Fangelsismál. Upplýsingagjöf til fanga.

(Mál nr. 8910/2016)

A, erlendur afplánunarfangi sem ekki var mælt á íslensku, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun forstöðumanns fangelsis um að beita hana agaviðurlögum sem fólust í flutningi úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi. Athugasemdir í kvörtun A lutu m.a. að því að henni hefðu ekki verið kynntar reglur fangelsisins á tungumáli sem hún gæti skilið. Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að A hefði verið gerð grein fyrir tilvist og inntaki allra reglna í fangelsinu munnlega á ensku og henni jafnframt afhent skrifleg samantekt reglnanna á íslensku. Umboðsmaður ákvað að afmarka umfjöllun sína í álitinu við það hvort þessi upplýsingagjöf til A við upphaf afplánunar hennar í fangelsinu hefði verið í samræmi við lög um fullnustu refsinga.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 hefði verið skylt við upphaf afplánunar að afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur, þær upplýsingar sem tilgreindar voru í ákvæðinu. Af texta ákvæðisins yrði ráðið að skylt hefði verið að veita fanga upplýsingar bæði skriflega og munnlega. Með vísan til athugasemda í lögskýringargögnum að baki ákvæðinu, markmiðs þess og þeirra vísbendinga sem ráðnar urðu af samsvarandi ákvæði í nýjum lögum um fullnustu refsinga taldi umboðsmaður að skylt hefði verið samkvæmt því að bæði afhenda og kynna fanga samantekt reglna um þau atriði sem tilgreind voru í ákvæðinu á tungumáli sem hann skildi. Var það niðurstaða umboðsmanns að upplýsingagjöf fangelsisins til A við upphaf afplánunar hennar þar hefði ekki verið í samræmi við kröfur 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005.

Umboðsmaður tók fram að í áliti sínu frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999 hefði hann beint þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að leitast yrði við að ljúka við að framkvæma sem fyrst þær ráðstafanir til bættrar upplýsingagjafar til fanga sem ráðuneytið hefði boðað og lutu m.a. að því að útbúa upplýsingabækling handa íslenskum og erlendum föngum. Þessum tilmælum hefði verið fylgt eftir af hálfu Alþingis með lagabreytingum. Taldi umboðsmaður að a.m.k. í tilviki hlutaðeigandi fangelsisins hefði skort á að brugðist hefði verið með fullnægjandi hætti við þessum tilmælum. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að gerð yrði úttekt á stöðu upplýsingagjafar til erlendra fanga í fangelsum landsins og gripið til viðeigandi ráðstafana af þess hálfu til þess að henni yrði sem fyrst komið í viðunandi horf samkvæmt gildandi lögum.



I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 19. maí 2016 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun forstöðumanns fangelsisins X að beita hana agaviðurlögum í fangelsi sem fólu í sér flutning úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi. Í kvörtuninni voru m.a. gerðar athugasemdir við að ákvörðunin hafi ekki verið reist á fullnægjandi upplýsingum og að hún hafi ekki verið tilkynnt A með nægum fyrirvara. Þá beindust athugasemdir í kvörtuninni að því að reglur fangelsisins hefðu ekki verið kynntar fyrir A og að samkomulag á íslensku sem henni var gert að undirrita hefði ekki verið þýtt fyrir hana á tungumál sem hún skilur.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og skýringar innanríkisráðuneytisins hef ég ákveðið að afmarka umfjöllun mína í þessu áliti við það hvort upplýsingagjöf fangelsisyfirvalda til A við upphaf afplánunar hennar í fangelsinu X hafi verið í samræmi við þágildandi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. nú 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016, um sama efni. Fyrir liggur að A fékk afhent skriflega samantekt um reglur varðandi tiltekin réttindi og skyldur fanga á íslensku sem hún skilur ekki. Henni voru aftur á móti kynntar reglurnar munnlega á ensku sem er tungumál sem hún skilur.

Ég hef lokið umfjöllun minni um önnur atriði í kvörtun A með bréfi til hennar, dags. í dag.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 16. desember 2016

II Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins er A erlendur ríkisborgari og ekki læs á íslensku. Í febrúar 2016 hóf hún afplánun fangelsisrefsingar í fangelsinu X sem telst opið fangelsi. Í gögnum málsins liggur fyrir samkomulag milli A og fangelsisins á íslensku, dags. 24. febrúar 2016, um afplánun hennar þar. Þar kemur fram að fangi samþykki að hlíta þeim reglum sem gildi í fangelsinu og honum hafi verið kynntar. Fangi skuli ávallt halda sig innan afmarkaðs fangelsissvæðis nema annað sé sérstaklega heimilað. Í samkomulaginu kemur fram að rjúfi fangi samkomulagið eða gerist brotlegur við reglur sem um afplánun gilda geti það leitt til flutnings í lokað fangelsi. Meðal gagna málsins eru einnig reglur um hegðun fanga í fangelsinu X á íslensku sem eru undirritaðar af A.

Með ákvörðun forstöðumanns X, dags. 6. maí 2016, voru A gerð agaviðurlög vegna brots gegn [reglum fangelsisins]. A skaut ákvörðun forstöðumanns fangelsisins X til innanríkisráðuneytisins með kæru, dags. 10. maí 2016. Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 18. maí 2016, var ákvörðunin staðfest. Í úrskurðinum var tekið fram að við athugun á því hvort flutningur í lokað fangelsi kæmi til álita yrði að mati ráðuneytisins að líta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þess hvort beiting annarra agaviðurlaga samkvæmt lögum um fullnustu refsinga gæti þjónað sama tilgangi. Féllst ráðuneytið á það með forstöðumanni fangelsisins X að við slíkt mat væri rétt að líta til þess að fangi sem vistaður væri í opnu fangelsi nyti tiltekinna réttinda umfram aðra fanga og í samræmi við það mætti gera ríkari kröfur til hegðunar hans. Þá var áréttað í því sambandi að fangar sem vistaðir væru í fangelsinu X, þ.m.t. A, undirrituðu sérstakt samkomulag um vistun þar og mætti því vera ljóst að agabrot gæti haft í för með sér flutning í lokað fangelsi.

III Samskipti umboðsmanns og stjórnvalda

Gögn málsins bárust frá innanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 30. maí 2016. Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 28. júní 2016, var óskað eftir afriti af samkomulagi A og fangelsisins X sem vísað hefði verið til í úrskurði ráðuneytisins ásamt upplýsingum um hvort umrætt samkomulag, og eftir atvikum þær reglur sem þar kynni að vera vísað til, hefði verið kynnt A á tungumáli sem hún gæti skilið. Svör ráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 30. júní 2016. Með bréfinu fylgdi afrit af áðurgreindu samkomulagi A við fangelsið X, dags. 24. febrúar 2016. Í bréfi ráðuneytisins var tekið fram að samkvæmt upplýsingum þess kynni A góð skil á ensku og hefði henni verið gerð grein fyrir texta skjalsins á því tungumáli áður en hún undirritaði það.

Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 19. júlí 2016, óskaði ég eftir nánari upplýsingum og skýringum vegna málsins. Ég óskaði m.a. eftir upplýsingum um hvort og þá með hvaða hætti A hefðu verið kynntar reglur viðkomandi fangelsis og hvaða háttsemi gæti varðað agaviðurlögum. Þá óskaði ég jafnframt eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort meðferð á máli A hefði að þessu leyti verið í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. nú 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016, um sama efni.

Í skýringum ráðuneytisins til mín, dags. 18. október 2016, kom eftirfarandi fram:

„Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins fóru samskipti fangavarða og [A] fram á ensku. Var henni gerð grein fyrir tilvist og inntaki allra reglna í fangelsinu ásamt því hvaða háttsemi kynni að baka fanga agaviðurlög á því tungumáli. Mun hún kunna góð skil á ensku sbr. það sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins frá 30. júní 2016. Afstaða ráðuneytisins hvað þetta atriði varðar er að farið hafi verið að í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga um fullnustu refsinga 49/2005 sbr. nú 4. mgr. 23. gr. um sama efni nr. 15/2016. Meðfylgjandi eru reglur fangelsisins undirritaðar af [A].“

Athugasemdir A við svör ráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 1. nóvember 2016.

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur málsins

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sem í gildi voru þegar A undirritaði áðurgreint samkomulag 24. febrúar 2016, var að finna svohljóðandi ákvæði um upplýsingagjöf til fanga við upphaf afplánunar:

„Við upphaf afplánunar skal afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur, samantekt um þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varðar agaviðurlögum, um meðferð slíkra mála, upplýsingar um hvert fangi geti skotið ákvörðunum er varða fullnustu refsingarinnar og upplýsingar um heimild til að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis, svo og rétt fanga til að hafa samband við lögmann.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna kom m.a. eftirfarandi fram:

„Í greininni er fjallað um hvaða upplýsingar fangar, innlendir sem erlendir, skuli fá þegar afplánun hefst. Ákvæðið er nýmæli sem tekur mið af evrópsku fangelsisreglunum og dönsku fullnustulögunum. Telja verður eðlilegt að fangar fái þegar við upphaf afplánunar allar þær upplýsingar sem um afplánunina gilda, svo og um réttindi sín og skyldur.

Ákvæðið á enn fremur rót sína að rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2805/1999 sem var frumkvæðisathugun um ýmis réttindamál fanga. Lauk henni í nóvember 2001. Í áliti umboðsmanns kom m.a. fram að þær upplýsingar sem fangar fengju um réttarstöðu sína við upphaf afplánunar væru ekki samræmdar. Gerði umboðsmaður m.a. athugasemdir við að í þeim upplýsingum kæmi ekki fram að fangar gætu leitað í trúnaði til umboðsmanns Alþingis, skriflega eða símleiðis, og ekki væri getið skrifstofu hans eða símanúmers. Þá taldi umboðsmaður rétt að upplýsingar um rétt og skyldur fanga við upphaf afplánunar væru einnig til í enskri þýðingu.“ (Alþt. 2004-2005, A-deild, bls. 1446.)

Þegar lög nr. 49/2005 voru sett voru í gildi evrópskar fangelsisreglur frá árinu 1987, sbr. tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 12. febrúar 1987 (Recommendation No. R(87)3). Í 1. mgr. 41. gr. þeirra var að finna ákvæði þess efnis að öllum föngum skyldi við upphaf afplánunar veittar skriflegar upplýsingar um nánar tiltekin atriði. Í 2. mgr. 41. gr. var tekið fram að ef fangi skildi ekki skriflegu upplýsingarnar bæri að útskýra þær munnlega.

Framangreindar fangelsisreglur voru leystar af hólmi með endurskoðuðum evrópskum fangelsisreglum árið 2006, sbr. tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 11. janúar 2006 (Recommendation Rec(2006)2). Í 1. mgr. 30. gr. þeirra er nú að finna svohljóðandi ákvæði:

„At admission, and as often as necessary afterwards all prisoners shall be informed in writing and orally in a language they understand of the regulations governing prison discipline and of their rights and duties in prison.“

Í athugasemdum við ákvæðið í viðauka með tilmælum ráðherranefndarinnar kemur fram að reglan undirstriki mikilvægi þess að upplýsa fanga um réttindi og skyldur á tungumáli sem þeir skilja.

Í aðfararorðum tilmælanna er m.a. skírskotað til reglna Sameinuðu þjóðanna um lágmarksviðmið um aðbúnað fanga, sbr. nú ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 17. desember 2015 (A/RES/70/175). Í 54. gr. þeirra er fjallað um hvaða upplýsingar eigi að veita fanga. Í 1. mgr. 55. gr. er síðan kveðið á um að þær upplýsingar skuli vera aðgengilegar á þeim tungumálum sem eru algengust meðal fanga á viðkomandi stað. Síðan segir að ef fangi skilji ekki þessi tungumál skuli leitað aðstoðar túlks.

Lög nr. 49/2005 féllu úr gildi 30. mars 2016 við gildistöku laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016 er nú að finna ákvæði sem er samsvarandi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 að því undanskildu að bætt hefur verið við ákvæðið tveimur nýjum málsliðum varðandi afplánunarbréf og upplýsingar um lok afplánunar og reynslulausn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Í 4. mgr. er að finna ákvæði þar sem lögð er leiðbeiningarskylda á fangelsisyfirvöld. Mikilvægt er að kynna fanga þær reglur sem gilda í fangelsum landsins, hvert hann getur leitað, telji hann brotið á sér, og hvaða réttindi og skyldur hann hefur. Fjöldi einstaklinga af erlendum uppruna eru vistaðir í fangelsum hérlendis og því nauðsynlegt að tryggja að þeir fái upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja. Ákvæðið tekur mið af 30. gr. evrópsku fangelsisreglnanna og 7. gr. dönsku fullnustulaganna, sjá lov om straffefuldbyrdelse. Ákvæðið á enn fremur rót sína að rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2805/1999 sem varðar réttindamál fanga.“ (145. löggjafarþing 2015-2016, 332. mál, þskj. 399, bls. 47.)

2 Var upplýsingagjöf til A í samræmi við lög um fullnustu refsinga?

Eins og áður greinir liggur fyrir að það samkomulag sem A undirritaði við fangelsið X við upphaf afplánunar hennar þar og sú samantekt þeirra reglna um hegðun fanga í sama fangelsi, sem henni var afhent og hún undirritaði, eru á íslensku, sem er tungumál sem A skilur ekki. Í þessum skjölum koma fram mikilvægar upplýsingar um afplánun í umræddu fangelsi, m.a. um hvaða háttsemi geti varðað agaviðurlögum. Samkvæmt skýringum innanríkisráðuneytisins var A gerð grein fyrir tilvist og inntaki allra reglna í fangelsinu á ensku en hún mun skilja það tungumál vel. Það er afstaða ráðuneytisins að þessi háttur á upplýsingagjöf til A við upphaf afplánunar hennar í fangelsinu hafi verið í samræmi við þágildandi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. nú 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016, um sama efni. Athugun mín hefur, sem fyrr greinir, lotið að því hvort þessi afstaða ráðuneytisins sé í samræmi við lög.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 skyldi við upphaf afplánunar „afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur“ þær upplýsingar sem tilgreindar voru í ákvæðinu. Af texta ákvæðisins verður ráðið að skylt hafi verið að veita fanga upplýsingar samkvæmt því bæði skriflega og munnlega, sbr. orðalagið „afhenda ... og kynna“. Af orðalaginu verður þó ekki ráðið með ótvíræðum hætti hvort skyldan um að upplýsingagjöfin skyldi fara fram „á því tungumáli sem [fangi] skilur“ hafi aðeins átt við um munnlega upplýsingagjöf samkvæmt ákvæðinu, þ.e. hafi aðeins tekið til þess hluta ákvæðisins sem laut að því að „kynna“ samantekt reglnanna fyrir fanga, eða hvort hún hafi jafnframt tekið til skriflegrar upplýsingagjafar samkvæmt því, þ.e. einnig til þess hluta ákvæðisins sem laut að því að „afhenda“ fanga samantekt slíkra reglna.

Í athugasemdum við 17. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 49/2005 kemur fram að ákvæðið sé nýmæli og eigi m.a. rót sína að rekja til álits míns frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999, sem fjallaði um réttindamál fanga. Í athugasemdunum er tekið fram að umboðsmaður hafi talið „rétt að upplýsingar um rétt og skyldur fanga við upphaf afplánunar væru einnig til í enskri þýðingu“. Ljóst er að þessar athugasemdir eiga við um skriflega en ekki aðeins munnlega upplýsingagjöf. Í álitinu tók ég einnig fram í tengslum við þetta atriði að ég teldi mikilvægt vegna réttaröryggis erlendra afplánunarfanga að þeir gætu með raunhæfum hætti kynnt sér lagareglur um réttarstöðu sína á ensku. Af tilvísun í lögskýringargögnum í þennan hluta álits míns verður dregin sú ályktun að lagt hafi verið til grundvallar að með lögfestingu ákvæðisins væri verið að bregðast við þessum tilmælum um að samantekt reglna, þ.e. skrifleg upplýsingagjöf, væri ekki aðeins á íslensku heldur einnig til á öðru tungumáli svo betur væri gætt að réttaröryggi erlendra fanga.

Í framangreindum athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 49/2005 var einnig tekið fram að það tæki mið af „evrópsku fangelsisreglunum og dönsku fullnustulögunum“. Eins og áður greinir var í 41. gr. eldri evrópsku fangelsisreglnanna frá 1987 gerður greinarmunur á skriflegri upplýsingagjöf í 1. mgr. og munnlegri upplýsingagjöf í 2. mgr. Orðalag og framsetning 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 er að þessu leyti ekki sambærileg við 41. gr. evrópsku fangelsisreglnanna frá 1987. Sömu sögu er að segja um hliðstæð ákvæði í dönsku fullnustulögunum. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að 1. mgr. 17. gr. laganna „tekur mið af“ þessum ákvæðum, eins og segir í lögskýringargögnunum, en er ekki að öllu leyti eins og þau, verða að mínu áliti ekki dregnar skýrar ályktanir af tilvísun lögskýringargagna til þeirra um það álitaefni sem hér er til skoðunar.

Í framangreindum athugasemdum er ekki gerður greinarmunur á upplýsingagjöf eftir því hvort fangi er innlendur eða erlendur og þá með tilliti til forms upplýsingagjafarinnar. Þvert á móti er þar lagt til grundvallar að ákvæðið taki jafnt til innlendra sem erlendra fanga. Bendir þetta til þess að krafan um að upplýsingagjöf sé á tungumáli sem fangi skilur nái einnig til samantektar reglna sem er afhent fanga. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að það leiðir almennt af grundvallarreglum um jafnræði borgaranna að gæta ber að réttaröryggi innlendra og erlenda fanga með sambærilegum hætti eftir því sem aðstæður leyfa og þá þannig að þeim sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis. Fyrir liggur að íslenskir fangar fá bæði afhenta og kynnta samantekt reglna á íslensku, þ.e. á tungumáli sem þeir skilja. Ef erlendir fangar fá aðeins munnlega kynningu á samantektinni á því tungumáli sem þeir skilja, en reglurnar eru ekki afhentar þeim á slíku tungumáli, eru þeir almennt í lakari stöðu en íslenskumælandi fangar að þessu leyti, enda er skrifleg upplýsingagjöf almennt traustari og betur til þess fallin að auka réttaröryggi fanga. Ég bendi á í því sambandi að fangar fá almennt að halda eintaki sínu af samantektinni meðan á afplánun stendur.

Markmið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 er að fangar fái fullnægjandi upplýsingagjöf um helstu atriði er varða réttarstöðu þeirra við afplánun refsingar í fangelsi, þ.m.t. að gera föngum grein fyrir því hvaða háttsemi geti varðað agaviðurlögum í fangelsi og tryggja þannig réttaröryggi fanga og fyrirsjáanleika við beitingu slíkra viðurlaga. Það er í samræmi við þetta markmið að upplýsingagjöfinni sé hagað með þeim hætti að fangi geti átt raunhæfa möguleika á að kynna sér viðeigandi reglur sem gilda um réttarstöðu hans í fangelsi. Löggjafinn hefur lagt til grundvallar að upplýsingagjöfin skuli almennt vera bæði skrifleg og munnleg. Þörfin á því að þessi upplýsingagjöf sé bæði skrifleg og munnleg á jafnt við um innlenda og erlenda fanga. Markmið ákvæðisins styður því einnig þann skilning að skrifleg upplýsingagjöf samkvæmt því skuli fara fram á tungumáli sem fangi skilur.

Eins og áður greinir er sambærilegt ákvæði nú að finna í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, sem hafa leyst af hólmi lög nr. 49/2005, um sama efni. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til nýju laganna er vísað til þess að fjöldi einstaklinga af erlendum uppruna séu vistaðir í fangelsum hérlendis og því sé nauðsynlegt að tryggja að þeir fái upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja. Í athugasemdunum er ekki gerður greinarmunur á skriflegri og munnlegri upplýsingagjöf í þessu sambandi. Þá er m.a. vísað til núgildandi 30. gr. evrópsku fangelsisreglnanna frá 2006, sem eru orðaðar með sambærilegum hætti og upphafsmálsliður íslenska lagaákvæðisins, ólíkt því sem átti við um 41. gr. eldri evrópsku fangelsisreglnanna frá 1987, og til álits míns í máli nr. 2805/1999. Af framangreindu verður ráðin sú áhersla löggjafans á að upplýsingagjöf til erlendra fanga sé fullnægjandi. Þar sem upphafsmálsliður núgildandi 4. mgr. 23. gr. laga nr. 15/2016 er efnislega samhljóða 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 verður að leggja til grundvallar að sömu kröfur til upplýsingagjafar leiði af ákvæðunum, þ.m.t. hvað varðar upplýsingagjöf til fanga sem ekki skilja íslensku.

Sá skilningur á 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 að skrifleg upplýsingagjöf samkvæmt ákvæðinu skuli eiga sér stað á tungumáli sem fangi skilur er einnig í samræmi við önnur alþjóðleg viðmið þar sem gerðar eru lágmarkskröfur til afplánunar fanga. Líkt og áður greinir er í 1. mgr. 55. gr. reglna Sameinuðu þjóðanna um lágmarksviðmið um aðbúnað fanga gert ráð fyrir því að skriflegar upplýsingar skuli liggja fyrir á algengustu tungumálum sem notuð eru á viðkomandi stað þar sem fangi er vistaður. Þá hefur Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu beint þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda, í kjölfar heimsóknar nefndarinnar hingað til lands árið 2012, að sjá til þess að ýmsar upplýsingar fyrir fanga sem til staðar eru í fangelsum skuli þýddar „á viðeigandi fjölda tungumála“. Af framangreindu er ljóst að gengið er út frá því í þessum viðmiðum og af hálfu alþjóðlegra eftirlitsaðila að skrifleg upplýsingagjöf sé aðgengileg föngum á fleiri tungumálum en móðurmáli þeirrar þjóðar þar sem fangi er vistaður, í þessu tilviki íslensku.

Þegar litið er til lögskýringargagna að baki 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, markmiðs ákvæðisins og þeirra vísbendinga sem verða ráðnar af sambærilegu núgildandi ákvæði um þetta efni er það álit mitt að bæði beri að afhenda og kynna fanga á því tungumáli sem hann skilur samantekt reglna um þau atriði sem tilgreind eru í ákvæðinu. Í máli þessu voru A aðeins kynntar reglurnar munnlega á tungumáli sem hún skilur. Skrifleg samantekt um þær var hins vegar afhent henni á tungumáli sem hún skilur ekki. Ég bendi á að í þessu tilvik hefði verið nægjanlegt að afhenda A samantekt reglnanna á ensku en hún mun skilja það tungumál vel. Með vísan til framangreinds er það álit mitt að afstaða innanríkisráðuneytisins til þessa atriðis hafi ekki verið í samræmi við lög.

Samkvæmt því sem að framan greinir er það afstaða mín að skort hafi á að upplýsingagjöf fangelsisins X til A við upphaf afplánunar hennar þar uppfyllti þær kröfur sem leiddu á þessum tíma af lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. nú lög nr. 15/2016, um sama efni. Þrátt fyrir þennan annmarka á meðferð málsins tel ég þegar atvik þess eru virt heildstætt að hann sé ekki þess eðlis að tilefni sé til þess af minni hálfu að beina tilmælum til innanríkisráðuneytisins um að það taki úrskurð sinn í því til nýrrar meðferðar. Hef ég þá einkum í huga að samkvæmt skýringum ráðuneytisins til mín var A gerð grein fyrir tilvist og inntaki allra reglna í fangelsinu munnlega á tungumáli sem hún skilur. Ég tel því ekki unnt að fullyrða, eins og málið liggur fyrir mér, að A hafi ekki fengið upplýsingar á tungumáli sem hún skilur um að sú háttsemi sem hér um ræðir gæti varðað agaviðurlögum í fangelsinu.

V Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að upplýsingagjöf fangelsisins X til A við upphaf afplánunar hennar í fangelsinu hafi ekki verið í samræmi við kröfur 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Ég tel þegar atvik málsins eru virt heildstætt að þessi annmarki á meðferð málsins sé þó ekki þess eðlis að tilefni sé til þess að ég beini þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að taka mál A til nýrrar meðferðar.

Í áliti mínu frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999 beindi ég m.a. þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að leitast yrði við að ljúka við að framkvæma sem fyrst þær ráðstafanir til bættrar upplýsingagjafar til fanga sem ráðuneytið hefði boðað og lutu m.a. að því að útbúa upplýsingabækling handa íslenskum og erlendum föngum. Þessum tilmælum var fylgt eftir af hálfu Alþingis með lagabreytingum sem gerð er grein fyrir í þessu áliti. Samkvæmt því sem fram hefur komið í þessu máli skortir enn á að fangelsisyfirvöld hafi a.m.k. í tilviki fangelsisins X brugðist við með fullnægjandi hætti. Ég beini því þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að gerð verði úttekt á stöðu upplýsingagjafar til erlendra fanga í fangelsum landsins og gripið til viðeigandi ráðstafana af þess hálfu til þess að henni verði sem fyrst komið í viðunandi horf samkvæmt gildandi lögum. Ég óska þess jafnframt að ráðuneytið geri mér grein fyrir niðurstöðum þessarar úttektar og viðbrögðum sínum við þessum tilmælum eigi síðar en 15. mars nk.

Að lokum hef ég ákveðið að senda Fangelsismálastofnun afrit af þessu áliti til upplýsingar.