Opinberir starfsmenn. Launagreiðslur.

(Mál nr. 7788/2013)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að hún hefði ekki fengið launauppbót greidda 1. febrúar 2013 þrátt fyrir að hafa verið á launaskrá hjá X á þeim tíma. A hafði verið ráðin tímabundið til X og hafði verið tilkynnt 28. desember 2012 að ekki yrði af áframhaldinu ráðningu hennar. Lét hún af störfum þá þegar en fékk greidd laun út febrúarmánuð 2013.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 24. október 2014. Í bréfinu benti hann á að af gögnum málsins og skýringum X til hans yrði ráðið að skilyrði þess að starfsmaður fengi launauppbót væru ekki aðeins að viðkomandi hefði verið formlega við störf 1. október 2012 og 1. febrúar 2013, eins A hafi verið, heldur réðust þau einnig af grundvelli eða ástæðum uppbótarinnar. Með launauppbótinni væri bæði verið að verðlauna fyrir vel unnin störf í fortíðinni og veita fatastyrk til framtíðarinnar. Þá væri gert ráð fyrir að viðkomandi yrði áfram við störf hjá X. Taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat X að þessar forsendur hefðu ekki átt við um A og þá ákvörðun X að greiða henni ekki launauppbót í febrúarmánuði 2013. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita fjármála- og efnahagsráðherra bréf þar sem ábendingum er lutu að framkvæmd og grundvelli launabótar X var komið á framfæri. Í bréfinu rakti umboðsmaður skýringar X í tengslum við launauppbót starfsmanna X og benti á að tilhögun hennar vekti upp ýmsar spurningar. Meðal þeirra væru álitaefni um lögmæti slíkra greiðslna, hvort framkvæmd X um það hverjir fengju greiðslurnar væri nægjanlega fyrirsjáanleg og skýr gagnvart starfsmönnum X og hvernig þær horfðu við út frá sjónarmiðum og reglum um jafnræði. Óskaði hann eftir því að ráðuneytið upplýsti hann hvort þessar ábendingar hans hefðu orðið tilefni til einhverra viðbragða af þess hálfu. Þá óskaði hann jafnframt eftir því að í svarinu kæmi fram afstaða ráðuneytisins til þess á hvaða lagagrundvelli X væri heimilt að greiða starfsmönnum umrædda launauppbót árlega.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var málið tekið til meðferðar hjá kjara- og mannauðssýslu ríkisins í kjölfar bréfs umboðsmanns og var enn til meðferðar 7. júlí 2015.