Skipulags- og byggingarmál. Byggingarleyfi. Stjórnsýslukæra. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan. Málshraði. Tilkynning um meðferð máls. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 2390/1998)

A kvartaði yfir úrskurði umhverfisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur um að synja A um byggingarleyfi. Byggði A einkum á því að úrskurðurinn hefði verið byggður á röngum forsendum, að hann hafi ekki fengið að tjá sig um umsögn byggingarnefndar, þar sem komið hafi fram ný atriði sem nefndin hafi ekki getið um á fyrri stigum málsins, og að skipulagsskilmálar ættu ekki við um framkvæmdina þar sem ekki væri um húsbyggingu að ræða. Einnig kvartaði A yfir drætti á afgreiðslu málsins hjá umhverfisráðuneytinu.

A sótti um leyfi hjá byggingarnefnd Reykjavíkur til að byggja skjólvegg og garðáhaldageymslu úr timbri á lóðinni nr. 27-29 við X. Á fundi byggingarnefndar var afgreiðslu umsóknarinnar frestað en þeim tilmælum beint til A að breyta fyrirhuguðum framkvæmdum. Síðar á fundi byggingarnefndar var umsókninni synjað á þeim forsendum að ekki hefðu verið gerðar breytingar á uppdráttum til samræmis við óskir hennar. Kærði A framangreinda ákvörðun byggingarnefndar til umhverfisráðuneytisins sem staðfesti hana.

Umboðsmaður vísaði til 1. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sbr. einnig greinar 1.3. og 1.4. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, og taldi með hliðsjón af lögskýringargögnum að lögin og reglugerðin ættu við um þau mannvirki sem um ræddi í málinu.

Umboðsmaður rakti 13. gr. og 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taldi með hliðsjón af lögskýringargögnum og í samræmi við almenn sjónarmið að gera yrði ríkari kröfur en ella til þess að andmælaréttar væri gætt þegar um væri að ræða íþyngjandi ákvarðanir svo sem synjun umsóknar og þegar um væri að ræða umfjöllun kærumáls hjá æðra stjórnvaldi. Þegar framangreint var virt og það haft í huga að um var að ræða rök byggingarnefndar sem höfðu ekki áður komið kæranda fyrir sjónir, taldi umboðsmaður að umhverfisráðuneytinu hafi verið skylt að kynna A hina fram komnu umsögn byggingarnefndar og gefa honum kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hana áður en úrskurðað var í málinu. Þá taldi umboðsmaður að nokkuð hefði skort á að ráðuneytið, sem fór með yfirstjórn byggingarmála skv. 3. gr. laga nr. 54/1978, hefði rannsakað málið nægjanlega áður en úrskurður þess var felldur. Hafi því borið að sjá til þess að lægra sett stjórnvöld legðu ekki ólögmæt sjónarmið til grundvallar við ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfa. Umboðsmaður benti á að samkvæmt 8. mgr. 8. gr. laga nr. 54/1978 hvíldi sú skylda á umhverfisráðherra að úrskurða um ágreiningi innan þriggja mánaða frá áfrýjun. Taldi umboðsmaður að umhverfisráðuneytinu hafi, í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, borið að tilkynna A um tafir á afgreiðslu kærumálsins þegar ljóst var orðið að því yrði ekki lokið innan lögmælts frests, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, og gefa upplýsingar um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta.

Niðurstaða umboðsmanns varð sú að umhverfisráðuneytið hefði ekki staðið rétt að undirbúningi úrskurðar um stjórnsýslukæru A. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til umhverfisráðuneytisins að það myndi sjá til þess að mál A yrði endurupptekið af til þess bærum aðila, kæmi um það ósk frá A.

I.

Hinn 11. febrúar 1998 barst umboðsmanni Alþingis kvörtun frá A. Beindist kvörtun A að úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 20. janúar 1998 þar sem staðfest var ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. júní 1997 um að synja umsókn A um byggingarleyfi.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 22. febrúar 1999.

II.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir helstir að hinn 16. maí 1997 sendi A byggingarnefnd Reykjavíkur umsókn um leyfi til að byggja skjólvegg og garðáhaldageymslu úr timbri á lóðinni nr. 27-29 við X. Á fundi byggingarnefndar 29. maí 1997 var afgreiðslu umsóknarinnar frestað og þeim tilmælum beint til A að hinni fyrirhuguðu framkvæmd yrði breytt á þann veg að skúrinn og girðingin yrðu færð aftar á lóðina. Var uppdráttum að framkvæmdinni þá breytt á þann veg að grindverk var fært 50 sm. aftar á lóðina en staðsetning áhaldageymslu var óbreytt.

Á fundi byggingarnefndar 26. júní 1997 var umsókninni synjað. Með bréfi, dags. 18. júlí 1997, óskaði A eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var þeirri beiðni hans svarað með bréfi byggingarfulltrúa til A, dags. 1. september 1997.

Í rökstuðningnum er frá því greint að byggingarleyfisumsókninni hafi verið synjað þar sem ekki hafi verið gerðar þær breytingar á uppdráttum sem byggingarnefnd hefði óskað eftir er hún frestaði afgreiðslu erindisins. Síðan segir:

„Í umræðum á báðum fundum [byggingarnefndar] kom fram að nefndin teldi að staðsetning skúra og grindverks svo framarlega á lóð hefði veruleg áhrif til hins verra á götumyndina. Með samþykkt erindisins væri jafnframt gefið óæskilegt fordæmi fyrir kofa- og skúrabyggingum á áberandi stöðum á lóðum í nýjum hverfum.

Synjun nefndarinnar kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að sækja um byggingarleyfi að nýju, enda verði staðsetningu skúrs breytt í samræmi við ábendingar nefndarinnar. Jafnframt þyrfti að lagfæra nokkur atriði á uppdráttum sem ekki eru í samræmi við reglur um frágang.“

Með stjórnsýslukæru, dags. 7. september 1997, kærði A synjun byggingarnefndarinnar til umhverfisráðuneytisins. Í kærunni er einkum á því byggt að byggingarnefnd hafi ekki tilfært nein lagarök er heimili henni að synja um útgáfu byggingarleyfis.

Umhverfisráðuneytið leitaði við meðferð sína á málinu eftir umsögnum byggingarnefndar Reykjavíkur og skipulagsstjórnar ríkisins í samræmi við ákvæði 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978.

Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur, dags. 8. október 1997, sem byggði á tillögu skrifstofustjóra byggingarfulltrúa, eru rakin þau sjónarmið er fram komu í fyrrgreindu bréfi byggingarfulltrúa til A, dags. 1. september 1997. Síðan segir:

„Skipulagsskilmálar fyrir Rimahverfi voru samþykktir í skipulagsnefnd 19. febrúar 1990 og í borgarráði 20. febrúar 1990. Í skilmálunum segir svo um húsagerðir gr. 1.0.6.: „Húsagerðir eru frjálsar að öðru leyti en því, sem mæliblöð, hæðarblöð og skýringarteikningar í þessum skilmálum gefa til kynna. Ekki eru sérstakar kvaðir um val á byggingarefnum, en athygli er vakin á því, að 5 metra lágmarksfjarlægð verður að vera að lóðarmörkum, ef reisa á óvarin timburhús.“ Í gr. 1.0.8. um byggingarreit segir: „Byggingarreitir eru sýndir á mæliblöðum og skulu hús standa innan þeirra. Útbyggingar mega ná út að ytri byggingarreit, þó mega þær ekki vera meira en 1/3 af viðkomandi hlið. Byggingarlína er bundin, þar sem lína er heil og skal hluti húss snerta þá línu. Aðrar hliðar byggingarreits sýna lágmarksfjarlægð frá lóðarmörkum.“ Í gr. 1.0.9. um frágang lóða segir m.a.: „Lóðarhafi sér sjálfur um framkvæmdir á lóð sinni og ber ábyrgð á, að þær séu í samræmi við samþykktar teikningar og uppgefnar hæðartölur. Skjólveggir skulu sýndir á byggingarnefndarteikningum.“

Samkvæmt framansögðu er ljóst að uppdrættir þeir sem synjað var á fundi byggingarnefndar þann 26. júní 1997 uppfylltu ekki þær kröfur sem byggingarnefnd gerði né heldur uppfylltu þeir ákvæði skipulagsskilmála. Með vísan til þessa leggur undirritaður til við byggingarnefnd að hún mælist til þess við umhverfisráðherra, að krafa kæranda verði ekki tekin til greina.“

Umsögn skipulagsstjórnar ríkisins er dags. 15. október 1997. Í henni segir meðal annars:

„Um girðingu lóða er fjallað í grein 5.11 í byggingarreglugerð nr. 177/1992. Í grein 5.11.2 eru byggingarnefnd veittar heimildir til að ákvarða gerð girðingar eða banna girðingu lóðar ef skipulagi er svo háttað að girðing er talin óþörf, til lýta eða rétt talið að girt sé með tilteknum hætti. Í ákvæðinu er gert að skilyrði að skipulagi sé svo háttað. Verður að telja að átt sé við deiliskipulag. Ekki hefur verið staðfest eða samþykkt deiliskipulag fyrir það svæði sem hér er til umfjöllunar. Í byggingarskilmálum fyrir svæðið eru ekki ákvæði um skúrabyggingar eða grindverk.

Skipulagsstjórn ríkisins samþykkti eftirfarandi um erindið á fundi sínum hinn 15. október 1997:

„Skipulagsstjórn ríkisins telur, að þar sem að í byggingarskilmálum fyrir [X] 27 er ekki tekið fram hvernig háttað skuli girðingu inni á lóð eða um staðsetningu skúrbygginga, hefði byggingarnefnd átt að vísa byggingarleyfisumsókn kæranda til umfjöllunar skipulagsnefndar áður en hún tók afstöðu til erindisins. Stefnumörkun um girðingar og skúrabyggingar á svæðinu í heild ætti að liggja fyrir áður en erindið er afgreitt, enda telur byggingarnefnd málið hafa áhrif á götumynd og gefa fordæmi fyrir kofa- og skúrabyggingar í nýjum hverfum.“

Í forsendum úrskurðar umhverfisráðuneytisins, dags. 20. janúar 1998, segir svo:

„Samkvæmt þeim uppdráttum sem fylgdu umsókn kæranda, dags. 16.5.1997, um leyfi til að byggja skjólvegg og áhaldageymslu úr timbri á lóðinni nr. 27-29 við [X] er skjólveggurinn áfastur við bifreiðageymslu hússins nr. 27, sem er byggð út að ytri byggingarreit og áhaldageymslan byggð að lóðarmörkum lóðarinnar nr. 25-23. Hvort tveggja brýtur í bága við ákvæði 1.0.6. og 1.0.8. í skipulagsskilmálum fyrir Rimahverfi sem samþykktir voru í skipulagsnefnd Reykjavíkur 19.2.1990 og í borgarráði 20.2.1990, sbr. 2. mgr. gr. 4.2. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, þar sem segir að 5 metra lágmarksfjarlægð verði að vera að lóðarmörkum ef reisa eigi óvarin timburhús og að útbyggingar megi ná út að ytri byggingarreit.

Með vísan til framanritaðs er þegar af þeim ástæðum sem þar eru raktar ekki efni til annars en að staðfesta synjun byggingarnefndar.

[…] Úrskurðarorð.

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26.6.1997 um að synja umsókn um leyfi til að byggja skjólvegg og garðáhaldageymslu úr timbri á lóðinni nr. 27-29 við [X] skal óbreytt standa.“

Í kvörtun A til umboðsmanns Alþingis er á því byggt að úrskurður umhverfisráðuneytisins hafi verið byggður á röngum forsendum. Hafi A ekki fengið að tjá sig um umsögn byggingarnefndar þar sem komið hafi fram ný atriði sem nefndin hafi ekki getið um á fyrri stigum málsins. Þá er á því byggt að skipulagsskilmálar ættu ekki við um framkvæmdina þar sem ekki væri um húsbyggingu að ræða. Loks kvartaði A yfir drætti á afgreiðslu umhverfisráðuneytisins á málinu.

III.

Umboðsmaður Alþingis ritaði umhverfisráðuneytinu bréf 6. mars 1998 þar sem þess var óskað, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti umboðsmanni í té gögn málsins. Þá óskaði umboðsmaður þess að ráðuneytið upplýsti um afstöðu sína til þeirrar skoðunar, sem fram kæmi í umsögn skipulagsstjórnar ríkisins, að byggingarnefnd hefði verið rétt að vísa hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn til umfjöllunar skipulagsnefndar áður en hún var afgreidd. Loks var þess óskað að ráðuneytið upplýsti hvers vegna ekki hefði verið talin ástæða til að gefa kæranda kost á að tjá sig um fram komna umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur áður en úrskurður ráðuneytisins var upp kveðinn.

Svar umhverfisráðuneytisins ásamt gögnum málsins barst umboðsmanni Alþingis 27. apríl 1998. Segir þar meðal annars:

„Hvað fyrra atriði kvörtunarinnar varðar um að byggingarnefnd hafi verið rétt að vísa hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn til umfjöllunar skipulagsnefndar, lítur ráðuneytið svo á að í því máli sem hér um ræðir hafi ekki verið ástæða til að hlutast til um hvort byggingarnefnd hefði gætt réttrar málsmeðferðar við ákvörðun sína með því að vísa máli til skipulagsnefndar. Hér er um að ræða málefni er varða innri starfsemi borgarinnar og ráðuneytið treysti því þess vegna að skipulagsnefnd er starfar beint undir borgarstjóra hefði komið að málinu á einhverju stigi þess.

Í öðru lagi er þess óskað að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess hvers vegna ekki hafi verið talin ástæða til þess að gefa kæranda kost á að tjá sig um fram komna umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur en samkvæmt gögnum málsins hafi komið þar fram rök fyrir synjun nefndarinnar sem kæranda höfðu ekki verið kynnt áður. Í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til kæranda frá 1. september 1997 var synjun byggingarnefndar frá 26. júní 1997 reist á þeim rökum að kærandi hefði ekki gert þær breytingar á uppdráttum sem nefndin hafi óskað eftir á fundi sínum hinn 29. maí 1997. Að mati ráðuneytisins byggðist umsögn byggingarnefndar frá 8. október 1997 vegna hinnar kærðu synjunar frá 26. júní 1997 á því sem að framan segir um að ekki hafi verið gerðar þær breytingar sem nefndin hafi óskað eftir en að frekari rök væru ekki færð fyrir synjuninni, sbr. niðurlag umsagnarinnar. Taldi ráðuneytið því engin þau ný rök eða atriði koma fram í umsögn byggingarnefndar að tilefni væri til að gefa kæranda kost á að tjá sig um hana.

Um leið og beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindi yðar, sendast meðfylgjandi ljósrit af umbeðnum gögnum málsins.“

Hinn 13. maí 1998 bárust umboðsmanni Alþingis athugasemdir A við svörum umhverfisráðuneytisins.

IV.

1.

Þegar A sótti um hið umdeilda byggingarleyfi til byggingarnefndar Reykjavíkur og því var synjað af nefndinni voru í gildi byggingarlög nr. 54/1978, með síðari breytingum. Þau lög voru leyst af hólmi með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem tóku gildi 1. janúar 1998. Á þessum tíma var einnig í gildi byggingarreglugerð nr. 177/1992, með síðari breytingum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 54/1978, sbr. einnig greinar 1.3. og 1.4. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, tóku þau lög til hvers konar bygginga ofanjarðar og neðan og annarra mannvirkja sem áhrif hafa á útlit umhverfisins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/1978 er að finna svofellda umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins sem var nálega samhljóða 1. gr. laganna:

„Samkvæmt greininni er lögunum ætlað að gilda um hverskonar „mannvirki“ ofan jarðar og neðan, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins. Undanþegin ákvæðum laganna eru nánar tilgreind mannvirki á vegum opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir þessar undanþágur er gildissvið byggingarlaganna rýmkað verulega, frá því sem það er samkvæmt gildandi byggingarlögum, en þau taka einungis til bygginga í þrengri merkingu, þ.e. húsbygginga. Samkvæmt greininni ná ákvæði frv. til íþróttavalla, sundlauga, stálgeyma og girðinga, svo að dæmi séu nefnd.“ (Alþt. 1977-1978, A-deild, bls. 270.)

Orðalagi 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins var breytt í meðförum Alþingis á þann hátt að girðingar á lögbýlum voru undanþegnar ákvæðum laganna. Af þessari tilurð ákvæðisins má ráða að girðingar í þéttbýli, sem áhrif höfðu á útlit umhverfisins, féllu undir lögin. Ákvæði þágildandi byggingarlaga og byggingarreglugerðar áttu því við um þau mannvirki sem um ræðir í þessu máli.

2.

Á því er byggt í kvörtun A að andmælaréttur hafi verið á honum brotinn þegar honum var ekki gefinn kostur á að tjá sig um umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur áður en umhverfisráðuneytið lagði úrskurð á stjórnsýslukæru hans.

Hið almenna ákvæði um andmælarétt er að finna í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Um þetta ákvæði er að finna eftirfarandi athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993:

„Þegar aðili máls hefur sótt um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum og fyrir liggur afstaða hans í gögnum máls þarf almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málsefni eins og fyrr segir. Þegar aðila er hins vegar ókunnugt um að ný gögn eða upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3296.)

Í áðugreindri umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. október 1997 var í fyrsta sinn undir rekstri málsins vitnað til ákvæða skipulagsskilmála fyrir Rimahverfi til rökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar. Í upphaflegum rökstuðningi nefndarinnar, sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. september 1997, var á hinn bóginn í engu getið um lagastoð fyrir synjun um útgáfu byggingarleyfis en eingöngu vísað til fagurfræðilegra sjónarmiða og þess viðhorfs að mannvirkin væru of framarlega á lóðinni. Þar var jafnframt tekið fram að synjun nefndarinnar kæmi ekki í veg fyrir að hægt væri að sækja um byggingarleyfi að nýju „enda verði staðsetningu skúrs breytt í samræmi við ábendingar nefndarinnar“.

Tilvísanir byggingarnefndar til skipulagsskilmála, sbr. umsögn nefndarinnar frá 8. október 1997, lúta einkum að reglum um byggingarreiti, lágmarksfjarlægð mannvirkja frá lóðarmörkum og að skjólveggir skuli sýndir á byggingarnefndarteikningum. Þessi rök fyrir synjun byggingarnefndar og hin beina skírskotun til skipulagsskilmála eru því af öðrum toga en þau rök sem áður höfðu verið færð fram ákvörðuninni til stuðnings. Þá er til þess að líta að rökstuðningur umhverfisráðuneytisins fyrir niðurstöðu sinni er eingöngu grundvallaður á þeim ákvæðum umræddra skipulagsskilmála sem í fyrsta sinn er getið í áðurgreindri umsögn.

Í samræmi við almenn sjónarmið verður að gera ríkari kröfur en ella til þess að andmælaréttar sé gætt þegar um er að ræða íþyngjandi ákvarðanir svo sem synjun umsóknar. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við meðferð kærumáls fylgja ákvæðum II.-VI. og VIII. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt eru í IV. kafla laganna. Í athugasemdum við 30. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að gengið sé út frá því sem meginreglu að meðferð kærumála skuli vera vandaðri en málsmeðferð hjá lægri stjórnvöldum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3310.) Umhverfisráðuneytið fjallaði um kærumál þetta sem æðra stjórnvald og bar því við meðferð kærumálsins að gæta sérstaklega vel að því að andmælaréttur væri virtur.

Þegar framangreint er virt og það haft í huga að um var að ræða rök byggingarnefndar sem ekki höfðu áður komið kæranda fyrir sjónir, tel ég að umhverfisráðuneytinu hafi verið skylt að kynna A hina fram komnu umsögn byggingarnefndar og gefa honum kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hana áður en það úrskurðaði í málinu. Á þetta alveg sérstaklega við þar sem af niðurstöðu ráðuneytisins verður ráðið að það hafði sérstaklega til skoðunar að byggja úrskurð sinn á þessum rökum. Sama gilti einnig um umsögn skipulagsstjórnar ríkisins, dags. 15. október 1997.

3.

Ég tel jafnframt nokkuð á skorta að umhverfisráðuneytið hafi rannsakað mál þetta nægjanlega áður en úrskurður þess var felldur. Er hér einkum til þess að líta að engar skýringar höfðu komið fram af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur á því hvers vegna afgreiðsla þess á málinu var sú sem raun bar vitni. Synjun byggingarnefndar Reykjavíkur á byggingarleyfisumsókn A var í upphafi á því reist að ekki hefði verið farið að tilmælum nefndarinnar um að mannvirkið yrði fært aftar á lóðina, eins og fram kemur í bréfi byggingarfulltrúa til A, dags. 1. september 1997. Ekkert kom á hinn bóginn fram í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um lagastoð fyrir umræddu skilyrði um fjarlægð mannvirkisins frá framhlið lóðar eða um það hvaða breytingar nefndin taldi þörf á að gera í samræmi við tilvitnaðar ábendingar nefndarinnar.

Sökum þess misræmis sem var á milli upphaflegs rökstuðnings byggingarnefndar fyrir synjun um útgáfu byggingarleyfis og eftirfarandi umsagnar nefndarinnar til umhverfisráðuneytisins tel ég að ráðuneytinu hafi borið að afla upplýsinga um kröfur byggingarnefndar um fjarlægð mannvirkjanna frá götu til að kanna hvort þær hafi verið lögmætar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/1978, eins og henni var breytt með 15. gr. laga nr. 47/1990, fór umhverfisráðuneytið með yfirstjórn byggingarmála. Í slíku yfirstjórnunarvaldi felst meðal annars sú skylda að sjá til þess að lægra sett stjórnvöld leggi ekki ólögmæt sjónarmið til grundvallar við ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfa.

4.

Samkvæmt 8. mgr. 8. gr. laga nr. 54/1978, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 47/1990, skyldi umhverfisráðherra úrskurða um ágreining vegna ályktunar byggingarnefndar eða sveitarstjórnar innan þriggja mánaða frá áfrýjun.

Kæra A til umhverfisráðuneytisins er dagsett 7. september 1997 og er stimpluð um móttöku af ráðuneytinu 22. sama mánaðar. Ráðuneytinu höfðu borist lögbundnar umsagnir, sbr. lokamálslið 8. mgr. 8. gr. laga nr. 54/1978, um miðjan október 1997. Úrskurður ráðuneytisins er dagsettur 20. janúar 1998 og var sendur kæranda með bréfi, dags. 22. sama mánaðar. Ég tel að umhverfisráðuneytinu hafi, í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, borið að tilkynna A um tafir á afgreiðslu kærumálsins þegar ljóst var orðið að því yrði ekki lokið innan lögmælts frests, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og gefa upplýsingar um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Í skýringum ráðuneytisins í tilefni kvörtunarinnar er ekki gerð grein fyrir ástæðum þessara tafa.

Á stjórnvaldi hvílir sú skylda að virða tímafresti sem því eru settir í lögum til að úrskurða í máli. Afsakanlegar ástæður kunna þó að leiða til þess að stjórnvald geti ekki lokið einstaka máli innan frestsins og almennt leiða slíkar tafir á meðferð máls ekki einar sér til ómerkingar úrskurðar af hálfu dómstóla. Kemur þar fyrst og fremst til mats hvort tafirnar hafi leitt til þess að endanleg niðurstaða varð ótraustari en ella þannig að það sé aðila stjórnsýslumálsins til óhags. Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem komist er að hér að framan er þó ekki sérstakt tilefni til að ég fjalli frekar um þennan þátt málsins.

V.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að umhverfisráðuneytið hafi ekki staðið rétt að undirbúningi úrskurðar um stjórnsýslukæru A.

Meðan á umfjöllun umhverfisráðuneytisins um mál þetta stóð, tóku gildi ný skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt þeim lögum er úrskurðarvald á æðra stjórnsýslustigi í málum er varða skipulags- og byggingarmál fært úr höndum umhverfisráðuneytis til sérstakrar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Lögin kveða hins vegar ekki á um það hvert beina skuli ósk um endurupptöku mála sem úrskurðuð hafa verið af umhverfisráðuneytinu samkvæmt ákvæðum eldri laga. Það er hins vegar meginregla, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að aðili máls skuli eiga þess kost að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum. Það eru því tilmæli mín til umhverfisráðuneytisins að það sjái til þess að mál A verði endurupptekið af til þess bærum aðila, komi fram ósk um það frá honum, og að meðferð þess verði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 26. mars 1999, óskaði [A] eftir því að mál hans yrði endurupptekið. Ráðuneytið framsendi erindið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 4. maí 1999. Féllst nefndin á endurupptöku málsins og úrskurðaði í því að nýju 28. mars 2000. Úrskurðarorð er svohljóðandi:

„Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. júní 1997 um að synja umsókn hans um leyfi til að byggja skjólvegg og áhaldageymslu á lóðinni nr. 27-29 við X í Reykjavík.“