Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Almenn hæfisskilyrði. Leiðbeiningarskylda. Rannsóknarregla. Málshraði.

(Mál nr. 8898/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð í tengslum við ráðningar í störf hjá lögreglustjóranum X, m.a. störf lögreglumanna í afleysingum. Kvörtunin laut m.a. að því að lögreglustjóri hefði ekki framkvæmt raunverulegt mat á hæfni A og getu til að gegna starfinu. Slík málsmeðferð fengi ekki samrýmst rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Jafnframt laut kvörtunin að þeim drætti sem varð á því að lögreglustjórinn svaraði erindum A.
Ríkislögreglustjóri veitti A lausn frá embætti lögreglumanns hjá lögreglustjóranum X árið 2010 vegna heilsubrests. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 2014 var ákvörðun ríkislögreglustjóra dæmd ólögmæt. Í skýringum lögreglustjóra til umboðsmanns kom fram að það hefði verið ljóst að A uppfyllti ekki lagaskilyrði um heilbrigði til að starfa sem lögreglumaður. Í því sambandi vísaði hann til vottorðs trúnaðarlæknis embættisins frá 2010 sem lá til grundvallar ákvörðun um að veita A lausn vegna heilsubrests á sínum tíma. Lögreglustjórinn óskaði ekki eftir upplýsingum um heilsufar A við meðferð málsins eða gaf honum kost á að leggja fram læknisvottorð eða gangast undir læknisskoðun.
Umboðsmaður taldi í ljósi forsögu málsins, framsetningar auglýsingar starfsins og þeirra upplýsinga sem fram komu í umsókn A, um að hann hefði árin 2012 og 2014-2015 unnið í öryggisdeild hjá tilteknu fyrirtæki, að lögreglustjóranum hefði borið að hafa frumkvæði að því að veita A kost á að leggja fram læknisvottorð eða gangast undir læknisskoðun áður en ákveðið var að hann fullnægði ekki lagaskilyrðum til að gegna starfi lögreglumanns í afleysingum. Málsmeðferð lögreglustjórans hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður taldi að afgreiðslutími lögreglustjóra á erindum A hefði ekki verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttar. Loks taldi umboðsmaður að sú afstaða lögreglustjórans, að ekki bæri að rökstyðja ráðningar afleysingarmanna í lögreglu, væri ekki í samræmi við lög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til lögreglustjórans að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 10. maí 2016 leitaði A til mín og kvartaði yfir málsmeðferð í tengslum við ráðningar í störf hjá lögreglustjóranum X, m.a. störf lögreglumanna í afleysingum í [...]deild og störf landamæravarða. Í kvörtun A kemur m.a. fram að hann telji sig uppfylla allar hæfniskröfur til að gegna starfi lögreglumanns í afleysingum en þrátt fyrir það hafi hann ekki verið boðaður í viðtal. Lögreglustjórinn hafi ekki framkvæmt raunverulegt mat á hæfni hans og getu til að gegna starfinu. Slík málsmeðferð fái ekki samrýmst rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá lýtur kvörtunin m.a. að þeim drætti sem varð á því að lögreglustjórinn svaraði erindum A og lögmanns hans.

Eins og nánar er vikið að hér á eftir var A veitt lausn frá embætti lögreglumanns hjá lögreglustjóranum X með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 22. október 2010, vegna heilsubrests eftir að hafa starfað sem lögreglumaður á Z í 30 ár. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2014 var ákvörðun ríkislögreglustjóra dæmd ólögmæt. Í skýringum lögreglustjórans til mín, sem gerð er nánari grein fyrir hér á eftir, kom fram að það hefði verið ljóst í ráðningarferlinu að A uppfyllti ekki lagaskilyrði til að starfa sem lögreglumaður og vísaði í því sambandi til vottorðs trúnaðarlæknis embættisins, dags. 17. maí 2010, sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun að veita honum lausn vegna heilsubrests á sínum tíma. Í málinu liggur fyrir að lögreglustjórinn óskaði ekki eftir upplýsingum um heilsufar A við meðferð málsins eða gaf honum kost á að leggja fram læknisvottorð.

Í samræmi við framangreint hef ég ákveðið að afmarka athugun mína við það hvort lögreglustjórinn X hafi gætt að leiðbeiningar- og rannsóknarreglu 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga gagnvart A þegar ráðið var í störf lögreglumanna í afleysingum. Athugun mín lýtur jafnframt að því hvort afgreiðslutími lögreglustjóra á tilteknum erindum A í tilefni af umsókn hans um framangreind störf hafi verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 24. mars 2017

II Málsatvik

A starfaði sem lögreglumaður hjá lögreglustjóranum X frá 1980 þar til honum var veitt lausn frá embætti með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 22. október 2010, vegna heilsubrests. Í framhaldi af ákveðnum veikindum árið 2008 fór A í veikindaleyfi í tólf mánuði. Samkvæmt læknisvottorði sérfræðilæknis, dags. 30. mars 2009, var A gefið leyfi til að fara að vinna en eindregið ráðlagt frá að vinna við mikil líkamleg átök. Samkvæmt læknisvottorði trúnaðarlæknis lögreglustjórans X, dags. 21. apríl 2009, var A talinn geta hafið störf á ný sem lögreglumaður hjá embættinu en ráðlagt frá miklum líkamlegum átökum. Jafnframt kom fram að vaktavinna á venjulegum lögregluvöktum gæti verið óheppileg fyrir hann heilsufarslega. Hann gæti unnið önnur lögreglustörf af léttari tegund, bæði í dagvinnu og vaktavinnu. A hóf störf á ný vorið 2009 en vegna sömu veikinda fór hann í veikindaleyfi skömmu síðar þá um sumarið. Samkvæmt læknisvottorði trúnaðarlæknis lögreglustjórans, dags. 17. maí 2010, var A talinn getað unnið öll þau störf sem ekki kröfðust eða gætu krafist mikillar líkamlegrar áreynslu en vera óvinnufær til frambúðar í störf sem krefðust getu til líkamlegrar áreynslu. Í framhaldinu var A, sem fyrr greinir, veitt lausn frá embætti lögreglumanns. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2014 í máli nr. E-[...] var sú ákvörðun ríkislögreglustjóra dæmd ólögmæt vegna þess að veikindaréttur A samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hefði ekki verið fullnýttur á þeim tíma þegar lausnin var veitt.

Störf lögreglumanna í afleysingum í [...]deild hjá lögreglustjóranum X voru auglýst laus 21. janúar 2016 og sótti A m.a. um þau störf. Í auglýsingunni kom fram að helstu verkefni og ábyrgð væru „[a]lmenn löggæsla/landamæravarsla“ Um hæfniskröfur sagði að umsækjendur skyldu hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, góð þekking á lögreglukerfinu (LÖKE) væri æskileg og góð enskukunnátta skilyrði. Önnur tungumálakunnátta væri kostur. Góðir hæfileikar til mannlegra samskipta, skipulagshæfileikar, frumkvæði og nákvæmni í vinnubrögðum væru mikilvægir eiginleikar. A sótti einnig um auglýsta stöðu landamæravarða, sem auglýst var 18. desember 2015, en í auglýsingu um þau störf kom m.a. fram um hæfniskröfur að umsækjandi væri andlega og líkamlega heilbrigður og stæðist læknisskoðun. Í ferilskrá A, sem fylgdi umsókn hans um störfin, kom fram að hann hefði árin 2012 og 2014-2015 starfað við afleysingar í öryggisdeild og síðan við vopnaleit hjá Y.

Líkt og að framan greinir var A hvorki ráðinn í störf lögreglumanna í afleysingum né landamæravarða. Eftir að hann átti samskipti við embætti lögreglustjórans X af því tilefni var honum boðið starf landamæravarðar í afleysingum sem hann þáði ekki.

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og lögreglustjórans X

Gögn málsins bárust með bréfi lögreglustjórans X, dags. 23. maí 2016, samkvæmt beiðni þar um. Í bréfi lögreglustjóra kom fram að A hefði verið boðið að þiggja starf landamæravarðar í kjölfar samtala hans við tiltekinn starfsmann lögreglustjóra sem hann hefði ekki þegið. Ríkislögreglustjóri hefði árið 2010 veitt A lausn frá störfum með vísan til vottorðs trúnaðarlæknis embættisins, dags. 17. maí 2010. Ekkert hefði komið fram um að ástand A hefði að þessu leyti breyst en hann hefði ekki lagt fram læknisfræðileg gögn með umsókn sinni. Væri það eftirtektarvert í ljósi starfsloka hans hjá lögreglustjóranum X á sínum tíma. Afleysingamenn í lögreglu þyrftu líkt og aðrir lögreglumenn að vera í góðu líkamlegu ástandi. Álag á starfsmenn lögreglustjórans á Z væri mjög mikið og hver og einn lögreglumaður yrði að vera í stakk búinn að taka þátt í störfum sem hefðu í för með sér átök sem gætu borið að hvenær sem er og fyrirvaralaust. Ekki hafi verið leitað manna í lögreglu til að sinna léttari störfum.

Ég ritaði lögreglustjóranum X á ný bréf, dags. 16. september 2016, og óskaði þess að mér yrðu veittar upplýsingar og skýringar á tilteknum atriðum. Mér barst svar frá lögreglustjóranum með bréfi, dags. 27. janúar 2017. Ég tel aðeins þörf á að rekja efni þeirra samskipta að því leyti sem þau hafa þýðingu fyrir athugun mína á málinu.

Í bréfi mínu óskaði ég eftir upplýsingum um hvort lögreglustjórinn hefði óskað eftir nánari upplýsingum frá A um heilsufar hans í tilefni af umsókn um starfið. Í því sambandi hefði ég m.a. í huga að í kvörtuninni kæmi fram að sambærilegar kröfur væru gerðar til heilsu og heilbrigði í starfi landamæravarðar og lögreglumanns en A hefði verið boðið tímabundið starf landamæravarðar. Hefði það ekki verið gert óskaði ég eftir afstöðu lögreglustjórans til þess hvort og þá hvernig slík málsmeðferð fengi samrýmst rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í svarbréfi lögreglustjóra sagði að lögreglumenn þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði bæði líkamlega og andlega eins og kveðið væri á um í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Sérstaklega væri bent á c-lið 2. mgr. 28. gr. og c-lið 2. mgr. 38. gr. sömu laga í þessu tilfelli. A hefði starfað hjá lögreglustjóranum X hátt í 30 ár en í vottorði trúnaðarlæknis lögreglustjóra, dags. 17. maí 2010, kæmi fram að A væri óvinnufær til frambúðar í störf sem krefðust getu til líkamlegrar áreynslu. Því hefði verið ljóst að A uppfyllti ekki lagaskilyrði til að starfa sem lögreglumaður. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hvíldi sú skylda á stjórnvaldi að upplýsa málsatvik stjórnsýslumáls nægilega áður en ákvörðun yrði tekin. Þrátt fyrir þetta fælist ekki í reglunni að stjórnvaldi bæri að afla allra upplýsinga. Þegar mál væri hafið að frumkvæði aðila sjálfs eins og í þessu tilfelli bæri aðilanum að veita upplýsingar og leggja fram þau gögn sem nauðsynleg væru. A hefði verið ljóst að lögreglustjóri myndi styðjast við læknisvottorð trúnaðarlæknis frá árinu 2010 við mat á hæfni hans til starfans. A hefði ekki lagt fram nýtt læknisvottorð sem sýndi eða styddi annað. Sömu ströngu skilyrðin ættu ekki við um starf landamæravarðar eins og um lögreglumenn. Lögreglustjóri gerði þær kröfur til landamæravarða að þeir væru andlega og líkamlega heilbrigðir og stæðust læknisskoðun. Rétt væri þó að taka fram að í starfi landamæravarða væri ekki krafist að þeir yrðu tilbúnir til átaka eins og gert væri ráð fyrir í starfi lögreglumanna. Landamæravarsla væri því ekki jafn líkamlega erfitt starf og starf lögreglumanns gæti verið. A hefði verið boðin staða landamæravarðar sem hann hefði afþakkað.

Í bréfi mínu óskaði ég jafnframt eftir upplýsingum um hvort tölvubréfi A, dags. 31. mars 2016, og bréfi lögmanns hans, dags. 13. apríl 2016, hefði verið svarað. Hefði erindunum ekki verið svarað óskaði ég eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindanna.

Í svarbréfi lögreglustjóra kom fram að svar lögreglustjóra við tölvubréfinu, dags. 31. mars 2016, hefði því miður dregist en það hefði verið sent lögmanni A 25. janúar 2017. Þá ræð ég af skýringunum að bréfi lögmannsins, dags. 13. apríl 2016, hafi verið svarað með bréfi lögreglustjóra, dags. 6. september 2016. Jafnframt hefðu fylgigögn ásamt rökstuðningi lögreglustjóra, dags. 17. febrúar 2016, verið send A og lögmanni hans.

Athugasemdir lögmanns A við bréfum lögreglustjóra bárust með bréfum, dags. 11. júlí 2016 og 17. febrúar 2017.

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Bar að gefa A færi á að leggja fram upplýsingar um heilsufar sitt?

Af framanröktu verður ráðið að lögreglustjórinn X hafi talið að A uppfyllti ekki lagaskilyrði til að starfa sem lögreglumaður og hafi því ekki komið til frekara mats í störf lögreglumanna í afleysingum. Hann hafi að mati lögreglustjóra ekki verið „fær á að takast á við verkefni sem kynnu að hafa í för með sér átök“, líkt og ávallt megi búast við í störfum lögreglumanna. Í því sambandi var byggt á vottorði trúnaðarlæknis embættisins, dags. 17. maí 2010, sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun að veita honum lausn vegna heilsubrests á árinu 2010. Í vottorðinu kom fram að A „[hefði] verið að slást við þrálátan og alvarlegan [...] sjúkdóm. Hann [bæri] þess merki en ætti að hafa allgóða starfsgetu. Þó [mætti] hann ekki útsetja sig fyrir áreynslu eða átök“. Í niðurstöðu vottorðsins sagði að A „[gæti] unnið öll þau störf sem ekki [krefðust] mikillar líkamlegrar áreynslu, en [væri] óvinnufær til frambúðar í störf sem [krefðust] getu til líkamlegrar áreynslu“. Í skýringum lögreglustjóra sagði að ekkert hefði komið fram í málinu um að ástand A hefði að þessu leyti breyst en hann hefði ekki lagt fram læknisfræðileg gögn með umsókn sinni. Í málinu liggur fyrir að lögreglustjórinn óskaði hvorki eftir upplýsingum um heilsufar A við meðferð málsins né gaf honum kost á að leggja fram vottorð eða gangast undir læknisskoðun. Athugun mín lýtur, sem fyrr greinir, að því hvort þessi málsmeðferð hafi verið í samræmi við leiðbeiningar- og rannsóknarreglu 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fjallað er um kröfur til heilbrigðis lögreglumanna í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögreglulögum nr. 90/1996. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996 er eitt þeirra almennu skilyrða til þess að fá skipun eða ráðningu í starf nauðsynleg heilbrigði, andleg og líkamleg, til þess að gegna þeim starfa sem hverju sinni er um að ræða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga er það skilyrði fyrir inntöku nema í starfsnám hjá lögreglu að vera andlega og líkamlega heilbrigður og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um í samstarfi við háskóla. Lögreglustjórinn X taldi að A uppfyllti ekki kröfur til heilbrigðis til að gegna umræddum störfum.

Almennt er talið að þegar aðili máls leggur ekki fram þau gögn og upplýsingar sem ætlast má til af honum þegar taka á stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga beri viðkomandi stjórnvaldi að kynna honum hvaða gögn og upplýsingar skorti og leiðbeina honum um afleiðingar þess ef þær berast ekki, sbr. leiðbeiningarreglu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Í auglýsingu um opinbert starf hjá ríkinu ber hins vegar að veita upplýsingar um starfið sem eru nægilega greinargóðar til þess að væntanlegur umsækjandi geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst, sbr. 5. tölul. 4. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, með síðari breytingum. Slíkar upplýsingar í auglýsingu geta leiðbeint umsækjanda um hvaða upplýsingar ætlast er til að veittar séu með umsókn. Almennt kemur það síðan í hlut umsækjenda um opinber störf að ganga frá umsóknum og fylgigögnum með þeim hætti að fram komi skilmerkilegar og greinargóðar upplýsingar um þau atriði sem áskilin eru til að gegna starfinu að virtu m.a. efni auglýsingar um viðkomandi starf. Hvað sem því líður kunna atvik að vera með þeim hætti í einstökum tilvikum að á stjórnvaldi hvíli samt sem áður sú skylda að afla frekari upplýsinga um einstök atriði. Ef umsóknargögn varpa ekki nægu ljósi á starfshæfni umsækjenda eða einhverjar upplýsingar skortir sem hafa þýðingu við mat á umsækjendum kann að leiða af leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að stjórnvaldinu beri að hafa samband við viðkomandi og bjóða honum að leggja fram viðbótarupplýsingar.

Við mat á því hvort lögreglustjóranum hafi borið að gefa A færi á því að leggja fram upplýsingar um heilsufar sitt, áður en ákveðið var að hann uppfyllti ekki lagaskilyrði til að koma til greina í starfið, verður að líta til þess hvernig auglýsing starfanna var sett fram, þeirra upplýsinga sem fylgdu umsókn A og forsögu málsins. Í auglýsingu um störf lögreglumanna í afleysingum, dags. 22. janúar 2016, voru ekki tilteknar kröfur um andlegt og líkamlegt heilbrigði eða gerð krafa um að umsækjendur legðu fram með umsókn sinni gögn til staðfestingar á heilbrigði sínu. Þá verður ekki séð að gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir því að umsækjendur kæmu slíkum upplýsingum á framfæri í rafrænni umsókn sem A fyllti út.

Embætti lögreglustjóra var heimilt að líta til þeirra gagna og upplýsinga sem það bjó yfir um heilsufar A vegna fyrri starfa hans þar. Vottorð trúnaðarlæknis lögreglustjórans X, dags. 17. maí 2010, gat leitt líkum að því að heilsufar A væri þannig að hann gæti ekki sinnt mjög líkamlega erfiðu starfi. Af vottorðinu urðu þó ekki dregnar ótvíræðar ályktanir um heilsufar A á þeim tíma þegar hann sótti um störfin en þá höfðu liðið tæp sex ár frá dagsetningu þess. Hef ég þá annars vegar í huga að þótt í vottorðinu sé kveðið á um að A sé óvinnufær til frambúðar í störf sem krefjast getu til líkamlegrar áreynslu er ekki loku fyrir það skotið að heilsufar hans hafi getað tekið breytingum á þeim tíma sem liðið hafði frá gerð þess, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2012 í máli nr. 236/2012 og frá 16. janúar 2014 í máli nr. 528/2013. Hins vegar er ekki tekið fram berum orðum í vottorðinu að A fullnægi ekki lágmarkskröfum um heilbrigði til að gegna starfi lögreglumanns.

Þegar tekin var afstaða til þess hvort fullnægjandi væri að leggja vottorðið frá 2010 til grundvallar án frekari upplýsingaöflunar bar einnig að líta til þess að A sótti um störfin en með umsókn gaf hann til kynna að hann teldi sig geta gegnt þeim. Þá hafði hann samkvæmt þeirri ferilskrá sem fylgdi með umsókn hans um störfin unnið í öryggisdeild og við vopnaleit hjá Y í afleysingum árin 2012 og 2014-2015. Í kvörtuninni til mín bendir A á að í því starfi séu starfsmenn útlagðir fyrir átökum sem geti borið að hvenær sem er og fyrirvaralaust. Hann sé fullhraustur bæði andlega og líkamlega og hæfur til að gegna starfi lögreglumanns. Þá verður að mínu áliti ekki litið framhjá því með öllu að A var boðið tímabundið starf landamæravarðar í maí 2016 í kjölfar samtala hans við starfsmann lögreglustjóra. Í auglýsingu um starf landamæravarðar var sérstaklega tekið fram að umsækjandi skyldi vera andlega og líkamlega heilbrigður og standast læknisskoðun en þessi krafa er orðuð með sambærilegum hætti og sú krafa um heilbrigði sem kemur fram í c-lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Þótt kröfur til heilbrigðis kunni í reynd að vera minni í starfi landamæravarðar gefur þetta til kynna að heilsufar A var ekki augljóslega slíkt að mati embættis lögreglustjóra að hann ætti ekki að koma til greina í störfin.

Í ljósi forsögu þessa máls, framsetningar auglýsingarinnar og þeirra upplýsinga sem fram komu í umsókn A tel ég að lögreglustjóranum X hafi borið að hafa frumkvæði að því að veita A kost á að leggja fram læknisvottorð eða gangast undir læknisskoðun áður en ákveðið var að hann fullnægði ekki lagaskilyrðum til að gegna starfi lögreglumanns í afleysingum. Það er því álit mitt að málsmeðferð lögreglustjórans X hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Með framangreindri niðurstöðu hef ég ekki tekið afstöðu til þess hver áhrif þessa annmarka hafi verið á endanlegt mat á umsækjendum.

2 Afgreiðsla á erindum A o.fl.

Með tölvubréfi, dags. 31. mars 2016, óskaði A eftir upplýsingum um hvaða fjórtán umsækjendur hefðu verið ráðnir í störf lögreglumanna í afleysingum hjá lögreglustjóranum. Með tölvubréfi, dags. 11. apríl 2016, var A upplýstur um að lögreglustjóri myndi svara honum. Með tölvubréfi, dags. 20. apríl 2016, ítrekaði A fyrrnefnda beiðni sína. Fékk hann aftur þau svör að lögreglustjórinn sjálfur ætlaði að svara honum. Með bréfi, dags. 25. janúar 2017, veitti lögreglustjóri upplýsingar um nöfn þeirra umsækjenda sem ráðnir voru. Svar lögreglustjóra barst því um 10 mánuðum eftir að A setti fram beiðni sína. Í lok bréfsins var tekið fram að það væri ekki venja að rökstyðja ráðningar afleysingarmanna í lögreglu sem ekki hefðu lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins.

Með bréfi lögmanns A, dags. 13. apríl 2016, var óskað eftir gögnum um þá átta umsækjendur sem ráðnir voru í störf landamæravarða í [...]deild lögreglustjórans X auk gagna um A. Hinn 2. júní 2016 ítrekaði lögmaðurinn erindið. Með bréfi, dags. 6. september 2016, veitti lögreglustjóri aðgang að umræddum gögnum eða um fimm mánuðum eftir að lögmaðurinn setti fram beiðni sína.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfest meginregla um málshraða í stjórnsýslunni. Samkvæmt 1. mgr. skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í ákvæðinu er orðuð óskráð meginregla sem hefur víðtækara gildissvið en stjórnsýslulögin. Stjórnvöldum er almennt skylt að haga afgreiðslu mála í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd eins og fljótt og unnt er. Við mat á því hvað geti talist eðlilegur afgreiðslutími máls verður að meta málsmeðferð í hverju máli heildstætt og líta til umfangs máls og atvika hverju sinni. Þegar litið er til efnis framangreindra erinda, sem voru ekki flókin úrlausnar, tel ég að afgreiðslutími lögreglustjóra á þeim hafi verið verið umfram það sem eðlilegt getur talist. Það er því niðurstaða mín að afgreiðslutími lögreglustjóra á erindunum hafi ekki verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

Í tilefni af því sem fram kom í lok bréfs lögreglustjóra, dags. 25. janúar 2017, um að ekki væri venja að rökstyðja ráðningar afleysingarmanna í lögreglu, tek ég fram að stjórnsýslulög gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Gildissvið laganna nær meðal annars til ákvarðana um ráðningar í opinber störf, sbr. athugasemdir með frumvarpi til stjórnsýslulaga. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.) Störf lögreglumanna í afleysingum teljast opinber störf í þessu sambandi, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og var lögreglustjóra því skylt að fylgja fyrirmælum stjórnsýslulaga við ráðningar í störfin, m.a. um birtingu ákvörðunar, rökstuðning hennar og leiðbeiningar þar að lútandi, sbr. 20.-22. gr. stjórnsýslulaga. Það er því álit mitt að það sem fram kemur í lok bréfs lögreglustjórans sé ekki í samræmi við lög.

V Niðurstaða

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að málsmeðferð lögreglustjórans X gagnvart A hafi ekki verið í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar ráðið var í störf lögreglumanna í afleysingum. Það er jafnframt niðurstaða mín að afgreiðslutími lögreglustjóra á erindi A, dags. 31. mars 2016, og lögmanns hans, dags. 13. apríl s.á., hafi ekki verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttar. Enn fremur er það niðurstaða mín að afstaða lögreglustjórans X, að ekki beri að rökstyðja ráðningar afleysingarmanna í lögreglu sem ekki hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, sé ekki í samræmi við lög.

Niðurstaða mín hér að framan felur ekki í sér afstöðu til þess hver hafi verið hæfastur umsækjenda af þeim sem sóttu um störfin. Að þessu virtu og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar og hagsmuna þeirra einstaklinga sem hlutu störfin tel ég ólíklegt að framangreindir annmarkar leiði til ógildingar á ráðningunum. Telji A að framangreindir annmarkar á málsmeðferð lögreglustjórans X hafi valdið honum bótaskyldu tjóni verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um hugsanlega skaðabótaábyrgð ríkisins. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að höfða mál eða hver yrði líkleg niðurstaða slíks máls.

Ég beini þeim tilmælum til lögreglustjórans X að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.VI Viðbrögð stjórnvaldaÍ bréfi lögreglustjórans, dags. 11. júní 2018, kemur m.a. fram að embættið hafi farið eftir þeirri meginreglu sem fram komi í áliti umboðsmanns að leita allra leiða til þess að ráðningarferli verði skýrt og að gagnsæis sé gætt. Einnig sé unnið að því að bæta þetta ferli eftir því sem ný atvik og nýjar ábendingar og frekari leiðbeiningar komi fram.Í bréfinu bendir lögreglustjórinn jafnframt á að starfsmannafjöldi hafi ríflega tvöfaldast á starfstíma hans og ráðningum afleysingafólks hafi fjölgað enn meira. Það hafi orðið hlutverk yfirmanna einstakra deilda að annast ráðningarferli en nú hafi lögreglustjóri ákveðið að taka upp stöðu mannauðsstjóra og hafi starfið verið auglýst. Þetta sé meðal annars gert á grundvelli álits umboðsmanns í því skyni að ferlið verði enn faglegra en verið hafi.