Skráning og meðferð persónuupplýsinga. Kosningar. Viðvera fulltrúa stjórnmálaflokks á kjörfundi.

(Mál nr. 2828/1999)

A kvartaði yfir viðveru fulltrúa stjórnmálaflokks á kjörfundi, skráningu þeirra á því hverjir mæti til kjörfundar og meðferð þeirra upplýsinga.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis og nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Með vísan til lögskýringargagna taldi hann að kosningalög heimiluðu þær athafnir sem kvörtun A laut að. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu tölvunefndar í málinu að vegna þeirrar lagaheimildar brytu umræddar athafnir ekki í bága við ákvæði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Ég lauk umfjöllun minni um málið með bréfi, dags. 11. nóvember 1999, og þar sagði:

„Tölvunefnd hefur fjallað um málið og í niðurstöðu hennar frá 23. ágúst 1999 segir að telja verði umboðsmönnum framboðslista heimilt að vera viðstaddir kosningar á hinum einstöku kjörstöðum og safna þar upplýsingum og skrá um það hverjir mæti til kjörfundar og eftir atvikum senda þær á skrifstofu viðkomandi framboðslista. Tölvunefnd getur þess þó að nefndin hafi talið svo víðtækan rétt umboðsmanna framboðslistanna lítt samrýmanlegan grundvallarsjónarmiðum laga nr. 121/1989 um einkalífsvernd.

Samkvæmt kvörtun yðar teljið þér annars vegar að réttur stjórnmálaflokka til umræddrar skráningar eigi sér ekki stoð í lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum, og hins vegar að slík skráning stangist á við ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Eins og fram kemur í bréfi tölvunefndar frá 23. ágúst 1999, hafa umboðsmenn lista ákveðnu hlutverki að gegna við framkvæmd kosninga samkvæmt lögum nr. 80/1987. Er þeim meðal annars heimilt að vera viðstaddir kosningar í kjördeildum og við talningu atkvæða. Í lögunum er hins vegar ekki að finna sérstaka heimild umboðsmanna til að skrá á kjörstað upplýsingar um hverjir mæta til kjörfundar og til að nýta sér þær upplýsingar.

Með lögum nr. 91/1957 um breyting á lögum nr. 80/1942, um kosningar til Alþingis, var svohljóðandi ákvæði bætt við 103. gr. þeirra laga:

„Frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt:

1. að hafa meðferðis á kjörfundi kjörskrá eða aðra slíka skrá;

2. að rita til minnis á kjörfundi nöfn þeirra, er neyta atkvæðisréttar;

3. að senda af kjörfundi eða láta í té uppýsingar um, hverjir neyta atkvæðisréttar eða hverjir hafa ekki sótt kjörfund.“

Í athugasemdum sem fylgdu lagafrumvarpinu 1957 segir meðal annars um þessa breytingu að það hafi farið í vöxt að flokkarnir noti rétt sinn til að hafa umboðsmenn í kjördeildum fyrst og fremst til að fylgjast með því, hverjir hafa kosið og hverjir ekki. Á þeirri vitneskju, sem þannig fáist, sé síðan byggð „kosningasmölun“, sem telja verði óæskilega og raska þeirri leynd og þeim friði um kosningaréttinn, sem hver maður eigi að njóta (Alþt. 1957, A-deild, bls. 283).

Samhljóða ákvæði var í 4. mgr. 99. gr. frumvarps til nýrra laga um kosningar til Alþingis sem flutt var á Alþingi 1959. Ákvæðið var hins vegar fellt niður í meðferð þingsins og því ekki að finna í lögum nr. 52/1959, um kosningar til Alþingis. Í umræðum um breytingartillögu þessa efnis var meðal annars vikið að því að yrði tillagan samþykkt, fæli það í sér að aftur yrði horfið til þess fyrirkomulags sem áður hafði verið, þ.e. að fulltrúar flokkanna gætu fylgst með og brugðist við upplýsingum um að menn hefðu ekki komið á kjörstað. (Alþt. 1959, A-B deild, aukaþing, dálk. 423.) Ennfremur kemur fram í ræðu forsætisráðherra við umræður um málið í efri deild Alþingis að neðri deild hafi „samþykkt að taka upp aftur heimild fyrir flokkana til þess að skrifa upp í kjördeildum, hverjir hafi kosið, og hafa samband við sína kosningaskrifstofu um það.“ (Alþt. 1959, A-B deild, aukaþing, dálk. 428.)

Með vísan til framangreinds tel ég að þrátt fyrir að núgildandi kosningalög hafi ekki að geyma beina lagaheimild til skráningar upplýsinga um kjörfundarsókn og meðferð þeirra upplýsinga, verði að skýra lögin til samræmis við áðurgreindan vilja löggjafans. Ég tel því ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við niðurstöðu tölvunefndar um lagaheimild til þeirrar skráningar og meðferð þeirra upplýsinga. Í þessu sambandi og til samanburðar er hins vegar vert að geta þess að í norskum og dönskum kosningalögum er að finna ákvæði sem sérstaklega banna að óviðkomandi séu veittar upplýsingar um eða að óviðkomandi fylgist með hvort kjósandi hafi komið á kjörstað.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að viðvera umboðsmanna lista í kjördeildum, skráning þeirra á komu kjósenda á kjörstað og meðferð þeirra upplýsinga verði ekki talin brjóta gegn ákvæðum laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, og þar með einnig gegn lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, þar sem sérstök heimild standi til þessa samkvæmt kosningalögum. Ég tek fram að starfsvið umboðsmanns Alþingis tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að leggja dóm á það, hvernig til hafi tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þar á meðal hvort eðlilegt væri að banna þær athafnir sem kvörtun yðar lýtur að, eins og dæmi eru um í öðrum löndum. Það er skoðun mín að ekki séu heldur nægileg rök til að ég fjalli um það mál sem kvörtun yðar fjallar um á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997.“

,