Jafnréttismál. Kærunefnd jafnréttismála. Starfsveiting. Aðild að kvörtun til umboðsmanns. Stjórnvaldsákvörðun. Andmælaréttur. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Frjálst mat. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 2214/1997)

A kvartaði yfir málsmeðferð og niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála sem taldi að brotið hefði verið gegn 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 8. gr. sömu laga við stöðuveitingu til A.

Settur umboðsmaður taldi að af verksviði og valdheimildum kærunefndar jafnréttismála, eins og það væri markað í lögum nr. 28/1991, yrði ráðið að nefndin teldist stjórnvald og að niðurstaða hennar gæti haft áhrif á hagsmuni þeirra einstaklinga er úrlausn hennar varða. Taldi settur umboðsmaður því skilyrðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um að taka kvörtun A til efnislegrar athugunar, fullnægt.

Settur umboðsmaður rakti 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991, um rannsóknarskyldu kærunefndar, og benti á að í málum þar sem deilt væri um lögmæti starfsráðningar í opinbert starf væri hlutverk hennar afmarkað við að hafa eftirlit með og gefa álit um hvort veitingarvaldshafi hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum sjónarmiðum og gætt þeirra efnisreglna sem leiða mætti af ákvæðum laganna. Þá rakti settur umboðsmaður 8. gr. sömu laga um rétt nefndarinnar til að krefja atvinnurekanda upplýsinga um menntun, starfsreynslu eða aðra sérstaka hæfileika umsækjanda. Settur umboðsmaður taldi að við mat nefndarinnar á því hvort efnisreglum laganna hafi verið fylgt yrði hún að taka mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn hafi lagt til grundvallar, hafi þau verið málefnaleg og lögmæt. Hið sama eigi við um innbyrðis þýðingu þeirra. Féllst hann því ekki á að 8. gr. laganna veitti kærunefnd jafnréttismála sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum en veitingarvaldshafi hefði stuðst löglega við.

Þá taldi settur umboðsmaður að úrlausnir kærunefndarinnar yrðu ekki taldar fela í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hagsmunaaðilar ættu engu að síður rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tæki þýðingarmikla ákvörðun, hvort sem slík ákvörðun væri studd 13. gr. stjórnsýslulaga eða meginreglum stjórnsýsluréttar. Taldi hann hina sérstöku stöðu nefndarinnar að lögum og eðli þeirra verkefna sem henni væru falin, leiða til þess að sá einstaklingur sem ráðinn væri í starf en nyti ekki aðilastöðu í kærumáli til nefndarinnar, ætti alla jafna rétt til að fá að tjá sig um efni málsins fyrir nefndinni. Gerði settur umboðsmaður þó ekki athugasemd varðandi þennan þátt málsins þar sem athugasemdir A höfðu komist að áður en nefndin tók ákvörðun sína.

Þá taldi settur umboðsmaður að sú skylda hvíldi á nefndinni að rannsaka mál í tilefni af ábendingum um brot á ákvæðum laga nr. 28/1991 og gæta þess að eigin frumkvæði að mál væru nægilega upplýst áður en hún tæki afstöðu til þeirra. Taldi hann að nefndinni hafi ekki verið rétt að fullyrða að B hefði meiri menntun og starfsreynslu á framhaldsskólastigi en A með tilliti til þeirra gagna sem lágu fyrir nefndinni.

Niðurstaða setts umboðsmanns varð því sú að kærunefnd jafnréttismála hefði farið út fyrir verksvið sitt eins og það er markað í lögum nr. 28/1991. Hafi nefndinni ekki verið heimilt að byggja álit sitt á öðrum sjónarmiðum um einstaka hæfnisþætti eða vægi þeirra innbyrðis varðandi umsækjendur um umrætt starf en byggt hafi verið á í lögmætri ákvörðun veitingarvaldshafa. Þá taldi hann að nefndinni hefði borið að upplýsa málið betur áður en hún tók ákvörðun sína.

Beindi settur umboðsmaður þeim tilmælum til kærunefndar jafnréttismála að hún endurskoðaði niðurstöðu sína í umræddu máli, kæmi um það ósk frá A.

I.

Hinn 20. ágúst 1997 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð og niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 7/1996.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis frá 26. júlí 1999 vék hann sæti í máli þessu. Með bréfi 16. ágúst 1999 var ég undirritaður [Stefán Már Stefánsson] skipaður til að fara með málið.

Máli þessu var lokið með áliti, dags. 4. september 1999.

II.

Aðdragandi málsins er sá að vorið 1996 var auglýst laus til umsóknar staða áfangastjóra við Fjölbrautaskólann í Garðabæ vegna afleysinga. Yrði ráðið í hana til eins árs. Umsóknarfrestur rann út 12. apríl 1996. Tveir sóttu um stöðuna, A og B. Hinn 21. maí 1996 staðfesti menntamálaráðuneytið tillögu skólameistara um að A yrði ráðinn í stöðuna. B kærði þá niðurstöðu til kærunefndar jafnréttismála 20. júní 1996. Í bréfi skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ til B, dags. 11. júní 1996, er ekki að finna rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að ráða A en ekki B í starf áfangastjóra. Ekki liggur fyrir að B hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstuðningur skólameistara fyrir ákvörðun sinni og greinargerð um þau sjónarmið sem byggt var á við ráðninguna, kemur því fyrst fram í bréfi hans til kærunefndar jafnréttismála, dags. 25. júlí 1996. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Báðir umsækjendur hafa full réttindi en þegar skoðað er í samhengi menntun, starfsreynsla og aðrir verðleikar er enginn efi í mínum huga né þeirra sem næsta skólaár munu gegna starfi skólameistara og aðstoðarskólameistara. Menntun [A] er a.m.k. ekki minni en menntun [B] en aðrir þættir eru miklu þyngri og afgerandi við afgreiðslu málsins, s.s. starfsreynsla, stjórnunarreynsla og ýmsir aðrir verðleikar sem stjórnandi verður að hafa í framhaldsskóla. Aðrir verðleikar, sem hafa verður í huga við starf þetta, eru verkstjórn, tjáning (miðlun til fólks), samskipti, umhyggja fyrir velferð nemenda, gott málfar, hugmyndaflug og góð greiningarhæfni þegar vandamál koma upp. Með tilliti til þessara þátta og langrar reynslu [A] við mjög farsæla stjórnun var hann ráðinn.“

III.

Álit kærunefndar jafnréttismála í máli B gegn Fjölbrautaskólanum í Garðabæ var samþykkt á fundi nefndarinnar 15. október 1996. Í álitinu segir meðal annars svo:

„Í lögum nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er að finna leiðbeiningar um hvaða þætti leggja skuli til grundvallar vali ef fleiri en einn kennari sækir um sama starf og allir uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Samkv. 5. mgr. 11. gr. skal við veitingu starfsins taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um hæfni umsækjenda.

Báðir umsækjendur eiga að baki langan kennsluferil. Á starfsferli sínum hefur [B] sinnt rannsóknar- og fræðistörfum og aflað sér þar með sérþekkingar. Hvorki skólanefnd né kennarafundur tóku afstöðu til hæfni umsækjenda en skólanefnd féllst á tillögu skólameistara um að [A] skyldi ráðinn.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru báðir umsækjendur með réttindi sem framhaldsskólakennarar og því hæfir til að gegna starfinu. [A] er með tvöfalt B.A. próf til viðbótar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. [B] er með B.Sc. próf, próf í uppeldis- og kennslufræði og próf í námsráðgjöf sem er viðbótarnám við almennt B.A. og B.Sc. próf frá Háskóla Íslands. Námsráðgjöf er metin sem fyrri hluti til M.Ed. prófs og þó svo ekki liggi fyrir staðfest mat á vægi þess til M.A. prófs, hefur kennslustjóri í námsráðgjöf við Háskóla Íslands upplýst að það yrði væntanlega metið sem fyrri hluti mastersnáms. [B] hefur því meiri menntun en [A].

Bæði eiga langan starfsferil að baki. Starfsaldur [A] innan grunnskóla er þrettán ár, þar af yfirkennari í fjögur ár, aðstoðarskólastjóri í fimm ár og skólastjóri í eitt ár. Starfsaldur hans innan framhaldsskóla er sex ár. Að auki hefur [A] starfað sem verslunarstjóri í eitt ár og framkvæmdastjóri útgerðarfélags í tíu ár. Starfsferill [B] er fyrst og fremst sem framhaldsskólakennari en því starfi hefur hún gegnt í 14 ár. Hún starfaði eitt ár sem grunnskólakennari og var skólastjóri einkaskóla í tvö ár. Bæði hófu þau störf hjá FG á árinu 1990. Enda þótt starfsaldur hans sé lengri en hennar, er starfsreynsla hennar í framhaldsskóla mun lengri. Hann hefur hins vegar lengri reynslu af stjórnun en hún.

Sem sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var hefur skólameistari FG bent á reynslu [A] af starfi og uppbyggingu framhaldsdeildar við Garðaskóla sem var grunnurinn að sérstökum framhaldsskóla í Garðabæ. Ennfremur reynslu hans af verkstjórn, tjáningu og samskiptum og umhyggju hans fyrir nemendum. Á fundi hjá kærunefnd upplýsti settur skólameistari að því væri ekki haldið fram að [B] skorti þessa eiginleika.

Samkvæmt gögnum málsins hefur [B] meiri menntun en [A] og hún hefur aflað sér menntunar sem fellur mjög vel að starfslýsingu áfangastjóra. Á verksviði áfangastjóra er m.a. að hafa umsjón með mati á námi frá öðrum skólum, umsjón með áætlanagerð um námsframboð og yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa og umsjónarkennara. Samkvæmt lýsingu á námi í námsráðgjöf virðist það nám falla mjög vel að þessu starfi. Það er mat kærunefndar að þetta atriði ráði úrslitum um að kærandi teljist hæfari til að gegna starfi áfangastjóra en sá sem ráðinn var.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ hafi með ráðningu [A] í stöðu áfangastjóra við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, tímabundið frá 1. ágúst 1996 til 31. júlí 1997, brotið gegn 3. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.“

IV.

Í kvörtun A til umboðsmanns Alþingis er því haldið fram að málsmeðferð og niðurstaða kærunefndar jafnréttismála sé óviðunandi. Þá kemur fram að hann telji sig hafa hagsmuna að gæta þar sem fjallað hafi verið um verðleika hans og hæfni til að gegna umræddri stöðu í áliti nefndarinnar. Hann bendir á að B sé í álitinu talin hæfari en hann til þess að gegna stöðunni en hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að skýra mál sitt eða koma að andmælum.

Umboðsmaður Alþingis ritaði kærunefnd jafnréttismála bréf 26. ágúst 1997 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að kærunefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti honum í té þau gögn málsins sem umboðsmaður hefði ekki þegar undir höndum. Sérstaklega óskaði umboðsmaður eftir því að upplýst yrði á hvaða sjónarmiðum sú staðhæfing í áliti nefndarinnar væri byggð að B hefði meiri menntun en A og hvaða vægi „tvöfalt B.A. próf“ hans hefði verið talið hafa í því sambandi. Þá óskaði umboðsmaður eftir að upplýst yrði hvaða sjónarmið hefðu legið því til grundvallar að kennsla A við framhaldsdeild Garðaskóla væri talin vera kennsla „innan grunnskóla“.

Í svari kærunefndar jafnréttismála frá 15. september 1997 segir meðal annars svo:

„Nefndin sinnir rannsóknarhlutverki sínu með því að leita eftir upplýsingum m.a. frá kæranda og þeim sem kæran beinist að. Nefndin gefur aðilum kost á að rökstyðja mál sitt skriflega. Þá er aðilum eða talsmönnum þeirra gefinn kostur á að koma fyrir nefndina og gera grein fyrir málinu munnlega. Nefndin hefur ekki tekið skýrslur af öðrum sem tengjast málum t.a.m. þeim sem hlotið hafa stöður eða kærandi ber sig saman við og talið upplýsingar atvinnurekanda um viðkomandi fullnægjandi.

Málsmeðferð kærunefndar í því máli sem hér um ræðir var mjög hefðbundin. Greinargerð barst frá skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ og settur skólameistari [...] lagði fram skriflegar athugasemdir sínar 6. september 1996. Kærandi og settur skólameistari komu á fund nefndarinnar 13. september 1996. Málsmeðferð og gagnaöflun er nánar lýst í áliti kærunefndar jafnréttismála frá 15. október 1996.

Nefndin telur að óhjákvæmilegt hafi verið að draga inn í málið samanburð á hæfni kæranda og [A] til að gegna þessari tilteknu stöðu.

Við samanburð á hæfni einstaklinga til að gegna tiltekinni stöðu koma margir þættir til skoðunar. Þessi samanburður getur verið mjög erfiður og hlýtur niðurstaðan að ráðast af samanlögðu mati á öllum þáttum. Nefndin tekur fram að aðeins er um að ræða samanburð á hæfni viðkomandi til að gegna tiltekinni stöðu á tilteknum tíma.

Einstakling getur varðað það nokkru að hæfni hans sé dregin inn í ágreining af þessu tagi. Sú starfstilhögun nefndarinnar að gefa ekki þeim, sem fékk stöðu eða kærandi ber sig saman við, kost á að koma að andmælum sínum byggist fyrst og fremst á því að kæran beinist ekki að viðkomandi og niðurstaða nefndarinnar er á engan hátt bindandi fyrir hann. Ítarlegum upplýsingum um hæfni þess sem ráðinn var, er í öllum tilvikum komið á framfæri við nefndina af hálfu þess atvinnurekanda sem stóð að ráðningu. Kæra beinist að atvinnurekanda og nefndin verður að byggja álit sitt á málatilbúnaði hans og kæranda. Því hefur nefndin ekki talið sér skylt eða rétt að blanda öðrum í málið. Benda má á að greinargerð [A] [...] til skólameistara [Fjölbrautaskólans í Garðabæ] var lögð fram í umræddu máli fyrir milligöngu kærða.

Nefndin telur ekki rétt að bæta við fyrri rökstuðning. Í álitinu er rækilega gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem lágu að baki samanburði á menntun kæranda og [A]. Má m.a. benda á hvað sagt er um stigafjölda aðila samkvæmt kennaraskrá menntamálaráðuneytisins og hvernig „tvöfalt BA próf“ er þar metið samanborið við menntun kæranda. Þá er í álitinu gerð ítarleg grein fyrir kennslu [A] við Garðaskóla og þætti hans í undirbúningi að stofnun framhaldsdeildar við skólann. Orðalagið „innan grunnskóla“ vísar til þess að um var að ræða kennslu við Garðaskóla sem var og er grunnskóli. Kærunefndin tók hins vegar fullt tillit til framlags [A] til stofnunar og starfrækslu framhaldsdeildar sem rekin var við skólann frá 1976.”

Umboðsmaður Alþingis gaf A kost á að gera athugasemdir við bréf kærunefndar jafnréttismála með bréfi, dags. 17. september 1997. Athugasemdir A bárust umboðsmanni 1. október 1997.

V.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til kærunefndar jafnréttismála, dags. 16. júlí 1998, var frá því greint að nefndin hafi talið það ráða úrslitum um það að kærandi væri hæfari til starfsins að menntun hennar hæfði því mjög vel. Í framhaldi af því beindi umboðsmaður í bréfinu þeim tilmælum til nefndarinnar að hún gerði nánari grein fyrir því á að hvaða lagagrundvelli hún hefði talið sér heimilt að endurskoða umrædda ákvörðun veitingarvaldshafa um það hvaða sjónarmið hann hefði lagt til grundvallar ráðningu í umrætt starf svo og á hvaða sjónarmið veitingarvaldshafi lagði áherslu á við mat sitt. Kærunefnd jafnréttismála svaraði umboðsmanni með bréfi, dags. 9. september 1998. Í bréfinu segir m.a. svo:

„Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla öllum sviðum samfélagsins. Tekið er fram að til að ná því markmiði skuli sérstaklega bæta stöðu kvenna. Í því skyni er stjórnvöldum, atvinnurekendum, stéttarfélögum o.fl. gert skylt að vinna að jafnrétti kynja og útrýma því misrétti sem til staðar er. Þá er í lögunum kveðið á um bann við tilteknum ákvörðunum, fyrst og fremst á sviði vinnuréttar, sbr. 2., 4. til og með 9. gr. laganna.

Hlutverk kærunefndar jafnréttismála er að taka við ábendingum um brot á ákvæðum jafnréttislaga, rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir. Eðli málsins samkvæmt varða langflest erindi til nefndarinnar meinta mismunum við ráðningu/skipun í starf, launakjör, uppsögn úr starfi, vinnuaðstæður o.fl. á sviði vinnuréttar. Í jafnréttislögum er að finna leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda, sbr. 8. gr. laganna.

Þau mál sem koma fyrir kærunefnd jafnréttismála varða eingöngu samskipti þess sem kærir og vinnuveitanda. Málin snúast um það hvort hinn síðarnefndi aðili hefur gætt lagaskyldu sinnar samkvæmt jafnréttislögum. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal atvinnurekandi sýna fram á að kynferði hafi ekki verið ákvörðunarþáttur við val hans úr hópi umsækjenda. Í þessu felst að ef kærandi er hæfari út frá viðmiðunum 8. gr. jafnréttislaga eða a.m.k. jafn hæfur og það hallar á kyn hans í viðkomandi starfsgrein, verður atvinnurekandi að sýna fram á að sá sem valinn var hafi einhverja sérstaka hæfni sem kærandi hefur ekki og sem hefur beina þýðingu fyrir starfið. Ella verður litið svo á að um brot á lögunum sé að ræða. Ekki verður hjá því komist, í slíku deilumáli, að fram fari viss samanburður á menntun og reynslu kæranda og þess sem starfið hlaut. Sá samanburður byggist hins vegar á þeim gögnum og upplýsingum sem atvinnurekandi leggur nefndinni til. Úrlausnarefni kærunefndar er alfarið og eingöngu að álykta um það hvort atvinnurekandinn hafi brotið jafnréttislög.

Kærunefndin tekur undir það að efnislegt innihald hugtaksins “málefnaleg og lögmæt sjónarmið” sé ekki fastmótað. Er það bagalegt þegar fjallað er um viðmið til stöðuveitinga, þar sem frjálst mat stjórnvalds er takmarkað af málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Nefndin hefur litið svo á að við val á umsækjendum beri fyrst og fremst að leggja til grundvallar lögbundin sjónarmið svo sem þau greinir í 5. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1986, 8. gr. jafnréttislaga og almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, sbr. álit Umboðsmanns Alþingis, mál nr. 382/1991. Hefur nefndin skilið niðurstöðu Umboðsmanns í því máli á þann veg, að stjórnvald hafi ekki frjálsar hendur við val á milli hæfra einstaklinga heldur beri, samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar, að velja þann einstakling sem hæfastur verður talinn samkvæmt málefnalegum sjónarmiðum um menntun, reynslu, hæfni og aðra persónulega eiginleika sem máli skipta. Nefndin lítur svo á að valið verði að styðjast við sýnilega málefnaleg og lögmæt sjónarmið. Rök fyrir þessari meginreglu eru meðal annars þau að karlar og konur megi geta vænst þess að menntun og starfsreynsla hafi gildi þegar viðkomandi leitar á nýjan starfsvettvang eða valið er í störf. Séu umsækjendur af gagnstæðu kyni takmarka jafnréttislög enn þau atriði sem byggja má á við stöðuveitingu. Kærunefnd jafnréttismála telur því með vísun til 1. gr., 1. ml. 3. gr., 2. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. jafnréttislaga að almennt geti veitingarvaldshafi/atvinnurekandi hvorki byggt ákvörðun sína um val á umsækjendum á öðrum sjónarmiðum eða þáttum en þeim sem hér hafa verið raktir né ákveðið að einn tiltekinn þáttur eða sjónarmið skuli vega þyngra en aðrir, nema þess sé sérstaklega getið í starfsauglýsingu eða um beina skírskotun til starfsins sé að ræða. Til þess að koma í veg fyrir að atvinnurekandi geti eftir á réttlætt val sitt með vísan til eðliskosta þess sem valinn var, er mikilvægt að þeir kostir sem sóst er eftir hjá starfsmanni komi fram í auglýsingu um starf. Ef fallist er á að atvinnurekandi geti vikið hlutlægum atriðum eins og menntun og starfsreynslu til hliðar fyrir huglægum atriðum, sem erfitt er að staðreyna s.s. hæfni umsækjanda til verkstjórnunar og tjáskipta, umhyggju fyrir nemendum, málfari eða hugmyndaflugi, þá myndu ákvæði jafnréttislaga um skyldur hans á þessu sviði marklaus gerð.

Mat af því tagi sem kærunefnd jafnréttismála er falið er ekki auðvelt. Svipuð álitaefni, en í víðara samhengi, hafa verið lögð fyrir Umboðsmann Alþingis. Það er brýnt að grundvallarviðmið liggi ljós fyrir og að mótaðar séu leiðbeiningareglur um það hvaða önnur sjónarmið séu tæk sem ákvörðunarþættir, sem og um vægi þeirra innbyrðis. Enginn atvinnurekandi mun gefa upp þá ástæðu að umsækjandi sé ekki ráðinn í starf vegna kyns síns. Atvinnurekanda þarf ekki einu sinni að vera ljóst að kynferði umsækjanda hafi áhrif á hið frjálsa mat við ráðningu í starfið. Það er tilgangur jafnréttislaga að tryggja að ekki sé gengið á hlut kvenna, og að því leyti setja lögin frjáls[u] mati atvinnurekanda skorður. Af þessum sökum er lögð sú skylda á atvinnurekanda að sýna fram á málefnalegan grundvöll ráðningar.

Samkvæmt 19. gr. jafnréttislaga er það hlutverk Kærunefndar jafnréttismála að leggja mat á hvort þau sjónarmið sem veitingarvaldshafi leggur til grundvallar ákvörðun sinni séu í samræmi við tilgang og markmið jafnréttislaga og þar með lögmæt. [...]“

Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 29. september 1998, gaf hann A kost á því að gera athugasemdir við ofangreint bréf kærunefndarinnar. Bárust honum athugasemdir A af því tilefni í tveimur bréfum, dags. 9. og 11. nóvember 1998.

VI.

1.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá, sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds, kvartað til umboðsmanns Alþingis. Af verksviði og valdheimildum kærunefndar jafnréttismála, eins og það er markað í lögum nr. 28/1991, verður ráðið að nefndin telst stjórnvald á vegum ríkisins og starfsemi hennar telst falla undir stjórnsýslu ríkisins samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Ég tel að málsmeðferð og niðurstaða nefndarinnar geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra einstaklinga sem úrlausnir hennar varða. Er því fullnægt skilyrðum 6. gr. laga nr. 85/1997 til þess að ég taki kvörtun A til efnislegrar athugunar.

2.

Kærunefnd jafnréttismála starfar samkvæmt lögum nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum. Tilgangur laganna er samkvæmt 1. gr. þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í 19. gr. laganna er kveðið á um skipan og verkefni nefndarinnar. Ákvæði 2. mgr. 19. gr. er svohljóðandi:

„Verkefni kærunefndar eru að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þessara laga og rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir. Atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim er upplýst geta málið er skylt að veita kærunefnd hvers konar upplýsingar hér að lútandi. Kærunefnd skal enn fremur í sérstökum tilvikum hafa frumkvæði um ábendingar varðandi framkvæmd ákvæða 2.-13. gr., sbr. þó 1. tölul. 16. gr. um hlutverk Jafnréttisráðs.“

Í 20. gr. laganna kemur fram að telji kærunefnd jafnréttismála að brotið hafi verið gegn 2. - 13. gr. laganna skuli hún beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila. Samkvæmt 21. gr. laganna er henni heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda í samráði við hann ef aðili fellst ekki á tilmæli kærunefndarinnar.

Samkvæmt þessu rannsakar kærunefnd jafnréttismála mál vegna meintra brota á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hvort heldur er af hálfu hins opinbera eða einkaaðila. Henni er einvörðungu falið að fara með eftirlitsvald og veita álit á því hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 28/1991 þegar ákvörðun var tekin. Í málum eins og þessu þar sem deilt er um lögmæti starfsráðningar í opinbert starf er hlutverk hennar þannig afmarkað við að hafa eftirlit með hvort veitingarvaldshafi hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum sjónarmiðum og gætt þeirra efnisreglna sem leiða má af ákvæðum laga nr. 28/1991 og að gefa álit með þeim hætti sem fyrr getur. Nefndin hefur hins vegar ekki valdheimildir fram yfir þetta sem hér koma við sögu.

3.

Í bréfi kærunefndar jafnréttismála til umboðsmanns Alþingis, dags. 9. september 1998, vísar nefndin til 8. gr. laga nr. 28/1991 og telur að ákvæði þetta gefi vísbendingu um þau sjónarmið sem kærunefndin skuli miða við í mati sínu á því hvort brotið hafi verið gegn lögunum. Ákvæði 1. mgr. 8. gr. laganna hljóðar svo:

„Nú er umsækjandi um auglýst starf kona en það hefur verið veitt karlmanni og skal þá kærunefnd jafnréttismála, sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið.

Sama rétt skal karlmaður, sem er umsækjandi um starf, hafa ef konu er veitt starfið.“

Regla í þessari mynd var fyrst lögfest með lögum nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 78/1976 var upphaflega gert ráð fyrir að sá umsækjandi sem taldi á sér brotið gæti farið fram á þær upplýsingar sem kveðið var á um í ákvæðinu. Í athugasemdum greinargerðar við þetta ákvæði í frumvarpinu sagði svo:

„Atvinnurekandi á að hafa vissa upplýsingaskyldu gagnvart umsækjendum, þegar bæði karl og kona sækja um sama starf. Án slíkrar upplýsingaskyldu væri erfitt fyrir þann, sem ekki hefur fengið starfið, að vita hvort um er að ræða brot á jafnstöðulögunum.

Val atvinnurekanda á starfsfólki er vitanlega matskennt. Það væri því mjög tímafrekt að sundurgreina í smáatriðum á hvaða ástæðum slíkt mat er byggt. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því, að atvinnurekandi geri grein fyrir öllum þeim ástæðum, sem val hans hvílir á, heldur eingöngu að hann upplýsi hvaða menntun, starfsreynslu og þá sérstöku hæfileika, sem auðvelt er að benda á, sá hafi til að bera, sem ráðinn er í starfið.“ (Alþt. 1975-1976, A-deild, bls. 1323.)

Þessu ákvæði frumvarpsins var breytt að tillögu allsherjarnefndar og Jafnréttisráði veitt sú heimild sem ákvæðið mælti fyrir um. Í ræðu framsögumanns tillögunnar sagði eftirfarandi:

„Mönnum sýndist og urðu endanlega sammála um að það kynni að vera erfitt fyrir þann, sem á að gefa upplýsingar, að gefa upp sitt persónulega mat, hvers vegna hann hefur valið annan umsækjandann fremur en hinn. Hér er ekki aðeins um mat að ræða á milli karlmanns og kvenmanns, heldur líka þegar metið er á milli einstaklinga, þá getur verið ákaflega erfitt að þurfa að gefa slíkt upp. En þar koma til bæði kostir þess, sem sækir, gallar hans, sem og hugsanlegir gallar þess sem ekki fær stöðuna. Þess vegna er talið eðlilegt að ráðið komi þarna inn á milli, það geti krafist eða skuli krefjast upplýsinga frá atvinnurekandanum og leggi síðan mat á það hvort atvinnurekandinn hefur haft nægilega ástæðu til þess að velja á þann hátt sem hann gerði.“ (Alþt. 1975-1976, B-deild, dk. 4358.)

Af þessu er ljóst að samkvæmt fyrri lögum bar við eftirlitið að taka mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn hafði lagt til grundvallar, væru þau á annað borð lögmæt, en gera athugasemdir við þau að öðrum kosti. Af lögskýringargögnum með lögum nr. 65/1985 og lögum nr. 28/1991 verður ekkert ráðið um breyttan löggjafarvilja að þessu leyti. Ofangreind niðurstaða á sér að auki stoð í dómi Hæstaréttar frá 28. nóvember 1996 (H 1996:3760). Í dóminum var tekið mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni varðandi hæfnisþætti viðkomandi og metið lögmæti þeirra.

Þessi niðurstaða styðst síðast en ekki síst við þau rök að það er í verkahring yfirmanns ríkisstofnunar að meta hvers eðlis þörf viðkomandi vinnustaðar er fyrir starfsfólk og hann ber almennt ábyrgð á því að náð verði þeim markmiðum sem sett eru í rekstri, þjónustu eða annarri starfsemi viðkomandi vinnustaðar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Kærunefnd jafnréttismála ber hins vegar ekki ábyrgð sem er sambærileg þessu. Kærunefnd jafnréttismála ber því í störfum sínum að taka mið af því hlutverki og þeirri ábyrgð sem yfirmönnum ríkisstofnana er falið með lögum og þar með ef þeim er ætlað visst svigrúm við uppbyggingu, mótun og rekstur vinnustaðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að við mat kærunefndar jafnréttismála á því hvort fylgt hafi verið þeim efnisreglum sem leiða má af ákvæðum laga nr. 28/1991 verði hún að taka mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni að því tilskildu að þau hafi verið málefnaleg og lögmæt. Innan þessara marka hefur hann visst mat sem ekki verður haggað. Ef sýnt þykir að atvinnurekandinn hefur lagt mismunandi áherslur á tiltekin sjónarmið í mati sínu á starfshæfni umsækjenda verður kærunefnd jafnréttismála á sama hátt að taka mið af því.

Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að 8. gr. laga nr. 28/1991 veiti nefndinni sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum heldur en veitingarvaldshafi studdist löglega við. Á það jafnt við um það hvaða hæfnisþætti megi leggja til grundvallar og um innbyrðis þýðingu þeirra. Vafi um tilvist einstakra hæfnisþátta felur í sér sönnunaratriði en að þeim atriðum verður nánar vikið í kafla VIII.

4.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 7/1996 var sú að skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ hefði gerst brotlegur við 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 er hann réð A í stöðu áfangastjóra við skólann. Ákvörðun skólameistarans um ráðningu áfangastjóra Fjölbrautaskólans í Garðabæ var stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga.

Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að velja skuli þann umsækjanda til að gegna opinberu starfi sem er hæfastur með tilliti til þeirra málefnalegu sjónarmiða sem eru lögð til grundvallar ákvörðun. Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið veitingarvaldshafa er skylt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða umsækjandi skuli ráðinn í tiltekna stöðu. Hugmyndir um að lögfesta slíka reglu komu fram á Alþingi við setningu laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en náðu ekki fram að ganga. Um einstök störf hafa aftur á móti verið lögfestar sérstakar reglur um framangreint efni.

Ef ekki nýtur afmörkunar í lögum um þau sjónarmið sem hafa ber að leiðarljósi við veitingu starfs er veitingarvaldshafa almennt heimilt að ákveða á hvaða málefnalegum sjónarmiðum hann byggir ákvörðunina. Hið sama gildir ef lög og aðrar réttarreglur mæla ekki fyrir um innbyrðis vægi einstakra sjónarmiða. Veitingarvaldshafa er þá einnig heimilt að ákveða á hvaða málefnaleg sjónarmið hann leggur sérstaka áherslu.

5.

Í 24. gr. reglugerðar nr. 105/1990, um framhaldsskóla, er mælt fyrir um ráðningu áfangastjóra og verkefni þeirra. Þar segir:

„Skólameistari ræður áfangastjóra að höfðu samráði við skólanefnd til allt að fjögurra ára í senn úr hópi framhaldsskólakennara við skólann eftir að starfið hefur verið auglýst innan skólans. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu.

Áfangastjóri skal m.a.:

- hafa umsjón með rekstri áfangakerfis við skólann,

- sjá um skráningu upplýsinga um nemendur er innritast í skólann, mat á námi frá öðrum skólum, færslu námsferilsskrár og miðlun slíkra upplýsinga til kennara og skólastjórnenda,

- hafa umsjón með fjarvistaskráningu,

- hafa yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa skólans og umsjónarkennara,

- hafa umsjón með gerð stundarskrár, prófstjórn og úrvinnslu einkunna.“

Ljóst er af tilvitnaðri 24. gr. reglugerðar nr. 105/1990 að starf áfangastjóra í framhaldsskóla er stjórnunarstarf en gengið er út frá því að áfangastjórar séu valdir úr hópi kennara. Í núgildandi lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra nr. 86/1998 er mælt fyrir um þau sjónarmið sem líta skal til við ráðningu í stjórnunarstarf við framhaldsskóla. Segir þar í 17. gr. að við ráðningu í slíkt starf skuli umsækjandi hafa kennsluréttindi og taka skal tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda. Þegar ákvörðun var tekin um veitingu á því starfi sem um er fjallað í máli þessu voru í gildi lög nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í þeim var mælt fyrir um sjónarmið veitingarvaldshafa í 5. mgr. 11. gr. Þar sagði:

„Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.“

Samkvæmt orðalagi sínu tók 5. mgr. 11. gr. aðeins til kennara. Þar sem gert var ráð fyrir að áfangastjórar væru valdir úr hópi kennara tel ég skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ hafi í sjálfu sér verið heimilt að taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu í 5. mgr. 11. gr. við veitingu á starfi áfangastjóra enda tel ég að þau séu málefnaleg og í eðlilegu samræmi við ofangreindar kröfur um hæfi áfangastjóra. Með tilliti til þess að ákvæði 5. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1986 tók aftur á móti einvörðungu til ráðningu kennara samkvæmt orðanna hljóðan tel ég að skólastjóranum hafi ekki verið skylt að byggja á þeim sjónarmiðum sem fram koma í ákvæðinu við ráðningu áfangastjóra.

Í 5. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 105/1990 er að finna eftirfarandi ákvæði sem ég tel að skólastjóranum hafi undir öllum kringumstæðum verið skylt að byggja mat sitt á við ráðningu áfangastjóra við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

„Við ráðningu alls starfsfólks framhaldsskóla og val á milli umsækjenda er skylt að taka tillit til menntunar og starfsreynslu auk annarra verðleika.“

Samkvæmt þessu bar skólastjóranum að líta einkum til menntunar og starfsreynslu umsækjenda en þeir verðleikar eru sérstaklega nefndir í ákvæðinu. Að auki var heimilt að hafa í huga aðra verðleika ef þeir tengdust umræddu starfi á málefnalegan hátt.

Af tilvitnuðu bréfi skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem um er getið í kafla II. má ráða að við ákvörðun hans um ráðningu í stöðu áfangastjóra við skólann hafi hann réttilega tekið mið af fyrirmælum 5. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 105/1990. Byggði hann einkum á eftirgreindum sjónarmiðum: Starfsreynslu, stjórnunarreynslu, menntun, verkstjórn, tjáningu og samskiptum, íslenskukunnáttu, hugmyndaflugi og hæfileikum til að greina þau vandamál sem upp koma. Það er skoðun mín að þau sjónarmið sem hér eru nefnd séu lögmæt og málefnaleg miðað við verkefni áfangastjóra. Skólastjórinn hafði því í huga lögmæta hæfnisþætti umsækjenda við umrædda ákvörðun. Hið sama gildir um innbyrðis samspil þeirra.

Í áliti kærunefndarinnar er sérstaklega rakið að B hafi meiri menntun en A og að hún hafi aflað sér menntunar, sem falli mjög vel að starfslýsingu áfangastjóra. Síðan segir í áliti nefndarinnar að „[það sé] mat kærunefndar jafnréttismála að þetta atriði ráði úrslitum um að kærandi teljist hæfari til að gegna starfi áfangastjóra en sá sem ráðinn var“. Nefndin tók hins vegar ekki efnislega afstöðu til þeirra sjónarmiða sem skólameistarinn lagði að öðru leyti til grundvallar. Nefndin lagði samkvæmt þessu ekki sömu sjónarmið til grundvallar mati sínu á hæfni umsækjendanna og skólameistarinn hafði byggt á. Byggði hún þannig álit sitt í málinu á eigin mati á því hvaða hæfnisþættir skyldu lagðir til grundvallar ákvörðun um ráðninguna og þar með hvaða innbyrðis þýðingu þeir skyldu hafa í stað þess að miða við löglegt mat skólameistara um þá hæfnisþætti sem til álita komu. Með þessu fór nefndin út fyrir verksvið sitt eins og það er markað í lögum nr. 28/1991. Kærunefnd jafnréttismála fjallaði einnig um tilvist einstakra hæfnisþátta umsækjenda. Um þann þátt verður rætt í kafla VIII.

VII.

Í kvörtun A er því borið við að kærunefnd jafnréttismála hafi ekki veitt honum tækifæri til þess að koma að andmælum og skýringum þrátt fyrir að niðurstaða nefndarinnar hafi að miklu leyti byggt á samanburði á hæfni hans og B.

Úrlausnir kærunefndar jafnréttismála verða ekki taldar fela í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það er skoðun mín að hagsmunaaðilar eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur þýðingarmikla ákvörðun og gildir það hvort sem slík regla er studd við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða meginreglur stjórnsýsluréttar. Kærunefnd jafnréttismála er slíkt stjórnvald og er því bundið af þessum reglum.

Í skýringum kærunefndarinnar frá 15. september 1997 er greint frá því að sú starfstilhögun nefndarinnar að gefa þeim sem ráðinn er í starf ekki sérstakan kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, byggist á því að kæran beinist ekki að viðkomandi og sé ekki bindandi fyrir hann. Nefndin byggi hins vegar á upplýsingum frá atvinnurekanda og kæranda. Því telur nefndin sér hvorki rétt né skylt að blanda öðrum í málið.

Athugun kærunefndarinnar samkvæmt lögum nr. 21/1991 lýtur iðulega að álitaefnum um hæfni tveggja eða fleiri einstaklinga vegna ráðningar í ákveðið starf. Verður nefndin í þeim tilvikum óhjákvæmilega að gera samanburð á hæfni þeirra sem í hlut eiga. Kærunefnd jafnréttismála er óháð nefnd sem fer með eftirlit á tilteknu sviði. Niðurstöður hennar um starfshæfni einstaklinga getur skipt miklu máli fyrir þá bæði vegna þeirrar athugunar sem nefndin kann að vinna að og einnig í víðara samhengi í tengslum við almennan vinnumarkað. Engu breytir um þetta þótt viðkomandi einstaklingur kunni að hafa verið ráðinn til þess starfs sem til athugunar er hjá kærunefndinni.

Samkvæmt þessu tel ég að hin sérstaka staða nefndarinnar að lögum og eðli þeirra verkefna sem henni eru falin, leiði til þess að sá einstaklingur sem ráðinn hefur verið í starf en nýtur ekki aðilastöðu í kærumáli til nefndarinnar, eigi þrátt fyrir það alla jafna rétt til að fá að tjá sig um efni málsins fyrir nefndinni.

Í máli þessu liggur fyrir að greinargerð A, dags. 6. september 1996, var lögð fyrir kærunefndina fyrir milligöngu skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Í greinargerðinni gerir hann nokkrar athugasemdir vegna bréfs B til kærunefndar jafnréttismála þar sem menntun og reynsla hans kemur við sögu. Gafst A með því kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina áður en álit hennar lá fyrir í málinu. Tel ég því ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að gefa A ekki frekara tækifæri til að tjá sig um málið. Ég tel þó eins og mál þetta er vaxið að sú aðferð hefði verið betur fallin til þess að upplýsa mál þetta.

VIII.

1.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 er lögð sú skylda á kærunefnd jafnréttismála að rannsaka mál í tilefni af ábendingum um brot á ákvæðum laganna og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir. Ber henni þannig að gæta þess að eigin frumkvæði að mál séu nægilega vel upplýst áður en hún tekur afstöðu til þess hvort brotið hefur verið gegn efnisreglum laga nr. 28/1991.

Í 2. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga er gert ráð fyrir því að atvinnurekandi skuli sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Þetta ákvæði tel ég fela í sér að sönnunarbyrði skuli vera með tilteknum hætti eftir að mál hefur verið upplýst. Því tel ég ákvæðið hagga í engu fyrrgreindri skyldu kærunefndarinnar til að rannsaka mál.

2.

Í kvörtun A telur hann að sér vegið með þeim ummælum í áliti kærunefndar jafnréttismála að B hafi meiri menntun en hann.

Í greinargerð skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ til kærunefndar jafnréttismála, dags. 25. júlí 1996, kemur fram að A hafi kennarapróf, B.A. próf í landafræði og B.A. próf í sögu og að hann hafi sótt fjölda námskeiða. Sérstaklega er bent á að „tvöfalt BA-próf“ sé ekki metið sem skyldi til launa. Í áliti kærunefndar jafnréttismála kemur fram að B er með B.Sc. próf í tölvunarfræði og próf í uppeldis- og kennslufræði auk þess sem hún hafi lokið allmörgum einingum í almennri bókmenntafræði. Nefndin byggir á því að próf það í námsráðgjöf sem B lauk stuttu eftir að ákvörðun var tekin um ráðningu í stöðuna sé viðbótarnám við almenn B.A. og B.Sc. próf. Námsráðgjöf sé metin sem fyrri hluti til M.Ed. prófs við Kennaraháskóla Íslands og kennslustjóri í námsráðgjöf hafi upplýst að námið yrði væntanlega metið sem fyrri hluti meistaranáms við tiltekna erlenda háskóla.

Kærunefndin óskaði upplýsinga frá menntamálaráðuneytinu um stigafjölda umsækjendanna samkvæmt kennaraskrá og hafði B þar nokkru fleiri stig en A. Í þeim gögnum sem lágu fyrir nefndinni kemur aftur á móti fram að A hafi ekki hirt um að láta meta ýmis námskeið sem hann hafi sótt til launastiga enda fái margir kennarar ekki frekari launahækkun þrátt fyrir aukinn stigafjölda þar sem þeir fá þegar greidd hámarkslaun vegna mikillar starfsreynslu. Í greinargerð A til nefndarinnar kemur fram að hann telji háskólanám sitt verulega vanmetið til stiga.

Ég tel að kærunefndinni hafi ekki verið rétt að draga þá ályktun af upplýsingum menntamálaráðuneytisins einum sér að B hefði meiri menntun en A. Skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og A höfðu sérstaklega mótmælt því að stigafjöldi samkvæmt kennaraskrá menntamálaráðuneytisins gæfi réttar vísbendingar um menntun hans. Þá tel ég að sú niðurstaða hafi ekki heldur getað stuðst eingöngu við þær upplýsingar kennslustjóra í námsráðgjöf við Háskóla Íslands að próf B í námsráðgjöf yrði sennilega metið sem „fyrri hluti mastersnáms“ við tiltekna erlenda háskóla og sem fyrri hluti M.Ed. náms við Kennaraháskóla Íslands, enda lágu sambærilegar upplýsingar ekki fyrir um samspil kennaraprófs A og B.A. prófa hans.

Niðurstaða mín er því sú að nefndinni hafi borið að afla frekari gagna um menntun A að þessu leyti áður en gerður var samanburður á milli hans og B.

3.

Í bréfi skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ til kærunefndar jafnréttismála, dags. 25. júlí 1996, kemur fram að starfsreynsla og stjórnunarreynsla umsækjendanna skiptu verulegu máli við mat skólameistara á hæfni þeirra til að gegna umræddu starfi. Í áliti nefndarinnar segir svo um þetta atriði:

„Bæði eiga langan starfsferil að baki. Starfsaldur [A] innan grunnskóla er þrettán ár, þar af yfirkennari í fjögur ár, aðstoðarskólastjóri í fimm ár og skólastjóri í eitt ár. Starfsaldur hans innan framhaldsskóla er sex ár. Að auki hefur [A] starfað sem verslunarstjóri í eitt ár og framkvæmdastjóri útgerðarfélags í tíu ár. Starfsferill [B] er fyrst og fremst sem framhaldsskólakennari en því starfi hefur hún gegnt í 14 ár. Hún starfaði eitt ár sem grunnskólakennari og var skólastjóri einkaskóla í tvö ár. Bæði hófu þau störf hjá FG á árinu 1990. Enda þótt starfsaldur hans sé lengri en hennar, er starfsreynsla hennar í framhaldsskólum mun lengri. Hann hefur hins vegar lengri reynslu af stjórnun en hún."

Í kvörtun A er því borið við að starfsreynsla hans við framhaldsskóla sé ekki metin sem skyldi í áliti kærunefndar. Í álitinu sé byggt á því að hann hafi starfað í 13 ár innan grunnskóla en 6 ár í framhaldsskóla. Gerir hann athugasemdir við þessa niðurstöðu nefndarinnar og bendir á að framhaldsdeild hafi verið stofnuð við Garðaskóla 1973 er hann var þar yfirkennari. Hafi hann haft umsjón með henni til 1980.

Í bréfi kærunefndar jafnréttismála til umboðsmanns Alþingis, dags. 15. september 1997, kemur fram að þegar nefndin sagði í áliti sínu að A hefði 13 ára starfsreynslu „innan grunnskóla“ hafi því orðalagi verið ætlað að vísa til þess að A hafi kennt við Garðaskóla sem „hafi verið og sé grunnskóli“.

Í 1. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sbr. 1. gr. laga nr. 72/1989, sem í gildi voru er A var ráðinn í umrætt starf, kom fram að framhaldsskólar væru samnefni menntaskóla, fjölbrautaskóla, iðnfræðsluskóla og skóla, sem veittu sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Ennfremur taka lögin til framhaldsdeilda við grunnskóla sem menntamálaráðuneytið hafði heimilað fyrir gildistöku laganna og þeirra sem slíka heimild fengju í framtíðinni. Í 34. gr. laga nr. 57/1988, sbr. 12. gr. laga nr. 72/1989, var síðan að finna nánari ákvæði um stofnun og starfrækslu framhaldsdeilda við grunnskóla. Í 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. sagði að námstilhögun og námsframboð í framhaldsdeildum skyldu vera undir faglegri stjórn þeirra framhaldsskóla sem menntamálaráðuneytið ákvæði. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laganna bar menntamálaráðuneytinu loks að setja nánari reglur um lágmarksfjölda nemenda og önnur grundvallarskilyrði um stofnun framhaldsdeilda.

Þar sem framhaldsdeildir grunnskóla féllu undir lög nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sem í gildi voru er ráðið var í starf áfangastjóra við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, tel ég að kærunefndinni hafi borið að afla frekari gagna til að staðreyna hvort starf A sem umsjónarmanns deildarinnar hafi mátt jafna við starf í framhaldsskóla. Var nefndinni því ekki rétt að draga þá ályktun af þeim gögnum sem lágu fyrir að B hefði meiri starfsreynslu á framhaldsskólastigi heldur en A. 4.

Í bréfi skólameistarans til kærunefndar jafnréttismála frá 25. júlí 1996 koma fram þau rök sem hann kveðst hafa stuðst við þegar hann tók ákvörðun um að ráða A í stöðu áfangastjóra við skólann. Þar á meðal voru, eins og fyrr greinir, ýmis sjónarmið til viðbótar þeim sem lögskylt er að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu kennara. Um þessi síðarnefndu sjónarmið segir í áliti kærunefndar jafnréttismála:

„Sem sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var hefur skólameistari FG bent á reynslu [A] af starfi og uppbyggingu framhaldsdeildar við Garðaskóla sem var grunnurinn að sérstökum framhaldsskóla í Garðabæ. Ennfremur reynslu hans af verkstjórn, tjáningu og samskiptum og umhyggja hans fyrir nemendum. Á fundi hjá kærunefnd upplýsti settur skólameistari að því væri ekki haldið fram að [B] skorti þessa eiginleika.“

Þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á matskenndum sjónarmiðum er eðli máls samkvæmt áskilið að aflað verði nauðsynlegra upplýsinga svo unnt sé að beita þeim sjónarmiðum sem fyrirhugað er að byggja ákvörðunina á. Enda þótt legið hafi fyrir sú yfirlýsing setts skólameistara að ekki hafi verið byggt á því að B skorti reynslu af verkstjórn, tjáningu og samskiptum og umhyggju fyrir nemendum, tel ég að nefndinni hafi borið að afla nægilegra upplýsinga til þess að henni hefði verið unnt að leggja sjálfstætt mat á þessi sjónarmið í áliti sínu.

IX.

Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að kærunefnd jafnréttismála hafi við meðferð máls nr. 7/1996 farið út fyrir verksvið sitt eins og það er markað í lögum nr. 28/1991. Var nefndinni ekki heimilt að byggja álit sitt á öðrum sjónarmiðum um einstaka hæfnisþætti eða vægi þeirra innbyrðis varðandi þá umsækjendur sem hér koma við sögu heldur en byggt var á í ákvörðun skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ um ráðningu í starf áfangastjóra við skólann umrætt sinn enda var hún byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Þá er það niðurstaða mín að kærunefnd jafnréttismála sé skylt að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar. Samkvæmt því tel ég að nefndinni beri alla jafna að veita þeim einstaklingi sem ekki nýtur aðilastöðu gagnvart henni en hefur lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar kost á koma að sjónarmiðum sínum í málinu. Í raun komust athugasemdir A þó að áður en nefndin tók ákvörðun sína. Geri ég því ekki athugasemdir varðandi þennan þátt málsins.

Að lokum er það niðurstaða mín að á nefndinni hvíli skylda til að rannsaka mál í tilefni af ábendingum um brot á ákvæðum laga nr. 28/1991 og gæta þess að eigin frumkvæði að mál séu nægilega upplýst áður en hún tekur afstöðu til þeirra. Í þeim þætti máls þessa er lýtur að reynslu umsækjenda af verkstjórn, tjáningu og umhyggju fyrir nemendum gætti nefndin ekki nægilega rannsóknarskyldu sinnar. Þá var henni ekki rétt að fullyrða að B hefði meiri menntun og starfsreynslu á framhaldsskólastigi en A með tilliti til þeirra gagna sem lágu fyrir nefndinni. Einnig í þeim tilvikum bar nefndinni að upplýsa málið betur áður en hún tók ákvörðun sína.

Samkvæmt framangreindu beini ég þeim tilmælum til kærunefndar jafnréttismála að hún endurskoði niðurstöðu sína í máli nr. 7/1996, komi fram ósk þess efnis frá A, og taki við endurskoðun sína tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti þessu.