um frekari aðgerðir í því.

Ritaði nú A lögreglustjóranum í Reykjavík bréf, dags. 6. apríl 1990, og kvartaði yfir meðferð V, varðstjóra, á málinu, er lyktaði með afgreiðslu hans hinn 12. janúar 1989, sbr. að framan. Bókun V þann dag væri röng. Þá vék A að framhaldi málsins í höndum R og benti á það, að nokkrum dögum eftir að R bókaði biðstöðu málsins hinn 24. júlí 1989, hefði hann kallað föður hennar fyrir og tekið af honum vitnaskýrslu vegna málsins.

Í tilefni af bréfi A var V kvaddur til skýrslugjafar fyrir fulltrúa í rannsóknardeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík hinn 27. apríl 1990. Í skýrslu þeirri, sem tekin var af V segir, að hann hefði fengið málið til meðferðar í lok október 1988. Hann hefði kvatt kærða til móts og ítrekað kvaðningar. Það hefði ekki verið fyrr en hinn 3. janúar 1989 að kærði hefði mætt. Áður hefði hann haft samband við A og föður hennar og þau sagt, að þau myndu ekki aðhafast frekar í málinu, ef fram settar fjárkröfur yrðu greiddar. Kærði hefði talið þetta sanngjörn málalok og kvaðst myndu senda greiðslu í janúarmánuði en ekki tiltekið tímann nánar. V upplýsti í skýrslutökunni, að nokkru síðar hefði faðir A haft samband við sig og sagt, að engin greiðsla hefði borist frá kærða. Kvaðst V þá hafa haft samband við kærða út af greiðslunni og kærði þá sagt, að hann væri búinn að greiða. V kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að vefengja orð kærða og í ljósi viðtala við A og föður hennar hefði hann lagt til, að málið færi í biðstöðu.

Af sama tilefni gaf R, rannsóknarlögreglumaður, einnig skýrslu hinn 3. maí 1990. Kvaðst hann hafa fengið málið til meðferðar í júlí 1989. Hann hefði strax byrjað að vinna í málinu og haft samband við B, sem hefði upplýst, að engin greiðsla hefði borist frá X. Hann hefði þá hringt í X, er hefði lofað að greiða kröfuna strax ásamt vöxtum. R upplýsti, að nokkru síðar hefði honum borist í hendur frá kærða ljósrit ávísunar að upphæð kr. 13.000,-. Kæmi þetta fram í skýrslu, er hann hefði tekið af kærða hinn 12. júlí 1989. Í framhaldi af þessu hefði hann hringt til A og hún staðfest, að greiðslan hefði borist. Kvaðst R hafa innt A eftir því hvort málinu væri lokið af hálfu þeirra A og B. Hefði hún ætlað að ráðfæra sig við B og föður sinn. A hefði síðar haft samband og þá ekki náð í föður sinn, en R kvaðst þá hafa gert henni ljóst, að málinu yrði ekki haldið áfram nema um það væri beðið. Þá kvað R föður A hafa haft samband við sig skömmu síðar og farið fram á, að málinu yrði haldið áfram. Hefði orðið að samkomulagi, að R tæki skýrslu af honum, og hefði það verið gert 24. júlí 1989. Í framhaldi af því eða hinn 31. s.m. hefði verið tekin skýrsla af vitni. Að þessu loknu hefði málið verið sent ríkissaksóknara. Taldi R afgreiðslu sína á málinu eðlilega og að enginn teljandi dráttur hefði orðið.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfum, dags. 18. júní 1990, óskaði ég eftir því við ríkissaksóknara og lögreglustjórann í Reykjavík, að mér yrðu látin í té gögn þessa máls, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Gögnin bárust mér með bréfi ríkissaksóknara, dags. 20. júní 1990, og með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 12. júlí 1990. Með bréfi, dags. 11. september 1990, bað ég A að láta mér í té tilteknar upplýsingar og óskaði eftir afstöðu hennar til framangreindra skýrslna V og R. Í svarbréfi hennar, dags. 22. september 1990, kom m.a. fram, að hún var samþykk því, er kom fram í skýrslu R, en mótmælti því að hafa talað um að hætta við málið hinn 24. júlí 1989 eins og fram kæmi í skýrslu R þann dag. A mótmælti skýrslu V og kvaðst hafa hringt u.þ.b. einu sinni í viku til hans og tjáð honum, að engin greiðsla hefði borist frá X og einnig gert ljóst, að málinu yrði haldið áfram, bærist greiðsla ekki fyrir marslok 1989. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um þetta hefði V lagt málið upp 12. janúar 1989. Þá skýrði A ástæður þess að miskabótakrafan hefði verið síðbúin, minnti á refsikröfu á hendur X fyrir brot á 233. gr. alm. hgl. og upplýsti með hvaða hætti henni hefði borist vitneskja um niðurstöðu ríkissaksóknara, þ.e. í símtali við fulltrúa við embættið í mars 1990 og af ljósriti af óundirrituðu bréfi til lögreglustjórans í Reykjavík, er faðir A hefði fengið sent frá honum.

III.

Með bréfi, dags. 3. desember 1990, tjáði ég dóms- og kirkjumálaráðherra, að ég teldi rétt að ráðuneyti hans gerði grein fyrir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, hvað fælist í því að mál væri "lagt upp" hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík og hvort í umræddu máli hefði verið gengið úr skugga um það með nægilega tryggilegum hætti og innan hæfilegs tíma, hvort kærendur væru fallnir frá kæru sinni.

Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 3. janúar 1991, sagði meðal annars:

"Hefur ráðuneytið leitað umsagnar lögreglustjórans í Reykjavík um þetta mál. Er þar rækilega lýst hvað átt sé við með orðalaginu "að leggja mál upp". Kveður lögreglustjóri nýjar verklagsreglur nú komnar til framkvæmda er útiloki að mál séu lögð til hliðar, hafi ekki verið gengið úr skugga um það með nægilega tryggilegum hætti og innan hæfilegs tíma, hvort kærandi væri fallinn frá kæru sinni."

Í tilvitnuðu bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, en það er dagsett 31. desember 1990, segir svo:

"Vitnað er til bréfs yðar dagsett 21. þ.m., þar sem ráðuneytið óskar eftir að gerð sé grein fyrir því, hvað felist í því að mál sé "lagt upp" hjá embættinu. Er bréfið ritað vegna erindis umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins dags. 3. desember 1990.

Það skal upplýst, að með þessu orðalagi er átt við að ekki verði frekar aðhafst í málinu, nema eitthvað nýtt eða sérstakt komi fram sem tilefni gefi til frekari rannsóknar, eða að málið sé afgreitt með öðrum hætti.

Afgreiðsla rannsóknarmála, svo sem með því að mál sé "lagt upp" er í höndum þriggja starfsmanna rannsóknardeildar þ.e. aðstoðaryfirlögregluþjóns og tveggja deildarlögfræðinga. Í því máli sem hér um ræðir tók sá þeirra sem "lagði málið upp" ákvörðun um það á grundvelli skýrslu [V] varðstjóra og án þess að kannað væri frekar hvort kærendur væru fallnir frá kæru sinni þar sem skýrt er tekið fram í skýrslu varðstjórans, að fullar sættir hafi tekist og bætur verið greiddar. Var málið því afgreitt með þessum hætti í trausti þess að svo væri.

Að lokum skal tekið fram að í dag er afgreiðsla þessara mála með þeim hætti, að ef um afturköllun er að ræða á kæru, eða að ekki er óskað frekari aðgerða skal slíkt vera skriflegt frá hendi kærenda, eða með öðrum tryggum hætti."

Með bréfi, dags. 3. desember 1990, gaf ég ríkissaksóknara einnig kost á að skýra afstöðu sína til kvörtunar A. Taldi ég einkum ástæðu til að ríkissaksóknari gerði grein fyrir tveimur atriðum:

1. Hvort ástæða hafi verið til þess að embætti hans gengi nánar úr skugga um það, áður en það tók ákvörðun sína 23. mars 1990, hvort kærendur væru fallnir frá kæru sinni.

2. Hvort embætti hans hafi tilkynnt kærendum málalok samkvæmt ákvörðun embættisins frá 23. mars 1990 og gert kærendum grein fyrir ástæðum þeim, sem þar lágu til grundvallar. Ef svo væri ekki, var óskað eftir því að embætti hans færði fram rök fyrir því.

Í svarbréfi ríkissaksóknara, dags. 22. febrúar 1991, sagði meðal annars svo:

"Fyrirspurn yðar í báðum tilvikum verður svarað neitandi. Hvað varðar fyrri töluliðinn, þá lá fyrir í málinu skýrsla [V], lögregluvarðstjóra í Reykjavík, dagsett 12. janúar 1989, þar sem fram kemur að fullar sættir hafa orðið í málinu. Ennfremur skýrsla [R] í rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík, dagsett 24. júlí 1989, þar sem málið er sett í biðstöðu að ósk [A], en hún hafði í skýrslugjöf hjá lögreglunni í [...sýslu] þann 21. júní 1989 lagt fram kæru vegna sama atviks. Eftir það var tekin skýrsla af föður [A], vitninu [F], þann 27. júlí 1989 og vitninu [Z], þann 31. júlí 1989 og málið sent ríkissaksóknara með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 2. ágúst 1989.

Hvað varðar síðari töluliðinn, er vísað til bréfs ríkissaksóknara til yðar, dagsetts 18. apríl 1990, sem er almennt um tilkynningar um málalok o.fl."

Ég gaf A kost á því að koma á framfæri athugasemdum sínum við framangreindar greinargerðir ríkissaksóknara og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Bárust mér athugasemdir hennar í bréfum umboðsmanns hennar, dags. 22. febrúar og 14. mars 1991.

IV. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 8. ágúst 1991, sagði svo:

"Það er skoðun mín, að rannsókn og ákvörðun um saksókn í máli því, sem hér ræðir um, hafi tekið of langan tíma. Ástæður fyrir því eru meðal annars þær, að lögreglan í Reykjavík hætti rannsókn málsins í ársbyrjun 1989, þar sem lögreglumaður sá, sem rannsóknina annaðist, taldi að fullar sættir hefðu orðið í málinu. Ekki verður fullyrt, hvað þeim fór nákvæmlega milli, sem hlut áttu að máli, en hvernig sem á er litið, var ástæða til þess af hálfu lögreglunnar í Reykjavík, áður en nefnd ákvörðun var tekin, að ganga úr skugga um það, hvort bætur hefðu verið greiddar kærendum og hvort kærendur hefðu þess vegna fallið frá kæru sinni.

Ég tel einnig að embætti ríkissaksóknara hefði átt að kanna, áður en það tók ákvörðun sína um að mæla ekki fyrir um frekari aðgerðir í málinu, hvort fallið hefði verið frá kæru í málinu. Af þeim gögnum, sem fyrir embættinu lágu, varð engan veginn dregin örugg ályktun um það, að kærendur væru afhuga málinu. Tel ég því, að síðastgreind ákvörðun embættis ríkissaksóknara hafi verið studd ófullnægjandi rökum og get ekki fallist á, að viðhlítandi skýringu sé að finna í greinargerð embættisins frá 22. febrúar 1991.

Samkvæmt framansögðu er tilefni til að gagnrýna, hvernig á umræddu máli var haldið af hálfu lögreglunnar í Reykjavík og embættis ríkissaksóknara. Ég hef í sérstöku áliti frá 6. maí 1991 gert grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi tilkynningar til sakaðra manna og kærenda um málalok hjá embættum lögreglustjóra og ríkissaksóknara svo og um nauðsyn þess að tryggilega sé um hnúta búið, ef um það er að ræða að kærandi falli frá kæru sinni. Vísa ég til þessa álits og ennfremur þess, sem kemur fram í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 3. janúar 1991 og bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 31. desember 1990 um síðastgreint atriði, en bréf þessi eru rakin í III. kafla hér að framan."