Atvinnuréttindi. Réttur til að nota starfsheitið grunnskólakennari.

(Mál nr. 202/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. nóvember 1990.

A bar fram kvörtun yfir því, að matsnefnd samkvæmt lögum nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, hefði synjað umsókn hans um að nota starfsheitið grunnskólakennari. Taldi A sig eiga þennan rétt, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1986, en A hafði lokið prófi frá norskum landbúnaðarháskóla. Vísaði A meðal annars til þess, að B, sem hafði sama próf, hefði með skipun í launaflokk og launagreiðslum fyrir kennslu fengið slíka viðurkenningu stjórnvalda.

Ég tók fram í bréfi mínu til A, dags. 27. nóvember 1990, að lög nr. 48/1986 settu annars vegar sjálfstæð skilyrði fyrir veitingu leyfis til að nota heitið grunnskólakennari, sbr. 2. gr. laganna, og hins vegar sjálfstæð skilyrði fyrir skipun, setningu og ráðningu kennara við grunnskóla, sbr. 4. gr. Mál þetta snerist aðeins um það, hvort veita hefði átt A heimild til að nota heitið grunnskólakennari samkvæmt ákvæðum h-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1986. Ég taldi, að þar hefði verið rétt að taka mið af því, hvort nám A jafngilti prófi og námi samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr., þar eð nám það, sem fjallað væri um í öðrum liðum sama ákvæðis, miðaðist gagngert við kennslu í grunnskóla, eftir atvikum kennslu sérstakra greina.

Þá yrði ekki litið svo á, að skipun manns í launaflokk og launagreiðslur samkvæmt honum hefðu í sér viðurkenningu stjórnvalda, sem yrði lögð að jöfnu við viðurkenningu samkvæmt lögum nr. 48/1986. Yrði krafa um veitingu leyfis samkvæmt lögum nr. 48/1986 því ekki byggð á slíkum grundvelli.

Það var því niðurstaða mín, að ekki væri ástæða til athugasemda við niðurstöðu stjórnvalda í málinu. Umrædd nefnd samkvæmt lögum nr. 48/1986 hefði þó í rökstuðningi sínum fyrir synjun umsóknar um leyfi ekki átt að vísa til 4. gr. laga nr. 48/1986, nema frekari skýringar fylgdu, þar sem ákvæði 4. gr. áttu ekki við úrlausnarefnið.