Málsmeðferð stjórnvalda. Rafræn skilríki og leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

(Mál nr. 8248/2014)

A kvartaði yfir því að rafræna undirskrift þyrfti til að samþykkja leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 3. desember 2014. Þar benti hann á að af lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og lögskýringargögnum að baki þeim yrði dregin sú ályktun að löggjafinn hafi ætlast til þess að málsmeðferð við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána yrði rafræn. Ríkisskattstjóra væri í þeim fengin heimild til að ákveða form umsókna og ráðherra til að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laganna. Einnig væri gert ráð fyrir rafrænni málsmeðferð í stjórnsýslulögum. Í þeim og lögum um rafrænar undirskriftir væri kveðið nánar á um kröfur til rafrænnar málsmeðferðar og undirskrifta.

Með vísan til þess hvaða umgjörð löggjafinn hefði búið til fyrir meðferð þessara mála taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ráðherra hefði verið óheimilt að útfæra hina rafrænu málsmeðferð nánar í reglugerð og setja ákvæði um rafræna undirritun með rafrænum skilríkjum. Hann benti hins vegar á að samkvæmt reglugerðinni væri heimilt að víkja frá kröfum um samþykki með rafrænni undirskrift í tilteknum tilvikum. Ef viðkomandi teldi að ekki væri tekið nægjanlegt tillit til þeirra tilvika sem gætu risið í framkvæmd væri hægt að beina ábendingu þess efnis til fjármála- og efnahagsráðuneytisins eða ríkisskattstjóra.