Opinberir starfsmenn. Endurupptaka. Breytingar á starfsskyldum ríkisstarfsmanns. Niðurlagning stöðu. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 2591/1998)

A og B kvörtuðu yfir synjun menntamálaráðherra á að viðurkenna að flutningur málmiðnaðardeildar frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti yfir í Borgarholtsskóla hefði einungis leitt til breytinga á starfsstöð þeirra og hafi því ekki átt að hafa áhrif á ráðningarkjör þeirra á grundvelli skipunarbréfa frá árunum 1979 og 1985. Vísuðu þeir til úrlausnar ráðuneytisins á máli kennara er starfaði við fornámsdeild er starfrækt hafði verið við Réttarholtsskóla en var flutt í Borgarholtsskóla við stofnun hans.
Í bréfi umboðsmanns, dags. 12. nóvember 1999, kom fram að þar sem meira en ár væri liðið frá því að ákvörðun var tekin um niðurlagningu á stöðum A og B gæti umboðsmaður, með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ekki tekið til athugunar hvort sú ákvörðun hefði verið reist á röngum lagagrundvelli eða að ekki hefði verið gætt jafnræðis við úrlausn málsins. Hins vegar gæti umboðsmaður tekið til skoðunar hvort synjun menntamálaráðuneytisins frá því í febrúar 1998 um að taka málið upp að nýju hefði verið í samræmi við lög. Umboðsmaður rakti ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku mála. Dró hann þá ályktun af lögskýringargögnum með ákvæðinu að stjórnvöldum kynni að vera skylt að taka upp mál að nýju á grundvelli ólögfestra reglna. Taldi hann að það gæti átt við þegar upplýst væri að ákvörðun hefði byggst á röngum lagagrundvelli eða verulegt misræmi væri á milli úrlausna stjórnvalds í sambærilegum málum. Umboðsmaður taldi að skipun þeirra frá 1979 og 1985 hefði aðeins náð til kennslustarfa við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Var hann því þeirrar skoðunar að það hefði vart fallið innan heimildar yfirmanns samkvæmt 33. gr. þágildandi laga, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954, að breyta störfum A og B með þeim hætti að þeim væri gert að kenna við málmiðnaðardeild Borgarholtsskóla á grundvelli skipunar þeirra frá 1979 og 1985. Kom því ekki til skoðunar af hálfu umboðsmanns hvort ráðuneytinu hefði verið skylt að endurupptaka ákvörðun sína um niðurlagningu á stöðum þeirra sökum þess að það hefði byggt úrlausn sína í öðrum málum á öðrum lagagrundvelli. Var það því niðurstaða umboðsmanns að ráðuneytinu hafi ekki verið skylt að endurupptaka mál A og B á grundvelli ólögfestra reglna. Þessu til frekari stuðnings vísaði umboðsmaður til þess að aðstæður við þær skipulagsbreytingar sem leiddu til þess að stöður A og B voru lagðar niður voru ekki fyllilega sambærilegar því tilviki þegar starfsstöð kennara við fornámsdeild við Réttarholtsskóla var færð til Borgarholtsskóla.