Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 9258/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem staðfest var synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að samantekt um síma- og tölvumál fyrir ráðherra. A taldi m.a. að rannsókn nefndarinnar hefði verið ábótavant þar sem nefndin hefði ekki haft samantektina undir höndum þegar hún úrskurðaði í málinu.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að nefndin taldi sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að samantektin hefði verið gerð fyrir fund ráðherra og væri þar með undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Umboðsmaður taldi að af þeim gögnum sem nefndin hafði undir höndum þegar hún úrskurðaði í málinu yrði ekki séð að þar hefði komið skýrlega fram að samantektin hefði verið gerð fyrir fund ríkisstjórnar eða ráðherra. Brýnt hefði verið að fá nánari upplýsingar eða skýringar frá ráðuneytinu um þetta atriði og fá skýra afstöðu til þess hvort svo hefði verið og þá eftir atvikum hvaða fund. Slíkar upplýsingar hefðu verið nauðsynlegar til þess að nefndin gæti tekið efnislega rétta ákvörðun í málinu. Þá hefði nefndinni verið fært að óska eftir afriti samantektarinnar. Niðurstaða umboðsmanns var að málsmeðferð nefndarinnar í máli A hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og haga þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að nefndin tæki mið af þeim sjónarmiðum í framtíðar störfum sínum.

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 20. mars 2017 leitaði A til mín og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. janúar 2017 í máli nr. 670/2017. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 16. september 2016, um að synja honum um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem þáverandi forsætisráðherra hafði látið taka saman og vísað var til í viðtölum við ráðherrann í fjölmiðlum.

Synjun úrskurðarnefndarinnar byggði á því að umrædd samantekt væri gagn sem undanþegið væri upplýsingarétti almennings. Nánar tiltekið byggði nefndin á því að hún hefði ekki forsendur til að draga í efa að samantektin félli undir undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram kemur að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. A telur að rannsókn nefndarinnar hafi verið ábótavant vegna þess að nefndin hafði ekki umrædda samantekt undir höndum þegar hún kvað upp úrskurð sinn. Hann telur ekki ólíklegt að í samantektinni komi fram af hvaða tilefni hún hafi verið tekin saman og hvort það tilefni hafi falið í sér slíkan fund sem geri samantektina undanþegna upplýsingarétti almennings.

Með hliðsjón af framangreindu lýtur athugun mín að því hvort málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málinu hafi verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 11. ágúst 2017.

II Málavextir

Með tölvubréfi til forsætisráðuneytisins, dags. 13. september 2016, óskaði A eftir aðgangi að samantekt sem þáverandi forsætisráðherra lét taka saman um síma og tölvumál og vísað var til í viðtali við hann í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis 12. september s.á. Í tölvubréfinu var vitnað til orða þáverandi forsætisráðherra þar sem sagði m.a.: „Ég lét gera svona samantekt fyrir okkur [ráðherrana] um öryggismálin.“

Beiðninni var synjað með tölvubréfi forsætisráðuneytisins til A, dags. 16. september 2016, þar sem sagði m.a.

„Gögn ríkisstjórnar, sem og gögn er varða öryggi ríkisins, eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012, sbr. 1. tölul. 6. gr. og 1. tölul. 10. gr. laganna. Gögn er varða síma- og tölvuöryggismál stjórnvalda falla þar m.a. undir.“

Síðar sama dag óskaði A með tölvubréfi eftir því við ráðuneytið að fá upplýsingar um hvaða fund ríkisstjórnar umrædd gögn hefðu verið tekin saman fyrir og vísaði til dagskrár slíkra funda á vef ráðuneytisins. Hann tók fram að hefði samantektin ekki verið gerð fyrir slíkan fund væri ekki að sjá að 6. gr. upplýsingalaga takmarkaði aðgang að gögnunum. Í svari forsætisráðuneytisins sama dag var eftirfarandi m.a. tekið fram: „Til nánari skýringar þá eru gögn ríkisstjórnar undanþegin upplýsingarétti án tillits til efnis þeirra, sbr. áður tilvísaða 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga.“ Í framhaldinu spurði A hvort honum bæri að líta á svar ráðuneytisins sem rökstuðning fyrir synjun á aðgangi að samantektinni. Í svari ráðuneytisins samdægurs var tekið fram að dagskrár ríkisstjórnarfunda teldust með gögnum ríkisstjórnar og um birtingu dagskrármála ríkisstjórnar gilti 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.

A kærði synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um að afhenda samantektina hinn 22. september 2016 til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í umsögn forsætisráðuneytisins, dags. 17. október s.á., af þessu tilefni var vísað til ákvörðunar ráðuneytisins um að synja beiðni um aðgang að samantektinni „sem [hefði verið] tekin [...] saman fyrir ríkisstjórn“. Síðan sagði m.a. eftirfarandi:

„Eins og fram kom í svari ráðuneytisins við upplýsingabeiðni kæranda eru gögn sem tekin eru saman fyrir fundi ríkisstjórna undanþegin upplýsingarétti almennings skv. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, óháð efni þeirra. Í því sambandi bendir ráðuneytið einnig á að stjórnvöld eru ekki skyldug til að taka afstöðu til aukins aðgangs, sbr. 11. gr. sömu laga, þegar um slík gögn er að ræða.

Þar sem upplýsingabeiðnin lýtur skýrlega að skjali í vörslum stjórnvalda sem undanþegið er upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum óháð efni þess, verður ekki séð að það geti haft þýðingu við úrlausn úrskurðarnefndarinnar í málinu að nefndin hafi áður fengið aðgang að því skjali sem um ræðir [...]. Ráðuneytið véfengir þó ekki rétt nefndarinnar til aðgangs, og mun verða við kröfu þar um, komi hún fram.“

A kom athugasemdum við umsögn ráðuneytisins á framfæri með bréfi, dags. 2. nóvember 2016. Þar var m.a. tekið fram að í synjun ráðuneytisins væri vísað til þess að „gögn ríkisstjórnar“ væru undanþegin upplýsingarétti án tillits til efnis þeirra en sú túlkun væri að hans mati röng þar sem 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga kvæði á um gögn sem væru tekin saman fyrir fundi ríkisráðs, ríkistjórnar eða ráðherrafund. Hvergi hefði komið fram að umrædd samantekt hefði verið tekin saman fyrir fund sem talinn væri upp í lagaákvæðinu eða sýnt fram á að samantektin hefði verið lögð fram á slíkum fundi. Hugtakið „gögn ríkisstjórnar“, sem kæmi fram af hálfu ráðuneytisins, væri víðtækara en undanþágan frá upplýsingarétti í 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð í málinu 30. janúar 2017 þar sem synjun forsætisráðuneytisins á að veita aðgang að umræddri samantekt var staðfest. Eftir að hafa gert grein fyrir ákvæði 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og athugasemdum við ákvæðið sagði m.a. svo í forsendum úrskurðarins:

„Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. tölul. 6. gr. að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri, hvort heldur sem það sé á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegar aðstæður. Í skýringum forsætisráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir slíkan fund [og hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að draga þær í efa.“

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég bréf til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 12. apríl 2017. Í bréfinu tók ég fram að eftir að hafa kynnt mér umsögn forsætisráðuneytisins í tilefni af kæru A fengi ég ekki betur séð en að þar væri einungis vísað með almennum hætti til undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga án þess að þar væri sérstaklega tekið fram að umrædd gögn hefðu verið tekin saman fyrir fund af því tagi sem ákvæðið tæki til og eftir atvikum hvort um hefði verið að ræða ríkisstjórnarfund eða fund tveggja eða fleiri ráðherra. Ég óskaði þess að nefndin skýrði nánar hvaða upplýsingar og gögn hefðu legið til grundvallar þeirri ályktun nefndarinnar að umbeðin gögn hefðu verið tekin saman fyrir fund af því sem tagi sem 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tilgreindi. Jafnframt óskaði ég eftir því að fram kæmi hvort nefndin hefði við uppkvaðningu úrskurðarins haft undir höndum það skjal sem A óskaði eftir aðgangi að og ef svo væri ekki hvernig nefndin teldi að rannsókn málsins hefði fullnægt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga miðað við þær málsástæður sem byggt var á í kærunni til nefndarinnar.

Í svari nefndarinnar frá 26. apríl 2017 var tekið fram að nefndin hefði ekki haft umrætt gagn í vörslum sínum við meðferð málsins. Nefndin óskaði jafnan eftir afriti af umbeðnum gögnum um leið og kæra væri kynnt og hefði það verið gert í bréfi til forsætisráðuneytisins í þessu máli. Ráðuneytið hefði þó ekki afhent nefndinni gagnið þar sem það taldi það ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn nefndarinnar en vefengdi ekki rétt hennar til að fá umbeðið gagn. Á fundi úrskurðarnefndarinnar hefði verið rætt um hvort óska ætti eftir afriti af gagninu og fresta meðferð málsins eða ljúka því á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Síðarnefndi kosturinn hefði orðið fyrir valinu á grundvelli eftirfarandi sjónarmiða. Í bréfinu sagði síðan svo:

„Í fyrsta lagi var það mat nefndarinnar að lítill sem enginn vafi léki á því að hið umbeðna gagn hefði verið tekið saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laganna þóttu gefa tilefni til þess að skýra hugtakið ráðherrafund rúmri skýringu [...].

Af hálfu forsætisráðuneytis hafði komið fram að hin umbeðna samantekt hefði verið tekin saman fyrir ráðherrafund í þessari merkingu. Þá var jafnframt litið til þess að í kæru [A] var vísað til þess að þáv. forsætisráðherra hefði lýst tilurð samantektarinnar í útvarpsviðtali:

„Ég lét gera svona samantekt fyrir okkur [ráðherrana] um öryggismálin.“

Tilvitnuð ummæli þóttu styrkja þá fullyrðingu forsætisráðuneytis að samantektin hefði verið lögð fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Litlar líkur voru taldar á því, að mati úrskurðarnefndarinnar, að skoðun nefndarinnar myndi leiða annað í ljós en að samantektin hefði verið lögð fyrir ráðherrafund í ljósi framangreinds. Var þá einnig horft til þess að eðli málsins samkvæmt væri afar ólíklegt að skjalið hefði að geyma upplýsingar um annað en að það hefði verið útbúið fyrir ráðherrafund. Ekki er talið að skjal þurfi að vera auðkennt um að það hafi verið útbúið fyrir fund ráðherra svo það falli undir 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Þá þurfa skjöl ekki að innihalda pólitískar stefnuyfirlýsingar til að þess að falla undir greinina. Loks er ekki gerð sú krafa samkvæmt upplýsingalögum að stjórnvald taki skjal saman svo að undanþágan eigi við.

Enda þótt 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hafi að geyma undantekningu frá meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, þótti verða að fallast á það með forsætisráðuneytinu að heimilt væri að takmarka aðgang almennings [...] að samantektinni óháð því hvers efnis hún væri eða hvernig hún væri auðkennd í skjalasafni ráðuneytisins. Að öllu þessu virtu taldi nefndin að málið væri nægjanlega upplýst til að unnt væri að taka ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Í lok bréfsins var síðan tekið fram að nefndin hefði loks litið til sjónarmiða um málshraða. Næsti fundur nefndarinnar hefði verið eftir sex vikur og málið því frestast um þann tíma ef nefndin hefði óskað eftir umræddu gagni. Það hefði verið mat nefndarinnar, með hliðsjón af því að litlar sem engar líkur væru á því að skoðun samantektarinnar leiddi annað í ljós en að hún hefði verið tekin saman fyrir ráðherrafund, að það væri óforsvaranlegt að fresta meðferð málsins svo lengi með hliðsjón af málshraðareglum.

IV Álit umboðsmanns Alþingis

Eins og áður greinir óskaði A eftir aðgangi að samantekt um síma og tölvur sem þáverandi forsætisráðherra lét samkvæmt frásögn hans taka saman fyrir ráðherra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti synjun forsætisráðuneytisins á beiðninni á þeim grundvelli að nefndin hefði ekki forsendur til að draga í efa að samantektin hefði verið tekin saman fyrir fund sem félli undir undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Nefndin hafði aftur á móti ekki umrædda samantekt undir höndum. Af skýringum nefndarinnar til mín verður ráðið að nefndin hafi ekki talið þörf á því að afla samantektarinnar vegna þess að ráða mætti af öðrum gögnum málsins að hún hefði verið tekin saman fyrir ráðherrafund og ólíklegt væri að samantektin sjálf bæri annað með sér. Athugun mín á málinu hefur, sem fyrr greinir, lotið að því hvort rannsókn nefndarinnar hafi verið í samræmi við lög.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í athugasemdum við ákvæðið kemur m.a. fram að í rannsóknarreglunni felist að stjórnvaldi beri að sjá til þess að eigin frumkvæði að skilyrðum reglunnar sé fullnægt. Það fari eftir eðli stjórnsýslumáls, svo og réttarheimild þeirri sem verði grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga stjórnvald þurfi sjálft að afla svo að rannsókn máls teljist fullnægjandi. Mál teljist nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hafi verið aflað sem séu nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verði m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið sé og hversu nauðsynlegt það sé að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3293-3294.)

Líkt og áður greinir byggði úrskurður nefndarinnar á undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Við mat á því hvort rannsókn nefndarinnar hafi samrýmst 10. gr. stjórnsýslulaga verður því annars vegar að líta til þess hvaða skilyrði ákvæði 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga hefur að geyma og hins vegar hvaða gögn og upplýsingar nefndin hafði til að taka afstöðu til þess hvort þau skilyrði væru uppfyllt í málinu. Í framangreindu ákvæði upplýsingalaga segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum kemur m.a. fram að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin séu fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri hvort heldur er á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. (141. löggj.þ. 2012-2013, þskj. 223.)

Af framangreindu leiðir að undanþága 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga á aðeins við um gögn sem tengjast fundum ríkisráðs, ríkisstjórnar og ráðherra með ákveðnum hætti. Annars vegar geta slík gögn verið „fundargerðir“ eða „minnisgreinar“ slíkra funda og hins vegar gögn „sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi“. Þar sem beiðni A laut að samantekt um tölvur og síma lá fyrir úrskurðarnefndinni að taka afstöðu til þess hvort það gagn hefði verið tekið saman fyrir fund ríkisráðs, ríkisstjórnar eða ráðherra, hvort sem slíkur fundur hefði farið fram við formlegar eða óformlegar aðstæður. Af úrskurði og skýringum nefndarinnar verður ráðið að nefndin hafi byggt á því að samantektin hafi verið tekin saman fyrir fund ráðherra.

Kemur þá til skoðunar hvaða gögn og upplýsingar úrskurðarnefndin hafði um það hvort umrædd samantekt hefði verið tekin saman fyrir fund ráðherra en eins og áður segir hafði nefndin samantektina ekki undir höndum. Af þeim gögnum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur afhent mér verður ráðið að nefndin hafi við meðferð málsins haft afrit af tölvubréfasamskiptum A og forsætisráðuneytisins, umsögn ráðuneytisins auk kæru og andmælabréf A til nefndarinnar. Samkvæmt fyrrnefndum tölvubréfum forsætisráðuneytisins til A var samantektin hvað varðar 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga aðeins tilgreind sem „gögn ríkisstjórnar“. Hvergi í þeim tölvubréfum ráðuneytisins sem ég hef undir höndum kemur skýrlega fram að umrædd samantekt hafi verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða ríkisstjórnar heldur er þannig aðeins vísað til þess með almennum hætti að „gögn ríkisstjórnar“ séu undanþegin upplýsingarétti almennings. Þegar A óskaði eftir upplýsingum um fyrir hvaða fund ríkisstjórnar gagnið hefði verið tekið saman fékk hann það svar að dagskrár ríkisstjórnarfunda teldust með gögnum ríkisstjórnar.

Í umsögn forsætisráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kom annars vegar fram að umrætt gagn hefði verið „tekið saman fyrir ríkisstjórn“ og hins vegar var vísað til svars ráðuneytisins til A um að gögn sem tekin væru saman fyrir fundi ríkisstjórnar væru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga óháð efni þeirra. Í fyrri tilvísuninni til gagnsins kemur þannig aðeins fram að það hafi verið tekið saman „fyrir ríkisstjórn“ en ekki fyrir fund ríkisstjórnar eða ráðherra. Síðari tilvísunin var ekki til samantektarinnar sem slíkrar heldur er þar aðeins vísað með almennum hætti til undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þar kemur ekki skýrlega fram að umrædd samantekt hafi verið tekin saman fyrir fund ríkisstjórnar eða ráðherra, hvað þá nánar tiltekinn fund. Í þessu sambandi verður einnig að líta til þess að ráðuneytið vísar á þessum stað í umsögninni til fyrri svara sinna til A. Eins og að ofan greinir kom hvergi fram í tölvubréfum ráðuneytisins til A að samantektin hefði verið tekin saman fyrir fund ríkistjórnar eða ráðherra heldur aðeins vísað til „gagna ríkisstjórnar“ með almennum hætti.

Í skýringum úrskurðarnefndar um upplýsingamál til mín er einnig byggt á því að í kæru A hafi verið vísað til lýsingar þáverandi forsætisráðherra á tilurð samantektarinnar í útvarpsviðtali þar sem sagði: „Ég lét gera svona samantekt fyrir okkur [ráðherrana] um öryggismálin.“ Af tilvitnuðum orðum þáverandi ráðherra verður ekki ráðið hvort samantektin hafi verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða lögð fram á slíkum fundi, hvort sem hann var við formlegar eða óformlegar aðstæður, heldur er aðeins tekið fram að gagnið hafi verið tekið saman fyrir ráðherra.

Með vísan til framangreinds verður ekki séð að í tölvubréfum forsætisráðuneytisins til A, umsögn ráðuneytisins til nefndarinnar eða tilvitnuðum orðum þáverandi ráðherra hafi skýrlega komið fram að samantektin hafi verið tekin saman fyrir fund ríkisstjórnar eða ráðherra, eins og úrskurðarnefndin byggði á í úrskurði sínum. Í því sambandi árétta ég að það eitt að gagn hafi verið tekið saman fyrir ráðherra leiðir ekki til þess að undanþága 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eigi við. Ákvæðið áskilur að gagn hafi nánar tiltekin tengsl við þá fundi sem tilgreindir eru í því. Þótt ráðuneytið hafi vísað til funda ríkisstjórna með almennum hætti í umsögninni og „gagna ríkisstjórnar“ í tölvubréfasamskiptum við A, sem kann að hafa verið vísun til gagna sem hafa verið tekin saman fyrir fund ríkisstjórnar, gat úrskurðarnefndin ekki gengið út frá því að samantektin hefði verið tekin saman fyrir slíkan fund. Eins og orðalagi umsagnarinnar og tölvubréfa ráðuneytisins var háttað var ekki ljóst hvort það væri afstaða ráðuneytisins að gögn sem væru tekin saman fyrir ráðherra eða ríkisstjórn væru þar með undanþegin upplýsingarétti almennings óháð því hvort þau hefðu verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða ríkisstjórnar. Bæði í kæru og andmælabréfi sínu til nefndarinnar byggði A sérstaklega á því að ráðuneytið túlkaði undanþágu 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga með of víðtækum hætti miðað við orðalag og eðli lagaákvæðisins. Í því ljósi var brýnt fyrir nefndina að fá nánari upplýsingar eða skýringar frá ráðuneytinu um þetta atriði og fá skýra afstöðu til þess hvort umrædd samantekt hefði verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða ríkisstjórnar og eftir atvikum þá hvaða fund. Eins og undanþága 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er úr garði gerð voru slíkar upplýsingar nauðsynlegar til þess að nefndin gæti tekið efnislega rétta ákvörðun í málinu.

Auk þess að óska eftir nánari upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um það hvort og þá hvaða fund ríkisstjórnar umrætt gagn hefði verið tekið saman fyrir var nefndinni fær sú leið að biðja um afrit hennar. Þótt það ráði ekki úrslitum fyrir niðurstöðu máls hvort gagn hafi verið sérstaklega auðkennt um að það hafi verið útbúið fyrir fund ráðherra eða merkt með slíkum hætti í skjalasafni stjórnvalds er ekki fyrirfram unnt að útiloka að umrædd samantekt hafi verið auðkennd með slíkum hætti eða borið það með sér á annan hátt hvort hún hefði verið tekin saman fyrir fund ráðherra.

Að lokum er í skýringum úrskurðarnefndarinnar tekið fram að horft hafi verið til sjónarmiða um málshraða en fyrir hefði legið að rúmlega sex vikur myndu líða þar til nefndin fundaði næst og hefði málið því tafist um þann tíma hefði verið farin sú leið að óska eftir umræddri samantekt frá ráðuneytinu. Af því tilefni tek ég fram að þótt líta megi til sjónarmiða um málshraða þegar stjórnvald tekur afstöðu til rannsóknar máls verður ekki séð að það að nefndin sjálf hafi kosið að haga fundarhöldum sínum með þessum hætti hafi getað réttlætt það að ekki var aflað frekari upplýsinga eða gagna í ljósi þess hvernig málið lá fyrir nefndinni og horfði við skilyrðum 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Með skírskotun til framangreinds er það álit mitt að úrskurðarnefndin hafi ekki séð til þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en hún úrskurðaði í því. Af því leiðir að rannsókn nefndarinnar var að mínu áliti ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

V Niðurstaða

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég mælist til þess að úrskurðarnefndin taki mál A til nýrrar meðferðar, komi fram ósk þess efnis frá honum, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð er grein fyrir í álitinu. Jafnframt mælist ég til þess að nefndin taki mið af þeim sjónarmiðum í framtíðar störfum sínum.



VI Viðbrögð stjórnvalda



Í bréfi, dags. 14. mars 2018, í tilefni af fyrirspurn um málið, kemur fram að A hafi óskað eftir því með erindi, dags. 17. ágúst 2017, að mál hans yrði tekið til nýrrar meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og nefndin hafi fallist á það. Úrskurðarnefndin hafi í kjölfarið óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum frá forsætisráðuneytinu. Í úrskurði nefndarinnar nr. 712/2017, sem kveðinn hafi verið upp 13. desember 2017, hafi ákvörðun forsætisráðuneytisins um að synja beiðni A um aðgang að samantektinni verið staðfest með vísan til þess að um væri að ræða upplýsingar sem heimilt væri að takmarka aðgang almennings að á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í bréfi nefndarinnar er það áréttað sem fram kemur í bréfaskiptum hennar og umboðsmanns Alþingis í tilefni af máli A að það heyri til algerra undantekninga að úrskurðarnefnd um upplýsingamál telji ekki tilefni til að kalla eftir þeim gögnum sem kærumál lýtur að. Sjónarmiðin sem fram koma í áliti umboðsmanns gagnist nefndinni við mat á því hvenær rétt sé að kalla eftir nánari upplýsingum eða skýringum frá kærða og afritum af umbeðnum gögnum. Nefndin muni fylgja þeim sjónarmiðum.