Atvinnuréttindi. Takmörkun atvinnuleyfis við hámarksaldur leigubifreiðastjóra.

(Mál nr. 256/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. desember 1990.

Umboðsmaður taldi að afgreiðsluleyfi á bifreiðastöð, sem leigubifreiðastjóri hafði keypt, girti ekki fyrir að unnt væri að fella atvinnuleyfi hans til leigubifreiðaaksturs úr gildi við 75 ára aldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar.

Með bréfi, dags. 5. mars 1990, kvartaði A yfir því, að umsjónarnefnd leigubifreiða á svæði hans hefði með bréfi, dags. 8. september 1989, tilkynnt honum, að atvinnuleyfi hans vegna leigubifreiðar til fólksflutninga, útgefið 11. maí 1963, hefði verið fellt úr gildi frá og með móttöku hans á bréfinu. Nefndin byggði niðurfellingu leyfisins á 9. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar, og 19. gr. reglugerðar nr. 308/1989 um fólksbifreiðar til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra. Í ákvæðum þessum er svo kveðið á, að atvinnuleyfi, sem í gildi eru við gildistöku laganna, skuli almennt falla úr gildi við 70 ára aldur leyfishafa og ekki sé heimilt að framlengja slík leyfi lengur en til 75 ára aldurs leyfishafa, eigi undantekningarregla 4. mgr.14. gr. laga nr. 77/1989 við.

A greindi frá því, að þeir, sem stundað hefðu leiguakstur í Keflavík, áður en takmörkunin tók þar gildi 1963, hefðu allir keypt stöðvarleyfi þar áður og hefðu stöðvarnar notað féð til uppbyggingar og kynningar á starfsgreininni. Þegar atvinnuleyfin hefðu verið gefin út í maí 1963, hefðu leigubifreiðastjórar litið svo á, að þau væru staðfesting á afgreiðsluréttindum á leigubifreiðastöð í Keflavík. Litið hefði verið á leyfin sem eign, enda hefðu allir keypt réttindin og greitt með peningum. Aldrei hefði verið minnst á takmörkun leyfanna fyrr en í reglugerð 1985. Taldi A, að leigubifreiðastjórum væri frjálst að reka sína starfsemi og halda sínum réttindum svo lengi sem þeir kærðu sig um. A mótmælti þeirri túlkun á því ákvæði núgildandi og áður gildandi laga um leigubifreiðar, sem mælti fyrir um, að óheimilt væri að skerða atvinnuréttindi manna, þegar takmörkun hæfist, að einungis fælist í ákvæðum þessum, að ekki mætti neita þeim um atvinnuleyfi við upptöku takmarkana.

Í atvinnuleyfi A, útgefnu 11. maí 1963, sagði:

„Atvinnuleyfi þetta er gefið út samkvæmt reglugerð um takmörkun leigubifreiða í Keflavík og ráðstöfun atvinnuleyfa og heimilar leyfishafa að hafa eina allt að 8 farþega leigubifreið til mannflutninga í afgreiðslu í Keflavík hjá fólksflutningabifreiðastöð, sem bæjarstjórn hefur viðurkennt. Gerist leyfishafi brotlegur við greinda reglugerð, eins og hún er á hverjum tíma, þá er úthlutunarmönnum heimilt að afturkalla atvinnuleyfið um stundarsakir, eða fyrir fullt og allt, ef um ítrekað brot er að ræða.“

Með bréfi, dags. 18. apríl 1990, óskaði ég eftir því, að A gæfi nánari upplýsingar um, hvað hefði falist í „stöðuleyfi“ og „afgreiðsluleyfi“, og hvort leyfi þessi hefðu gengið kaupum og sölum, Jafnframt óskaði ég eftir upplýsingum um, hvaða skilyrði bifreiðastjórar, er fengju atvinnuleyfi, yrðu að fullnægja til að fá atvinnuleyfi á tiltekinni bifreiðastöð í Keflavík. A lagði fram greinargerð fyrrv. stöðvarstjóra bifreiðastöðvarinnar Y í Keflavík, en hann hafði gegnt því starfi frá stofnun stöðvarinnar 1948 til 1975, Í greinargerð stöðvarstjórans kom fram, að tvö form hefðu verið á afgreiðslu fyrir leigubíla á Y. Annars vegar hefði verið um að ræða sölu hlutabréfa í stöðinni og hefðu slíkri hlutafjáreign fylgt afgreiðsluréttindi fyrir einn bíl. Bréfin hefðu gengið kaupum og sölum á háu verði, enda hefðu menn verið að kaupa atvinnuréttindi til leigubifreiðaaksturs. Við gildistöku takmörkunar í Keflavík 1963 hefðu hlutabréfin fallið í verði, þegar atvinnuréttindin hefðu þannig ekki fylgt þeim lengur. Hins vegar hefði verið um þá tilhögun að ræða, að stöðvarréttindi (stöðvarleyfi) hefðu verið seld og hefði um helmingur bifreiðastjóra á stöðinni ekið samkvæmt slíkum leyfum, þ.á. m. A. Söluandvirði stöðvarleyfanna hefði verið notað til að byggja upp aðstöðu á stöðinni. Sölu stöðvarleyfa hefði verið hætt við takmörkunina 1963 og þeir, sem hefðu fengið úthlutað atvinnuleyfum, hefðu getað fengið afgreiðslu á stöðinni án nokkurra skilyrða og án aukagjalds fyrir aðstöðu, uppbyggða fyrir 1963. Úthlutun atvinnuleyfa færi nú fram samkvæmt lögum og reglugerð settri af samgönguráðherra, mönnum að kostnaðarlausu, og væri leyfishöfum frjálst að flytja sig milli stöðva án aukagjalds. Samkvæmt samningum við stöðina hefðu stöðvarréttindin verið einstaklingsbundin og ekki framseljanleg. Þá gat stöðvarstjórinn þess, að svo hefði verið litið á, þegar A keypti stöðvarréttindi 1957, að hann ætti þessi réttindi svo lengi sem stöðin væri rekin sem leigubílastöð. Hann hefði mátt hafa einn bíl í afgreiðslu, hvort sem hann æki honum sjálfur eða léti annan aka vegna orlofs, veikinda eða aldurs.

Ég tjáði A, að ég skildi kvörtun hans svo, að hann teldi atvinnuleyfi sitt eiga að njóta sérstöðu, þar sem hann hefði, áður en takmörkun á fjölda leigubifreiða í Keflavík 1963 kom til, verið búinn að kaupa „stöðvarleyfi“.

Í bréfi mínu til A, dags. 3. desember 1990, greindi ég honum frá niðurstöðu athugunar minnar á máli hans og sagði svo um hana:

„Reglugerð nr. 6/1963 um takmörkun leigubifreiða í Keflavík og um ráðstöfun atvinnuleyfa var sett með stoð í lögum nr. 40/1957 um leigubifreiðar í kaupstöðum. Í þeim lögum var bæjarstjórn veitt heimild til að ákveða að leigubifreiðar skyldu hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefði viðurkenningu bæjarstjórnar. Þá var þar veitt heimild til að takmarka fjölda leigubifreiða, en tekið fram að óheimilt væri þó að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunduðu leigubifreiðaakstur og væru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi, þegar lögin tækju gildi. Tekið var fram í 2. gr. að leyfi til leigubifreiðaaksturs samkvæmt lögunum mætti einungis ráðstafa eftir reglugerð, sem ráðherra setti, enda yrði girt fyrir að atvinnuleyfi gætu orðið verslunarvara.

Ákvæði laga nr. 40/1957 höfðu ekki að geyma ákvæði um stöðu þeirra réttinda, sem einstakir bifreiðastjórar höfðu keypt sem afgreiðsluleyfi á bifreiðastöð. Í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 6/1963 sagði:

„2. gr.

Við gildistöku reglugerðar þessarar skulu allir þeir, sem 10. október 1962 höfðu afgreiðslu á bifreiðastöð í Keflavík, halda leyfum sínum, ef þeir eru félagar í Bifreiðastjórafélaginu Fylki, enda hafi þeir sótt um atvinnuleyfi til stjórnar Bifreiðastjórafélagsins Fylkis innan eins mánaðar frá gildistöku reglugerðar þessarar, ella fellur réttur þeirra til leyfisins niður.

3. gr.

Enginn bifreiðastjóri má hafa afgreiðslu hjá bifreiðastöð í Keflavík, nema hann hafi öðlast atvinnuleyfi sem leigubifreiðastjóri í Keflavík. Leyfin skulu tölusett og bundin við nafn leyfishafa.

Engum má úthluta nema einu atvinnuleyfi, þó skulu þeir, er höfðu tvö afgreiðsluleyfi hjá bifreiðastöð í Keflavík, 10. október 1962, fá tvö atvinnuleyfi, ef þeir æskja þess innan eins mánaðar frá gildistöku reglugerðar þessarar, með þeim fyrirvara þó, að þeir hafi á virkan hátt notfært sér bæði leyfin með akstri fyrir 10. október 1962.

Þeim leyfishöfum, sem að staðaldri hafa látið aðra aka bifreið sinni sem leigubifreið til mannflutninga frá því fyrir 10. október 1962, skal, ef þeir æskja þess, heimilt að hafa þann hátt á áfram.“

Ég tel að með framangreindum ákvæðum í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 6/1963 hafi verið uppfyllt það skilyrði laga nr. 40/1957, að ekki mætti skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunduðu leigubifreiðaakstur og voru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi. Afgreiðsluleyfum, sem bifreiðastjórar höfðu aflað sér, áður en takmörkunin tók gildi árið 1963, var ekki veitt frekari sérstaða heldur en leiddi af ákvæðum 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 6/1963.

Með atvinnuleyfi útgefnu 11. maí 1963 var yður veitt leyfi til að hafa eina, allt að 8 farþega leigubifreið til mannflutninga í afgreiðslu í Keflavík hjá fólksflutningabifreiðastöð, sem bæjarstjórn viðurkenndi. Af atvinnuleyfi þessu verður ekki ráðið að það veiti yður einhverja sérstöðu á grundvelli eldra atvinnuleyfis umfram almenn atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs.

Ég tel því, að stöðvarleyfi það, sem þér höfðuð fest kaup á, áður en takmörkun samkvæmt reglugerð nr. 6/1963 tók gildi, haggi því ekki að reglur laga nr. 77/1989 gildi um atvinnuleyfi yðar til aksturs leigubifreiðar. Um það hvort kaup yðar á stöðvarleyfinu og framlög til uppbyggingar á bifreiðarstöðinni hafi veitt yður réttindi gagnvart stöðinni fer eftir ákvæðum stöðvarleyfisins og reglum stöðvarinnar um það. Úrlausn um það atriði fellur ekki undir starfssvið mitt.

Alþingi hefur með lögum nr. 77/1989 ákveðið að atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs skuli falla úr gildi, er leyfishafi hefur náð tilteknum aldri. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. er það fortakslaust að ekki er heimilt að framlengja atvinnuleyfi lengur en til 75 ára aldurs leyfishafa. Samkvæmt upplýsingum í kvörtun yðar eruð þér fæddir ... 1907 og voruð því 82 ára, þegar leyfi yðar var fellt úr gildi. Ákvörðun umsjónarnefndar leigubifreiða á Suðurnesjum um að fella úr gildi atvinnuleyfi yðar 8. september 1989 var því í samræmi við lög, enda tekið fram í 6. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1989 að þeir, sem hefðu atvinnuleyfi eða nytu takmörkunar við gildistöku laganna, væru háðir þeim breytingum á réttarstöðu, sem lögin hefðu í för með sér. Samkvæmt lögum og reglum um umboðsmann Alþingis fellur það almennt utan starfssviðs míns að fjalla um lagasetningu Alþingis. Löggjafinn hefur metið það svo, að rétt væri að takmarka atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra við tiltekinn hámarksaldur leyfishafa, en samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar er því aðeins heimilt að leggja bönd á atvinnufrelsi manna að almenningsheill krefji og slíkt sé ákveðið með lögum.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, tel ég að ákvörðun umsjónarnefndarinnar varðandi atvinnuleyfi yðar hafi verið í samræmi við lög, og því sé ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu á þeim þætti í kvörtun yðar. Að öðru leyti fellur efni kvörtunar yðar utan við starfssvið mitt.“