Stéttarfélagið A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að Vegagerðin bryti jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins við framkvæmd tiltekins kjarasamnings.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. apríl 2014. Þar tók hann fram að ágreiningur opinberra starfsmanna við stofnanir ríkisins, sem snúi að kjörum samkvæmt kjarasamningi, varði viðfangsefni innan stjórnsýslunnar sem lúti að ýmsu leyti sérstökum reglum fremur en að hinar almennu stjórnsýslureglur eigi þar við. Þar kæmu í fyrsta lagi til sérstök lagaákvæði sem mæli fyrir um skipan kjarasamningsmála og um stöðu og aðkomu stéttarfélaga að þeim málum. Á þessu sviði væri það því ekki svo að stjórnvaldið, hinn opinberi vinnuveitandi, væri alfarið að beita hefðbundnu stjórnsýsluvaldi við gerð kjarasamninga. Settur umboðsmaður minnti í öðru lagi á að lög um umboðsmann Alþingis byggðust á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla væri að ræða og að mál gætu verið þannig vaxin að heppilegra væri að leyst yrði úr þeim fyrir dómstólum. Gert væri ráð fyrir því að tiltekin ágreiningsmál á þessu sviði yrðu til lykta leidd fyrir sérstökum dómstóli, Félagsdómi. Þannig væri gert ráð fyrir því í lögum að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Með vísan til framangreinds lauk settur umboðsmaður umfjöllun sinni um málið.