Opinberir starfsmenn. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á. Forgangsreglur.

(Mál nr. 2676/1999)

A kvartaði yfir ráðningu í starf sérfræðings lánasviðs Íbúðalánasjóðs en hún taldi sig hafa gengt sambærilegu starfi við Húsnæðisstofnun ríkisins. Vísaði A til erindisbréfs nefndar um undirbúning að stofnun Íbúðalánasjóðs þar sem fram hefði komið að nefndin skyldi leitast við að ráða þá starfsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins sem kæmu til með að gegna sömu eða sambærilegum störfum hjá Íbúðalánasjóði.

Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 6. júní 1999, kom fram að hann teldi ljóst að um starfslok A hjá Húsnæðisstofnun ríkisins færi eftir 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er fjallar um uppsögn ráðningarsamninga. Þar kom fram að engin sérákvæði væru í þeim lögum um réttarstöðu starfsmanna ríkisins sem ekki teldust til embættismanna þegar þeir létu af störfum sökum þess að starf þeirra hefði verið lagt niður. Féll lögbundinn forgangsréttur slíkra starfsmanna við þær aðstæður til annarra starfa hjá ríkinu niður þegar lög nr. 70/1996 tóku gildi. Þá væru engin ákvæði í lögum nr. 70/1996 er veittu heimild til að flytja starfsmenn sem ráðnir væru til starfa í þjónustu ríkisins til annarrar stofnunar. Hafi því borið að auglýsa laus til umsóknar ný störf hjá Íbúðalánasjóði. Til að víkja frá ákvæðum laga nr. 70/1996 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um ráðningu í þau störf hjá Íbúðalánasjóði hefði þurft heimild í lögum. Eftir að hafa rakið lögskýringargögn með 55. gr. laga nr. 44/1998 taldi umboðsmaður að ákvæðið hefði ekki að geyma heimild til þess. Jafnframt taldi hann að orðalag erindisbréfsins fæli ekki í sér heimild til að ganga lengra en þær reglur heimiluðu.

Umboðsmaður rakti þær óskráðu meginreglur sem gilda um veitingu opinberra starfa og vitnaði til eldri úrlausna umboðsmanns í því sambandi. Ljóst var að ákvörðunin um ráðningu í starfið hefði byggst á því sjónarmiði að nauðsynlegt væri að fá lögfræðing til að gegna starfinu en A var viðskiptafræðingur að mennt. Þrátt fyrir að auglýst hefði verið eftir lögfræðingi eða viðskiptafræðingi taldi umboðsmaður það sjónarmið málefnalegt eins og atvikum hafi verið háttað. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til athugasemda við ákvörðun undirbúningsnefndarinnar um ráðningu í starfið og lauk því afskiptum sínum af málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.