Ég lauk umfjöllun minni um málið með bréfi, dags. 2. september 1999, og þar sagði:
„II.
1.
Í kvörtun yðar haldið þér því fram að lögreglustjórann í Reykjavík hafi skort heimildir að lögum til að taka þá ákvörðun að þér skylduð afplána vararefsingu fésektar sem kveðið var á um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli yðar.
Samkvæmt 53. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, kemur fangelsi í stað sektar ef hún greiðist ekki nema háttsemi sé manni ósaknæm og er vararefsing þá ekki ákveðin. Með 1. mgr. 54. gr. sömu laga er m.a. gert ráð fyrir að dómstóll ákveði í dómi, úrskurði eða sátt tímalengd vararefsingar þegar sekt er tiltekin. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 54. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 92/1991, að hafi hluti sektar verið greiddur ákveði lögreglustjóri sá, sem annast fullnustu sektardóms, styttingu afplánunartíma að sama skapi.
Í athugasemdum greinargerðar með 53. gr. í frumvarpi því er varð að sama ákvæði í almennum hegningarlögum, og rakið er hér að framan, kemur eftirfarandi fram:
„Samkvæmt hegnl. 1869, 31. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 13/1935, skyldi sekt afplánuð í einföldu fangelsi. Með lögum nr. 4 1929 var valdsmanni þeim, er annast fullnustu sektardóma, heimilað að láta afplána sekt í fangelsi við venjulegt fangaviðurværi, ef læknir teldi dómfelldan þola fangelsisrefsingu. Í þessari gr. frv. er því ekki um verulega breytingu að ræða frá núgildandi rétti, þótt ákveðið sé, að fangelsisvist geti komið í stað sektar, sbr. og 54. gr.“ (Alþt. 1939, A-deild, bls. 365.)
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 5/1925, um sektir, önnuðust sýslumenn og bæjarfógetar afplánun sekta. Eins og rakið er í tilvitnuðum athugasemdum lögskýringargagna með frumvarpi því er varð að almennum hegningarlögum var með 1. gr. laga nr. 4/1929, um viðauka og breyting á lögum nr. 13, frá 8. júní 1925, um sektir, kveðið á um að valdsmaður sá, er annaðist fullnustu sektardóms, hefði heimild til þess að láta afplána sekt, sem eigi væri greidd, í fangelsi við venjulegt fangaviðurværi í helmingi skemmri tíma en ef um einfalt fangelsi væri að ræða ef hann taldi það hentara og læknir teldi dómfelldan þola þá fangelsisrefsingu.
Af ofangreindum lagaákvæðum og lögskýringargögnum tel ég mega ráða að gert hafi verið ráð fyrir því við setningu almennra hegningarlaga að það væri hlutverk sýslumanna og bæjarfógeta að lögum að ákveða hvort maður, sem hlotið hafði fésekt í dómi að viðlagðri vararefsingu, skyldi afplána tilgreinda vararefsingu sökum þess að fésekt fékkst ekki greidd. Þá bera þau ákvæði almennra hegningarlaga, sem rakin eru hér að framan og tilvitnaðar athugasemdir greinargerðar, það með sér að það hafi verið ætlun löggjafans að viðhalda því fyrirkomulagi eftir gildistöku almennra hegningarlaga. Þessi ákvæði hafa ekki tekið efnis-legum breytingum að þessu leyti þó að því undanskildu að í stað sýslumanna og bæjarfógeta hafa lögreglustjórar nú tekið við hlutverki því að annast innheimtu sekta og taka ákvarðanir um afplánun vararefsingar, sbr. 23. gr. laga nr. 92/1991.
2.
Með 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, var sett á laggirnar sérstök stofnun, fangelsismálastofnun, m.a. til þess að sjá um fullnustu refsidóma, sbr. 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna. Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/1988 kemur fram að í frumvarpinu sé í 2. gr. gert ráð fyrir fangelsismálastofnun „sem sjái um daglega yfirstjórn fangelsa og annist um fullnustu dóma“, en því hafi þá verið sinnt í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2086.) Í athugasemdum greinargerðar með 2. gr. frumvarps þess er varð að sama ákvæði í lögum nr. 48/1988, segir síðan m.a. svo:
„Samkvæmt 2. gr. skal setja á stofn sérstaka stofnun, fangelsismálastofnun. Meginhlutverk stofnunarinnar er tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi dagleg yfirstjórn á rekstri fangelsa og fullnustu refsidóma og í öðru lagi skilorðseftirlit og félagsleg þjónusta við fanga og þá sem eru undir eftirliti.
Fullnustu refsidóma og yfirstjórn á rekstri fangelsa er nú sinnt í fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sbr. starfsreglur nr. 409/1977. Áfram er þó gert ráð fyrir að lögreglustjórar annist innheimtu sekta eins og 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kveður á um, svo og málskostnað í opinberum málum.” (Alþt., 1987-1988, A-deild, bls. 2088.)
Í starfsreglum nr. 409/1977, fyrir fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, var það m.a. verkefni deildarinnar samkvæmt 4. tl. 1. gr. að annast fullnustu refsidóma. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. starfsreglnanna tók deildin við refsidómum til fullnustu frá ríkissaksóknara og Hæstarétti. Sektardóma, svo og varðhaldsdóma fyrir áfengis- og umferðarlagabrot, sendi deildin lögreglustjórum til fullnustu. Þess skal getið að samsvarandi ákvæði er nú að finna um hlutverk fangelsismálastofnunar ríkisins og lögreglustjóra í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma.
3.
Hvorki af lögum nr. 48/1988 né lögskýringargögnum verður beinlínis ráðið að það hafi verið ætlun löggjafans, með því að setja á stofn fangelsismálastofnun ríkisins, að breyta því áratugalanga fyrirkomulagi, sem enn er gert ráð fyrir í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, að sýslumanni eða bæjarfógeta, sbr. nú lögreglustjóra, sbr. 23. gr. laga nr. 92/1991, sé falin innheimta sekta og ákvarðanir um fullnustu vararefsingar fésekta fáist sektin ekki greidd.
Ákvæði 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988 verður ekki skilið svo, annars vegar með tilliti til ofangreindra ákvæða almennra hegningarlaga sem ekki sættu breytingum við gildistöku laga nr. 48/1988, og hins vegar að virtum tilvitnuðum athugasemdum greinargerðar með lögunum, að með því sé nú gert ráð fyrir að ákvarðanir um hvort skilyrði séu til þess að dómþoli afpláni vararefsingu fésektar, enda fáist sektin ekki greidd, sé nú alfarið í höndum fangelsismálastofnunar. Ég tek fram að ekki verður annað séð en að sú framkvæmd, að fangelsismálastofnun ríkisins fái í upphafi senda alla refsidóma til skoðunar, og framsendi síðan lögum samkvæmt hlutaðeigandi lögreglustjóra þá dóma sem kveða á um fésektir að viðlagðri vararefsingu til meðferðar, falli annars vegar vel að því hlutverki sem fangelsismálastofnun ríkisins er markað í lögum nr. 48/1988 og hins vegar því hlutverki lögreglustjóra sem honum hefur verið falið í lögum a.m.k. allt frá gildistöku laga nr. 5/1925, um sektir.
Ég vek athygli yðar á því að eftir gildistöku 5. gr. a. laga nr. 22/1999, hinn 1. janúar nk., er lögfestir nýjan IV. kafla A í lög nr. 48/1988 sem lýtur að „fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu„, verður nú að finna eftirfarandi ákvæði í 26. gr. a í lögum nr. 48/1988. Í ákvæðinu kemur fram að ef fésekt innheimtist ekki, og „lögreglustjóri hefur ákveðið að maður skuli afplána vararefsingu hennar”, þá sé heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Af orðalagi og efni ákvæðisins er ljóst að löggjafinn hefur með setningu þessa úrræðis beinlínis gert ráð fyrir því að lögreglustjórar tækju ákvörðun um hvort maður skuli afplána vararefsingu fésektar, enda kemur ekki fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 22/1999 að þessi tilhögun feli í sér neina breytingu á valdheimildum lögreglustjóra frá því sem verið hefur.“
4.
Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan, og að öðru leyti með vísan til skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. febrúar 1999, er það niðurstaða mín að ekki sé tilefni til þess að gera athugasemdir við úrskurð ráðuneytisins frá 7. september 1998 í máli yðar. Afskiptum mínum af kvörtun yðar er því lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“,