Atvinnuréttindi. Prófnefnd og atvinnuskírteini kafara.

(Mál nr. 285/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. september 1990.

A, samtök kafara, báru fram kvörtun við mig hinn 18. apríl 1990. Varðaði kvörtunin í fyrsta lagi skipan prófnefndar skv. grein 2.3.1. í reglugerð nr. 88/1989 um kafarastörf. Í öðru lagi varðaði kvörtunin það, að með heimild til útgáfu C-skírteina skv. grein 1.3.3. í reglugerð þessari væri slakað óhóflega á kröfum um öryggi og faglega hæfni kafara.

Í bréfi mínu til A, dags. 21. september 1990, tók ég fram, að í lögum nr. 12/1976 um kafarastörf væru ekki bein fyrirmæli um skipan prófnefndar. Hins vegar væru fyrirmæli um skipan nefndarinnar og verkefni í grein 2.3.1. í reglugerð nr. 88/1989. Með því að A hefði ekki tilnefnt mann í nefndina hefði samgönguráðuneytinu verið heimilt að skipa mann í hans stað. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins væri formaður prófnefndarinnar, tilnefndur af Silglingamálastofnun ríkisins, rafvirki að mennt og hefði atvinnuréttindi sem kafari. Nefndarmaður sá, sem samgönguráðuneytið skipaði, væri eðlisfræðingur og læknir og kenndi meðferð köfunarveiki við Háskóla Íslands. Þriðji nefndarmaðurinn væri skipstjóri, sem hefði atvinnuréttindi sem kafari og áratugareynslu í því starfi. Ég tjáði A, að ég teldi þessa skipan ekki ólögmæta.

Að því er varðar heimild til útgáfu svonefnds C-skírteinis, sem er ein þriggja tegunda atvinnuskírteina kafara skv. reglugerð nr. 88/1989, þá tjáði ég A þá skoðun mína, að ekki væri óheimilt samkvæmt lögum nr. 12/1976 að gefa út fleiri en eina tegund skírteina, sem, hver um sig veitti atvinnuréttindi, er miðaðist við ákveðnar aðstæður og tiltekinn búnað. Í þessu sambandi vakti ég athygli á athugasemdum við 4. gr. frv. þess, er varð að lögum nr. 12/1976 um kafarastörf. Þar segði svo: „... að gert er ráð fyrir því að námsgreinar þær sem kenndar verða á námskeiðum þeim sem talað er um í greininni svo og kröfur er gerðar yrðu við próf að þeim loknum miðist við útgáfu a.m.k. tveggja mismunandi tegunda skírteina, þ.e. skírteini til köfunar í atvinnuskyni á grunnsævi og til djúpköfunar í atvinnuskyni.“ Ég taldi mig ekki geta fullyrt, að með ákvæðum reglugerðarinnar um C-skírteini hefði með ólögmætum hætti verið farið í bága við þær kröfur, er gera yrði til öryggis og hæfni kafara.

Ég tilkynnti A því, að niðurstaða mín væri sú, að ekki væri ástæða til þess að ég fjallaði frekar um kvörtun hans.