Atvinnuréttindi. Réttur ekkju til að nýta leyfi látins eiginmanns til aksturs leigubifreiðar.

(Mál nr. 264/1990, 289/1990 og 303/1990)

Málum lokið með áliti, dags. 3. desember 1990.

Þrjár ekkjur leituðu til umboðsmanns Alþingis, þar sem leyfi, sem þær höfðu nýtt um árabil eftir lát eiginmanna sinna til leigubifreiðaaksturs, voru felld úr gildi. Umboðsmaður taldi, að án skýrra lagafyrirmæla hefði ekki verið heimilt að miða niðurfellingu leyfanna við annan tíma en gildistöku laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar og að frá þeim tíma hefðu þær átt rétt til að nýta leyfin í allt að þrjú ár frá gildistöku laganna. Umboðsmaður féllst ekki á þær röksemdir, að slíkt fæli í sér mismunun gagnvart ekkjum, sem á grundvelli eldri reglugerðarákvæða hefðu aðeins fengið heimild til að nýta sér leyfi um ákveðinn tíma. Tók umboðsmaður fram, að mismunandi reglur hefðu gilt um rétt eftirlifandi maka til þess að nýta sér leyfi látins maka síns og að umræddar ekkjur hefðu haft heimild til þess að nýta sér leyfi eiginmanna sinna, án þess að þeim væru sett nokkur tímamörk í því efni. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til samgönguráðherra, að sú ákvörðun, að svipta umræddar ekkjur leyfum sínum miðað við 1. júlí 1990, yrði tekin til endurskoðunar og að henni yrði breytt í samræmi við þau sjónarmið, sem umboðsmaður lýsti í áliti sínu.

Hinn 3. desember 1990 fjallaði ég um mál þriggja ekkna, sem kvörtuðu yfir því, að

þeim hafði með bréfi umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7.

september 1989, verið tilkynnt, að leyfi þau, sem þær hefðu nýtt til leigubifreiðaaksturs eftir lát eiginmanna sinna, yrðu felld niður 1. júlí 1990. Eiginmönnum umræddra ekkna var öllum úthlutað atvinnuleyfi 25. maí 1956. Í atvinnuleyfum þeirra var tekið fram, að þau væru gefin út samkvæmt reglugerð nr. 13/1956, sem sett væri samkvæmt lögum nr. 23/1953 um leigubifreiðar í kaupstöðum, sbr. lög nr. 25/1955, og heimili leyfishafa, að hafa allt að 8 farþega leigubifreið til mannflutninga í afgreiðslu í Reykjavík hjá fólksflutningabifreiðastöð, sem bæjarstjórn hefði viðurkennt. Eiginmaður A, D, féll frá í ársbyrjun 1957 en eiginmaður B, E, og eiginmaður C, F, á árinu 1975.

Álit mín í þessum þremur málum eru að mestu samhljóða og verður hér aðeins gerð grein fyrir áliti mínu í máli B.

(Mál nr. 289/1990)

I.

B leitaði til mín 27. apríl 1990. Fram kom að hún hafði nýtt atvinnuleyfi eiginmanns síns frá árinu 1975. Hinn 27. apríl 1990 fór B þess á leit við samgönguráðuneytið, að það endurskoðaði þá ákvörðun umsjónarnefndar fólksbifreiða frá 7. september 1989, að fella úr gildi leyfi hennar frá 1. júlí 1990. Taldi hún, að samkvæmt 9. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar væri dánarbúi eða eftirlifandi maka heimilt að nýta sér atvinnuleyfi eftir lát leyfishafa í allt að 3 ár þar á eftir, en að í eldri lögum hefðu engin slík ákvæði verið um slíkt. Taldi B, að þar sem fella ætti úr gildi leyfi hennar samkvæmt lögum nr. 77/1989, þá ætti hún að hafa þann aðlögunartíma, sem lögin heimiluðu miðað við setningu þeirra, 1. júní 1989. Í svarbréfi samgönguráðuneytisins, dags. 10. janúar 1990, kom fram, að ráðuneytið teldi ákvörðun umsjónarnefndar fólksbifreiða í samræmi við ákvæði 9. og 6. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar og 17. og 21. gr. reglugerðar nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra.

II.

Hinn 18. júní 1990 fór ég þess á leit, að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvartana A, B og C í samræmi við 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Í bréfi mínu vísaði ég til þess, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefði heimild A, B og C til þess að nýta leyfi eiginmanna sinna verið ótímabundin og hefði mátt ráða bifreiðastjóra til akstursins. Hefði því þarna verið um að ræða eina tegund svonefndra "útgerðarleyfa", er heimilaði mönnum að annast leiguakstur með eigin bifreið og ráða bifreiðastjóra til akstursins. Ég óskaði því ennfremur í bréfi mínu upplýsinga um veitingu umræddra „útgerðarleyfa“ fyrir gildistöku laga nr. 77/1989 og raka fyrir því, að lög nr. 77/1989 gætu talist ná til nefndra „útgerðarleyfa“, að einhverju eða öllu leyti. Í skýringum samgönguráðuneytisins, dags. 3. júlí 1990, sagði m.a.:

„Leyfi til leigubifreiðaaksturs hafa nokkra sérstöðu þegar litið er til annarra leyfa stjórnsýslunnar. Byggist það einkum á eftirfarandi atriðum:

Þeim er aðeins úthlutað til einstaklinga, sem uppfylla ákveðin skilyrði, sbr. 8. gr. laga um leigubifreiðar nr. 77/1989. Umsækjendur sem uppfylla öll skilyrði geta ekki vænst þess að fá úthlutað leyfi, vegna þess að fjöldi leyfa er takmarkaður, sbr. 4. gr. laganna og 8. gr. reglugerðar nr. 308/1989.

Það er mat samgönguráðuneytis hvort takmarka eigi fjölda leigubifreiða á ákveðnu svæði og getur ráðuneytið t.d. ákveðið að fella niður takmörkun á fjölda leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu strax á morgun. Í slíkri ákvörðun felst í rauninni að öll atvinnuleyfi eru afturkölluð, alveg óháð því hvort leyfishafi hefur gerst sekur um einhverjar ávirðingar eða ekki og ráðuneytið bakar sér ekki bótaábyrgð gagnvart leyfishöfum.

Á þeim svæðum þar sem takmörkun er í gildi, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 308/1989 er hins vegar mikilvægt að jafnræði sé með öllum leyfishöfum og að þeir séu háðir sömu lögum og reglum. Þetta sjónarmið var eitt meginmarkmiðið við gerð laga um leigubifreiðar nr. 77/1989 og býr að baki því ákvæði í atvinnuleyfisbréfum að leyfishafa beri að fara eftir lögum og reglugerðum eins og þær eru á hverjum tíma.“

Í ofangreindu bréfi vísaði samgönguráðuneytið einnig til umsagnar umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu frá 30. júní 1990. Er rétt að taka eftirfarandi upp orðrétt úr umsögn nefndarinnar:

„Leyfi til leigubifreiðaaksturs fólksbifreiða samkvæmt lögum um leigubifreiðar nr. 77/1989 og eldri lögum um sama efni hafa sérstöðu þegar litið er til annarra leyfa stjórnsýslunnar. Þeim er úthlutað til einstaklinga, sem fullnægja tilteknum skilyrðum, og fjöldi leyfanna er takmarkaður. Þegar eitt atvinnuleyfi fellur úr gildi fær einstaklingur, sem hefir beðið árum saman eftir úthlutun, leyfi í staðinn. Grundvallarreglan hefir ætíð verið að hver atvinnuleyfishafi skuli eiga eina bifreið og hafa það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur. Réttur til að gera út bifreið svo sem þegar atvinnuleyfishafi er sjúkur eða í orlofi eða fallinn frá er því undanþáguréttur, sem jafnan hefir verið háður verulegum takmörkunum. Þessi undanþáguréttur er kominn út fyrir öll sanngirnismörk að því er framangreindar ekkjur varðar.

Lög um leigubifreiðar hafa ætíð verið heimildarlög. Ráðherra er heimilt að setja upp atvinnuleyfiskerfi með takmörkun á leyfafjöldanum á tilteknum félagssvæðum eftir beiðni viðkomandi stéttarfélags bifreiðastjóra. Atvinnuleyfakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu gæti því hrunið á einni nóttu. Annars vegar með því að samgönguráðherra vilji ekki lengur heimila þetta kerfi og felli takmörkunarreglugerðina úr gildi, og hins vegar með því að Bifreiðastjórafélagið Frami falli frá fyrri beiðni um takmörkun á fjölda leigubifreiða til fólksflutninga. Með þetta í huga er ekki unnt að treysta á atvinnuleyfakerfið til frambúðar þótt lögin standi óbreytt.

Frá upphafi hefir sá skilningur verið lagður í lög og reglugerðir um leigubifreiðar, að atvinnuleyfishafi sé háður þeim breytingum á lögum og reglum, er eiga sér stað á leyfistímanum. Ætti sérhver atvinnuleyfishafi að búa við þann rétt og þær skyldur, sem í gildi eru þegar leyfi hans er gefið út, þá yrði réttarstaða manna misjöfn og margvísleg og kerfið allt ein flækjubenda frá upphafi til enda. Með bréfi þessu fylgir ljósrit af atvinnuleyfum eiginmanna hinna umræddu ekkna svo og ljósrit af umsóknum um atvinnuleyfin. Öll þessi gögn eru frá árinu 1956, upphafsári takmörkunar á höfuðborgarsvæðinu. Í þessum gögnum kemur alveg skýrt fram að leyfishafar eru háðir þeim breytingum, sem verða kunna á takmörkunarreglugerðinni.

Það er alveg ljóst að lög um leigubifreiðar nr. 77/1989 gilda um öll atvinnuleyfi, það er að segja þau leyfi, sem voru til staðar þegar lögin gengu í gildi hinn 1. júlí 1989, svo og þau leyfi, sem síðar eru veitt. Lögin taka ekki einungis til venjulegra atvinnuleyfa heldur einnig til svonefndra „útgerðarleyfa“ eða undanþáguheimilda. Með lögunum er réttindum og skyldum leyfishafa breytt á ýmsa lund frá því sem áður gilti samkvæmt eldri lögum og reglugerð, enda var ný reglugerð gefin út í kjölfar laganna, þ.e. reglugerð nr. 308/1989. Í niðurlagsákvæði laganna, þ.e. 6. mgr. 14. gr., segir: „Þeir, sem hafa atvinnuleyfi eða njóta takmörkunar við gildistöku laga þessara, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu, sem lög þessi hafa í för með sér.“ Í athugasemdum við þessa málsgrein segir í lagafrumvarpinu: „Hins vegar er það undirstrikað með 4. mgr. (nú 6. mgr.) að atvinnuleyfishafar verða að sæta þeim breytingum, sem lagafrumvarpið hefir í för með sér, og geta því ekki skírskotað til þeirra reglna óbreyttra, sem giltu þegar atvinnuleyfin voru veitt.“

Þetta undirstöðuatriði laganna gildir jafnt um „ekkjuleyfi“ sem önnur atvinnuleyfi. Það gildir t.d. um þá, sem nutu útgerðarréttar vegna afgreiðslustarfa sinna á fólksbifreiðastöðvum, en þann rétt hefir umsjónarnefndin fellt úr gildi með hæfilegum fyrirvara, þar sem heimildin er ekki lengur til staðar en hún var áður í reglugerð. Þetta viðhorf kemur einnig fram í því að leyfishafar verða eftir nýju lögunum að þola lækkun á aldurshámarki, sem reyndar var ekki lögbundið áður en átti sér stoð í reglugerðinni frá 1985.

Ákvæðin um „ekkjuleyfi“ voru aldrei lögfest fyrr en með lögum nr. 77/1989. Fram til þess tíma voru þessi ákvæði einungis í reglugerðum. Í fyrstu reglugerðinni, nr. 13/ 1956, segir í c-lið 13. gr. að ekkja atvinnuleyfishafa haldi leyfinu, ef hún æskir þess. Þessi regla stóð efnislega óbreytt þar til sett var reglugerð nr. 445/1975, en þar stendur í c-lið 14. gr. að eftirlifandi maki haldi leyfinu í allt að þrjú ár frá andláti leyfishafa. Síðan kemur viðbót við þessa reglu með c-lið 14. gr. reglugerðar nr. 219/1979 á þá lund að heimilt sé að framlengja þriggja ára tímabilið mæli sérstakar ástæður til þess, en þó ekki lengur en eitt ár hverju sinni. Heimild þessi til framlengingar er svo felld úr gildi með b-lið 13. gr. reglugerðar nr. 320/1983. Að lokum kemur svo reglugerð nr. 293/1985, sem stóð til 1. júlí 1989 er lög um leigubifreiðar nr. 77/1989 tók gildi. Í b-lið 15. gr. þessarar reglugerðar er svo þriggja ára reglan endurtekin með heimild til framlengingar um allt að tvö ár til viðbótar, ef sérstaklega stendur á. Með áðurgreindum lögum um leigubifreiðar, sbr. 2. mgr. 9. gr. þeirra, var leyfistími eftirlifandi maka bundinn við allt að þrjú ár. Þar er engin viðbót eða framlenging heimiluð. Með 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 308/1989 er regla laganna um allt að þriggja ára tímabil síðan þrengd þannig: „þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst það (þ.e. atvinnuleyfið) fyrir aldurs sakir, ef hann hefði lifað“.

Ljóst er af lögunum um leigubifreiðar að ekkja, sem hefir nýtt atvinnuleyfi eiginmanns síns í þrjú ár eða lengur þegar lögin ganga í gildi, á að missa leyfið. Raunar má segja um þær þrjár ekkjur, sem hér er um fjallað, að fella mátti leyfi þeirra úr gildi á grundvelli reglugerðarákvæða löngu áður en nýju lögin um leigubifreiðar voru sett. Af meinleysi var það ekki gert fyrr en lagaskyldan varð ótvíræð.

Til að skýra mál þetta frekar má taka dæmi af konu, sem verður ekkja eftir atvinnuleyfishafa á árinu 1987. Hún fær þriggja ára útgerðarrétt. Á árinu 1990 fellur leyfi hennar úr gildi, enda er engin framlenging heimil. Taka má dæmi af annarri konu, sem verður ekkja eftir atvinnuleyfishafa á árinu 1985. Hún fær þriggja ára útgerðarrétt fram til ársins 1988, en þá fær hún framlengingu um tvö ár eða til ársins 1990. Í þessu falli hefir umsjónarnefndin á grundvelli 21. gr. gildandi reglugerðar látið framlenginguna haldast af því að hún var tímamörkuð og veitt fyrir gildistöku nýju leigubifreiðalaganna. Þessar dæmigerðu ekkjur verða að una því að fá aðeins „ekkjuleyfi“ í 3-5 ár og síðan ekki söguna meir.

Mál þetta varðar þrjár tilgreindar ekkjur, sem allar hlutu níu mánaða umþóttunartíma á grundvelli 21. gr. gildandi reglugerðar. Ef efnt yrði til þess misréttis að láta þessar konur fá framlengingu á leyfum sínum eftir 1. júlí 1990 þá væri grundvallarhugsun leigubifreiðalaganna um jöfnuð og samræmi milli leyfishafa algerlega hafnað. Að því getur umsjónarnefndin alls ekki staðið því hún gerir sér afleiðingarnar ljósar.

Tekið skal fram að lyktum að á hverju hausti er úthlutað nokkrum nýjum atvinnuleyfum. Reynslan sýnir að nýir leyfishafar hafa að jafnaði ekki ráð á því að kaupa nýjar bifreiðar. Þess vegna ætti ekkjunum að vera í lófa lagið að selja bifreiðar sínar.“

Ég gaf B kost á að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins og bárust mér þær í bréfi, dags. 24. ágúst 1990.

III.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 3. desember 1990, sagði svo:

„E sótti um og fékk hinn 25. maí 1956 úthlutað atvinnuleyfi samkvæmt reglugerð nr. 13/1956 um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík og ráðstöfun atvinnuleyfa, en reglugerð þessi var sett samkvæmt lögum nr. 23/1953 um leigubifreiðar í kaupstöðum, sbr. lög nr. 25/1955. Hvað sem líður hugsanlegri réttarstöðu og heimild E til aksturs og útgerðar leigubifreiðar í Reykjavík fyrir útgáfu nefnds atvinnuleyfis, verður að telja, að frá og með útgáfu atvinnuleyfisins 25. maí 1956 hafi farið um heimild hans til að hafa leigubifreið til mannflutninga á stöð í Reykjavík samkvæmt þágildandi lögum og reglugerðum um þau mál svo og síðari lögum og reglugerðum, að því marki, sem þau breyttu fengnum atvinnuréttindum.

Við andlát E í janúar 1975 voru í gildi lög nr. 36/1970 um leigubifreiðar. Þau lög höfðu ekki að geyma sérstök ákvæði um skilyrði til að hljóta leyfi til leigubifreiðaaksturs, en samkvæmt 10. gr. laganna átti samgönguráðuneytið að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð, þar sem meðal annars skyldi kveðið á um ráðstöfun leyfanna, enda yrði fyrir það girt að atvinnuleyfin gætu orðið verslunarvara. Á þessum tíma var í gildi reglugerð nr. 214/1972 um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík og um ráðstöfun atvinnuleyfa. Samkvæmt b-lið 12. gr. gat ekkja leyfishafa haldið atvinnuleyfi, ef hún óskaði

þess, enda væri bifreiðastjóri bifreiðarinnar félagi í stéttarfélagi bifreiðastjóra. Í 13. gr. sömu reglugerðar voru fyrirmæli um, að umsóknir um slíkar undanþágur og aðrar skv. 12. gr. ætti að senda til stéttarfélags bifreiðastjóra, sem veitti undanþáguna, og skyldi hún vera "skrifleg, tímabundin og tekið fram, hvað í henni felst.“

Í samræmi við framangreind ákvæði gat ekkja leyfishafa fengið heimild til að gera út leigubifreið með því að ráða starfsmann til að aka bifreiðinni og var B í hópi þeirra, sem fengu slíka heimild, en ekki hefur komið fram að sú heimild hafi þá verið tímabundin.

Ný reglugerð um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík og ráðstöfun atvinnuleyfa var gefin út 17. september 1975, reglugerð nr. 445. Ákvæði um heimild eftirlifandi maka voru í c-lið 14. gr., en þar sagði:

„Ef leyfishafi deyr, heldur maki hans atvinnuleyfinu í allt að 3 ár frá dauða hans, ef maki æskir þess, enda sé bifreiðastjórinn félagi í stéttarfélagi bifreiðastjóra.

Heimilt skal að framlengja tíma þennan mæli sérstakar ástæður til þess, en þó ekki lengur en 1 ár hverju sinni.“

Sem fyrr voru ákvæði um, að bifreiðastjórafélag veitti undanþágur samkvæmt 14. gr. og átti hún að vera skrifleg, tímabundin og tekið fram hvað í henni fælist, sbr. 15. Ekki er fram komið að nein breyting hafi orðið á akstursleyfi B í tilefni að setningu reglugerðar nr. 445/1975.

Ákvæði c-liðar 14. gr. og 15. gr. reglugerðar nr. 445/1975, sem hér skipta máli, voru síðan tekin upp óbreytt í reglugerð nr. 219/1979. Með reglugerð nr. 89/1982 um breytingu á reglugerð nr. 219/1979 var 2. mgr. c-liðar 14. gr. reglugerðar nr. 219/1979 felld úr gildi og þar með féll niður heimildin til að framlengja undanþágu vegna látins maka umfram 3 ár frá andláti.

Reglugerð nr. 219/1979 með síðari breytingum var felld úr gildi með reglugerð nr. 320/ 1983 og í b-lið 13. gr. þeirrar reglugerðar sagði:

„Ef leyfishafi deyr, heldur maki hans atvinnuleyfinu í 3 ár frá andláti hans. Tilkynna skal niðurfellingu slíks leyfis með 6 mánaða fyrirvara.“

Reglugerð nr. 293/1985 kom síðar í stað reglugerðar nr. 320/1983 og í b-lið 15. gr. þeirrar reglugerðar sagði:

„Ef leyfishafi deyr, getur maki hans haldið atvinnuleyfinu í 3 ár frá andláti hans. Umsjónarnefnd leigubifreiða getur framlengt slíkt leyfi í allt að 2 ár til viðbótar, ef sérstaklega stendur á. Tilkynna skal niðurfellingu slíks leyfis með 6 mánaða fyrirvara.“

Ákvæði b-liðar 15. gr. reglugerðar nr. 320/1983 voru í gildi, er lög nr. 77/1989 um leigubifreiðar tóku gildi. Með þeim lögum voru lögfestar reglur um skilyrði fyrir að hljóta atvinnuleyfi til leiguaksturs og niðurfellingu leyfis, en ákvæði um það voru áður í reglugerðum.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1989 segir:

„Atvinnuleyfi fellur úr gildi við andlát leyfishafa. Þó má dánarbú hans eða eftirlifandi maki nýta leyfið í allt að 3 ár þar á eftir.“

Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laganna á að setja nánari ákvæði í reglugerð um atvinnuleyfi, úthlutun þeirra, nýtingu og brottfall. Í 6. mgr. 14. gr. laganna segir:

„Þeir, sem hafa atvinnuleyfi eða njóta takmörkunar við gildistöku laga þessara, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.“

Í frumvarpi því, sem síðar varð að lögum nr. 77/1989, var lagt til að heimild eftirlifandi maka til að halda atvinnuleyfi yrði bundin við eitt ár (Alþt. 1988 A-deild, bls. 2941 ), en þingnefnd taldi það of stíft og lagði til að þessi réttur skyldi vara í allt að 3 ár (Alþt. 1988 A-deild, bls. 3575).

Í kjölfar laga nr. 77/1989 var sett reglugerð nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra. Í 17. gr. þeirrar reglugerðar er svohljóðandi ákvæði um rétt eftirlifandi maka og dánarbús:

„Þegar leyfishafi fellur frá skal umsjónarnefnd að undangenginni umsókn veita dánarbúi hans eða eftirlifandi maka heimild til að nýta atvinnuleyfi í allt að 3 ár frá dánardægri, þó eigi lengur en til þess tíma en leyfishafi hefði misst það fyrir aldurssakir, ef hann hefði lifað. Eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona skoðast sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið í að minnsta kosti 2 ár samfleytt samkvæmt þjóðskrá.

Dánarbúi er óheimilt að nýta atvinnuleyfið eftir að skiptum á búinu er lokið. Þegar eftirlifandi maki eða dánarbú setur ökumann á bifreiðina skal hann fullnægja skilyrðum laga um leigubifreiðar til að öðlast atvinnuleyfi.“

Frá því að B tók að hagnýta atvinnuleyfi látins eiginmanns síns árið 1975 hafa, eins og að framan greinir, verið í gildi mismunandi reglugerðir um varanleika slíkra réttinda, án þess að séð verði að hlutaðeigandi stjórnvöld eða þeir aðilar, sem önnuðust framkvæmd þessara mála, hafi ákveðið að umrætt atvinnuleyfi félli þar undir, að því að séð verður af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fyrir mig. Þegar E lést og B tók að nýta atvinnuleyfi hans, voru ekki í gildi nein ákveðin tímatakmörk á heimild ekkju til að nýta atvinnuleyfi látins eiginmanns, sbr. b-lið 12. gr. reglugerðar nr. 214/1972. Hins vegar var í 13. gr. þeirrar reglugerðar gert ráð fyrir því að stéttarfélag bifreiðastjóra, sem veitti slíka undanþágu, gerði það skriflega og að slík undanþága væri tímabundin. Með hliðsjón að þessu var sérstakt tilefni til þess fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld að taka um það ákvörðun og birta B, ef ætlunin var að síðari reglugerðir tækju til atvinnuleyfis þess, sem hún nýtti. Við gildistöku laga nr. 77/1989, 1. júlí 1989, var aðstaðan því sú, að B hafði um 14 ára skeið nýtt umrætt atvinnuleyfi. Með nefndum lögum var hert á því skilyrði að atvinnuleyfi til leiguaksturs væru eingöngu nýtt til akstur af leyfishafa sjálfum, nema undantekningarreglur laganna ættu við. Þá var í fyrsta sinn lögbundið að atvinnuleyfi félli úr gildi við andlát leyfishafa, en jafnframt var dánarbúi hans eða eftirlifandi maka heimilað að nýta leyfið í allt að 3 ár þar á eftir. Nýmæli var að heimila dánarbúi slíka nýtingu. Ekki er í lögunum sérákvæði um, hvernig skuli fara með þau tilvik, þar sem leyfishafi hefur látist fyrir gildistöku laganna, og eftirlifandi maki hefur hafið nýtingu leyfisins, án þess að þeirri nýtingu hafi verið sett tímatakmörk. Slík ákvæði eru ekki heldur í reglugerð nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leiguakstur og takmarkaðan fjölda þeirra, en reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 77/1989. Í 21. gr. reglugerðarinnar segir:

„Undanþágur frá almennum reglum um akstur eigin bifreiða og nýtingu atvinnuleyfis, sem veittar hafa verið samkvæmt eldri reglugerðum og standa yfir þegar reglugerð þessi öðlast gildi, getur umsjónarnefnd framlengt fyrst um sinn.“

Með bréfi, dags. 7. september 1989, tilkynnti umsjónarnefnd fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu B, að með hliðsjón af því, annars vegar hversu lengi hún hefði nýtt leyfið og hins vegar því að gildandi lög og reglugerðir heimili ekki ótímabundin „ekkjuleyfi“, en miði við 3 ár sem hámarkstíma, hafi nefndin ákveðið að atvinnuleyfi það, sem hún nýti, falli endanlega úr gildi 1. júlí 1990.

Í samræmi við þá reglu, sem fram kemur í 6. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1989, er B, eins og aðrir, sem hafa atvinnuleyfi eða njóta undanþágu við gildistöku þeirra laga, bundin af þeim breytingum á réttarstöðu, sem lögin hafa í för með sér. Svo sem áður greinir, var í þeim lögum í fyrsta sinn lögbundið að eftirlifandi maki mætti halda atvinnuleyfi í 3 ár eftir lát maka. Áðurgildandi reglugerðarákvæði voru hins vegar sett á grundvelli almennra reglugerðarheimilda í lögum. Í umræðum á Alþingi um þetta ákvæði kemur fram, að þessi tími sé hugsaður til aðlögunar fyrir eftirlifandi maka (Alþt. 1988-89, B-deild, dálk. 7356). Ákvörðun sína byggði umsjónarnefnd fólksbifreiða á atvikum, sem gerðust fyrir gildistöku laga nr. 77/1989, og reglugerðarákvæðum, sem hlutaðeigandi stjórnvöld létu ekki í framkvæmd taka til atvinnuleyfis þess, sem B nýtti.

Ég tel að án sérstaks ákvæðis í lögum hafi ekki verið heimilt að miða niðurfellingu atvinnuleyfis þess, sem B nýtti eftir látinn eiginmann sinn, við annan tíma en gildistöku laga nr. 77/1989 og þar með hafi hún átt rétt til að nýta leyfið í allt að 3 ár frá gildistöku laganna. Ber hér auk þess, sem að framan greinir, að hafa í huga að B var svipt atvinnuleyfi, sem hún hafði notað um árabil, og skerðing á slíkum réttindum þarf að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum.

Því hefur verið haldið fram af þeim stjórnvöldum, sem hér eiga í hlut, að óverjandi væri að láta leyfissviptingu B ekki taka gildi fyrr en þremur árum eftir gildistöku laganna, þar sem slíkt fæli í sér óviðunandi mismunun gagnvart ekkjum, sem á grundvelli áðurgildandi reglugerðarákvæða hefðu aðeins fengið heimild til að nýta sér leyfi um ákveðinn tíma. Á þessi sjónarmið verður ekki fallist. Í fyrsta lagi hafa gilt mismunandi reglur um rétt eftirlifandi maka til að nýta sér leyfi látins maka síns. Í öðru lagi hefur B þá sérstöðu, sem meginmáli skiptir, að hún hafði heimild til að nýta sér og nýtti leyfi eiginmanns síns, án þess að henni væru sett nokkur tímamörk í því efni, og með því að svipta hana leyfi sínu þegar við gildistöku laganna, væri hún svipt því fyrirvaralaust.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ákvörðun umsjónarnefndar fólksbifreiða, sem hún birti B með bréfi, dags. 7. september 1989, hafi ekki verið í samræmi við lög, að því er varðar það tímamark, er brottfall atvinnuleyfisins var látið taka gildi. Eru það tilmæli mín, að ákvörðun þessi verið tekin til endurskoðunar og henni breytt til samræmis við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir hér að framan.“

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Í tilefni af áliti mínu í ofangreindum málum barst mér svohljóðandi bréf frá samgönguráðuneytinu, dags. 22. febrúar 1991:

„Ráðuneytið hefur móttekið álit yðar hr. umboðsmaður Alþingis, dags. 3. desember s.l. á kvörtun þriggja ekkna vegna brottfalls á heimild til að nýta atvinnuleyfi látinna maka sinna.

Af því tilefni skal upplýst að ráðuneytið hefur ákveðið að gefa framangreindum ekkjum kost á að nýta umrædd leyfi til 1. mars 1993.

Hjálagt fylgir, í myndriti, bréf ráðuneytisins, dags. 21. þ.m., til umsjónarnefndar fólksbifreiða, þar sem fram kemur ofangreind ákvörðun ráðuneytisins.“