Póst- og fjarskiptamál. Eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar.

(Mál nr. 7256/2012)

A, lögmaður, kvartaði fyrir hönd B ehf., yfir úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Þar var fjallað um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar er laut að viðskiptaskilmálum og gjaldskrá fyrirtækisins C. Annars vegar voru í kvörtuninni gerðar athugasemdir við að Póst- og fjarskiptastofnun hefði með ákvörðun sinni farið út fyrir þær heimildir sem henni eru fengnar með 16. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við orðalag og framsetningu umfjöllunar stofnunarinnar um A.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Þar kom fram að af úrskurði úrskurðarnefndarinnar fengi hann ráðið að nefndin hafi lagt það til grundvallar niðurstöðunni að sjónarmið um samkeppni á póstsöfnunarmarkaði hefðu ekki haft beina þýðingu fyrir úrlausn málsins. Niðurstaðan hafi einkum byggst á öðrum tilgreindum sjónarmiðum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig úrskurðarnefndin leysti úr því atriði í kæru B að ákvörðunin hefði verið reist á samkeppnissjónarmiðum. Umboðsmaður tók jafnframt fram að teldi B sig hafa orðið fyrir tjóni yrði það að vera verkefni dómstóla að að skera úr slíkum ágreiningi.

Í tilefni af málinu ritaði umboðsmaður bréf til úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála. Þar kom fram að hann teldi ekki hægt að draga aðra ályktun af skýringum nefndarinnar en að hún hafi lagt til grundvallar í málinu að umrædd ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hafi falið í sér bindandi niðurstöðu um efni viðskiptaskilmála og gjaldskrár fyrirtækisins B og það því ekki haft svigrúm til að bregðast við ákvörðuninni. Í ljósi þess að ekki yrði séð að stofnunin hefði slíka heimild í lögum féllst umboðsmaður ekki á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um lagagrundvöll og efni ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar í málinu hafi verið í samræmi við 16. gr. laga nr. 19/2002. Þar sem félaginu A hafi ekki verið tryggt ákvörðunarvald innan marka laga um þessi atriði sem reyndi á í málinu taldi umboðsmaður ekki grundvöll til að setja fram bein tilmæli til úrskurðarnefndarinnar um að nefndin tæki málið til meðferðar að nýju heldur yrði það að vera ákvörðun nefndarinnar.

Umboðsmaður ritaði jafnframt bréf til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem hann benti á að þegar stjórnvöld setja fram niðurstöður sínar og ályktanir í bréfum eða ákvörðunum til borgaranna beri þeim að gæta að því að framsetning þeirra sé hófleg og sanngjörn og ályktanir og upplýsingar settar fram af yfirvegun í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Taldi umboðsmaður að á hafi skort að vönduðum stjórnsýsluháttum hafi verið fylgt í umfjöllun stofnunarinnar um málefni fyrirtækisins A. Kom hann þeirri ábendingu á framfæri við stofnunina að gæta þess framvegis betur í sambærilegum málum að fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum.

Að lokum óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá innanríkisráðherra um það hvernig gætt hefði verið að því skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, að formaður og varaformaður úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara.

Í bréfum innanríkisráðuneytisins til mín, dags. 30. maí 2014 og 30. september s.á., kemur m.a. fram að ráðuneytið hafi talið að þeir nefndarmenn, sem um ræddi, hefðu allir uppfyllt umrætt hæfisskilyrði. Þá var athygli mín vakin á því að fyrirtækið A hefði lagt fram stefnu vegna málsins á hendur Póst- og fjarskiptastofnun og fyrirtækinu B. Eftir að hafa kynnt mér stefnuna taldi ég að í málinu kynni að reyna að þau atriði fyrir dómstólum sem annars myndi reyna á við athugun mína á málinu. Í ljósi þeirrar verkaskiptingu sem byggt er á í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, milli umboðsmanns og dómstóla taldi ég því ekki rétt að taka málið til athugunar að svo stöddu og lauk því með bréfi, dags. 16. febrúar 2015, sbr. einnig umfjöllun í skýrslu þessari í kafla I.4.

Í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstamála frá 21. apríl 2014 í máli nr. 4/2014 var fjallað um kæru C á ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um hækkun á gjaldskrá kæranda á bréfum innan einkaréttar. Í málinu var deilt um valdheimildir Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt 16. gr. laga um póstþjónustu og þá ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja ekki að öllu leyti hækkunarbeiðni C á gjaldskrá bréfa innan einkaréttar. Í kafla IV.3 segir í niðurstöðu nefndarinnar:

„Úrskurður úrskurðarnefndar nr. 5/2012 vegna ákvörðunar [Póst- og fjarskiptastofnunar] nr. 16/2012 laut m.a. að gjaldskrá kæranda innan einkaréttar. Þar túlkaði nefndin ákvæði 16. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu á þá leið að valdheimildir [Póst- og fjarskiptastofnunar] næðu til þess að mæla fyrir um þær nánar tilgreindu breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar sem gera þurfti til þess að gjaldskráin geti hlotið samþykki stofnunarinnar í samræmi við ákvæðið.

Með bréfi dags. 14. febrúar 2014 ákvað umboðsmaður Alþingis að koma ábendingum á framfæri við úrskurðarnefnd í kjölfar ákvörðunar [Póst- og fjarskiptastofnunar] nr. 16/2012 og úrskurðar nefndarinnar nr. 5/2012. Hvað úrskurðarnefnd varðar lutu ábendingar umboðsmanns Alþingis fyrst og fremst að túlkun á valdheimildum [stofnunarinnar] á grundvelli 16. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu sem umboðsmaður óskaði eftir að úrskurðarnefndin hefði í huga eftirleiðis í úrskurðum sínum.“

Í úrskurðinum er bréf umboðsmanns nánar rakið og í kafla IV.4 segir síðan:

„Að mati úrskurðarnefndar og að teknu tilliti til ábendinga umboðsmanns Alþingis um túlkun á 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, standa valdheimildir [Póst- og fjarskipastofnunar] samkvæmt ákvæðinu aðeins til þess að samþykkja eða hafna gjaldskrá innan einkaréttar sem rekstrarleyfishafi skal gefa út og leggja fyrir [stofnunina] fyrir gildistöku. Á grundvelli lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins ná valdheimildir [Póst- og fjarskiptastofnunar] því ekki til þess að kveða á í ákvörðunarorðum um ákveðin verð og þannig efnislega ákveða nýja gjaldskrá. Hin kærða ákvörðun er því að mati úrskurðarnefndar ekki í samræmi við ákvæði 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu.“

Í úrskurðinum var jafnframt gerð athugasemd við rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og í ljósi framangreindra sjónarmiða var ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar felld úr gildi.