Starfsmannafélag Seðlabankans kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir staðfestingu fjármálaráðuneytisins á nýrri reglugerð Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans sem nú heitir Lífeyrissjóður bankamanna. Taldi félagið að eins og staðið hefði verið að samþykkt hinnar nýju reglugerðar og eins og efni hennar var úr garði gert hafi ráðuneytinu borið að synja um staðfestingu hennar.
Umboðsmaður taldi í bréfi sínu til félagsins, dags. 8. september 1999, að skilja bæri áskilnað 2. gr. þágildandi laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, um staðfestingu fjármálaráðuneytisins á reglugerðum lífeyrissjóða svo að ráðuneytinu bæri að synja um staðfestingu ef ákvæði reglugerðar stefndu réttindum sjóðfélaga í óhóflega hættu eða að þau væru ósamrýmanleg lögum eða öðrum réttarreglum. Einnig taldi umboðsmaður að ráðuneytinu bæri að ganga úr skugga um að ákvæði reglugerða slíkra sjóða væru þannig úr garði gerð að því meginmarkmiði sjóðanna að tryggja mönnum ákveðinn lífeyri í samræmi við iðgjaldagreiðslur þeirra vegna elli, örorku eða andláts yrði náð.
Umboðsmaður tók til skoðunar hvort sú breyting að afnema bakábyrgð aðildarfyrirtækjanna hefði átt að leiða til synjunar ráðuneytisins á staðfestingu reglugerðarinnar. Taldi hann að þar sem uppgjör á áföllnum skuldbindingum hefði farið fram með tilliti til stöðu sjóðsins þegar breytingarnar tóku gildi á grundvelli tryggingafræðilegs mats og hlutfall greiðslna frá aðildarfyrirfyrirtækjum hefði verið hækkað til að sjóðurinn gæti staðið við áfallnar skuldbindingar sínar, yrði ekki séð að áunnum réttindum hefði verið stefnt í óhóflega hættu. Taldi hann því ekki ástæðu til athugsemda vegna afstöðu ráðuneytisins til þessa þáttar breytinganna. Ekki var að hans mati heldur tilefni til þess að synja um staðfestingu reglugerðarinnar vegna þess að með breytingunum hafi verið hætt að verðtryggja greiðslur úr sjóðnum með því að miða þær við laun starfsmanna bankanna en tekin upp verðtrygging miðað við vísitölu neysluverðs. Taldi umboðsmaður að almennt væri slík verðtrygging til þess fallin að tryggja að áunnin lífeyrisréttindi héldu peningalegu gildi sínu og að óvíst væri hvort slík breyting á verðtryggingu leiddi til hagstæðari eða óhagstæðari niðurstöðu fyrir sjóðfélaga þegar til lengri tíma væri litið.
Félagið gerði jafnframt athugasemdir við það hvernig staðið hefði verið að framangreindum breytingum og taldi að ráðuneytið hefði átt að synja um staðfestingu reglugerðarinnar af þeim sökum. Umboðsmaður taldi að aðeins hafi verið við óskráðar meginreglur félagaréttar að styðjast um það með hvaða hætti skyldi leita atbeina sjóðfélaga við breytingu reglugerðarinnar og að ráðuneytinu hafi borið að ganga úr skugga um að ekki hefði verið gengið gegn þeim. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið slíkir annmarkar á því hvernig atbeina sjóðfélaga var leitað, að fjármálaráðuneytinu hafi verið rétt að synja um staðfestingu á reglugerðarbreytingunni. Taldi hann jafnframt að ekki hefði verið efni til þess af hálfu ráðuneytisins að synja um staðfestingu á breytingu reglugerðarinnar með vísan til meginreglunnar um minnihlutavernd félagsmanna innan félagsheildar eða annarra meginreglna almenns félagaréttar.