Foreldrar og börn. Meðlag. Vinnuvernd barna og ungmenna.

(Mál nr. 2604/1998)

A kvartaði yfir ákvörðun Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að synja honum um niðurfellingu meðlagsgreiðslna vegna barns hans þar til hann næði 18 ára aldri. Taldi A að vegna tilskipunar ráðsins nr. 94/33/EB, um vinnuvernd barna og ungmenna, væri honum nánast gert ókleift að afla tekna og standa við skuldbindingar sínar um meðlagsgreiðslur.

Umboðsmaður rakti 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, þar sem stjórn innheimtustofnunar er heimilað að gera tímabundna samninga við skuldara um greiðslu á lægri upphæð meðlags við sérstakar aðstæður eða að fella niður höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti við áframhaldandi erfiðleika ef hann hefur staðið við framangreindan samning í a.m.k. þrjú ár. Þar sem enginn slíkur samningur lá fyrir í máli A taldi umboðsmaður að innheimtustofnun hafi ekki verið heimilt að fella niður höfuðstól meðlagsgreiðslna A fram að 18 ára aldri eins og á stóð. Umboðsmaður tók fram að innleiðing tilskipunar ráðsins nr. 94/33/EB í íslenskan rétt, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefði í för með sér takmörkun á störfum sem einstaklingum undir 18 ára aldri er heimilt að gegna. Þeim væri þó ekki gert ókleift að ráða sig í vinnu. Taldi umboðsmaður að ákvæði laga nr. 46/1980 hefðu ekki falið í sér lagaskyldu til að fella niður meðlagsgreiðslur A án þess að fylgt væri reglum 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda við ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að synja A um niðurfellingu meðlagsgreiðslna fram að 18 ára aldri.

Ég lauk umfjöllun minni um málið með bréfi, dags. 16. apríl 1999, en þar sagði meðal annars:

„Í ákvæði 1. mgr. 9. gr. barnalaga nr. 20/1992 er kveðið á um þá skyldu foreldris að framfæra barn sitt. Samkvæmt 28. gr. sömu laga fer um skyldu foreldris til að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlög eftir lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, sbr. nú lög nr. 54/1971, með síðari breytingum. Með 2. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 er lögfest sú meginregla að barnsföður sé skylt að endurgreiða Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlag með barni sínu, skilgetnu eða óskilgetnu, þegar og með þeim hætti, sem stofnun krefst. Hefur þessi lagaskylda barnsfeðra verið nánar afmörkuð með ákvæði 14. gr. barnalaga, þar sem kveðið er á um að meðlög skuli greidd mánaðarlega fyrir fram, nema annað sé löglega ákveðið.

Með 1. gr. laga nr. 71/1996, um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum, var meðal annars bætt inn nýju ákvæði í ofangreind lög nr. 54/1971, sem nú er í 4. mgr. 5. gr. laganna. Þar er stjórn stofnunarinnar veitt heimild til að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til falli mánaðarlega. Eigi þetta við þegar til skuldarinnar er stofnað vegna félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Í ákvæðinu kemur síðan fram að slíka samninga skuli endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Síðan segir að ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika sé að ræða hjá skuldara og stjórnin telji fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimildin til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans sé þó bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við ofangreindan samning.

Af lögskýringargögnum má ráða að tilgangur ofangreindra breytinga á lögum nr. 54/1971 hafi m.a. verið sá að auka möguleika meðlagsgreiðenda á að standa í skilum við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hafi því stofnuninni verið veittar auknar heimildir til þess að gera tímabundna samninga um lækkun greiðslna og jafnvel að afskrifa áfallinn höfuðstól skulda að hluta eða að öllu leyti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 2968-2969), sbr. hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 29. janúar 1998 í málinu nr. 95/1997 (H 1998:408).

Í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til yðar frá 18. desember 1997 var hafnað beiðni yðar um niðurfellingu meðlags með barni yðar, [B], þar til þér næðuð 18 ára aldri. Á hinn bóginn féllst stofnunin á að fresta innheimtu meðlagsins fram að þeim tíma. Þegar litið er til ofangreindra lagareglna um skyldur meðlagsgreiðenda og heimildir stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til innheimtu barnsmeðlaga fæ ég ekki séð að að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafi í máli yðar verið heimilt að fella niður höfuðstól meðlagsgreiðslna yðar fram að 18 ára aldri eins og á stóð. Til þess hefði þurft að liggja fyrir tímabundinn samningur á milli yðar og stofnunarinnar um lækkun meðlagsgreiðslna, sem þér höfðuð staðið við í a.m.k. þrjú ár, sbr. lokamálsl. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 71/1996.

Í tilefni af tilvísun yðar til ákvæða tilskipunar ráðs Evrópusambandsins nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna vek ég athygli yðar á því að ákvæði hennar voru lögfest hér á landi með lögum nr. 52/1997, um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum. Eins og sjá má af ákvæðum 62. og 63. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 51/1997, hafa þau í för með sér takmörkun á þeim störfum sem einstaklingum undir 18 ára aldri er heimilt að gegna, en ekki er um það að ræða að þeim sé alfarið gert ókleift að ráða sig til vinnu á unglingsaldri.

Ég tel að ofangreind ákvæði laga nr. 46/1980, sem sett voru í tilefni af tilskipun ráðsins nr. 94/33/EB, hafi ekki ein og sér veitt stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga tilefni eða falið í sér lagaskyldu til þess að fella niður meðlagsgreiðslur yðar án þess að fylgt væri reglum 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, sem ég rakti hér að framan. Samkvæmt þessu og með tilliti til ofangreindra sjónarmiða er ekki ástæða til þess að ég geri athugasemdir við ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá 18. desember 1997 um að synja yður um niðurfellingu meðlagsgreiðslna fram að 18 ára aldri.

Ákvæði laga nr. 54/1971 veita stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga ákveðnar heimildir til þess að taka tillit til félagslegra aðstæðna meðlagsgreiðenda við innheimtu sína. Þá veita lögin stjórn stofnunarinnar svigrúm við beitingu þessara heimilda að gættum réttum málsmeðferðarreglum og meginreglum 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um jafnræði og meðalhóf. Að þessu virtu tel ég að ákvörðun stofnunarinnar í máli yðar að fresta innheimtu meðlagsgreiðslna yðar fram að þeim tíma að þér næðuð 18 ára aldri hafi verið í samræmi við ofangreindan tilgang laga nr. 71/1996, sem breyttu lögum nr. 54/1971, enda tók stofnunin með því tillit til ungs aldurs yðar og félagslegra aðstæðna. Ég vek aftur á móti athygli yðar á því að ákvörðun Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá 18. desember 1997 í máli yðar girðir eigi fyrir það að þér getið á ný óskað eftir ákvörðun stofnunarinnar ef þér teljið að þér getið eigi staðið undir greiðslum meðlaga þegar stofnunin hefur innheimtu á ný. Ber þá stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga að taka afstöðu til þess hvort rétt sé í tilviki yðar að beita þeim heimildum sem stofnuninni eru veittar í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 7/1996, enda verði félagslegar aðstæður yðar, þ.á.m. atvinnuástand, taldar með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði ákvæðisins. Við það mat ber stofnuninni sem fyrr að gæta meginreglna stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf.

Ég bendi yður að lokum á það að ef þér ákveðið að fara fram á ákvörðun stjórnar stofnunarinnar um beitingu ofangreinda lagaheimilda í máli yðar og teljið ákvörðunina óviðunandi er yður heimilt að leita til mín á ný.“,