Skattar og gjöld. Greiðslur tryggingagjalds almennra starfsmanna erlendra sendiráða.

(Mál nr. 7630/2013)

A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að almennir starfsmenn erlendra sendiráða hér á landi væru krafðir um greiðslu tryggingagjalds til að njóta þeirra réttinda sem fjármögnuð væru með tekjum af gjaldinu.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. október 2014. Þar kom fram að eins og kvörtun A væri sett fram beindist hún að því fyrirkomulagi sem leiddi m.a. af lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 56/2006, um atvinnuleysistryggingar og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt því gætu þau réttindi sem kveðið væri á um í síðarnefndum lögum eftir atvikum verið miðuð við að greitt hefði verið tryggingagjald af launum þess launþega sem í hlut ætti.

Af þessu tilefni tók umboðsmaður fram að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og það félli því almennt utan við starfssvið hans að fjalla um það hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Þar sem kvörtun A beindist ekki að tilteknum ákvörðunum stjórnvalda þar sem reynt hefði með beinum hætti á lög nr. 113/1990, heldur almennt að því fyrirkomulagi sem þar væri kveðið á um, taldi hann ekki tilefni til að fjalla frekar um þær skýringar sem ráðuneytið hafði fært fram vegna málsins. Umboðsmaður lauk því málinu en ritaði bréf til fjármála- og efnahagsráðherra af þessu tilefni þar sem hann kom á framfæri ábendingu um að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að huga að breytingum á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, eða öðrum lögum til þess að gæta að því að réttindi starfsmanna erlendra sendiráða hér á landi væru sambærileg við réttindi annarra launþega.

Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 7. apríl 2015, kemur fram að ráðherra hafi skipað starfshóp sem ætlað sé að semja frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990 sem muni gera erlendum launagreiðendum unnt að skila tryggingagjaldi hér á landi með skráningu þeirra á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra. Gert sé ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum fyrir 1. ágúst 2015.