Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits. Sveitarfélög. Framsetning auglýsingar. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Aðgangur að gögnum. Birting ákvörðunar. Rökstuðningur. Skráningarskylda.

(Mál nr. 8735/2015)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun heilbrigðisnefndar um ráðningu X í starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y. Kvörtunin laut m.a. að því að X hefði ekki uppfyllt almennar kröfur um hæfni þar sem í auglýsingu um starfið hefði verið gerð krafa um „framhaldsmenntun á háskólastigi er nýtist í starfi?. X hefði einungis lokið grunnprófi á háskólastigi en ekki meistaraprófi eins og A. Kvörtunin beindist jafnframt að ákvörðun nefndarinnar um að synja A um aðgang að gögnum sem vörðuðu aðra umsækjendur um starfið en X.

Umboðsmaður vísaði til þess að í lögum væri aðeins gerð krafa um að framkvæmdastjóri hefði „háskólapróf?. Í ljósi m.a. þessa taldi hann sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að með umræddu skilyrði í auglýsingunni hefði nefndin í reynd gert kröfu um meistarapróf á háskólastigi. Hann gerði því ekki athugasemdir við það mat heilbrigðisnefndar að X hefði uppfyllt umrætt lágmarksskilyrði. Umboðsmaður taldi þó að orðalagið í auglýsingunni hefði verið órætt með tilliti til þess hvort aðeins væri gerð krafa um grunnpróf á háskólastigi eða meistarapróf. Þegar litið væri til þess hvaða skilning þeir sem lásu auglýsinguna gátu með réttu lagt í orðalagið og þær væntingar sem gátu skapast af þeim sökum til ráðningarferlisins og þeirra lágmarkskrafna sem gerðar væru til að gegna starfinu hefði orðalagið ekki verið eins skýrt og æskilegt hefði verið. Þessi hluti auglýsingarinnar hefði því ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður tók fram að af skýringum heilbrigðisnefndarinnar yrði ráðið að synjun um aðgang að gögnum um aðra umsækjendur en þann sem var ráðinn í starfið hefði ekki byggst á atviksbundnu mati á því hvort einkahagsmunir þeirra umsækjenda af því að halda þeim leyndum væru „mun ríkari“ en hagsmunir A af því að fá aðgang að þeim. Þvert á móti hefði synjunin verið reist á almennri afstöðu stjórnvaldsins til aðgangs að gögnum í slíkum málum. Eins og lagareglum væri fyrir komið hér á landi gæti hann ekki fallist á að þessi almenna og fortakslausa afstaða væri í samræmi við stjórnsýslulög enda væri þar áskilið að atviksbundið mat ætti sér stað. Synjunin hefði því ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli.

Umboðsmaður taldi að tilkynning um ákvörðunina og rökstuðningur fyrir henni hefði ekki verið að öllu leyti í samræmi við stjórnsýslulög. Í tilkynningu hefði ekki verið gerð grein fyrir nafni þess umsækjanda sem var ráðinn í starfið og í rökstuðningi hefði ekki verið gerð grein fyrir því hvernig sá umsækjandi féll að öllum þeim sjónarmiðum sem voru lögð til grundvallar matinu, t.d. um menntun. Þá taldi umboðsmaður að það hefði verið í betra samræmi við upplýsingalög ef upplýsingar sem fram komu í viðtali við X hefðu verið skráðar að því marki sem þær vörðuðu sjónarmið sem lögð hefðu verið til grundvallar ráðningunni.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðisnefndar að leyst yrði úr beiðni A um aðgang að gögnum í samræmi við þau sjónarmið sem reifuð hefðu verið í álitinu kæmi fram beiðni þess efnis frá honum. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 8. desember 2015 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun um ráðningu X í starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y en hann var meðal umsækjenda um starfið. Samkvæmt grein 1.1 í samþykktum Heilbrigðiseftirlits Y frá 21. október 2014 er eftirlitið byggðasamlag sveitarfélaga í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Heilbrigðisnefnd Y fer með yfirstjórn heilbrigðiseftirlitsins, sbr. grein 1.2.

A telur að hann hafi verið hæfari en sá umsækjandi sem hlaut starfið. Einnig telur hann að sá umsækjandi sem var ráðinn hafi ekki uppfyllt almennar kröfur um hæfni þar sem í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi? en umsækjandinn sem var ráðinn hafi einungis lokið grunnprófi á háskólastigi. Hann hafi aftur á móti lokið B.S. og M.S. gráðu í [...] og uppfylli því skilyrðið. Jafnframt beinist kvörtun A að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um að synja honum um aðgang að hluta umbeðinna gagna í tengslum við ráðninguna, þ.e. um aðgang að gögnum sem varða aðra umsækjendur um starfið en þann sem hlaut það.

Af þeim skýringum sem mér bárust frá Heilbrigðisnefnd Y í tilefni af kvörtun A verður ráðið að 13 ára reynsla þess umsækjanda sem hlaut starfið sem heilbrigðisfulltrúi og reynsla hans sem staðgengill framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y hafi ráðið úrslitum við ákvörðun um ráðningu í starfið. Í þessu sambandi bendi ég á að í 15. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er fjallað um hæfisskilyrði framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits. Af ákvæðinu verður ráðið að framkvæmdastjóri þurfi að hafa réttindi sem heilbrigðisfulltrúi nema í þeim tilfellum þegar að minnsta kosti fimm heilbrigðisfulltrúar starfi á svæðinu, enda sé hann í fullu starfi sem framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og hafi, auk háskólaprófs, staðgóða þekkingu á heilbrigðiseftirliti. Með hliðsjón af þessu lagaákvæði og auglýsingu um starfið, sem gerð verður grein fyrir hér á eftir, tel ég að áhersla á framangreinda starfsreynslu þess umsækjanda sem hlaut starfið sé málefnaleg. Þegar það er haft í huga og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um efnislegt mat heilbrigðisnefndarinnar á hæfni umsækjenda um starfið. Hef ég þá í huga það svigrúm sem játa verður stjórnvaldi við ráðningu í opinbert starf.

Athugun mín á málinu lýtur í fyrsta lagi að þeirri lágmarkskröfu sem fram kemur í auglýsingu um starfið um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“ en A telur, sem fyrr greinir, að með henni sé gerð krafa um meistarapróf á háskólastigi en sá umsækjandi sem hlaut starfið hafi ekki slíka prófgráðu. Líkt og fjallað verður um hér á eftir kemur fram sú afstaða í skýringum Heilbrigðisnefndar Y að umsækjandi um opinbert starf eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum máls sem varða aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið á grundvelli IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við það lýtur athugun mín í öðru lagi að því hvort sú afstaða nefndarinnar sé í samræmi við lög. Þá lýtur athugun mín í þriðja lagi að því hvort málsmeðferð heilbrigðisnefndarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. júlí 2016.

II Málavextir

Heilbrigðisnefnd Y auglýsti starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y laust til umsóknar í júní 2015. Alls bárust sjö umsóknir um starfið. Að loknu mati á umsóknum var X boðuð í viðtal og hún síðan ráðin í starfið. Í auglýsingu um starfið sagði m.a. svo:

„Menntunar- og hæfniskröfur

Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi

Heilbrigðisfulltrúaréttindi eða menntun til að geta sótt sér slík réttindi skv. reglugerð 571/2002 um menntun og skyldur heilbrigðisfulltrúa

Reynsla af opinberri stjórnsýslu og eftirliti

Stjórnunar- og rekstrarreynsla æskileg

Þekking á starfsemi og eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga

Samskiptafærni og hæfni til málamiðlana

Frumkvæði og metnaður til árangurs

Reynsla og stjórnun teymisvinnu

Gott vald á íslensku og færni í að tjá sig í ræðu og riti.?

Með bréfi, dags. 30. júlí 2015, tilkynnti Heilbrigðisnefnd Y A um að ráðið hefði verið í starfið. A óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni með bréfi, dags. 5. ágúst 2015. Í rökstuðningi heilbrigðisnefndar, dags. 14. ágúst 2015, var m.a. tekið fram að X uppfyllti að mati heilbrigðisnefndar allar menntunar- og hæfniskröfur er fram komu í auglýsingu. Hún hefði auk þess réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi og hefði gert það síðastliðin 13 ár. Hún hefði jafnframt gegnt stöðu staðgengils framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y. Þekking hennar á starfssvæði og verkefnum Heilbrigðiseftirlits Y þjónaði hagsmunum þess vel.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 2015, óskaði A þess að fá afrit af öllum gögnum málsins með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.m.t. náms- og starfsferilskrá þess er starfið hlaut. Með bréfi, dags. 8. september 2015, var A synjað um aðgang að umræddum gögnum með vísan til 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem umrædd gögn væru undanþegin upplýsingarétti. Í bréfinu voru veittar upplýsingar um nöfn og menntun annarra umsækjenda um starfið. Með bréfi, dags. 14. september 2015, ítrekaði A beiðni sína um að fá aðgang að öllum málsskjölum sem lögð hefðu verið til grundvallar ráðningunni og benti í því sambandi á að um beiðni hans sem aðila máls ætti að fara samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1997 en ekki upplýsingalaga nr. 140/2012.

Með bréfi, dags. 5. október 2015, var A veittur aðgangur að náms- og starfsferilskrá þess sem starfið hlaut auk þess sem gerð var nánari grein fyrir því hvernig staðið hefði verið að mati á umsækjendum um starfið. Með bréfi, dags. 14. október 2015, ítrekaði A beiðni sína um aðgang að öllum gögnum og upplýsingum sem þýðingu höfðu við úrlausn málsins. Í bréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2015, kom fram að nefndin liti svo á að A hefði fengið afrit af öllum þeim gögnum sem hann ætti rétt á og að málinu væri því lokið af hálfu Heilbrigðisnefndar Y.

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og Heilbrigðisnefndar Y

Gögn málsins bárust mér 19. janúar 2016 samkvæmt beiðni þar um. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2016, óskaði ég þess að Heilbrigðisnefnd Y veitti mér upplýsingar og skýringar á tilteknum atriðum. Ég tel aðeins þörf á að rekja efni þeirra samskipta að því leyti sem þau hafa þýðingu fyrir athugun mína á málinu.

Í fyrsta lagi óskaði ég eftir upplýsingum um hvernig sá umsækjandi sem hlaut starfið uppfyllti skilyrði auglýsingar starfsins um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“. Í svarbréfi Heilbrigðisnefndar Y, dags. 14. mars 2016, kom fram að í menntunar- og hæfniskröfum í auglýsingu hefði ekki verið gerð krafa um mastersgráðu. Sá sem starfið hlaut væri með háskólamenntun sem nýttist í starfi, þ.e. B.S. í líftækni, þriggja anna stjórnunarnám frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, sem og nám í mjólkurtæknifræði sem væri víðtækt nám á matvælasviði. Þá hefði viðkomandi lokið fjölda námskeiða sem nánar væri gerð grein fyrir í ferilskrá.

Í öðru lagi óskaði ég eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli sú afstaða heilbrigðisnefndar að A hefði einungis átt rétt á að fá aðgang að umsóknargögnum þess umsækjanda sem starfið hlaut en ekki annarra umsækjenda eða önnur gögn sem kynnu að hafa orðið til í ráðningarferlinu byggðist. Væri það afstaða nefndarinnar að synjunin hefði byggst á 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 óskaði ég þess að mér yrðu veittar nánari skýringar á því hvernig umrædd gögn og einstakar upplýsingar í þeim gætu talist til einkahagsmuna sem væru „mun ríkari? en hagsmunir aðila máls af því að notfæra sér vitneskju úr þeim.

Í svarbréfi heilbrigðisnefndar sagði eftirfarandi um þetta atriði:

„Heilbrigðisnefnd [Y] taldi að þegar erindi [A] um að fá aðgang að gögnum barst, að ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 takmörkuðu þá upplýsingagjöf. Af spurningu yðar og þeim álitum embættis yðar sem vísað er til nr. 3091/2000 og 3215/2001 má ráða að þér séuð þeirrar skoðunar að túlkun heilbrigðisnefndarinnar á inntaki ofangreindrar lagareglu sé röng. Framangreind afstaða í fyrirliggjandi álitum embættis yðar styðst ekki við ótvíræð dómafordæmi á þessu sviði. Óháð fyrri álitum yðar verður ekki framhjá því litið að þau gögn sem umsækjendur leggja fram með umsóknum sínum fela í sér afar persónulegar upplýsingar um einkahagi viðkomandi umsækjanda og falla þau að einhverju leyti undir viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Öll miðlun slíkra upplýsinga er að mati heilbrigðisnefndarinnar óheimil. Þá væri það afar íþyngjandi fyrir heilbrigðisnefndina að fara nákvæmlega ofan í öll umsóknargögn og meta hvaða upplýsingar væru þess eðlis að ríkari einkahagsmunir umsækjanda væru til staðar í hverju og einu tilviki.

Telji einhver umsækjanda á rétti sínum brotið við val á umsækjanda í starf [...] verður heldur ekki séð hvernig hagsmunir viðkomandi sem aðila máls lúta að upplýsingagjöf varðandi aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið, enda hlýtur samanburður milli þess sem telur framhjá sér gengið eingöngu að beinast að þeim sem hlaut starfið, sjá t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010. Það liggur í hlutarins eðli að áhugi einstaklinga á að sækja um opinber störf myndi minnka mikið ef ljóst væri að öll umsóknargögn gætu orðið opinber á grundvelli meints réttar aðila máls til að fá afrit af slíkum gögnum. [...] Hérna vegast á grundvallarréttindi umsækjanda til friðhelgi einkalífs og meintir hagsmunir umsækjanda sem telur á rétti sínum brotið til aðgangs að gögnum. Við takmörkun á stjórnarskrárvörðum réttindum, verður að beita meðalhófssjónarmiðum, þ.m.t. að takmörkun réttindanna sé nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Ekki verður séð að [A] hafi slíka hagsmuni af umsóknargögnum annarra en þess umsækjanda sem var valinn að réttlætt geti skerðingu á grundvallarréttindum þeirra. Í ljósi alls framangreinds telur heilbrigðisnefnd [Y] að fullnægt hafi verið lagaskyldum varðandi rétt [A] til aðgangs að upplýsingum um ráðningarmálið.“

Í þriðja lagi óskaði ég eftir því að heilbrigðisnefndin gerði grein fyrir afstöðu sinni til þess hvort rökstuðningur nefndarinnar fyrir ráðningu í starfið hefði uppfyllt þær kröfur sem gerðar væru í 22. gr. stjórnsýslulaga. Í svarbréfi nefndarinnar var vísað til þess að samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga bæri að rökstyðja af hverju sá sem var ráðinn í starfið hefði fengið það en ekki þyrfti að rökstyðja af hverju aðrir umsækjendur hefðu ekki verið ráðnir eða bera saman einstaka umsækjendur við þann sem ráðinn hefði verið í starfið.

Í fjórða lagi óskaði ég eftir afstöðu heilbrigðisnefndar til þess hvernig tilkynning nefndarinnar til A um ráðningu í starfið hefði samrýmst 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga en þar hefði ekki verið tekið fram hvaða einstaklingur hefði verið ráðinn í starfið. Í svarbréfi nefndarinnar sagði að ekki hefði verið tilgreint nafn þess umsækjanda sem hlaut starfið í bréfinu en það hefði komið fram á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins. Þar hefði verið tilkynnt um ráðningu X í starfið. A hefði því ekki getað dulist hvaða umsækjandi hlaut starfið þó þess hefði ekki verið getið í bréfinu.

Í fimmta lagi óskaði ég eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort skráning upplýsinga við meðferð málsins fullnægði þeim kröfum sem fram kæmu í 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í skýringum heilbrigðisnefndarinnar til mín kom fram að nefndin teldi það grundvallaratriði að einungis sá sem hefði verið ráðinn uppfyllti allar menntunar- og hæfniskröfur sem voru gerðar til umsækjenda. Það hefði ekki kallað á flókna skráningu, en þrátt fyrir það hefðu verið haldnir þrír fundir um málið í heild sinni, auk þriggja funda formanns og varaformanns nefndarinnar auk þess sem einn nefndarmaður hefði að auki verið viðstaddur atvinnuviðtal við þann sem ráðinn var í starfið. Heilbrigðisnefnd Y teldi að sú skráning væri fullnægjandi þar sem allir fulltrúar nefndarinnar hefðu verið einhuga um að sá yrði ráðinn í starfið sem hlaut það. Ef á einhverjum tímapunkti hefðu komið upp vafaatriði í tengslum við ákvörðunina hefðu skráningar vafalaust verið ítarlegri.

Athugasemdir A við bréf Heilbrigðisnefndar Y bárust mér með bréfi, dags. 29. mars 2016.

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Efni auglýsingar um opinbert starf

1.1 Var meistarapróf á háskólastigi lágmarksskilyrði til að gegna starfinu samkvæmt auglýsingu?

Eins og áður sagði lýtur kvörtun A m.a. að því að sá einstaklingur sem hlaut starfið hafi ekki uppfyllt lágmarksskilyrði um menntun sem fram kom í auglýsingu um starfið. Í auglýsingunni hafi verið gerð krafa um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“. Umsækjandinn sem var ráðinn í starfið hafi lokið grunnprófi á háskólastigi og diplómaprófi en ekki meistaraprófi eins og A. Í skýringum Heilbrigðisnefndar Y til mín kemur fram að ekki hafi verið gerð krafa um meistarapróf til að gegna starfinu. Jafnframt kemur fram að allir umsækjendur um starfið hafi uppfyllt menntunarskilyrði auglýsingarinnar. Í þessu sambandi bendi ég á að samkvæmt gögnum málsins höfðu þrír umsækjendur einungis lokið grunnámi á háskólastigi. Samkvæmt framangreindu verður ráðið að heilbrigðisnefndin hafi lagt þann skilning í orðalagið „framhaldsmenntun á háskólastigi“ að með því væri átt við menntun á háskólastigi, þ.e. að grunnnám á háskólastigi væri fullnægjandi, en í því fælist ekki að gerð væri krafa til þess að umsækjendur hefðu að lágmarki lokið meistaraprófi.

Ég hef áður fjallað um það í áliti mínu frá 5. nóvember 2013 í máli nr. 7144/2012 að stjórnvöld, en Heilbrigðisnefnd Y telst vera stjórnvald, geta verið bundin af þeim lágmarkskröfum sem þau hafa gert til umsækjenda um tiltekið starf í auglýsingu við ákvörðun um ráðningu í starfið að því gefnu að þau auglýsi ekki starfið að nýju. Jafnframt hef ég áður fjallað um þýðingu auglýsingar um opinbert starf, sjá t.d. kafla IV.2 í áliti mínu frá 18. júní 2012 í máli nr. 5864/2009. Forsenda fyrir því að einstaklingar geti gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á að sækja um starf og hvort þeir fullnægi lágmarksskilyrðum til að koma til greina í það er að þeir geti af lestri auglýsingar gert sér grein fyrir því hvers eðlis starfið er, hvaða lágmarks hæfis- og hæfniskröfur umsækjendur þurfi að uppfylla og hvaða meginsjónarmiðum verði byggt á við ákvörðun um ráðningu í starfið. Upplýsingar um þessi atriði eru jafnframt forsenda þess að umsækjendur geti lagt fram með umsókn sinni þær upplýsingar og gögn sem þeir telja að geti skipt máli við mat á umsókn þeirra. Í þessu máli reynir því á hvort auglýsing um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y hafi verið þannig fram sett að heilbrigðisnefndin hafi með henni í reynd krafist meistaraprófs sem lágmarksmenntunar en ekki aðeins grunnprófs á háskólastigi og hafi þar með gert slíka menntun að skilyrði.

Samkvæmt íslenskri orðabók er „framhaldsmenntun“ skilgreind sem menntun sem fæst við framhaldsnám, nám að loknu skyldunámi og nám eftir lokapróf. Hugtakið „framhaldsnám“ virðist þannig vera órætt með tilliti til þess á hvaða skólastigi námið fer fram. Orðalagið „framhaldsnám á háskólastigi“ virðist bæði geta vísað til þess að gerð sé krafa um meistarapróf á háskólastigi og til náms á háskólastigi að loknu lokaprófi, þ.e. í þessu tilviki stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. (Íslensk orðabók. Reykjavík 2002, bls. 382.) Hugtakið „framhaldsmenntun“ virðist heldur ekki vera skilgreint í lögum um háskóla með ótvíræðum hætti hvað álitaefni þessa máls varðar. Aftur á móti er í áðurnefndri 15. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, fjallað um hæfisskilyrði framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits. Þá er í reglugerð nr. 571/2002, um menntun og skyldur heilbrigðisfulltrúa, fjallað um skilyrði til að fá leyfi sem heilbrigðisfulltrúi, sbr. 2. gr. hennar. Í báðum ákvæðum er aðeins gerð krafa um háskólapróf en ekki meistarapróf á háskólastigi eða sambærilegt próf. Í ljósi framangreinds tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að með skilyrðinu í auglýsingu um starfið um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“ hafi Heilbrigðisnefnd Y í reynd gert kröfu um meistarapróf á háskólastigi og hafi þar með verið óheimilt að óbreyttri auglýsingu að ráða þann umsækjanda sem hlaut starfið. Af þessu leiðir að ég geri ekki athugasemdir við það mat heilbrigðisnefndarinnar að sá umsækjandi sem hlaut starfið hafi uppfyllt umrætt lágmarksskilyrði.

1.2 Var auglýsing um starfið nægjanlega skýr?

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu mína er framsetning auglýsingarinnar þannig að hún vekur upp álitaefni um hvort hún hafi verið nægjanlega skýr frá sjónarhorni þeirra borgara sem kynntu sér efni hennar.

Auglýsing um laust opinbert starf felur í sér formlega og opinbera tilkynningu um að stjórnvaldið hafi hafið sérstakt stjórnsýslumál sem miði að því að ráða í tiltekið starf. Af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiðir að auglýsingar um laus opinber störf eiga að vera eins skýrar og glöggar að efni til og kostur er. Þá er svokölluð skýrleikaregla meðal óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar en af henni leiðir að ákvarðanir stjórnvalda verða að vera ákveðnar og skýrar. Af framangreindum kröfum leiðir að borgararnir eiga almennt að geta gert sér grein fyrir af lestri auglýsingar um starf hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til að koma til greina í það.

Ég bendi einnig á að sjónarmið um réttmætar væntingar hafa fengið aukið vægi í stjórnsýslurétti á síðari árum. Efni auglýsingar um opinbert starf og þær kröfur sem þar koma fram, m.a. um menntun og starfsreynslu umsækjenda, kunna að vekja hjá þeim sem ákveða að sækja um starfið ákveðnar væntingar um að þeir uppfylli umræddar kröfur og að umsókn þeirra verði metin í því ljósi. Á sama hátt leiða þessi sjónarmið til þess að miklu skiptir að efni auglýsingar sé það skýrt að einstaklingar sem eru með aðra, og þá eftir atvikum meiri menntun og starfsreynslu heldur en verið er að leita eftir, geti gert sér grein fyrir hvaða þýðingu þessi atriði hafi við mat á umsóknum þeirra. Mikilvægt er að efni og orðalag auglýsingar um opinbert starf sé ekki til þess fallið að vekja væntingar um að eðli starfsins eða mat á umsækjendum verði annað en leiðir af eðlilegum skilningi á orðalagi auglýsingar um starfið. Þá kann ónákvæmni í orðalagi auglýsingar eða síðari frávik frá því sem þar kemur fram við mat og ákvörðun um ráðningu að leiða til þess að umsækjandi sem ekki hefur verið ráðinn ákveður að leita með málið til dómstóla eða sérstakra eftirlitsaðila. Reynslan sýnir að dómstólar og eftirlitsaðilar byggja að jafnaði niðurstöðu sína á því að gæta hafi þurft samræmis milli efnis auglýsingar um starfið og mats á umsóknum.

Í auglýsingu um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Y var undir liðnum „menntunar- og hæfniskröfur“ m.a. gerð krafa um „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“. Eins og að framan sagði er þetta orðalag órætt með tilliti til þess hvort aðeins sé gerð krafa um grunnpróf á háskólastigi eða meistarapróf á háskólastigi. Þegar litið er til þess hvaða skilning þeir sem lásu auglýsinguna gátu með réttu lagt í orðalagið og þær væntingar sem gátu skapast af þeim sökum til ráðningarferlisins og þeirra lágmarkskrafna sem væru gerðar til að gegna starfinu, eins og þetta mál er dæmi um, tel ég að framangreint orðalag hafi ekki verið eins skýrt og æskilegt er. Miðað við skýringar heilbrigðisnefndarinnar á því hvaða kröfur voru gerðar til menntunar hefði verið eðlilegra að orða skilyrðið t.d. sem háskólamenntun sem nýtist í starfi eða háskólapróf, sbr. orðalag 15. gr. laga nr. 7/1998. Það er því álit mitt að þessi hluti auglýsingarinnar hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

2 Var synjun um að veita aðgang að tilteknum gögnum málsins í samræmi við lög?

A óskaði eftir aðgangi að gögnum ráðningarmálsins með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga. Upphaflega synjaði Heilbrigðisnefnd Y honum um þau á grundvelli eldri upplýsingalaga, sem þá voru ekki lengur í gildi, og veitti honum aðeins upplýsingar um nöfn og menntun annarra umsækjenda um starfið. Eftir að A ítrekaði erindi sitt á grundvelli stjórnsýslulaga var honum veittur aðgangur að náms- og starfsferilskrá þess umsækjanda sem hlaut starfið en var synjað um aðgang að gögnum um aðra umsækjendur. Í skýringum Heilbrigðisnefndar Y til mín segir m.a. að umsækjendur leggi fram afar persónulegar upplýsingar um einkahagi sína og í sumum tilfellum feli þær í sér viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en öll miðlun slíkra upplýsinga sé að mati nefndarinnar óheimil. Þá sé það afar íþyngjandi fyrir nefndina að fara ofan í öll umsóknargögn og meta hvaða upplýsingar séu þess eðlis að mun ríkari einkahagsmunir umsækjanda séu til staðar í hverju og einu tilviki. Enn fremur verði ekki séð hvaða hagsmuni umsækjandi hafi af því að fá aðgang að gögnum um aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið. Þá er vísað til þess að við takmörkun á stjórnarskrárvörðum réttindum verði að gæta meðalhófs.

Eins og skýringar heilbrigðisnefndarinnar eru fram settar legg ég þann skilning í þær að þar birtist sú afstaða nefndarinnar að umsækjandi um opinbert starf eigi ekki rétt á aðgangi að gögnum ráðningarmáls um aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið og af þeim sökum hafi ekki farið fram neitt mat á því hvort einkahagsmunir annarra umsækjenda væru „mun ríkari“ en hagsmunir A af því að kynna sér gögn málsins samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga.

Ég hef áður fjallað um sambærilegt álitaefni í áliti mínu frá 9. febrúar 2015 í máli nr. 8117/2014. Þá hef ég fjallað um almenn sjónarmið í tengslum við aðgang að gögnum í starfsmannamálum m.a. í álitum mínum frá 15. nóvember 2001 í málum nr. 3091/2000 og 3215/2001 og frá 2. nóvember 1999 í máli nr. 2685/1999. Hvað varðar álitaefni þessa máls tek ég fram að meginreglan samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga er sú að aðili máls á rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er málið varðar. Í 5. mgr. sama ákvæðis segir að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein. Réttur aðila samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga fellur ekki niður eftir að ákvörðun hefur verið tekin í máli. Af ákvæðinu leiðir að stjórnvöld hafa ekki í hendi sér hvaða gögn falla undir upplýsingarétt aðila og geta ekki heitið trúnaði um slík gögn eða synjað um aðgang að þeim með vísan til þess að sanngjarnt sé að umsækjendur um opinber störf geti treyst því að trúnaðar sé gætt um slíkar upplýsingar eða að það væri ella minni áhugi á að sækja um opinber störf.

Stjórnvöld geta aftur á móti takmarkað aðgang að gögnum málsins með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir:

„Þegar sérstaklega stendur á er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.“

Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er undantekning frá þeirri meginreglu um upplýsingarétt aðila máls sem birtist í 15. gr. sömu laga. Rétt er að minna á að í athugasemdum sem fylgdu 17. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum segir að á það beri að leggja ríka áherslu að líta beri á þetta heimildarákvæði sem þrönga undantekningarreglu, sbr. orðalagið „þegar sérstaklega stendur á“, því meginreglan sé sú að málsaðili hafi rétt á því að kynna sér málsgögn. Þar er jafnframt lögð áhersla á að við mat á því hvort heimildinni skuli beitt þurfi að vega það og meta hvort hagsmunir málsaðila af því að fá aðgang að gögnunum séu ríkari en þeir almanna- eða einkahagsmunir sem kalla á að takmarka þann aðgang. Þar komi t.d. til skoðunar tillit til einstaklinga eða lögaðila sem hafi verulega hagsmuni af því að upplýsingar, er þá varða, fari leynt. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3297.)

Af orðalagi 17. gr. stjórnsýslulaga er ljóst að stjórnvaldi ber að leggja mat á þau andstæðu sjónarmið sem uppi eru í hverju máli og þá vegna einstakra gagna. Því er ekki hægt að synja aðila máls um aðgang að gögnum með almennum hugleiðingum þess efnis að upplýsingar af ákveðnu tagi séu almennt til þess fallnar að valda umræddum aðilum tjóni eða með þeim rökum að aðili hafi ekki sýnt fram á hvaða hagsmuni hann hafi af því að fá umræddar upplýsingar. Það kann jafnframt að vera eðlilegt að leita eftir afstöðu þess sem upplýsingarnar varða og á hagsmuna að gæta í málinu áður en tekin er ákvörðun um að veita aðgang að tilteknum gögnum þótt niðurstaða málsins sé ekki háð viljaafstöðu viðkomandi. Stjórnvöld verða sjálf að taka ákvörðun um hvaða upplýsingar ber að veita á grundvelli þess hagsmunamats sem 17. gr. stjórnsýslulaga áskilur.

Samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga verður, sem fyrr greinir, að leggja mat á þá andstæðu hagsmuni sem eru uppi í hverju máli fyrir sig. Verða einkahagsmunir annarra að vera „mun ríkari“ en hagsmunir aðila máls af því að notfæra sér vitneskju úr gögnum málsins. Eru þannig gerðar töluvert ríkar kröfur til að heimilt sé að synja aðila máls um aðgang að gögnum þess með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga enda hefur ákvæðið að geyma þrönga undantekningarreglu. Eins og fram kemur í lögskýringargögnum byggir ákvæðið m.a. á tilliti til einstaklinga sem hafa „verulega hagsmuni“ af því að upplýsingar um þá fari leynt. Því nægir ekki að aðrir en aðili máls hafi aðeins hagsmuni af því að gögn og upplýsingar þeim tengdum fari leynt. Dæmi um gögn sem gætu fallið undir undantekninguna eru upplýsingar í umsögnum, læknisvottorðum og þess háttar gögn. (Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin. Skýringarrit. Reykjavík 1994, bls. 199.)

Við nánara mat á því hvaða upplýsingar falla undir 17. gr. stjórnsýslulaga í málum er varða ráðningar í opinber störf er heimilt að horfa til þess hvort upplýsingar, sem veittar eru í umsókn eða fylgigögnum hennar, hafi þýðingu við úrlausn á viðkomandi máli. Með hliðsjón af þessu verður að telja heimilt að takmarka t.d. aðgang umsækjanda að persónulegum upplýsingum í umsóknum annarra umsækjenda sem almennt hafa ekki þýðingu við mat á starfshæfni þeirra að því gefnu að ekki sé byggt á þeim upplýsingum við úrlausn á viðkomandi máli. Á það t.d. við um ljósmyndir af viðkomandi umsækjanda og upplýsingar um fjölskylduhagi hans. Sjá til hliðsjónar álit mín frá 15. nóvember 2001 í málum nr. 3091/2000 og 3215/2001 og frá 2. nóvember 1999 í málum nr. 2685/1999. Það kann einnig að vera heimilt að ganga lengra í takmörkun á aðgangi að upplýsingum samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga um umsækjendur sem ekki hafa fengið starfið en um þá sem voru ráðnir í það, sjá álit mitt frá 14. júlí 2011 í máli nr. 6218/2010. Þá verður að hafa í huga að aðili máls getur átt ríka hagsmuni af því að geta fengið að kynna sér gögn sem ákvörðun hefur byggst á, m.a. til að meta réttarstöðu sína. Getur það til að mynda átt við ef hann vill geta staðreynt hvernig tiltekið hæfisskilyrði, s.s. um menntun eða starfsreynslu, hefur almennt verið metið í ráðningarferlinu, og þá með hliðsjón af rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að ráða tiltekinn umsækjanda í starfið. Þar hafa ekki bara þýðingu gögn og upplýsingar um þann sem fékk starfið heldur líka um aðra umsækjendur.

Þá er sú meginregla lögfest í 2. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga að ef skjal geymir aðeins að hluta upplýsingar, sem aðili á ekki rétt til aðgangs að, skuli veita honum aðgang að öðru efni skjalsins. Þessi meginregla og þau rök sem ákvæðið byggir á hefur þýðingu þegar ákveðið er að takmarka aðgang að gögnum með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga. Stjórnvaldi ber að taka afstöðu til þess hverju sinni hvort mögulegt sé að veita aðila máls aðgang að hluta gagnanna telji það gögn málsins þess eðlis að 17. gr. stjórnsýslulaga eigi við um hluta þeirra upplýsinga sem þar koma fram.

Í ljósi skýringa Heilbrigðisnefndar Y um þýðingu laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 44. gr. þeirra takmarka þau lög ekki rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Þá eru upplýsingar um til að mynda náms- og starfsferil ekki skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt 8. tölul. 2. gr. laganna.

Í því máli sem hér um ræðir hefur A fengið aðgang að náms- og starfsferilskrá þess umsækjanda sem hlaut starfið en ekki aðgang að gögnum um aðra umsækjendur fyrir utan upplýsingar um nöfn og starfsheiti þeirra. Af skýringum Heilbrigðisnefndar Y verður ráðið að synjunin hafi ekki byggst á atviksbundnu mati á því hvort einkahagsmunir þeirra umsækjenda af því að halda þeim leyndum væru „mun ríkari“ en hagsmunir A af því að fá aðgang að þeim. Þvert á móti hafi synjunin verið reist á almennri afstöðu stjórnvaldsins til aðgangs að gögnum í slíkum málum. Eins og lagareglum er fyrir komið hér á landi og með vísan til þess sem að framan er rakið get ég ekki fallist á að þessi almenna og fortakslausa afstaða sé í samræmi við 17. gr. stjórnsýslulaga enda áskilur það ákvæði að atviksbundið mat eigi sér stað.

Í ljósi þess sem fram kemur í skýringum Heilbrigðisnefndar Y, og gerð er grein fyrir hér að ofan, tek ég fram að í þessu máli voru umsækjendur aðeins fimm fyrir utan A og þann umsækjanda sem hlaut starfið. Einnig voru umsóknargögn ekki umfangsmikil. Því verður ekki séð að í málinu hafi reynt á möguleg sjónarmið um að það hafi verið of íþyngjandi fyrir stjórnvaldið að framkvæma mat t.d. á hvort veita bæri aðgang að hluta gagnanna, að því marki sem slík sjónarmið geta yfir höfuð átt við um aðgang að gögnum samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaga. Þá hefur meiri hluti umsóknargagna að geyma upplýsingar um starfshæfni umsækjenda, þ.e. upplýsingar um menntun og starfsreynslu þeirra, en aðeins lítill hluti gagnanna varða persónuleg málefni umsækjenda, eins og ljósmyndir og upplýsingar um fjölskylduhagi. Jafnframt verður ekki séð að aðili að ráðningarmáli geti ekki haft neina hagsmuni af því að fá að kynna sér gögn um aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið. Hann getur, eins og áður er tekið fram, haft hagsmuni af slíkum aðgangi til að meta réttarstöðu sína, forsendur ákvörðunar og mat stjórnvaldsins á gögnum málsins. Í þessu máli er ekki útilokað að A geti haft eða hafi haft hagsmuni af því að kynna sér umsóknargögn til að átta sig á hvernig krafa um menntun var metin af hálfu heilbrigðisnefndarinnar.

Einnig árétta ég að löggjafinn hefur falið stjórnvöldum með setningu 17. gr. stjórnsýslulaga að meta hvort einkahagsmunir aðila af því að halda upplýsingum leyndum séu „mun ríkari? en hagsmunir aðila máls að aðgangi að þeim upplýsingum. Við það mat er tekið tillit til hagsmuna annarra umsækjenda og það getur verið heimilt að takmarka aðgang að persónuupplýsingum sem varða mikla einkahagsmuni eða hafa ekki þýðingu við mat á starfshæfni viðkomandi. Ég ítreka þó að aðili máls á þá að jafnaði rétt á öðrum upplýsingum í gögnum málsins en þeim sem ekki er veittur aðgangur að á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga.

Þar sem Heilbrigðisnefnd Y byggði synjun á aðgangi að hluta gagna málsins á almennri afstöðu en ekki atviksbundnu mati eins og 17. gr. stjórnsýslulaga áskilur er það álit mitt að synjunin hafi ekki byggst á réttum lagagrundvelli. Vegna þess að mat á þeim gögnum sem A óskaði eftir aðgangi að hefur ekki farið fram í samræmi við það lagaákvæði tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um hvort hann eigi rétt á að fá allar þær upplýsingar sem fram koma í umræddum umsóknargögnum enda hefur ekki reynt nánar á hvernig 17. gr. stjórnsýslulaga á við um einstök gögn eða upplýsingar í málinu.

3 Var meðferð málsins að öðru leyti í samræmi við lög?

3.1 Var tilkynning um ráðningu í starfið í samræmi við lög?

Þegar A var tilkynnt um ákvörðun um ráðningu í starfið kom ekki fram nafn þess einstaklings sem hafði verið ráðinn í það. Í skýringum Heilbrigðisnefndar Y kemur fram að nafn viðkomandi hafi komið fram á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins og A hafi því ekki getað dulist hver hafi verið ráðinn í starfið. Ég tek fram að nafn þess umsækjanda sem hlaut starfið kom fram í þeim rökstuðningi sem A fékk í framhaldinu.

Af þessu tilefni tek ég fram að í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Eins og fram kemur í kafla IV.5 í áliti mínu frá 4. júní 1999 í máli nr. 2202/1997 og frá 8. maí 2009 í máli nr. 5356/2008 þarf í tilkynningu um ráðningu í opinbert starf að gera öllum umsækjendum grein fyrir niðurstöðu stjórnvalds um hverjum umsækjenda hafi verið veitt starfið. Geta slíkar upplýsingar verið forsenda þess að umsækjandi sem telur á sér brotið leiti réttar síns gagnvart stjórnvaldinu. Nafnbirting umsækjandans sem ráðinn var í starfið á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Y gat að mínu áliti ekki komið í stað tilkynningar til aðila máls samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Ég tel því að annmarki hafi verið á tilkynningu Heilbrigðisnefndar Y að þessu leyti.

3.2 Var rökstuðningur í samræmi við lög?

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal að því marki sem stjórnvaldsákvörðun byggist á mati greina frá meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. skal einnig þar sem ástæða er til rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í athugasemdum við 22. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu sé ekki kveðið á um hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera. Að meginstefnu til eigi rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafi orðið sú sem raun varð á. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.) Við ráðningu í opinbert starf felst rökstuðningurinn í að skýra hvers vegna það hefur orðið niðurstaða stjórnvaldsins að ráða tiltekinn einstakling úr hópi umsækjenda. Aðalatriðið er að sá sem óskar eftir rökstuðningi geti almennt gert sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðningsins hvað réði ákvörðun um ráðningu í starfið.

Í rökstuðningi Heilbrigðisnefndar Y, dags. 14. ágúst 2015, er vísað til þeirra menntunar- og hæfniskrafna er fram komu í auglýsingu. Þar segir að það sé mat nefndarinnar að sá einstaklingur sem starfið hlaut uppfylli allar kröfur í auglýsingu um starfið auk þess sem vísað er til reynslu umsækjandans sem heilbrigðisfulltrúa hjá nefndinni og þess að hann hafi gegnt stöðu staðgengils framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins og að þekking hans á starfssvæði og verkefnum Heilbrigðiseftirlits Y komi til með að nýtast vel. Samkvæmt þessu var í rökstuðningi gerð grein fyrir þeim atriðum sem vógu þyngst að mati heilbrigðisnefndarinnar við ráðningu í starfið. Þrátt fyrir það var ekki vikið að því hvernig umræddur einstaklingur féll að öðrum sjónarmiðum sem voru lögð til grundvallar matinu og fram komu í auglýsingu. Þannig var ekki vikið að því hvaða menntun viðkomandi umsækjandi hefði en það gat skipt máli fyrir aðra umsækjendur um starfið svo þeir gætu áttað sig á hvernig stjórnvaldið lagði mat á menntun umsækjenda. Ég tel að rökstuðningurinn hafi að þessu leyti ekki verið fyllilega í samræmi við 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

3.3 Var skráning munnlegra upplýsinga í samræmi við lög?

Í 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna beri stjórnvöldum, og öðrum sem lögin taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama eigi við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.

Af gögnum málsins og skýringum Heilbrigðisnefndar Y til mín verður ráðið að ekki hafi verið skráðar upplýsingar sem fram komu í atvinnuviðtali við þann umsækjanda sem hlaut starfið. Í skýringum nefndarinnar við fyrirspurn minni um skráningu munnlegra upplýsinga kemur fram að sá umsækjandi sem hlaut starfið hafi verið eini umsækjandinn sem uppfyllti allar menntunar- og hæfniskröfur. Vegna þess bendi ég á að framar í skýringunum segir í svari við annarri spurningu að við yfirferð nefndarinnar á þeim sjö umsóknum sem borist höfðu innan tilskilins frests hafi komið í ljós að allir umsækjendur fullnægðu almennum hæfisskilyrðum eða lágmarkskröfum til að gegna starfinu, þ. á m. um menntun. Þegar skýringarnar eru virtar í heild sinni legg ég þann skilning í þær að nefndin hafi talið að allir umsækjendur uppfylltu hæfniskröfur og hafi komið til frekara mats. Ég fæ því ekki séð að það atriði hafi þýðingu fyrir það hvort borið hafi að skrá þær munnlegu upplýsingar sem fram komu í atvinnuviðtali við þann umsækjanda sem hlaut starfið. Í skýringunum segir einnig að nefndarmenn hafi verið einhuga um hvaða umsækjandi var ráðinn í starfið og ef á einhverjum tímapunkti hefðu komið upp vafaatriði hefði skráning verið ítarlegri. Af þessu tilefni tek ég fram að ég fæ ekki séð að þessar skýringar hafi þýðingu í ljósi þeirra skilyrða sem fram koma í 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga enda er skráningarskyldan ekki takmörkuð við vafa- eða ágreiningsatriði. Ég minni einnig á að skráningarskyldan er mikilvæg forsenda fyrir upplýsingarétti aðila máls og að forsendur ákvarðana liggi fyrir hjá stjórnvöldum.

Í skýringunum kemur einnig fram að við mat á umsækjendum hafi verið litið til eiginleika á borð við leiðtoga- og samskiptafærni. Þessi sjónarmið komu fram í auglýsingu um starfið. Í ljósi þess að litið var til slíkra huglægra þátta við matið, en upplýsingar um slíka þætti geta m.a. komið fram í atvinnuviðtali, gátu þær upplýsingar haft þýðingu fyrir úrlausn málsins en þær voru ekki að finna í öðrum gögnum þess. Það er álit mitt að það hefði verið í betra samræmi við 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga að upplýsingar um þessi atriði hefðu verið skráðar að því marki sem þær vörðuðu sjónarmið sem lögð voru til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið.

V Niðurstaða

Með vísan til framangreinds er niðurstaða mín sú að ég hafi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þann skilning sem Heilbrigðisnefnd Y leggur í orðalag auglýsingar um starfið hvað varðar kröfur til menntunar, þ.e. að með orðalaginu „framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi“ hafi aðeins verið gerð krafa um grunnpróf á háskólastigi en ekki meistarapróf. Aftur á móti tel ég að orðalag auglýsingarinnar hafi ekki verið nægjanlega skýrt um hvaða kröfur til menntunar væru gerðar. Auglýsingin hafi að því leyti ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Það er einnig niðurstaða mín að synjun Heilbrigðisnefndar Y á að veita A aðgang að hluta umbeðinna gagna, þ.e. gögnum sem varða aðra umsækjendur en þann sem hlaut starfið, hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli enda fór atviksbundið mat ekki fram eins og 17. gr. stjórnsýslulaga áskilur.

Þá er það niðurstaða mín að tilkynning um ákvörðunina hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga en í henni var ekki gerð grein fyrir nafni þess umsækjanda sem var ráðinn í starfið. Enn fremur er það niðurstaða mín að sá rökstuðningur sem A fékk fyrir ákvörðuninni hafi ekki verið fyllilega í samræmi við 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Að lokum er það niðurstaða mín að það hefði verið í betra samræmi við 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga að upplýsingar sem fram komu í viðtali við þann umsækjanda sem hlaut starfið hefðu verið skráðar að því marki sem þær vörðuðu sjónarmið sem lögð voru til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið.

Með vísan til dómaframkvæmdar og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut starfið tel ég þó ólíklegt að framangreindir annmarkar leiði til ógildingar á ráðningunni. Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um frekari réttaráhrif þessara annmarka, þar með talið hugsanlega skaðabótaábyrgð sveitarfélagsins gagnvart A, telji hann að Heilbrigðisnefnd Y hafi valdið sér bótaskyldu tjóni. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að höfða mál eða hver yrði líklega niðurstaða slíks máls.

Ég beini þeim tilmælum til Heilbrigðisnefndar Y að leyst verði úr beiðni A um aðgang að gögnum í samræmi við þau sjónarmið sem reifuð hafa verið í álitinu komi fram beiðni þess efnis frá honum. Jafnframt beini ég því til heilbrigðisnefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.

VI Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi heilbrigðisnefndar Y, dags. 16. febrúar 2017, í tilefni af fyrirspurn um málið, kemur fram að A hafi ekki óskað eftir að beiðni hans um aðgang að gögnum yrði tekin til nýrrar meðferðar. Þá segir að nefndin hafi tekið niðurstöður umboðsmanns til greina og muni vanda afgreiðslur mála í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu.