Opinberir starfsmenn. Setning í stöðu héraðslæknis. Almenn hæfisskilyrði.

(Mál nr. 754/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 30. ágúst 1993.

A kvartaði yfir því, að X hefði verið settur til starfa sem héraðslæknir í stað Y án þess að hann uppfyllti lögmælt menntunarskilyrði greinar 6.2. í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Taldi A, að skylt hefði verið að setja sérmenntaðan embættislækni í stöðuna. Samkvæmt lagaákvæði þessu skulu héraðslæknar, sem skipaðir eru sérstaklega, vera sérmenntaðir embættislæknar, eða hafa jafngilda menntun til starfsins, en þar sem slíkir læknar eru ekki skipaðir, skipar ráðherra einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn. Umboðsmaður tók fram, að skipun Y hefði verið á síðarnefnda grundvellinum og hefði hann því ekki þurft að uppfylla það skilyrði, að vera sérmenntaður í embættislækningum. X hefði verið settur til að gegna störfum Y tímabundið og hefði hann því að lögum ekki þurft að uppfylla önnur skilyrði en Y.

I. Kvörtun og málavextir.

Til mín hefur leitað A, og kvartað yfir því, að X hafi verið settur til starfa frá og með 1. október 1992 sem héraðslæknir R-héraðs, án þess að hann uppfylli lögmælt menntunarskilyrði greinar 6.2. í lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Telur A, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi verið skylt að setja sérmenntaðan embættislækni í stöðuna, en það sé X ekki.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi 26. febrúar 1993 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, er málið snertu. Sérstaklega var þess óskað að gerð yrði grein fyrir menntun X. Bréf þetta ítrekaði ég með bréfi, dags. 13. maí 1993. Greinargerð ráðuneytisins barst mér 18. maí 1993. Þar segir:

"Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 96/1990 með síðari breytingum skal ráðherra skipa héraðslækna til fjögurra ára í senn, sbr. 2. málsgr. 6. gr. laganna. Til skamms tíma var skipun héraðslækna með þeim hætti að einum heilsugæslulækni í hverju héraði voru falin störf héraðslæknis. Með breytingu sem gerð var á lögunum með 3. gr. laga nr. 75/1990 var ákveðið að í [T-héraði], [S-héraði] og [R-héraði] væru skipaðir sérstakir héraðslæknar. Héraðslæknar, sem skipaðir eru sérstaklega skulu vera sérmenntaðir embættislæknar eða hafa jafngilda menntun til starfsins.

Á fjárlögum ársins 1991 fékkst heimild til að skipa sérstakan héraðslækni í [S-héraði]. Um árabil var borgarlæknir í Reykjavík jafnframt héraðslæknir Reykjavíkurlæknishéraðs. Í desember 1990 varð á hinn bóginn ljóst að þrátt fyrir nýgerðar breytingar á lögunum um heilbrigðisþjónustu myndi á árinu 1991 ekki fást fjárveiting til að setja á laggirnar það sérstaka héraðslæknisembætti í [R-héraði], sem lagabreytingin gerði ráð fyrir.

Um svipað leyti sagði heilsugæslulæknir sá, sem jafnframt hafði verið skipaður héraðslæknir [R-héraðs] lausu starfi sem heilsugæslulæknir. Í ljósi framangreindrar ákvörðunar fjárveitingarvaldsins voru engar forsendur að svo stöddu fyrir því að skipa sérstakan héraðslækni í [R-hérað]. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákvað því að skipa einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í samræmi við lokamálslið greinar 6.2 í lögunum. Lögin gera engar sérstakar kröfur til þeirra sem með þessum hætti eru skipaðir héraðslæknar, heldur setur eingöngu það skilyrði að þeir séu starfandi heilsugæslulæknar í viðkomandi umdæmi. Með sama hætti ákvað ráðherra síðsumars 1992 að setja [X] héraðslækni í tæpt ár í fjarveru skipaðs héraðslæknis, [Y].

Ljóst má vera að samkvæmt grein 6.2 í lögum um heilbrigðisþjónustu eru héraðslæknar af tvennum toga. Annars vegar eru sérstakir héraðslæknar sem uppfylla skulu þau skilyrði að vera sérmenntaðir embættislæknar eða hafa jafngilda menntun til starfsins. Þar sem ekki eru skipaðir sérstakir héraðslæknar skipar ráðherra einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn. Ákvæði greinar 6.2 gerir ráð fyrir að sérstakur héraðslæknir sé skipaður í [R-héraði]. Fjárveitingarvaldið hefur á hinn bóginn frá því að lagabreyting þessi gekk í gildi árið 1990 ekki veitt fjármuni til að setja þetta sérstaka héraðslæknisembætti á laggirnar. Skipun héraðslæknis í [R-héraði] hefur því farið eftir ákvæðum lokamálsliðs greinar 6.2.

Í kvörtun [A] er fullyrt að héraðslæknisstarf það sem [Y] var skipaður til að gegna til fjögurra ára frá 1. janúar 1991 og [X] var settur til að gegna frá hausti 1992 til síðsumars 1993 sé sérstakt héraðslæknisembætti samkvæmt ákvæðum greinar 6.2 í lögum um heilbrigðisþjónustu. Svo er ekki og á kvörtun hans því ekki að mati ráðuneytisins við rök að styðjast"

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 30. ágúst 1993, sagði svo:

"Í grein 6.2. í lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu segir:

"Ráðherra skipar héraðslækni í [T-héraði], í [S-héraði] og [R-héraði] til fjögurra ára í senn. Ráðherra er heimilt að skipa héraðslækna til fjögurra ára í senn í öðrum héruðum sé það talið nauðsynlegt vegna umfangs héraðslæknisstarfsins. Skulu héraðslæknar samkvæmt áðurgreindu vera sérmenntaðir embættislæknar eða hafa jafngilda menntun til starfsins. Þar sem ekki eru skipaðir sérstakir héraðslæknar skipar ráðherra einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn."

Ekki er ráð fyrir því gert í ofangreindu lagaákvæði, að starfandi heilsugæslulæknir, sem skipaður er héraðslæknir, verði að vera sérmenntaður embættislæknir. Skipun Y 1. janúar 1991 var á grundvelli lokamálsliðar greinar 6.2. en ekki upphafsákvæðis hennar, svo sem skýrt er í bréfi ráðuneytisins. Hann þurfti því ekki að uppfylla það skilyrði, að vera sérmenntaður í embættislækningum. X var settur til að gegna störfum Y tímabundið. Að lögum þurfti hann því ekki að uppfylla önnur skilyrði en Y.

IV. Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi á grundvelli lokamálsliðar greinar 6.2. í lögum nr. 97/1990 verið heimilt að setja X til þess að gegna störfum Y tímabundið."