Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Verðtryggð námslán og leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

(Mál nr. 8254/2014)

A kvartaði yfir því að verðtryggð námslán skyldu ekki vera lækkuð líkt og átti sér stað við leiðréttingu fasteignalána og vísaði m.a. í jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 máli sínu til stuðnings.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 3. desember 2014. Þar benti hann á að í lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kæmi fram að markmið þeirra væri að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Í athugasemdum að baki frumvarpi því er varð að lögunum kæmi m.a. fram að það væri hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Tæki það til þess hluta er sneri að leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána. Þau lán sem sköpuðu rétt til leiðréttingar væru verðtryggð húsnæðislán sem mynduðu stofn til vaxtabóta og væru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Umboðsmaður taldi að fyrir lægi sú afstaða löggjafans að ná skyldi fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána með þeim leiðum sem fram kæmu í lögum nr. 35/2014 og reglum settum á grundvelli þeirra. Í því sambandi minnti umboðsmaður á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Almennt væri það því ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu í stjórnarskrá. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.