Eftirlit stjórnsýsluaðila. Tegundarprófun símtækja.

(Mál nr. 104/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 3. desember 1990.

Með fjarskiptalögum nr. 73/1984 var innflutningur og verslun með notendabúnað gefinn frjáls. Póst- og símamálastofnuninni er með lögum þessum falið eftirlit með því, að seldur búnaður uppfylli tæknikröfur, en stofnunin jafnframt skylduð til þess að hafa sjálf slíkan búnað á boðstólum. Umboðsmaður taldi ástæðu til þess að endurskoða þessa skipan, er leiddi af 3. gr. laga nr. 73/1984, með hliðsjón af þeim viðhorfum, sem fram kæmu í lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, svo og einnig í jafnræðisreglum stjórnarfarsréttar. Raunar væri viðurkennt af hálfu samgönguráðuneytisins og Póst- og símamálastofnunarinnar, að þessi skipan væri óæskileg og að eftirliti með notendabúnaði væri betur komið í höndum óháðrar prófunarstofnunar. Umboðsmaður kvað þessi sjónarmið í samræmi við niðurstöðu sína. Samkvæmt þessu taldi umboðsmaður ástæðu til að vekja athygli Alþingis og samgönguráðherra á máli þessu, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 22. febrúar 1989 leitaði fyrirtækið A til mín og kvartaði yfir því, að Póst- og

símamálastofnunin hefði í janúar 1988 synjað fyrirtækinu um viðurkenningu á símtæki undir heitinu X til innflutnings, en síðar veitt fyrirtækinu B viðurkenningu til innflutnings á sama símtæki undir heitinu Y. Einnig kvartaði A yfir prófun Póst- og símamálastofnunarinnar á þremur öðrum símtækjum.

Í kvörtun sinni lýsti A málavöxtum nánar. Það hefði lagt inn símtæki til prófunar hjá símprófunardeild Póst- og símamálastofnunarinnar um áramótin 1987/1988. Í janúar 1988 hefði því verið tilkynnt munnlega, að tækið X uppfyllti ekki skilyrði til tengingar við hið sjálfvirka símakerfi. Í febrúar 1989 hefði fyrirtækinu borist sú vitneskja, að samskonar tæki og X en undir heitinu Y hefði staðist tegundarprófun og væri til sölu hér á landi. Í framhaldi af umkvörtunum A við Póst- og símamálastofnunin fékk A niðurstöður prófana í hendur með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. desember 1988. Kom þar m.a. fram, að prófun á tækinu X lauk 27. janúar 1988. A taldi, að með úrlausn Póst- og símamálastofnunarinnar hefði verið brotinn réttur á fyrirtækinu með því að samþykkja símtækið Y en ekki X. Þá taldi A, að það hefði tekið of langan tíma að prófa símtæki frá fyrirtækinu. Ennfremur hélt A því fram, að það færi ekki saman, að sami aðili sæi um prófun símtækja og hefði jafnframt sjálfur á hendi sölu á slíkum búnaði.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 21. mars 1989 fór ég þess á leit við samgönguráðherra, að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Skýringar samgönguráðuneytisins bárust mér með bréfi þess, dags. 6. júní 1989, en ráðuneytið vísaði þar til meðfylgjandi umsagnar póst- og símamálastjóra, sem er svohljóðandi:

„Hvað snertir fyrsta lið kvörtunar [A] skal upplýst að mörg fyrirtæki, þó einkum í suð-austur Asíu, framleiða rafeindabúnað og merkja hann síðan með nöfnum og tegundanúmerum viðskiptavina sinna. Því getur hæglega komið samskonar tæki með mismunandi nöfnum og tegundanúmerum á markaðinn. Útilokað er að bera saman tæki sem berast stofnuninni á mismunandi tímum þar sem tækjum er skilað að prófun lokinni.

Þar sem prófunin fer fram á einungis einu tæki úr miklum fjölda kemur það fyrir að „samskonar tæki“ mælast mismunandi. Þetta á sér sérstaklega stað þegar gæðin eru við lægri mörk gæðakrafna eins og títt er með tæki sem framleidd eru á þessum heimssvæðum og ætluð fyrir mismunandi kröfuharða markaði.

Það er því ekkert óeðlilegt við þá niðurstöðu að þessi tvö tæki mældust sitt hvoru megin við lágmarkskröfur Póst- og símamálastofnunarinnar til tækja sem tengjast mega símakerfi landsins. Mælist tæki undir lágmarkskröfum er innflytjenda bent á að koma aðfinnslum á framfæri við framleiðanda og getur innflytjandi þá komið með endurbætta útgáfu til prófunar. Svo var í þessu tilfelli.

Hvað áhrærir annan lið kvörtunar [A] er rétt að upplýsa að mjög erfitt reyndist að fá fullnægjandi gögn og upplýsingar (specifications) um búnaðinn frá fyrirtækinu en samkvæmt reglugerð nr. 322/1985 ber innflytjenda að skila tæknilegum gögnum og reikningum áður en tæki er framvísað til prófunar. Er þetta gert til þess að spara innflytjanda innflutning tækis, ef þessar upplýsingar sýna að litlar líkur væru á samþykki tækisins metið frá þeim gögnum. Engu að síður voru tækin metin eins og fram kemur í meðfylgjandi mæliskýrslum.

Í símtækjaprófunardeild Póst- og símamálastofnunar starfar einn starfsmaður í fullu starfi og annar í hlutastarfi. Það eru því miklar annir í deildinni og getur af þeim sökum tekið mislangan tíma að fá prófunarniðurstöður. Ekki flýtir það fyrir niðurstöðum þegar meðfylgjandi gögn eru ófullnægjandi eins og í þessu tilviki.

Þá má geta þess að símaprófanir í hinum Norðurlöndunum taka mun lengri tíma en hér á landi og kostnaður þar er verulega hærri en samsvarandi gjöld hjá Póst- og símamálastofnuninni. Hjá stofnuninni er þegar í athugun með hvaða hætti koma mætti prófunum fjarskiptabúnaðar til óskilds aðila og hefur athyglin m.a. beinst að Rafmagnseftirliti ríkisins sem nú þegar annast prófun þess hluta búnaðar sem tengist rafveitukerfinu.“

Með bréfi, dags. 12. júní 1989, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við svar samgönguráðuneytisins og umsögn póst- og símamálastjóra. Í athugasemdum sínum benti A á, að nafn og tegundarnúmer tækis ætti ekki að hafa áhrif á prófun þess. Þá mótmælti A því, að það ætti að geta gerst, að sama tæki mældist með mjög ólíkum hætti svo sem hann rökstuddi nánar. Ennfremur andæfði A því, að gögn og upplýsingar skiptu nokkru meginmáli með því að það hefði verið tækið sjálft, sem fallið hefði á prófinu.

III.

Ég leitaði álits C, verkfræðings, varðandi tæknileg atriði málsins. Er álitsgerð hans

dagsett 28. júlí 1990. Taldi hann skýringar Póst- og símamálastofnunarinnar í bréfi, dags. 2. júní 1989, er samgönguráðuneytið gerði að svari sínu, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 6. júní 1989, réttar og eðlilegar miðað við þær aðferðir, sem tíðkast hefðu við tegundarprófanir á símbúnaði hér á landi. Ekkert þyrfti að vera óeðlilegt við það, að Y hefði hlotið samþykki en X ekki, enda þótt framleiðandi væri hinn sami og um samskonar símtæki hefði verið að ræða, með því að engin tvö tæki sömu gerðar hefðu nákvæmlega sömu eiginleika. Forsenda málefnalegra athugasemda við niðurstöður tegundarprófa væri að fyrir lægi, að framleiðandi/ innflytjandi hefði kynnt sér kröfur Póst- og símamálastofnunarinnar um tæknilega eiginleika símtækja og það staðfest af framleiðanda (innflytjanda), að umrætt símtæki uppfyllti þær kröfur. Ekkert kæmi fram í gögnum málsins að svo hafi verið.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Ég taldi kvörtun A tvíþætta. Annars vegar, að hún beindist að tilteknum prófunum og

viðurkenningu ákveðinna símtækja og hins vegar að framkvæmd Póst- og símamála, stofnunarinnar almennt á prófun notendabúnaðar. Í áliti mínu, dags. 3. desember 1990, sagði svo um umfjöllun mína:

„Í ljósi allra málavaxta tel ég út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um prófun Póst- og símamálastofnunarinnar á umræddum símtækjum, sem A hefur kvartað yfir, og ætluðum brotalömum stofnunarinnar á viðfangsefni sínu í þeim tilvikum. Þær ætluðu misfellur eiga að mínu áliti ekki rætur að rekja til þess, að viðhlítandi reglur skorti, sbr. það sem síðar segir. Þá hefur í þessum tilvikum ekki verið neytt kæruleiðar, sbr. 3. gr. laga nr. 73/1984 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987. Þessi sérstöku tilfelli verða því ekki til úrlausnar umfram það, sem leiða kann af niðurstöðu minni varðandi síðari þáttinn, þ.e.a.s. skipan á prófunum almennt, sem ég tel ástæðu til að taka til umfjöllunar í þessu áliti.“

V.

Í áliti mínu, dags. 3. desember 1990, gerði ég sérstaka grein fyrir gildandi réttarreglum um málsefnið, áður gildandi ákvæðum og aðdraganda að afnámi einkaréttar ríkisins á verslun með notendabúnað. Sagði svo um þetta:

„Í lögum nr. 30/1941, um fjarskipti, var m.a. mælt fyrir um einkarétt ríkisins á hvers konar fjarskiptum. Skv. 2. tl. 2. gr. laganna heyrði m.a. til einkarétti þessum að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa út á annan hátt, smíða, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki (tæki, taugar, búnað o.þvl.) eða hluta þeirra, er notuð væru til fjarskipta, svo sem þau voru skilgreind í lögunum. Gilti einkaréttur þessi á Íslandi, í íslenskum skipum, flugvélum eða öðrum farartækjum hvort heldur til viðtöku, sendingar eða flutnings. Í 3. gr. laganna var mælt fyrir um heimild til handa ráðherra til þess að veita undanþágu frá einkarétti þessum, þ.á m. einkarétti til innflutnings og sölu fjarskiptavirkja, og settar voru almennar reglur um undanþágu þessa, að því er varðaði heimild til innflutnings og sölu tækja til tengingar við hið sjálfvirka símakerfi, sbr. reglur nr. 293 frá 15. júní 1981. Skv. lögum nr. 30/1941, sbr. og lög nr. 36/1977, um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, var einkaréttur ríkisins á þessu sviði á hendi Póst- og símamálastofnunarinnar. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 36/ 1977 er tekið fram, að Póst- og símamálastofnunin hafi ein eftirlit með innflutningi og viðurkenningu á búnaði í sambandi við póst-, síma- og aðra fjarskiptaþjónustu.

Hinn 28. maí 1984 tóku gildi ný lög um fjarskipti, lög nr. 73/1984, er leystu hin eldri lög af hólmi. Mikilvægasta breyting hinna nýju laga frá eldri löggjöf var afnám einkaréttar ríkisins til innflutnings og verslunar með notendabúnað vegna fjarskipta. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984 er kveðið á um einkarétt ríkisins til þess að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa á annan hátt, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki eða hluta þeirra. Í 2. mgr. 3. gr. laganna er notendabúnaður undanþeginn einkarétti ríkisins. Í 3. mgr. greinar þessarar er áskilið, að hver sá, sem flytur inn eða smíðar notendabúnað, sem tengja á við fjarskiptakerfi ríkisins, skuli fyrirfram fá yfirlýsingu Póst- og símamálastofnunarinnar um, að hver og ein tegund eða gerð notendabúnaðar eða hlutar hans uppfylli þær tæknikröfur, sem gilda um notendabúnað á hverjum tíma. Mælt er fyrir um skyldu innflytjenda og framleiðenda til varahluta- og viðhaldsþjónustu í 4. mgr. greinarinnar svo og um tilskilin réttindi þeirra, sem annast uppsetningu og tengingu notendabúnaðar.

Þrátt fyrir fyrrnefnt frelsi til verslunar með notendabúnað er Póst- og símamálastofnuninni gert skylt í 5. mgr. 3. gr. laganna að hafa ætíð til sölu allan almennan notendabúnað. Í 6. mgr. greinarinnar er kveðið á um það, hversu með skuli fara, synji Póst og símamálastofnunin um viðurkenningu á notendabúnaði. Getur þá sá, sem synjun fær, skotið henni til úrskurðar þriggja manna nefndar, er ráðherra skipar. Einn nefndarmann skipar hann eftir tilnefningu málskotsaðila, annan eftir tilnefningu Póst- og símamálastofnunarinnar, en formann án tilnefningar og skal hann hafa tækniþekkingu á fjarskiptum. Lokamálsgrein þessarar greinar laganna fjallar um setningu reglugerðar um tilhögun fyrrnefnds málskots svo og um nánari framkvæmd ákvæða greinarinnar.

Um þetta efni setti samgönguráðherra reglugerð nr. 322 frá 31. júlí 1985, um notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi. Með þessari reglugerð voru jafnframt felldar úr gildi reglur nr. 293/1981, um heimild til innflutnings og sölu tækja til tengingar við hið sjálfvirka símkerfi. Í reglugerð nr. 322/1985 er notendabúnaður skilgreindur sem hvers konar tæki innan húsrýmis eða starfsstöðvar notenda, svo og tækjahlutir og leiðslur, sem tengdar eru hinu opinbera fjarskiptakerfi, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í II. kafla reglugerðar þessarar er fjallað um tæknikröfur til notendabúnaðar og þar m.a. mælt svo fyrir, að hann skuli uppfylla þær kröfur, sem Póst- og símamálastofnunin setji um eiginleika slíkra tækja, enda séu kröfur þessar í samræmi við íslensk lög og reglugerðir og samþykktir tilgreindra alþjóðlegra stofnana. Þá er mælt fyrir um aðgang að gögnum um tæknikröfur svo og upplýsingaskyldur og leiðbeiningar starfsmanna Póst- og símamálastofnunarinnar um kröfur þessar. Í III. kafla er kveðið á um skyldur innflytjenda og framleiðenda, m.a. um merkingu búnaðar og viðhaldsþjónustu.

IV. kafli reglugerðarinnar fjallar um viðurkenningu Póst- og símamálastofnunarinnar á notendabúnaði og hefur að geyma nánari reglur um það verkefni, sem 3. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984 leggur stofnuninni á herðar. Þar er kveðið á um þau gögn, sem innflytjendur og framleiðendur skulu leggja fram, óski þeir viðurkenningar á búnaði. Er þar um að ræða tæknilýsingar, tengingarteikningar, notkunarreglur, straumrásateikningar og, ef til eru, mælingarskýrslur rannsókna. Einnig skal leggja fram eða veita aðgang að búnaðinum sjálfum. Þá er Póst- og símamálastofnuninni skylt að viðurkenna búnað án frekari skoðunar, fylgi framlögðum gögnum vottorð frá viðurkenndri mælinga- eða prófunarstofnun annars staðar á Norðurlöndum, svo og er stofnuninni heimil viðurkenning án frekari skoðunar, sé um að ræða vottorð frá viðurkenndri prófunarstofnun í öðrum löndum. Yfirlýsing Póst- og símamálastofnunarinnar um skoðun eða viðurkenningu án skoðunar skal liggja fyrir innan tveggja vikna frá móttöku umsóknar með þeirri undantekningu, að stofnuninni er áskilinn lengri frestur, þó ekki lengri en sex mánuðir, þegar um flókin rafeindatæki er að ræða. Mælt er fyrir um form viðurkenningar. Að því er synjun varðar, þá er kveðið svo á, að hún skuli vera skrifleg og rökstudd og byggð á tæknikröfum, eins og þær eru markaðar í II. kafla reglugerðarinnar. Vísa skal til þeirra greina og atriða í gögnum um tæknikröfur, sem synjun er grundvölluð á. Þá eru ákvæði um viðurkenningu á breyttum búnaði, afturköllun viðurkenningar úrelts búnaðar og um ábyrgð innflytjenda/framleiðenda á því, að seldur búnaður sé ekki síðri prófuðum búnaði, og heimild veitt til niðurfellingar viðurkenningar, ef brögð eru að slíku. Póst- og símamálastofnuninni er heimiluð úrtakskönnun á því, hvort viðurkenndur búnaður á markaði uppfylli settar kröfur. Mælt er fyrir um starfræksluleyfi á færanlegum notendabúnaði, sem ekki er þráðbundinn, sbr. V. kafla.

Um málskot eru ákvæði í VI. kafla, sbr. 6. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984. Skal kæra vera rökstudd og kærufrestur er tvær vikur frá móttöku synjunar. Úrskurður þriggja manna nefndar skal vera rökstuddur og frestur til uppkvaðningar úrskurðar er tvær vikur frá því að gagnaöflun lauk. Úrskurðir skulu færðir í löggilta gerðarbók og undirritaðir af formanni. Úrskurði má skjóta til samgönguráðuneytis. Um starfsréttindi skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984 er fjallað í VII. kafla reglugerðarinnar.“

VI. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns var svofelld:

„Hafa nú verið rakin þau ákvæði laga og reglugerða, sem máli skipta við athugun þess viðfangsefnis, sem hér er til úrlausnar. Eins og fram hefur komið, var sú mikilvæga skerðing gerð á einkarétti ríkisins á fjarskiptum með lögum nr. 73/1984, að innflutningur og verslun með notendabúnað var gefinn frjáls og ekki lengur látið við heimildarákvæði í hendi ráðherra sitja í þessum efnum. Í athugasemdum við 3. gr. frv. þess, er varð að lögum nr. 73/1984, segir svo um breytingu þessa:

„Í þessari grein felst megin breytingin á núgildandi fjarskiptalögum. Einkaréttur ríkisins til þess að flytja til landsins, selja og setja upp hvers konar fjarskiptavirki eða hluta þeirra nær ekki lengur til notendabúnaðar. Á þá er flytja inn eða smíða og selja notendabúnað er einungis lögð sú skylda, hvað snertir fjarskiptalögin, að fyrirfram sé aflað yfirlýsingar Póst- og símamálastofnunarinnar um að þær tegundir eða gerðir notendabúnaðar, sem fluttar eru til landsins og tengja á fjarskiptakerfi ríkisins, uppfylli þær tæknikröfur sem gilda á hverjum tíma um notendabúnað. Greinin gerir einnig ráð fyrir því að synjun Póst- og símamálastofnunar megi skjóta til sérstakrar nefndar til úrskurðar. Þá er og lögð sú kvöð á innflytjendur, að þeir sjái til þess að varahlutir og viðhaldsþjónusta fyrir þann búnað sem þeir flytja inn og selja, verði fyrir hendi.“

Ekki leiddi breyting þessi þó til þess, að Póst- og símamálastofnunin hætti sjálf verslun með notendabúnað. Þvert á móti er hún skylduð til þess að hafa slíkan búnað á boðstólum, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984. Með þessu er stofnunin sjálf þátttakandi í verslun og viðskiptum á þessu sviði og að því leyti í stöðu sem hvert annað verslunarfyrirtæki í samkeppni við aðra. Af hálfu löggjafans var þó ekki látið við þetta sitja. Með 3. mgr. 3. gr. laganna er Póst- og símamálastofnuninni falið eftirlit með því, að seldur búnaður uppfylli tæknikröfur. Er hér um að ræða hliðstætt hlutverk og stjórnvöld hafa varðandi nokkurn hluta vöruinnflutnings og framleiðslu. Má sem dæmi um slíkt nefna prófun og viðurkenningu Rafmagnseftirlits ríkisins á rafföngum, sem flutt eru til landsins eða smíðuð innanlands, sbr. e-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins, og 4. kafla reglugerðar nr. 264 frá 31. desember 1971. Sá er þó munur á, að hvorki Rafmagnseftirlitið né önnur slík stjórnvöld með hliðstætt hlutverk hafa, að því er best er vitað, jafnframt á hendi almenna verslun með þær vörur, sem undir eftirlitshlutverk þeirra falla, í samkeppni við þá, sem eftirlit er haft með.

Ég hef hér að framan í meginatriðum rakið efni reglugerðar nr. 322 frá 31. júlí 1985, um notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi, er sett var skv. lokamálsgrein 3. gr. laga nr. 73/1984. Hefur reglugerðin að geyma nánari ákvæði um þessi efni. Ekki verður séð, að ákvæði reglugerðarinnar halli rétti innflytjenda eða framleiðenda notendabúnaðar eða gangi lengra en leiðir beinlínis af þeirri tilhögun, sem 3. gr. laga nr. 73/1984 mælir fyrir um. Sýnist með reglugerðinni frekast leitast við að tryggja sem skýrastar reglur og jafnræði í málsmeðferð innan lögskipaðs kerfis. Ekki kemur fram í lögunum, hvernig háttað sé eftirliti með þeim búnaði, sem stofnunin sjálf hefur á boðstólum, en gera verður ráð fyrir, að hún eigi það undir sjálfri sér.

Ég tel rétt að víkja að reglum og meginsjónarmiðum laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Skv. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga taka ákvæði þeirra til hvers konar atvinnustarfsemi hvort sem hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Skv. 2. mgr. 2. gr. laganna taka ákvæði þeirra um verðlag og samkeppnishömlur ekki til verðlagningar, sem ákveðin er með sérstökum lögum. Skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1984 setur ráðherra gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem Póst- og símamálastofnunin veitir að fengnum tillögum stofnunarinnar. Að því er símaþjónustu varðar er nú í gildi gjaldskrá og reglur nr. 396 frá október 1990. Í IX. kafla gjaldskrár þessarar og reglna er vikið að verðlagningu notendabúnaðar og kemur þar m.a. fram, að póst- og símamálastjóri gefur út verðskrá fyrir búnað þennan í samráði við samgönguráðuneytið.

Vegna tilhögunar verðlagningar skv. fjarskiptalögum verður að álíta, að símþjónusta falli ekki undir III. og IV. kafla laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þá kann að vera álitamál, að hvaða marki þessi starfsemi falli undir hugtakið atvinnustarfsemi í 1. mgr. 2. gr. laga þessara. Þrátt fyrir þetta liggur engan veginn ljóst fyrir, að engin af ákvæðum laga nr. 56/1978, sem er hin almenna samkeppnislöggjöf, gildi um símaþjónustu. Engan vafa tel ég hins vegar leika á því, að frá gildistöku laga nr. 73/1984 hafi verslun með notendabúnað, hvort sem hún er á hendi Póst- og símamálastofnunarinnar eða annarra aðila, fallið undir ákvæði laga nr. 56/1978, þar sem meginstefnan er frjáls verðlagning byggð á nægilegri samkeppni. Um þessa niðurstöðu skiptir ekki máli, hvernig ríkisvaldið hefur kosið að haga verðlagningu notendabúnaðar, sem Póst og símamálastofnunin hefur á boðstólum í samkeppni við aðra, þótt sú verðlagning verði auðvitað að samrýmast ákvæðum verðlagslaga.

Ég tel ekki ástæðu til að gera hér nákvæma grein fyrir því, að sú skipan mála, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1984, sé í eðli sínu tilhögun, er hamli samkeppni. Læt ég nægja að vísa til 20. gr. laga nr. 56/1978, sem hefur að geyma skilgreiningu á skaðlegum samkeppnishömlum, og bendi í því sambandi einkum á ósanngjarna takmörkun á frelsi til atvinnurekstrar, sem er af sama meiði og ójafnræði í stjórnarfarslegu tilliti. Má telja óyggjandi, að slík tilhögun, sem hér um ræðir, yrði skoðuð sem skaðlegar samkeppnishömlur, væri um ólögfest fyrirkomulag að ræða. Reyndar kæmist slík tilhögun naumast á nema fyrir lagaskyldu. Ég vil einnig benda á, að núverandi tilhögun er til þess fallin að stofna í hættu þeirri vernd atvinnuleyndarmála, sem mælt er fyrir um í V. kafla laga nr. 56/1978, er fjallar um óréttmæta viðskiptahætti, sbr. 35. gr. þeirra.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 73/1984 er Póst- og símamálastofnuninni falið eftirlitshlutverk með varningi keppinauta og lögboðin verslunarstarfsemi á sama sviði. Lögmæltur málskotsréttur til sérstakrar þriggja manna nefndar og stjórnleg kæra til ráðherra, uni kærandi ekki úrskurði nefndarinnar, dregur að nokkru úr þeim veilum, sem telja verður að séu á tilhögun mála þessara miðað við meginsjónarmið samkeppnislöggjafar. Helst verður séð af lögskýringargögnum, að tilgangur með lögfestingu þessarar sérstöku nefndar hafi verið sá að berja í bresti fyrirkomulagsins. Í almennum athugasemdum við frv. það, er varð að lögum nr. 73/1984, segir svo: „Til að tryggja viðskiptaaðila gagnvart jafnrétti um þetta ákvæði frumvarpsins, verður með reglugerð ákveðið að skipa dómnefnd er skeri úr ágreiningi er upp kynni að koma um samskipti innflutningsaðila vegna úrskurðar Póst- og símamálastofnunarinnar um tæknibúnað.“ Þá hefur Póst- og símamálastofnunin gert það, sem í hennar valdi stendur samkvæmt gildandi lögum til að sníða af nefnda agnúa á umræddu skipulagi, með þeirri skipan, að sama deild stofnunarinnar hafi ekki á hendi báða þætti umræddrar starfsemi.

Þótt opinberar stofnanir hafi oft að lögum ýmsa sérstöðu, þá er það engu að síður niðurstaða mín, að ástæða sé til að endurskoða þá skipan, sem að framan er lýst og leiðir af 3. gr. laga nr. 73/1984, með hliðsjón af þeim viðhorfum, sem fram koma í lögum nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og raunar einnig í jafnræðisreglum stjórnarfarsréttar. Viðurkennt er af hálfu Póst- og símamálastofnunarinnar og samgönguráðuneytisins, að þessi skipan sé óæskileg, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 2. júní 1989, er ráðuneytið gerði að svarbréfi sínu. Telja þessir aðilar sjálfir, að þessum málum væri betur komið í höndum óháðrar prófunarstofnunar og vísa til fyrirkomulags raffangaprófunar. Falla þessi sjónarmið að niðurstöðu minni.

Samkvæmt framansögðu tel ég ástæðu til að vekja athygli Alþingis og samgönguráðherra á máli þessu, sbr. 11. gr. laga nr.13/1987 um umboðsmann Alþingis.“

VII. Viðbrögð stjórnvalda.

Hinn 20. desember 1991 ritaði ég samgönguráðherra bréf í tilefni af áliti mínu í ofangreindu máli, og óskaði eftir upplýsingum um, hver hefði orðið framvinda málsins. Í svarbréfi samgönguráðuneytisins, dags. 29. desember 1992, sagði svo:

„Með vísan til álits yðar í máli [nr. 104/1989] vegna tegundarprófunar símtækja hjá Póst- og símamálastofnun og tilmæla um endurskoðun þessara mála vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Á síðastliðnu hausti lagði samgönguráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/1984 um fjarskipti. Samkvæmt því er stofnað fjarskipaeftirlit ríkisins sem starfar undir yfirstjórn samgönguráðherra. Fjarskiptaeftirlitið mun m.a. annast tegundarprófun símtækja.

Téð ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við gerðir EES hér að lútandi.

Þess má ennfremur geta að fjarskiptaeftirlit Póst- og símamálastofnunar starfar í dag undir sérstakri stjórn sem í eiga sæti, auk fulltrúa stofnunarinnar, fulltrúar ráðuneytis og notenda þjónustunnar.“