Atvinnuréttindi. Takmörkun á fjölda sendibifreiða. Félagafrelsi.

(Mál nr. 270/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. júní 1990.

A, félag sendibifreiðastjóra, bar fram kvörtun við mig 9. apríl 1990 út af takmörkun á fjölda sendibifreiða á félagssvæði B, félags sendibifreiðastjóra, samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 121/1990 um vörubifreiðar og sendibifreiðar, sem notaðar eru til leiguaksturs og takmarkana á fjölda þeirra. Taldi A reglugerð þessa einnig hafa það í för með sér, að það væri lagt niður og félagsmenn í því skyldaðir til þess að ganga í B. Þá hefði ekki verið rétt staðið að setningu þessarar reglugerðar.

Í bréfi mínu til A, dags. 21. júní 1990, tók ég fram, að svo sem nánar greindi í 4. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar, væri samgönguráðuneytinu heimilt að takmarka fjölda leigubifreiða á félagssvæðinu eftir beiðni hlutaðeigandi stéttarfélags, enda kæmu til meðmæli þeirra bæjarstjórna og héraðsnefnda, er félagssvæðið félli undir. Yrðu bæjarstjórnir og héraðsnefndir ekki sammála um, hvort mælt skyldi með takmörkun eða ekki, eða um bifreiðafjölda, skæri samgönguráðuneytið úr.

Þá vísaði ég til þess, að með ákvæðum 1. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 121/1990 hefði samgönguráðuneytið ákveðið, að hámarkstala sendibifreiða á félagssvæði B, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ, skyldi vera 540 sendibifreiðar. Hefði beiðni um þessa takmörkun komið fram í bréfi, dags. 2. ágúst 1989, frá B til samgönguráðuneytisins. Ég tók fram, að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir lægju, teldi ég, að félagið B hefði verið réttur aðili að þessari beiðni. Kæmi fram í málsgögnum, að í bæjarstjórn Kópavogs hefði verið samþykkt takmörkun á fjölda sendibifreiða í kaupstaðnum, en aðrar hlutaðeigandi sveitarstjórnir hefðu mælt á móti slíkri takmörkun. Teldi ég, að við þessar aðstæður hefði samgönguráðuneytinu verið heimilt skv. 4. gr. laga nr. 77/1989 að ákveða nefnda takmörkun á fjölda sendibifreiða í 1. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 121/1990. Athugun mín á gögnum málsins hefði ekki leitt í ljós, að ólöglega hefði verið staðið að setningu reglugerðar nr. 121/1990.

Þá vék ég í bréfi mínu að 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1989, er mæli svo fyrir, að á félagssvæði, þar sem takmörkun er í gildi, skuli bifreiðastjórar í sömu grein vera í sama stéttarfélagi. Ég fengi ekki séð, að þessi ákvæði og umrædd takmörkun hefðu beinlínis í för með sér, að A, félag sendibifreiðastjóra, væri lagt niður. Hins vegar fælu ákvæði 5. gr. í sér skyldu til að ganga í stéttarfélag. Um það væru skiptar skoðanir, hvort lagaskylda til að ganga í stéttarfélag færi undir öllum kringumstæðum í bága við 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Úr því hefði ekki endanlega verið skorið af þeim stofnunum, sem störfuðu samkvæmt sáttmálanum. Þess vegna teldi ég ekki grundvöll til umfjöllunar um þetta atriði með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, tjáði ég A þá niðurstöðu mína, að ekki væri grundvöllur fyrir frekari afskiptum mínum af málinu.