Heilbrigðismál. Opinberir starfsmenn. Eftirlit landlæknis.

(Mál nr. 8715/2015 og 8820/2016)

Umboðsmaður ákvað í tilefni af athugun á málum nr. 8715/2015 og 8820/2016, sem hann lauk með álitum, dags. 26. júní 2017, að senda velferðarráðuneytinu bréf þar sem hann beindi því til ráðuneytisins að koma tilteknum sjónarmiðum á framfæri við stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana. Í bréfinu og álitunum var gerð grein fyrir sjónarmiðum um samspil eftirlits landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum og undirbúnings og meðferðar slíkra mála af hálfu stjórnenda opinberra heilbrigðisstofnana og ákvarðana stjórnenda heilbrigðisstofnana á grundvelli stjórnunarheimilda þeirra.

I

Ég hef í dag lokið umfjöllun minni um tvær kvartanir með álitum í málum nr. 8715/2015 og 8820/2016 þar sem reyndi á samspil milli eftirlits landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum, þ.m.t. í tilefni af óvæntum atvikum við veitingu heilbrigðisþjónustu og meintra frávika frá reglum um störf þeirra, og undirbúnings og meðferðar slíkra mála af hálfu stjórnenda heilbrigðisstofnana. Í þessum málum og fleiri sem ég hef fjallað um að undanförnu hefur einnig reynt á ákvarðanir stjórnenda heilbrigðisstofnana á grundvelli stjórnunarheimilda þeirra eins og höfnun vinnuframlags viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns á meðan mál er til rannsóknar og úrræði samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo sem áminningu og starfslok. Afrit álitanna fylgja bréfi þessu til ráðuneytisins.

Athuganir mínar á þessum málum hafa orðið mér tilefni til að rita velferðarráðuneytinu þetta bréf og koma þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið, vegna yfirstjórnar- og eftirlitshlutverks þess með opinberum heilbrigðisstofnunum, að það veki athygli stjórnenda heilbrigðisstofnana ríkisins á tilteknum þáttum þessara mála sem ég tel að huga þurfi betur að.

II

Starfsemi heilbrigðisstofnana ríkisins og starf starfsmanna þeirra er liður í því markmiði laga um heilbrigðisþjónustu hér á landi að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði samkvæmt nánari ákvæðum í lögum, sjá 1. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Viðfangsefni þessa þáttar í stjórnsýslu ríkisins og útfærsla hennar í formi þjónustu lýtur að lífi og heilsu þeirra sem hennar þurfa að njóta og gæði og öryggi gagnvart sjúklingum er mikilvægur þáttur í skipulagningu og fyrirkomulagi starfseminnar. Það er veigamikill þáttur í starfi stjórnenda heilbrigðisstofnana að tryggja og hafa eftirlit með því að starfsemi stofnana sem þeir stjórna og starfsmanna þeirra sé fullnægjandi að þessu leyti. Stjórnendum eru í lögum fengnar heimildir til þess að bregðast við gagnvart starfsmönnum og jafnframt er landlækni falið að sinna eftirliti með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sjá lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Ég tel ekki tilefni til þess að rekja hér einstök ákvæði laga um þessi mál en legg áherslu á að þótt ég veki hér athygli á nauðsyn þess að stjórnendur heilbrigðisstofnana gæti betur að undirbúningi og meðferð þeirra mála sem þeir vísa til landlæknis vegna frávika í starfi einstakra heilbrigðisstafsmanna og óvæntra atvika sem falla undir lögmælta tilkynningaskyldu eru slíkar tilkynningar mikilvægur þáttur í að halda uppi gæðum og öryggi í heilbrigðisþjónustunni. Þannig er í athugasemdum í frumvarpi við 10. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem m.a. er kveðið á um að heilbrigðisstofnunum beri að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hafa eða hefðu getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum, tekið fram að ef vafi leiki á hvort um tilkynningarskylt atvik sé að ræða skuli almennt litið svo á að svo sé og tilkynna atvikið. (Alþt. 2006-2007, 133. löggj.þ., þskj. 282.)

Við athuganir mínar á málum þar sem stjórnendur heilbrigðisstofnana höfðu talið tilefni til þess að tilkynna atvik vegna starfa eða framgöngu heilbrigðisstarfsmanna til landlæknis vakti það athygli mína að þess voru dæmi að stjórnendurnir svöruðu því til, þegar heilbrigðisstarfsmaður kvartaði yfir því að hafa ekki fengið að kynna sér gögn og koma að skýringum áður en tilkynning var send landlækni, að það væri hvorki hlutverk heilbrigðisstofnunarinnar að fara með rannsókn málsins né að sjá um meðferð slíkra mála almennt. Það væri hlutverk landlæknis. Af þessu tilefni tek ég fram að vissulega er það svo að það kemur í hlut landlæknis að gæta þess að haga meðferð eftirlitsmála eftir að þau hafa borist honum í samræmi við stjórnsýslureglur, þ.m.t. stjórnsýslulög ef þau eiga við, svo sem um rannsókn máls, aðgang hlutaðeigandi að gögnum sem eru hjá landlækni vegna málsins og andmælarétt. Þrátt fyrir framangreint hlutverk landlæknis hvíla ákveðnar skyldur á stjórnendum heilbrigðisstofnana um undirbúning og málsmeðferð í samræmi við stjórnsýslureglur áður en tilkynning um málið er send landlækni.

Í þessu sambandi verður að mínu áliti að hafa í huga, eins og ég vík að m.a. í áliti mínu í máli nr. 8715/2015, að þegar heilbrigðisstofnun fer þá leið að beina erindi til landlæknis, t.d. á grundvelli III. kafla laga nr. 41/2007, getur það eftir atvikum máls varðað viðkomandi heilbrigðisstarfsmann miklu að mál sé ekki lagt í þann farveg að ósekju. Ásökun um mögulegt brot á þeim mælikvörðum sem fram koma í 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. að heilbrigðisstarfsmaður vanræki starfsskyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við heilbrigðislöggjöf landsins, er til þess fallin að hafa áhrif á orðspor viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns og mögulega atvinnuhagsmuni síðar meir. Kemur þar bæði til að tiltekin starfsstétt getur verið fámenn og vinnuveitendur á þessu sviði fáir. Til viðbótar þessu auðveldar það eftirlit landlæknis að mál séu vel unnin þegar þau berast embættinu. Vegna þessa kann það skipta viðkomandi heilbrigðisstarfsmann miklu að vel sé staðið að undirbúningi slíkra mála, ekki eingöngu um hvernig staðið er að mati á tilefni slíkrar tilkynningar heldur einnig að öðru leyti, t.d. um hvernig upplýsingagjöf um meðferð slíkra mála til annarra starfsmanna er háttað.

III

Bæði lagagrundvöllur tilkynningar heilbrigðisstofnunar til landlæknis, og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila, og málsatvik einstakra mála geta verið margbreytileg. Af þeim sökum er ákveðnum vandkvæðum bundið að fjalla um tilkynningar heilbrigðisstofnana með almennum hætti. Þrátt fyrir það tel ég rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég tel að almennt þurfi að hafa í huga nema lög kveði á um annað í einstökum tilvikum.

Líkt og ég vík að í áliti mínu í máli nr. 8715/2015, gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 almennt aðeins um töku svokallaðra stjórnvaldsákvarðana, þ.e. ákvarðana um rétt eða skyldu manna samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna. Þegar tekin er afstaða til þess hvort tilkynning heilbrigðisstofnunar teljist stjórnvaldsákvörðun verður að huga nánar að þeim lagagrundvelli sem ákvörðunin byggist á og hvers eðlis og efnis slík ákvörðun er. Í því sambandi getur skipt máli hvort ákvörðun telst vera „lagalegs eðlis“, eins og vikið er að í athugasemdum við 1. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því er varð að lögunum. Með því er átt við hvort með ákvörðuninni sé mönnum færð réttindi eða þau skert, létt skyldum af mönnum eða lagðar á þá auknar byrðar. (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3283.) Meðal annarra megineinkenna stjórnvaldsákvörðunar er að slík ákvörðun hefur bindandi réttaráhrif um úrlausn máls og bindur enda á stjórnsýslumál. Af því leiðir að t.d. ákvarðanir um meðferð stjórnsýslumáls teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir. Frá þessu kunna að þó að vera undantekningar ef ákvörðun hefur veruleg áhrif á réttarstöðu og hagsmuni tiltekins aðila og mál er þannig vaxið að þörf er á því og eðlilegt að hann njóti réttarstöðu aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum, sjá m.a. til hliðsjónar álit mitt frá 5. mars 2004 í máli nr. 3853/2003 og dóm Hæstaréttar Íslands frá 18. september 2008 í máli nr. 430/2007.

Eins og áður sagði geta tilkynningar heilbrigðisstofnana til landlæknis eða annarra eftirlitsaðila byggst á ólíkum lagagrundvelli og nánara eðli og efni þeirra verið mismunandi milli mála. Í fyrrnefndu áliti mínu í máli nr. 8715/2015 kemur fram að almennt verði að telja að það að heilbrigðisstofnun ákveði að tilkynna óvænt atvik eða frávik í starfsháttum heilbrigðisstarfsmanns til landlæknis feli eitt og sér ekki í sér stjórnvaldsákvörðun af hálfu stofnunarinnar í merkingu stjórnsýslulaga. Er það fyrst og fremst vegna þess að með slíkri tilkynningu er ekki bundinn endir á málið heldur kemur það í hlut landlæknis að leiða málið til lykta, eftir atvikum með þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í III. kafla laga nr. 41/2007 um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum. Ég tek þó fram að ég tel ekki unnt að útiloka að við ákveðnar aðstæður verði talið að ákvörðun um slíka tilkynningu teljist vera stjórnvaldsákvörðun, en það ræðst eins og áður sagði af lagagrundvelli tilkynningarinnar og nánara efni og eðli hennar.

Þá getur staðan verið sú í einstökum málum að samhliða tilkynningu til landlæknis sé í gangi sjálfstætt starfsmannamál þar sem til skoðunar kemur hvort forstöðumaður heilbrigðisstofnunar eigi að beita stjórnunarheimildum sínum og t.d. senda viðkomandi heilbrigðisstarfsmann í leyfi á meðan mál hans er til rannsóknar og/eða þeim úrræðum sem hann hefur t.d. samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, s.s. áminningu. Almennt hefur forstöðumaður stofnunar heimild á grundvelli stjórnunarréttar síns til að meta hvort rétt sé að hafna vinnuframlagi starfsmanns og senda hann í tímabundið leyfi á meðan mál hans er til rannsóknar. Slíkar ákvarðanir þurfa að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og mega ekki vera meira íþyngjandi gagnvart starfsmanni en nauðsyn krefur. Leiði slíkar ákvarðanir ekki til skerðingar á launum eða öðrum starfskjörum hafa þær almennt ekki verið taldar stjórnvaldsákvarðanir. Ég tek þó fram að við ákveðnar aðstæður kann að vera rétt að líta svo á að um sé að ræða slíka ákvörðun enda hafi hún þýðingu fyrir mikilsverð réttindi eða skyldur viðkomandi starfsmanns, sbr. álit mitt frá 5. mars 2004 í máli nr. 3853/2003. Það þarf því að leggja mat á það hverju sinni hver raunveruleg þýðing ákvörðunarinnar er fyrir hagsmuni viðkomandi starfsmanns.

Ákvarðanir sem hafa áhrif á stöðu og starf viðkomandi starfsmanns, s.s. áminning, eru almennt taldar stjórnvaldsákvarðanir og við meðferð slíkra mála ber þar af leiðandi að fylgja stjórnsýslulögum. Ég bendi í þessu sambandi til hliðsjónar á álit mitt í máli nr. 8820/2016 þar sem reyndi á þá stöðu að samhliða tilkynningu til landlæknis var til meðferðar sjálfstætt starfsmannamál sem endaði með áminningu viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns.

Þrátt fyrir að niðurstaðan sé sú að tilkynning heilbrigðisstofnunar til landlæknis eða annars eftirlitsaðila, teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í ákveðnu máli, og stjórnsýslulögin gildi þar með ekki um meðferð þess máls hjá stofnuninni, verður að hafa hugfast að óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins hafa víðtækara gildissvið en stjórnsýslulögin og kunna að eiga við í málinu. Þessar óskráðu reglur setja stjórnvöldum ákveðin mörk um meðferð valdheimilda þeirra gagnvart þeim borgurum sem í hluta eiga. Þær leggja á herðar stjórnvalda skyldur til undirbúnings og meðferðar máls þótt stjórnsýslulögin gildi ekki. Sumar þessara reglna eiga sér nokkra hliðstæðu í stjórnsýslulögunum en aðrar er þar ekki að finna. Um fyrra tilvikið nefni ég sem dæmi grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um rannsókn máls, andmælarétt, jafnræði og meðalhóf. Um síðara tilvikið bendi ég á réttmætisregluna en af henni leiðir að allar stjórnvaldsathafnir, þ. á m. tilkynningar til eftirlitsaðila, verða að byggja á málefnalegum sjónarmiðum.

Af þessu réttarumhverfi leiðir að opinberar heilbrigðisstofnanir verða að haga undirbúningi og meðferð mála, þar sem til greina kemur að tilkynna heilbrigðisstarfsmann til eftirlitsaðila, í samræmi við óskráðar reglur stjórnsýsluréttar, og í þeim tilvikum þegar um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þá jafnframt í samræmi við stjórnsýslulög. Þegar tilkynning heilbrigðisstofnunar byggist á sérstöku lagaákvæði, eins og t.d. 10. gr. laga nr. 41/2007, verður stofnunin að gæta þess að haga tilkynningunni í samræmi við þau skilyrði sem koma fram í viðkomandi lagaákvæði. Þegar ekki er kveðið á um tilkynningaskyldu vegna tiltekins atviks, ástands eða háttsemi með berum hætti í lagaákvæði kemur það í hlut forstöðumanns opinberrar heilbrigðisstofnunar í samræmi við stjórnunar- og eftirlitsheimildir hans að leggja mat á hvort nægilegt tilefni sé til að koma upplýsingum um starfsmann eða atvik til landlæknis eða annars viðeigandi eftirlitsaðila sem fer með slík mál samkvæmt lögum. Þegar svo háttar til um lagagrundvöll tilkynningar getur reynt á mat á því hvort tilefni sé til að fara þessa leið. Slíkt mat af hálfu opinberrar heilbrigðisstofnunar verður í samræmi við réttmætisregluna að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og gæta verður meðalhófs gagnvart viðkomandi starfsmanni að teknu tilliti til þess lagagrundvallar sem er tilefni tilkynningar og eðlis málsins. Til þess að unnt sé að taka ákvörðun um hvort nægilegt tilefni sé til að tilkynna heilbrigðisstarfsmann til landlæknis, og þá í samræmi við réttmætisreglu og meðalhófsreglu, verður að kanna málið í samræmi við óskráða rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og leggja mat á hvort nægjanlegar upplýsingar liggi fyrir um atvik málsins. Hluti af nauðsynlegri rannsókn um það hvort nægt tilefni sé til tilkynningar kann að felast í því að leitað sé afstöðu aðila málsins um þau atvik sem eru grundvöllur tilkynningarinnar standi rannsóknarhagsmunir eða aðrar lögmætar ástæður því ekki í vegi.

Þá tek ég einnig fram að hafi mál verið tilkynnt til landlæknis eða annars eftirlitsaðila af hálfu opinberrar heilbrigðisstofnunar og landlæknir óskar í framhaldinu eftir nánari upplýsingum frá stofnuninni í þágu rannsóknar málsins verður almennt að gera þá kröfu að stofnunin bregðist við þeirri beiðni og veiti umbeðnar upplýsingar. Í þessu sambandi minni ég á að í sumum tilvikum er kveðið á um upplýsingaskyldu heilbrigðisstofnana í lögum, sbr. t.d. 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 41/2007. Dæmi um þess konar tilvik er álit mitt í máli nr. 8820/2016.

IV

Athuganir mínar á þessum málum urðu mér tilefni fundar með landlækni 17. október 2016 þar sem rætt var bæði almennt um þessi mál og þau einstöku mál sem voru til til meðferðar hjá mér. Í framhaldi af þessum fundi sendi landlæknir mér minnisblað, dags. 19. október 2016. Ég vík að minnisblaðinu í áliti mínu í máli nr. 8715/2015 en ég tel með hliðsjón af tilefni þessa bréfs rétt að taka minnisblaðið hér upp. Minnisblaðið er svohljóðandi:

„Embætti landlæknis berast oft erindi þar sem yfirmenn heilbrigðisstofnana vilja að embættið taki afstöðu til ýmissa vandamála sem upp hafa komið varðandi einstaka starfsmenn. Hér getur verið um að ræða grun um misnotkun lyfja eða önnur vítaverð athæfi en einnig ósemju á milli einstakra starfsmanna, sérstaklega á milli lækna. Einnig getur hér verið um að ræða hrein óvísvitandi mistök einstakra starfsmanna.

Landlæknir vill því taka fram að þegar um er að ræða grun um lyfjamisnotkun eða annað vítavert athæfi í starfi er nauðsynlegt að stjórnendur viðkomandi heilbrigðisstofnunar hafi samtal við viðkomandi starfsmann og myndi sér sjálfir skoðun um eðli málsins. Aðgerðir stjórnenda taka síðan mið af þessu samtali/samtölum. Það er mikilvægt að leggja áherslu á það að viðkomandi stjórnendur bera höfuðábyrgð á því að viðeigandi aðgerðir séu viðhafðar. Ein af slíkum aðgerðum getur verið að tilkynna erindið til Embættis landlæknis og ber stjórnendum þá að tilkynna þá ákvörðun sína viðkomandi starfsmanni.

Ef um er að ræða ósemju milli lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna innan heilbrigðisstofnunar, lítur landlæknir svo á að það sé alfarið hlutverk og ábyrgð viðkomandi stjórnenda að leysa slík mál. Þessi mál geta vissulega haft alvarlegar afleiðingar fyrir gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga en eftirlitsmál landlæknis mun samt í slíkum málum beinast að ofangreindu hlutverki og ábyrgð stjórnenda. Það er m.ö.o. ekki hlutverk landlæknis að leysa deilur og ósamkomulag heilbrigðisstarfsmanna innan heilbrigðisstofnana.

Mistök einstakra starfsmanna heilbrigðisstofnana eru því miður ekki óalgeng. Sem betur fer hafa þau oftast engar eða litlar afleiðingar í för með sér fyrir notendur þjónustunnar en fyrir kemur að afleiðingarnar geta leitt til varanlegs tjóns fyrir sjúklinga eða jafnvel dauðsfalls. Þetta er ástæðan fyrir því að heilbrigðiskerfið reynir að þróa með sér svokallaða öryggismenningu. Einn af hornsteinum slíkrar öryggismenningar er að nota mistök til þess að af þeim sé lært en ekki til þess að finna sökudólga. M.ö.o. er spurt: Hvað gerðist en ekki Hver gerði. Mörg mistök innan heilbrigðiskerfisins gerast vegna skorts á skipulagi og óljósum verkferlum ásamt ónógri kunnáttu og ófullnægjandi samskiptum. Það er ábyrgð stjórnenda viðkomadi starfsemi að þessir hlutir séu í lagi. Tilhneigingin innan heilbrigðiskerfisins og hjá eftirlitsstofnunum er því að beita ekki refsiaðgerðum í svona tilfellum heldur draga lærdóm af því sem gerðist og nota hann til þess að fyrirbyggja endurtekningu. ?

Ég tek það fram að þau almennu sjónarmið sem koma fram af hálfu landlæknis í minnisblaðinu um meðferð og undirbúning mála, og þá einnig í þeim tilvikum þegar til greina kemur að tilkynna landlækni um meint frávik í starfsháttum heilbrigðisstarfsmanna vegna eftirlits hans, eru í samræmi við þær reglur stjórnsýsluréttar sem ég hef lýst hér að framan og vandaða stjórnsýsluhætti.

V

Í hluta þeirra mála sem eru tilefni þessa bréfs hefur aðstaðan verið sú að eftir að þau atvik sem urðu tilefni t.d. áminningar á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og/eða niðurstöðu landlæknis í kjölfar tilkynningar í eftirlitsmáli hefur viðkomandi einstaklingur látið af starfi hjá heilbrigðisstofnuninni. Ég hef í þessum málum veitt því athygli að af hálfu stjórnenda heilbrigðisstofnana hefur komið fram það viðhorf að þar sem viðkomandi sé ekki lengur í starfssambandi við stofnunina sé ekki tilefni til þess að stofnunin endurskoði, t.d. fyrri ákvörðun um áminningu, og jafnvel þótt landlæknir hafi ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við þá starfshætti eða háttsemi sem var tilefni tilkynningar og einnig var byggt á við áminningu stofnunarinnar. Þá eru þess einnig dæmi að sama viðhorf hafi komið fram af hálfu stjórnenda heilbrigðistofnana eftir að málið hefur komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis og athugasemdir verið gerðar við undirbúning og grundvöll áminningar einstaklings sem þá er orðinn fyrrverandi starfsmaður viðkomandi heilbrigðistofnunar.

Eins og ég tek fram í áliti mínu í máli nr. 8820/2016 kann heilbrigðistarfsmaður, sem hefur lokið störfum hjá viðkomandi stofnun, eftir sem áður að hafa lögvarða hagsmuni af umfjöllun hennar um mál sitt. Ástæða þess kann m.a. að vera sú að það mál sem er til umfjöllunar getur haft í för með sér veruleg áhrif á möguleika viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns til að sækjast eftir öðrum störfum innan heilbrigðiskerfisins og faglega stöðu hans. Ég tel því að þegar aðstæður eru með þeim hætti hafi hlutaðeigandi starfsmaður verulega og brýna hagsmuni af því að fá niðurstöðu um það hvort leyst hafi verið úr máli hans í samræmi við lög.

VI

Í upphafi bréfsins tók ég fram að tilefni þess væru mál sem ég hefði haft til athugunar að undanförnu þar sem reynir á stöðu heilbrigðisstarfsmanna þegar opinber heilbrigðisstofnun fer þá leið að tilkynna þá til landlæknis eða annars eftirlitsaðila. Samhliða þessu bréfi hef ég, sem fyrr greinir, lokið umfjöllun minni um tvö mál með álitum í málum nr. 8715/2015 og 8820/2016 en þau eru dæmi um þær aðstæður sem eru gerðar að umtalsefni hér. Afrit álitanna fylgir, sem fyrr greinir, bréfi þessu til ráðuneytisins.

Ástæða þess að ég geri velferðarráðuneytinu grein fyrir framangreindum sjónarmiðum er, eins og áður sagði, m.a. sú að ráðuneytið geti í samræmi við yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk sitt á málefnasviðinu vakið athygli stjórnenda heilbrigðisstofnana ríkisins á tilteknum þáttum þessara mála sem ég tel að huga þurfi betur að í starfsemi þeirra og gerð er grein fyrir í bréfinu og álitunum tveimur.

Að lokum tek ég fram að í máli nr. 8820/2016 hefur í afriti álitsins til ráðuneytisins verið tekin út lýsing á nánari atvikum þess máls á viðeigandi stöðum. Er það gert með tilliti til mögulegra hagsmuna viðkomandi sjúklings og aðstandenda hans.

Þess er óskað að velferðarráðuneytið upplýsi mig um fyrir 15. október nk. hvernig það hefur brugðist við þessu bréfi svo ég geti gert grein fyrir því í ársskýrslu minni til Alþingis fyrir árið 2017.