Skattar og gjöld. Ákvörðun á eftirstöðvum námsfrádráttar. Málshraði. Ákvörðunum um vexti og verðbætur af ofgreiddu skattfé verður skotið til fjármálaráðuneytis.

(Mál nr. 576/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 8. febrúar 1993.

A og B kvörtuðu yfir meðferð skattyfirvalda á umsókn þeirra um, að þeim yrðu ákvarðaðar eftirstöðvar námsfrádráttar. Annars vegar laut kvörtunin að seinagangi skattyfirvalda við afgreiðslu erindis þeirra og hins vegar að vöxtum og verðbótum af ofgreiddu skattfé. Að því er snertir síðarnefnda umkvörtunarefnið tók umboðsmaður fram, að ákvörðunum um það efni væri unnt að skjóta til úrskurðar fjármálaráðuneytisins. Þar sem það hefði ekki verið gert, gæti hann ekki fjallað um þann þátt kvörtunarinnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.

A og B settu fram beiðni um ákvörðun eftirstöðva námsfrádráttar í skattframtali sínu árið 1986 og ítrekuðu beiðnina í skattframtölum árin 1987-1991. Úrlausn skattstjóra lá loks fyrir 27. nóvember 1991 og voru þá 5 ár og 8 mánuðir liðnir frá því, að viðkomandi skattstjóra barst erindi A og B. Ekki komu aðrar skýringar fram á þessum drætti af hálfu skattstjórans en að mikill fjöldi mála hefði verið til meðferðar á sama tíma og að gögn málsins hefðu mislagst í skjalasafni. Umboðsmaður vék að þeim lögmæltu frestum, sem skattstjórum eru settir til afgreiðslu mála samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tók fram, að skattstjórinn hefði ekki tekið ákvörðun í máli A og B fyrr en lögmæltir frestir til þess hefðu verið löngu liðnir. Ekki hefðu komið fram viðhlítandi skýringar á þessum drætti og yrði að átelja meðferð málsins að þessu leyti. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til hlutaðeigandi skattyfirvalda, að gripið yrði til nauðsynlegra úrræða til að koma í veg fyrir, að slíkur dráttur yrði á afgreiðslu máls.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 27. febrúar 1992 leituðu til mín A og B, og kvörtuðu yfir meðhöndlun skattyfirvalda á umsókn þeirra um að þeim yrðu ákvarðaðar eftirstöðvar námsfrádráttar vegna náms, er þau stunduðu á árunum 1981-1984.

Að námi loknu 1984 bjuggu A og B í Reykjavík. Á árinu 1985 fluttu þau í Kópavog. Í skattframtali ársins 1986 óskuðu A og B eftir því, að þeim yrðu ákvarðaðar eftirstöðvar námsfrádráttar. Með bréfi, dags. 26. mars 1986, tilkynnti skattstjórinn í Reykjanesumdæmi, að umsóknin hefði verið send skattstjóranum í Reykjavík, þar sem þau hefðu átt þar lögheimili sitt, þegar náminu lauk. Með skattframtali ársins 1987 óskuðu A og B eftir því, að þeim yrðu ákvarðaðar eftirstöðvar námsfrádráttar. Í umsókninni kemur fram, að þegar námi lauk hafi þau átt lögheimili í Reykjavík og að þeim hafi verið tilkynnt með bréfi skattstjórans í Reykjanesumdæmi 26. mars 1986, að umsóknin hefði verið send skattstjóranum í Reykjavík. Í skattframtali ársins 1988 segir í athugasemdum A og B, að eftirstöðvar námsfrádráttar frá 1985 hafi ekki verið reiknaðar út. Umsókn sína ítrekuðu A og B í skattframtölum 1989 og 1990.

Með bréfi skattstjórans í Reykjavík 27. nóvember 1991 var A og B tilkynnt, að í tilefni af umsókn þeirra frá 28. febrúar 1986 hefði skattstjórinn í Reykjavík kveðið upp úrskurð um eftirstöðvar ónýtts námsfrádráttar. Samkvæmt úrskurðinum var þeim A og B ákveðin tiltekin fjárhæð, sem skyldi skipt jafnt á fimm ár. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram, að endurákvörðun vegna ofangreindra gjaldaára sé í höndum skattstjóra Reykjanesumdæmis og að honum hafi verið sent málið til afgreiðslu. Í bréfi skattstjórans í Reykjanesumdæmi 20. janúar 1992 til A og B segir, að álagning opinberra gjalda gjaldaárin 1986-1990 hafi verið tekin til "endurúrskurðar", en að gjaldaárið 1985 verði leiðrétt á skattstofu Reykjavíkur, þar sem þar hafi verið lagt á þau. Ennfremur kemur fram, að erindi varðandi vexti og verðbætur vegna eftirstöðva námsfrádráttar hafi verið sent bæjarskrifstofum Kópavogs og bæjarfógetanum í Kópavogi.

Í kvörtun A og B, sem þau báru fram í bréfi 27. febrúar 1992, segir meðal annars:

"Af því að við fluttum til Kópavogs sendi skattstjóri Reykjanes umsóknina til Reykjavíkur þar sem það var þeirra að sjá um úrskurðinn.

Hjá Skattstjóra Reykjavíkur lá síðan þessi umsókn í mörg ár án þess að koma til afgreiðslu þrátt fyrir ítrekanir. Það var ekki fyrr en gengið var í málið persónulega og hver sem kom nálægt málinu fékk heimsókn af okkur þar sem ýtt var á eftir málinu, þar til að það gekk í gegn.

En málinu var ekki þar með lokið. Við þurftum að fara sér ferðir til að fá vexti og verðbætur komu aðeins árin 1989 til 1990."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 30. mars 1992 óskaði ég eftir því, að skattstjórinn í Reykjavík og skattstjórinn í Reykjanesumdæmi létu mér í té gögn málsins, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Með bréfi skattstjórans í Reykjanesumdæmi 7. apríl 1992 bárust mér gögn um skattframtöl A og B. Með bréfi skattstjórans í Reykjavík 21. apríl 1992 var mér tilkynnt, að umbeðin gögn væru í vörslu skattstjórans í Hafnarfirði.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1992, tilkynnti ég A og B, að ég liti svo á, að kvörtun þeirra beindist annars vegar að meðferð skattyfirvalda á beiðnum þeirra um ákvörðun eftirstöðva námsfrádráttar til þeirra gjaldaárin 1985 til 1990. Hins vegar lyti kvörtun þeirra að því, að aðeins hefðu fengist greiddar verðbætur og vextir af eftirstöðvum námsfrádráttar vegna gjaldaáranna 1989 og 1990. Í bréfi mínu tók ég fram, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri eigi unnt að leggja kvörtun fyrir umboðsmann Alþingis, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það hefði ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Taldi ég, að ákvörðunum um ofangreinda greiðslu vaxta og verðbóta væri unnt að skjóta til úrskurðar fjármálaráðuneytisins. Þar sem það hefði ekki verið gert, gæti ég ekki að svo stöddu fjallað um þann þátt kvörtunarinnar, sem að greiðslunni laut. Að því er tók til þess dráttar, er varð á afgreiðslu málsins, tilkynnti ég þeim A og B, að ég hefði ritað skattstjóranum í Reykjavík bréf sama dag.

Í bréfi mínu til skattstjórans í Reykjavík tók ég fram, að skattstjórinn í Reykjanesumdæmi hefði sent umsókn A og B til afgreiðslu með bréfi 26. mars 1986 og hefði úrskurður verið kveðinn upp 27. nóvember 1991. Óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að skattstjórinn í Reykjavík skýrði ástæður þess, að svo langan tíma hefði tekið að afgreiða umsókn þeirra A og B. Skýringar skattstjórans í Reykjavík bárust mér með bréfi hans 22. september 1992. Þar segir:

"Á umræddum árum hefur embætti skattstjórans í Reykjavík haft til meðferðar skattskýrslur, sem skipta hundruðum þúsunda. Jafnframt hafa tugir þúsunda gjaldenda fengið skriflegar úrlausnir í sínum málum.

Dráttur á afgreiðslu máls þessa verður því eigi skýrður á annan hátt, en að gögnin hafi mislagst í skjalasafni embættisins."

Með bréfum, dags. 5. október og 4. desember 1992, gaf ég A og B kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af skýringum skattstjórans í Reykjavík. Athugasemdir B bárust mér 16. desember 1992 og A 21. janúar 1993.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Niðurstaða álits míns, dags. 8. febrúar 1993, var svohljóðandi:

"Frá því að skattstjóranum í Reykjavík var send umsókn A og B í mars 1986 og þar til skattstjórinn í Reykjavík felldi úrskurð sinn 27. nóvember 1991, liðu fimm ár og átta mánuðir. Ekki hafa aðrar skýringar komið fram á drætti málsins en að mikill fjöldi mála hafi verið til meðferðar hjá skattstjóranum í Reykjavík á sama tíma og að gögn málsins "... hafi mislagst í skjalasafni embættisins".

Í lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt er að finna fyrirmæli um fresti, sem skattstjórum eru settir til afgreiðslu mála. Þannig er mælt fyrir í 1. mgr. 98. gr. laganna, að álagningu skattstjóra á skattaðila skuli lokið eigi síðar en 30. júní ár hvert. Ennfremur er að finna fyrirmæli í 99. gr. laganna um fresti skattstjóra til afgreiðslu á málum, sem til þeirra er skotið. Af hálfu embættis skattstjórans í Reykjavík var ekki tekin ákvörðun í umræddu máli fyrr en lögmæltir frestir til þess voru löngu liðnir. Hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á þeim drætti og verður að átelja meðferð málsins að þessu leyti. Það eru tilmæli mín til hlutaðeigandi skattyfirvalda, að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkur dráttur verði á afgreiðslu mála."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Í framhaldi af áliti mínu, barst mér afrit af bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 30. mars 1993, til ríkisbókhalds, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði ákveðið að fallast á röksemdir A og B. Hefði ráðuneytið því ákveðið að fela ríkisbókhaldi, í samræmi við 17. gr. laga nr. 49/1987, að framreikna námsfrádrátt A og B með lánskjaravísitölu og almennum sparisjóðsvöxtum. Yrði þeim síðan greiddur mismunur samtölu vaxta og verðbóta sem ríkisbókhald reiknaði út og þeirra vaxta og verðbóta, sem ríkissjóður hefði þegar greitt.