Skattar og gjöld. Staðfesting gjaldskrár. Stjórnvaldsfyrirmæli. Eftirlitshlutverk ráðherra. Stjórnsýslukæra. Aðili máls. Endurupptaka.

(Mál nr. 2324/1997)

A kvartaði yfir ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að vísa frá kæru hans vegna meintrar ólögmætrar ráðstöfunar tekna Hitaveitu Reykjavíkur. Taldi A að iðnaðarráðuneytið hafi almennt staðfest gjaldskrár orkuveitna án þess að meta tekjuþörf þeirra og því hugsanlega brugðist eftirlitshlutverki sínu og staðfest of háa gjaldskrá miðað við eðlilega tekjuþörf Hitaveitu Reykjavíkur. Óskaði A eftir áliti umboðsmanns á því hvort ráðuneytið hefði vanrækt skyldu sína á undanförnum árum.

Umboðsmaður rakti ákvæði 3. mgr. 32. gr. orkulaga nr. 58/1967 og 1. gr. og 5. gr. laga nr. 38/1940, um Hitaveitu Reykjavíkur. Benti umboðsmaður á að staðfesting ráðherra á gjaldskrá samkvæmt framangreindum lögum fæli í sér útgáfu á almennum stjórnvaldsfyrirmælum gagnvart notendum viðkomandi hitaveitu. Aðili í því máli fyrir ráðherra væri viðkomandi hitaveita eða sveitarstjórn vegna hennar og hefðu einstakir notendur hitaveitunnar því ekki stöðu aðila máls í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ráðherra á ákvörðun um staðfestingu. Umboðsmaður tók þó fram að af þessu leiddi þó ekki að ráðherra gæti vegna þess eins vísað frá athugasemdum notenda við væntanlega eða þegar staðfesta gjaldskrá og minnti í því sambandi á þá skyldu ráðherra að sjá til þess að embættisathafnir hans og ráðuneytis hans séu í samræmi við lög, sbr. lög nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.

Umboðsmaður gat þess í áliti sínu að erindi A hefði borist ráðherra að liðnu ári frá staðfestingu gildandi gjaldskrár. Með vísan til sjónarmiða að baki 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um tímafresti og þar sem A hefði hvorki á grundvelli stjórnsýslukæru eða lagareglna um endurupptöku máls átt rétt á því að ráðuneytið tæki erindi hans til afgreiðslu taldi umboðsmaður að því leyti ekki tilefni til athugasemda við frávísun ráðuneytisins á erindinu.

Umboðsmaður tók loks fram að kvörtun A hefði gefið umboðsmanni tilefni til að taka atriði er lytu að staðfestingarhlutverki iðnaðarráðuneytisins á gjaldskrám hitaveitna til sérstakrar skoðunar. Í bréfi til umboðsmanns lýsti ráðuneytið því að það hefði tekið gjaldskrármálefni hitaveitna til skoðunar og ákvað umboðsmaður að óska eftir frekari upplýsingum ráðuneytisins þar að lútandi. Að þeim fengnum myndi hann taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að taka framangreind atriði til athugunar að eigin frumkvæði og þá jafnframt grundvöll og eðli þeirra gjalda sem hitaveitum sveitarfélaga er heimilað með slíkum staðfestum gjaldskrám að innheimta af notendum þeirra.

Ég lauk umfjöllun minni um málið með bréfi, dags. 29. október 1999.

I.

Með erindi, sem barst 22. október 1997, leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri niðurstöðu iðnaðarráðuneytisins í bréfi, dags. 15. október 1997, að vísa frá kæru hans vegna meintrar ólögmætrar ráðstöfunar tekna Hitaveitu Reykjavíkur. Tók A fram í bréfi sínu til umboðsmanns að hann teldi að ráðuneytið hefði ekki fært fram nein haldbær rök fyrir frávísun sinni.

Í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis segir A að ljóst sé að á undanförnum árum hafi iðnaðarráðuneytið almennt staðfest gjaldskrár orkuveitna án þess að meta tekjuþörf þeirra. Segir A að vegna þessa vaknaði sú spurning, hvort ráðuneytið hafi brugðist í eftirlitshlutverki sínu og staðfest miklu hærri gjaldskrá en þörf væri á til að fullnægja eðlilegri tekjuþörf Hitaveitu Reykjavíkur. Óskaði A eftir áliti umboðsmanns á því, hvort ráðuneytið hefði vanrækt skyldu sína á undanförnum árum.

Upphaflegt erindi A til iðnaðarráðuneytisins með bréfi, dags. 15. ágúst 1997, varð ráðuneytinu tilefni til þess að gera honum grein fyrir því að ráðuneytið teldi að í kæru hans kæmi ekki nægjanlega skýrt fram hvaða stjórnvaldsákvörðun væri kærð og óskaði ráðuneytið því eftir nánari útlistun á efni kærunnar með bréfi, dags. 8. september 1997. A svaraði ráðuneytinu með bréfi, dags. 23. september 1997, en þar er ekki vísað til ákveðinnar stjórnvaldsákvörðunar, heldur gerð grein fyrir nokkrum atriðum sem A telur til marks um meinta ólögmæta ráðstöfun tekna Hitaveitu Reykjavíkur.

Í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins, dags. 15. október 1997, sem var tilefni kvörtunar A til umboðsmanns, vísar ráðuneytið meðal annars til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um heimild aðila til að kæra stjórnvaldsákvörðun og skýringar á hugtakinu stjórnvaldsákvörðun. Þá bendir ráðuneytið á að samkvæmt 3. mgr. 32. gr. orkulaga nr. 58/1967, sbr. og 5. gr. laga um Hitaveitu Reykjavíkur nr. 38/1940 og reglugerð nr. 406/1989 setji borgarstjórn gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Síðan segir að með hliðsjón af þessu verði ekki talið að ráðherra hafi heimildir til að endurskoða áður staðfesta gjaldskrá. Ráðuneytið líkur bréfi sínu með því að það sé mat þess að til grundvallar kæruefni A liggi eigi stjórnvaldsákvörðun sem endurskoðuð verði einhliða af iðnaðarráðherra. Ráðuneytið taldi sér því ekki fært að taka kæru A til úrskurðar að vísaði henni því frá.

II.

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir því með bréfi, dags. 10. nóvember 1997, að iðnaðarráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti honum í té gögn málsins, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Svarbréf ráðuneytisins barst umboðsmanni 30. desember 1997 og var það sent A með bréfi, dags. 6. janúar 1998, og hann sendi umboðsmanni athugasemdir sínar með bréfi, dags. 14. janúar 1998.

Ráðuneytið vísar í bréfi sínu til umboðsmanns til ákvæða laga og reglugerða um Hitaveitu Reykjavíkur og segir að Hitaveita Reykjavíkur sé þjónustufyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar og yfirstjórn hitaveitunnar sé í höndum borgarstjórnar Reykjavíkur. Þá vísar ráðuneytið til ákvæða 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og ákvæðis 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, og segir síðan:

„Ákvæðið veitir sveitarfélögum sjálfstjórn í ákveðnum málefnum en af reglunni hefur verið talið leiða að stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar sæti ekki kæru til ráðherra nema fyrir sé að fara lagaheimild, sem heimilar slíka kæru. Með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum reglugerðar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur og ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 telur ráðuneytið ljóst að ekki sé hægt að kæra ákvarðanir er varða Hitaveitu Reykjavíkur nema fyrir hendi sé sérstök kæruheimild. Í lögum er ekki að finna sérstaka heimild til að kæra til iðnaðarráðherra áðurgreind kæruatriði. Þá telur ráðuneytið að erindi [A] uppfylli ekki skilyrði stjórnsýslulaga um stjórnsýslukæru, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 15. október sl.

Það er því mat ráðuneytisins að ákvarðanir er varða gjaldskrármálefni slíkra þjónustufyrirtækja í eigu sveitarfélaga verði ekki kærðar til ráðherra og ráðherra geti almennt ekki gefið slíkri stofnun bindandi fyrirmæli um úrlausn slíkra mála nema að hafa til þess sérstaka lagaheimild. Ráðherra hafi því ekki heimild til að endurskoða áður staðfesta gjaldskrá.

Með vísan til ofangreinds er það álit ráðuneytisins að því hafi hvorki verið skylt né heimilt að taka til úrskurðar kæruatriði [A] og vísaði erindi hans því frá.“

Ég ritaði iðnaðarráðherra bréf, dags. 17. desember 1998, þar sem ég gerði grein fyrir því að frá því að bréf ráðuneytisins, dags. 24. desember 1997, barst umboðsmanni Alþingis hefðu gengið í Hæstarétti tveir dómar er snerta töku þjónustugjalda og þann eðlismun sem er á milli þeirra og skatta. Rakti ég efni dómanna í bréfi mínu. Þá vísaði ég til eftirlitsskyldu ráðuneytisins sem leiðir af staðfestingarhlutverki þess á gjaldskrá sveitarfélags og rakti í því sambandi ákvæði laga og reglugerða um staðfestingu á gjaldskrá fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Jafnframt vísaði ég í álit umboðsmanns Alþingis þar fjallað hafði verið um slíkar skyldur ráðuneytis. Í niðurlagi bréfs míns tók ég fram að vegna þeirra atriða sem ég hafði þar gert grein fyrir og komið hefðu til eftir að bréf ráðuneytisins, dags. 24. desember 1997, barst umboðsmanni, teldi ég rétt áður en kvörtun A kæmi til frekari athugunar hjá mér að spyrjast fyrir um hvort sú afstaða ráðuneytisins sem fram kæmi í áðurnefndu bréfi þess væri enn sú sama og þar kæmi fram. Ef svo væri ekki eða ráðuneytið óskaði í ljósi framangreinds að koma á framfæri við mig frekari skýringum óskaði ég eftir að gerð yrði grein fyrir þeim, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um hvaða gögn lágu fyrir í ráðuneytinu þegar gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur nr. 307/1996 var staðfest þar hinn 28. maí 1996. Sérstaklega óskaði ég eftir upplýsingum um hvort útreikningur Reykjavíkurborgar, um grundvöll gjalda samkvæmt tilvitnaðri gjaldskrá hefðu borist ráðuneytinu, og ef svo var ekki hvort óskað hafi verið eftir honum.

Eftir að bréf þetta hafði verið ítrekað 2. febrúar, 3. maí, 16. júní og 17. september sl. barst mér svar ráðuneytisins 23. september sl. Í svarbréfinu sagði meðal annars:

„Ráðuneytið telur að kvörtun [A] sé tvískipt, annars vegar kvörtun vegna ákvörðunar ráðuneytisins að vísa kæru [A] frá sér og hins vegar kvörtun um að ráðuneytið hafi vanrækt eftirlitshlutverk við staðfestingu á gjaldskrá.

Í erindi [A] til ráðuneytisins, dags. 15. ágúst 1997, kærir [A] meinta ólögmæta ráðstöfun tekna Hitaveitu Reykjavíkur. Í erindinu er fjallað um fjárhagsstöðu Hitaveitu Reykjavíkur og þess krafist að ráðuneytið sjái til þess að Hitaveita Reykjavíkur verji hagnaði sínum til lækkunar gjalda, hætti að verja fé til styrktar rekstri Perlunnar, ávaxti lausafé sitt á bestan mögulegan og öruggan máta og selji hlutabréf sín í öðrum fyrirtækjum en Jarðborunum hf. Eftir að hafa leitað nánari útlistunar á efni kærunnar taldi ráðuneytið að kæruheimild væri ekki til staðar og vísaði kærunni því frá sér.

Ráðuneytið er enn þeirrar skoðunar að því sé ekki unnt að skera úr um hvernig veitufyrirtæki skuli ráðstafa tekjum sínum. Valdheimildir ráðuneytisins takmarkast við staðfestingu á gjaldskrá.

[…]

Í erindi til yðar víkur [A] að gjaldskrármálefnum hitaveitna og staðfestingarhlutverki ráðuneytisins og óskar álits og/eða úrskurðar yðar um það, hvort ráðuneytið hafi vanrækt skyldu sína á undanförnum árum.

Í bréfi yðar, dags. 17. desember 1998 eru rakin viðeigandi lagaákvæði. Í þessum lagaákvæðum er ekki að finna neinar reglur eða leiðbeiningar um innihald gjaldskrár. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í 1. mgr. 8. gr. gjaldskrár Hitaveitu Reykjavíkur segir að henni sé heimilt að hækka eða lækka gjöld samkvæmt gjaldskránni í sama hlutfalli og vísitala byggingarkostnaðar. Í 2. mgr. 8. gr. segir að hitaveitan skuli, skv. 3. gr. laga nr. 64/1943, auglýsa gildandi verð skv. gjaldskrá þessari á hverjum tíma, í Lögbirtingablaði.

Enn sem komið er hafa ekki gengið dómar um lögmæti gjaldtöku hitaveitna. Í erindi yðar er vísað til dóma um lögmæti gjaldtöku á öðrum sviðum. Vissulega er unnt að draga ákveðnar ályktanir af þessum dómsniðurstöðum en ráðuneytið telur að önnur sjónarmið gildi um gjaldskrár hitaveitna. Ber þar að hafa í huga að heitt vatn er selt gegnum mæli og notandi getur ráðið miklu um notkun sína. Þá má velta því fyrir sér hvort um sé að ræða þjónustu eða sölu á vöru. Þá er rétt að benda á að húseigendur eru ekki skyldaðir til að hita hús sín með heitu vatni heldur geta þeir notað aðra orkugjafa, svo sem rafmagn.

Ráðuneytið telur engan vafa leika á að almennt sé vilji fyrir að veitufyrirtækjum sveitarfélaga sé heimilt að greiða eigendum sínum arð. Sést þetta best á því að í 3. lið 62. gr. vatnalaga nr. 15/1923 segir að ef árstekjur af orkuveitu verði meiri en árskostnaður af henni, að meðtalinni hæfilegri fyrningu sé heimilt að láta afganginn renna í sjóð héraðsins. Þá segir í 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra. Hefur þetta viðgengist um allnokkurt skeið. Á síðustu árum hafa breytingar á löggjöf og úrlausnir dómstóla orðið til að gera ráð fyrir arðgreiðslu við gerð gjaldskrár. Á næstunni má búast við breytingum á skipulagi raforkumála og þar með rafveitna. Telur ráðuneytið eðlilegt að í tengslum við það verði málefni hitaveitna tekin til endurskoðunar en löggjöf um hitaveitur er orðin hálfrar aldar gömul.

Ráðuneytið telur að í kjölfar dóma Hæstaréttar kunni forsendur fyrir staðfestingu gjaldskrár að vera breyttar. Vegna þessa og þeirrar umræðu sem farið hefur fram undanfarið hefur ráðuneytið tekið gjaldskrármálefni hitaveitna til skoðunar. Telur ráðuneytið þetta nauðsynlegt í ljósi þess hversu málið varðar mikla hagsmuni. Hefur ráðuneytið meðal annars átt fundi með félagsmálaráðuneyti vegna gjaldskrármálefna fyrirtækja í eigu sveitarfélaga í tengslum við hugsanlega endurskoðun á löggjöf um hitaveitur. Mun ráðuneytið í kjölfar þessa taka afstöðu til þess hvort þörf sé frekari aðgerða af þess hálfu.

Í erindi yðar er óskað eftir upplýsingum um hvaða gögn lágu fyrir í ráðuneytinu þegar núgildandi gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur, nr. 307/1996, var staðfest. Sérstaklega er óskað upplýsinga um hvort útreikningur Reykjavíkurborgar, um grundvöll gjalda, samkvæmt tilvitnaðri gjaldskrá, hafi borist ráðuneytinu, og ef svo var ekki hvort óskað hafi verið eftir honum. Ráðuneytinu barst erindi vegna nýrrar gjaldskrár fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 24. apríl 1996. Í minnisblaði sem fylgdi erindinu eru raktar ástæður hækkunarinnar en þar kemur fram að hún sé vegna leiðréttingar á vatnsverði. Gjaldskráin var, eins og áður segir, staðfest og birt 28. maí 1996. Erindinu fylgdu ekki önnur gögn og var ekki leitað frekari gagna.

Ráðuneytið biðst velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindinu.“

III.

Kvörtun A til umboðsmanns Alþingis beinist að þeirri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að vísa frá kæru hans „vegna meintrar ólögmætrar ráðstöfunar tekna Hitaveitu Reykjavíkur”, en einnig óskaði A eftir áliti umboðsmanns um það, hvort ráðuneytið hefði vanrækt skyldu sína við staðfestingu gjaldskráa Hitaveitu Reykjavíkur á undanförnum árum.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. orkulaga nr. 58/1967 skal ráðherra staðfesta gjaldskrá fyrir hitaveitu sem fengið hefur einkaleyfi til starfrækslu sinnar, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/1940, um Hitaveitu Reykjavíkur, rekur borgarstjórn Reykjavíkur hitaveitu sem hefur einkaleyfi til þess að leiða heitt vatn um lögsagnarumdæmið, þar sem borgarstjórn ákveður, og einkarétt til að selja heitt vatn til upphitunar á húsum sem ná til hitaveitunnar. Borgarstjórn setur reglugerð um rekstur hitaveitunnar sem ríkisstjórnin (ráðherra) staðfestir og samkvæmt 5. gr. laganna skal verð á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur ákveðið í gjaldskrá sem borgarstjórn setur og ríkisstjórnin (ráðherra) staðfestir.

Í samræmi við framangreind ákvæði staðfesti iðnaðarráðherra gjaldskrá fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 28. maí 1996 og var hún birt sem auglýsing nr. 307/1996 í B-deild Stjórnartíðinda sem kom út 10. júní 1996. Gjaldskrá þessi var í gildi þegar A ritaði iðnaðarráðuneytinu bréf sitt 15. ágúst 1997.

Erindi A til iðnaðarráðuneytisins, dags. 15. ágúst 1997, fól í sér kröfu um að iðnaðarráðherra endurupptæki og endurskoðaði staðfestingu sína á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur frá 28. maí 1996, en reglur um stjórnsýslukæru á stjórnvaldsákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tóku ekki til erindisins.

Staðfesting ráðherra á gjaldskrá hitaveitu samkvæmt framangreindum ákvæðum orkulaga og laga um Hitaveitu Reykjavíkur felur í sér þá ákvörðun að heimila viðkomandi hitaveitu að innheimta þau gjöld, og samkvæmt nánar tilgreindum fjárhæðum, sem fram koma í gjaldskránni. Þótt gjaldskráin afmarki þannig, að fenginni staðfestingu ráðherra, gjaldtökuheimild hitaveitunnar gagnvart einstökum notendum og staðfesting ráðherra hafi því verulega þýðingu fyrir notendurna verður stöðu þeirra ekki jafnað til stöðu aðila máls í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ráðherra á þeirri ákvörðun að staðfesta gjaldskrána. Staðfesting á gjaldskrá hitaveitu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum felur í sér útgáfu á almennum stjórnvaldsfyrirmælum gagnvart notendum viðkomandi hitaveitu og aðili í því máli fyrir ráðherra er viðkomandi hitaveita eða sveitarstjórn vegna hennar. Af þessu leiðir þó ekki að ráðherra geti vegna þessa eins vísað frá erindum sem honum berast frá notendum hitaveitu, þar sem settar eru fram athugasemdir við væntanlega eða þegar gerða staðfestingu gjaldskrár hitaveitu. Á ráðherra hvílir sú skylda að sjá til þess að embættisathafnir hans og ráðuneytis hans séu í samræmi við lög, sbr. lög nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.

Í samræmi við framangreint tel ég að notandi hitaveitu eins og A í því tilviki sem fjallað er um hér eigi ekki sem aðili rétt til að staðfesting gjaldskrár hitaveitu verði endurupptekin á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt þau ákvæði eigi því ekki við í máli A tel ég rétt að minna á að eins og fram kemur í athugasemdum við þá grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3305) eru þau skilyrði um tímafresti sem fram koma í 2. mgr. 24. gr. laganna sett til þess að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og er ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Jafnframt er tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar. Ég nefni þetta hér til að minna á að hliðstæð sjónarmið kunna að eiga við þegar hugað er að því með hvaða hætti ráðherra ber og getur brugðist við, þegar honum berst ábending um að annmarkar kunni að vera á þegar gerðri staðfestingu gjaldskrár.

Þegar A sendi iðnaðarráðuneytinu erindi sitt 15. ágúst 1997 var rúmt eitt ár liðið frá því að gildandi gjaldskrá fyrir Hitaveitu Reykjavíkur hafði verið staðfest af hálfu iðnaðarráðherra og það var því ekki um það að ræða að erindi A fæli í sér ábendingu vegna máls sem ráðuneytið hafði til meðferðar. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að A hefði hvorki á grundvelli stjórnsýslukæru eða lagareglna um endurupptöku máls átt rétt á því að að ráðuneytið tæki erindi hans frá 15. ágúst 1997 til afgreiðslu. Að því leytinu til er ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við það að iðnaðarráðuneytið vísaði erindi A frá 15. október 1997.

Ég hef áður tekið fram að sú aðstaða að notandi hitaveitu hefði ekki eiginlega aðilastöðu í merkingu stjórnsýslulaga við staðfestingu á gjaldskrá leiðir ekki til þess að ráðherra geti vegna þess eins vísað frá erindum sem honum berast frá notendum hitaveitu, þar sem settar eru fram athugasemdir við væntanlega eða þegar gerða staðfestingu gjaldskrár hitaveitu. Kvörtun A hefur orðið umboðsmanni Alþingis tilefni til að taka þetta atriði og hvað felist í valdheimildum ráðuneytisins við staðfestingu á gjaldskrá hitaveitu til sérstakrar skoðunar auk eftirlitsskyldu ráðuneytisins sem af staðfestingarhlutverkinu leiðir. Ég ritaði iðnaðarráðherra sérstakt bréf af því tilefni, dags. 17. desember 1998, og hér að framan er gerð grein fyrir svari iðnaðarráðuneytisins, dags. 21. september sl.

Í þessu bréfi ráðuneytisins kemur fram að það telji að í kjölfar dóma Hæstaréttar kunni forsendur fyrir staðfestingu gjaldskrár að vera breyttar. Vegna þessa og þeirrar umræðu sem farið hafi fram undanfarið hafi ráðuneytið tekið gjaldskrármálefni hitaveitna til skoðunar. Telur ráðuneytið þetta nauðsynlegt í ljósi þess hversu málið varðar mikla hagsmuni. Fram kemur að ráðuneytið hafi meðal annars átt fundi með félagsmálaráðuneytinu vegna gjaldskrármálefna fyrirtækja í eigu sveitarfélaga í tengslum við hugsanlega endurskoðun á löggjöf um hitaveitur. Þá segir að ráðuneytið muni í kjölfar þessa taka afstöðu til þess hvort þörf sé frekari aðgerða af þess hálfu.

Eftir að iðnaðarráðuneytið staðfesti gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur í maí 1996 og kvörtun A barst umboðsmanni í október 1997 hefur Alþingi með samþykkt á 5. mgr. 7. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 kveðið á um að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og tekið er fram að sveitarfélögum sé heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.

Þetta ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1998 var tekið inn í frumvarp til sveitarstjórnarlaga að tillögu meiri hluta félagsmálanefndar og í nefndaráliti sem fylgdi tillögunni sagði meðal annars:

„Fjölmörg sveitarfélög reka fyrirtæki á eigin ábyrgð og hafa fyrirtækin greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hefur leyft. Þessi háttur hefur t.d. verið hafður hjá fyrirtækjum borgarsjóðs í a.m.k. 60 ár og hafa gjaldskrár fyrirtækjanna, sem staðfestar hafa verið af viðkomandi ráðuneyti, tekið mið af þessu. Ótvíræða heimild til þessa hefur hins vegar hingað til vantað í löggjöf. Í framhaldi af þessu mun þurfa að gera breytingar á orkulögum, nr. 58/1967, og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, til þess að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð.“ (Alþt. 1997-1998 A-deild, bls. 4959.)

Félagsmálaráðherra vék sérstaklega að þessu ákvæði í umræðum um frumvarpið og sagði meðal annars:

„Brtt. hv. félmn. varðandi arðgreiðslurnar miðar einungis að því að búa við óbreytt ástand. Í 60 ár hefur Reykjavíkurborg tekið arð af Hitaveitu Reykjavíkur. Eins og fram hefur komið tel ég eðlilegt að kveða skýrar á um arðgreiðslur og jafnframt hámark arðgreiðslna í orkulögum og lögum um vatnsveitur.“ (Alþt.1997-1998, 121. fundur 8. maí 1998.)

Þær breytingar á öðrum lögum í kjölfar setningar 5. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1998, sem þarna er vikið að, hafa enn ekki verið gerðar.

Framangreind lagabreyting með 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 kann nú að hafa þýðingu við framkvæmd iðnaðarráðuneytisins á eftirlitsskyldu þess sem leiðir af staðfestingarhlutverki á gjaldskrám hitaveitna sveitarfélaga.

Með tilliti til þessa hugsanlega breytta lagagrundvallar og þar sem svo langt var liðið frá því að ráðuneytið hafði staðfest gildandi gjaldskrá fyrir Hitaveitu Reykjavíkur þegar því barst erindi A 15. ágúst 1997, tel ég ekki rétt að ég taki það til frekari athugunar á grundvelli kvörtunar A hvernig háttað er eftirlitsskyldu iðnaðarráðuneytisins sem leiðir af staðfestingarhlutverki þess á gjaldskrá hitaveitu og þar með jafnframt endurskoðunarheimild ráðherra, þegar honum berast athugasemdir vegna þegar staðfestrar gjaldskrár. Ég hef hins vegar ákveðið að óska eftir frekari upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu um þá skoðun á gjaldskrármálefnum hitaveitna sem lýst er í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 21. september sl. Að fengnum þeim svörum mun ég taka afstöðu til þess hvort tilefni er til þess að ég taki framangreind atriði til athugunar að eigin frumkvæði samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og þá jafnframt grundvöll og eðli þeirra gjalda sem hitaveitum sveitarfélaga er heimilað með slíkum staðfestum gjaldskrám að innheimta af notendum þeirra.

IV.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 1997, barst umboðsmanni Alþingis kvörtun frá A vegna úrskurðar setts félagsmálaráðherra, dags. 18. nóvember 1997. Úrskurður þessi var kveðinn upp í tilefni af stjórnsýslukæru A, þar sem hann gerði kröfu um að félagsmálaráðuneytið ógilti „ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um greiðslu Hitaveitu Reykjavíkur á afgjaldi fyrir árið 1997 og árin á undan að því marki sem lög leyfa.” Með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem komist er að hér að framan um fyrri kvörtun A og þar sem ég tel að einstakar ákvarðanir borgarstjórnar Reykjavíkur, sem eru liður í undirbúningi gjaldskrár Hitaveitu Reykjavíkur, komi til athugunar við framkvæmd iðnaðarráðherra á því staðfestingarvaldi sem honum er falið lögum samkvæmt, tel ég ekki nægjanlegt tilefni til þess að ég taki þessa kvörtun A til nánari athugunar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek fram að með því hef ég ekki tekið neina afstöðu til hæfis þeirra sem komu að úrskurði félagsmálaráðuneytisins, formi hans eða efni.

V.

Í samræmi við framangreint hef ég með bréfi þessu lokið umfjöllun minni um þær kvartanir A sem bárust umboðsmanni Alþingis 22. október 1997 og 28. nóvember 1997.

VI.

Í framhaldi af fyrrgreindri niðurstöðu minni ritaði ég iðnaðarráðherra bréf, dags. 29. október 1999, og óskaði eftir að iðnaðarráðuneytið léti mér í té upplýsingar um hver væri nú staða þeirrar skoðunar ráðuneytisins á gjaldskrármálefnum hitaveitna sem lýst var í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 21. september 1999, og nánar að hverju sú skoðun beindist og hvenær gert væri ráð fyrir að henni lyki. Ég ítrekaði þessi tilmæli mín til ráðuneytisins með bréfi, dags. 7. apríl 2000.

Svarbréf iðnaðarráðuneytisins barst mér 28. apríl 2000. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi ákveðið að hlutast til um að gerð verði lögfræðileg úttekt á stöðu gjaldskrármálefna hitaveitna samkvæmt gildandi lögum. Er tekið fram að í kjölfar þess muni ráðuneytið skipa nefnd til að yfirfara og gera tillögur um breytingar á skipulagi hitaveitumála með hliðsjón af breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til raforkulaga sem nú er unnið að á vegum ráðuneytisins. Var það því niðurstaða mín að bréfið gæfi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu að svo stöddu. Óskaði ég eftir að ég yrði látinn vita um framvindu málsins.