Fangelsismál. Framganga stjórnvalda í fjölmiðlum.

(Mál nr. 8729/2015)

A, B og C kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis yfir störfum forstjóra fangelsismálastofnunar, þ. á m. framgöngu hans í fjölmiðlum í tengslum við afplánun þeirra í fangelsinu Kvíabryggju.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi 21. september 2016.

Í tilefni af kvörtuninni átti umboðsmaður í bréfaskiptum og samtölum við forstjóra fangelsismálastofnunar. Þar kom m.a. fram afstaða umboðsmanns til þeirra lagareglna og sjónarmiða sem hann taldi að stjórnvöld og fyrirsvarsmenn þeirra yrðu að gæta að við upplýsingagjöf stjórnvalda, sérstaklega varðandi mál þeirra aðila sem stjórnvaldið hefði til umfjöllunar. Í kjölfarið setti forstjórinn fram yfirlýsingu þar sem hann féllst á afstöðu umboðsmanns, tók fram að betur yrði gætt að þessum atriðum til frambúðar og baðst persónulega og fyrir hönd stofnunarinnar velvirðingar gagnvart þeim sem báru fram kvörtunina. Í ljósi yfirlýsingarinnar ákvað umboðsmaður að ljúka málinu með bréfi til A, B og C. Enn fremur kom umboðsmaður á framfæri tilteknum ábendingum með bréfi til fangelsismálastofnunar auk þess sem innanríkisráðherra var ritað bréf í tilefni af þessu máli og áliti umboðsmanns í máli nr. 8544/2015 sem lokið var sama dag.

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, þá fanga á Kvíabryggju, sem barst mér 25. nóvember 2015. Kvörtunin lýtur að störfum forstjóra fangelsismálastofnunar, þ. á m. framgöngu hans í fjölmiðlum og meðferð fangelsismálastofnunar á tilgreindum málum sem yður varða.

Kvörtunin beinist einkum að tilteknum ummælum og upplýsingagjöf forstjóra fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum í tengslum við dvöl fanga í fangelsinu Kvíabryggju. Athugasemdir yðar beinast m.a. að ummælum forstjóra stofnunarinnar í fréttum um beiðnir fanga um að fá að neyta áfengis innan veggja fangelsisins, að almannatengslafyrirtæki hafi haft samband við hann vegna málsins sem og að hann hafi ýjað að því að tilteknir fangar hafi reynt að múta honum. Þá eru gerðar athugasemdir við framsetningu upplýsinga forstjóra fangelsismálastofnunar í tengslum við fyrirhugað reiðnámskeið fyrir fanga á Kvíabryggju. Í kvörtuninni er jafnframt gerð athugasemd við að nafngreindur kvikmyndagerðarmaður hafi fengið leyfi til að koma í fangelsið að Kvíabryggju og taka upp myndir af yður og ræða við aðra fanga um yður. Í kvörtuninni er byggt á því að framganga forstjóra fangelsismálastofnunar hafi verið í andstöðu við lög og vandaða stjórnsýsluhætti auk þess sem upplýsingagjöf hans hafi ekki verið sannleikanum samkvæm.

Svarbréf fangelsismálastofnunar í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst 28. janúar 2016 og athugasemdir yðar 11. febrúar s.á. Við undirbúning afgreiðslu þessa máls átti ég fund og samtöl við forstjóra fangelsismálastofnunar þar sem ég fór yfir og kynnti frekar tilefni athugunar minnar og þær lagareglur sem þar reynir á. Með yfirlýsingu sem forstjórinn afhenti mér 23. maí 2016 gerði hann frekari grein fyrir afstöðu sinni til atvika málsins og þeirra reglna sem þar áttu við. Gerð er grein fyrir efni yfirlýsingarinnar í III. kafla.

Í ljósi þessarar yfirlýsingar og þess sem fram hafði komið af hálfu forstjóra fangelsismálastofnunar um að betur yrði gætt að því hvernig hann og stofnunin tjái sig opinberlega þegar í hlut ættu málefni einstakra fanga taldi ég rétt að hinkra um stund með að ljúka afgreiðslu minni á þessu máli og sjá hvernig þær breytingar yrðu í raun. Af því sem ég hef átt kost á að fylgjast með sé ég ekki annað en að þessi áform hafi gengið eftir. Viðfangsefni þessa máls lítur öðrum þræði almennt að samskiptum starfsmanna fangelsismálastofnunar við fanga. Ég hef að undanförnu haft til athugunar aðra kvörtun sem einnig beinist að slíku og þá í samskiptum innan fangelsis. Ég hef ákveðið að ljúka þessum málum samhliða og vekja um leið athygli innanríkisráðherra með bréfi á mikilvægi þess að betur sé gætt að þessum málum og brugðist við ef frávik verða þar á. Í þessu sambandi hef ég sérstaklega í huga þá stöðu sem fangar eru í sem frelsissviptir einstaklingar gagnvart fangelsisyfirvöldum og fangavörðum eins og ég geri nánar grein fyrir í bréfi mínu til ráðherra og áliti mínu í máli nr. 8544/2015.

II

Eins og áður er rakið lýtur kvörtunin að framgöngu forstjóra fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum vegna tilgreindra tilvika og því að leyfi hafi verið veitt til þess að kvikmynda í fangelsinu á Kvíabryggju.

1

Um fyrsta atriðið er vísað til fréttar á vefmiðlinum mbl.is, sem birtist 10. október 2015 undir fyrirsögninni: „Fangar vilja rauðvín með matnum“ sem var svohljóðandi:

„„Það hafa komið fram beiðnir frá ákveðnum föngum um að fá að neyta rauðvíns og annarra áfengra drykkja með mat við sérstök tilefni. Því er að sjálfsögðu neitað.“

Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri, spurður í Morgunblaðinu í dag hvort fangar á Kvíabryggju hafi óskað eftir að fá að drekka rauðvín með matnum á þessu ári.

Páll ítrekar að ein og sama reglan gildi um alla fanga; að ekki mega neyta áfengis eða fíkniefna innan fangelsanna. Ekki skipti máli fyrir hvaða afbrot setið er inni né í hvaða fangelsi setið er því þessi regla nær yfir alla.“

Tveimur dögum síðar birtist frétt á sama vefmiðli þar sem fram kemur að fangar, sem sætu í fangelsinu á Kvíabryggju, vísuðu því á bug að einhver þeirra hafi óskað eftir að fá að neyta rauðvíns með mat innan veggja fangelsisins. Í yfirlýsingu fanganna kemur fram að fangelsisyfirvöld hafi auk þess staðfest að engin ósk um rauðvínsneyslu hafi borist embættinu frá neinum fanga sem hafi setið á Kvíabryggju vegna efnahagsbrota frá árinu 2008. Þá segir í fréttinni:

„Páll Winkel fangelsismálstjóri sagði að almannatengslafyrirtækið [Þ] hefði haft samband við sig vegna fréttar Morgunblaðsins á laugardag um þá ósk fanga á Kvíabryggju að geta drukkið rauðvín með mat.

„Ég veit ekki til hvaða fanga [Þ] er að vísa eða fyrir hverja þeir eru að vinna. Ég get því ekki svarað því hvort þeirra skjólstæðingar hafa beðið um rauðvín með mat eða ekki,“ sagði Páll. Hann sagði að fangi sem afplánaði dóm á Kvíabryggju hefði kvartað yfir því við starfsmenn fangelsisins að fá ekki að drekka rauðvín með mat.

Páll sagði sömu reglur gilda um fanga á Kvíabryggju og annars staðar, án tillits til þess fyrir hvaða brot þeir hefðu fengið dóm.“

Fjallað var um sama mál hjá öðrum fjölmiðlum í kjölfarið. Á vefmiðli Pressunnar, pressan.is, er í frétt sem birtist 16. desember 2015 m.a. vísað til þess að DV hafi óskað eftir svörum frá forstjóra fangelsismálastofnunar um beiðnir fanga um neyslu áfengra drykkja. Í fréttinni er jafnframt vísað til skriflegs svars forstjórans vegna málsins sem var svohljóðandi:

„Skriflegar beiðnir eru ekki til staðar enda eru mest samskipti fangavarða við fanga munnleg. Það er alltaf verið að spyrja um hitt og þetta og margt slegið út af borðinu strax í fæðingu. Fátt fer í kæruferil heldur tala menn saman. Ég hef ekki fengið afrit af formlegri kæru til ráðuneytis né hef ég fengið formlega kæru sjálfur vegna rauðvínsdrykkju skjólstæðinga.“

Í sömu frétt er jafnframt vikið að því að upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins hafi staðfest að engar kærur hafi borist ráðuneytinu frá föngum vegna slíkra mála.

Í öðru lagi er í kvörtuninni vísað til þess að í föstudagsviðtali Fréttablaðsins 6. nóvember 2015 hafi verið rætt við forstjóra fangelsismálastofnunar um starf hans og fangelsismál á Íslandi undir yfirskriftinni: „Hefur íhugað að kæra mútur“. Í viðtalinu segir m.a.:

„Hefurðu lent í því að menn séu að reyna að búa í haginn fyrir sig áður en þeir koma inn, gera sér vistina bærilegri? „Já, ég hef reglulega lent í því að einstaklingar sem eiga eitthvað undir sér, og þá er ég alls ekki endilega að tala um tengt hruninu, heldur frá þeim tíma sem ég byrjaði þá reyna menn ýmislegt. Menn v ilja reyna að komast snemma út og hafa það eins gott og hægt er, skiljanlega. En grundvallaratriðið er það og það er það sem ég segi öllum, ég ræði ekki málefni einstakra fanga við lögmenn né aðstandendur. Það eru allir fangar í mínum huga númer á blaði, vegna þess að mér ber að koma eins fram við alla og fara eftir reglunum. Jú, menn hafa reynt ýmislegt og það hefur nokkrum sinnum gerst, að ég hafi verið á nippinu með það að kæra til lögreglu mútur, en það hefur þó ekki farið þannig yfir línuna enn. En ég mun gera það ef til þess kemur. Ef borið verður fé á mig verður það kært.“

Í kvörtuninni segir um þessi ummæli: „Öllum sem lesa þessi ummæli er ljóst að þarna vísar [forstjórinn] til þeirra sem sæta fangelsisrefsingu „tengt hruninu“. Hann ýjar að því að þeir menn séu í hópi þeirra sem hafi „reynt ýmislegt“. Honum hefði a.m.k. verið í lófa lagið að taka fram ef svo væri ekki. Í viðtalinu kemur fram að með því að menn hafi „reynt ýmislegt“ á hann við beinar og óbeinar mútur.“

Í kvörtun yðar er einnig vísað til þess sem komið hafi fram hjá forstjóranum um aðkomu almannatengslafyrirtækja að málum tengdum yður. Þannig hafi forstjórinn í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 hjá Ríkisútvarpinu 11. nóvember 2015 fjallað um ýmis málefni fanga þar sem m.a. var komið inn á samskipti forstjóra við almannatengslafyrirtæki. Í viðtalinu spyr umsjónarmaður þáttarins forstjórann um reiðnámskeiðið og segir síðan: „Þegar þú ert að tala um þetta það einhvern veginn liggur í loftinu að þú sért að tala um Kvíabryggju og þetta fólk sem að í daglegu tali hefur verið nefnt útrásarvíkingar.“ Svar forstjórans var svohljóðandi:

„Ég ætla ekki að tala um það beinlínis en í rauninni, það sem ég segi er að þarna eru, það er mjög lítill hópur fanga sem hefur aðgengi að mörgum milljónum og það er mjög lítill hópur fanga sem notar almannatengslafyrirtæki til þess að eiga samskipti við mig eða fangelsismálayfirvöld. [...] Almannatengslafyrirtæki hefur haft samband við mig að biðja mig um að segja a, b og c eða segja ekki a, b og c og mér bara blöskraði það svo heiftarlega að ég hreinlega varð bara orðlaus.“

Hinn 21. nóvember 2015 var jafnframt vikið að málinu í vefmiðlinum Kjarnanum í tengslum við umfjöllun eiginkonu B í fjölmiðlum. Þar er haft eftir forstjóra fangelsismálastofnunar að hann geti ekki „eytt miklum tíma í svona athugasemdir aðstandenda eða almannatengslafyrirtækja“.

2

Í kvörtuninni kemur fram að B hafi í júní og júlí 2015 rætt óformlega við forstöðumann fangelsisins að Kvíabryggju um möguleikann á að fangar tækju þátt í reiðnámskeiði á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands að Hvanneyri. Samkvæmt gögnum málsins sendi B forstöðumanninum tölvupóst, dags. 9. ágúst 2015, vegna málsins. Meðfylgjandi var bréf þar sem óskað var eftir samþykki fyrir því að stunda tiltekið framhaldsskólanám við landbúnaðarháskólann á komandi vetri. Um væri að ræða námskeið við starfs- og endurmenntunardeild skólans sem hefði í nokkur ár boðið upp á tveggja ára námskeiðsröð fyrir áhugafólk í reiðmennsku undir yfirskriftinni „Reiðmaðurinn“. Námið skiptist í bóklegt og verklegt nám og var nánar vikið að útfærslu þess. Námskeiðið átti að hefjast í byrjun nóvember 2015. Þá var vísað til þess að tiltekinn kennari skólans hafi boðið upp á að verklega námið færi fram í reiðhöllinni að Bergi, sem er í næsta nágrenni við Kvíabryggju, og sami kennari væri tilbúinn að leggja nemum til hesta. Námskeiðið væri í boði fyrir alla fanga á Kvíabryggju en nemendur greiddu sjálfir allan kostnað við námið og bæri fangelsismálastofnun engan kostnað af því.

Samkvæmt skýringum fangelsismálastofnunar hringdi forstöðumaður Kvíabryggju í staðgengil forstjóra stofnunarinnar í september og bar umsókn B undir hann. Þá framsendi forstöðumaðurinn erindi B til fangelsismálastofnunar 2. september 2015 og óskaði eftir afstöðu hennar til málsins.

Forstöðumaður Kvíabryggju sendi B tölvupóst, dags. 28. október 2015, þar sem fram kom að hann „vildi að [hann] gæti tekið af allan vafa með þetta“. Forstjóri fangelsismálastofnunar hafi viljað skoða málið betur og ætli að reyna að gefa endanlegt svar tveimur dögum síðar. Þá sagði hann að „[fjölmiðlar væru] að undirbúa fár í kringum þetta sem enginn [þeirra myndi] koma vel út úr“. Sama dag áttu sér stað tölvupóstssamskipti milli forstjóra fangelsismálastofnunar og rektors landbúnaðarháskólans vegna málsins þar sem forstjóri óskaði eftir tilteknum upplýsingum um námskeiðið, m.a. um kostnað þess, ástæður þess að ákveðið hefði verið að bjóða upp á námskeiðið og hvort stæði til að bjóða sambærilegt nám við önnur fangelsi.

Í svarbréfi rektors, dags. sama dag, er bent á að endurmenntunardeild landbúnaðarháskólans stæði fyrir þessari námskeiðsröð. Vikið var að kostnaði við námið og kom fram að skólinn greiddi fyrir leigu á aðstöðu og laun kennara en nemendur þyrftu að greiða námsgögn sjálfir, þ.e. sjálf hrossin og reiðtygi. Ákveðið hefði verið að bjóða upp á námskeiðið þar sem fyrirspurn þess efnis hefði borist og væri alltaf brugðist við slíkum fyrirspurnum frá áhugasömum hópi fólks sama hvaðan þær kæmu. Svo framarlega sem námskeiðið gengi upp fjárhagslega fyrir skólann og aðstaða væri fyrir hendi væri hann boðinn og búinn til að bjóða upp á slíkt hvar sem er, hvenær sem er og fyrir hverja sem er. Forstjóri fangelsismálastofnunar sendi svarbréf, dags. 30. október 2015, þar sem hann tók fram að hann teldi ljóst að þetta námskeið myndi vekja athygli og hann myndi vísa öllum fyrirspurnum ráðuneyta og fjölmiðla til rektors enda væri þetta hvorki á ábyrgð fangelsismálastofnunar né bæri hún kostnað af þessu.

Af gögnum málsins má ráða að öryggisstjóri fangelsismálastofnunar hafi sent forstöðumanni Kvíabryggju tölvupóst, dags. 30. október 2015, þar sem ýmis atriði voru áréttuð í tengslum við námskeiðið og „það sem stofnunin [hefði] gefið grænt ljós á í tengslum við reiðnámskeið fanga“. Erindi öryggisstjórans var áframsent B 2. nóvember 2015 af hálfu forstöðumannsins þar sem sagði: „Hér er þetta komið.“ Þá er í bréfi hans vikið nánar að skilyrðum sem sett höfðu verið varðandi verklegan þátt námskeiðsins. Í kvörtuninni kemur fram að B hefði svarað daginn eftir og sagt að skilyrðin væru þess eðlis að námið nýttist ekki sem skyldi og væri því sjálfhætt við námið.

Hinn 10. nóvember 2015 birtist frétt á vefmiðli Vísis, visir.is, þar sem fjallað var um „[rándýrt] reiðnámskeið fyrir stönduga fanga Kvíabryggju“. Í fréttinni kemur fram að Landbúnaðarháskóli Íslands hefði skipulagt sérstakt reiðnámskeið fyrir fimm fanga Kvíabryggju. Send hefði verið inn beiðni til fangelsisyfirvalda þar sem óskað hefði verið eftir leyfi til að stunda slíkt nám. Námskeiðið væri dýrt og samkvæmt heimildum blaðsins væru það þeir bankamenn sem afplánuðu á Kvíabryggju sem vildu læra að sitja hest. Fyrirhugað námskeiðshald hefði verið slegið af daginn áður. Fram kemur að Vísir hefði borið málið undir forstjóra fangelsismálastofnunar sem hefði staðfest að svona væri í pottinn búið. Að lokum kemur fram að forstjórinn hefði greint frá því að námskeiðið hefði verið stoppað af á síðustu stundu og í því sambandi vísað í reglur um afplánun og jafnræði fanga sem og lög um fullnustu refsinga. Þá er eftir honum haft að: „Menn [gætu] ekki farið í nám út úr fangelsinu nema að uppfylltum skilyrðum sem [hefðu] ekki [verið] til staðar.“ Síðar sama dag birtist önnur frétt á sama vefmiðli undir fyrirsögninni „Páll Winkel furðar sig á reiðnámskeiðinu“ þar sem tölvupóstsamskipti rektors landbúnaðarháskólans og forstjóra fangelsismálastofnunar vegna námsins eru nánar rakin.

Í frétt vefmiðils Ríkisútvarpsins, ruv.is, 11. nóvember 2015 var fjallað um sama mál. Fréttin var unnin úr fyrrnefndu viðtali við forstjórann í morgunútvarpi Rásar 2. Þar var forstjórinn spurður hvort það stæði til að halda reiðnámskeið í kringum fangelsi landsins og hvort efnaðir fangar hefðu þrýst á það. Forstjórinn svaraði því neitandi og kvaðst hafa fengið fregnir af því að landbúnaðarháskólinn væri búinn að setja af stað reiðnámskeið á ákveðnum tíma í ákveðnu fangelsi og búinn að tryggja reiðskemmu í nágrenni fangelsisins. Í viðtalinu sagði forstjórinn í kjölfarið:

„Ég fór nú á stúfana og lagði spurningar fyrir þennan ágæta rektor sem stýrir þessum skóla og náttúrlega allt í þeim tóni að þetta væri þá eitthvað sem þeir væru að skipuleggja þá fyrir alla fanga landsins af einlægum áhuga á betrun fanga. Síðan fékk ég nú þau svör að bara stæði til að halda þetta við þetta eina fangelsi á þessum tiltekna tíma. [...] Mér fannst þetta bara forvitnilegt og ég áttaði mig strax á því að þetta var ekki eitthvað sem fangelsismálastofnun vildi standa fyrir þrátt fyrir að við séum ákaflega hrifin af því að fangar komist í nám o.s.frv. - þá er grundvallaratriðið jafnræði.“

Þá bætti forstjórinn við að síðan hafi komið í ljós að þegar málið hafi ratað í fjölmiðla þá hafi „einhverra hluta vegna [verið] hætt við þetta námskeið“.

3

Af gögnum málsins verður ráðið að forstjóri fangelsismálastofnunar hafi fengið tölvupóst, dags. 24. mars 2015, frá X í tengslum við gerð heimildamyndar sem hún sagði að væri í vinnslu og tengdist afleiðingum bankahrunsins á Íslandi. Óskað var eftir leyfi fyrir „einföldum upptökum á Kvíabryggju, síðla aprílmánaðar“ og bætt við að þetta „yrði afar fyrirferðarlítið og ætti ekki að ónáða fangana þar“. Í svarbréfi forstjórans sama dag kom fram að þetta væri ekkert mál. Einfaldast væri að hafa beint samband við forstöðumann Kvíabryggju en það þyrfti „að tryggja að ekki [yrðu] sýndar myndir af föngum og jafnframt að persónugreinanlegar upplýsingar [yrðu] ekki birtar.“ Þá spurði X hvort óska mætti eftir viðtali við fanga með leyfi forstöðumanns fangelsisins, þ.e. ef einhver fanganna heimilaði viðtal og að slíkt yrði þá staðfest fyrirfram. Forstjórinn svaraði að það væri „alveg sjálfsagt að ræða við fanga með þessum formerkjum“.

Hinn 10. maí 2015 sendi forstjóri fangelsismálastofnunar jafnframt bréf til starfsfólks fangelsisins að Kvíabryggju og kvaðst hafa rætt við forstöðumann þess „vegna sögusagna þess efnis að þekktur heimildamaður, Y, [ætlaði] sér að mynda í fangelsum landsins og jafnvel reyna að ná viðtölum við fanga sem ekki [hefði] verið gefin heimild fyrir. Miðað við sögusagnir [snerist] þetta um bankamenn í afplánun“. Í bréfinu áréttaði forstjórinn að starfsmenn gættu þess að allir sem kæmu í fangelsið hefðu samþykkt erindi. Engir heimsóknargestir kæmu nema þeir framvísuðu skilríkjum og þá aðeins þeir heimsóknargestir sem búið væri að samþykkja. Það sama ætti við um alla sem kæmu í þeim erindagjörðum að taka myndir, myndbönd o.s.frv. Engir aðrir kæmu inn í fangelsið en þeir sem fengið hefðu til þess heimild.

Af skýringum fangelsismálastofnunar verður ráðið að X kvikmyndagerðarmaður hafi mætt í fangelsið í lok apríl til að mynda fyrir hönd fyrirtækisins Z sem hafi unnið að heimildarmynd undir stjórn Y. X virðist hafa fengið leyfi til að taka viðtöl við tvo fanga en ekki við yður þrjá. Af gögnum málsins verður ráðið að óskað hafi verið eftir viðtali við C sjálfan vegna málsins en þér hafið hafnað því.

Samkvæmt skýringum fangelsismálastofnunar tilkynnti forstöðumaður fangelsisins föngum um komu tökuliðsins og tímasetningu. Þá hafi hann tekið á móti tökuliðinu við ytri mörk fangelsisins og fylgt þeim allan tímann sem það var á fangelsissvæðinu. Heimsóknin hafi staðið í um tvo tíma þar sem myndað hafi verið í sameign og útihúsum fangelsisins.

Í kvörtun yðar kemur fram sú afstaða að það hafi verið ætlun þess fimm manna tökuliðs sem mætti í fangelsið „að ná myndum af [yður].“ Þar sem það hafi ekki tekist hafi tökuliðið tekið viðtöl við aðra fanga „um hvernig það væri að vera í fangelsi með okkur.“ Þá segir m.a. í kvörtuninni að ekki verði séð að nein fagleg eða málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki þeirri ákvörðun að heimila kvikmyndatökuliðinu að koma í fangelsið eða að leyfa viðtöl við aðra fanga „þar sem markmið með spurningum er eingöngu að draga fram persónulegar upplýsingar um okkur. Við vorum heldur ekki spurðir eða aðvaraðir fyrirfram.“ Fram kemur sú afstaða yðar að um hafi verið að ræða augljóst brot á 16. gr. reglugerðar nr. 961/2005, um fullnustu refsinga.

III

Við athugun mína á málinu ritaði ég fangelsismálastofnun bréf, dags. 31. desember 2015, þar sem óskað var eftir að stofnunin og forstjóri hennar, að því marki sem kvörtunin beindist að upplýsingagjöf og framgöngu hans persónulega, lýstu rökstuddri afstöðu sinni til kvörtunarinnar.

Í svarbréfi fangelsismálastofnunar, dags. 28. janúar 2016, er í upphafi vikið almennt að upplýsingagjöf forstjórans til fjölmiðla og tilteknum ummælum þar. Þar kemur fram að meginmarkmið fangelsismálastofnunar með upplýsingagjöf sé að vinna í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012. Þá er bent á að fangar hafi ekki verið nafngreindir í svörum forstjóra fangelsismálastofnunar í þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem vísað hafi verið til í kvörtuninni. Markmið upplýsingagjafar hafi m.a. verið að efla traust almennings á stjórnsýslunni en mikil umfjöllun hafi verið í fjölmiðlum um meint brot stofnunarinnar á ýmsum reglum stjórnsýslulaga, ekki síst jafnræðisreglu. Forstjóra stofnunarinnar beri skylda til að svara fyrirspurnum fjölmiðla um slík málefni og styrkja þannig traust almennings, starfsfólks og skjólstæðinga á störfum stofnunarinnar. Eðli máls samkvæmt sé umfjöllun um fangelsismál viðkvæm og því mikilvægt að vanda upplýsingagjöf eins og frekast er kostur. Fangelsismálastofnun sé með til skoðunar hvort breyta eigi verklagi í samskiptum við fjölmiðla þannig að erindi til stofnunarinnar komi skriflega og þeim verði aðeins svarað skriflega. Markmið slíks verklags sé að vanda betur upplýsingagjöf og draga úr líkum á misskilningi eða ónákvæmni í svörum eða meðferð svara.

Í fyrirspurnarbréfi mínu til fangelsismálastofnunar var í fyrsta lagi vikið að fréttaflutningi um óskir um rauðvínsneyslu fanga og óskað eftir upplýsingum um hvort þær væru réttar, þ.e. að fangar á Kvíabryggju hefðu óskað eftir heimild til að neyta rauðvíns með mat. Í svarbréfi fangelsismálastofnunar kemur fram að tilvísanir fjölmiðla hafi verið ruglingslegar en rétt væri eftir haft að engin ósk þess efnis hefði borist embættinu frá neinum fanga sem setið hefði á Kvíabryggju vegna efnahagsbrota frá árinu 2008. Forstjóri fangelsismálastofnunar minntist þess ekki að hafa sagt að beiðnir um rauðvínsdrykkju fanga á Kvíabryggju hefðu komið fram.

Í öðru lagi var óskað eftir upplýsingum um hvort rétt væri haft eftir forstjóra á vefmiðli Morgunblaðsins að tiltekið almannatengslafyrirtæki hefði haft samband við forstjóra vegna fréttar á sama vettvangi 10. október 2015 auk fréttar á Kjarnanum. Þá var óskað eftir upplýsingum um til hvaða tilviks forstjórinn vísaði í ummælum um almannatengslafyrirtæki í morgunútvarpi Rásar 2 hjá Ríkisútvarpinu 11. nóvember 2015. Í svari fangelsismálastofnunar segir:

„Rétt er haft eftir forstjóra. Fulltrúi almannatengslafyrirtækis hafði símsamband á laugardegi í farsíma forstjóra vegna fréttar um meinta beiðni fanga um rauðvínsdrykkju og tjáði forstjóra að „hans menn“ á Kvíabryggju væru viðkvæmir fyrir slíkri umfjöllun án þess þó að hann tilgreindi hverjir „hans menn“ væru. Forstjóra fannst óeðlilegt að fulltrúi almannatengslafyrirtækis hefði samband við forstjóra utan vinnu með beiðni um frekari umfjöllun um tiltekið mál og sagði það við fulltrúa almannatengslafyrirtækisins. Fulltrúinn vildi nánar tiltekið að forstjóri gæfi út yfirlýsingu um að tiltekinn hópur fanga sem fyrirtækið vinnur fyrir hefði ekki óskað eftir neyslu áfengis.

Upplýsingar forstjóra, sem ekki voru persónugreinanlegar, enda honum ekki kunnugt um á þeim tímapunkti hverjir skjólstæðingar almannatengslafyrirtækisins voru, voru veittar á grundvelli og í samræmi við markmið upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er óskað eftir upplýsingum um til hvaða tilviks forstjóri vísaði í ummælum í morgunútvarpi Rásar 2 hjá Ríkisútvarpinu 11. nóvember 2015. Um er að ræða sama tilvik auk samtals sem fulltrúi sama almannatengslafyrirtækis átti við forstjóra á gangi Sundlaugar Vesturbæjar. Tekið skal fram að áreiti fjölmiðla var mikið á þessum tímapunkti og óþarfi af forstjóra að minnast á aðgengi fanga að fjármunum og aðkomu almannatengslafyrirtækis að málefnum fanga enda borgurum heimilt að velja sér aðstoðarmann eða umboðsmann í samskiptum við stjórnvöld. Framvegis verður tekið mið af því í störfum fangelsismálastofnunar.“

Í fyrirspurnarbréfi mínu óskaði ég í þriðja lagi eftir upplýsingum um hvort fangelsismálastofnun hefði veitt tökuliði kvikmyndatökumannsins Y heimild til að taka upp í fangelsinu á Kvíabryggju og ræða við yður. Í svarbréfi stofnunarinnar segir að fangelsismálastofnun hafi ekki veitt Y heimild til að taka upp í fangelsinu eða ræða við fanga. Hins vegar hefði X kvikmyndagerðarmaður haft samband við forstjóra fangelsismálastofnunar með tölvupósti 24. mars 2015 og voru samskipti forstjóra við hana vegna þeirrar heimsóknar nánar rakin, sbr. kafla II.3 hér að framan. Þá segir:

„Ræddi [X] við tvo fanga um lífið á Kvíabryggju en ekki var rætt um aðra nafngreinda fanga né persónuleg málefni annarra fanga enda [X] kunnugt um að óheimilt væri að afla persónugreinanlegra upplýsinga í heimsókninni í fangelsið. Viðtölin voru, að sögn [X], ekki birt í heimildamyndinni sem unnin var úr heimsókninni í fangelsið. [X] var tengiliður á Íslandi fyrir fyrirtækið [Z] sem vann endanlega heimildamynd þar sem [Y] sá um leikstjórn. Ekki var veitt heimild til viðtals við [B, C eða A]. Forstöðumaður tilkynnti öllum föngum munnlega fyrirfram að myndatökumenn hefðu fengið heimild til að mynda í fangelsinu vegna heimildamyndagerðar en þeir hefðu ekki heimild til að mynda í einkavistarverum fanga. Jafnframt upplýsti hann þá um hvenær þeir kæmu svo fangar gætu verið á klefum sínum ef þeir vildu ekki sjást. Forstöðumaður tók á móti tökuliðinu við ytri mörk fangelsislóðar og fylgdi tökumönnum allan tímann sem þeir voru á fangelsissvæði.

Fjölmiðlar fá reglulega heimild til myndatöku í fangelsum og var þessi afgreiðsla í samræmi við venjubundna afgreiðslu í slíkum tilvikum. Myndatökumenn voru um tvær klukkustundir á fangelsissvæðinu, í fylgd forstöðumanns, tóku myndir í sameign og útihúsum.“

Í svarbréfi fangelsismálastofnunar var því næst vikið að fyrirspurnum mínum í tengslum við reiðnámskeið fanga. Þar hafði ég m.a. óskað eftir upplýsingum um hvort föngum á Kvíabryggju hefði verið veitt leyfi fyrir reiðnámskeiðinu með tilteknum skilyrðum og ef svo væri hvernig það samrýmdist því sem fram hefði komið í viðtali við forstjóra stofnunarinnar að námskeiðið hefði verið stoppað af á síðustu stundu.

„Í september sl. hringdi forstöðumaður Kvíabryggju í staðgengil forstjóra fangelsismálastofnunar og bar undir hann umsókn frá [B] um nám í Landbúnaðarháskólanum að Hvanneyri (Reiðmanninum) á komandi hausti. Í framhaldi af því sendi hann formlega umsókn [B] ásamt tölvupósti frá honum. [...] Vegna þessarar beiðni óskaði fangelsismálastofnun eftir frekari upplýsingum um námskeiðið og fékk í kjölfarið staðfestingu frá háskólanum um að allur kostnaður vegna námskeiðsins yrði innheimtur í gegnum skólann og að hann myndi leigja aðstöðu undir kennsluna og borga kennurunum laun.

Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir um námskeiðið á þeim tíma, þ.e. að um væri að ræða námskeið sem væri fyrir alla fanga á Kvíabryggju, að um fjarnám væri að ræða sem færi fram í fangelsinu fyrir utan staðarlotur sem færu fram í reiðhöll á næsta bæ við Kvíabryggju, að leiðbeinandinn útvegaði hesta fyrir fangana, að enginn kostnaður félli á fangelsisyfirvöld vegna þessa og að allur kostnaður fanganna yrði greiddur beint til háskólans var forstöðumanni Kvíabryggju tjáð að fangelsismálastofnun gerði ekki sérstakar athugasemdir við námskeiðið. Nokkru síðar, 28. október 2015, hafði forstöðumaður Kvíabryggju samband við forstjóra fangelsismálastofnunar og sagði að svo virtist sem málið hefði undið upp á sig og væri ekki í samræmi við það sem upphaflega hefði verið samþykkt. Í ljós hefði komið að staðarloturnar væru mun fleiri en rætt hefði verið um í upphafi, viðvera fanga í reiðhöllinni vegna náms meiri og kostnaður fangelsisyfirvalda vegna fylgdar verulegur. Vegna framangreinds var óskað frekari upplýsinga áður en tekin yrði afstaða til þess hvort breyttar forsendur hefðu áhrif á heimild til náms. [...][Ekki reyndi] á synjun fangelsismálastofnunar þar sem fangarnir töldu skilyrði stofnunarinnar til að stunda námið ekki henta þeim og því sjálfhætt við námið.“

Þá kemur fram að fangelsismálastofnun hafi talið nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um námið. Stofnunin hafi fengið frekari upplýsingar um útfærslu námskeiðsins 28. október 2015 þar sem námskeiðið virtist ekki í samræmi við það sem upphaflega hafði verið samþykkt. Sama dag hefði forstjóri fangelsismálastofnunar sent bréf til rektors landbúnaðarháskólans. Vísað er til þess að fangelsismálastofnun hafi sett ákveðin skilyrði fyrir námskeiðinu sem á endanum leiddi til þess að umræddir fangar drógu umsókn sína til baka. Þá kom fram að forstjóri fangelsismálastofnunar hafi veitt fréttamanni Vísis afrit af tölvupóstsamskiptum sínum við rektor landbúnaðarháskólans í tengslum við málið á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Engar persónugreinanlegar upplýsingar hafi verið í þeim samskiptum og þá hafi ekki verið veittar upplýsingar um hvaða fangar ættu í hlut.

Athugasemdir yðar bárust mér með bréfi, dags. 11. febrúar 2016. Í kjölfarið átti ég samtöl við forstjóra fangelsismálastofnunar vegna málsins þar sem við fórum yfir einstök atriði þess. Ég taldi mikilvægt að fara yfir atvik í þessu máli með forstjóranum með tilliti til þeirra lagareglna sem ég tel að þar hafi reynt á, vandaðra stjórnsýsluhátta og evrópsku fangelsisreglnanna. Hafði ég þá sérstaklega í huga þá stöðu sem fangar eru almennt í sem frelsissviptir einstaklingar þegar kemur að umfjöllun fjölmiðla og annarri upplýsingagjöf um málefni fanga. Hinn 23. maí 2016 kom forstjórinn síðan til fundar við mig þar sem hann óskaði eftir að fá að koma að frekari sjónarmiðum í tilefni af athugun minni. Þau setti hann fram með svohljóðandi yfirlýsingu, dags. sama dag:

„Í bréfi sem ég ritaði umboðsmanni Alþingis fyrir hönd Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 28. janúar sl., kom ég á framfæri skýringum í tilefni af kvörtun þriggja fanga sem þá voru vistaðir í fangelsinu Kvíabryggju. Kvörtunin beindist m.a. að framgöngu minni í fjölmiðlum og tilteknum svörum mínum á þeim vettvangi auk þess sem gerðar voru athugasemdir við að fangelsismálastofnun hefði leyft tökuliði nafngreinds kvikmyndagerðarmanns að kvikmynda í fangelsinu Kvíabryggju.

Ég hef átt þess kost í framhaldi af áðurnefndu bréfi að fara nánar yfir einstök atriði í kvörtuninni með umboðsmanni Alþingis bæði í ljósi þeirra réttarreglna sem athugun hans beinist að og málsatvika. Þessi yfirferð gefur mér tilefni til þess að afhenda umboðsmanni Alþingis yfirlýsingu þar sem ég skýri nánar afstöðu mína til kvörtunarinnar.

Í bréfi umboðsmanns til fangelsismálastofnunar, dags. 31. desember sl., gerði hann grein fyrir þeim lagareglum og sjónarmiðum sem hann telur að stjórnvöld og fyrirsvarsmenn þeirra verði að gæta að við upplýsingagjöf stjórnvalda, sérstaklega þegar í hlut eiga mál þeirra aðila sem stjórnvaldið hefur til umfjöllunar. Umboðsmaður áréttaði einnig þær sérstöku lagareglur sem gilda um þagnarskyldu starfsmanna Fangelsismálastofnunar samkvæmt áðurgildandi lögum um fullnustu refsinga. Mér er það ljóst að í þeim tilvikum þar sem kvörtunin beinist að ummælum sem eftir mér voru höfð eða ég viðhafði beint í viðtölum var ekki nægjanlega gætt að þeim kröfum sem umboðsmaður lýsir í bréfi sínu. Á það bæði við um efni ummælanna og þær upplýsingar sem þar var vísað til. Ég hef áður í bréfinu frá 28. janúar sl. lýst þeirri afstöðu minni að ummæli mín um aðkomu almannatengslafyrirtækis fyrir hönd fanga voru óþörf enda borgurunum heimilt að velja sér aðstoðarmann eða umboðsmann í samskiptum við stjórnvöld. Að því er varðar þá heimild sem veitt var vegna kvikmyndatöku á Kvíabryggju er mér ljóst að betur hefði mátt standa að kynningu á því gagnvart föngum þar. Þótt eðlilegt geti verið að gefa slíkum aðilum og fjölmiðlum kost á að kynna sér aðstæður í fangelsum og taka þar myndir þarf jafnan að gæta þess að slíkt verði ekki til þess að raska þeim réttindum sem fangar njóta í fangelsum.

Ég tek að síðustu fram að ég persónulega og fyrir hönd Fangelsismálastofnunar biðst velvirðingar gagnvart þeim sem báru fram kvörtunina til umboðsmanns á því að hafa ekki nægjanlega gætt að ofangreindu um þau atriði sem kvörtunin beinist að.“

Ég gaf yður kost á að senda mér athugasemdir í tilefni af yfirlýsingunni og hinn 30. maí sl. tilkynntuð þér að ekki væri tilefni til frekari athugasemda af yðar hálfu.

IV

1

Kvörtun yðar lýtur í fyrsta lagi að upplýsingagjöf til fjölmiðla og tilteknum ummælum forstjóra fangelsismálastofnunar. Eins og áður er rakið beinast athugasemdir yðar einkum að ummælum forstjóra stofnunarinnar í fréttum um beiðnir fanga um að fá að neyta áfengis innan veggja fangelsisins, að almannatengslafyrirtæki hafi haft samband við hann vegna málsins sem og að hann hafi ýjað að því að tilteknir fangar hafi reynt að múta honum. Þá eru gerðar athugasemdir við framsetningu upplýsinga forstjórans í tengslum við fyrirhugað reiðnámskeið fyrir fanga á Kvíabryggju.

Af almennum valdheimildum og fyrirsvari viðkomandi stjórnvalds og forstöðumanns þess vegna tiltekins málaflokks má leiða að því sé að jafnaði heimilt og í sumum tilvikum rétt að birta opinberlega tilteknar upplýsingar um starfsemi sína. Markmiðið er þá að veita almenningi réttar og nákvæmar upplýsingar um viðkomandi málaflokk, starfshætti og lagalega umgjörð stjórnvalda. Framsetning upplýsinga t.d. á opinberum vefsvæðum verður þó hverju sinni að vera í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Upplýsingagjöf af þessu tagi er þannig háð bæði skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Stjórnvöld verða að gæta að ákvæðum laga um þagnarskyldu, persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Tryggja verður einkalífshagmuni þeirra, sem í hlut eiga, svo og aðra réttmæta hagsmuni borgaranna til þess að samskipti þeirra við stjórnvöld verði ekki borin á torg að ástæðulausu. Sjá til hliðsjónar álit mitt frá 18. febrúar 2013 í máli nr. 6518/2011 og álit setts umboðsmanns Alþingis frá 27. júní 2013 í máli nr. 7070/2012, en þar er m.a. fjallað um almenn sjónarmið í tengslum við upplýsingagjöf stjórnvalda.

Af álitunum verður jafnframt ráðið að stjórnvöld þurfa einnig að gæta hófs við opinbera framsetningu upplýsinga og leggja mat á tilefni til slíkrar upplýsingagjafar. Í þessu sambandi skiptir og máli að ákvarðanir stjórnvalda um birtingu slíkra samskipta verða að samrýmast réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, sem kveður á um að allar athafnir stjórnvalda verða að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Því verður stjórnvald að meta hverju sinni hvort málefnalegt geti talist að veita tilteknar upplýsingar og hvort það sé í samræmi við lög. Þá verða stjórnvöld einnig að gæta varúðar og meðalhófs við slíka upplýsingagjöf. Stjórnvöldum er þó til að mynda almennt heimilt að leiðrétta rangfærslur um úrlausn einstakra mála sem fengið hafa almenna umfjöllun í fjölmiðlum.

Stjórnvöld og þeir sem koma fram fyrir þeirra hönd verða jafnframt að gæta þess að upplýsingar og tilsvör sem veitt eru séu rétt að efni til og sett fram þannig að þau séu ekki til þess fallin að vekja upp hugmyndir um að atvik máls séu önnur en þau eru í raun eða varpa rýrð á aðila sem í hlut eiga.

Í 8. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sem felld voru úr gildi með lögum nr. 15/2016 sama efnis, var kveðið á um þagnarskyldu. Þar sagði að starfsmenn, m.a. fangelsismálastofnunar, beri þagnarskylda um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Þagnarskyldan taki til upplýsinga um einkahagi fanga og þeirra sem þeim tengjast og sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsingar er varða öryggi fangelsa og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Í þessu sambandi bendi ég á að einnig er kveðið á um þagnarskyldu opinberra starfsmanna í 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þá ber að minna á að í 14. gr. áðurnefndra laga nr. 70/1996 eru ákveðnar reglur um hvernig ríkisstarfsmanni ber að rækja starf sitt og þær skyldur sem af því leiða. Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umboðsmanni m.a. ætlað að hafa eftirlit með því að fylgt sé þeim siðareglum sem settar hafa verið fyrir ríkisstarfsmenn samkvæmt lögum nr. 70/1996.

Í yfirlýsingu forstjóra fangelsismálastofnunar, sem vísað er til að framan, kemur fram að honum sé ljóst að ummæli sem höfð voru eftir honum eða hann viðhafði beint í viðtölum gættu ekki nægjanlega að þeim kröfum sem ég hafði lýst í bréfi mínu til fangelsismálastofnunar, dags. 31. desember 2015. Það eigi bæði við um efni ummælanna og þær upplýsingar sem þar var vísað til. Jafnframt hefur hann persónulega og fyrir hönd fangelsismálastofnunar beðist velvirðingar gagnvart yður á því að hafa ekki nægjanlega gætt að þessu um þau atriði sem kvartað er yfir. Ég lít svo á að með þessari yfirlýsingu, sem gefin var í framhaldi af samtölum mínum við forstjórann, hafi hann fallist á réttmæti umkvartana yðar og það á einnig við um ummæli hans um aðgengi fanga að fjármunum og aðkomu almannatengslafyrirtækis að málefnum fanga. Ég tel því ekki tilefni til að fjalla hér frekar um atriði sem lúta að þeim ummælum forstjórans í fjölmiðlum sem kvörtunin fjallar um.

Ég tek þó fram að í meðfylgjandi bréfi mínu til forstjóra fangelsismálastofnunar, þar sem ég tilkynni honum um lyktir málsins, árétta ég nauðsyn þess að efni upplýsinga og tilsvara sem fangelsismálastofnun og starfsmenn hennar láta frá sér fara um málefni fanga séu að efni til réttar. Þá minni ég á að þess verði gætt að slík atriði séu ekki sett fram með orðalagi sem er til þess fallið að varpa rýrð á þá sem í hlut eiga eða gefa til kynna að málið varði aðra. Telji stofnunin eða forstjóri hennar að ekki sé rétt eftir haft í fjölmiðlum um málefni sem tengjast einstökum föngum minni ég á það úrræði að koma á framfæri leiðréttingu. Jafnframt fjalla ég þar um þagnarskyldu starfsmanna fangelsismálastofnunar um málefni fanga. Á það atriði getur t.d. reynt þegar fjallað er um óskir sem fangar setja fram um tilhögun við afplánun og hvað þeir megi taka sér fyrir hendur meðan á henni stendur.

Þá minni ég í bréfinu á nauðsyn þess að gætt sé að háttvísi í garð fanga þegar stofnunin telur þörf á að afla upplýsinga frá öðrum, þ.m.t. stofnunum ríkisins, vegna óska sem fangar hafa sett fram. Um slík bréfaskipti eins og önnur skjöl sem verða til í opinberri starfsemi kann að reyna á rétt almennings til aðgangs að þeim á grundvelli upplýsingalaga að virtum þeim reglum sem fylgja þarf um einkamálefni hlutaðeigandi. Ég hef þó enga afstöðu tekið til þess hvort slíkur réttur til aðgangs hafi átt við um þau tölvupóstsamskipti forstjóra fangelsismálastofnunar og rektors landbúnaðarháskólans sem sá fyrrnefndi afhenti fjölmiðli. Með tilliti til fyrirliggjandi yfirlýsingar forstjórans og þess sem fram hefur komið í samtölum mínum við hann lít ég svo á að vilji sé til að gæta betur að efni slíkra fyrirspurna framvegis að virtum þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst um stöðu fanga. Ég tel hins vegar að þegar fréttir birtust í fjölmiðlum af framkominni ósk um umrætt reiðnámskeið eftir að B hafði tilkynnt fangelsinu um að ekki yrði af námskeiðinu í ljósi þeirra skilyrða sem sett voru fyrir framkvæmd þess hefði verið réttara, m.a. með tilliti til fyrri afstöðu stofnunarinnar, að slíkt kæmi fram af hálfu hennar í stað þess að því væri svarað til að hætt hefði verið við námskeiðið „einhverra hluta vegna“.

2

Að því er varðar það atriði í kvörtun yðar að tiltekinn kvikmyndagerðarmaður hafi fengið leyfi til að koma í fangelsið að Kvíabryggju og taka upp myndir og ræða við aðra fanga um yður tek ég eftirfarandi fram.

Í 80. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, var ráðherra falið að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, þar á meðal reglur um fangelsismálastofnun og hlutverk hennar, t.d. um vinnslu persónuupplýsinga í stofnuninni og í fangelsum. Í reglugerð var einnig heimilt að mæla fyrir um t.d. viðtöl við fanga og talsmenn fanga í fjölmiðlum. Á þessum grundvelli hefur ráðherra sett reglugerð nr. 961/2005, um fullnustu refsinga. Í 16. gr. reglugerðarinnar er fjallað um aðgang að fjölmiðlum þar sem segir:

„Skrifleg umsókn um viðtal við fanga í fjölmiðli skal send fangelsismálastofnun. Þar skal koma fram við hvern óskað er viðtals, efni viðtals í meginatriðum og hvort óskað er eftir myndatöku eða hljóðritun. Þegar metið er hvort viðtal verður veitt skal fangelsismálastofnun einkum líta til alvarleika brots, hversu langt er liðið á afplánun fangans og hegðunar hans í refsivist. Viðtal verður ekki veitt ef talið er að það sé andstætt almannahagsmunum eða hagsmunum brotaþola.

Nú er um gæsluvarðhaldsfanga að ræða og ákveður þá sá sem rannsókn stýrir í viðkomandi máli að höfðu samráði við fangelsismálastofnun hvort viðtalið skuli heimilað.

Nú er veitt heimild til viðtals og skal þá í leyfinu kveðið á um hvernig því skuli háttað, þ.á m. um eftirlit með viðtalinu og að fangelsismálastofnun sé heimilað að skoða viðtal eða myndatöku í endanlegri mynd áður en það er birt eða sent út til að staðreyna hvort skilyrði fyrir viðtalinu eða myndatöku hafi verið uppfyllt í því skyni að tryggja að viðtalið teljist hvorki andstætt almannahagsmunum eða hagsmunum brotaþola.

Bein útsending viðtals er óheimil. Ekki er heimilt að nafngreina eða fjalla um persónuleg málefni annarra fanga í viðtali en þess sem viðtalið er við. Ekki er heimilt að mynda aðra fanga en viðtalið er við nema með þeirra samþykki. Forstöðumaður fangelsis ákveður hvar myndataka fer fram.“

Þá þarf að hafa í huga að þegar upp koma álitaefni sem tengjast aðgangi fjölmiðla að föngum og fangelsum kann eftir atvikum að reyna á vernd manna til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Hér ber að athuga að í fangelsinu á Kvíabryggju eru bæði sameiginleg rými allra fanga og klefar eða önnur rými þar sem einstakir fangar eru vistaðir. Leyfi sem veitt eru til kvikmyndatöku innan fangelsis eða viðtala í mynd við einstaka fanga kunna því að hafa áhrif á möguleika annarra fanga til að nýta sameiginleg rými fangelsisins meðan á kvikmyndatöku stendur og kvikmyndatökufólk er við störf í fangelsinu. Í ljósi þessa tel ég að fangelsisyfirvöld verði að fara varlega í að heimila slíka kvikmyndatöku í fangelsum og gæta þess að upplýsa þá fanga sem vistaðir eru í því rými eða hafa aðgang að því um slík leyfi með eðlilegum fyrirvara þannig að þeir geti haldið sig fjarri kvikmyndatökunni. Á móti kemur að það er mikilvægt að fjölmiðlar og aðrir kvikmyndatökuaðilar eigi kost á því, ef aðstæður leyfa og fangelsisyfirvöld telja að það geti samrýmst öryggi í fangelsinu og réttindum fanga, að taka myndir af aðbúnaði í fangelsum og vistarverum þeirra. Það er liður í upplýsingagjöf til almennings um þennan þátt opinberrar starfsemi. Á sama hátt verður þegar leyfi eru veitt til kvikmyndatöku og/eða viðtals við tiltekinn fanga að gæta þess að slíkt raski ekki réttindum annarra fanga.

Í því tilviki sem þér kvartið yfir liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að beiðnin til forstjóra fangelsismálastofnunar var sett fram í tengslum við gerð heimildamyndar sem væri í vinnslu og tengdist afleiðingum bankahrunsins á Íslandi. Óskað var eftir leyfi fyrir „einföldum upptökum á Kvíabryggju“ og tekið var fram að ekki ætti að ónáða fangana þar. Forstjórinn féllst á beiðnina og tók fram að tryggja þyrfti að ekki yrðu sýndar myndir af föngum eða birtar persónugreinanlegar upplýsingar. Fram kemur í gögnum málsins að sá sem bar fram beiðnina hafi spurt að því hvort óska mætti eftir viðtali við fanga með leyfi forstöðumanns fangelsisins og tekið fram að þetta ætti við ef einhver fanganna heimilaði viðtal og að slíkt yrði þá staðfest fyrirfram. Forstjóri stofnunarinnar samþykkti þetta með umræddum formerkjum.

Í lok kafla II.3 hér að framan er gerð grein fyrir þeim athugasemdum sem fram koma í kvörtun yðar um umrædda leyfisveitingu og viðtöl sem fóru fram í fangelsinu. Ég tek fram að ég tel að lög standi því ekki í vegi að fangelsismálastofnun veiti slík leyfi til kvikmyndatöku innan fangelsa enda sé þá gætt að þeim reglum sem settar hafa verið um þær og viðtöl við fanga sem og þeim almennu reglum, s.s. um friðhelgi einkalífs, sem vísað var til hér að framan. Eins og ég skil þá beiðni sem var tilefni komu kvikmyndagerðarfólksins í fangelsið þá var um að ræða efnisöflun vegna heimildamyndar sem tengdist afleiðingum bankahrunsins á Ísland. Ætla verður að beiðnin um að kvikmynda á Kvíabryggju hafi komið til í ljósi þess að fangelsisyfirvöld höfðu ákveðið að vista þá sem hlotið höfðu refsidóma í málum tengdu bankahruninu einkum á Kvíabryggju. Það gat því verið málefnalegt af hálfu fangelsismálastofnunar að heimila þeim sem unnu að heimildakvikmynd um ofangreint efni að taka „einfaldar“ upptökur á Kvíabryggju sem sýndu fangelsið og aðbúnað fanga almennt í því. Slíkt var þá liður í að upplýsa almenning um þessi atriði.

Ég tel hins vegar að þetta tilefni beiðninnar hefði átt að verða fangelsisyfirvöldum tilefni til að gæta vel að því að fangar sem voru vistaðir á Kvíbryggju væru upplýstir með nægjanlegum fyrirvara um komu kvikmyndagerðarfólksins í fangelsið þannig að þeir gætu haldið sig fjarri þeim stöðum í fangelsinu þar sem ætlunin var að kvikmynda. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við hvernig yður var gerð grein fyrir komu kvikmyndagerðarfólksins og því að það vildi ræða við fanga og að yðar sögn um hvernig væri að vera í fangelsi með yður. Í skýringum fangelsismálastofnunar kemur fram að forstöðumaður fangelsisins hafi tilkynnt öllum föngum munnlega fyrirfram um að veitt hefði verið heimild til að mynda í fangelsinu og með hvaða hætti. Forstjóri fangelsismálastofnunar hefur í þeirri yfirlýsingu sem hann afhenti mér 23. maí sl. tekið fram að honum sé ljóst að betur hefði mátt standa að kynningu á því gagnvart föngum á Kvíabryggju að heimild hefði verið veitt til kvikmyndatökunnar. Ég tek undir þetta með forstjóranum og bendi á að í tilvikum sem þessum kann að vera eðlilegra að kynna viðkomandi föngum slíkt með skriflegum hætti þannig að ekki rísi síðar vafi um efni kynningarinnar. Að öðru leyti tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um fyrirkomulag kynningarinnar.

Athugasemdir yðar lúta jafnframt að því að fangelsisyfirvöld hafi heimilað kvikmyndagerðarfólkinu að eiga viðtöl við aðra fanga þar sem markmið spurninganna hafi eingöngu verið að draga fram persónulegar upplýsingar um yður. Hér fyrr var gerð grein fyrir efni 16. gr. reglugerðar nr. 961/2005 og því hvernig forstjóri fangelsismálastofnunar heimilaði að kvikmyndagerðarfólkið mætti eiga viðtöl við fanga með leyfi forstöðumannsins ef viðkomandi fangi samþykkti það. Miðað við ákvæði 16. gr. reglugerðarinnar um efni skriflegrar umsóknar um viðtal við fanga í fjölmiðli og efni leyfis til viðtals við fanga verður ekki séð af fyrirliggjandi gögnum að þessum kröfum hafi fyllilega verið fylgt.

Nú hagar svo til í þessu máli að ekki var um að ræða leyfi til þess að eiga viðtal við yður heldur teljið þér að í þeim viðtölum sem heimiluð voru við aðra fanga hafi ekki verið fylgt reglu 4. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að óheimilt sé að fjalla um persónuleg málefni annarra fanga en þess sem viðtalið er við nema með samþykki þeirra. Í yðar tilviki hafi slíkt samþykki ekki legið fyrir. Samkvæmt skýringum fangelsismálastofnunar til mín ræddi kvikmyndagerðarfólkið við tvo fanga um lífið á Kvíabryggju en ekki var rætt um aðra nafngreinda fanga eða persónuleg málefni annarra fanga. Þá er upplýst að viðtölin voru ekki birt í heimildamyndinni. Samkvæmt þessu greinir yður og fangelsismálastofnun á um hvort þessir fangar hafi verið spurðir um atriði sem lutu að persónulegum málefnum yðar og efni viðtalanna hefur ekki verið birt svo mér sé kunnugt um. Eins og þetta mál liggur fyrir mér tel ég því ekki tilefni til að fjalla frekar um þetta atriði í kvörtun yðar. Í meðfylgjandi bréfi mínu til fangelsismálastofnunar kem ég hins vegar þeirri ábendingu á framfæri að betur verði gætt að fyrirkomulagi þessara mála og kynningu gagnvart föngum framvegis.

V

Í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísun til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með bréfi þessu sendi ég yður afrit af bréfum sem ég hef í dag sent fangelsismálastofnun og innanríkisráðherra m.a. í tilefni af athugun minni á þessu máli.





Bréf umboðsmanns Alþingis til fangelsismálastofnunar, dags. 21. september 2016, hljóðar svo:

I

Það tilkynnist hér með að ég hef lokið máli A, B og C með bréfi því sem hér fylgir í ljósriti. Þrátt fyrir að ég hafi nú lokið athugun minni á málinu tel ég rétt að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við fangelsismálastofnun með það í huga að þeim verði framvegis fylgt í starfi stofnunarinnar.

II

Eins og ég vísa til í bréfi mínu til þeirra sem báru fram kvörtunina þá ákvað ég að ljúka málinu með vísun til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Það geri ég með tilliti til þeirra samtala sem ég átti við yður, hr. forstjóri fangelsismálastofnunar, um efni kvörtunarinnar og þær lagareglur sem ég tel að þar skipti máli og síðan þeirrar yfirlýsingar sem þér afhentuð mér 23. maí sl. og rakin er í bréfinu. Þar tek ég líka fram að í ljósi þess sem fram kom hjá yður um að betur yrði gætt að því hvernig þér og stofnunin tjáðu sig opinberlega þegar í hlut ættu málefni einstakra fanga taldi ég rétt að hinkra um stund með að ljúka afgreiðslu minni á þessu máli og sjá hvernig þær breytingar yrðu í raun. Ég tek fram að af því sem ég hef átt kost á að fylgjast með sé ég ekki annað en að þessi áform hafi gengið eftir.

Í málum af því tagi sem hér er fjallað um þarf að hafa í huga þá stöðu sem fangar eru í sem frelsissviptir einstaklingar sem vistaðir eru undir umsjón og ákveðnu boðvaldi fangelsismálstofnunar og starfsmanna hennar, eins og ég geri m.a. nánar grein fyrir í máli nr. 8544/2015 sem ég hef lokið með áliti í dag. Þarna þarf því að hafa í huga þann mun sem er á jafnvægi milli aðila. Ég nefni hér einnig 2. mgr. 51. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, um aðkomu stofnunarinnar og forstöðumanna fangelsanna að því hvort heimila skuli fjölmiðlaviðtal við fanga. Þessi aðstaða kann að hafa áhrif á möguleika fanga til þess að bregðast við umfjöllun í fjölmiðlum um málefni þeirra, þ.m.t. af hálfu starfsmanna fangelsismálastofnunar, og leiðrétta það sem þeir telja rangfærslur. Ég tel því rétt að ítreka þær ábendingar sem ég kom á framfæri við forstjóra stofnunarinnar í samtölum okkar vegna þessa máls um að betur verði gætt að þessum atriðum framvegis í starfi fangelsismálastofnunar og af hálfu starfsmanna hennar. Ég mun jafnframt áfram fylgjast með því hvernig þessum þætti í starfi stofnunarinnar verður sinnt og þá m.a. með tilliti til þess hvort tilefni er til að fjalla frekar um slík mál af hálfu umboðsmanns Alþingis á grundvelli þeirrar heimildar sem fram kemur í 5. gr. laga nr. 85/1997.

III

Í bréfi mínu til þeirra sem báru fram kvörtunina fjalla ég um þær lagareglur og sjónarmið sem ég tel að stjórnvöldum og þar með talið fangelsismálstofnun og starfsmönnum hennar beri að fylgja við upplýsingagjöf til fjölmiðla og þá um leið umfjöllun um málefni einstaklinga sem falla undir eða tengjast starfi viðkomandi stjórnvalds. Um leið og ég vísa til þessarar umfjöllunar og ítreka að þessu leyti fyrri ábendingar mínar til stofnunarinnar, m.a. í samtölum við forstjóra stofnunarinnar, gefur það mál sem kvörtunin fjallar um sérstakt tilefni til þess að minna á eftirfarandi. Í tilsvörum og upplýsingum sem hafðar voru eftir forstjóra fangelsismálastofnunar, í tengslum við beiðnir „frá ákveðnum föngum“ á Kvíabryggju um að fá að neyta rauðvíns og beiðni tiltekinna fanga um að fá að sækja reiðnámskeið, var að mínu áliti ekki nægjanlega gætt að því að greint væri rétt frá staðreyndum málanna eins og þau hafa verið upplýst við athugun mína á kvörtuninni. Ég minni á að ef stjórnvald verður þess vart að ekki hafi verið rétt haft eftir því eða frásögn fjölmiðils af samskiptum við stjórnvaldið varpar ekki réttu ljósi á staðreyndir málsins kann að vera eðlilegt að stjórnvaldið bregðist við og komi á framfæri leiðréttingu. Að sama skapi er mikilvægt að frásögn og tilsvör fyrirsvarsmanna stjórnvalda og þær upplýsingar sem þeir láta fjölmiðlum í té eða afhenda séu ekki til þess fallnar að varpa rýrð á þá einstaklinga sem í hlut eiga eða gefa til kynna að málið varði aðra. Í tilviki fangelsismálastofnunar og starfsmanna hennar er þetta sérstaklega mikilvægt með tilliti til þeirrar stöðu sem fangar eru í gagnvart stofnunni og oft gagnvart almenningsálitinu.

Í bréfi mínu til fangelsismálastofnunar, dags. 31. desember 2015, rakti ég m.a. ákvæði þágildandi laga um þagnarskyldu starfsmanna fangelsismálastofnunar, sbr. nú 12. gr. laga nr. 15/2016. Eins og þessi lagaákvæði hljóða þarf það vissulega að koma til mats hverju sinni hvort umrædd þagnarskylda taki til óska sem fangar hafa sett fram um tilhögun við afplánun og hvað þeir megi taka sér fyrir hendur meðan á henni stendur. Þar kunna að leikast á einkahagsmunir þess fanga sem í hlut á og þeir almannahagsmunir að aðrir fangar og almenningur fái upplýsingar um hvernig staðið sé að úrlausn mála um beiðnir fanga að þessu leyti. Sé það niðurstaða fangelsisyfirvalda að veita upplýsingar um slík atriði verður hins vegar að gæta þess að rétt sé greint frá málsatvikum og að upplýsingarnar séu ekki settar fram með þeim hætti að kastað sé rýrð á þann sem í hlut á. Oft geta upplýsingar um hvernig almennt er leyst úr málum af tilteknu tagi komið í stað svara við fyrirspurnum um einstök mál. Þá árétta ég nauðsyn þess að þær beiðnir sem fangelsismálastofnun sendir til annarra opinberra stofnana í tilefni af óskum fanga, t.d. um fyrirkomulag afplánunar, nám eða þátttöku í námskeiðahaldi, séu settar fram þannig að gætt sé háttvísi í garð hlutaðeigandi fanga. Sama á einnig við um tilsvör og upplýsingagjöf vegna aðkomu aðstandenda fanga eða annarra sem þeir fá til þess að aðstoða sig eða gæta hagsmuna sinna vegna slíkra mála.

IV

Einn þáttur kvörtunarinnar beinist að leyfi sem veitt var til kvikmyndatöku á Kvíabryggju. Eins og ég rek í bréfi mínu til þeirra sem báru fram kvörtunina kann leyfi líkt og það sem hér um ræðir að vera eðlilegur þáttur í því að veita almenningi, fjölmiðlum og þeim sem t.d. vinna að gerð heimildamynda, upplýsingar um starfsemi fangelsa og aðbúnað þar. Af hálfu fangelsismálastofnunar hefur komið fram að leyfið hafi verið kynnt þeim föngum sem voru á staðnum með ákveðnum hætti og brýnt hafi verið fyrir hlutaðeigandi að gæta að persónulegri friðhelgi fanga á staðnum. Í kvörtuninni eru m.a. gerðar athugasemdir við kynninguna. Eins og fram kemur í yfirlýsingu yðar, hr. forstjóri, þá teljið þér að betur hefði mátt standa að kynningu á umræddri heimsókn kvikmyndatökuhópsins gagnvart föngum á Kvíabryggju. Ég tek undir það og tel rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri að slík kynning sé jafnan í skriflegu formi, enda mér vitanlega ekki um mörg tilvik að ræða, þannig að ekki fari á milli mála hvaða upplýsingar séu veittar og hvernig fangar geti brugðist við ef þeir telja slík leyfi ganga gegn hagsmunum þeirra. Þá tel ég, í samræmi við það sem ég rek í bréfi mínu til þeirra sem kvörtuðu, að gögn málsins beri ekki með sér að þeim formkröfum sem koma fram í 16. gr. reglugerðar nr. 961/2005 um efni leyfis til viðtala við fanga hafi fyllilega verið fylgt. Það er því ábending mín að betur verði gætt að þessum málum framvegis í starfi stofnunarinnar.

V

Ég tek að lokum fram að ég tel mikilvægt að máli þessu hafi getað lokið í kjölfar samtala við forstjóra fangelsismálastofnunar og þeirrar yfirlýsingar sem hann afhenti mér, sérstaklega þegar horft er til framtíðar. Fjölmörg atriði í samskiptum starfsmanna fangelsismálastofnunar og fanga eru í eðli sínu viðkvæm m.a. í ljósi þeirrar stöðu sem fangar eru í sem frelsissviptir einstaklingar undir ákveðnu boðvaldi starfsmanna stofnunarinnar. Ég hef því talið miklu skipta að geta sem umboðsmaður Alþingis með útskýringum og leiðbeiningum hvatt til umbóta í starfi fangelsanna og fangelsisyfirvalda. Yfirlýsing forstjóra fangelsismálastofnunar í þessu máli er í samræmi við það og framangreindar ábendingar mínar til áréttingar í því efni.

Með bréfi þessu fylgir einnig afrit af bréfi sem ég hef sent innanríkisráðherra þar sem ég kynni ráðherra niðurstöðu mína í þessu máli og álit í máli nr. 8544/2015.



Bréf umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra, dags. 21. september 2016, hljóðar svo:

Ég hef í dag lokið athugun minni á tveimur kvörtunum sem varða annars vegar framgöngu og ummæli [starfsmanns] í fangelsinu Litla-Hrauni gagnvart fanga, mál nr. 8544/2015, og hins vegar framgöngu forstjóra fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum og meðferð stofnunarinnar á tilgreindum málum sem varða þrjá fanga, þá á Kvíabryggju, mál nr. 8729/2015. Fyrra málinu hef ég lokið með áliti en hinu síðara með bréfi til þeirra sem báru fram kvörtunina og þá fyrst og fremst í ljós yfirlýsingar sem forstjóri fangelsismálastofnunar afhenti mér við athugun mína á málinu. Með bréfi til fangelsismálastofnunar hef ég jafnframt komið á framfæri tilteknum ábendingum í framhaldi af athugun minni á síðarnefnda málinu.

Ástæða þess að ég tel rétt að senda yður afrit af framangreindu áliti og bréfum er sú að það er sameiginlegt þessum málum að þau lúta öðrum þræði almennt að samskiptum starfsmanna fangelsismálastofnunar við fanga. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, fer innanríkisráðherra með yfirstjórn fangelsismála og hefur því auk þeirra sérstöku verkefna sem mælt er fyrir um í þeim lögum almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir með málaflokknum í samræmi við IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Þá hafa erindi vegna tiltekinna þátta þessara mála verið send til ráðuneytisins áður en þau komu til athugunar hjá mér.

Með því að upplýsa yður sérstaklega um lyktir athugana minna á þessum málum og þar með efni þeirra og atvik kem ég þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að það sé á varðbergi um að gætt sé að þeim reglum og sjónarmiðum sem ég lýsi í álitinu og bréfunum, í samræmi við yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir sínar. Ég minni á að sem frelsissviptir einstaklingar undir ákveðnu boðvaldi fangelsanna, eru fangar almennt í sérstakri stöðu gagnvart fangelsismálastofnun og starfsmönnum hennar, þ.m.t. fangavörðum. Af þessari aðstöðu leiðir að mínu áliti að þegar í hlut eiga stjórnendur stofnunarinnar og fangelsanna þurfi ráðuneytið sérstaklega að hafa í huga þær skyldur sem á því hvíla í samræmi við yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir þess. Kann það eftir atvikum að þurfa að bregðast við að eigin frumkvæði, sjá álit setts umboðsmanns frá 7. júlí 2009 í máli nr. 5718/2009 og frá 17. nóvember 2010 í máli nr. 5347/2008 og álit mitt frá 8. febrúar 2012 í máli nr. 6259/2011. Í þessum skyldum getur falist að ráðuneytið þurfi að ganga eftir því að brugðist sé við af hálfu stofnunarinnar með viðeigandi hætti þegar upp koma tilvik í innra starfi hennar sem og í samskiptum við fanga. Enn fremur getur hvílt skylda á ráðuneytinu til að bregðist sjálft við ef það metur það svo að upplýsingagjöf, tilsvör og ummæli fyrirsvarsmanna stofnunarinnar í fjölmiðlum séu ekki í samræmi við þær reglur og sjónarmið sem ég hef reifað í áðurnefndu áliti og bréfum.

Eins og áður sagði hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á máli nr. 8729/2015 fyrst og fremst í ljósi yfirlýsingar forstjóra fangelsismálastofnunar sem hann afhenti mér í framhaldi af bréfi mínu til stofnunarinnar og samtölum okkar um málið. Í þeim samtölum gerði ég forstjóranum grein fyrir þeirri afstöðu minni að í framgöngu hans og tilsvörum í fjölmiðlum, í þeim tilvikum sem kvörtunin beindist að, hefði verið um að ræða umtalsverð frávik frá því sem ég sem umboðsmaður Alþingis teldi samrýmast þeim lagareglum og sjónarmiðum sem honum sem forstöðumanni opinberrar stofnunar hefði borið að fylgja. Ég tel rétt að upplýsa ráðuneyti yðar um þetta með hliðsjón af þeim tilvikum sem síðar kann að reyna á við ofangreint eftirlit ráðuneytisins.

Meðfylgjandi eru afrit af áliti mínu í máli nr. 8544/2015 og tilvitnuð bréf vegna máls nr. 8729/2015. Ég minni á að í niðurstöðu álitsins koma fram tilmæli til innanríkisráðuneytisins vegna þess máls.

VI Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 12. apríl 2017, í tilefni af fyrirspurn um málið, er upplýst um að ráðuneytið hafi í kjölfar álitsins óskað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun um hvernig staðið sé að upplýsingagjöf til erlendra fanga í fangelsum ríkisins með hliðsjón af 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Í greinargerð Fangelsismálastofnunar hafi komið fram að við upphaf afplánunar sé föngum afhent sérstakt upplýsingablað sem sé til bæði á íslensku og ensku en þar komi fram helstu upplýsingar um réttindi fanga og skyldur og þær reglur sem gilda um afplánun. Þá séu föngum kynntar Reglur fangelsa sem gilda í öllum fangelsum ríkisins en þær séu einnig til í enskri og þýskri þýðingu. Lög um fullnustu refsinga séu aðgengileg í öllum fangelsum, bæði á íslensku og ensku, sem og reglugerð um fullnustu refsinga (einvörðungu á íslensku). Þá séu föngum kynntar sérreglur sem gilda í hverju fangelsi fyrir sig, þ.e. svokallaðar húsreglur hvers fangelsis, sem og aðrar reglur sem gilda um afplánun þeirra þar. Þessar reglur séu eingöngu til á íslensku en í framkvæmd hafi fangaverðir farið yfir þær með erlendum föngum á ensku en í öðrum tilvikum sé kallaður til túlkur sem fari yfir reglurnar.

Þá segir í bréfi ráðuneytisins að Fangelsismálastofnun vinni að gerð nýs innkomubæklings sem ætlaður sé til afhendingar föngum þegar þeir hefja afplánun. Í þeim bæklingi verði að finna allar þær reglur sem að framan greinir, auk annarra reglna sem gildi um afplánun fanga og þörf þykir á að afhenda. Þá verði útbúnir nýir upplýsingabæklingar fyrir öll fangelsin sem innihaldi húsreglur þeirra sem og aðrar sérreglur hvers fangelsis. Þessir bæklingar verði þýddir á ensku og pólsku. Auk þessa hafi Fangelsismálastofnun ítrekað við forstöðumenn fangelsa að allar tilkynningar til fanga og aðrar upplýsingar þurfi ávallt að vera aðgengilegar á ensku en ef þurfa þyki verði kallað á túlk til að fara yfir efni þeirra með þeim föngum sem ekki skilji ensku.

Fangelsismálastofnun var sent afrit af álitinu til upplýsingar. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 23. desember 2016, er m.a. upplýst um að við upphaf afplánunar sé föngum afhent sérstakt upplýsingablað þar sem fram komi helstu upplýsingar um afplánun þeirra. Sé það bæði til á íslensku og í enskri þýðingu. Þá séu fangelsisreglur jafnframt til í enskri þýðingu sem og ný lög um fullnustu refsinga. Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í fangelsinu, þar sem A var vistuð áður en hún fór í opið fangelsi, var henni afhent upplýsingablaðið við upphaf afplánunarinnar ásamt því að vera upplýst um aðrar reglur sem um afplánun gildi. Henni hafi því ekki verið afhent slíkt blað aftur þegar hún var flutt í opna fangelsið. Hins vegar hafi hún verið látin undirrita samkomulag um vistun sína þegar hún fór þangað en það hafi verið á íslensku. Fangaverðir hafi þó farið vel yfir efni þess með henni á ensku þannig að hún hafi skilið það. Fangelsismálastofnun telji þó betra að slíkt samkomulag sé til á ensku og muni ráðast í þýðingu á því sem fyrst.